Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2024

Ofstjórnarsamfélgið

Ýmsir stjórnmálaflokkar hafa bæði hér á landi og í Evrópu reynt að byggja upp ofstjórnarsamfélög á grundvelli hræðsluáróðurs og ofbeldis. Krafist er hlýðni við hina einu réttu skoðun og þeir sem óhlýðnast hafa verra af. Þetta er hugmyndafræði allsherjarríkisins sem fasistaforinginn Benito Mussolini talaði fyrir á síðustu öld og kommúnista- og sósíalistaflokkar hafa síðan tileinkað sér. 

Undanfarna 3 áratugi hefur verið haldið uppi linnulausum áróðri um að allt sé að farast vegna hlýnunar jarðar. Ekkert af þeim spádómum sem settir hafa verið fram í því sambandi þessa þrjá áratugi um hamfarahlýnun hafa reynst réttir öðru nær. En á grundvelli þessa hræðsluáróður hefur ríkisvaldið hækkað skatta, sem bitna verst á neytendum og boða víðtæk bönn við eðlilegum lífsháttum. 

Nú hafa tveir stjórnmálaflokkar, Samfylking og Viðreisn tekið að sér að yfirbjóða VG og Pírata í dellumakeríinu varðandi viðbrögð við meintri hnattrænni hlýnun. Formenn Viðreisnar og Samfylkingar lýsa því yfir að þær vilji banna nýskráningu bensín og díselbíla á næsta ári takk fyrir. 

Manni verður nánast orða vant þegar maður heyrir svona algjöra dellupólitík. Af hverju á að beita valdi ríkisins til að banna notkun á hagkvæmasta bifreiðaeldsneytinu?  Mun þetta bann hafa einhver afgerandi áhrif á losun kolefnislofttegunda í heiminum? Að sjálfsögðu ekki. 

Hvað er það þá, sem hefur gert þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar og Kristrúnu Mjöll Frostadóttur formann Samfylkingarinnar svona snargalnar að láta sér detta í hug að ætla að banna nýskráningar bensín- og díselbíla á næsta ári?

Svarið er dyggðaflöggun og vilji til valdbeitingar gagnvart almennum borgurum. Þar sem spurningin um nýskráningu bensín og díselbíla hér á landi hefur engin áhrif á eitt eða neitt í veröldinni, þá er þetta ein alvarlegasta birtingarmynd ofstjórnar og valdbeitingar gagnvart neysluvenjum venjulegs fólks sem heyrst hefur. 

Stjórnmálamenn sem svona tala og hugsa hika ekki við að setja reglur um að hver borgari skuli að viðlagðri ábyrgð að lögum einungis borða skv. matseðli frá Lýðheilsustofnun ríkisins. Já og það sem rætt hefur verið að hver borgari fái ákveðinn kvóta til að ferðast í flugvélum t.d. eina flugferð á ári á meðan elítan flýgur óhindrað á einkaþotunum sínum. 

Óneitanlega finnst manni það miður, að stjórnmálaleiðtogar flokka sem hingað til hefur mátt ætla að væru miðvinstri flokkar eru svona gjörsamlega rofnir úr tengslum við grundvallarreglur um frelsi einstaklingsins og borgaraleg réttindi, að þeim finnst í lagi að beita ofstjórnarvaldi sínum með þeim hætti,sem eingöngu einræðisstjórnir hafa hingað til látið sér detta í hug. 

Þessar yfirlýsingar formanna Viðreisnar og Samfylkingar sýna að þeim er ekki treystandi til að tryggja lágmarksfrelsi einstaklinganna til að lifa lífinu að eigin geðþótta skv. eðlilegum hófstilltum reglum réttarríkisins og lýðræðisþjóðfélagsins.   

 


mbl.is Vilja banna skráningu nýrra bensínbíla á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur valdboðs og viðurlaga

Margir biðu spenntir eftir að sjá hverjir mundu skipa oddvitasæti Samfylkingarinnar. Skipan oddvitasætanna gefur vísbendingu um hverja Kristrún Mjöll Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar telur æskilega í ríkisstjórn. 

Fram til þessa hefur Kristrún Mjöll siglt þokkalegan byr með því að segja sem minnst og sýna lítt sem ekkert á sín spil. 

En svo kom að lengur var ekki setið og þá kom nokkuð á óvart, að Kristrún skyldi skipa það fólk, sem hefur helst unnið sér það til frægðar að banna fólki að lifa eðlilegu lífi oft algjörlega af ástæðulausu. 

Ekki sá Kristrún formaður ástæðu til að sækjast eftir ötulu flokksfólki Samfylkingarinnar til að skipa oddvitasæti eða baráttufólki sem er virkt í pólitískri umræðu. Þess þurfti ekki með að mati formannsins og þessvegna var sótt fólk út í bæ, þau Alma Dagbjört Möller landlæknir og Guðmundur Víðir Reynisson.

Þau Alma og Víðir eru þekkt fyrir það að hafa staðið að því að takmarka frelsi fólks langt umfram eðlileg mörk og standa fyrir og leggja til aðgerðir sem iðulega voru ónauðsynlegar, en ollu mörgum miklum sársauka sbr. þegar tekið var algjörlega fyrir heimsóknir nákominna ættingja eða maka á sjúkrastofnanir. Auk þess að standa að ólöglegri nauðungarvistun fólks í stað þess að leyfa því að vera heima hjá sér. 

Allt var þetta á forsendum ákvarðanna starfsfólks Ölmu Dagbjartar landlæknis og e.t.v. hefði verið afsakanlegt að munstra hana um borð í sósíalískan valdboðsflokk hefði rekstur embættis landlæknis undir hennar stjórn gefið tilefni til, en svo er því miður ekki og fólk þarf að bíða árum saman eftur úrlausnum ef þær þá yfirleitt koma. 

Sá frjálslyndi jafnaðarmannaflokkur, sem Kristrún Mjöll Frostadóttir hefur talað fyrir varð ekki lengur til en í hans stað kom sósíalskur valdboðsflokkur. Valið á þeim Ölmu og Víði í oddvitasæti er ekki boðskapur um neitt annað. 


Donald Trump endurkjörinn forseti Bandaríkjanna.

Það sem fæstir bjuggust við hefur nú  raungerst með endurkjöri Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna. Trump er elsti maðurinn til að ná kjöri sem forseti og hann er sá eini, sem hefur þurft að svara ítrekað til saka í vegna margra kærumála á hendur sér fyrir  og í kosningabaráttunni. 

Svo merkilegt sem það er, þá eru ýmsir þeirra, sem kjósa Trump  fjarri því að vera ánægðir með frambjóðandann að svo mörgu leyti, en líta á hann hvað sem öðru líður sem besta valkostinn. 

Dálkahöfundur í Daily Telegraph segir að ráðamenn í Evrópu ættu að taka það alvarlega að Trump vinni og hafi sigur vegna baráttu fyrir málefnum, sem forustufólk í stjórnmálum í Evrópu er á öndverðum meiði.

Nú reynir á Trump að standa við stóru orðin eins og t.d. að reka alla ólöglega innflytjendur burt úr Bandaríkjunum. Atriði sem að evrópsk stjórnvöld ættu að íhuga vegna öryggis og velferðar eigin borgara, sem eru enn brýnni en það sem Bandaríkjamenn glíma við í þeim efnum. Grannt verður fylgst með áherslum Trump í utanríkismálum ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu og varnarstríðs Ísrael gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas, Hesbollah, Houti og ríkisstjórn Íran. 

Endurkjör Trump eru ákveðin kaflaskipti og vonandi kemur hann öflugri og betri og kurteisari til leiks  en síðast og nær árangri m.a. í því að vinna að einingu meðal Bandríkjamanna og gegn bullhugmyndum íloftslagsmálum og kynjafræði svo fátt eitt sé nefnt.


Mikil skelfing: Sigmundur Davíð á traktor í Skeifunni

Ekki verður annað sagt um Sigmund Davíð Gunnlaugsson en að hann hafi komið víða við í störfum á lífsleiðinni. En eitt hefur hann aldrei starfað viðþ Að aka dráttarvélum.

Miðflokkurinn lét taka upp myndband sem þar sem Sigmundur ekur stærðarinnar dráttarvél í Skeifunni í Reykjavík og er spurður um hverju sæti. Svör formannsins eru úr hófi landregin og ekki að neinu leyti í sambandi við akstur dráttarvélarinnar.

Aki Sigmundur dráttarvélinni jafn ómarkvisst og svörin voru, er það borgaraleg skylda að koma honum út úr dráttarvélinni sem allra fyrst áður en mannsskaði hlíst af. En hann ekur á brott skv. myndbandinu og ekki er vitað á þessari stundu, hvort hann er lónandi einhversstaðar úti í tóminu en brýnt að ná í hann svo hann fari hvorki sjálfum sér né öðrum á voða.

Ef til vill á myndbandið með Sigmundi og dráttarvélinni að sýna, hversu afburða snjall hann er í því að afvegaleiða umræðuna og svara út í hött þegar spurt er um einfalda hluti. En það er hins vegar ekki sá Sigmundur sem hefur birst áhugafólki um pólitík. E.t.v. vill Sigmundur breyta þeirri ásýnd sinni.

Ekki verður séð að dráttarvélarakstur Sigmundar tengist að einu eða neinu leyti persónunni Sigmundi Davíð ekki frekar en þegar hann át ógrynni af kjötfarsi út í móa fyrir síðustu kosningar. Eitthvað fór það fyrir brjóstið á kjósendum og því var brugðið dráttarvél undir formanninn í stað kjötfarsdollu. Ekki amaleg skipti það.  

Í barnæsku sá ég eitt sinn myndir af frambjóðendum í Bandarísku forsetakosningunum milli Dwight D. Eisenhower og Adlai Stevenson. Stevenson ræddi um pólitík en Eisenhowver borðaði ís og svo var klikkað út með "I like Ike." Enda var hann kjörinn, en ekki maðurinn sem var að þvæla um pólitík. 

Vonandi verður það ekki lenska hjá okkur að óyndi eins og Sigmundur Davíð virðist haldinn fyrir kosningar verði ráðandi í íslenskri kosningabaráttu. Já og má ég þá frekar biðja um ís eins og Eisenhower var með í stað kjötfars eða dráttarvélar. 

 

 


mbl.is Sigmundur Davíð á traktor í Skeifunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helstefna Davíðs Þórs Jónssonar

Í Silfrinu í  gær fór sr. Davíð Þór Jónsson mikinn og fordæmdi stjórnvöld fyrir illsku Fordæmingunum rigndi eins og helt væri úr fötu, sem er í sjálfu sér ekki nýtt þegar sr. Davíð á í hlut. Það vantaði bara að sr. Davíð  bannfærði viðkomandi aðila m.a.heilbrigðisráðherra, en það vald hefur hann talið sig hafa.

Í grein sem ég skrifaði 26.maí 2022 fjallaði ég um að dóma sr. Davíðs og þann mátt sem hann telur sig hafa í skjóli síns embættis:

"Marxistinn Davíð Þór Jónsson prestur hefur dæmt fólk í heilum stjórnmálaflokki VG til helvítisvistar að loknu þessu jarðlífi og annar prestur þjóðkirkjunar Sindri Geir Óskarsson á Akureyri tekur undir og segir ríkisstjórnina vera að senda fólk í lifanda lífi til helvítis, sem sýnir takmarkaða sýn hans á raunveruleikanum en það er annað mál.

Þessir kennimenn þjóðkirkjunar hefðu átt að skoða ritninguna örlítið áður en þeir kváðu upp sína dóma og þá er ekki úr vegi að skoða orð Jesú sem eiga við í þessu tilviki:

"Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli sem þér mælið mun yður mælt verða. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu.(Matt.7.1-3)"

Marxistinn sr. Davíð Þór Jónsson er róttækur sósíalisti, en sú stefnu hefur umfram aðrar þjóðmálastefnur, búið fólki helvíti á jörðu í lifanda lífi og kostað tugi milljóna fólks lífið hvar svo sem er í veröldinni, sbr í Sovétríkjunum sálugu og Kína hvað þá í Kambódíu og nú Venesúela.

Ef til vill væri betra fyrir Davíð Þór og Sindra Glerárprest að huga betur að sálarheill sinni lifandi og láta vera að dæma aðra til eilífrar helvítisvistar og huga að því að fyrirgefningin er megininntakið í fagnaðarboðskap kristninnar. Við erum sem betur fer ekki lengur á slóðum miðaldakirkjunnar með sinn rannsóknarrétt og galdrabrennur og vonandi dagar Davíð Þór ekki þar uppi mikið lengur þó ekki væri nema vegna eigin sálarheillar."

Þessir menn einkum sr. Davíð hafa ekkert nýtt að segja. Þeirra boðskapur er ríkishyggja og valdboð á grundvelli öfgafulls sósíalisma, sem allsstaðar hefur verið leiðin til ánauðar, örbirgðar og fjöldamorða. Við skulum ekki láta svona öfgafólk og loddara villa okkur sýn.


Nýr formaður breska Íhaldsflokksins.

Kemi Badenoch þeldökk ung kona var fyrir stuttu kosin formaður breska Íhaldsflokksins. Kemi er vel að því komin að vera valin til þessa mikilvæga trúnaðarstarfs. Kemi er valin vegna hæfileika, en hvorki aldur né litarhátur skiptu máli eins og vera ber.

Það hefur verið gaman að fylgjast með Kemi undanfarin ár og sjá hvernig hún hefur stöðugt sótt í sig veðrið og orðið traustari og traustari málsvari hægri sjónarmiða í Bretlandi.

Það er ástæða til að óska Bretum og hægra fólki í Evrópu til hamingju með þennan nýja og öfluga málsvara borgaralegra gilda og samkeppnisþjóðfélagsins.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 265
  • Sl. sólarhring: 780
  • Sl. viku: 4086
  • Frá upphafi: 2427886

Annað

  • Innlit í dag: 246
  • Innlit sl. viku: 3782
  • Gestir í dag: 242
  • IP-tölur í dag: 234

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband