Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2024

Þegar rökin skortir

Margir hafa reynt það að þegar á það skortir að fólk geti fært rök fyrir máli sínu, þá grípur það til þeirra varna að hengja  merkimiða á andmælendur sína. Fáir kunna þá list betur en stjörnulögmaðurinn Sveinn Andri Sveinson, sem hefur tapað fleiri málum fyrir rétti en flestir aðrir núlifandi lögmenn.

Í pistli sem hann skrifar, þá vandræðast hann með  að mér skuli hafa verið boðið sæti á lista Sjálfsæðisflokksins í Reykjavík norður og hengir á mig miða rasisma,Íslamsandúðar og transfóbíu. 

Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða enda mátt þola þá á annan áratug. Staðreyndin er hinsvegar sú að hefði verið tekið á hælisleitendamálum eins og ég hef lagt til m.a. með tillögu á Landsfundi 2015,þá væru engin vandamál hvað það varðar og útgjöld ríkisins í þann málaflokk væru nú um 50 milljörðum lægri á ári. 

Varðandi meinta transfóbíu þá er sú nafngift röng. Ég hef hinsvegar sömu skoðun í þeim málum og höfundur Harry Potter bókanna J.K. Rawlings  Svo því sé síðan bætt við sömu skoðun á lögunum um kynrænt sjálfræði og breska ríkisstjórnin, sem hafnaði að staðfesta slíka bullöggjöf frá skoska þinginu.

Þannig fellur allt um sjálft sig í málflutningi Sveins Andra og það ekki í fyrsta skipti.

 

 


Lengi skal Flokkinn reyna

Þeir sem fylgst hafa með skrifum mínum vita að ég hef verið andvígur stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og VG. Ég var sannfærður um það þegar það samstarf hófst að það gæti bara endað illa. Sú varð raunin. 

Forusta Sjálfstæðisflokksins brást í ýmsum mikilvægum málum,sem sér nú merki í fylgishruni Flokksins skv.skoðanakonnunum. Eðlilega spurja kjósendur hvort Sjálfstæðisflokknum sé treystandi. Í raun hvort honum sé treystandi fyrir því að framfylgja þeirri stefnu sem er forsenda tilveru Flokksins.

Mitt mat er að svo sé og Flokkurinn verði nú að setja fram stefnu, sem varða þau mál sem Sjálfstæðisflokkurinn lofar kjósendum að hvika ekki frá. Síðan verður að skerpa á stefnumótun Flokksins á næsta Landsfundi í febrúar og skipta um forustu.

Þegar horft er til hinna flokkana,þá sést, að Sjálfstæðisflokknum er enn sem fyrr best treystandi til að ná árangri í þeim málum sem við hægri menn teljum mikilvægust svo sem málefni hælisleitenda, skatta og umsvif hins opinbera.

Vegna þess hef ég ákveðið að verða við því boði að taka sæti á lista Flokksins í Reykjavík norður. Ekki til að sækjast eftir þingsæti heldur til að berjast fyrir þeim málum sem mér finnast mestu skipta fyrir hamingju og heill íslenskrar þjóðar,tungu hennar og sjálfstæðrar þjóðmenningar. Í því efni á Sjálfstæðisflokkurinn ekki jafningja þrátt fyrir allt.

 

 


Það þarf að gera eitthvað

Þegar eitthvað virkar ekki nægjanlega vel eða mistekst, hrópa fjölmiðlar og taugaveiklaðir stjórnmálamenn stíga fram og krefjast aðgerða. Ráðherra sem málið heyrir undir mætir fyrstur til að gera grein fyrir því hvað hann sinni málinu vel, þó eitthvað hafi farið úrskeiðis. 

Taugaveikluðu stjórnmálamennirnir hrópa á aðgerðir, ný lög, rannsóknir, nýjar nefndir, heimildaskýrslur eitt af þessu eða allt saman. Við verðum að gera eitthvað er vígorðið. Þetta eitthvað er hugsanlega ekki til og það kann svo að vera að það sé ekki á valdi stjórnmálamanna að gera neitt í málinu eins og þegar náttúruvá sækir að.

Það er hins vegar eðli stjórnmálamanna að þykjast geta gert eitthvað í öllum málum. Þessi ástríða stjórnmálamanna vex eftir því sem þá skortir meira hugmyndafræðilega þekkingu og hugsjónir byggðar á þeim. Sé slíkri þekkingu ekki fyrir að fara eða hugmyndafræðilegu akkeri er allt fallt og allt skal gera á kostnað skattgreiðenda.

Á Íslandi í dag skortir verulega á hugsjónalega festu og m.a. þessvegna er það ekkert mál fyrir stefnulitla stjórnmálamenn að reyna að gera allt í stað þess að forgangsraða. Ríkissjóður er rekinn með viðvarandi halla og það er flotið sofandi að feigðarósi. 

Í sjálfu sér er það ekkert nýtt að ríkishyggjan taki skynsemina frá hugsjónalitlum stjórnmálamönnum og þá er haldið áfram siglingunni gegn frjálsa markaðnum og seilst dýpra og dýpra í vasa almennings auk þess sem framtíðin börnin okkar og barnabörn eru skattlögð með því að stjórnmálamenn taka lán sem þeim er gert að endurgreiða. 

Hætt er við að þessi óheillaþróun sæki á af auknum þunga eftir því sem fleiri stjórnmálamenn eru valdir vegna frægðar og fríðleika í stað þess að hafa staðið fyrir einhverju sem skiptir máli í póltík.  Frægir og fríðir stjórnmálamenn geta vissulega verið þeir bestu,en eingöngu þegar þeir hafa hugmyndafræðilegt akkeri og láta ekki hvaða goluþyt sem er feikja sér frá því sem þeir ætla sér. 

Mikilvægasta spurningin varðandi stjórnmálamann er ekki hver er hann heldur hvað ætlar hann að gera eða e.t.v.frekar hvað ætlar hann að losa ríkið og skattborgarana undan að gera.

Sparnaður er upphaf auðs segir máltækið og það á líka við í ríkisrekstri.  


10 milljarðar

Stjórnmálaflokkarnir hafa fengið í heild 10 milljarða af peningum skattborgaranna síðustu 14 árin. Þeir stóðu allir að lagasetningu um að þeir mættu láta greipar sópa um almannafé. 

Í tímans rás hafa styrkir til flokkanna farið hækkandiþ Þessi sjálftaka stjórnmálaflokkana er spilling, sem ekki ætti að líða. 

Stjórnmálamennirnir eru samstíga um að taka fé almennings í eigin þágu og véla sjálfir um það hversu háir styrkirnir eiga að vera. Flestir ættu að sjá að það er með öllu óeðlilegt að stjórnmálamennirnir sjálfir ákveði hvað þeir geti tekið mikið fyrir sig sjálfa af peningum almennings.

Ef verið er að styrkja stjórnmálaflokka á annað borð þá ætti fyrirkomulag styrkveitinga til þeirra að heyra undir aðra aðila en þá sjálfa. 

Ekki nóg með það heldur njóta framboð sem fá 2.5% fylgi verulega styrki. Sósíalistaflokkur Gunnars Smára hefur fengið 84 milljónir af ríkisins fé fyrir að hafa náð því fylgi.

Hvert sem litið er varðandi styrki til stjórnmálaflokka og framboða blasir hið óeðlilega við. Nú er svo komið að hvaða framboð sem er geta sótt um 4.5 milljón króna kosningastyrk. 

Nú er svo komið eins og einn vinur minn sagði að það gæti verið álitlegur fjárfestingakostur að stofna stjórnmálaflokk í þeirri von að hann nái 2.5% markinu það þarf hvort eð er ekkert að leggja út kosningastyrkinn mætti nota til að ná markinu. Svo geta aðstandenur skipt á milli sín 100 milljónum eða meiru á næsta kjörtímabili.

Er ekki kominn tími til að taka í taumana og afnema þessa spillingu?


Nýju fötin keisarans í búningi nútíma "vísinda

Við sem fylgjumst með fréttum víða úr heiminum, sjáum að þær verða líkari og líkari enda auðvelt að vera á samningi við stóra fréttaveitu. 

Eitt sem einkennir fréttamennsku í dag er, að ekki má vera rok, rigning eða hitabylgja án þess að loftslagsbreytingum af mannavöldum sé kennt um. Sanntrúaðir munu setjast á ráðstefnu fína fólksins í olíuríkinu Aserbajan innan skamms til að fullvissa sig og aðra um að grípa verði til víðtækari aðgerða og aukinnar skattlagningar til að koma í veg fyrir ofurhitnun. 

Ed Miliband í Bretlandi, dæmigert flokkslíkamabarn  sem hefur aldrei gert neitt annað en verið í pólitík, fyrst sem aðstoðarmaður og svo þingmaður. Hann veit ekkert um þjóðfélagslegan veruleika nema í þinghúsinu í Westminster. Hann hefur aldrei unnið annað en í pólitík. Miliband er umhverfis ráðherra Breta og kom í veg fyrir framtíðarolíuvinnslu úr Norðursjó, þannig að Bretar verða þá að flytja olíu sem þeir nota um langan veg sem þýðir aukna orkusóun. Hann berst fyrir fullkominni kolefnisjöfnun, sem mun leiða til þess að fleiri Bretar deyja úr kulda og skattheimta mun aukast gríðarlega. Þannig þjóðfélagi ætla umhverfisruglarar að koma á. 

Hér sjáum við birtingarmyndir fáránleika aðgerða til að koma í veg fyrir ofurhlýnun. Trjákurli er dembt í sjóinn og til stendur að dæla niður erlendu eitri í hraunfláka landsins og verkefni sem fær hundruð milljarða í styrk frá EB. Forsvarsmenn þess berja sér á brjóst og segja sjáið þið hvernig við unnum Golíat hamfarahlýnunarinnar með því að flytja hana til Íslands.

Á sama tíma er ráðstefna í Reykjavík til að búa til nýja draugasögu loftslagsvísinda, að Golfstraumurinn gæti breytt um rás og hér og allt suður til Bretlands og Suður Þýskalands yrði óbyggilegt vegna íshellu sem legðist yfir allt vegna hnattrænnar hlýnunar. Varla veit nokkur á meiri endemi í málflutningi en eitt er ljóst, að við erum ekki komin lengra en það, að það veit engin hvað ræður því að Golfstraumurinn skuli streyma með þeim hætti sem hann gerir. 

Eitt vekur þó furðu. Hin heilögu Vesturlönd með Bandaríkin í broddi fylkingar, sem og mótmælahópar hafa ekkert við það að athuga, að Aserbajan hafi gert innrás í lönd Armena, drepið þúsundir og lagt undir sig stór landsvæði þar sem Armenar hafa búið öldum saman. Engum dettur í hug að útiloka þá eins og Rússa sem réðust inn í Úkraínu.

Þá þótti íslenskum ráðamönnum illu heilli rétt að loka sendiráði okkar í Moskvu, sem er eitt vitlausasta asnaspark í íslenskum utanríkismálum síðan landið fékk sjálfstæði ásamt því að loka á viðskipti við Rússa,en á sama tíma eiga frændur okkar Danir góð viðskipti við Rússa og selja þeim m.a. lyf.. 

Eigum við þá ekki til að vera samkvæm sjálfum okkur að hundsa loftslagsráðstefnu SÞ í Aserbajan. Hundrað manna sendinefndin gæti þá setið heima og gæti gert gagn á meðan. 


Grundvallarstefnan höfðar til mín

Ólafur Adolfsson nýkjörinn foringi Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi komst vel að orði í útvarpsþætti  og gerði grein fyrir því að hann styddi Sjálfstæðisflokkinn vegna þeirra grundvallar stefnumála sem flokkurinn var stofnaður til að vinna að. 

Á sama tíma og hann gerði grein fyrir mikivægi þess, að gætt væri að einstaklingsfrelsinu og svigrúmi einstaklinganna til að takast á við verkefni á eigin forsendum, án þess að ríkisvaldið legði steina í götu þeirra með óhóflegri skattheimtu eða regluverki.  Á sama tíma og Ólafur gerði grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins góð skil, þá gagnrýndi hann hvernig til hefði tekist að mörgu leyti í landsstjórninni og gengið hefði verið of langt í ríkisvæðingunni. 

Það dylst engum, að umsvif ríkisins hafa vaxið til muna á undanförnum árum ekki síst í Kóvíd faraldrinum og erfiðlega hefur gengið að vinda ofan af því. Þess vegna er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn kjósi fleiri frambjóðendur eins og Ólaf til forustu í landsmálunum, sem hafna ríkishyggjunni sem rekin hefur verið og krefjast þess að Flokkurinn snúi aftur  til grunngilda sinna og sinni þeim baráttumálum sem hann var stofnaður til að sinna. 

Geri Sjálfstæðisflokkurinn það ekki, þá á hann ekki erindi lengur í íslenskri pólitík. 

Þegar Margrét Thatcher tók við sem formaður Íhaldsflokksins hafði sá flokkur látið teyma sig út í vaxandi ríkishyggju, en vegna stefnufesti og leiðtogahæfileika Thatcher tókst að vinda ofan af því og nýtt framfara- og velmegunarskeið tók við í Bretlandi. 

Hægri menn mega aldrei vera hræddir við að fylgja stefnu sinni um einstaklingsfrelsið og athafnafrelsið til góðs fyrir fólkið í landinu. 


Þú ert númer 18 í röðinni

Flestir héldu að með tölvubyltingunni mundi þjónusta við almenning verða miklu betri og auðveldara yrði að verða sér úti um margvíslega þjónustu. Sú hefur því miður ekki orðið raunin.

Á árum áður átti hver sinn heimilislækni og fékk auðveldlega tíma hjá honum og það tók ekki langan tíma að komast að hjá sérfræðilækni. Liðin tíð eins og flestir þekkja.

Þjónusta bankanna minnkar og viðskiptavinirnir verða að snarir í tölvusnúningunum til að ná að fá þjónustu. Fyrrum bankastjóri ensks viðskiptabanka skrifaði um hvað einstaklingsbundin þjónusta vær léleg og unga fólkið yrði að sætta sig við að þeir sem ólust ekki upp með tölvunum séum seinni í öllum aðgerðum. Greinin hét: Ég er bara gamall ekki fáviti. Gott fyrir okkur unga fólkið að muna það þegar einhver er lengi að ganga frá sínum málum.

En svo er að ná sambandi við þjónustustofnanir. Flestir þekkja að það getur reynt á þolrifin. Sjálfvirkir símsvarar leiða fólk áfram venjulegast með löngum inngangi og síðan press nine for English og síðan á einhvern tölustaf til að komast nær því sem maður vill fá upplýsingar um eða panta. 

Þegar ég hringdi síðast í slíka þjónustustofnun þá kom að ég væri nr. 18 í röðinni. Allt í lagi með það, en eftir ógnarlangan tíma þegar ég var orðinn nr. 11 í röðinni sagði sjálfvirka kjaftakerlingin kl. 11.20.

"Það er engin þjónustufulltrúi við og síðan rofnaði sambandið rofið. Aftur reyndi ég síðar um daginn og var nr. 11 í röðinni og sambandið rofnaði þegar ég var nr. 4 í röðinni. Ég gafst ekki upp og hringdi í þriðja skiptið og þá náði ég loksins í gegn eftir alinlanga og drykklanda stund:

"Já ég ætlaði að fá flensusprautu. Svar: "Viltu ekki fá Kóvíd líka?" Nei: Svar: "Flestir taka Kóvíd." "Já en ekki ég."

Það er greinilegt að ég næ ekki að eldast upp úr því að vera afabrigðilegur. 

Hvað um það. Er ekki mál til komið að fólk fái eðlilega góða og hraða þjónustu en þurfi ekki að eyða heilu og hálfu dögunum í að hlusta á hvar það sé í röðinni. 

 


Hvert stefnir?

Mikil og óvænt tíðindi, að Sigríður Andersen botnfrosið vesturbæjaríhald skuli segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn og ganga til liðs við Miðflokkinn.

Í síðasta prófkjöri leið Sigríður fyrir að vera helsti málsvari frelsisins innan Sjálfstæðisflokksins í Kóvíd fárinu. Áður hafði hún verið neydd til að segja sig frá embætti dómsmálaráðherra fyrir engar sakir. Nauðsyn bar þá til, að flokksforustan gætti pólitískra  hagsmuna Sigríðar, en hún gerði það ekki og uppskeran er samkvæmt því. 

Annað sem mátti eiga von á miðað við stöðu og styrk Flokkseigendafélagsins voru þau dapurlegu úrslit, að Jón Gunnarsson skyldi lúta í lægra haldi fyrir varaformanninum, sem þurfti að færa sig um set úr sínu kjördæmi í annað til að eiga kost á endurkjöri.

Sérkennilegt að formaðurinn skyldi vera tilbúinn til að fórna einum af sínum traustasta stuðningsmanni í stað þess að leysa hnútinn með því að taka sjálfur áhættu með því að færa sig í 5 sætið á listanum. En það gerði hann ekki og því fór sem fór. 

Gleðifregnin var sú, að Ólafur Adolfsson sem er dæmigerður Sjálfstæðismaður af gamla skólanum atvinnurekandi, "self made man" sem aldrei var mulið undir, skuli hafa náð forustusætinu í Norðvestur kjördæmi. Það er virkilega ljósið í myrkri dagsins.

Eftir úrslit dagsins missa þeir Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Jón Gunnarsson þingsæti sín. Allir ötulir talsmenn skynsemi í hælisleitendamálum og öðrum málum. Jón Gunnarsson sýndi það heldur betur á ráðherraárum sínum sem dómsmálaráðherra, en flokkseigendafélagið þakkar honum það ekki.

Eftir þessa uppstillingu er Sjálfstæðisflokkurinn í töluverðum vanda og sá vandi gæti aukist, þegar framboðslistar í Reykjavík birtast. Það ríður á að kjörnefnd tali ekki bara við bergmálshellinn sinn heldur skoði hvað hægra fólki finnst skipta mestu máli í dag og taki tillit til þess. 

 

 

 

 


Váboðar kveða sér hljóðs

Samfylkingin hefur kynnt til leiks tvo nýja oddvita þau Ölmu Möller landlækni og Víði Reynisson yfirlögregluþjón bæði regluverði úr Kóvíd. 

Ekki þótti varaformaðurinn Guðmund Árna Stefánsson brúklegur og þurfti að víkja fyrir nýstirninu Ölmu. Ekki annað við hæfi, en að fá hamfaraduoið Ölmu og Víði til að gera þjóðinni grein fyrir þeim váboðum og hörmungum, sem eiga eftir að ríða yfir íslenska þjóð undir stjórn Samfylkingarinnar. 

Val á þessum oddvitum bendir til, að Kristrún  formaður telji best að velja þekkt fólk í stað ötulla flokksmanna. Hætt er við að væri helsta forustufólk flokksins fengið til að leiða lista, gæti kosningabaráttan snúist um pólitík og það finnst formanninum ekki gæfulegt.

Á sama tíma og Kristrún kynnir veirudúóið til leiks, sem var með daglegan sjónvarpsþátt í tvö ár til að segja fólki hvað það mætti ekki gera út frá lýðheilsusjónarmiðum, þá bítur Dagur B. Eggersson fyrrum borgarstjóri í skjaldarrendur og krefst þess að leiða lista flokksins í Reykjavík suður eða norður. En fyrir hann er ekki pláss í hinni nýju Samfylkingu sem leggur allt upp úr útliti en ekki innihaldi.

Greinilegt er að formaðurinn hefur takmarkaða trú á getu flokksins til að leiða þjóðina til farsældar fyrst hún velur helstu hamfarapostula landsins til forustu í Flokknum.  


Lögbundið ekki valkvætt

Þingmenn, búsettir á höfuðborgarsvæðinu kosnir á þing fyrir kjördæmi utan þess fá ríflega oft ómaklega húsnæðisstyrki auk annarra fríðinda. Af hverju ættu Jakob Frímann og Sigmundur Davíð, báðir búsettir  í kjarna höfuðborgarinnar að fá milljónir á ári vegna þess eins að vera kjörnir á þing fyrir norðausturkjördæmi. Eða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, búsett í Kópavogi að fá milljónir sem þingmaður Akraness?

Allt er þetta fráleitt. Af hverju ætti Þórdís, Jakob og Sigmundur öll búsett í kjarna höfuðborgarsvæðisins að fá margar milljónir á ári skattfrjálst umfram aðra þingmenn vegna búsetustyrkja sem landsbyggðarþingmenn? 

Þessu fólki er ljóst að þetta er ekki í lagi og þarna er verið að hafa rangt við. Þórdís Kolbrún segir að þessar greiðslur séu ekki valkvæðar heldur lögbundnar. Miðað við það sem hún ber fyrir sig, þá er henni og hefur verið ljóst, að þetta er óeðlilegt, en gerir ekkert til að leiðrétta óskapnaðinn. Þeir Jakob og Sigmundur þegja hinsvegar þunnu hljóði. Þingmönnum umfram aðra er ljóst, að lögum má breyta og sjái þeir ranglæti þá ber þeim skylda til að mæla fyrir breytingum.

Einkunarorð Sjálfstæðismanna hefur verið "Gjör rétt þol ei órétt" Í því felst, að teljum við eitthvað vera rangt, þá berjumst við fyrir breytingum. 

Það var skylda þeirra allra Jakobs, Sigmundar og Þórdísar Kolbrúnar að berjast fyrir því að þessum ólögum og óréttlæti gagnvart þjóðinni og samþingmönnum þeirra yrði breytt. En þau gerðu það ekki og sitja uppi  með Svarta Pétur í málinu. 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 16
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 4232
  • Frá upphafi: 2449930

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 3943
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband