Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Tass hefði ekki gert það betur.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins á sennilega heimsmet opinberra fréttastofa í lýðræðisríki í þjónkun sinni við ríkisstjórnina í anda pólitískrar rétthugsunar Samfylkingarinnar.

Athyglivert hefur verið að sjá með hvaða hætti þessi arftaki Tass fréttastofu Sovétríkjanna matreiðir fréttir eftir því sem hentar valdhöfum.

Í kvöld fjallaði fréttastofan um málefni Sparisjóðs Keflavíkur og Sp/Kef. Þar var það merkilegasta að mati ríkisfréttastofunnar að fjalla um risnureikning sparisjóðsstjórans og meinta misnotkun hans upp á nokkrar milljónir.  Ekki var fjallað um það hver ber ábyrgðina á 25 milljarða reikningnum sem skattgreiðendur verða að greiða vegna rangra ákvarðana Steingríms J. Sigfússonar eða hvernig á því stóð að Fjármálaeftirlitið veitti Sparisjóðnum undanþágu til starfa í eitt ár þó að staðreyndir lægju fyrir. Af hverju er ekki fjallað um merg málsins. Nei risnureikningar upp á nokkrar milljónir skal það vera.

Mörg dæmi má rekja um galna fréttamennsku RÚV í sambandi við þetta Sp/Kef mál þar sem hlífiskildi er haldið yfir vondri stjórnsýslu, stjórnmálalegri spillingu og röngum ákvörðunum Steingríms J. Sigfússonar. 

Hvað skyldi valda því að fréttamat fréttastjóra RÚV er jafn galið og vilhalt ríkisstjórninni og raun ber vitni?  1. Vanþekking 2. Pólitísk spilling  3. Leti  4. Eitthvað annað þá hvað?

Loks ein rússína sem kemur Sp/Kef málinu ekki við en sýnir á hvaða róli fréttastofa RÚV er, einnig í öðrum gæluverkefnum Samfylkingarinnar.

Fyrir nokkru komu hingað ólöglegir innflytjendur sem sögðust vera börn. Bragi Guðbrandsson fyrrum aðstoðarmaður Jóhönnu Sig og Baldur Kristjánsson erkiklerkur í Þorlákshöfn fóru mikin yfir því að þessi börn skyldu dæmd til fangelsisvistar fyrir að ljúga að réttvísinni.  Fréttastofa RÚV birti ummæli þeirra skilmerkilega og fjallaði mikið um hvað við værum vond við þessi börn. Þegar í ljós kom að þetta voru ekki börn heldur fullorðnir menn að ljúga. Hvað sagði fréttastofan þá: Jú aðalatriðið var gagnrýni á stjórnvöld fyrir það hvað aldursgreiningin tæki langan tíma eins og þeir sem voru að ljúga hefðu ekki vitað það allann tímann. 

það er ekki furða að fréttastofa RÚV skuli þurfa marga tugi fréttamanna til að matreiða pólitísku rétthugsunina.  Þannig var það líka hjá Tass í Sovétríkjunum sálugu og þannig er það hjá kommúnistastjórninni  á Kúbu. 

Gylfi mótmælandi Magnússon, sá sem einu sinni var viðskiptaráðherra og stjórnaði árás á íslenska bankakerfið með góðum árangri í október 2008 sagði að við yrðum Kúba norðursins ef við samþykktum ekki Icesave.  Það var að vísu rangt hjá honum. En  fréttastofa RÚV hefur hins vegar tekið upp svipaða starfshætti í matreiðslu frétta þannig að þær séu þóknanlegar stjórnvöldum.  


Staðreyndir málsins

Steingrími J. Sigfússyni flestramálaráðherra tekst ekki að bulla sig út úr ábyrgð á hruni Sp/Kef. Staðreyndir málsins eru einfaldar og sýna að það er óumflýjanlegt að Steingrímur J. Sigfússon axli ábyrgð og segi af sér sem ráðherra. Staðreyndir Sp/Kef málsins eru þessar:

1. Ársreikningur Sparisjóðs Keflavíkur fyrir árið 2008 var birtur 3.apríli 2009 þar var eigið fé jákvætt um 5.4 milljarða. Ársreikningurinn var gerður eftir að tekið hafði verið fullt tillit ábendinga um niðurfærslu eigna eftir útlánaskoðun FME hjá sparisjóðnum í mars 2009. 

2. Ársreikningurinn fyrir árið 2008 tók tillit til bankahrunsins í október 2008 og álit endurskoðenda var að reikningurinn gæfi "glögga mynd af afkomu Sparisjóðsins á árinu 2008, efnahags 31. desember 2008" í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla

3. Eiginfjárhlutfall var jákvætt um 7.06% en undir 8% lágmarkshlutfalli skv. 84 gr. laga um fjármálafyrirtæki þess vegna þurfti að taka sparisjóðinn í slitameðferð eða reka hann á undanþágu og ákveðið var af Steingrími J.

Þann tíma sem sparisjóðurinn var í gjörgæslu FME og fjármálaráðuneytisins var hagnaði snúið í tap og skattgreiðendur og stofnfjáreigendur töpuðu verulegum fjármunum. 

Skattur á venjulega skattfjölskyldu í landinu er um 400 þúsund vegna þessara mistaka Steingríms. 

Þar sem Steingrímur J. virðist rugla saman staðreyndum og hugarórum í þessu máli þá mun ég rekja betur síðar staðreyndir þessa máls meðan Sparisjóður Keflavíkur var rekinn á undanþágu og nýr sjóður stofnaður Steingrími J til upprifjunar á staðreyndum.

Með aðgerðum sínum í þessu máli, ruglaði Steingrímur fjármálamarkaðnum og dró peninga frá öðrum fjármálastofnunum til Sparisjóðs Keflavíkur allt á ábyrgð og kostnað skattgreiðenda.

Þetta er athyglivert og til umhugsunar að Steingrímur J. tók þá ákvörðun með vini sínum Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra að fella SPRON og Straum fjárfestingabanka á meðan Sparisjóðurinn í Keflavík fékk þessa sérstöku fyrirgreiðslu af hálfu Steingríms J.

Þessi kostnaðarsömu mistök Steingríms J.  verða að hluta til rakin  til  rangrar stefnu hans í málefnum sparisjóða en að öðru leyti til rangrar ákvarðanatöku og vanhæfni ráðherrans.


Hversvegna?

Fyrst gott ástand þorskstofnsins er Hafrannsóknarstofnun og kvótakerfinu að þakka.

Hverju á þá að kenna um lélegt ástand ýsustofnins?


Meistari orðhengilsháttarins.

Steingrímur J. Sigfússon reynir að verja aðgerðir sínar í Sp/Kef málinu með orðhengilshætti. Það hentar honum einkar vel enda hefur hann verið Íslandsmeistari í faginu undanfarin 30 ár.

Í vörn sinni segir Steingrímur að það sé fáránlegt af Sjálfstæðisflokknum að kenna ríkisstjórninni um Sp/Kef málið. Það er hinsvegar ekki verið að kenna ríkisstjórninni heldur honum sjálfum um alvarleg kostnaðarsöm mistök í málinu.

Þá heldur Steingrímur því fram að ríkisstjórnin hafi fengið þennan vanda í fangið sem skapaðist vegna þess hvernig sparisjóðnum var stýrt. Staðreyndin er hins vegar sú að sparisjóðurinn starfaði í rúmt ár á undanþágu og var síðan klofinn upp allt að ráði Steingríms J. Sigfússonar. Þegar þetta ferli hófst var eiginfjárstaðan jákvæð.

Í þriðja lagi tengir Steingrímur mistök sín í málinu við bankahrunið en það er rangt. Fall sparisjóðsins varð rúmum 2 árum eftir bankahrun og hrun sparisjóðsins varð ekki vegna þess miðað við afstöðu Steingríms sjálfs og Fjármálaeftirlitsins á árinu 2009 og 2010.

Staðreyndir málsins eru einfaldar:

1. Þegar Steingrímur kemur að málinu á sparisjóðurinn 5 milljarða.

2. Steingrímur tekur málið til sín og það er ekki hjá Bankasýslu ríkisins svo sem það hefði átt að vera.

3. Sparisjóðnum er heimilað að starfa á undanþágu fyrst 6 mánuði og síðan aðra 6

4. Að loknu undanþágutímabili stendur Steingrímur fyrir þeirri ákvörðun að kljúfa sparisjóðinn í tvö fyrirtæki og reka áfram þangað til yfir lauk með þeim afleiðingum að skattgreiðendur þurfa að borga yfir 20 milljarða.

Fram hjá þessum staðreyndum sem Steingrímur J. Sigfússon ber ráðherraábyrgð á kemst hann ekki.

Væri einhver döngun í stjórnarandstöðunni þá legði hún fram vantrausttillögu á Steingrím J. Sigfússon strax í dag, þar sem hann hefur ekki sjálfur manndóm í að viðurkenna mistök sín og segja af sér. 


Ber Alþingi að ákæra Steingríms J. Sigfússon ráðherra?

Steingrímur J. Sigfússon ber umfram aðra ábyrgð á tugamilljarðatjóni skattgreiðenda vegna Sp/Kef. Hann hefur engar málsbætur og ætti að vera búinn að segja af sér.

Rifjum upp nokkrar staðreyndir:

Samkvæmt ársreikningi Sparisjóðs Keflavíkur fyrir árið 2008, sem undirritaður er 31. mars 2009, var eigið fé hans jákvætt um 5,4 milljarða króna.  Eiginfjárhlutfall var 7.06% og því rétt undir 8% lögbundnu lágmarkshlutfalli.  Þá hafði að sögn endurskoðanda verið tekið tillit til Hrunsins.

Í maí 2009 veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum heimild til að koma eiginfjárhlutfallinu yfir lögbundið lágmark, skv. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki.  Slíka heimild má veita til 6 mánaða og hana má framlengja  um aðra sex mánuði „séu til þess "ríkar ástæður“. 

Sparisjóður Keflavíkur fékk þannig að starfa í 12 mánuði með eiginfjárhlutfall undir lögbundnu lágmarki, sem gat eingöngu byggt á því mati að fjármálastofnuin væri lífvænleg og með velþóknun og fyrirgreiðslu þáverandi fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. 

Þann 22. apríl 2010 greip Fjármálaeftirlitið inn í starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og skipti honum upp í gamlan og nýjan.  Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum ákveðið var að stofna nýjan sparisjóð eða hvaða hagkvæmnismat lá að baki. 

Stofnun nýja SpKef var gerð af svo mikilli vanhæfni að nýi sjóðurinn komst í þrot tæpu ári síðar eða í mars 2011.  Þeirri spurningu er að hluta til ósvarað hvað miklir fjármunir töpuðust við stofnun nýja sjóðsins – hver var rekstrarkostnaður og rekstrartekjur hans frá apríl 2010 og mars 2011, já og  hvert var tapið? 

Ákveðið var að SpKef myndi sameinast Landsbankanum.  Gerð var áætlun sem fjármálaráðherra blessaði (Steingrímur J) þar sem talað var um að framlag ríkisins vegna Sp/Kef þyrfti að vera 11 milljarðar.

Í fréttum í gær sagði núverandi fjármálaráðherra að kostnaður ríkisins vegna Sp/Kef væri 20 milljarðar og það væri nálægt því sem við hefði verið búist allan tímann. Spurning er þá hvort Steingrímur J. sagði þingi og þjóð ósatt. Alla vega ganga fullyrðingar Steingríms um tjón ríkisins við yfirtöku Landsbankans og sá raunveruleiki sem fjármálaráðherra kynnti í gær ekki heim og saman.

Eftir stendur að sjóður sem átti  rúmlega 5 milljarða eigið fé í árslok 2008 þegar tekið hafði verið tillit til hrunsins er orðinn að engu.  Ríkið hefur margsinnis vanmetið stöðu sjóðsins og það eftir að sjóðurinn starfaði á undanþágu með leyfi Fjármálaeftirlits og velþóknun Steingríms J. Eignir sjóðsins hafa rýrnað verulega á meðan á þessum farsa hefur staðið.  Verðmæti þeirra hefði verið betur tryggt ef sjóðurinn hefði strax verið settur í slitameðferð. Kröfuhafar hafa tapið verulegum fjármunum á þessum handabakavinnubrögðum ríkisins auk ríkisins sjálfs.

Eftir stendur að sá sem ber pólitíska ábyrgð á þessu tjóni ríkisins upp á tugi milljarða er Steingrímur J. Sigfússon sem gerði þessi mál að sínum. Ef til vill gæti Gylfi Magnússon fyrrum viðskiptaráðherra  og mótmælandi einnig borið ábyrgð á þessu tugmilljarða tjóni skattgreiðenda.

Ástæða er til að Alþingi gangi þegar í stað úr skugga um hvort ekki er full ástæða til að vísa máli Steingríms J. Sigfússonar ráðherra og Gylfa Magnússonar ráðherra til meðferðar fyrir Landsdómi þar sem margt bendir til  að þeir hafi brotið af sér í starfi sínu sem ráðherrar og  valdið þjóðinni miklu raunverulegu tjóni í Sp/Kef málinu.

Ef til vill væri ráð að endurvekja nefnd Atla Gíslasonar alþingismanns í þessu skyni.


Skrýtnasta stjórnmálaaflið.

Skrýtnasta stjórnmálaafl á Íslandi er fyrirbrigið Dögun.

Dögun er með og móti kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Dögun er með og móti inngöngu í Evrópusambandið. 

Skyldi þetta stjórnmálaafl eiga samstöðu í einhverju máli?


Orð geta verið dýr

Björn Valur Gíslason þingflokksformaður Vinstri grænna virðist vera hreinn óþverri. Það að brigsla öðrum þingmanni að vera fullur í vinnunni og samsama stjórnarandstöðuna með slíku er einstakt háttalag. Gamalreyndur þingmaður sagði að svona óþverraskapur eins og Björn Valur sýndi félögum sínum á Alþingi sé einsdæmi.

Sú var tíðin að stjórnarþingmaður fór í ræðustól Alþingis töluvert undir áhrifum. Þrátt fyrir það voru stjórnmálaandstæðingar hans ekki að núa honum því um nasir í ræðustól Alþingis og gildishlaða þau ummæli.

Virðing Alþingis eykst ekki við að þingmenn ræki ekki starfsskyldur sínar og séu fullir í vinnunni. Virðingin eykst heldur ekki þegar þingmenn hafa uppi ósönn brigslyrði um félaga sína.

Björn Valur baðst afsökunar á ummælum sínum í upphafi þingfundar þannig að ef til örlar einhversstaðar á einhverju góðu hjá manninum.  Þannig að þá er hann e.t.v. ekki hreinn óþverri.


Málfrelsi

Við göngum út frá því sem vísu að tjáningarfrelsi ríki í landinu. Formlega er það verndað í stjórnarskrá lýðveldisins. Þó að málfrelsi ríki þá þýðir það ekki að auðvelt sé að koma málum á framfæri. Skilningur  sumra fjölmiðla og fjölmiðlafólks virðist harla lítill á mikiilvægi þess að gæta hlutlægni í fréttaflutningi og umfjöllun um mál sem og að gefa fólki eðlilega möguleika til tjáningar.

Í Ríkisútvarpinu hefur verið fjallað um sömu fréttina í a.m.k.  fjórum fréttatímum allt út frá sjónarmiðum höfunda skýrslu sem gerð var fyrir fjármálaráðherra um ómöguleika þess að  lækka höfuðstól stökkbreyttra húsnæðislána. Ekki er talað við þá sem telja nauðsynlegt að færa niður höfuðstóla stökkbreyttu lánanna. Nú sem fyrr er tjáningarfrelsi þeirra ekki virkt í Ríkisútvarpinu.

Sunnudagskvöldið var umræðufundur þriggja frambjóðenda til forsetakjörs á Stöð 2. Upphaflega átti bara að bjóða 2 frambjóðendum og meina hinum 4 að tjá sig á jafnréttisgrundvelli. Þegar það gekk ekki upp þá var ákveðið af stjórnendum þessa fjölmiðils að skipta frambjóðendunum upp í hópa. Eðlilega létu sumir frambjóðendur ekki bjóða sér slíkan dónaskap og þeir sem eftir stóðu hefðu átt að mótmæla andlýðræðislegu fyrirkomulagi sem Stöð 2 hafði ákveðið.

Stöð 2 ætlaði aldrei að leyfa frambjóðendum að tjá sig á jafnræðisgrundvelli og það ber að fordæma.

Þeir sem bjóða sig fram til æðstu embætta í þjóðfélaginu verða að vera tilbúin til að bjóða ofurvaldi fjölmiðils byrginn þegar fjölmiðillinn misvirðir jafnræði frambjóðenda til að tjá sig. 

Í forkosningum í Bandaríkjunum dettur alvöru fréttamiðlum sérstaklega sjónvarpsstöðvum ekki í hug að hafa umræður frambjóðenda án þess að þeir fái allir sömu tækifærin til að tjá sig við kjósendur. Ekki skiptir máli hvort einhverjir mælast lítið í skoðanakönnunum.  Hér eru greinilega önnur viðhorf hjá fjölmiðlafólki og það ber að fordæma.

Sama gildir að vera með neikvæðan fréttaþátt um einn frambjóðandann samhliða umræðum frambjóðenda. Hverjum datt slíkt rugl í hug.

Stöð 2 ætti að biðjast afsökunar á þeirri lítilsvirðingu sem sjónvarpsstöðin sýndi frambjóðendum og kjósendum og bjóða frambjóðendum upp á alvöru umræðuþátt í sjónvarpssal á jafnréttisgrundvelli.

Mér fannst miður að forseti lýðveldisins og forsetaframbjóðendurnir Herdís og Þóra skyldu ekki ganga á dyr með hinum eða hóta því svo fremi að jafnræðis frambjóðenda væri gætt. Virkt tjáningarfelsi er jú  eitt mikilvægasta grundvallaratriði lýðræðislegrar kosningabaráttu.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 731
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband