Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Þú skalt ekki stela.

Í gær ungaði Umboðsmaður Alþingis út athugasemdum sínum við framgöngu þáverandi innanríkisráðherra um lekamálið svokallaða. Niðurstaða hans var í samræmi við það sem við mátti búast að gefnum þeim upplýsingum sem lágu fyrir.  Í sjálfu sér þarf ekki mörgum orðum við það að bæta. Svona gerir maður ekki og svona hagar maður sér ekki. Þessi atriði liggja ljós fyrir í hugum venjulegs fólks

Í framhaldi af skýrslugjöf Umboðsmanns alþingis um lekamálið talaði reyndasti lögfræðingurinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi siðareglna og óljóst regluverk. Innanríkisráðhera talaði um það að fara þyrfti yfir alla verkferla innan ráðuneytisins í kjölfar málsins og athuga hvað hefði farið úrskeiðis. Sjálfur talaði Umboðsmaður alþingis með svipuðum hætti.

Verkferlar og siðareglur eru ágæt orð en segja í sjálfu sér ekkert um það hvað á að gera eða af hverju þörf er á því að skoða verkferla eða setja siðareglur. Venjulegt fólk áttar sig á hvað má og má ekki og hvað er innan marka eða utan. Það virðist bara vefjast fyrir stjórnmálastéttinni að ráða við að skilgreina augljósa hluti sem augljósa.

Í boðorðunum 10 segir m.a. "þú skalt ekki stela" Inntakið í því bannákvæði hefur verið ljós öllu fólki um þúsundir ára þó sumir hafi ekki getað látið vera að brjóta gegn boðorðinu. Hvað hefði nú orðið ef Guð almáttugur eða sá sem talaði í hans nafni hefði talið eðlilegt að setja sérstakar siðareglur til skýringar og útfyllingar á boðorðunum og öðrum auðskildum bannákvæðum í hvert sinn sem einhver braut gegn því.

Óneitanlega væri fróðlegt að sjá skráðar siðareglur um boðorð eins og "þú skalt ekki stela" "Þú skalt ekki morð fremja" og "heiðra skaltu föður þinn og móður". Það væri einnig þess virði að horfa framan í þá verkferla sem þyrfti að skoða ef brotið væri gegn þessum boðorðum. Af hverju datt engum þetta í hug í þær þúsundir ára sem þessar reglur hafa gilt. Komst fólk virkilega af og vissi það hvað mátti og hvað var bannað.

Hætt er við að lagasafnið ásamt siðfræðilegum og verkferlalegum skýringum verði öllum ofviða og mundi ekki duga til að geyma það í jafnstórum vörugeymslum og nú hýsa regluverk Evrópusambandsins.


Landsiðaráð

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri Grænna er iðin við að koma með tillögur til að leysa atvinnuvanda ákveðinna háskólastétta á kostnað skattgreiðenda. Nú skal stofna Landsiðaráð. Ekki er formaðurinn með það alveg á hreinu hvað slíkt ráð á að gera þar sem að hún leggur til að forsætisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem á að reyna að finna út úr því hvað skuli vera hlutverk og iðja þessa landsiðaráðs.

Í framhaldi af nefndarskipaninni sem á að finna út verkefni fyrir Landsiðaráð Katrínar verða væntanlega síðar valin héraðssiðaráð og þá getur borgarstjórn Reykjavíkur ekki verið eftirbátur og er líkleg til að koma á laggirnar hverfissiðaráðum. Með þessari djörfu nýbreytni má ætla að fundist hafi verðug verkefni fyrir alla siðfræðinga sem útskrifast úr háskóla á næstunni.

Það væri síðan við hæfi að siðaráðin hefðu ráðstefnumiðstöð þar sem þau gætu komið til funda a.m.k. einu sinni á ári til að átta sig á hlutverki sínu og verkefnum. Ef að líkum lætur mun síðan VG og aðrir sem haldnir eru svipaðri ríkislægri þráhyggju, leggja til að ekki verði ráðist í neina framkvæmd eða aðgerð nema það hafi verið borið undir hverfissiðaráð síðan landshlutasiðaráð og loks landsiðaráð. Að því loknu er hægt að láta málið fara í umhverfismat og grenndarkynningu og hefja framkvæmdir um áratug eftir að tillaga kom fram.

Vissulega væri þetta flott innlegg í græna hagkerfið sem aldrei hefur skilað neinu nema auknum  útgjöldum fyrir skattgreiðendur eins og allar aðrar tillögur sem Katrín Jakobsdóttir hefur beitt sér fyrir á stjórnmálaferli sínum.


mbl.is Vilja að stofnað verði Landsiðaráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannfærðar skoðanir.

Borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins snéri sér til manns úti í bæ, Gústafs Níelssonar, og bað hann um að taka sæti sem varamaður í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir að Gústaf sé yfirlýstur Sjálfstæðismaður og hafi verið það frá 14 ára aldri þá vildu Framsóknarmaddömmurnar fá hann í þetta ábyrgðarstarf. Gústaf sagði já og borgarstjórn Reykjavíkur kaus hann með 10 atkvæðum en 5 sátu hjá.

Gústaf er því réttkjörinn varamaður í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar. Borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins getur ekki breytt því og ógilt kosningu borgarstjórnar upp á sitt eindæmi. Gústaf verður því ekki vikið frá nema af borgarstjórn en hversu auðvelt eða flókið það kann að vera þekki ég ekki.

Gústaf þarf að víkja segja Framsóknarmaddömurnar af því að hann hefur óæskilegar skoðanir. Undir það tekur ríkisfjölmiðillinn og vinstri sinnaðir álitsgjafar sem kalla alla pópúlista hverra skoðanir þeim líkar ekki við. Þá liggur það fyrir að Gústaf þarf að víkja vegna skoðana sinna en ekki vegna þess að hann sé ófær eða óhæfur til að gegna því trúnaðarstarfi sem hann var kosinn til.

Eitthvað er þetta á skjön við ummæli sem eru eignuð Voltaire þar sem hann á að hafa sagt. "Ég fyrirlít skoðanir þínar, en ég er reiðubúinn til að leggja mikið í sölurnar til að þú fáir að halda þeim fram."  Með sama hætti og það er á skjön við þau sjónarmið sem komu fram hjá mörgum sem tóku upp vígorðið "Je suis Charlie" vegna hryðjuverksins sem unnið var gagnvart ritstjórn blaðsins. Sjálfur gat ég tekið undir þau sjónarmið sem sjónarmið málfrelsis og ritfrelsis þó mér finnist þetta Charlie Hedbo blað óttalegt sorarit, sem gerir m.a. út á það að særa og meiða.

En sumar skoðanir eru óæskilegri en aðrar og þó ég deili ekki þeim skoðunum sem Gústaf vinur minn hefur varðandi samkynhneigð eða mosku í Reykjavík þá finnst mér það lýðræðislegur réttur hans að mega halda þeim fram og hafa til þess sama svigrúm og aðrir. Með sama hætti og mér finnst gott að sjónarmið talsmanns Alþýðufylkingarinnar fái að koma fram þó ég sé algjörlega ósammála þeim kommúnisma sem þar er boðaður og við skulum ekki gleyma að í hildarleik hugmyndafræðiátakanna á síðustu öld þá féllu flestir í valinn fyrir Kommúnistum.

Hefði Gústaf verið vinstri maður hefði öll menningarelítan farið úr límingunum yfir því að hann ætti að víkja og kallað það Berufsverbot eða að viðkomandi þyrfti að víkja vegna skoðana sinna. En sumar skoðanir eru heilagri en aðrar og Gústaf fer og vinstri menn telja það ekki atlögu að skoðanafrelsinu.

Með sama hætti og Robert Bork einn merkasti lögfræðingur Bandaríkjanna fékk ekki að setjast í Hæstarétt vegna þess að hann var á móti fóstureyðingum. Það var meira en vinstri elítan á Bandaríkjaþingi gat þolað honum.

Hættulegar skoðanir mega ekki vera til í lýðræðisríki. En gilda ekki sömu reglur um þær og æskileg eða óæskileg blöð. Á að banna Charlie Hedbo af því að það er sorarit sem særir og meiðir? Gildir annað um fólk en fjölmiðla?


Tvískinnungur?

Fyrir nokkrum dögum gengu ýmsir þjóðarleiðtogar í skrúðgöngu um götur Parísar til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárása vígamanna sem kenna sig bæði við Al Kaída og ISIS. Í dag er setningarhátíð handboltamóts í Quatar, ríkisins sem tengist peningalega hvað mest fyrrnefndum hryðjuverkasamtökum.

Engin þjóðarleiðtogana sem héldust í hendur og grétu krókódílatárum í Parísargöngunni sá ástæðu til að gera athugasemd við að Quatar skuli halda þetta alþjóðlega handboltamót. Engin þeirra hefur hreyft athugsemd við að Quatar haldi næsta heimsmeistaramót í fótbolta. Þeim gæti sennilega ekki verið meira slétt sama.

Þegar æðsti fursti einræðisríkisins Quatar kom til fundar við Cameroun forsætisráðherra Breta sagðist Cameroun ætla að gera alvarlegar athugasemdir við stuðning Quatara við hryðjuverkasamtök. Blaðið Daily Telegraph sagði að það hefði Cameroun ekki gert heldur hvatt einvaldinn í Quatar til að fjárfesta meira í Bretlandi.

Einræðisríkið Quatar hefur fjárfest mikið á Vesturlöndum og á verslanir eins og Harrods í London. Mótmælahópar í Evrópu m.a. hér á landi hafa farið mikinn og krafist þess að fólk kaupi ekki vörur frá Ísrael eða versli í verslunum í eigu Gyðinga. En það hvarflar ekki að þessu vinstrisinnaða mótmælafólki að mælast til þess að fólk versli ekki í verslunum í eigu Qutara þrátt fyrir að  þeir beri mikla ábyrgð á morðum, ráunum,mannsali og nauðgunum í Írak og Sýrlandi með stuðningi sínum við ISIS.     Tvískinnungur?

Þjóðarleitogarnir sem marséruðu um götur Parísar eru sjálfsagt ekki búnir að þrífa skítinn af götum Parísar undan skónum sínum. Þeir eru samt búnir að gleyma að það þarf meira en skrúðgöngur til að taka á hryðjuverkaógninni. Eitt af því er að hafa ekki samskipti við ríki eins og Quatar, sem styðja með virkum hætti hryðjuverkasamtök. Væri þeim einhver alvara þá gerðu þeir eitthvað í þeim málum í stað þess að telja hópgöngutúra virkasta aflið gegn illsku alheimsins. Fyrsta skrefið hefði verið að flytja handboltamótið í Quatar frá landinu eða kalla lið úr handboltakeppninni í Quatar og flytja heimsmeistarakeppnina í fótbolta frá Quatar.

En það er e.t.v. of mikið. Tvískinnungurinn verður að vera allsráðandi og Merkel og Hollande geta þá e.t.v. setið saman og fylgst með úrslitaleik keppninnar og hvatt sína menn til dáða á meðan peningarnir streyma frá gestgjöfunum til hryðjuvekasamtaka sem undirbúa næsta hildarleikinn í löndum þeirra .

 


Læknaverkfall og RÚV

Enn einu sinni kom fréttastofa Ríkisútvarpsins á óvart í síðasta læknaverkfalli.

Burtséð frá því hvort kröfur lækna væru sanngjarnar eða ósanngjarnar eða hvort samningamenn ríkis eða lækna væru bilgjarnar eða óbilgjarnar þá afsakaði það ekki með hvaða hætti fréttastofa Ríkissjónvarpsins flutti fréttir á þeim tíma sem læknaverkfallið stóð.

Dag eftir dag í hverjum fréttatíma voru samviskusamlega fluttar fréttir af þeirri vá sem væri að skapast á sjúkrahúsum og þá hættu sem landsmönnum væri búin ef svo héldi fram sem horfði varðandi læknadeiluna. Þá voru okkur samviskusamlega flutar fréttir af einstaklingum sem ættu um sárt að binda vegna verkfalls lækna. Svo langt gekk það að daginn áður en samið var flutti ríkissjónvarpið fréttir af ungum dreng sem væri fórnarlamb læknaverkfallsins jafnvel þó að í ljós kæmi síðar að aðgerð hans og töf á því að ljúka henni hefði ekkert með læknadeiluna að geera.

Einhliða áróður og ávirk umfjöllun fréttastofu RÚV af læknadeilunni og meint ömurlegt ástand í heilbrigðismálum var langt frá því að vera hlutlæg umfjöllun og minnti um margt á áróðursferðina sem þessi sama fréttastofa fór í gegn mönnum og málefnum frá október 2008 og fram á mitt ár 2009 í framhaldi af bankahruninu.

Fyrst á annað borð er verið að troða upp á mann ríkisrekinni fréttastofu sem fólk verður að borga fyrir hvort sem því líkar eða ekki þá er lágmarkskrafan að gætt sé þokkalegrar hlutlægni við val og framsetningu frétta og fréttaflutningurinn sé vandaður og ítarlegur. En því miður þá skortir á allt þetta.

Mér verður stundum hugsað til þess þegar sá mæti fréttamaður Haukur Hólm var einn um hituna á Útvarpi Sögu að þá fannst mér hann flytja mun vandaðri og ítarlegri fréttir en nú þegar hann er ásamt þeim tugum fréttamanna sem daglega koma að því að vinna fréttir fyrir okkur á RÚV.  Óeintanlega veltir maður því fyrir sér hvað veldur.


Samband ungra sjálfstæðismanna vaknar til lífsins

Mikið var ég ánægður að sjá að mín gömlu samtök, SUS samband ungra sjálfstæðismanna, voru lifandi og stjórn þess meira að segja farin að álykta. Þegar liggur mikið við er eðlilegt að fólk hristi af sér slenið og láti til sín taka. Tilefnið var lítt hugsuð ummæli eins þingmanns flokksins að kanna bakgrunn þeirra múslima sem hér búa. Auk fordæmingarinnar er þess krafist að þingmaðurinn biðjist afsökunar.

Nú víkur svo við að ég er ekki sammála umræddum ummælum þingmannsins en sé þó ekki að hann þurfi að biðjast á þeim afsökunar eða einvher ástæða sé til að fordæma þau. Ef til vill hefði SUS frekar átt að láta í sér heyra þegar einn af ráðherrum flokksins vill auka á ríkisvæðinguna og hlutast til um það að venjulegir íslendingar hafi ekki lengur aðgang að helstu náttúruperlum þjóðarinnar nema geta framvísað certificati frá stjórnvöldum um heimild til þess. En það verður hver að forgangsraða í pólitík sem hann telur mikilvægast.

Svo er það nú annað sem að þeir sem fordæma þingmanninn Ásmund Friðriksson ættu að hugleiða, en það er sú staðreynd að lögregludeildir hvort sem eru á hinum Norðurlöndunum og Bretlandi eru einmitt uppteknar við að skoða sérstaklega þá sem aðhyllast þennan trúarhóp sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni með tilliti til öryggis borgaranna. Þingmaðurinn er því ekki að segja neitt sem fer í bág við almenna praktík í nágrannalöndum okkar og sjálfsagt hér líka. Þá má líka benda á að stofnaðar hafa verið lögregludeildir sérstaklega til að fylgjast með fólki sem aðhyllist Íslam.

Stjórn SUS mætti taka til umræðu og skoðunar það eftirlitskerfi sem hefur verið hrúgað upp á ýmsum sviðum t.d. varðandi öryggismál þar sem heimiluð hefur verið víðtækt eftirlit og símhleranir hjá almennum borgurum. Stjórnvöld á Vesturlöndum eru stöðugt að taka sér víðtækara og víðtækara vald til að hafa afskipti af borgurunum og eftirlit með þeim á grundvelli ímyndaðs eða raunverulegs þjóðáröryggis. Hvað langt á að ganga og hve mikið viljum við gefa eftir af einstaklingsbundinni friðhelgi einstaklinganna vegna þessa. Það er spurnignin sem einstaklingshyggjumenn þurfa fyrst og fremst að svara en ekki vandræðast vegna vanhugsaðra ummæla einhvers þó hann sé þingmaður.

 


Að hluta til okkar sök.

Bandaríski þingmaðurinn Ron Paul sagði í gær að ríkisstjórnum Bandaríkjanna og Frakklands væri að hluta til um að kenna vaxandi fylgi við Íslamskar öfgastefnur. Bræðurnir sem réðust inn á ritstjórnarskrifstofur franska blaðsins höfðu eytt sumrinu til að berjast í Sýrlandi gegn ríkisstjórn Assads. En þingmaðurinn bendir á að Bandaríkin og Frakkland hafi þjálfað og sent vopn og vistir til erlendra vígamanna sem færu til Sýrlands til að berjast gegn Assad s.l. fjögur ár. Eða með öðrum orðum þegar málið snýr að Sýrlandi segir Ron Paul þá voru þessir vígamenn okkar menn og hafa  notað frönsk eða bandarísk vopn meðan þeir börðust í Sýrlandi.

Ron Paul bendir einnig á að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafi byrjað í Afganistan árið 1980 að sá öfgaskoðunum í huga Íslamskra vígamanna í þeirri von að þeir mundu bara berjast við þá sem þeim væri sagt að berjast við. En það hafi komið í ljós með árásinni á tvíburaturnana að svo væri ekki og sama væri varðandi mannvígin í París í síðustu viku. En Ron Paul segir að vestrænir stjórnmála- og fjölmiðlamenn vilji trúa hugarburðinum um að þessir vígamenn ráðist á okkur vegna þess að þeir hati frelsið sem við búum við eða séu á móti tjáningarfrelsi.

Ron Paul segir að e.t.v. sé ein leið til að skapa meira öryggi fyrir Bandaríkin og bandamenn þeirra sé að hætta að styðja þessa öfgahópa Íslamista.

Þessar skoðanir Ron Paul eru athyglisverðar og leiðir til hugleiðinga um hvað Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar bera mikla ábyrgð á ólgunni fyrir botni Miðjarðarhafsins og í Norður Afríku.

Saddam Hussein var steypt af stóli af Bandaríkjamönnum og Bretum og innrásin var brot á alþjóðalögum. Eftir það hefur Írak verið miðstöð hryðjuverka og gróðrarstía öfgahópa sem ekki voru til í landinu áður. Kristið fólk sem hafði búið þarna í tæp 2000 ár hefur nánast allt neyðst til að flýja land.

Í Líbýu steyptu Frakkar og Bretar Ghaddafi af stóli en við það myndaðist eyða og inn í hana hafa sótt Íslamskir vígamenn og landið er nánast óstjórnhæft og Bretum og Frökkum virðist ekki koma það við.

Í fjögur ár hafa Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar ásamt Tyrkjum og Saudi Aröbum þjálfað íslamska vígamenn til að steypa Assad Sýrlandsforseta af stóli. Þessar aðgerðir þeirra hafa valdið flótta milljóna manna hatursárásum á kristið fólk í Sýrlandi og meiri flóttamannastraum til Evrópu en áður hefur þekkst.

Þurfa Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar ekki að taka utanríkisstefnu sína til endurskoðunar eða eru þeir og vestrænir fjölmiðlar öllu viti firrtir.


Guðlastið og hatrið.

Ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir samhengi hryðjuverkaárásar Jihadistanna á blaðið Charlie Hedbo og 125.gr. almennra hegningarlaga á Íslandi um guðlast. Þingflokkur Pírata og Egill Helgason eiga því þakkir skyldar fyrir að leiða okkur í allan sannleika um raunverulegt orsakasamhengi þeirra hluta enda gildir hér hið fornkveðna. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Þingflokkur Pírata hefur tilkynnt að í tilefni árása og morða Jihadista á starfsfólki franska blaðsins Charlie Hedbo telji þeir rétt að 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast verði afnumin. Ekki verður alveg séð orsakasamhengið milli veru 125.gr. almennra hegningarlaga í löggjöf landsins og árásarinnar, en þar sem Egill Helgason pistlahöfunur hefur blessað þetta sem eitt mesta nauðsynjamál varðandi breytingar á löggjöf landsins af gefnu tilefni, þá hlítur svo að vera.

Hægt er að taka undir með Pírötum og Agli Helgasyni að þetta ákvæði í refsilöggjöf er óþarft og almenn æruvernd og friðhelgi einstaklinga og samtaka á að vera varin af almennum ákvæðum hegningarlaga. Það þarf því að skoða það mál í samhengi og hvort ekki sé rétt að breyta fleiru.

Í tilefni fréttatilkynningar Pírata um að þeir vilji afnema 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast þá er rétt að þeir gaumgæfi hvort ekki sé líka rétt að afnema 233.gr.almennra hegningarlaga svonefnt hatursákvæði.  Ekki verður annað séð en að blað eins og t.d. Charlie Hedbo hefði ítrekað gerst sekt um brot gegn þeirri grein almennra hegningarlaga ekki síður en 125.gr. almennra hegningarlaga.

Þó visst tilefni sé til að hafa bæði 125.gr. og 233.gr. almennra hegningarlaga þá vega almenn rök tjáningarfrelsis þyngra um að afnema beri þessi sérákvæði æruverndar enda eru þau fyrst og fremst notuð til að koma í veg fyrir eðlilega umræðu og kímni eins og leikarinn Rowand Atkinson (Mr. Bean) hefur ítrekað bent á.

Gott mál afnemum hvorutveggja og miðum við að allir séu jafnir fyrir lögunum og njóti sömu æruverndar.

 


Þjónusta borgarinnar er í ólestri.

Sama dag og rektor Háskóla Íslands blandaði þeirri merku stofnun í kosningabaráttu Jóns Gnarr með þáttöku í svonefndu friðarsetri þar sem Dagur B. Eggertsson og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur forgöngu fyrir þennan foringja sinn og leiðtoga, þurftu almennir Reykvíkingar að gera sérstakar ráðstafanir vegna þess að Reykjavíkurborg er hætt að sinna lögmæltum skyldum sínum við borgarana sem skyldi.

Sorp hefur hlaðist upp þar sem einstaklingarnir hafa ekki úrræði til að koma því sjálfir frá sér. Afsökun borgaryfirvalda er sú að færðin í Reykjavík sé með þeim hætti að það afsaki sleifarlagið. Veður eru þó ekki vályndari en við má búast á þessum árstíma og ófærð hefur ekki verið svo máli skipti í henni Reykjavík.

Jafnvel þó að sú afsökun borgarstjóra væri tekin sem sannleikur að vont veður hefði hamlað því að borgararnir fengju eðlilega og viðunandi þjónustu, þá væri samt hægt að bregðast við væri þokkalega hugmyndaríkur borgarstjórnarmeirihluti við völd. Það er hægt að leysa slík vandamál ef vilji er fyrir hendi án mikils kostnaðar. En viljann skortir og þetta er afgangsverkefni hjá Latte lepjandi gáfumönnunum sem stjórna Reyikjavíkurborg.

Á sama tíma og fólk paufast með stóra svarta plastpoka á endurvinnslustöðvar eftir að sorptunnurnar eru löngu orðnar yfirfullar, klæðir borgarstjóri sig uppá og býður til veislu í Höfða til að sinna að hans mati brýnasta verkefni borgarinnar, að stofna kosningamiðstöð fyrir Jón Gnarr. Bogarstjóri og meðvirkur háskólarektor lýsa því síðan fjálglega hvað Reykjavíkurborg geti unnið mikið starf í þágu friðar. Fróðlegt að fylgjast með því.

Við erum epli sögðu hrútaberin.

 


Hvernig á að bregðast við hryðjuverkaárásinni?

Þrautþjálfaðir hryðjuverkamenn ráðast inn á ritstjórnarskrifstofu grínblaðsins Charlie Hedbo í París og myrða á annan tug manna. Hryðjuverkaárásin var það vel skipulögð að hryðjuverkamennirnir höfðu fest í minni nöfn og útlit þess fólks sem þeir ætluðu að myrða.  Þeir höfðu líka skipulagt flóttaleið, sem er óvanalegt af Íslömskum Jihadistum.

Þegar þeir komu út úr ritstjórnarskrifstofum blaðsins hrópuðu þeir "Við höfum hefnt spámannsins" og "Við drápum Charlie Hedbo"

Tilgangur árásarinnar er að vekja ótta fólks í Evrópu. Helst hinna talandi og skrifandi stétta og koma í veg fyrir að þetta fólk fjalli um eða gagnrýni Íslam eða setji fram skoðanir sem Íslamistunum er ekki að skapi. Þrátt fyrir góðan ásetning og samúðarmótmæli vítt og breytt um Evrópu þá munu hryðjuverkamennirnir samt ná ákveðnum árangri í þeim efnum því miður.

Hryðjuverkaárásin er grein af sama meiði og morðið á hollenska stjórnmálamanninum og andÍslamistanum Pim Fortyn fyrir nokkrum árum. Dauðadóm erkiklerksins í Íran yfir Salman Rushdie rithöfundi. Drápstilraunir gegn dönskum teiknara. Árásir á danska blaðið Jyllands Posten fyrir að birta myndir sem Íslamistum féll ekki í geð. Morðhótanir gegn Ali Hirsi Ali fyrrum þingmanni í Hollandi. Hryðjuverkaárásin á aðaljárnbrautarstöðinni í Madrid. Sjálfsmorðssprengingar í neðanjarðaletum í London, svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt þetta miðar að því að draga kjark úr þeim sem gagnrýna  miðalda- afturhaldshugsun Íslamskra Jihadista en sú hugsun beinist gegn einstaklingsfrelsi og mannréttindum.

Franska lögreglan hefur á undanförnum árum upplýst og komið í veg fyrir á annan tug ráðgerðra hryðjuverkaárása Íslamista en í þetta skipti tókst það ekki. Ekki frekar en þrjár aðrar hryðjuverkaárásir Jihadista að undanförnu í Frakklandi.  

Í framhaldi af þessari hræðilegu árás fékk Ríkisútvarpið  álit Eiríks Bergmann Eiríkssonar kennara og þekkts undansláttarmanns á eins og hann væri sérfræðingur í þessu. Eiríkur sagði að um væri að ræða tvö öfgalið í Evrópu annars vegar hryðjuverkamenn Íslamista og hins vegar lið sálsjúka norska morðingjans Breivik.

En heldur þessi kenning kennarans rökfræðilegu vatni?

Breivik og Oklahoma sprengimaðurinn á sínum tíma eru einstaklingar eða "lone wolves" eins og þeir eru kallaðir á engilsaxnesku sem eru ekki í neinu liði. Þeir eru fordæmdir af öllum öðrum en örfáum sem eru á sama andlega róli og þeir sem senda sálskjúkum morðingjum eins og t.d. Charles Manson kveðjur í fangelsi. Eiríkur Bergmann setur  hlutina í þetta samhengi til að draga athyglina frá því sem er raunverulega á ferðinni og finna afsökun fyrir þessari hryllilegu hryðjuverkaárás. Menn eins og Eiríkur reyna að girða fyrir skynsamlega umræðu um málefni sem er brýnt að sé rætt af alvöru og tæpitungulaust.

Í ritstjórnargrein í Fréttablaðinu í dag segir Sigurjón M. Egilsson ritstjóri, "Hryðjuverkamennirnir eru hluti hóps ofbeldismanna sem ógna fólki víða"  Síðar segir "Múslimar munu eiga erfitt uppdráttar vegna þessa. Meðal okkar er fólk sem er tilbúið að hegna saklausu fólki" Þetta er ákveðinn mergur málsins. Í fyrsta lagi bendir ritstjórinn á að um er að ræða hluta hóps ofbeldismanna sem bregðast verður við og í annan stað að refsa ekki saklausum.

Að sjálfsögðu eru til milljónir góðra og velmeinandi játenda Múhameðstrúar. Það er fólk eins og við. En við eigum að fara fram á það og gera þá kröfu, að þeir komi til baráttúnnar gegn öfgamönnunum. Þá myndast engin önnur lið en lið þeirra sem vilja viðhalda mannréttindum og nútímaþjóðfélagi gegn liði dýrkenda miðaldamyrkurs, fáfræði, vanþekkingar og haturs á vestrænum mannréttindum og lífsháttum. Pakistanska stúlkan sem vann friðarverðlaun Nóbels er dæmi um Múslima, sem er skínandi ljós á svæði þar sem stór hópur karla vill viðhalda miðaldamyrkrinu og reyndi að drepa hana fyrir það eitt að sækja skóla.

Vara ber við fljótræðislegum refsiaðgerðum ríkisstjórna "a la" Bandaríkin. Það er vafalaust hægt að ná Baghdadi og drepa hann eins og Osama bin Laden. Það er hægt að senda ómannaðar drónur sem drepa jafnt seka sem saklausa, en eru það réttu leiðirnar? Útrýmum við hryðjuverkaógninni með því. Það er ekkert "quick fix" eins og Bandaríkjamenn mundu kalla það til varðandi þetta mál.

Gaumgæfa þarf aðgerðir til að koma í veg fyrir að nýir einstaklingar gangi öfgasamtökum á hönd. Það þarf að bregðast við hugmyndafræðinni og heimsmyndinni sem Jihadistarnir aðhyllast. Málið snýst um að vinna hugmyndafræðilega baráttu eins og lýðræðissinnar hafa áður þurft að gera gagnvart öfgaöflum eins og nasistum og kommúnistum. Á þeim grundvelli er hægt að vinna þessa baráttu með því að hvika hvergi hvað varðar lýðræðisleg gildi, einstaklingsfrelsi og mannréttindi.

Í tæpan áratug var stjórnmálamaður í Brelandi í hlutverki hrópandans í eyðimörkinni, þegar hann benti á, að sótt væri að frjálsri hugsun, lýðræði og mannréttindum af ofstopafullum hatursmönnum þeirra gilda. Eiríkar Bergmann þess tíma gerðu grín að þessum manni og drógu úr hættunni, sem varð þess valdandi að hildarleikurinn sem á eftir fylgdi varð enn ógurlegri en annars hefði verið. Þessi maður, Winston Churchill varaði við uppgangi nasista og hugmyndafræði þeirra meðan Bretar sváfu á verðinum og skildu ekki að um gríðarlega mikilvæga hugmyndafræðilega baráttu væri að ræða.

Við skulum ekki láta svæfingameistarana eða talsmenn vanhugsaðra hefndaraðgerða ná árangri. Það verður að bregðast við raunverulegri ógn af skynsemi með þeim eina hætti sem hægt er að vinna slíka baráttu.

Á grundvelli hugmyndafræðilegra yfirburða.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 126
  • Sl. sólarhring: 1298
  • Sl. viku: 5268
  • Frá upphafi: 2469652

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 4824
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 116

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband