Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Kynblinda

Vinur minn Guðmundur Sigurðsson aðstoðarforstjóri Samkeppnisstofnunar vakti athygli mína á fyribrigðinu kynblinda og spurði hvort ég vissi hvað það væri. Fátt varð um svör.

Guðmundur sagðist hafa rekist á frétt í dagblaði þar sem fjallað var "um tilraunaverkefni í kynjaðri fjárhags- og starfsáætlunargerð (hm!) hjá Reykjavíkurborg. Niðurstaðan var sú að fjárlög og fjárhagsáætlanir mismuni ekki kynjunum en“fjárúthlutanir eru ekki að nýtast kynjunum jafnt og er því ekki um kynhlutleysi að ræða heldur kynblindu.“

Tæpst tæmir þetta nú alveg skýringu á hugtakinu kynblindu og væri æskilegt að þeir sem ábyrgð bera á þessu nýyrði geri okkur fyllri grein fyrir fyrirbrigðinu sem sómir sér væntanlega vel við hlið fyrirbrigðisins í stóli borgarstjóra sem ég veit ekki hvort er haldinn kynblindu eða ekki miðað við skilgreiningu fréttarinnar.

Svo er spurningin hvort að kynblindir þurfi ekki á bókum að halda með kynblindraletri og kynblindrastaf til að rata ekki í ógöngur vegna kynblindunnar.


Járnfrúin, prófessorinn og tölfræðin.

Benjamin Disreli hinn merki forsætisráðherra Breta sagði einu sinni að það væri til þrenns konar lygi. Það væri lygi, helvítis lygi og tölfræði. Fyrir nokkru skrifaði ég grein vegna bókar sem fyrrum lífvörður Margaret Thatcher skrifaði um hana og lýsti henni sem mjög umhyggjusamri og hjartahlýrri konu, sem gerði allt til að starfsfólki hennar liði vel. Lífvörðurinn var upphaflega andstæðingur hennar í pólitík og varð undrandi að kynnast þessari góðu konu og taldi rétt að láta það koma fram í bók sinni.Þetta var meira en Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands gat þolað.  Ekki mátti tala vel um Thatcher. Prófessorinn segir m.a. að Jón Magnússon „lögfræðingur í Sjálfstæðisflokknum,  „var búinn að skrifa grein í dag sem hann kallar „Umhyggjusama járnfrúin“, datt mér í hug að þarna væri kominn enn ein tilraunin til að tengja frjálshyggjuna við hugmyndafræði hippana, með áherslu á friði, ást og umhyggju.“Síðar í greininni segir prófessorinn að þróun fátæktar og ójafnaðar í stjórnartíð Thatcher 1979-1990 hafi verið mikil og vísar í tölfræðiúttekt  um hlutfall barna sem búa í fjölskyldum undir fátæktarmörkum. Prófessorinn gleymir því meðvitað að greina frá því að þegar Thatcher tók við var kreppa í Bretlandi og gríðarlegt atvinnuleysi.  Á valdatíma hennar komust Bretar út úr kreppunni og hagur alls almennings batnaði til muna.  En það gildir ekki þegar reiknilíkan tölfræðinnar hans Stefáns prófessors er skoðað. Þar er reiknuð út hlutfallsleg fátækt en ekki raunveruleg. Þegar Verkamannaflokkurinn kom til valda í Bretlandi árið 1997 vöktu þeir sérstaka athygli á að 35% barna í Bretlandi lifði í fátækt.  Ekki algjörri fátækt því jafnvel þeir fátækustu voru almennt ekki í neinum vanda varðandi mat, föt, nám eða heilsugæslu.  Hlutfallsleg fátækt hét það.  Allir eru á móti fátækt og vilja vinna gegn henni. Hún er hræðileg. En hlutfallsleg fátækt þarf ekki að vera annað en gott pólitískt vígorð eins og í þessu tilviki. Í bók sinni „Crimes against logic“  eða glæpur gegn rökhyggju, talar Jamie Whyte sérstaklega um þessa birtingarmynd áróðurs Verkamannaflokksins í Bretlandi, sem félagsfræðiprófessorinn Stefán er svo hugfanginn af.  Whyte bendir á að þetta dæmi sýni með almennum hætti hvernig tölfræði geti afvegaleitt þegar byggt sé á röngum eða ófullnægjandi forsendum.  Í úttekt Verkamannaflokksins og prófessorsins var miðað við að þeir sem væru með undir 60% af meðaltekjum byggju við hlutfallslega fátækt. Það þýðir að jafnvel þó að þjóðfélagið auðgist og allir hafi það betra þá eykst jafnvel fjöldi þeirra sem búa við hlutfallslega fátækt samkvæmt þessum tölfræðikúnstunum.  Svo merkilega vill líka til að sósíalistarnir í Verkamannaflokknum og prófessor Stefán gleyma alltaf að reikna inn í formúluna sína áhrif skattlagningar og velferðarkerfisins til jöfnunar í þjóðfélaginu. Whyte bendir á sláandi dæmi í þessu sambandi: Tveir enskir skóladrengir búa hlið við hlið í áþekkum húsum í Bretlandi og ganga í sama skóla, ganga í sambærilegum fötum, stunda sömu áhugamál og fara til sama læknis þegar þeir eru veikir.  Efnaleg velferð þeirra er sú sama að öllu leyti nema að því leyti að annar fær 10 pund í vasapeninga en hinn 5 pund.  Samkvæmt þeim tölfræðikúnstum sem prófessor Stefán Ólafsson og Verkamannaflokkurinn byggja á þá er sá sem fær 5 pundin hlutfallslega fátækur þó hann hafi allt til alls og mismunur á efnalegri velferð beggja drengjanna sé ekki umtalsverður.

Tölfræðin getur verið varasöm og stundum verri en bölvuð lygi prófessor Stefán Ólafsson. Þar fyrir utan var sérstakt að prófessor eins og Stefán skyldi hlaupa svona upp á nef sér bara af því að fjallað var um Margaret Thatcher persónulega og kosti hennar.

(Grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu á þriðjudaginn 8.1. (Stefán Ólafsson er greinilga ekki áskrifandi að Morgunblaðinu því að í dag heldur hann áfram með tölfræðikúnstir sínar í pistli)

 

En ég er falleg

Ungfrú Alabama, Katherine Webb, sem er kærasta leikstjórnanda ruðningsliðs Alabama háskóla, fór á leik liðsins á mánudagskvöldið ásamt mömmu kærastans. Leiknum var sjónvarpað og fréttamaður ESPN sjónvarpsstöðvarinnar  Brent Musburger 73 ára, gat ekki leynt aðdáun sinni á henni þegar sjónvarpsmyndavélarnar sýndu Katherine í áhorfendahópnum.

Brent sagði "Whoa" og lýsti henni síðan síðan sem yndislegri stúlku og fallegri konu. Síðan sagði hann "Leikstjórnendurnir ná í allar sætustu stelpurnar. Ef þú ert strákur í Alabama þá farðu strax að æfa með því að kasta boltanum í bakgarðinum heima hjá þér."

Vegna þessara ummæla urðu einhverjir til að mótmæla og sjónvarpsstöðin baðst afsökunar og sagði að þessi ummæli hefðu gengið of langt.

Ungfrú Alabama kærði sig kollótta um þetta og fannst þetta dæmigerður stormur í vatnsglasi og sagði: "Ég held að allar konur yrðu upp með sér af því að fá svona ummæli að þær væru fallegar og æðislegar og ég kann að meta það. Ég þarf enga afsökun"  Pabbi hennar tók í sama streng. En þrátt fyrir að ungfrúin væri sátt við ummæli Brent þurfti pólitíska réttmælisstefna feministafélagsins að fá framgang. - og það í Bandaríkjunum af öllum löndum.

Nú skil ég fyrst þegar country söngvarinn söng lagið. "If I said you had a beutiful body would you hold it against me"     

http://www.youtube.com/watch?v=nAVUrq7jvtM

 


Breska veðurstofan endurskoðar spár um hnattræna hlýnun.

Frá því er sagt í dag að breska veðurstofan hafi breytt um spá um hnattræna hlýnun og geri ráð fyrir að árið 2017 þá hafi meðalhitinn verið nánast sá sami  í 20 ár. Nýar vísindaspár gera jafnvel ráð fyrir kólnun næstu 5 árin. En þeir segja í leiðinni að þrátt fyrir að þeir spái kólnun næstu 5 árin þá segi það ekki söguna um hvernig hnattræn hlýnun verði til lengri tíma litið. Heyr fyrir þeim. Loksins er hægt að fara að tala vitrænt um þessi mál.

Hlýjasta árið í Bretlandi í 160 ár var árið 1998. Svo virðist því sem eitthvað hafi komið í veg fyrir hnattræna hlýnun af mannavöldum í þau 14 ár sem liðin eru frá þeim tíma. Dr. Peter Stott yfirmaður lotslagsbreytingarannsókna á bresku veðurstofunni segir að hægt hafi á hlýnun frá árinu 2000 í samanburði við hlýnunina sem varð milli 1990 og 2000. 

Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð óafturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.

Fróðlegt verður að heyra hvað trúboði hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum Al Gore fyrrum varaforseti Bandaríkjanna segir um málið. Hann var raunar svo vinsamlegur að bjóða Forseta lýðveldisins með sér á Suðurskautið fyrir skömmu og þar komust þeir að því að ísinn á Suðurskautinu væri að minnka meðan aðrir vísindamenn og mælingar segja að hann sé að aukast.

Ævintýrið um hnattræna hlýnun af mannavöldum er dýrasta ævintýrið sem mannkynið hefur nokkurn tíma látið sér detta í hug að trúa á.  Það breytir hins vegar ekki því að okkur ber að ganga vel um náttúruna en það er annað mál og kemur ævintýrinu um  hnattrænu hlýnuninni ekkert við.


Afkastalítill embættismaður

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að efla réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja. Það eru réttindi borgaranna að geta leitað til umboðsmanns þegar stjórnvöld fara ekki að lögum. Almenningur á líka að geta treyst því að umboðsmaður afgreiði málin með vönduðu áliti innan hæfilegs tíma.  Þannig er stjórnvöldum veitt aðhald og borgararnir ná rétti sínum  gagnvart stjórnvöldum án tilkostnaðar og tíma sem fylgir dómsmálum. 

Þetta er því miður ekki reyndin.  Sem lögmaður verð ég ítrekað var við það að einstaklingar og fyrirtæki kvarta undan málshraða Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis.  Jafnframt heyri ég kvartað undan bitlausum álitum.  Ef skoðuð er heimasíða umboðsmanns þá eru afköst embættisins þannig að skipulag mála og vinnubrögð geta ekki verið í réttu og góðu horfi. 

Á heimasíðu umboðsmanns er birt yfirlit yfir „10 síðustu mál afgreidd af umboðsmanni“.  Þar má sjá að á síðustu fjórum mánuðum ársins 2012 voru sex mál afgreidd hjá umboðsmanni.  Það þýðir að eitt mál er afgreitt að meðaltali á hverjum 14 vinnudögum (112 vinnustundir fyrir einn mann).  Slík afköst eru ekki boðleg hjá embætti þar sem starfa átta lögfræðingar samkvæmt upplýsingum á heimasíðu embættisins. 


Samfylkingin og Þjóðkirkjan

Ef til vill var biskup Íslands nokkuð hvatvís að ákveða eftir því sem virðist að geðþótta að kirkjan skuli beita sér fyrir söfnun á þörfum tækjakaupum á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi. Sjálfsagt hefði verið betra að fjalla um þessi mál á Kirkjuþingi.  Það er alltaf spurning hvar og hvernig stofnun eins og Þjóðkirkjan á að beita sér.  Heppilegra hefði e.t.v. verið að þjóðkirkjan einhenti sér af öllu afli í söfnun til að vinna bug á hungri og húsnæðisleysi í þjóðfélaginu. Hvað sem því líður þá ber samt að virða ákvörðun biskups. Öllum má vera ljóst að þar er talað af heilum hug og brýna nauðsyn ber til að kaupa tæki til spítalans.

Nokkrir forustumenn Samfylkingarinnar gagnrýna þessa ákvörðun þjóðkirkjunnar og reyna að gera lítið úr henni og hæðast jafnvel að þessari góðu viðleitni kirkjunnar ti að koma sjúkum til hjálpar. Þar af hafa tveir þingmenn flokksins tjáð sig sérstaklega með mjög neikvæðum hætti í garð þjóðkirkjunnar án þess að benda á nokkur betri ráð.  Það er jafnvel haft í heitingum við þjóðkirkjuna af hálfu sumra Samfylkingarmanna.

Þessi afstaða því miður allt of margs forustufólks í Samfylkingunni kemur ekki á óvart. Innan Samfylkingarinnar eru öfl sem vinna leynt og ljóst gegn kristni og þjóðkirkjunni. Skemmst er að minnast þess, þegar velferðarráð Reykjavíkur undir forustu Samfylkingarkonunnar Margrétar Sverrisdóttur ákvað að úthýsa kirkjunni úr öll skólastarfi í Reykjavík.  Við hver jól veldur þetta miklum vandamálum, en velferðarráð Samfylkingar og Besta flokksins lætur engan bilbug á sér finna.  Kærleiksboðskapur Jesús á ekki erindi að þeirra mati í skólastarf í kristnu landi eins og Íslandi.  


Opinberun forsætisráðherra

Jafnan er hlustað er á ræðu forsætisráðherra á gamlárskvöld með mikilli athygli. Eðlilega eru gerðar kröfur til þess að ráðherrann fari rétt með staðreyndir.  Þess gætti Jóhanna Sigurðardóttir því miður ekki í áramótaávarpi sínu. Í ávarpinu sagði forsætisráðherra m.a: „Danski greiningaraðilinn sem sá hrunið fyrir og varaði okkur við,“Hér vísar forsætisráðherra  til skýrslu  Danske bank frá 21.mars 2006 sem unnin var m.a. af Lars Christiansen.  Sú skýrsla fjallar um efnahagskerfið á Íslandi og meginniðurstaðan  að kerfið sé við að ofhitna, viðskiptahalli sé um 20% af þjóðarframleiðslu og skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja sé orðin hættulega mikil.„Danski sérfræðingurinn“  spáir engu um fall íslenskra banka.  Í skýrslunni segir  m.a. að bankar verði að draga úr lánum til íslenskra fyrirtækja og einstaklinga, en bankarnir séu almennt vel settir varðandi gjaldmiðilsbreytingar en gætu þurft að selja erlendar eignir ef þeir lentu í mótvindi.  Ekkert kemur fram í skýrslunni sem vísar til hugsanlegs falls íslensku bankanna. Lars Christiansen hefur mótmælt því opinberlega að hann hafi spáð fyrir um bankahrunið.  En það hefur engin áhrif á forsætisráðherra og suma fjölmiðlamenn. Í skýrslu Danske bank er sérstaklega varað við, að komi til niðursveiflu í efnahagslífinu gætu einstaklingar lent í miklum vanda vegna verðtryggðra lána. Það voru fleiri en „danski sérfræðingurinn“ , sem vöruðu við. Seðlabankinn gerði það í ritinu Peningamál í nóvember 2006 og 2007. Árið 2007 talar Seðlabankinn um  þörf  á ströngu aðhaldi þar til jafnvægi næst og varar við auknum útgjöldum hins opinbera.Jóhanna Sigurðardóttir settist í ríkisstjórn á miðju ári 2007 og stýrði útgjaldafrekasta ráðuneytinu.  Við fjárlagagerð árið 2008 samþykktu þáverandi stjórnarflokkar rúmlega 20% raunhækkun ríkisútgjalda einkum til mála undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það var að þvert á varnaðarorð „danska sérfræðingsins“, viðvaranir Seðlabanka Íslands og hluta stjórnarandstöðunnar þar á meðal þess sem þetta ritar. Af vitnaskýrslu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir Landsdómi  má ráða að forsætisráðherra hafi ekki fylgst með efnahags- eða bankamálum á árunum 2007 og 2008.  Skýrslu danska bankans  frá 2006 virðist því vera henni opinberun nú.

Við hrunið krafðist ég þess að sett yrðu sérstök neyðarlög sem tækju verðtrygginguna úr sambandi sbr. það sem fram kemur hjá „danska sérfræðingnum“.  Jóhönnu Sigurðardóttur var falið það mál af þáverandi ríkisstjórn og hún ákvað að gera ekkert.  Forsætisráðherra hafði þá ekki áttað sig á hinni miklu opinberun „danska sérfræðingsins“.

(Grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag)


Hlutfallslega mest aukning þjóðarframleiðslu hvað?

Jóhanna Sigurðardóttir þrástagast á því að á Íslandi hafi orðið mestur vöxtur þjóðarframleiðslu ríkja í Evrópu á síðasta ári. Þetta er raunar ekkert afrek miðað við aðstæður undanfarin ár.

Þetta minnti mig á vini mína tvo sem fóru í megrunarkeppni um áramótin 2011. Þeir voru báðir 100 kg. Um áramótin 2012 hafði Gulli vinur minn náð af sér 8 kg. en Gústi vinur minn bætt á sig 2. Þeir ákváðu að halda keppninni áfram og um þessi áramót hafði Gulli  bætt á sig 2 kílóum og var orðinn 94 kg., en Gústi náði af sér hálfu og var 101.5 kg. Þegar þeir ræddu þetta vinirnir sagði Gústi. Þú ert nú meiri feitabollan Gulli bætir á þig 2 kílóum meðan ég næ af mér hálfu kílói. Gústi ræddi það síðan endalaust hvað hann hefði náð að gjörsigra Gulla hlutfallslega í megrunarkeppninni árið 2012.

Hér fljótum vér eplin sögðu hrossataðskögglarnir.


Nýu fötin keisarans í útgáfu Þorvaldar Gylfasonar

Flestir þekkja söguna af Nýju fötum keisarans eftir H.C. Andersen þar sem litla barnið var eitt um það að benda á að keisarinn væri ekki í neinum fötum, eftir að loddarar og falsskraddarar höfðu talið öllum trú um að þeir hefðu gert þann mesta listvefnað sem gerður hefðu verið á byggðu bóli. Þegar barnið benti á að keisarinn væri ekki í neinum fötum þá þorðu allir að viðurkenna það og sáu ruglið.

Í nýrri útgáfu af ævintýrinu eftir Þorvald Gylfason segir: Stjórnlagaráð kom saman og leit yfir verk sitt og sagði að aldrei hefði nokkru þessu líkt verið gert. Hér er hin fullkomna stjórnarskrá. Forsætisráðherra dásamaði verkið og  þjónar hennar og töldu  listvefnað. En forsetinn sagði nei stjórnlagaráðið er nánast ekki í fötum. Uss sagði Þorvaldur þú átt að þegja þú kemur of seint. Falsskraddarar stjórnlagaráðsins sameinuðust síðan um að ráðast að forsetanum undir forustu Þorvaldar prófessors.

Útgáfa H.C. Andersen er betri og trú hans á að fólki átti sig á því þegar verið er að rugla það í ríminu. Hvað hefði gerst í ævintýrinu ef pabbi barnsins hefði sagt "uss þú mátt ekki segja neitt lengur."

Þá gengi keisarinn enn um nakinn eins og stjórnlagaráð og stór hluti Alþingismanna vill gera í stjórnarskrámálinu.


DR1 og RÚV

Áramótaávarp danska forsætisráðherrans Helle Thorning-Schmidt var mjög athyglisvert. Hún lagði m.a. áherslu á að frelsi fylgdi ábyrgð, nokkuð sem samflokksfólk hennar hér telur ekki vera. Einnig var henni tíðrætt um nauðsyn samkeppni og að danir stæðu sig betur og legðu sig meira fram hver og einn til að ná árangri. Loks vék hún sérstaklega að menntun unga fólksins og sagði það stefnu sína að dönsk börn væru með bestu menntun sem völ væri á.

Að loknu ávarpi danska forsætisráðherrans var fjallað um ræðu hennar af tveim fréttamönnum danska sjónvarpsins og þrem fulltrúum stjórnmálaflokka. Að mínu mati fagleg afgreiðsla fjölmiðils á einni mikilvægustu ræðu sem forsætisráðherra flytur á hverju ári.

Á RÚV í gær flutti forsætisráðherra sína áramótaræðu, sem var að mestu endurtekning á þeim atriðum sem hún fjallaði um í Morgunblaðsgrein sama dag. Að ræðunni lokinni var engin umræða frekar en verið hefur. Stjórnendur RÚV þurfa að skoða hvort það er ekki meiri þjónusta við almenning í landinu og faglegra að fara að eins og þeir gera hjá danska ríkissjónvarpinu.

Helle Thorning-Schmidt lagði í ræðu sinni áherslu á gildi ábyrgðar, frjáls markaðar,samkeppni og framtíðina. Jóhanna Sigurðardóttir lagði áherslu á hvað ríkisstjórnin væri góð og hvað við værum í góðum málum. Eina framtíðarsýnin var sú að troða stjórnlagaráðstillögunum ofaní þjóðina.

Forseti lýðveldisins gerði stjórnlagaráðstillögurnar og fruntaskap forsætisráðherra að umtalsefni í áramótaræðu sinni og fjallaði um málið eins og sannur landsfaðir og benti á það mikilvægasta í málinu. Formenn stjórnmálaflokka ættu að taka mark á því sem forseti lýðveldisins sagði í þessu efni og setjast nú þegar niður til að móta þær tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem þokkaleg sátt er um og þjóðin er almennt sammála um að nái fram.

En varðandi ávarp forsetans þá væri einnig við hæfi að RÚV hefði umræður um ræðuna strax að henni lokinni eins og gert er í danska sjónvarpinu varðandi ræðu forsætisráðherra.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 248
  • Sl. sólarhring: 777
  • Sl. viku: 4069
  • Frá upphafi: 2427869

Annað

  • Innlit í dag: 231
  • Innlit sl. viku: 3767
  • Gestir í dag: 227
  • IP-tölur í dag: 220

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband