Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021

Spámaður er oss fæddur

Þegar síldin hvarf seinni hluta sjöunda áratugs síðustu aldar minnkaði þjóðarframleiðsla og gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega. Þá átti þjóðin frábæra hagfræðinga, sem voru með báða fætur á jörðinni menn eins og Ólaf Björnsson alþingismann og prófessor, Davíð Ólafsson alþingiasmann og síðar Seðlabankastjóra og Birgi Kjaran alþingismann og hugmyndafræðing svo nokkrir séu nefndir. 

Þessir hagfræðingar voru sér meðvitaðir um að afla verður þeirra fjármuna, sem borgað er með og hvorki heimili né ríkissjóður verða endalaust rekinn fyrir lánsfé. 

Við eigum enn góða hagfræðinga, sem greina ástandið með einföldum og skýrum hætti. Einn þeirra er Ragnar Árnason prófessor, sem benti m.a. á í Morgunblaðsgrein þ.6.mars s.l. að ferðaþjónustan hefði staðið undir þorranum af hagvexti áranna 2014-2019. Þá benti hann líka  á, að núverandi velmegun sé tekin af láni og segir m.a. "Þessar lántökur verður að greiða til baka fyrr eða síðar." Í sjálfu sér ekki ný sannindi, en horfin sumum. 

Á sínum tíma setti Böðvar Guðmundsson skáld og trúbadúr fram þá kenningu að hér á landi þyrftum við engu að kvíða því ameríski herinn mundi sjá um þjóðina þá ekki síst íslenskar alþýðupíkur eins og skáldið orðaði það í kvæði sínu. Allir gerðu sér grein fyrir, að Böðvar var með ádeilukvæði sínu að gera grín. 

Nú hefur þjóðin eignast spámann í líki Gylfa Zoega,sem hefur fundið þá einföldu lausn allra vandamála þjóðarinnar, að með því að loka landinu og halda áfram skuldsetningu, verði þjóðinni best borgið. Fagnaðarboðskap Gylfa hefur verið tekið með miklum fögnuði. Þekkt er úr sögunni fyrr og nú að dansinn í kringum gullkálfinn er fólki hugleikinn, sérstaklega ef ekkert þarf annað á sig að leggja en að dansa.

En veruleikinn skyggnist alltaf fram um síðir jafnvel þó hann verði ekki í líki Móse komnum af fundi Jahve á fjallinu helga. Spurningin er hvort falsspámenn verði þá vegnir og léttvægir fundnir eða geti sveiflað sér á aðra grein eins og skáldmæringar hagfræðinnar á árunum fyrir hrun gerðu.

 


Er þetta aprílgabb?

Fimmtudaginn 1. apríl 2021 koma Árni Árnason forstjóri og Bjarni Bjarnason tæknimaður heim úr 7 daga vinnuferð til Svíþjóðar. Þeir framvísa báðir neikvæðu PCR prófi, sem sýnir að þeir eru ekki smitaðir af Covid. Í framhaldi af því eru þeir skimaðir við heimkomu og að því loknu handteknir vegna gruns um að þeir séu Covid smitaðir og fluttir nauðugir í sóttvarnarhús skv. valdboði ríkisstjórnarinnar.

Álíka og að framvísa hreinu sakavottorði og vera í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Þeir fá ekki að fara heim til sín í sóttkví heima þó báðir búi vel og rýmilega. Báðir halda þeir, að hér sé um vel útfært aprílgabb að ræða. Hvað annað á vitiborið fólk að halda. En þetta er ekki aprílgabb heldur sóttvarnaryfirvöld komin yfir öll eðlileg mörk skynsamlegrar beitingar sóttvarnarreglna.

Enn er tími fyrir ríkisstjórnina að hverfa frá þessari lögleysu, sem er án nokkurs vafa brot á reglum um meðalhóf, auk þess, sem ákvæði sóttvarnarlaga heimila ekki slíka valdbeitingu miðað við þessar aðstæður.

Er ekki rétt að ríkisstjórnin afstýri þessu aprílgabbi áður en það raungerist?

 


Ef

Ef sóttvarnarlæknir hefði ekki farið á taugum fyrir 5 dögum og krafist harkalegra aðgerða er þá líklegt að hann mundi gera það í dag, þegar fyrir liggur að engin ástæða var til svo hörkulegra aðgerða. Ríkisstjórnin fylgdi eins og vanalega sem hlýðinn kjölturakki. Gerir hún eitthvað til að stytta tímann eða aflétta þessu fári þegar í ljós er komið að ekki var ástæða til þessara aðgerða?

Miðað við tíðni smita utan sóttkvíar frá því að þessi ákvörðun var tekin, þá liggur fyrir að viðbrögðin voru yfirdrifin. Samt sem áður verður frelsisskerðingin ekki afnumin vegna þess að það er auðveldara að svipta fólk frelsi en veita því það á nýjan leik. 

Fyrir um ári var talað um, að við yrðum að læra að lifa með veirunni. Það var þá, en sú afstaða gufaði upp, þrátt fyrir að viðkvæmustu hóparnir hafi að mestu leyti fengið bólusetningu.

Í ráðstjórnarlýðveldum verða hömlurnar sífellt víðtækari. Það þótti vel í lagt þegar fólk var skimað á landamærunum og þurfti síðan í sóttkví í 5 daga og fara síðan aftur í skimun. Nú hefur bæst við að fólk þarf að skila inn PCR prófi sem má ekki vera eldra en 72 stunda frá inngöngu í flugfar og þar við bætist, að innlendir sem erlendir þurfa að sæta því að fara í nauðungarvistun í séstöku sóttvarnarhúsi í viku eftir að viðkomandi kemur frá löndum með töluverða smittíðni.

Sovétið lætur aldrei að sér hæða og það er bara Sigríður Andresen ein stjórnmálafólks, sem þorir að andæfa og enginn annar spyr um lögmæti þessara aðgerða, sem vægast sagt orka mjög tvímælis. 

 


Hver gaf þeim þetta vald?

Fáum stjórnmálamönnum hef ég minni samúð með en Kommúnistanum, Maduro einræðisherra Venesuela. Hann á samt að hafa frelsi til að tjá sig, jafnvel um mál sem hann hefur ekkert vit á. 

Þau orð, sem höfð eru eftir franska heimspekingnum Voltaire "Ég fyrirlít skoðanir þínar en er reiðubúinn til að fórna lífinu til að þú getir haldið þeim fram" lýsa vel þeirri hugsun sem raungerðust á tíma upplýsingastefnunar í Evrópu og leiddu til fulls tjáningarfrelsis allra, en að fólk þyrfti að bera ábyrgð á ummælum sínum. Sú regla hefur gefist vel. 

Einokunarvefirnir Google og Facebook taka sér það vald, að loka fyrir aðgang ákveðinna aðila og meta ummæli röng eða rétt, æskileg eða óæskileg. Nú síðast hafa þeir sett Maduro í bann fyrir það að mæla með einhverjum dropum til að lækna Covid. Áður settu þessir risar m.a. bann á að þáverandi Bandaríkjaforseti Donald Trump fengi að tjá sig. 

Angela Merkel átti í vandræðum eftir að hafa opnað fyrir hælisleitendum árið 2015 og fékk á sig heiftarlega gagnrýni frir þá heimsku. Hún talaði við stjórnanda facebook á ráðstefnu og tali sig vera á öruggu svæði, en var það ekki þannig að ummælin urðu kunn.

Merkel spurði stjórnanda facebook hvort ekki væri  hægt að loka fyrir eða takmarka aðgengi þeirra sem gagnrýndu stefnu hennar á facebook til að tjá sig. Stjórnandi Facebook sagði "We are working on it" (við erum að vinna í því). Semsagt vinna í því að útrýma óæskilegum skoðunum. 

Lýðræðisríki heims þurfa að taka sig saman og gera þær kröfur, að  facebook og Google virði mannrétti og samskiptareglur. Það er ekki einokunarfyrirtækja eins og þessara að stjórna umræðunni.

Hvaðan kemur facebook og Google vald til að ákveða hvað er rétt og hvað er rangt? Hvaða skoðanir séu æskilegar og hverjar ekki? Þetta vald hafa þessir einokunarfursta tekið sér andstætt stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga í lýðræðisríkjum. Öllum þeim ríkjum ber að tryggja að farið sé að lögum.


Kæri Pútín

Heilbrigðisráðherra hefur biðlað til Pútíns um að Rússar selji okkur rússneska bóluefnið Spútnik V. Með því er raungerð viðurkenning á, að samflot með Evrópusambandinu varðandi bóluefni,hafi verið mistök. 

Betra væri að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin hefði séð ljósið fyrr og leitað strax eftir samningi við Rússa þegar fyrir lá, að Spútnik V er eitt besta ef ekki besta bóluefnið á markaðnum. Evrópusambandsglýja ráðamanna kom í veg fyrir það. 

Nú þegar biðlað er til Pútín um að sjá aumur á okkur, þá væri e.t.v. rétt, að við hættum um leið samfloti með Evrópusambandinu um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. 

Samstarf Íslands og Rússlands hafa verið góð og arðsöm fyrir Íslendinga. Gönuhlaup Gunnars Bragi Sveinssonar, sem anaði út í að setja viðskiptabann á Rússland, veldur tugum milljarða tjóni fyrir íslenska frameleiðendur á ári hverju og þessi maður er enn þingmaður og ekkert hefur verið gert í að víkja frá þessu rugli. Ísland í dag er furðufyrirbæri að þessu leyti.

Fyrst ríkisstjórnin fer nú bónarveg að Pútín í bóluefnismálum, er þá ekki rétt, að hún tilkynni nú þegar, að fallið sé frá öllum hömlum á viðskipti við Rússa og harmað, að Ísland skyldi hafa anað út í það fen með Evrópusambandinu.

Af hverju ættu Rússar að láta okkur hafa bóluefni þegar við erum á sama tíma að fjandskapast við þá? Það er glópska að halda áfram þessum ruglanda gagnvart Rússum.


Hin nýja sýn á vandanum.

Spakvitrasti stjórnmálamaður norðan Alpafjalla, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, fjallar stundum um mál með þeim hætti að vísuhending um fjallið Einbúinn verða næsta hugleiknar eins og segir: Hann Einbúi gnæfir svo langt yfir lágt að lyngtætlur stara á hann hissa.

Í fréttatíma RÚV í hádeginu fann hann 5 ára fjármálaáætlun fjármálaráðherra allt til foráttu og segir að ekki sé ráðist að rót vandans sem sé atvinnuleysi. Logi bendir samt ekki á nein arðbær atvinnuskapandi verkefni, en setti fram nýja kenningu sem er einkar athygliverð.

Þannig sagði Logi formaður að þegar talað væri um tekjubætandi aðgerð í fjármálaáætluninni væri verið að vísa til niðurskurðar og skattahækkana. 

Nú fer mér eins og lyngtætlunum í kvæðinu Einbúinn. Svo vís er þessi kenning Loga, að hún verður ekki sett í vitrænt samhengi við allílfið eða neinar hagfræðikenningar fyrr eða síðar hvorki borgaralegar né sósíalskar.

Hvað er tekjubætandi aðgerð? Skv.orðskýringu er það aðgerð sem kemur í stað skatta og eykur þá væntanlega ráðstöfunartekjur fólks. Okkur lyngtætlunum er því fyrirmunað að skilja þá rökfræðilegu útleggingu Loga formanns, að tekjubætandi aðgerð þ.e. lækkun skatta sé ávísun á niðurskurð og skattahækkanir. 

Umræða verður um málið á Alþingi á morgun og væntanlega mun Logi sem hefur hér haslað sér völl með nýja sýn á hagfræðileg hugtök, orsök og afleiðingu gera okkur lyngtætlunum vitsmunalega grein fyrir því hvernig þetta getur farið saman með þeim hætti sem hann heldur fram.


Aðgát skal höfð

Í dag mun heilbrigðisráðherra, fulltrúi sóttvarnarlæknis í ríkisstjórninni, leggja fram minnisblað á fundi þeirrar ágætu stjórnar, þar sem kveðið verður á um frekari takmarkanir á frelsi fólksins í landinu til athafna. 

Í fyrirsögn í höfuðblaði þjóðarinnar segir að 26 veirusmit hafi greinst um helgina, sem er geigvænleg fjölgun smita lesið í því samhengi. En þegar nánar er skoðað, þá eru smitin sem betur fer bara þrjú innanlands utan sóttkvíar og þessi þrjú smit eru öll innan sömu fjölskyldu. 

Þrjú smit innan sömu fjölskyldu eru allt annað en 26 og kalla tæpast á hertar stjórnvaldsaðgerðir, en eðlilegt er að brýna það fyrir almenningi að fara varlega meðan uppruni smitana og útsmit eru rakin. 

Þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi gerst sek um stórfellt klúður við að fá bóluefni gegn veirunni til landsins, þá hefur samt tekist að bólusetja meginþorra viðkvæmustu hópa landsmanna. Með þá staðreynd í huga er eðlilegt að stjórnvöld ég tala nú ekki um Sjálfstæðisflokkinn, sem byggir á einstaklingsfrelsi og trúnni á getu einstaklingsins til að fást við hin flóknustu mál til hagsbóta fyrir land og lýð vísi málinu til almennings í landinu og geri fólki með öfga- og ýkjulausum hætti grein fyrir ástandinu og hvað beri sérstaklega að varast, en lífið gangi að öðru leyti sinn vanagang.

Þjóðin hefur ítrekað orðið vitni að því, að það er auðveldara að svipta fólk frelsi en að veita því það aftur jafnvel þó að tilefni frelsissviptingarinnar sé löngu liðið hjá.   


Skynsemi eða nauðhyggja

Í umræðuþætti á RÚV, Silfrinu í gær fóru fyrstu 80% þáttarins í að tala um getgátur eða allir eru sammála um. Þegar leið að lokum sagði stjórnandinn, að Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins hefði hreyft ákveðnum hugmynum varðandi ólöglega innflytjendur(hælisleitendur), en vakti um leið athygli á að lítið væri eftir af þættinum. Ólafur vakti m.a. athygli á stefnu danskra jafnaðarmanna í málinu og taldi að um væri að ræða stefnumótun, sem ástæða væri fyrir okkur að skoða.

Fulltrúar nauðhyggjunar í málinu fundu þessu ýmislegt til foráttu. 

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins minnti á Altúngu í Birtingi Voltaire og sagði nánast,að frv. dómsmálaráðherra í málinu væri stefna, sem væri sú besta sem til væri. Raunar eru þær tillögur þegar grannt er skoðað ámóta skilvirkar til að yfirstíga vandamálið eins og að ætla að girða norðanáttina af í Reykjavík með því að setja upp skjólvegg í Örfirisey.

Fulltrúi Pírata vildi hætta öllu veseni á landamærunum, en mæltist að öðru leyti skynsamlega.

En svo kom rúsínan í pylsuendanum, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar, sem fann stefnu bræðraflokks síns í Danmörku allt til foráttu og ekki var annað á henni að skilja en þarna færu danskir sósíaldemókratar villur vegar svo fordæmanlegt væri. Ekki var annað að skilja á þingmanninum, en allar breytingar á stjórnleysinu í þessum málum væri til hins verra og afstaða danskra krata fordæmanleg. 

Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins benti m.a á, að með því að fara þá leið sem að danskir jafnaðarmenn vilja, væri hægt að hjálpa fleirum og þau vandamál, sem nú væri við að etja vegna stjórnlauss aðstreymi svokallaðra hælisleitenda, sem eru um 80% ungir karlmenn mundu verða að miklu leyti úr sögunni. 

Sérkennilegt að þinmenn og verðandi þingmenn skuli ekki vilja skoða þessar hugmyndir danskra krata, sem loksins sáu og viðurkenndu, að áfram yrði ekki haldið á þeirri óheillabraut, sem meirihluti þingmanna á Íslandi virðist vilja halda. 

Það væri hægt að hjálpa 135 manns í nágrenni við heimkynni sín sem eru í bráðri neyð, fyrir hvern einn hlaupastrák sem hefur haft ráð á því að láta smygla sér yfir hafið og þessvegna land úr landi í Evrópu. Hagnaður glæpamannanna sem sjá um þetta smygl hleypur á tugum milljarða íslenskra króna. Er það ekki glórulaus heimska að ætla að halda áfram vonlausu kerfi, sem  hjálpar fáum og síst þeim sem mest þurfa á að halda í stað þess að leita skynsamlegra leiða út úr vitleysunni?

Danskir sósíalistar eiga heiður skilið fyrir að sýna þá djörfung til tilbreytingar að bera sannleikanum og skynseminni vitni. Þeir vilja taka stjórn á sínum landamærum hvað þetta varðar. Af hverju gerum við það ekki líka. Fróðlegt verður að sjá hvaða þingmenn og stjórnmálaflokkar vilja að við höfum stjórn á landamærunum og hverjir vilja að við týnumst fyrr en síðar í þjóðahafinu.


Milliliður allra milliliða

Pétur Benediktsson heitinn, sendiherra, bankastjóri og alþingismaður gaf á sínum tíma út kverið "Milliliður allra milliliða" Á þeim tíma hömuðust sósíalistar og kommúnistar þess tíma sem og þesslyndir Framsóknarmenn við að gagnrýna svonefndan milliliðagróða og héldu því fram að lífskjör mundu batna til ef hægt yrði að útrýma honum. 

Pétur benti með beinskeyttum hætti á það, hversu vitlaus þessi umræða væri og ekki yrði hjá milliliðum komist þó ekki væri til annars en að framleiða vörur, koma þeim á markað og milli markaða. Til gamans benti hann á, að kýrin væri í raun milliliður allra milliliða. Hún biti gras og afurðin mjólk yrði til. 

Pétur benti líka á hversu vitlausar niðurgreiðslur væru þ.e. að ríkið tæki peninga skattgreiðenda og lækkaði með því vöruverð á sumum neysluvörum. Í því sambandi birti hann skopmynd, þar sem feitur maður situr við borð og skóflar í sig dýrindis krásum. Mjór og glorsoltinn hundur kemur að borðinu og mænir á feita manninn biðjandi augum. Feiti maðurinn tekur upp hníf og sker af rófunni á hundinum og stingur upp í hann og hundurinn labbar alsæll í burtu. 

Pétri fannst þessi skopmynd sýna vel að fólk borgi alltaf fyrir niurgreiðslur að lokum neytendur og skattgreiðendur. 

Ráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur til, að "gefa" fólki ferðagjöf. Ráðherrann ætlar ekki að borga ferðagjöfina sjálf. Þeir sem fá gjöfina borga hana. Sama og þegar feiti maðurinn skar hluta rófunnar af hundinum og stakk upp í hann. 

Ferðagjöf ferðamálaráðherra er þó smáræði á við það sem félagsmálaráðherra er búnn að unga út upp á síðkastið og greinilegt að hann er búinn að vera í kosningabaráttu lengi á kostnað skattgreiðenda til að tryggja sér þingsæti í Reykjavík. 

Þegar viðbrögð stjórnvalda við Kóvíd faraldrinum leiddu til mikils tekjufalls flestra á frjálsa markaðnum, sem ríkisvaldið ákvað að bæta með myndarlegum hætti fyrir suma, þá virðist sem flóðgáttir millifærslna og ríkishyggju hafi skyndilega brostið og peningum skattgreiðenda er ausið út eins og þeir séu óþrjótandi og aldrei þurfi að borga fyrir þessa innistæðulausu veislu. 

Sú hugsun virðist gleymd að stjórnmálamenn eru alltaf að fara með fjármuni annars fólks og þeim ber skylda til að gæta þess vandlega. Hvað skýrast kom þetta fram í viðhorfi formanns BSRB fyrir nokkru þegar hún sagði, að ríkissjóður væri ekkert heimilisbókhald og því væru engin tormerki á því að auka enn hallarekstur ríkissjóðs með myndarlegri framlögum til tekjuauka fyrir hálaunafólk. 

Samband íslenskra samvinnufélaga var stærsta fyrirtæki landsins og þar var ekki fylgt lögmálum heimilisbókhaldsins. SÍS fór í raun á hausinn vegna þess að grundvallarreglur heimilisbókhaldsins eru alltaf til staðar. 

Sama var um Baug, umsvifamesta fyrirtækis landsins um árabil. Þar var ekki fylgt heimilisbókhaldsreglum frekar en hjá SÍS og það endaði með þúsund milljarða gjaldþroti. 

Ríkissjóður lítur sömu lögmálum þegar upp er staðið. Auknar lántökur og hallarekstur ríkissjóðs í núinu leiða til hækkunar skatta og vaxta. Það eru þau óumflýjanlegu efnahagslömál, sem aldrei er hægt að komast framhjá þegar hallarekstur ríkis eða fyrirtækja er eingöngu til eyðslu í núinu.

En veislunni sem millifærslufurstarnir í ríkissjóð hafa boðið til enda ekki fyrr en eftir kosningar og svo virðist sem nánast öll stjórnmálastéttin sem og drjúgur hluti þjóðarinnar vilji dansa sem lengst í kringum þennan gervi gullkálf í draumi þess sýndarveruleika að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af þar sem gömlu lánin megi alltaf greiða með nýjum eins og stjórnendur Baugs og SÍS töldu.   


Blæjan og frelsið

Hvað eiga Evrópuríkin Austurríki, Belgía, Búlgaría Danmörk, Frakkland,Ítalía, Lettland, Holland, Svíþjóð og Þýskaland sameiginlegt. Þau hafa öll bannað múslímska andlitsblæju kvenna. Innan skamms mun Sviss fylla þennan hóp, en um daginn var það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

En hvað með frelsið og umburðarlyndið. Hvernig stendur á því að hið frjálslynda Holland og Danmörk eru að hafa afskipti af klæðaburði fólks? Snýst búrkubannið og blæjubannið um það?

Stuðningsfólk blæjubannsins í Sviss bentu á, að blæjan væri aldagamall siður til að undirstrika að konur væru körlum undirgefnar. Blæjur voru nánast ekki til í Evrópu ekki heldur hjá múslimum sbr. t.d. Sarajevo, fyrr en hið pólitíska íslam gerði blæjuna að áróðurstákni, gegn vestrænum siðum og menningu, og konur í álfunni og víða annarsstaðar voru neyddar til að bera þetta tákn ófrelsis og kynjamisréttis. 

Saida Keller Messahli stofnandi og formaður samtaka um framfarasinnað Íslam, segir að með því að banna blæjuna sé verið að hafna hugmyndafræði alræðis, sem sé andstæða lýðræðis. Saída Keller er múhameðstrúar, fædd í Túnis og baráttukona fyrir mannréttindum. Hún hefur horft upp á það hvernig hið herskáa pólitíska Íslam hefur þrengt sér inn í moskur í Evrópu og samtök múslima og valdið stöðugt meiri sundrungu og fornaldarhyggju.

Boðskapur þessarar stjórnmálastefnu, en það er hún mun frekar en trúarbrögð, er alræðishyggja í ætt við fasisma og kommúnisma. Blæjan  sem einkennismerki þessarar hugmyndafræði gerir konur að andlitslausum annars flokks verum, og er hvað augljósasta táknið um kvennfyrirlitningu. Bann við andlitsblæjunni er því ekki spurning um að vegið sé að frelsi fólks til að ákveða hvernig það klæðist ekki frekar en að bannað er að bera nasísk tákn í Þýskalandi.

Svissneskir kjósendur kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu að banna skyldi þetta einkennismerki herskárrar pólitískrar stefnu Íslamsks alræðis, kvennakúgunar og haturs á vestrænum gildum. Fyrir áratug síðan greiddu þeir líka atkvæði með því að banna mínarettur eða kallturna við moskur, sem að Erdogan Tyrklandsforseti hefur lýst sem vígvopni gegn vestrænum gildum.

Við Íslendingar ættum fyrr en síðar að taka umræðu um þessi mál einkum og sér í lagi vegna þess slappleika sem stjórnvöld sýna í útlendingamálum og taka okkur stöðu með öðrum lýðfrjálsum ríkjum í Evróp og banna tákn kvennakúgunar og alræðishyggju, áður en það verður vandamál í íslensku samfélagi. 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 192
  • Sl. sólarhring: 834
  • Sl. viku: 4013
  • Frá upphafi: 2427813

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 3715
  • Gestir í dag: 177
  • IP-tölur í dag: 173

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband