Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Leiðin til vondra og versnandi lífskjara

Í kvöldfréttum RÚV þ.12.2. var sagt frá því að lífskjör hér á landi væru mun lakari en á hinum Norðurlöndunum. Launþegar hér hafa 60% lægri tekjur en launþegar á hinum Norðurlöndunum. Auk þess erum við með dýrustu lán í Evrópu. 

Markmið okkar er að vera í fararbroddi ásamt frændum okkar á Norðurlöndunum og geta boðið fólkinu í landinu upp á bestu lífskjör sem völ er á, frelsi og frjálsa samkeppni. Þessi markmið eru því miður fjarlæg nú  og langt í að framfarasókn þjóðarinnar hefjist.

Sama dag og fréttist af bágum kjörum launamanna í landinu voru stjórnmálamenn þjóðarinnar önnum kafnir við  að gera kröfur um að  auknar byrðar yrðu lagðar á skattgreiðendur og reyna að koma í veg fyrir samkeppni á fjármálamarkaðnum, til að bjarga örsparisjóð á Siglufirði. Fjármálaráðherra og varaformaður Framsóknar jörmuðu um þetta í einum kór eins og þau hafi gleymt að gjaldþrota sparisjóðastefna Steingríms J. hefur þegar kostað þjóðina yfir 50 milljarða.

Fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra og strengjabrúða hans í Samfylkingunni voru önnum kafnir við að auka ríkisstyrk til Hörpu til að rugla samkeppnina á þeim markaði enn meir. Skattgreiðendur borga. Stjórnir Hörpu sitja allar áfram enda málið í endalausu ferli hjá menntamálaráðherra.

Leiðin til vondra og versnandi lífskjara er vörðuð og markviss undir forustu hugsjónalausra, markmiðslausra stjórnmálamanna sem telja rétt að skattgreiðendur hendi endalaust góðum peningum á eftir vondum. 


Afrek Kúbu Gylfa Magnússonar.

Kerfisbundinn misskilningur Gylfa Magnússonar“ nefnist athyglisverð grein eftir Heiðar Guðjónsson, hagfræðing, sem birtist í Fréttablaðinu í gær.  Þar er fjallað um ýmis klúður og hrakspár Gylfa Magnússonar eins og baráttu hans fyrir því að þjóðin samþykkti landráðasamninga um Icesave gegn hótunum um efnahagslegar hörmungar; „Ísland verður Kúba norðursins“.  

Rifjuð eru upp að meðmæli Gylfa með yfirtöku ríkisins á Byr og SpKef og yfirlýsingum um að það myndi ekki kosta þjóðina neitt þegar reyndin er reikningur upp á tugi milljarða sem skattgreiðendur verða að borga.  Minnt er á afleik Gylfa og Steingríms Sigfússonar í uppgjöri við kröfuhafa gamla Landsbankans, en þeir samningar eru skaðlegir gengi krónunnar.  Að síðustu er fjallað um stjórnarsetu Gylfa fyrir Samfylkinguna í Orkuveitu Reykjavíkur og gjaldskrárhækkanir fyrirtækisins.

Þó mörgum þyki nóg um við lestur greinarinnar, þá eru pólitísk „afrek“ Gylfa Magnússonar á stuttum ferli ekki öll upptalin í grein Heiðars.  Þannig nefnir Heiðar ekki hvernig Gylfi og Steingrímur J. ríkisstyrktu VBS, Saga Capital og Askar Capital um tugi milljarða á kostnað skattgreiðenda, sem fóru á hausinn skömmu síðar.  Ekki er fjallað um hina skaðlegu sparisjóðalöggjöf sem Gylfi mælti fyrir árið 2009 sem varð að afnema árið 2012. Ekki er fjallað um það hvernig vogunarsjóðum voru seldir Íslandsbanki og Arion banki á undirverði.  Ekki er fjallað um svikin loforð við að koma upp „skjaldborg heimilana“ né hvernig Gylfa var ýtt út úr ríkisstjórn til að hann þyrfti ekki að standa þinginu reikningsskil  ósannra ummæla sinna.

Þá má ekki gleyma afrekum Gylfa sem stjórnmanns í Kauphöllinni á bóluárunum, þar sem taktur hrunadansins var sleginn, eða formennska hans í stjórn Samkeppniseftirlitsins á árunum fyrir hrun þegar auðhringir og viðskiptasamsteypur fengu að vaxa og dafna.

Það var fróðlegt miðað við þátt Gylfa Magnússonar í aðdraganda Hrunsins að hann skyldi vera fyrstur mótmælanda á Austurvöll til að slá taktinn með Herði Torfasyni en sú þjónkun hans við óeirðaröflin í Vinstri grænum og Samfylkingunni varð til þess að hann var gerður að ráðherra í ríkisstjórn þeirra. 

Jafnvel þó menn eins og Gylfi bregði sér ítrekað í gervi kamelljóna og skipti um litum eftir aðstæðum þá er ástæða til að benda á hvernig þau eru á litinn hverju sinni.


Pilsin þrjú og Árni Páll

Þær Jóhanna Sigurðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir hafa leitt aðförina að stjórnarskránni og sótt fast að óheppilegar og skaðlegar breytingartillögur stjórnlagaráðs nái fram að ganga.  Svo virtist þó fyrir helgi sem  nokkur flótti væri runnin á liðið.

Ætla mátti að nú væri nýr formaður Samfylkingarinnar farinn að setja að einhverju leyti vitrænt yfirbragð á stefnu Samfylkingarinnar í málinu og reyndi að hafa það vit fyrir fólki að leiða því fyrir sjónir að framkomnar tillögur til breytinga á stjórnarskránni væru ótækar.

En það þurfti ekki lengi að reyna Árna Pál. Í dag brást hann sem formaður Samfylkingarinnar og lýsti stuðningi við að atlagan gegn stjórnarskránni héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þetta kom á óvart og var ekki í samræmi við það sem hann sagði í lok landsfundar Samfylkingarinnar.

Árni Páll er löglærður og gerir sér fulla grein fyrir því að það væri mikið ógæfuspor að samþykkja þau drög að stjórnarskrá sem liggja fyrir Alþingi og stafa að mestu leyti frá stjórnlagaráði. Hann veit líka að málið hefur ekki fengið eðlilega þinglega meðferð. Þá hvatti Árni Páll til átaka á grundvelli atlögu að stjórnarskránni sama dag og álit Feneyjarnefndarinnar um stjórnarskrána var að koma í Alþingishúsið og engin hafði lesið það. Maðurinn hefur greinilega lært slæmu lestina af Jóhönnu.

Árni Páll veit það jafnvel og pilsin þrjú að úr því sem komið er verða engar stjórnarskrártillögur samþykktar nema í samráði við stjórnarandstöðuna. Tíminn er einfaldlega of stuttur þannig að þó að ítrustu bolabrögðum verði áfram beitt í málinu þá er tíminn runninn út. Leikritið sem pilsin þrjú með Árna Pál lafandi í öllum pilsföldunum leika nú er því ekki annað en sjónarspil fyrir þær einföldu sálir sem enn halda að Samfylkingunni sé  alvara að knýja fram ónýtar og skaðlegar breytingar á stjórnarskránni.


Forseti ASÍ skiptir um stefnu.

Forseti ASÍ sem ber ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur hvað mesta ábyrgð á því að ekki var farið að tillögu minni við Hrunið að verðtryggingin væri tekin úr sambandi hefur nú iðrast gjörða sinna. 

Í fréttum í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ að nauðsyn væri að taka upp danska kerfið varðandi húsnæðislán til neytenda.  En ekki nóg með það. Gylfi sagði líka að verðtryggingin gengi ekki. Við sem erum á móti verðtryggingunni og höfum barist gegn henni um árabil fögnum að sjálfsögðu þessum nýja liðsmanni í baráttunni. Við tökum á móti Gylfa eins og segir í Nýja testamenntinu um fögnuð yfir einum  syndara sem snýr frá villu síns vegar. Til hamingju Gylfi og vertu velkominn.

Gylfi tekur þar með undir kröfuna um sambærilegt lánakerfi og á hinum Norðurlöndunum. Nú þegar þessi öflugi liðsmaður er kominn í hóp okkar andverðtryggingarsinna fer vonandi að hrikta í máttarstoðunum sem halda þessu svívirðilega ránskerfi verðtryggingarinnar gangandi.


Einkavinavæðing Steingríms J.

Steingrímur J. skipaði einkavin sinn Svavar Gestsson yfirmann Icesave samninganefndarinnar. Þjóðin þekkir hvernig til tókst.

 

Nú hefur annar einkavinur Steingríms, Gylfi Magnússon, fyrrum samráðherra hans hlotið umbun þjónkunar sinnar og störf sín fyrir Vinstri grænu byltinguna í desember 2008 og janúar 2009.

 

Steingrímur J telur eðlilegt að Gylfi Magnússon sé formaður nefndar um tillögur að fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða.  Margir velta því fyrir sér hvort það hafi hvarflað að Steingrími J að þessi skipan væri fagleg og besti maðurinn valinn til þessara mikilvægu starfa. 

 

Gylfi hefur vissulega töluverða reynslu úr stjórn Kauphallarinnar á bóluárunum, en einhverra hluta vegna hafa menn eins og Gylfi og Steingrímur alveg gleymt að ræða um ábyrgð þeirrar stofnunar. 

 

Skarpskyggni Gylfa og spá varðandi  Icesave-samninga þar sem Gylfi sagði að við yrðum  Kúba noðursins ef við samþykktum ekki Svavarssamningana um Icesave sýndi djúpa og einlæga samkennd með Steingrími

 

Sömu samkennd sýndi Kúbu Gylfi líka við sóun á fjármunum skattborgara í fjármálafyrirtæki á borð við VBS, Sögu Capital, Askar Capital, SpKef og Byr. 

 

Einhvern tímann hefði Steingrímur talið fráleitt að skipa útgefanda skráðra verðbréfa í slíka nefnd.


Til varnar frelsi hverra?

Kona sem er fórnarlamb nauðgunar í Afganistan hefur verið neydd til að giftast kvalara sínum. Konan sem er aðeins þekkt undir nafninu Gulnaz hefur verið síðustu 13 mánuði í kvennafangabúðum. Konan var dæmd í 12 ára fangelsi fyrir svonefndan "siðferðisglæp" þegar ættingi hennar nauðgaði henni og gerði hana ófríska. Hún fæddi barnið meðan hún var í fangelsi.

 Þessi kona Gulnaz var náðuð af sérstökum vini Vesturlanda og handbendi Bandaríkjanna forsetanum sjálfum Hamid Karzai í desember 2011 með því skilyrði að hún giftist árásarmanninum.

Til varnar frelsi hverra eru krakkarnir frá Bandaríkjunum og hinum Nato ríkjunum að láta drepa sig og limlesta í Afganistan?


Nýar áherslur eða orð án innihalds

Árni Páll Árnason flutti um margt athyglisverða ræðu eftir að hann var kjörinn formaður Samfylkingarinnar.  Tal Árna Páls um samfélagssýn norrænna jafnaðarmanna og fráhvarf frá hugmyndafræðilegum skotgröfum er  árás á stefnu Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur vikið frá samfélagssýn jafnaðarmanna og stendur föst í foræði vinstri sinnaðrar hugmyndfræðilegrar skotgrafar, þar sem m.a. er lýst yfir stríði við markaðshagkerfið.

Árni Páll Árnason er markaðshyggjumaður eins og flokksbræður hans á hinum Norðurlöndunum. Áhersla  hans á frið og sátt er athyglisverð.  Meini Árni Páll það sem hann sagði þá tekur hann stjórnarskrármálið strax úr átakaferli og  finnur  sátt með sama hætti og jafnaðarmenn á hinum Norðurlöndunum. 

Skuldavandi heimilanna er mikilvægasta málið sem verður að leysa á næsta kjörtímabili. Árni Páll hafði þetta að segja um málið:

"Heil kynslóð stendur frammi fyrir óleystum vanda. Eitt er skuldavandinn sem heldur mörgum í helgreipum ofveðsetningar. Það er ekki ásættanlegt að gefa ekki skýr svör um hvort lausna sé að vænta í afmörkuðum málum, eins og lánsveðsmálunum. Ég er tilbúinn til að hlusta á allar hugmyndir um lausnir á skuldavandanum, en veit af biturri reynslu að hann er of umfangsmikill til að honum verði létt af öllum án þess að hann verði færður á aðra sársaukalaust og ég veit líka að allar nýstárlegar úrlausnir munu reyna á þanþol stjórnarskrárinnar. En ég er til.“

Í fyrsta lagi viðurkennir Árni Páll að ríkisstjórnin hafi ekki leyst skuldavanda heimilanna hvað svo sem Jóhanna segir. Í annan stað þá segir hann að það sé ekki ásættanlegt að halda mörgum í helgreipum ofurveðsetningar. Í þriðja lagi að gefa verði skýr svör um hvort lausna sé að vænta. Í fjórða lagi að hann sé tilbúinn í að hlusta á allar góðar tillögur jafnvel þó það reyni á þanþol stjórnarskrárinnar.

Þetta þýðir að Árni Páll er tilbúinn að ganga lengra en gert hefur verið jafnvel svo langt að reyni á þanþol stjórnarskrárinnar. Á það þol reynir ekki nema um einhvers konar skerðingar eignarréttar sé að ræða. 

Eina skynsamlega lausnin og sú eina tæka út frá janfréttissjónarmiðum, hagrænum sjónarmiðum og sanngirnissjónarmiðum er að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður lánin þó ekki væri um meira en hækkanir lánanna vegna skattahækanna en það eitt hefur fært 100 milljarða frá neytendum til fjármagnseigenda.

En Árni Páll við viljum sjá tillögur þínar  til að ná aukinni sátt í samfélagið og raunhæfar tillögur um lausn skuldavandans. Vígorð hins nýja formanns eru: Lífskjör, leikreglur, tækifæri og lífsgleði. 

Þjóðin getur ekki notið góðra lífskjara nema skattar verði lækkaðir, fjárfesting aukin og verðtrygging á neytendalánum afnumin. Það verða engin tækifæri eða hagræn lífsgleði eða eðlilegar leikreglur nema arðrán verðtryggingarinnar verði afnumið af neytendalánum Árni Páll Árnason. 

Þess vegna Árni Páll Árnason markaðu stefnuna. Það er þitt hlutverk sem formanns.  Hvað viltu gera?


Ábyrgar leiðir Jóhönnu Sigurðardóttur

Jóhanna Sigurðardóttir sagði við heittrúað Samfylkingarfólk fyrir stundu að það hefði verið ábyrgari leið að leggja hundraða milljarða Icesave byrðar á þjóðina með samningum heldur en að láta EFTA dómstólinn dæma að skuldbindingar vegna Icesave væru skattgreiðendum á Íslandi gjörsamlega óviðkomandi. 

Fróðlegt að vita hvort Jóhanna segir Samfylkingarfólki líka að hún hafi leyst skuldavanda heimilanna.

Að hún hafi afnumið verðtrygginguna.

Að afskrifaðir hafi verið tæpir 300 milljarðar af skuldum heimilanna.

Þá verður fróðlegt að heyra hvernig Jóhanna fjallar um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að á stjórnartíma Jóhönnu hafa um 2% þjóðarinnar flúið land. Fjárfesting í atvinnufyrirtækjum verið nánast engin og ekki lagður grunnur að neinni arðrænni nýsköpun.

Nú segja e.t.v. einhverjir að ég gleymi "Græna hagkerfinu".  Nei þess vegna talaði ég um arðræna nýsköpun. Græna hagkerfið þetta gæluverkefni sumra stjórnmála- og háskólamanna er allsstaðar  óarðbært og rekið með ærnum kostnaði skattgreiðenda.

Jóhanna Sigurðardóttir reynir e.t.v. líka að segja að það sé skynsamleg leið í atvinnumálum að skattleggja arðbæra atvinnustarfsemi og millifæra þá peninga í óarðbær gæluverkefni eins og "Græna hagkerfið."


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 731
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband