Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Milton Friedman, Hannes Hólmsteinn og fleiri

Milton Friedman sá merki hagfræðingur fæddist 31. júlí 1912. Aldarafmæli hans er því minnst víða um heim. Milton Friedman þótti geta sett fram flóknar hagfræðikenningar á mannamáli sem er óvenjulegt fyrir hagfræðinga.

Margir hafa lesið bækur Friedman: "Markaðshyggja og frelsi" og "Frelsi til að velja" Í báðum bókunum (frelsi til að velja voru raunar sjónvarpsþættir líka) tekur hann fyrir brýn þjóðfélagmál og bendir á mikilvægi þess að einstaklingarnir, hinn frjálsi borgari hafi sem mest með sín mál að gera, en ríkið taki sér ekki valdið og stjórni á kostnað einstaklinganna.

Í upphafi bókar sinnar "Frelsi til að velja" er Friedman með tilvitnun í Lous Brandeis Hæstaréttardómara í dómi í málinu "Olmstead gegn Bandaríkjunum, þar sem m.a. kemur fram að mesta ógnin sem steðji að frelsinu sé vegna skilningslausra, velmeinandi  baráttumanna.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur fremur öðrum kynnt kenningar Milton Friedman hér á landi. Hannesi ber að þakka fyrir það. 

Við Hannes ætlum að fjalla um Milton Friedman og raunar fleiri hagfræðinga á Útvarpi Sögu þriðjudag 31.ágúst kl. 16-18.  Hannes kynntist Miltin Friedman persónulega. Það verður fróðlegt að ræða við hann um manninn og kenningar hans sem og hvernig Milton Friedman kynni að hafa litið á íslenskt þjóðfélag í dag. Einnig hvaða úrræði hann hefði talið brýnust til að auka frelsi í okkar samfélagi.

Ég tel að sjónarmið og skoðanir Milton Friedman eigi einmitt erindi í dag og er ekki í vafa um að hann hefði orðið æfur yfir að sjá að ríkisstjórnir um allan heim eru að bjarga bönkum og óráðssíumönnum í pólitík á kostnað skaggrreiðenda jafnvel í löndum sem kemur málið ekkert við. Fróðlegt að heyra hvað Hannes segir um það mál.


Þegar Grænlandsjökull var næstum bráðnaður

Reynt er með öllum ráðum að halda við óttanum um hræðilegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum.  Í síðustu viku voru sýndar myndir teknar úr amerísku gervitungli sem voru sagðar sýna að Grænlandsjökull væri allur að bráðna.

Sagt var að í fyrsta skipti í sögunni næði bráðnun Grænlandsjökuls til alls jökulsins. Hnýtt var við fréttina um þessa ógnvænlegu bráðnun Grænlandsjökuls hvaða áhrif það mundi hafa á sjávarborðið, en helst mátti skilja að það mundi hækka um nokkra sentimetra á næstu dögum.

Nokkru síðar kom í ljós að hryllingssagan var ekki sönn.  Lofthiti yfir Grænlandi hefur verið mjög hár undanfarið, þess vegna náði bráðnun á Grænlandsjökli til nokkurra sentimetra á yfirborðinu. Það skiptir litlu máli þegar verið er að tala um íshettu sem er allt að 3, þriggja  kílómetra há. 

Svo kom í ljós að þetta hafði gerst áður. Meira að segja hafði sambærileg bráðnun á Grænlandsjökli orðið árið 1889, en ekki fer sögum af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á þeim tíma. Þá er sagt að ískjarnar sýni að sambærileg bráðnun eigi sér stað á um hundrað ára millibili.

Svo gerðist það að nokkrum klukkustundum eftir að þessir sentimetrar á Grænlandsjökli bráðnuðu að þeir frusu aftur og yfirborð sjávar hækkaði ekkert. 

Skyldu margir fréttamiðlar hafa leiðrétt fréttina um bráðnun Grænlandsjökuls? Alla vega ekki RÚV eða fór það framhjá mér?


Fer ekki á Olympíuleika vegna rasískra ummæla á Twitter.?

Unga gríska konan og þrístökkvarinn Voula Papachristou, sem átti að fara á Olympíuleikana í London hefur verið meinað að taka þátt í leikunum vegna ummæla um afríska innflytjendur á Twitter. Hún er fyrsti íþróttamaðurinn sem fær refsingu á Olympíuleikum fyrir meinta móðgun á samskiptavef. 

Það sem Papachristou sagði var eftirfarandi:

"Af því að það eru svo margir frá Afríku í Grikklandi, verða moskító flugurnar við Vestur Níl að borða heimagerðan mat."

Þrátt fyrir að Papachristou bæðist afsökunar og segðist aldrei hafa ætlað að móðga neinn eða skerða mannréttindi einhverja þá dugar það ekki til.

Rowan Atkinson sem leikur Mr. Bean m.a. hefur iðulega gagnrýnt takmarkanir á tjáningafrelsi og möguleikum fólks til að setja fram grín jafnvel þó það snerti ákveðna hópa.

Þegar þessi  ummæli Papachristou valda brottrekstri frá  Olympíuleikum þá er vandlifað í honum heimi. Það gleymist iðulega að mannréttindi eru fyrir einstaklinga og hugsuð sem slík, en ekki hópa eða þjóðir.

Í gamla daga mátti tala um svertingja, gult fólk, rauðskinna og hvítt fólk. Leyfir pólitísk rétthugsun það í dag? Í mörg ár gaf kona í Bandaríkjunum út  bókina "Truly tasteless jokes" þar sem gert er grín af svörtu fólki, Pólverjum, Gyðingum, hvítu fólki, Engilsöxum m.a. Ætla má miðað við pólitísku rétthugsun að það sé búið að handtaka hana og banna útgáfuna.

Mikið skelfing er lífið miklu erfiðara og leiðinlegra undir svona pólitískri rétthugsun þar sem m.a. ungt fólk sem er að gera að gamni sínu má búast við þungum viðurlögum og aðkasti vegna græskulausra kersknisummæla.

Svo virðist sem  Political Newspeak sem George Orwell talaði um í bókinni 1984 sé að verða  að veruleika. Það má e.t.v. minna á að það leiddi til raunverulegrar frelsisskerðingar og glataðra mannréttinda einstaklinga.


Hvort segir fjármálaráðherra vísvitandi ósatt eða veit ekki betur?

Í kvöldfréttum RÚV var 90 milljarða halli á ríkissjóði árið 2011 gagnrýndur af ýmsum. Fjármálaráðherra  segir að hallinn sé eðlilegur og þetta hefði verið meira eða minna fyrirsjánalegt, þó áætlanir hafi sýnt mun minni halla. Spurning er var þá verið að segja ósatt þegar fjárlögin og áætlanirnar voru kynntar þingi og þjóð?

Í annan stað segir fjármálaráðherra að stór hluti af skýringunni á meiri ríkissjóðshalla en ráð var fyrir gert hafi verið vegna þess að greiða hafi þurft vegna Sparisjóðs Keflavíkur og það væri vonandi síðasti stóri reikningurinn vegna Hrunsins.  Hér vísar fjármálaráðherra til bankahrunsins í október 2008.

Þessi ummæli fjármálaráðherra eru ósannindi. Reikningurinn vegna Sparisjóðs Keflavíkur kemur bankahruninu í október 2008 ekkert við. Sparisjóður Keflavíkur var með jákvæða eiginfjárstöðu upp á nokkra milljarða samkvæmt ársreikningum sem birtir voru í apríl 2009 og þar var sagt að tekið hefði verið fullt tillit til bankahrunsins. 

26 milljarðarnir sem þarf  að greiða vegna Sp/Kef er vegna handvammar og slæmrar ráðsmennsku Steingríms J. Sigfússonar.  Eftir að Steingrímur J hlutaðist til um að Sparisjóður Keflavíkur starfaði áfram á undanþágum frá FME þá myndaðist  tapið sem þjóðin þarf að borga.

Fjármálaráðherra er fyrrverandi sveitarstjóri í Garðinum á Reykjanesi ætti að þekkja vel til Sparisjóðs  Keflavíkur. Henni hlýtur að vera ljóst að reikningurinn vegna Sparisjóðs Keflavíkur er ekki vegna bankahrunsins heldur alfarið á ábyrgð Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar.

Viti fjármálaráðherra ekki betur og telji hún sig vera að segja satt, þá er illt í efni. Þá hefur hún greinilega ekki fylgst með hvorki sem sveitarstjóri á sínum tíma né sem þingmaður og síðan ráðherra. Sé staðreyndin hins vegar sú að hún hafi áttað sig á hvað gerðist varðandi Sparisjóð Keflavíkur þá var hún í kvöld að segja þjóðinni vísvitandi ósatt.

Hvorugt gengur fyrir ráðherra.


Ráðningarpukur Steingríms J. Sigfússonar.

Það er skýr meginregla og góðir stjórnsýsluhættir að auglýsa störf þegar ráðið er í stöður hjá hinu opinbera.  Þetta er gert til þess að ráðningar séu gegnsæjar, gætt sé jafnræðis og hæfasti einstaklingurinn verði ráðinn í starfið.  Þar sem erfitt er að segja ríkisstarfsmönnum upp er ennþá mikilvægara að ráðningar séu faglegar. 

 

Þrátt fyrir þetta ætlar Steingrímur J. Sigfússon ekki að gæta gegnsæis, jafnræðis eða bjóða hæfileikaríku fólki að sækja um stöðu ráðuneytisstjóra í nýju atvinnuvegaráðuneyti.  Steingrímur ætlar að stunda pukur og geðþóttaráðningu án auglýsingar.  Þessi aðferð Stengríms við ráðningu í eitt æðsta embætti ríkisins er enn eitt dæmið um atlögu ríkisstjórnarinnar að faglegri og gagnsærri stjórnsýslu.

Athyglisvert verður að sjá hvort að Umboðsmaður alþingis telji ráðningaferlið samræmast góðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður ákvað, að eigin frumkvæði, að ávíta Geir Haarde, forsætisráðherra, fyrir að auglýsa ekki ráðningu í tímabundið skrifstofustjórastarf á nýrri efnahags-og alþjóðamálaskrifstofu í forsætisráðuneytinu í miðju efnahagshruni.  Málið var keyrt áfram af methraða. Umboðsmaður lauk því á 2 mánuðum (29/12/2008)

enda stóðu öll spjót á Geir og auðvelt að kaupa sér vinsældir með því að hnýta í hann.

Hvað bregst Umboðsmaður Alþingis við núna?


90 milljarða halli.

Ríkissjóður var rekinn með um 90 milljarða halla á árinu 2011, undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Hallinn er 5.5% af þjóðarframleiðslu segir í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins. Steingrímur J. telur þetta góðan árangur.

Væri Steingrímur J í Evrópusambandinu sem hann hefur sótt um aðild að, þá fengi fjármálastjórn hans falleinkunn. Hallinn  á ríkissjóði miðað við þjóðarframleiðslu er allt of mikill og langt umfram það sem bæði Angela Merkel og strákarnir í Brussel telja ásættanlegt.

Grátkór æðstu forustu Vinstri grænna sendi frá sér yfirlýsingu fyrir nokkru, þar sem harmað var hvað fjölmiðlar væru óvinsamlegir VG og störfum ríkisstjónarinnar. Í yfirlýsingunni kom fram að allt væri í himnalagi og Steingrímur J. flestramálaráðherra fyrrum fjármálaráðherra hefði lyft Grettistaki við að reisa við fjárhag ríkisins og koma öllu í rétt horf.

VG forustan þarf raunar ekki að kvarta undan fjölmiðladeild RÚV sérstaklega ekki þingfréttaritaranum sem virðist hafa gert Steingrím J að pólitískum leiðtoga lífs síns. Aðrir fjölmiðlar segja frá málum með hlutlægari hætti þannig að eðlilegt er að forusta VG kveinki sér undan því.

Eðlilegt væri að fjölmiðlar fjölluðu um lélega afkomu ríkissjóðs miðað við afkomu ríkissjóða nágrannalanda okkar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en tækju ekki upp orðhengilshátt Steingríms J. án athugasemda.

VG má raunar þakka fyrir að íslenskir fjölmiðlar með einni undantekningu skuli vera staurblindir á hneykslismálin sem Steingrímur J. ber ábyrgð á. Mætti t.d. minna á Sp/Kef eða Byr eða Sjóvá/Almennar eða VBS eða þegar Steingrímur J afhenti erlendum vogunarsjóðum Arion banka og Íslandsbanka svo dæmi séu tekin. 

Sá íslenskur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur sem þolir verst hreinskipta málefnalega umræðu er Steingrímur J. og Vinstri Grænir. Þeir taka jafnvel Samfylkingunni fram og er þá langt til jafnað.


Eyðum endilega um efni fram.

Vinur minn Guðmundur hefur lengi tekið hærri lán til að borga gömlu lánin og standa undir góðum launum og einkaneyslu. Bókarinn hans sagði að þetta væri allt í grængolandi, hann skuldaði of mikið og fyrirtækið væri rekið með tapi. Guðmundur sagðist þá ætla að taka enn meiri lán til að borga gömlu lánin og hækka launin sín. Bókaranum leist ekki á það og benti á að þá yrði hann gjaldþrota innan árs. Guðmundur er ekki sammála bókaranum og sagði að þetta væri eina leiðin út úr efnahagsvandanum sem hann væri í. Hann þyrfti að eyða meiru og auka veltuna, skítt með tapið.

Nú hefur þessi hagfræðikenning Guðmundar vinar míns fengið ágætiseinkun hjá Nóbels hagfræðingnum og vinstri manninum Paul Krugmann sem leggur til að bæði Betar og Frakkar leysi vandamál sín með því að eyða meiru um efni fram í stað þess að spara og draga saman í ríkisrekstrinum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist líka deila þessari hagfræðikenningu Guðmundar vinar míns.  Sjóðurinn hefur mestar áhyggjur af því að ríki heims ætli ekki að eyða jafn miklu um efni fram og verið hefur.  Sjóðurinn varar m.a. við því að þingið í USA leyfi  Obama ekki að  taka meiri og hærri  lán af því að þá þurfi að koma til niðurskurðar. Einnig eru Evrópuríki vöruð við að spara og skera niður ríkisútgjöld af því að það leiði til samdráttar.

Hagfræði Guðmundar vinar míns hefur greinilega sigrað heiminn.  Hvað skyldi þá vera langt í alvöru kreppu?

Vígorð dagsins eru: Sparnaður er synd. / Glötuð er geymd króna / Lán á lán ofan leysa vandann.

Var það virkilega ekki á öðrum forsendum sem velsæld varð til í okkar heimshluta?


Þeir sem þakka sér sólskinið

Hafrannsóknarstofnun þakkar sér og tillögum sínum að nú skuli þorskstofnin vera sterkari en undanfarin ár.  Sé það rétt að sterkari þorskstofn sé ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar að þakka, hvernig stendur þá á því að ýsustofnin er í algjörri lægði þrátt fyrir að farið hafi verið að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar með ýsuna undanfarin ár alveg eins og með þroskinn?

Þá er líka spurningin af hverju er þorskafli er nú meiri en áður í Barentshafi? Þar var ekki fylgt ráðgjöf fiskifræðinga heldur var hún gjörsamlega hunsuð og veitt margfalt meira. 

Getur verið að þetta komi kvótakerfi og Hafrannsóknarstofnun ekkert við? 

Hvernig stóð á því að fyrir daga kvótakerfisins meðan stjórnmálamenn tóku mátulegt mark á fiskifræðingum að þá var hægt að veiða 500 þúsund tonn á Íslandsmiðum en aðeins 200 þúsund núna og það telur Hafrannsókarstofnun að sé afreks sem sé þeim að þakka.

Getur verið að náttúrulegar sveiflur í lífríkinu hafi allt með þetta að gera? Ef svo er þá erum við að láta rúmlega 100 milljarða verðmæti synda framhjá okkur á hverju ári.


Misheppnuð utanríkis- og hernaðarstefna.

Sennilega hefur engin þjóð rekið jafn misheppnaða og ranga utanríkis- og hernaðarstefnu á þessari öld og Bandaríkjamenn.

Í meir en áratug hafa Bandaríkjamenn verið í stríði við Al Qaida hryðjuverkasamtökin. Árangurinn er verri en enginn. Ráðist var ólöglega á röngum forsendum inn í Írak þar sem Al Qaida var ekki til staðar.

Hernaðurinn í Afganistan kostar gríðarlega peninga og hefur ekki skilað neinum árangri sem máli skiptir.  Ungu fólki er fórnað tugum og hundruðum saman vegna þessara mistaka ráðamanna í Washington DC og aðalstöðvum NATO í Brussel. Það er raunar sér kafli að NATO skuli fara gegn grunngildum sínum til að styðja Bandaríkin í vitleysunni í Afganistan.  

Eftir rúman áratug í baráttunni gegn Al Qaida ráða þeir stórum hluta í Malí og víðar í Norður hluta Afríku,  eftir að Bretar og Frakkar með aðstoð Bandaríkjamanna hrökktu Gaddafi frá völdum.

Bandaríkjamenn snéru baki við vini sínum Mubarak um leið og hallaði undan fæti fyrir honum í Egyptalandi og töluðu um arabíska vorið þegar Salafistar og Múslimska bræðralagið náði auknum völdum í Egyptalandi, Líbýu og Túnis.

Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna hamast gegn Sýrlandsstjórn með einhliða hætti sem hefur fyrst og fremst orðið til að hella olíu á þann eld sem þar logar og afleiðingin er sú samkvæmt frétt Daily Telegraph í dag að Al Qaida liðar hafa orðið áberandi í baráttunni gegn Sýrlandsstjórn í Norð-Austurhluta Sýrlands.  Með þessum skrifum er ekki verið að bera blak af ógnarstjórn Assads í Sýrlandi en á það bent að nálgun Bandaríkjanna hefur ekki orðið til að vinna að lausn málsins.

Afstaða Bandaríkjanna í Sýrlandi er að mörgu leyti álíka skammsýn og þegar þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Baker gaf yfirlýsingu um málefni Júgóslavíu á sínum tíma sem hellti olíu á þann eld með eftirfarandi borgarastyrjöld, blóðsúthellingum og svívirðingum.  Þar réði skammsýnin líka ferð og ótrúlegt þekkingarleysi á málefnum þess heimshluta. Eins og raunar er líka um að ræða varðandi málefni Sýrlands.

Afleiðingin af baráttu Bandaríkjanna gegn Al Qaida í rúman áratug er sú að í upphafi var þetta lítill  hópur í Afganistan en nú eru þetta hópar sem gera sig mismunandi gildandi í Afganistan, Pakistan, Sómalíu, Súdan, Yemen, Sýrlandi, Írak og Malí svo nokkuð sé nefnt.

Barack Obama brást vonum manna um aukna skynsemi í bandarískri utanríkispólitík. 

Það ber brýna nauðsyn til að vitrænni afstaða verði mótuð í höfuðstöðvum NATO í Brussel en þó sérstaklega í ávölu skrifstofunni í Hvíta húsinu í Washington DC í Bandaríkjunum.


Trúartákn og Mannréttindadómstóll Evrópu

 Nadia Eweida sem vinnur hjá British Airways var bannað að bera kross á Heathrow flugvelli árið 2006.  Eweida var send  heim úr vinnunni  þegar hún neitaði að fjarlægja krossinn.  Hún heldur því fram að flugfélagið mismuni sér og starfsfólki annarra trúarhópa þar sem Síkar geti t.d.verið með túrban og Múslimar með blæjur.

Flugfélagið hafnaði sjónarmiðum Eweida og hún fór í mál þar sem hún taldi sig hafa orðið fyrir mismunun af trúarlegum ástæðum.  Hún tapaði málinu í undirrétti og áfrýjunarrétti í Englandi og hefur vísað því til Mannréttindadómstóls Evrópu.

En það hefur hins vegar áunnist að flugfélagið hefur breytt um stefnu og leyfir nú að fólk beri krossmark og Eweida vinnur enn hjá flugfélaginu.

Eweida er ekki eini einstaklingurinn sem hefur orðið fyrir harðræðí í Bretlandi vegna þess að bera krossmark.  Shirley Chaplin  hjúkrunarkona frá Exeter var sagt af sjúkrahússtjórninni þar sem hún vinnur að fjarlægja hálsmen með krossmarki en því neitaði hún og fór líka í mál.

Það er kaldhæðni örlaganna að það er Breska ríkið sem rekur málið gegn Eweida hjá Mannréttindadómstólnum en í fyrirspurnartíma á enska þinginu sagði David Cameron forsætisráðherra Breta að lögunum yrði breytt þannig að kristið fólk gæti borið krossmark í vinnu sinni.  Cameron sagði af þessu tilefni að það væri grundvallarmannréttindi að starfsfólk hefði rétt til að bera trúartákn í vinnunni. Ef dómur Mannréttindadómstóls Evrópu yrði þannig að Eweida tapaði málinu þá yrði að breyta lögunum til að þessi mikilvægu mannréttindi yrðu virt.

Það sem er athyglivert við þetta mál er í fyrsta lagi að enska biskupakrikjan leiðir ekki baráttuna fyrir réttindum kristins fólks til að bera kristin trúartákn. Í öðru lagi að breska ríkið skuli vera sjálfu sér sundurþykkt þar sem forsætisráðherrann biður í raun um að Mannréttindadómstóll Evrópu fallist ekki á rök ríkisins heldur Eweidu.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 125
  • Sl. sólarhring: 1298
  • Sl. viku: 5267
  • Frá upphafi: 2469651

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 4823
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband