Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Öngstræti borgarstjórnarflokka

Í pólitík kemur það fyrir að flokkar uppskera eins og þeir sá.

Á síðasta kjörtímabili brugðust borgarstjórnarflokkar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar kjósendum sínum. Myndaðar voru vanburðugir meiri hlutar þar sem meiri hlutinn valt á því hvort einn borgarfulltrúinn var veikur eða ekki. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins toppaði ábyrgðarleysið með myndun meirihluta með Ólaf F. Magnússon sem borgarstjóra. 

Í kjölfar þessa ákvað þriðjungur kjósenda að kjósa landsþekktan skemmtikraft sem stóð ekki fyrir neitt sérstakt í pólitík. Þáverandi borgarstjóri boðaði þá líka að öll dýrin í borgarmálapólitíkinni væru skoðanasystkin. Slík hugmyndafræðileg uppgjöf gaf skemmtikraftinum háspilin á hendurnar.

Nú rúmum þrem árum síðar mælist flokkur skemmtikraftsins með mest fylgi í Reykjavík. Samfylkingin sem hélt áfram þeim hráskinnaleik sem hún stóð fyrir næsta kjörtímabil á undan ákvað að sýna fullkomið ábyrgðarleysi og hugmynda- og hugsjónasneyð þegar flokkurinn valdi að koma skemmtikraftinum í borgarstjórastól.  Fylgi Samfylkingarinnar er að vonum í samræmi við það ábyrgðarleysi.

Þrátt fyrir fjögurra ára óstjórn skemmtikraftsins og Samfylkingarinnar í borginni, sem kemur til að kosta Reykvíkinga mikið, þá hefur borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins ekki tekist að marka sér vígstöðu sem virkt og viðurkennt stjórnarandstöðuafl. Fjórir af hverjum tíu stuðningsmönnum flokksins í borgarstjórnarkosningum hafa horfið frá honum, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun, frá  því sem að best lét.  

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins þarf að skoða hvort hann er að uppskera eins og hann á skilið miðað við störf sín í borgarstjórn. Sé svo ekki þá hafa kjósendur greinilega ekki orðið varir við það. 


Tímabær umræða um ólögleg fíkniefni

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi Hæstarréttardómari skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag undir heitinu "Vöknum".  Þar er bent á nauðsyn þess að nálgast fíkniefnavandann með öðrum hætti. Þó það sé ekki orðað ótvírætt í greininni þá verður ekki annað skilið en að Jón Steinar sé að leggja til að einhver fíkniefni sem nú eru ólögleg verði lögleg.

Umræða um þessi mál er erfið vegna þess að víða er mikill harmur sem hefur fylgt fíkniefnaneyslu, afbrot og dauðsföll. Það á raunar við bæði um lögleg sem ólögleg fíkniefni. Jón Steinar hvetur til að einstaklingarnir beri í auknum mæli ábyrgð á sjálfum sér en refsivaldi ríkisins sé ekki beitt ótæpilega gagnvart þeim sem ánetjast eiturlyfjafíkn. Fyrir þeirri skoðun færir Jón sannfærandi rök.

Tímaritið Economist telur að lögleiða eigi algengustu ólögleg fíkniefni. Tímaritið hefur ítrekað bent á í ritstjórnargreinum það sama og Jón Steinar í grein sinni. Það er að sú stefna sem fylgt er í dag gerir fyrst og fremst glæpamenn ríka, dregur ekki úr neyslu, en gerir hana hættulegri en ella væri vegna mismunandi gæða, styrkleika og íblöndunarefna.

Economist hefur ítrekað bent á að almennt veigri menn sér við að taka til máls um eiturlyfjavandann þar sem að það séu svo sterkir hagsmunir sem vilji hafa óbreytta stefnu m.a. þeir sem hagnast á viðskiptunum.  Heimsviðskipti með ólögleg fíkniefni eru ef ég man rétt að verðmætum talið meiri en með vopn. Eiturlyfjahringir í Mexícó eru með einkaheri, flugskeyti og kafbáta.

Hlutfallslega flestir refsifangar eru í Bandaríkjunum vegna löggjafar í fíkniefnamálum. Fjórðungur allra fanga í heiminum er í Bandaríkjunum las ég í grein um daginn þó þar búi bara 5% jarðarbúa. Þetta gerist í landi hinna frjálsu. Bandaríkin ættu að íhuga hvernig þeim gekk að uppræta brennivínið meðan það var ólöglegt.  Skipulögð glæpastarfsemi var ekki til í Bandaríkjunum fyrir tíma áfengisbannsins. Hér er um enn verra vandamál að ræða, meiri peningar og auðveldari flutningsleiðir til neytandans.

Þær staðreyndir að stefnan í eiturlyfjamálum dregur ekki úr neyslu og gerir glæpamenn ríka ættu að duga til að ábyrgir aðilar í samfélagi þjóðanna tækju þessi mál til skynsamlegrar skoðunar.


Sprengjur eða friðarsamningar og umbætur

Obama fer nú um lönd og álfur og reynir að fá ríki til fylgis við sprengjuárásir Bandaríkjanna á Sýrland. Sýrland þarf ekki fleiri sprengjur heldur frið og umbætur. Vesturlandabúar hafa mislesið hið svokallaða arabíska vor hrapalega. Arabíska vorið snérist ekki um lýðræði heldur brauð og lífskjör.

Uppreisnir og stríð snúast sjaldnast um grundvallaratriði í trúfræði, pólitík eða heimspeki. Efnahagsleg atriði eru venjulega það sem skiptir mestu. Stundum er það auglóst eins og þegar nasistar komust til valda vegna óðaverðbólgu, vonleysis og hungurs í Weimar lýðveldinu sem og franska byltingin.

Sömu ástæður eru að baki Arabíska vorinu. Efnahagslíf ríkja á þessu svæði er undantekningarlítið í miklum erfiðleikum. Fámenn valdaklíka arðrænir almenning og skiptir olíuauðnum á milli sín. Almenningur býr við sára fátækt og vonleysi. Aðeins tvö lönd í þessum heimshluta Ísrael og Sameinuðu Arabísku furstadæmin skera sig úr enda búa þau ein við opið hagkerfi án gjaldeyrishafta.

Þjóðarframleiðsla á mann í Sýrlandi og Egyptalandi er um 400 þúsund krónur á ári. Matarverð fer hækkandi og helmingur  er undir 25 ára aldri, fólk sem sér ekki fram á að geta látið drauma sína rætast nema með því að gera uppreisn gegn valdaklíkunni eða flytja úr landi til Evrópu eða USA. 

Assad og klíka hans vill ekki breytingar frekar en hershöfðingjarnir í Egyptalandi eða kóngar og prinsar í Jórdaníu og Saudi Arabíu. Forréttindastéttin gerir allt til að tryggja sér auð og völd meðan almenningur sveltur. Frelsi einstaklinganna er takmarkað og frjálst markaðshagerfi ekki fyrir hendi. 

Það þjónar litlum tilgangi að skipta á einum einræðisherra fyrir annan eins og raunin varð í Egyptalandi. Víðtækar breytingar á stjórnarstofnunum og efnahagslífi verða að eiga sér stað.  Það verður að afnema einokunarfyrirtækin og forréttindin og koma á markaðshagkerfi og stjórnarskrárbundnum ríkisstjórnum sem hægt er að skipta um í frjálsum kosningum.

Obama og Bandaríkjamenn telja það skipta  máli að skjóta eldflaugum á stjórnarstofnanir í Sýrlandi. Sú leið Bandaríkjanna að senda fyrst inn landgönguliðið og athuga svo málið er röng. Obama ætti að reyna að fá Rússa og Kínverja til að standa að áætlun um friðsamlega lausn í Sýrlandi og víðar í þessum heimshluta. Bandaríkjamenn ættu að berjast fyrir því að spilltu valdastéttirnar færu frá en reynt yrði að byggja upp stjórnarstofnanir, lýðræðiskerfi og efnahagslíf á grundvelli markaðslausna. 

Milljónir flóttamanna og þær hroðalegu mannlegu hörmungar sem fólkið í Sýrlandi þarf að þola kallar á alvöru lausnir en ekki bull og flugskeytaárásir. Hvernig stendur á því að lýðræðið í dag hefur hvergi komið afburðafólki til valda í hefðbundnum lýðræðisríkjum, sem sjá víðtækari og betri lausnir en flugskeytaárásir.

 


Barátta Jóns Gnarr gegn Guði

Jón Gnarr hefur hafið baráttu gegn æðra mætti, sem hann nefnir Guð óháð því hvaða trúarbrögð eiga í hlut. Hann segir að Íslamistar, Ameríkanar og Rússar tali mikið um Guð, drepi og undiroki í nafni Guðs. Þá segir hann líka að trú á Guð leiði til geðveiki og heimur án trúarbragða væri miklu betri og öruggari.

Þessi ummæli hafa fengið feiki góðar viðtökur og m.a. dæmi um að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lýst velþóknun á þessu nýjasta rugli borgarstjórans.

Fólki er frjálst að trúa því sem það vill eða trúa ekki neinu ef það vill. Jón Gnarr er ekki sá fyrsti og verður ekki sá síðasti sem ákveður að berjast gegn Guði. Það er hans mál. Hins vegar er miður þegar menn byggja skoðun á staðreyndavillum eins og borgarstjóri gerir.

Rússar og Bandaríkjamenn tala ekki mikið um Guð og heyja ekki stríð og undiroka þjóðir í nafni Guðs. Íslamistar eru trúarbragðahópur.  Sú skoðun að trú á  Guð leiði til geðveiki er dæmi um algera kerlingarbók dragdrottningarinnar Jóns Gnarr. Í þriðja lagi þá hafa stríð á síðari tímum sjaldan verið háð í nafni Guðs eða þjóðir undirokaðar í nafni hans. Þó margt vont hafi verið gert í nafni trúarinnar af spilltum leiðtogum þá jafnast það ekkert á við illvirki guðleysingja sem hafa iðulega stjórnað för.

Stalín, Hitler og  Djengis Khan og fjölmargir aðrir illvirkjar í mankynssögunni voru trúleysingjar. Allir fóru þeir í stríð á öðrum forsendum en Guðlegum. Allir drápu þeir milljónir manna. Heimurinn var hvorki góður né öruggur þegar þeir trúleysingjarnir Stalín og Hitler voru upp á sitt besta. Satt að segja hefur hann aldrei verið jafnslæmur og hættulegur.

Sem betur fer kallar trú og leit að æðra mætti á það besta hjá langfelstum sem þess leita. Í sögu Evrópu geta menn lesið um það hvernig trúin varð þess valdandi að á 200 ára tímabili hernaðar í álfunni þá fékk almenningur að vera í friði. Stríð var á milli herja. Þeir trúleysingjarnir Stalín og Hitler ásamt öðrum illvirkjum breyttu þessu af því að þeir höfðu ekki neina trúarlega staðfestu og drápu a.m.k. meir en 20 milljónir almennra borgara í nafni sjálfskipaðs almættis stefnu og yfirburða kynþátta.

Fram að þessu hefur fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra aðallega veist að kristninni, en nú er hann kominn í baráttu við öll trúarbrögð. Miðað við ruglingslega delluframsetningu í stuttum pisti hans gæti hann talið að þetta verði honum til framdráttar til að ná endurkjöri.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband