Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Kerfið í lagi

Mikið fer maður rólegur og áhyggjulaus um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli á næstunni. Talsmenn Isavia, eftirlitsaðilans með örygginu fullvissa okkur um, að kerfið virki.

Þrátt fyrir að tveir hælisleitendur sem þóttust vera börn við komuna til landsins hafi komist óséðir  á salerni flugvélar Icelandair þá segja þeir hjá Ísavia að öryggiskerfið svínvirki þar sem þeir hafi jú fundist á kamrinum.

Þá ber einnig að hafa það í huga segja þeir hjá Ísavía að þessi fullorðnu börn frá Norður Afríku séu þaulskipulagðir og hafi ekki farið í gegn um öryggishlið. Það segja þeir að þýði að gæsla við  öryggishliðin sé mjög traust. Af sjálfu leiðir að þeir hjá Ísavía gera ekki ráð fyrir eða miða viðbúnað við að einhverjir fari inn á völlinn annarsstaðar en í gegn um viðurkennd öryggishlið. Skárri væri það nú ósvífnin.

Öryggisgæslan mun því áfram beinast að öryggishliðum, kömrum flugvéla og láta fólk fara úr skóm og taka af sér belti í öryggisskyni.  Konur við aldur munu því áfram sjást hökta í flugstöð Leifs Eiríkssonar skólausar við að missa pilsin niðrum sig og karlar við aldur bisast við að halda upp buxunum og lenda í andnauð við að reima skóna.  Allt fyrir öryggið.

Að sjálfsögðu ber enginn ábyrgð á þessu. Alla vega ekki þeir sem eiga að tryggja öryggið. Það er sagt að strákarnir í höfuðstöðvum Al Qaida séu enn að hlægja af yfirlýsingu Isavía. Vonandi gera þeir það svo lengi að það fari ekki fyrir þeim hjá Ísavía eins og Batista einræðisherra á Kúbu sem var enn að hlægja að Fidel Castró þegar hann gerði innrás í Havana.

Væntanlega er von er á yfirlýsingu frá barna- Braga Guðbrandssyni  og sr. Baldri Kristjánssyni Þorlákshafnarklerki af þessu tilefni um málefni ólöglegra innflytjenda og harðræði íslenska réttarkerfisins, en ólöglegu innflytjendurnir sem sátu á kamrinum í flugvélinni var að sjálfsögðu sleppt eftir að hafa verið leiddir út í gegn um öryggishliðið á Keflavíkurflugvelli.

Nú eins og áður þá er  Lísa í Undralandi ekki skrifuð á einum degi.


Ríkisstjórnir og veðurfar

Ríkisstjórn Bretlands lét undan ániði sérfræðinga í apríl s.l. og bannaði garðeigendum að nota slöngur við að vökva garða sína. Það var gert vegna þess að lítið hafði rignt og grunnvatnsstaðan var sögði slæm.

Frá því að ákvörðunin um að banna slöngunoktun var tekin í Bretlandi, hefur ekki verið nokkur þörf á að nota slöngur til að vökva. Æðri máttarvöld hafa heldur betur látið rigna svo um munar á Bretlandi. Flóð og skemmdir á mannvirkjum vegna mikilla rígninga er því viðfangsefnið en ekki þurkur. Í ljósi þessa þykir það kaldhæðni örlaganna að nú skuli tilkynnt að aflétt sé banni við notkun á slöngum við að vökva garða.

Á sama tíma er tjón af völdum flóða vegna mikilla rigninga talið nema um 20 milljörðum króna.

Þessu banni stjórnvalda í Bretlandi við notkun á slöngum við að vökva garða er líkt við hallærislegar stjórnvaldsaðgerðir eins og þegar vandamálafræðingar loftslagsins héldu ráðstefnu í Kaupmannahöfn í desember fyrir nokkrum árum til að sporna við hlýnun jarðar af mannavöldum. Á þeim tíma sem ráðstefnan var haldin var fimbulfrost og erfiðleikar vegna kulda. En íslenski umhverfisráðherrann var hins vegar ánægður með árangurinn í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum vegna þess að hún hafði fengið samþykkta tillögu um að konur kæmust að borðum þessara vandamálafræða í auknum mæli. Þá ætti nú vandamálið að vera leyst ekki satt.


Öryrkjabandalagið og mannréttindi

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur kynnt þá fyrirætlun bandalagsins að kæra framkvæmd forsetakosninga fyrir þann ágalla, að farið skuli að íslenskum kosningalögum við framkvæmd kosninganna. Fróðlegt verður að sjá málatilbúnað lögmanns bandalagsins þegar kæran lítur dagsins ljós.

Stjórn Öryrkjabandalagsins heldur því fram að framkvæmd forsetakosninganna hafi verið mannréttindabrot af því að farið hafi verið eftir 3.mgr. 63 gr. laga um kosningar til Alþingis, sem einnig gilda um forsetakjör, en þar er kveðið á um það að fulltrúar kjörstjórnar megi einir veita aðstoð þeim sem þurfa.

Formaður Öryrkjabandalagsins og nokkrir sem hafa tjáð sig telja það mannréttindi sín að geta sjálfir valið hver skuli aðstoða þá við að kjósa. Það gleymist í þessari umræðu að þetta ákvæði var sett til að tryggja leynilega kosningu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda með tilliti til hagsmuna þeirra.

Í mörgum tilvikum er heppilegt að sá sem öryrki kýs að aðstoði hann geri það. Það er þó ekki einhlítt. Í sumum tilvikum getur öryrkinn verið undir óeðlilegum og óþægilegum þrýstingi og verður að hlíta því með breyttum reglum að velja þess vegna aðila sér nákominn sem ræður þá atkvæði hans í raun. Tryggjum við mannréttindi betur með þeim hætti? Tryggjum við betur leynilegar kosningar?

Skv. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um það að fatlaðir geti notið aðstoðar einstklings að eigin vali við að greiða atkvæði.  Eðlilegt er að löggjöfinni verði breytt til að fullnægja því ákvæði, en spurningin er hvað átt er við með ákvæðinu. Nú getur fatlaður einstaklingur valið hvern sem er úr kjörstjórninni til að aðstoða sig, en vafi er um hvort það uppfylli skilyrði ákvæðisins. Ef til vill mætti hugsa sér að hópur trúnaðarmanna yrði ákveðinn og fatlaðir gætu valið úr þeim hópi. Það er nefnilega ekki endilega víst að það þjóni best hagsmunum fatlaðra að vera undir handarjaðri fólki sem er þeim nátengt ef tryggja á að vilji þeirra í leynilegri kosningu nái fram að ganga.

Það eru hræðileg örlög að búa við alvarlega fötlun. Þjóðfélaginu ber að gera það sem unnt er til að tryggja hag og réttindi þeirra sem þannig er komið fyrir. Bestu úrræðin þurfa ekki alltaf að vera þau að þeir sem næst standi þeim fatlaða hafi í raun vald yfir honum.

Hafi einhver brugðist í því að aðlaga íslenska löggjöf að samningi Sameinuðu þjóðanna þá eru það viðkomandi ráðherra og Alþingi. Eðlilegt er að ræða þau mál öfgalaust og ná sem bestri niðurstöðu fyrir fatlaða svo það sé tryggt sem best að vilji þeirra fái að koma fram í leynilegum kosningum. Það borgar sig hins vegar ekki að hrapa að niðurstöðunni og fordæma ákvæði löggjafar sem einmitt var sett á sínum tíma til að tryggja hagsmuni þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í kjörklefanum.

Sú afstaða Öryrkjabandalagsins að ætla að kæra forsetakosningar er í ljósi þessa vægast sagt vafasöm. Ekki verður séð að sú kæra þjóni hagsmunum fatlaðra, en gæti e.t.v. flokkast undir pólitíska misnotkun á Öryrkjabandalaginu. Hagsmunir öryrkja eru fólgnir í því að um þessi mál verði rætt öfgalaust og náð þeirri niðurstöðu sem best hentar hagsmunum fatlaðra til að tryggja réttindi þeirra í stað pólitískra upphlaupa eins og þessi málflutningur formanns Öryrkjabandalagsins ber með sér.


Forsetinn "sjokkerar og hræðir"

Samfylkingarkonan Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti noti alþekkta aðferð sem fólgin sé í því að "sjokkera og hræða" Hún segir að þetta sé þrælhugsuð og skipulögð "strategía" hjá forsetanum.

Sigurbjörg segir að ofannefnd bellibrögð forsetans setji spyrla og fjölmiðlamenn í óþægilega stöðu og þetta geri forsetinn meðvitað sem þaulvanur stjórnmálamaður, stjórnmálafræðingur o.s.frv.

Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur er ásamt nokkru öðru Samfylkingarfólki og Vinstri grænum fastur viðmælandi svonefnds fréttaskýringaþáttar sem nefnist Spegillinn. Þessi vinstri Spegill er nánast eini þjóðmálaþátturinn í ríkisútvarpinu. Í gær fékk Sigurbjörg rúmar 15 mínútur til að bullukollast um Ólafs Ragnars Grímssonar.

Það er sérkennilegt hvað RÚV tekur endurkjöri Óalfs Ragnars Grímssonar illa og leyfir sér að fara oft yfir mörk eðlilegrar hlutlægrar umfjöllunar í þeim efnum sem öðrum. Af sjálfu leiðir að ljóst má vera að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og hlutlæg umfjöllun um menn og málefni eiga fátt sameiginlegt. Það sást m.a. þegar Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur skrifaði í erlenda fjölmiðla eins og franska blaðið Le Monde til að gera lítið úr íslenskri þjóð. 

Hvort sem Samfylkingunni og Sigurbjörgu stjórnsýslufræðingi líkar betur eða verr þá var Ólafur Ragnar endurkjörinn forseti og tilraunir stjörnulögmanns villta vinstrisins Ragnars Aðalsteinssonar hrl. til að fá kosningarnar ógiltar munu ekki bera árangur.

Samfylkingarfólki virðist því miður um megn að virða niðurstöður kosninga í orði þegar þær eru því ekki að skapi.

Væri ekki rétt að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og nýr lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands reyndi að skilgreina það í næsta pistli sínum hvað veldur því að lýðræðisleg vitund vinstra fólks á Íslandi er jafn takmörkuð og raun ber vitni.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 220
  • Sl. sólarhring: 492
  • Sl. viku: 4436
  • Frá upphafi: 2450134

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband