Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Hinir umburðarlyndu

Hinir umburðarlyndu í Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Samfylkingunni hafa undanfarið hneykslast á oddvita Framsóknar í borgarstjórn fyrir efasemdir um lóðaúthlutun fyrir mosku í Reykjavík. Vilhallir fréttamenn þessa "umburðarlynda og víðsýna fólks" hafa elt uppi forustumenn Framsóknarflokksins til kreista fram fordæmingu á flokkssystur sinni.  Ummæli sem fréttahaukarnir telja bera augljósan vott um rasisma og þjóðernisofstæki.

Samt sem áður hefur oddviti Framsóknar ekki mælt styggðaryrði um múslima eða veist að trúarskoðunum þeirra eftir því sem ég veit best. 

Á sama tíma er upplýst að Kristín Soffía Jónsdóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur látið frá sér fara mun alvarlegri ummæli um trúarhóp, en oddviti Framsóknar um múslima. Svo bregður hins vegar við að reynt er að þagga það niður og forustumenn Samfylkingarinnar eru ekki eltir á röndum til að fá afstöðu þeirra til ummæla Kristína Soffíu Jónsdóttur. 

Ummæli Kristína Soffíu sem hér er vikið að um Aust-rómversku kaþólsku kirjkuna eru: "Ömurlegt að Reykjavíkurborg sé búin að úthluta lóð til þessa skítasafnaðar. Þessi söfnuður má fokka sér".

Ummælin viðhafði Kristín Soffía vegna viðhorfa safnaðarins til samkynhneigðra, sem eru raunar svipuð og rómversk kaþólskra og mun mildari í garð samkynhneigðra og réttinda þeirra en afstaða múslima.

Séu ummæli oddvita Framsóknarflokksins og frambjóðanda Samfylkingarinnar borin saman þá fela ummæli frambjóðanda Samfylkingarinnar í sér mun meiri fordóma, skort á umburðarlyndi og skort á víðsýni og eru alvarlegri og fordæmanlegri ef eitthvað er. Samt sem áður er engin krafa gerð um að hún víki úr fjórða sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Fréttamenn elta heldur ekki Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar vegna þessara ummæla flokkssystur hans,  þó þeir hundelti Sigmund Davíð og tíundi í hverjum fréttatíma að hann hafi ekki fordæmt ummæli flokkssystur sinnar.

Ummæli Kristínar Soffíu eru vissulega fordæmanleg og ósæmileg. Athyglisvert er að í urmæðu um málið segist hún sjá eftir því að hafa sagt þetta, en nefnir ekki sérstaklega hvað hún sjái eftir. Hún hefur heldur ekki beðist afsökunar á ummælunum sem telja verður lágmark þegar um svo alvarleg og lágkúruleg ummæli er að ræða.

Finnst Árna Páli Árnasyni og Degi B. Eggertssyni forsvaranlegt að hafa Kristínu Soffíu á framboðslista Samfylkingarinnar eftir að opinberuð hafa verið þessi ummæli hennar. Finnst þeim eðlilegt að hún sitji á framboðslistanum án þess að sinna þeirri lágmarkskurteisi að biðjast afsökunar? 


Innihaldslaust kosningaloforð Samfylkingarinnar

Á meðan Jón Gnarr borgarstjóri hefur heillast af verkefnum sem þjóna sýniþörf hans t.d. á hinsegin dögum, degi fatlaðra, einhverfra, blindra o.s.frv. þar sem hann er samkynhneigðasti einstaklingurinn á hinsegin dögum, fatlaðastur allra og blindastur þegar það á við og tjáir sig um eigin reynslu af  einelti  þegar það á við, hefur Dagur Eggertsson farið sínu fram sem borgarstjóri í pilsfaldi dragdrottningarinnar.

Samfylkingin undir forustu Dags ber því ábyrgð á stjórn Borgarinnar. Nú þegar rignir sést t.d. vel hveru illa viðhaldi gatna hefur verið sinnt, en sumar götur eru beinlínis hættulegar til aksturs. 

Viðhaldi og uppbyggingu hefur verið frestað á meðan verkefni fáránleikans hafa fengið meira vægi eins og sást best á Hofsvallagötunni þegar öruggri götu var breytt í furðufyrirbæri, fuglahúsa og götumynda.

Dagur B. Eggertsson ætlar nú að reisa önnur hús en fuglahús. Eftir að hafa setið í fjögur ár og látið hjá líða að gera eitthvað í húsnæðismálum Reykvíkinga, þá er helsta kosningaloforðið að fjölga leiguíbúðum í Reykjavík um 2500 til 3000.

Þegar ráðandi stjórnmálaflokkur kemur með svona ábyrgðarlaust yfirboð þá er rétt að spyrja hvað margar leiguíbúðir urðu til á kjörtímabilinu. Svarið við því sýnir í hnotskurn að fáránleiki Dags og Samfylkingarinnar nær út yfir þjófamörk  furðulegheitanna á Hofsvallagötunni. 

Nægir að minna á að Samfylkingin telur skuldaleiðréttingu verðtryggðra lána ofviða efnahagskerfinu á sama tíma og Samfylkingin setur fram kosningaloforð sem kostar miklu meira en skuldaleiðréttingin. Ef skuldaleiðréttingin veldur erfiðleikum í efnahagskerfinu þá er ljóst að kosningaloforð Dags er innihaldslaust.  

 

 


Inn í bæjarblokkirnar

Dagur B. Eggertsson og sósíalistaflokkur hans hefur það helst á stefnuskrá sinni við kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur að troða sem flestum inn í  bæjarblokkir. 2.500 til 3000 viðbótar íbúðir í bæjarblokkum er langstærsti draumur þess fólks sem vill að fólk eigi ekki neitt annað en inneign sína í lífeyrissjóðnum þegar það fer á elliheimilið. Sú inneign er þar tekin af því fyrir utan örlitla dagpeninga. Fólk yrði þá nánast ekki fjár síns ráðandi  allt sitt líf. Sovét Ísland óskalandið sem þá Dag B. Eggertsson og Gylfa Arnbjörnsson formann ASÍ dreymir um yrði að veruleika.

Bæjarblokkirnar kosta jafn mikið í byggingu og annað húsnæði. Það er dýrari lausn að leigja fólki heldur en að gera þeim sem það vilja og geta kleyft að eignast eigið húsnæði.  Með því að fólk eignist húnæði sitt verður það eignafólk myndar sjálfstæðan lífeyri og hefur meira fjárhagslegt svigrúm um og eftir miðjan aldur.

Fólk sem á húsnæðið sem það býr í, leggur á sig ómælda vinnu við að halda húsnæðinu við og dytta að því. Sá kostnaður fellur allur á leigusala í leiguíbúðum og leiguverð verður að miða við það. Þegar upp er staðið þá er greiðsla leiguverðs á mánuði meiri en greiðsla íbúðaláns á sanngjörnum vöxtum.  Með bæjarblokkunum tapast þá möguleikinn til eignamyndunar, sparnaður og hagkvæmni. 

Dagur B. Eggertsson hefur sennilega ekki skoðað að bæjarblokkir í sveitarfélögum landsins hafa verið fjárhagslegur baggi á sveitarfélögum og á stundum leitt til verulegra greiðsluerfiðleika sveitarfélaga. Sé Degi hins vegar kunnugt um þetta þá skiptir verri afkoma borgarsjóðs hann engu máli.

Dagur B og flokksmenn hans hafa atyrt Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir yfirboð og atkvæðakaup með því að knýja á um sanngirni við skuldaleiðréttingu húsnæðislána. En hvað kallast þá þessi stefna Samfylkingarinnar þar sem látið er í það skína að fólk geti fengið íbúðarhúsnæði á niðurgreiddu verði allt á kostnað annarra. 


Stjórnsýsla og pólitík

Stundum telja stjórnmálamenn nauðsynlegt að hafa afskipti af stjórnsýslunni þegar þeir telja að ekki sé gætt sanngirni, meðalhófs eða annars sem tillit eigi að taka til.

Það er slæmt ef stjórnmálamenn þurfa ítrekað að grípa fram fyrir hendurnar á embættismönnum hvað þá heldur sömu embættismönnunum og afleitt ef stjórnmálamenn láta feykjast undan hverjum goluþyt sem andar á þá.

Ítrekað hafa stjórnmálamenn haft afskipti af aðgerðum Útlendingastofnunar þegar  einstaklingar hafa mótmælt. Ef til vill eru þessi afskipti viðkomandi ráðherra réttlætanleg. En þá verður ekki séð að embættisfærsla Útlendingastofnunar sé eðlileg og þeir sem þar ráða séu vanda sínum vaxnir.

Sé embættisfærsla Útlendingastofnunar eðlileg og lögum samkvæmt, sem og gætt sé ítrustu sanngirni o.s.frv. þá eru afskipti ráðherrans óeðlileg.  

Út frá eðlilegum leikreglum í lýðræðisþjóðfélagi og til að fram geti farið upplýst umræða, þá er mikilvægt að fá upplýst hvort það eru stjórnendur Útlendingastofnunar sem fara ekki að lögum eða ráðherrann. 


Höggvið og hlíft

Stór hluti Kastljóss RÚV í gærkvöldi fór í umfjöllun um minnismiða, sem borist hafði með einhverjum hætti til fjölmiðla. Umfjölluninni var ætlað að koma höggi á Innanríkisráðherra, án þess að nokkuð liggi fyrir um aðild hennar að málinu nema  sem æðsta yfirmanns ráðuneytisins.

Þingkonurnar  Valgerður Bjarnadóttir  og Birgitta Jónsdóttir hömuðust í dag að Innanríkisráðherra vegna meintra mannréttindabrota. DV lét sitt ekki heldur eftir liggja.

Það er ekki gott að trúnaðarupplýsingar leki til óviðkomandi aðila, en slík óhöpp gerast og þá er mikilvægara að reyna að koma í veg fyrir það í stað þess að reyna að hengja bakara fyrir smið.

Atgangurinn vegna minnismiðans er ólíkur því sem var uppi á teningnum þegar þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins Gunnar Andersen var beraður af því að afla trúnaðarupplýsinga um alþingismann til að skaða hann.  Þar var um brot á bankaleynd að ræða og embættismaðurinn  ætlaði að ná sér niðri á þingmanninum Guðlaugi Þór Þórðarsyni vegna þess að þingmaðurinn hafði tekið upp málefni Sparisjóðs Keflavíkur á Alþingi og bent réttilega á að þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi forstjóri FME færu ekki að lögum. Að sjálfsögðu átti DV að taka við þeim upplýsingum sem og öðrum frá manninum.

Sú atlaga sem embættismaðurinn fulltrúi framkvæmdaavaldsins gerði með þessu  að alþingismanni var bæði alvarleg og saknæm. Þar var spurning um réttarvernd þjóðkjörinna fulltrúa, sem framkvæmdavaldið telur sig eiga sökótt við. Prófessor við Háskóla Íslands Þorvaldur Gylfason lagðist í hina stóru vörn fyrir hinn brotlega forstjóra og Vilhjálmur Bjarnason aðjúnkt við sama skóla nú alþingismaður  í hina minni svo ótrúlegt sem það nú er.

Ekki var sérstakur Kastljósþáttur um þetta alvarlega mál. Þingkonurnar Valgerður Bjarnadóttir og Birgitta Jónsdóttir höfðu ekkert um málið að segja og vikuritið DV taldi að þessi atlaga Gunnars Andersen að þjóðkjörnum fulltrúa væri með öllu afsakanleg. 

Óneitanlega veltir maður fyrir sér réttlætiskennd og sómatilfinningu fólks eins og Valgerðar Bjarnadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Kastljósfólks þegar mat þess á lekamálum er jafn ólíkt og raun ber vitni eftir því hver í hlut á.   Um réttlætiskennd og sómatilfinningu DV þarf af augljósum ástæðum ekki að fjalla. 

Þess skal getið að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina sýndi fram á að Guðlaugur Þór Þórðarson hafði haft rétt fyrir sér og aðsóknin að honum var vegna réttmætra athugasemda um framkvæmdavaldið. En það skiptir e.t.v. ekki máli heldur.  

Óeðlilegt fréttamat Katsljóss eða pólitísk stýring?  Það er spurningin. 


Góð og vond samkeppni

Talsmenn landbúnaðarkerfisins hafa brugðist ókvæða við því að lagt skuli til að Samtök atvinnulífsins (SA) álykti á þann veg að auka skuli samkeppni við framleiðslu og sölu á landbúnaðarvörum.  Tillagan er sett fram vegna þeirrar stefnumótunar SA að auka samkeppni í landinu.

Trauðla verður séð hvernig á að ná fram því markmiði SA um aukna samkeppni ef framleiðsla og sala mikilvægustu matvara er undanskilin. Af hverju í ósköpunum ætti það líka að vera? 

Í 1.gr samkeppnislaga frá 2005 segir í 1.gr:

Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
   a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
   b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
   c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum.

Sambærilegt ákvæði var í eldri samkeppnislögum sem sett voru fyrir um tveim áratugum.

Þrátt fyrir að sú stefna hafi verið mótuð fyrir tveim áratugum og samstaða verið um að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að virk samkeppni væri á markaði þá hafa framleiðendur og söluaðilar búvara sagt það gott fyrir alla aðra en þá. Með því er verið að viðhalda fákeppni og einokun til hagsbóta fyrir þá fáu á kostnað hinna mörgu.

Það gilda sömu sjónarmið og lögmál um búvöruframleiðslu sem og aðra mannlega starfsemi í viðskiptum. Það er nágaul fortíðar að halda því fram að önnur lögmál eigi við um framleiðslu og sölu á mjólk eða sauðaketi en á fiski og brauði.  


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 1252
  • Sl. sólarhring: 1303
  • Sl. viku: 6394
  • Frá upphafi: 2470778

Annað

  • Innlit í dag: 1169
  • Innlit sl. viku: 5877
  • Gestir í dag: 1121
  • IP-tölur í dag: 1086

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband