Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Roe v. Wade

Sá dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem hefur valdið mestum deilum og umtali er dómurinn í máli Roe v. Wade. Dómurinn hafði þau áhrif að fóstureyðingar urðu löglegar í Bandaríkjunum.

Óháð skoðunum á fóstureyðingum þá er dómurinn lögfræðilega vafasamur auk þess sem að dómstóllinn tók sér vald til lagasetningar í miklu deilumáli, sem hefur valdið því að málið er ekki enn afgreitt eða útrætt í Bandaríkjunum, ólíkt því sem er víðast í Evrópu m.a. hér á landi.

Konan Jane Roe,sem fékk rétt til að láta framkvæma fóstureyðingu  þrem árum eftir fæðingu dóttir sinnar, hét ekki Jane Roe. Hún hét Norma Leah Nelson og síðar Norma McCovey og er nýlátin 69 ára að aldri.

Norma McCovey(Jane Roe) átti langa sögu um misnotkun, áfengis-og vímuefna. Hún hafði átt tvær dætur sem hún lét frá sér áður en hún varð ófrísk í þriðja sinn og gat ekki hugsað sér að eiga fleiri börn. Fóstureyðingar voru ólöglegar í Texas, en  Norma bjó í Dallas.

Lögmennirnir Sarah Weddington og Linda Coffee, sem leituðu að umbjóðanda til að fara í mál við Texas fylki vegna fóstureyðingabannsins fundu hana og tóku mál hennar að sér árið 1970 og stefndu Henry Wade lögmanni Dallas í nafni Jane Roe, tökunafn Normu og þess vegna er heiti málsins  Roe v. Wade.

Þegar dómur Hæstaréttar féll árið 1973 var barn Normu orðið 3 ára og hún hafði ættleitt það eins og fyrri börn sín tvö. Norma öðru nafni Jane Roe kom aldrei fyrir dóm.

Jane þ.e. Norma varð hetja þeirra "frjálslyndu", sem börðust fyrir frjálsum fóstureyðingum, en nokkru eftir að dómur Hæstaréttar féll, snéri Norma við blaðinu. Hún gaf út ritið "Won by Love" árið 1998 þar sem hún segir, að fóstureyðingar snúist um það að drepa börn í líkama móður.

Árið 2009 var hún handtekin ásamt 26 öðrum í háskólanum í Notre Dame í Indiana, þar sem hún mótmælti því að Obama kæmi í Háskólann.( Fréttastofa RÚV sagði aldrei frá mótmælum gegn Obama ólíkt því sem gerist með Trump)

Þannig geta hlutirnir snúist og hin svonefnda baráttukona fyrir frjálsum fóstureyðingum Jane Roe þ.e. Norma McCovey varð hatrammur andstæðingur fóstureyðinga og gekkst aldrei sjálf undir fóstureyðingu. Ekki er vitað til þess að hinn aðili dómsmálsins Henry Wade hafi haft ákveðnar skoðanir á efnisatriðum málsins.

Roe v. Wade umtalaðasta dómsmál Hæstaréttar Bandaríkjanna var mál þar sem aðilar málsins áttu enga hagsmuni og Roe varð síðar hatrammur andstæðingur eigin málsstaðar.

 


Sakleysisvottorð

Í réttarríkjum telst hver maður saklaus þangað til sekt hans er sönnuð.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að snúa þessu mannréttindaákvæði á haus og skylda alla, sem reka fyrirtæki þar sem 25 eða fleiri vinna, að sanna árlega að þeir brjóti ekki lög. Takist þeim það fá þeir heiðarleikavottorð.

Þegar stjórnvöld krefjast þess að ákveðnir borgarar verði að sanna sakleysi sitt og sýna fram á að þeir fari að lögum, þá er stigið hættulegt skref frá reglum réttarríkisins. Næst mætti ákveða að allir verði árlega sanna sakleysi sitt og gangast undir heiðarleikapróf og fá vottorð upp á það á eigin kostnað.

Skriffinnskan og báknið vex á kostnað þeirra sem þurfa að gangast undir heiðarleikaprófið.

Í lögum nr. 10 frá 2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru ákvæði að viðlagðri ábyrgð að lögum um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kynferðis. Skv. 19.gr. sbr. og 25.gr. laganna er skylt að greiða konum og körlum jöfn laun og öll mismunun bönnuð. Sérstök Jafnréttisstofa starfar,sem getur kallað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum um að þau fari að lögum. Hægt er að vísa málum til kærunefndar jafnréttismála og starfandi eru skv. lögunum sérstakir jafnréttisfulltrúar og jafnréttisráðgjafar o.s.frv. o.s.frv. 

Þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu að greiða fólki sömu laun óháð kynferði og víðtæk lagaákvæði til að tryggja að svo sé gert m.a. víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar þá er það ekki nóg að mati ríkisstjórnarinnar. Hver maður skal sanna á eigin kostnað að hann brjóti ekki gegn lögunum.

Hvað sem líður göfugum markmiðum um jafna stöðu karla og kvenna sem og öðrum göfugum markmiðum þá má aldrei ganga of langt og skerða réttindi borgaranna og ætla þeim það að þeir séu að brjóta lög nema þeir geti sýnt fram á hið gagnstæða.

Þess vegna geta þeir þingmenn,  sem vilja einstaklingsfrelsi og vilja virða þá grunnreglu mannréttinda að hver maður skuli talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð ekki greitt þessum óskapnaði atkvæði sitt.

 

 


Hjónavígslur á forsendum ríkisins

Aftur og aftur opinbera þingmenn Vinstri grænna og Pírata andúð sína á kristni og kirkju. Engu skiptir þó að biskupinn reyni að friðþægja þeim með sömu hugsun og maðurinn sem henti kótelettum í tígrísdýrið í þeirri trú að það mundi leiða til þess að það gerði tígrísdýrið að grænmetisætu.

VG og Píratar hafa lagt fram á Alþingi tillögu um að einungis opinberir starfsmenn geti framkvæmt hjónavígslu svo gilt sé og telja rétt að afnema þau persónubundnu réttindi sem borgarar landsins hafa í dag til að velja. Ekki í fyrsta skiptið sem Sovétið sýnir sitt rétta andlit hjá forustufólki VG og Pírata.

Í nokkurn tíma hafa Vinstri grænir, Píratar o.fl. barist fyrir rétti samkynhneigðra til að fá kirkulega hjónavígslu og nú þegar það hefur tekist þá finnst þessum sömu aðilum rétt að svipta kirkjuna þeim rétti að framkvæma hjónavígslu svo máli skipti.

Nú er það svo að hjónavígsla hefur trúarlega skírskotun hjá mörgum, það voru m.a. rökin fyrir að samkynhneigðir fengju vígslu í kirkjum. En nú snúa VG og Píratar þessu á haus og segja að þetta skipti bara engu máli. Alla vega ekki lengur.

Þingmenn VG og Pírata leggja til að einstaklingunum verði meinað að láta presta eða forstöðumenn trúfélaga sjá um hjónavígslur svo gilt sé. Sama kerfi og VG og Píratar leggja til var við lýði í löndum kommúnista og að hluta til hjá nasistum. Flott að samsama sig með þeim flokkum eða hvað?

Einstaklingsfrelsið skal afnumið en í stað þess komi ríkisræðið þar sem þú skalt hvort sem þér líkar betur eða verr hvort sem þú ert gagnkynhneigður eða samkynhneigður. Þú mátt ekki hafa valfrelsi því það er eitthvað sem þessu stjórnlynda fólki í VG og Pírötum finnst allt of mikið af í þjóðfélaginu.  


Nú þarf að mótmæla lýðnum.

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar einkum hér á landi farið mikinn og bent okkur á hvílík skepna í mannsmynd hinn nýkjörni Bandaríkjaforseti er. Helst hafa þeir haft horn í síðu hans fyrir að setja tímabundið bann við komu fólks frá nokkrum ríkjum þar sem meirihlutinn eru Íslams trúar.

Stjórnmálamenn í Evrópu hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja og talið þessa afstöðu Trump vera kynþáttahyggju þ.e. rasisma og óásættanlega í alla staði. Þau Angela, Hollande og Tusk hafa farið mikinn og skírskotað til bandarísku þjóðarinnar að taka í taumana. Einhvern tímann hefði það verið talið jafngilda því að erlendir þjóðarleiðtogar væru að hvetja til byltingar í öðru ríki.

Alþingi íslendinga hefur ekki látið sitt eftir liggja og Píratar fóru mikinn og kyrjuðu sálminn sinn úr ræðustól á Alþingi og þar sem þeim verður jafnan orðafátt þegar kemur að alvöru málsins þá tóku þeir þau tvö orð sem þeim eru tömust sér í munn í síbylju - rasisti- fasisti og þannig var þulan látin ganga um manninn sem Píratar og ríkisstjórn Íslands telja að sé hin mesta ógn við hinar einu hreinu og leyfilegu skoðanir að þeirra mati þ.e. Kanahatur, menningarleg og siðræn uppgjöf og opin landamæri

En svo bregðast krosstré sem önnur tré eins og segir í máltakinu. Nú hefur skoðanakönnun í 10 Evrópuríkjum staðfest að skoðanir Trump hafa yfirburða stuðning meðal kjósenda. Þannig vilja 54% Evrópubúa setja algjört aðkomubann á múslima. Trump setti bara 90 daga bann. Í Póllandi heimaríki Tusk eru yfir 70% kjósenda sem vilja setja á svona bann.

Hvar standa Evrópuleiðtogar þá Gulli minn góður. Eiga þeir ekki að fara í stríð við eigin landsmenn og mótmæla þeim fyrir rasisma og fasisma. Þurfa þeir þá ekki að berjast sem aldrei fyr til að skipta um þjóð fyrst einhliða fréttaflutningur, fréttafalsanir og fréttabann dugar ekki til.

Hvað er til ráða og hvað má þá vera til varnar sóma þeirra sem fordæma og fordæma aðra og standa svo frammi fyrir því að þeir standa naktir í næðingnum af því að fólk er ekki jafn skyni skroppið og forréttindaaðallinn í vestrænum þjóðfélögum sem heldur að peningar vaxi á skinni skattgreiðenda.

Nú þarf Alþingi og utanríkisráðherra að gera hið fyrsta hróp að kjósendum í Evrópu fyrir fasisma og rasisma og mótmæla því að þeir skuli leyfa sér að hafa skoðanir sem þau eru ekki sammála.


Skepnuskapur gagnvart ungu fólki.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi hefur bent á þann skepnuskap sem ríkisvaldið veldur með því að ganga erinda lífeyrissjóða og okurleigufélaga á húsnæðismarkaði. Hann á heiður skilið fyrir það. 

Ármann vekur athygli á því, að á sama tíma og lífeyrissjóðirnir fjárfesta í félögum sem leigja síðan ungu fólki á uppsprengdu verði,þá eru þeir ekki að lána sjóðsfélögum sínum til að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið. Unga fólkið á því aldrei kost að vera sjálfs síns ráðandi í eigin húsnæði, en verður að sætta sig við að vera leiguþý okurleigufélaga í eigu lífeyrisfurstana.

Sú var tíðin að það var grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins að auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði. Eign fyrir alla, sem hafa dug og getu til að brjótast til bjargálna sögðu forustumenn Sjálfstæðisflokksins hver á fætur öðrum allt fram á þessa öld.

Svo breyttist eitthvað. Fjármagnseigendur og lífeyrissjóðir fóru að hafa meiri og meiri áhrif í Sjálfstæðisflokknum og flokkurinn hélt sig í verðtryggingar björgunum gegn hagsmunum fólkins. Sósíalistarnir og afthurhaldið sameinuðust um að skammta launþegum naumt og koma því til leiðar að lánakjör hér á landi væru með þeim hætti að allir aðrir en ofurlaunafólk yrðu gjaldþrota ef þau reyndi að koma sér eigin þaki yfir höfuðið.

Ríkið neyðir vinnandi fólk til að greiða 12% af launum sínum til lífeyrisfurstana. Þeir fá að valsa með peninga fólksins að vild án þess að greiða af þeim skatta. Fólkið þarf síðan að greiða skatta af hverri krónu sem það fær endurgreitt sem lífeyri.     

Það var því tími til kominn að ráðamaður í Sjálfstæðisflokknum andmælti þessu og vill endurvekja stefnu þess Sjálfstæðisflokks sem var flokkur allra stétta. Því miður held ég að það dugi samt skammt. Stjórnmálaelítan er upp til hópa svo bundin á klafa hagsmuna lífeyrissjóða og leigufélaga, að það gæti þurft verulega byltingu í stjórnmálalífi landsins til að ná fram nauðsynlegum breytingum til þess að ungt fólk sem dugur er í geti eignast sitt eigið húsnæði.

Þannig þjóðfélag þurfum við að fá. Þjóðfélag þar sem borgararnir geta notið verka sinna og komið sér upp eigin eignasafni á eigin forsendum og verið sinnar gæfu smiðir. Við þurfum að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki hlaða endalausri hælisleitendaómegð inn í landið á kostnað vinnandi fólks

Átti Sjálfstæðisflokkurinn sig ekki á því að hann verður þegar í stað að skipta um stefnu og standa með unga fólkinu og þjóðlegum gildum gegn auðfélögunum og menningarlegri uppgjöf,  þá er hætt við að fljótlega fari fyrir honum eins og Samfylkingunni í síðustu kosningum.

 


Fasisti, vitleysingar og Hitler.

Í daglegum framhaldsþætti RÚV um voðamennið Donald J.Trump komu fram skörpustu hnífarnir í skúffu Háskóla Íslands í alþjóðamálum eins og ætla mátti af kynningu þeirra.

Í Kastljósþætti kvöldsins, sem að þessu sinni hýsti framhaldsþátt RÚV um bandaríska voðamennið, voru neytendur upplýstir um eftirfarandi af háskólaelítunni:

"

Það er rangt að kalla Trump fasista þó hann sé það í raun og veru.

Gáfaða fólkið í Bandaríkjunum kaus ekki Trump heldur hinir miður gefnu.

Hitler var líka kosinn í lýðræðislegri kosningu og byrjaði að ryðja til í kring um sig.  "

Er von að umræðan verði gáfuleg með þjóðinni þegar helstu "sérfræðingar" háskólaelítunnar í alþjóðamálum hafa svona málefnalega nálgun og vitrænan skilning á samhengi hlutanna?


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 17
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4233
  • Frá upphafi: 2449931

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 3944
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband