Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

Innflytjendur og Schengen

Mörgum þykir hin mesta goðgá, þegar fólk lýsir þeim skoðunum, að það þurfi að takmarka aðstreymi innflytjenda og hælisleitenda og endurskoða ákvæði Schengen samningsins, en segja sig frá því samstarfi ella. Þeir sem ræða slíkt eru tíðum kallaðir öfgamenn,rasistar, náttröll eða að þeir  en fylgist ekki með tímanum, þar sem við komumst ekki hjá, að taka á okkur alþjóðlegar skuldbindingar og þá oftast vísað í strákana sem ráða í Brussel gæðum og reglum í Evrópusambandinu. Manna eins og t.d. Michel Barnier, sem var samningamaður Evrópusambandsins vegna útgöngu Breta úr Evrópusamstarfinu og þótti halda fast á málum og vera lítt sveigjanlegur í þeim viðræðum.

Nú hefur sá hinn tilkomumikli franski stjórnmálamaður Michel Barnier,sá mikli mógúll Evrópusamstarfs og pólitískrar rétthugsunar viðrað þær skoðanir til heimabrúks í Frakklandi að nauðsynlegt sé að banna aðflutning innflytjenda utan Evrópu næstu 3-5 árin og breyta þurfi ýmsum ákvæðum Schengen samningsins.

Þessar skoðanir Barnier ganga mun lengra en flestir þeir sem fjallað hafa um málin hér á landi hafa leyft sér að orða. Barnier, sem mundi flokkast sem hægri miðjumaður í frönskum stjórnmálum ætti því að eiga pólitíska samleið með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og fróðlegt væri að vita hvaða skoðanir þær hafa á þessum sjónarmiðum Barniers.

 


Var við öðru að búast

Margir rýnendur voru búnir að spá því að Seðlabankinn mundi hækka stýrivexti, þar sem verðbólga væri kominn nálægt 5% eða tæplega helmingi umfram verðbólgumarkmið bankans. Þrátt fyrir það eru stýrivextir Seðlabankans nálægt lágmarki þess, sem verið hefur á þessari öld.

Við því mátti búast að verðbólgan færi úr böndum við þær aðstæður, sem verið hafa undanfarið rúmt ár, þar sem það hefur verið stefna Seðlabankans að halda vöxtum í lágmarki til að koma í veg fyrir aðrar og e.t.v. verri kreppur og mun meira atvinnuleysi en verið hefur. Sú stefna bankans er að öllu leyti afsakanleg og skynsamleg. En nú verður að taka í bremsuna þar sem varhugavert er að halda áfram á sömu braut. 

Þó að Seðlabankinn sjái alvöru málsins, þá verður ekki séð að stjórnmálamenn þjóðarinnar geri það eða séu reiðubúnir til að grípa til aðhaldsaðgerða. Endalaust er ausið úr ríkissjóði peningum sem ekki eru til. Afleiðing þess getur ekki orðið önnur en verðbólga hvenær sem hún kemur fram.

Þ.9.maí s.l. skrifaði Ögmundur Jónasson fyrrum ráðherra í föstum pistli sínum í Morgunblaðið eftirfarandi:

"Nú bregður hins vegar svo við að stjórnvöld virðast líta svo á að peningar sem þau hafa til ráðstöfunar séu óþrjótandi. Ekkert sé svo dýrt að það megi ekki splæsa í það" og síðar segir "Og framlag stjórnarandstöðunnar er að bæta í,hafa það bara þríréttað. Þannig hefur gagnrýnin verið úr þeirri átt að grípa til margföldunartöflunnar."

Þetta er alvarleg falleinkun,sem stjórnmálastétt þessa lands fær og það frá manni sem hefur verið til vinstri í pólitík.

Það var nauðsynlegt að bregðast við afleiðingum Covid faraldursins, auknu atvinnuleysi og tekjufalli, en á móti þurfti að beita aðhaldi og sparnaði hvar sem því var viðkomið. Það var ekki gert og ýmsir ráðherrar hafa notað tækifærið til að frekjast með að krefjast aukinna fjárframlaga í ýmis verkefni sem þurftu að bíða meðan atvinnustarfsemi í þjóðfélaginu var í lágmarki. 

Nú er komið að því að ríkisstjórnin fari að stjórna  og leiði þjóðfélagið inn í eðlilega tíma frá valdboðum sóttvarnarlæknis.

Betra að fyrr hefði verið. 


mbl.is Mikil verðbólga stýrir vaxtahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkasala

Enn einu sinni eru komnar upp deilur um einkasölu á vörum nú varðandi netverslun ÁTVR og/eða annarra aðila

Margir muna einokunarverslun ríkisins með útvörp o.fl. svonefnda Viðtækjaverslun ríkisins,sem átti að tryggja öryggi þessara tækja og lifði mun lengur sem einkasala en nokkur skynsemi gæti mælt fyrir um, en þannig er það oft með einkasölur. 

Sérstakar mjólkurbúðir voru einu verslanirnar sem máttu selja mjólk hér áður fyrr og státnar afgreiðslustúlkur sáu um að ausa mjólkinni upp í mjólkurbrúsa, sem fólk kom almennt með með sér og afgreiða sérstaklega innpakkað skyr yfir búðarborðið. Þegar talað var um að færa sölu á mjólkurvörum inn í verslanir var því heldur betur mótmælt og talað um græðgi kaupmanna auk þess sem að þá yrði ekki gætt að gæðum og heilsu en því til viðbótar mundu hundruð kvenna missa atvinnu sína. 

Breyting varð á mjólkursölu engin missti vinnuna,sem gat ekki gengið jafnharðan í önnur störf og lýðheilsa landsmanna versnaði ekki neitt nema síður væri. 

Einokunarverslun opinberra aðila með kartöflur og grænmeti birtist í Grænmetisverslun ríkisins sem síðar varð Grænmetisverslun landbúnaðarins. Þessi stofnun átti að tryggja fæðuöryggi með því að jafnan væri nægjanlegt framboð af hollum og góðum kartöflum og grænmeti. 

Þegar ég gegndi formennsku í Neytendasamtökunum kom ítrekað fyrir að Grænmetisverslunin seldi innfluttar kartöflur sem gátu tæpast kallast mannamatur. Svo fór, að eftir að Grænmetisverslunin hafði flutt inn óætar finnskar kartöflur í miklu magni að við fengum nóg og fengum ýmsa aðila í lið með okkur m.a. lækna og kaupmenn og mótmæltum sölu á þessum óhroða. Þegar einokunarverslunin breytti engu og taldi þetta nógu gott í lýðinn, gengumst við fyrir mótmælum og undirskriftarsöfnun. 

Á einni helgi náðum við á annan tug undirskrifta undir mótmæli og fórum hróðug með það niur í landbúnaðarráðuneyti en þáverandi landbúnaðarráðherra neitaði að taka á móti okkur og undirskriftunum. En forsætisráðherra sýndi meiri kurteisi og veitti okkur viðtöku. 

Þessi barátta Neytendasamtakana ásamt stuðningi ýmissa í heilbrigðisgeiranum og kaupmanna eins og t.d. Pálma heitins í Hagkaup varð til þess, að einokun á sölu á kartöflum og grænmeti var lögð niður. Afleiðingin varð lægra vöruverð, betri vara og aukinn þrifnaður. 

Nú er deilt um netverslun með áfengi og ÁTVR telur fráleitt út frá heilbrigðissjónarmiði, að aðrir en ríkiseinokunin fái að stunda slíka verslun með áfengi. 

En er það svo, að borðalagðir ríkisstarfsmenn séu hæfari til að afgreiða áfengi en aðrir. Á skírskotunin til heilsufars við þegar aðgengi að áfengi er slík að það er selt í hundruðum bara og einnig vegasjoppum hringinn í kringum landið.  Telja má upp á, að þeir sem versla áfengi í netverslun séu ekki þeir sem líklegastir til að vera í bráðum heilsufarslegum vanda vegna neyslu á þessari vöru. 

Áfengi er hættulegt fíkniefni og þessvegna verður að vera ákveðin áfengisstefna í landinu, sem tekur mið af því með hvaða hætti lýðheilsusjónarmið og sala áfengis verði samrýmd. Í því sambandi er helst talað um verðlagningu og aðgengi og ríkisvaldið þarf að huga að þeim atriðum sérstaklega. En það verður ekki séð að ÁTVR þurfi að halda uppi neinni smásölu á áfengi. Af hverju ekki að fela þeim sem vilja kaupa eiga eða reka áfengisverslanir að gera það undir eftirliti ÁTVR sem yrði þá alfarið heildverslun með áfengi. Væri það ekki betri leið en sú að fela ríkisstarfsmönnum að hafa alfarið með smásölu úr verslunum að gera. Þjónar það frekari tilgangi í dag en verslun með mjólk á sínum tíma, viðtækjum eða kartöflum. 


Vér einir vitum

Arfakóngar á fyrri öldum voru sannfærðir um að þeir hefðu þegið völd sín frá Guði og vissu einir hvað væri sannleikur. Orð þeirra voru lög. Nú trúa þessu fáir,sem betur fer, en enska konungsfjölskyldan er þó enn þessarar skoðunar. 

Karl Bretaprins telur sig hafaspásagnaranda í loftslagsmálum, sem hann vafalaust telur sig hafa þegið frá Guði. Í júlí 2009 sagði Karl, að hlýnun jarðar af mannavöldum væri svo mikil og hröð að við ættum aðeins 96 mánuði eftir þangað til að allt yrði komið í óefni. Júlí 2018 kom og 96 mánuðirnir liðnir, en ekkert gerðist. Ári síðar, endurnýjaði Karl spá sína og sagði nú, að við ættum 18 mánuði eftir þangað til að úti yrði um mannkynið. Janúar 2021 kom 18 mánuðirnir voru liðnir, en þá gerðist heldur ekki neitt.

Sonur Karls Harry bætti um betur og í júnímánuði 2019 sagði hann að við værum eins og froskar, sem værum í sjóðandi vatni vegna hlýnunar af mannavöldum. Í tilefni þess fór hann í fjórar utanlandsferðir á einkaþotum, en er enn ekki steiktur í eiginlegri merkingu. 

Fésbók, twitter og google dettur ekki í hug að loka á svona falsfréttir og spádóma. Það er bara gert gagnvart þeim, sem mótmæla pólitísku veðurfræðinni og hamfaraspámönnunum og segja eins og barnið á keisarann í nýju fötunum forðum:

" En það hefur nánast ekkert breyst." 

 


Seinfærasta barnið í bekknum.

Í fyrradag að okkar tíma sprungu þrjár bílsprengjur við stúlknaskóla í Kabúl höfðborg Afganistan. Sprengjunum var þannig fyrirkomið og tímastilltar, að þær gætu drepið sem flestar skólastúlkur. Fyrsta sprengjan sprakk við skólann og stúlkurnar og kennarar þustu út á götu en þá sprungu tvær til viðbótar allt gert til að drepa sem flestar. 

Enginn velkist í vafa um að öfgafullir Íslamistar, sem allt of mikið er af á þessum slóðum, bera ábyrgð á þessum morðum. En hvað getur eiginlega fengið fólk til að drepa unglingsstúlkur, sem ekkert hafa til saka unnið í og við skólann sinn? Það er tryllingsleg mannvonska, sem við skiljum ekki. Hver var glæpur þeirra? Jú að þær voru í skóla. Þær vildu afla sér menntunar.

Við skiljum heldur ekki, að víða í Íslamska heiminum eru konur undirokaðar og fjöldi Íslamista telur það synd gegn trúnni og spámanninum, að konur mennti sig. 

Íslam er í dag og hefur verið lengi, seinfærasta barnið í bekknum hvað varðar viðurkenningu staðreynda, mannréttindi og menningu. Þannig var það ekki alltaf, en þannig er það í dag. 

Enn og aftur lögðu Bandaríkjamenn út í hernað í fjarlægu landi nú í Afganistan og fórnuðu mannslífum og gríðarlegum fjármunum til að breyta siðum fjarlægrar þjóðar. Það tókst ekki.  

Vesturlandabúar verða, að horfast í augu við, að því fleiri, seinfærustu nemendur, sem koma til Vesturlanda og taka þar búsetu þeim mun meiri líkur eru á, að þau sjónarmið og hugmyndafræði sem þessir nemendur aðhyllast láti til sín taka á Vesturlöndum, með glæpum eins og "heiðursmorðum", hryðjuverkum, svo ekki sé talað um  kvennfyrirlitningu. 

Margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa sett dulur fyrir bæði augu og neitað að horfast í augu við þær staðreyndir. Samt sem áður hefur bráð af mörgum í seinni tíð t.d. Macron, Frakklandsforseta og dönskum Sósíaldemókrötum, sem láta alla vega svo, sem þeir vilji bregðast við af skynsemi.

Á sama tíma erum við, öndvert við aðrar Evrópuþjóðir, að búa til farveg til að fá sem flesta af þessum seinfærustu nemendum til okkar.

Mér er óskiljanlegt, að að dómsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa gerst sérstakir talsmenn þessarar glópsku og dómsmálaráðherra skuli í ræðu og riti berjast fyrir því, að sem allra fyrst skuli skipt um þjóð í landinu. 


Skuggaveldi samhljómsins

Meðan tæknin var með þeim hætti, að einungis stórir fréttamiðlar gátu miðlað upplýsingum var aldrei talað um falsfréttir sem vandamál. Nú þegar fólk almennt á þess kost að koma skoðunum sínum, sjónarmiðum og þessvegna myndböndum á framfæri hamast stjórnmála- og fréttaelítan gegn svonefndum falsfréttum. 

Falsfréttir geta verið af ýmsu tagi. Þær geta falist í því að greina rangt frá staðreynum. Þær geta falist í því að þegja um staðreyndir. Þær geta falist í því að neita staðreyndum og þær geta falist í því að kæfa umræður með því að neita öðrum en þeim sem hafa hina "einu réttu skoðun" að mati fjölmiðilsins um að tjá þær. 

Í gær var sýnt úr franskri skólastofu í fréttum, þar sem áhersla var lögð á, að þeir sem vildu fara aðrar leiðir í baráttu gegn Cóvíd en þeirri sem stjórnvöld boðuðu sem og þeir sem afneituðu opinberri loftslagsstefnu væru að flytja falsfréttir. Dapurlegt var að hlusta á skólabörn sem höfðu verið mötuð á hinni einu "réttu skoðun" tjá sig um málið. 

Stóra spurningin í núinu eru ekki meintar falsfréttir heldur: Hvers vegna er komin sú lenska meðal fjölmiðlaelítunnar um allan heim að takmarka fréttaflutning og leyfa ekki ólíkum skoðunum að leikast á. Af hverju leyfa fjölmiðlarisar veraldar eins og t.d. facebook og Google,sér að úthýsa ákveðnum notendum og skoðunum?

Slíkt er skiljanlegt ef verið er að hvetja til hryðjuverka eða annarrar glæpastarfsemi. En er ekki vafasamt í meira lagi að útiloka almenn skoðanaskipti.

Skuggahlið stóra sannleikans hefur birst í fréttaflutningi fjölmiðla af Cóvíd fárinu um allan heim. Fréttir eru sagðar einhliða og til þess fallnar að valda ótta. Virtir aðilar t.d. læknar eru útilokaðir frá umræðunni alveg eða eins og hægt er, hafi þeir aðrar skoðanir á fárinu en þær viðteknu. Þannig eru þeir sem benda á lækningamátt ákveðinna lyfja í hópi óhreinu barnana, sem ekki mega komast að, en áhersla lögð á bólusetningar á fólki allt niður í ungabörn. Já og það með lyfjum, sem framleiðendurnir þora ekki einu sinni að taka sjálfir ábyrgð á enda hafa þau ekki fengið fullnægjandi prófanir. Raddir þeirra sem andæfa þessu offorsi stjórnvalda og lyfjarisana, að troða þessum lyfjum í alla eru kæfðar. Af hverju? Má ekki ræða þetta á markaðstorgi frelsisins?

Raddir þeirra jafnvel virtra vísindamanna, sem halda því fram með rökum, að loftslagsbreytingar séu náttúrulegar og maðurinn hafi ekkert með þær að gera eru kæfðar ekki má ræða þær á markaðstorgi skoðanaskipta. Skapa verður mesta mengunarvaldi heimsins, Kína, algeran markaðsforgang eins og Merkel, Macron og nú Biden hamast við að gera.

Sama á við um þá sem er á móti fjöldainnflutningi fólks til Evrópu. Þær raddir fá ekki að heyrast en eru stimplaðar sem öfgar og mannfyrirlitning þó hvorutveggja sé út í hött. Þessvegna þegja fjölmiðlarisarnir um þjóðerni glæpamanna og skipulagðra glæpasamtaka og fela það eins vandlega og hægt er, ef hælisleitandi á hlut að máli. Í því sambandi er athyglisvert að rifja upp hvernig breskir fjölmiðlar þögðu um hryllinginn sem átti sér stað í nokkrum stórborgum í norðurhluta Bretlands, þar sem ungar stúlkur voru teknar í kynlífsþrælkun af glæpagengjum innan íslamska samfélagsins og jafnvel þó að stjórnvöld hafi þurft að bregðast við og ákæra suma þeirra, þá gera fjölmiðlar litla sem enga grein fyrir málinu og þar er reynt að þagga það niður eins og verða má. 

Ef til vill ættu þeir sem bollokast um og hroka sér upp sem sjálfskipaðir talsmenn hins eina sannleika sem sé að finna á ríkisfréttamiðlum og hjá fjölmiðlarisunum, að huga að því, að umfjöllun almennings á fréttamiðlum eins og fésbók varð til þess m.a. að ekki var hægt að þegja yfir fjöldanauðgunum innflytjenda á þýskum stúlkum á nýársnótt í Köln fyrir nokkrum árum. Þar þögðu fjölmiðlar og lögregla já og borgarstjórinn í Köln neitaði því ásamt Angelu Merkel í lengstu lög að nokkuð slíkt hefðu gert. Það voru falsfréttirnar voðalegu, sem reyndust síðan vera sannleikurinn. Sama var með einstaklingsfréttamilun fólks í borgunum í Bretlandi sem gerði það að verkum að lögregla, barnaverndaryfirvöld og dómstólar gátu ekki haldið áfram að horfa framhjá víðtækri misnotkun og kynlífsþrælkun, glæpagenga manna úr íslamska heiminum á barnungum stúlkum í Bretlandi.

Með því að vanda fréttaflutning sinn og flytja fréttir með hlutlægum hætti og leyfa mismunandi skoðunum að leikast á verður best brugðist við falsfréttum. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að sía út það sem þeir telja rétt og hvað rangt. Það er til skammar fyrir stjórnmálaelítuna að tala einum rómi með sama hætti um að ekki megi aðrar skoðanir fá að heyrast í mikilvægum málum en þær sem þeim er að skapi.

Þessi afstaða fjölmiðlarisana sem og stjórnmálaelítunnar er virkilegt áhyggjuefni. Horfið hefur verið frá hugmyndafræði upplýsingastefnunnar um víðtækt tjáningarfrelsi allra og tekið til við að móta þjóðfélag í anda stjórnræðisins, sem George Orwell lýsti svo vel í bók sinni "Animal Farm.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 209
  • Sl. sólarhring: 1190
  • Sl. viku: 5953
  • Frá upphafi: 2277704

Annað

  • Innlit í dag: 204
  • Innlit sl. viku: 5510
  • Gestir í dag: 202
  • IP-tölur í dag: 199

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband