Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2025

Má ekki segja frá þessu?

Í gær birtist lítil frétt á visi.is um að karlmaður hefðu verið handtekinn í Hafnarfirði á milli kl. 13 og 14 í gær fyrir að hafa reynt að stinga mann, sem sat í bíl sínum. Fréttin lét lítið yfir sér og aðrir fréttamiðlar hafa ekki tekið þessa frétt hvorki birt hana né gert nánari grein fyrir málinu. 

Skv. mínum upplýsingum er þetta grafalvarlegt mál, en sá sem fyrir árásinni varð mun vera forstjóri fyrirtækis,sem að Hamas vinir á Íslandi hafa ítrekað kvatt fólk og fyrirtæki til að eiga ekki samskipti við.  

Hversvegna þessi þögn um það sem gæti verið manndrápstilraun? Já og gæti verið af pólitískum toga.

Í frjálsu þjóðfélagi skiptir máli að fréttamiðlar geri rækilega grein fyrir öllu sem á erindi til almennings. 


Því er hættast við að ofmetnast sem af veslu batnar

Filipus II Makedóníukonungur hafði mikinn metnað bæði fyrir sjálfan sig og son sinn Alexander, sem síðar var nefndur hinn mikli. Hann fékk færasta kennara, heimspeking og fræðimann samtímans sjálfan Aristóteles til að kenna syni sínum. 

Fyrir margt löngu las ég um þegar Aristóteles var að kenna verðandi stjórnanda víðlendasta ríkis veraldar um fólk og hverju mætti búast við af því, þar sem hann sagði við Alexander:

"Því er hættast við að ofmetnast sem af veslu batnar" 

Mér hafa oftar en einu sinni dottið þessi vísdómsorð Aristótelesar í hug síðustu daga þegar ég fylgist með framgöngu Ingu Sæland. 

Það er aumkunarvert að horfa upp á með hvaða hætti hún hefur tekið á málum sem varðar ólögmæta styrkveitingu til Flokks fólksins í stað þess að vinna strax að því að leysa málið á sem farsælasta hátt fyrir sig og flokkinn sinn. 

Þó kastar tólfunum, þegar hún fer fram með hótanir gagnvart embættismanni sem ekkert hefur til saka unnið, á grundvelli þess hve hún sé valdamikil og geti því eftir því sem næst verður komist valdið honum miklu tjóni ef hann fellur ekki fram og hlýðir fyrirskipunum hinnar máttugu Ingu.

Fyrst hún gerir það í lítilfjörlegu máli, sem viðkomandi embættismanni kom raunar lítið við, hvað gerist þá í málum sem varða mikilvæga hagsmuni?


mbl.is Mikil misbeiting á ráðherravaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við styðjum Dani

Donald Trump hefur ítrekað talað um að Danir selji Bandaríkjunum Grænland. Fyrst töldu allir að þetta væri grín, en svo er ekki. 

Trump talaði við Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana í síma fyrir nokkru og því fór fjarri að það væri vinsamlegt símtal og Trump sat við sinn keip. 

Danir leita eftir samstöðu og stuðningi Norðurlanda í þessu máli. Forsætisráðherrar Svía, Noregs og forseti Finnlands sóttu óformlegan kvöldverð Mette í gær. Forsætisráðherra Íslands var ekki viðstödd og eðlilegt að spurt sé  hverju sætir. 

Hvað sem því líður þá breytir það engu um, að við eigum þegar í stað að taka afgerandi afstöðu með Dönum gegn þessum tuddaskap. Sá tími verður að vera liðinn, að stórveldin fari sínu fram gagnvart smáþjóðum. 

Norðurlöndin eiga þegar í stað að lýsa yfir órofa stuðningi og samstöðu með Dönum í þessu máli. Á sama tíma er æskilegt að tryggja samvinnu Bandaríkjanna, Dana og annarra Norðurlandaþjóða um varnir, öryggi og velferð Grænlands. 

Við eigum Dönum skuld að gjalda hvað svo sem ritað hefur verið um samskipti þjóðanna meðan Danir fóru með stjórn Íslands m.a. sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Við höfum því margar ríkar ástæður umfram réttlætið til að standa með Dönum. 


mbl.is Danir í kröppum dansi: Trump ekkert að grínast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Kúrda?

Kúrdar eru þjóð, sem býr í fjallahéruðum Tyrklands, Sýrlands, Íran og Írak. Öldum saman hafa þeir verið kúgaðir og sviptir mannréttindum. Nú sækja vígasveitir á mála Tyrkja að þeim með blessun Erdogan forseta og stuðningi hans.

Í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi náðu Kúrdar að njóta sjálfstjórnar. Vesturlönd, Bretland og Bandríkin mega þakka þeim fyrir að hafa náð að sigrast á ISIS hryðjuverkasamtökunum. Ríki ÍSIS leið undir lok ekki síst vegna hetjulegrar baráttu Kúrda.

Staða Kúrda hefur verið vernduð af þúsund manna bandarísku herliði í Sýrlandi. Hvað gera þeir nú?

Í fangelsum Kúrda eru þúsundir Íslamskra hryðjuverkamanna, sem voru handteknir þegar ríki Íslam(ISIS) var sigrað 2017. Herði Tyrkir sóknina gegn Kúrdum er hætt við að Kúrdar geti ekki lengur gætt þessara hryðjuverkamanna.

Hvað ætla Vesturlönd að gera? Hvað ætlar Trump að gera? Ef Trump er sjálfum sér samkvæmur lætur hann Erdogan heyra, að Bandaríkin sætta sig ekki við að hann fari með hernaði á hendur þessum traustu bandamönnum og hlutaðist til um það að tryggja frelsi, sjálfstjórn og mannréttindi Kúrda í Sýrlandi. 

Vesturlönd hafa siðferðilega skyldu til að vernda Kúrdíska bandamenn sína í Sýrlandi og verða að gera Erdogan ljóst, að þau munu ekki hverfa frá stuðningi við Kúrdíska sjálfstjórn í Sýrlandi og muni verja hana með hernaði ef þörf krefur. 

Meira þarf til. Vestræn ríki eiga að gangast fyrir því að losa Kúrda úr ánauð og gera sitt til að sjálfstætt Kúrdistan verði að veruleika. Áfamhaldandi kúgun Kúrda á ekki að líða.

 


Fréttir eða áróður .

Aðilar á vegum múslimaríkisins Abu Dhabi leitast við að kaupa fjölmiðilinn Daily Telegraph.(DT) DT er með beittari fjölmiðlum skynsemishyggju og baráttu fyrir þjóðlegri arfleifð. Áhugi emírsins í Abu Dhabi og skósveina á að eignast DT snýst ekki um að efla tjáningarfrelsið eða að blaðið haldi áfram óbreyttri ritstjórnarstefnu heldur hafa virk áhrif á skrif blaðsins og loka á upplýsingaveitu til almennings. 

Í stöðugt auknum mæli hafa hagsmunaaðilar keypt fjölmiðla eða stofnað slíka oftast í nafni annarra en sjáfls sín. Fjölmiðillinn breytist þá í áróðursrit fyrir hagsmunum eigendannaog birtir ekkert sem þeim er mjög andsnúið. 

Margir hafa undrast á afstöðu ýmissa "vestrænna" fjölmiðla í innflytjendamálum,hryðjuverkasamtaka múslima, nauðgunargengja múslima, baráttu varnarsveita Ísrael gegn hryðjuverkasamtökum o.s.frv. Stutta svarið er að þetta stafar af tvennu. Annars vegar ógnina. Íslamskir vígamenn hafa drepið og leitast við að drepa fjölmiðlafólk sem þeir telja sér andsnúið og fjölmargir "vestrænir" fjölmiðlar eru í eigu fjárfestingasjóða í eigu múslmaríkja. Þannig er komið tjáningarfrelsinu í hinni "frjálsu" Evrópu. 

Einn er sá miðill, sem emírarnir og kalfífarnir þurfa ekki að kaupa. Fréttastofa RÚV, sem kemur boðskap þeirra ómenguðum til skila. Raunar hefur fréttastofa RÚV þróast þannig að ekki verður annað séð en fram sé kominn nýr stjórnmálaflokkur. Flokkurinn í Efstaleitinu, sem hefur það helst á stefnuskrá sinni að berjast fyrir opnum landamærum, woke hugmyndafræði,auknum ríkisútgjöldum, aðild að Evrópusambandinu, gegn Trump og öllu sem hann stendur fyrir og gegn þjóðlegri arfleifð þó svo það sé í lögum stofnunarinnar að hennar skuli sérstaklega gæta. 

Eðlilegra er að fréttafólkið á RÚV stofni eigin stjórnmálaflokk, sem fengi styrki í samræmi við þá spillingu alla, en léti eftir RÚV, sem yrði gert að raunverulegu ríkistúrvarpi,sem hefði að markmiði að efla íslensku, þjóðlegan fróðleik og íslenskan menningararf og stæði vörð um hlutlægan fréttaflutning og hagsmuni þjóðarinnar. Óneitanlega yrði mikil bragrabót af því.


Heimskan og yfirlætið ríður ekki við einteyming

Sr. Bjarni Karlsson og eiginkona skrifuðu bréf til að mæra fordæmanlega framkomu vinstri woke biskupsins Mariann Edgar Budde. Engin hefði kippt sér upp við það hefði biskupinn yfir Íslandi Guðrún Karls Helgudóttir ekki tekið undir þetta rugl Budde biskups og sagt m.a.í fésbókarfærslu

"Margir eru enn óttaslegnari en áður. Hins vegar er alveg sama hvað margar tilskipanir hann (Trump) undirritar, fólk mun alltaf rísa upp og berjast gegn óréttlæti." Mér er spurn hvaða óréttlæti, hverjir eru óttaslegnir?

Í erlendum fjölmiðlum les ég víða að þessi ræða woke biskupsins Budde og framkoma hennar þykir fordæmanleg, ókurteis og röng. 

Dálkahöfundur Daily Telegraph Michael Deacon gerir henni góð skil með þeirri kímni sem honum einum er lagið en þó þungum undirtón manns sem er ofboðin framkoma biskupsins. Grein hans er svona í lauslegri þýðingu minni: 

Aumkunarverðar árásir woke biskupsins á Trump sýnir vel af hverju hann vann. Ekkert í stefnumálum forsetans setur líf samkynhneigðra eða trans fólks í hættu. Við skulum kalla þetta vinstri sinnaðar yfirlýsingar um að Trump beri að skammast sín fyrir skoðanir sínar.

Sl. mánudag upplýsti Donald Trump að Guð hefði bjargað honum til að gera Bandaríkin öflug á nýjan leik. Nú er ég ekki guðfræðingur og get ekkert fullyrt með vissu um hvort þetta hafi verið áætlun Guðs. En í sannleika sagt þá held ég að þessi fullyrðing Trump sé mun skynsamlegri en þvaðrið sem var spúð yfir Trump af þessum biskupi.

S.l. þriðjudag mætti forsetinn í messu í Washington National Cathedral þar sem kona sem er biskup, Mariann Edgar Budde messaði og ákvað að þetta væri kjörið tækifæri til að fræða Trump um skoðanir hana á réttindum trans fólks og um innflytjendamál.

„ Leyfðu mér að gera þá lokabón hr. Forseti í nafni Guðs að þú sjáir aumur á fólki í landinu okkar, sem er hrætt núna. Þau eru hommar, lesbíur og trans börn, sem óttast um líf sitt.“

Fyrirgefðu, hvað? Ef eitthvað barn óttaast um líf sitt núna þá getur það bara verið vegna þess að það hefur hlustað á hræðsluáróður frá áköfu vinstra fólki. Ekkert af því sem Trump boðar setur líf hinsegin fólks eða trans fólks í hættu.

En meðan við erum að ræða þetta mál. Gæti biskupinn gert viðunandi grein fyrir afstöðu sinni til kynjahugmyndafræðinnar?

Trúir hún því virkilega að sum börn séu fædd í vitlausum líkama? Ef það er vitlaus líkami, þá þýðir það að Guði hafa orðið á skelfileg mistök. Telur biskupinn virkilega að Guð geri mistök? Eé svo segir hún honum það í bænum sínum?

„Kæri Guð vá það lítur út fyrir að þér hafi heldur betur orðið á í messunni einu sinni enn, að setja aðra litla stúlku í líkama lítils drengs. Ég trúi því ekki að þú haldir áfram að gera svona hræðilega vitlaus mistök. Ég sem hélt að þú værir óskeikull. Þú þarft heldur betur að taka þig á eða ég fer að aðhyllast og tigna annan guðdóm“

Ummæli hennar um innflytjendamál voru enn vitlausari.

„Sumir innflytjendur „eru hugsanlega ekki borgarar eða hafa löglega pappíra“ sagði hún forsetanum „ en mikill meirihluti þeirra eru ekki glæpamenn.“

Liggur það ekki ljóst fyrir? Trump segist ætla að reka alla sem eru glæpamenn, en ekki alla þá sem eru fæddir erlendis. Heldur biskupinn virkilega að hann ætli að reka alla sem eru fæddir erlendis úr landi eins og t.d. eiginkonu sína sem er frá Slóveníu og Elon Musk sem er frá S-Afríku.

Öll ræðan var óttaleg skammarræða einkum þegar haft er í huga að hún var nákvæmlega sú tegund af hástemmdum, yfirlætislegum kjafthætti, sem bandarískir kjósendur höfnuðu fyrir rúmum tveim mánuðum síðan í kjörklefanum. Kjósendur voru búnir að fá sig fullsadda á þessum málum og svona yfirlætislegum áminningum.

Þessi aumkunarverða árás woke biskupsinw á Trump sýnir vel af hverju hann sigraði.

Síðast en ekki síst hvað ummæli biskupsins hafa yfir höfuð eitthvaðað gera með trúarbrögð?

Ef þú getur bent mér kapítula í Biblíunni þar sem Jesús segir „Trans konur eru konur“ og fordæmir innflytjendastefnu Bandaríkjanna þá væri ég áfjáður að lesa það.

Samt sem áður þá velti ég fyrir mér hvers vegna í ósköpunumn gerði hún þetta? Hélt hún virkilega að Trump mundi bregðast við og hugsa: „Þessi stelpa í hempunni segir mikilvæga hluti. Af hverju ættum við ekki að leyfa milljónum ólöglegra innflytjenda að búa í landinu og af hverju ættum við ekki að láta stráka berjast um verðlaun í kvennahnefaleikum. Ég ætla að svíkja öll kosningaloforðin mín sem urðu til þess að ég var kosinn og stjórna eins og Kamala Harris mundi hafa gert.

Ef til vill vissi hún að þetta var fáránlegt- en sagði það samt, af því að hún vildi fá klapp frá vinstra liðinu. Sem er, við skulum horfast í augu við það, aðal ástæðan fyrir því að flest vinstra fólk segir yfirleitt eithvað.:"

Satt að segja er það sorglegt að biskupinn yfir Íslandi skuli blanda sér með þessum aumkunarverða hætti í umræðuna. En m.a.o. væri rétt að hún svaraði þeim trúmálalegu spurningum sem greinarhöfundur setti fram til Budde biskups og hvort hún hagi bænum sínum eins og dálkahöfundur velti fyrir sér að woke vinstri sinnar geri núna.

 


Að láta verkin sitja á hakanum.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur setið í rúman mánuð.

Ríkisstjórnin á þann samnefnara með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, að boða víðtækar breytingar. Munurinn er hins vegar sá, að á tveim dögum frá því að Trump tók við embætti hefur hann heldur betur látið til sín taka og sýnt að hann ætlar að efna þau kosningaloforð sem hann gaf og breyta bandarísku þjóðfélagi.

Ríkisstjórn Kristrúnar hefur ekkert gert sem máli skiptir á rúmum mánuði annað en tala fyrir breytingum án þess að láta hendur standa fram úr ermum. Þó þannig að Flokkur fólksins stendur berstrípaður úti í frostinu búinn að lofa að svíkja öll sín helstu stefnumál fyrir kosningar á meðan Trump er að hamast við að koma sínum stefnumálum í framkvæmd strax.  

Ófyrirséður vandi steðjar nú að ríkisstjórn Kristrúnar, sem er með hvaða hætti tekið verður á fjársvikamáli Ingu Sæland.

Ætli hin svonefnda valkyrjustjórn að reyna að humma það mál fram af sér og halda áfram stjórnun landsins með þeim hætti sem verið hefur, þá bætist hún í hóp þeirra ríkisstjórna sem skilja ekki eftir sig neina góða arfleifð heldur þvert á mótu. En ráðherrarnir voru þó altént í partíinu eins og forverar þeirra á undan þeim.

 


Stelirðu miklu og standir þú hátt.

Á sínum tíma setti óþekktur höfundur fram eftirfarandi vísubrot:

"Stelirðu miklu og standir þú lágt í steininn settur verður, en stelirðu miklu og standir þú hátt í stjórnarráðið ferðu."

Nú er það svo, að Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hefur viðurkennt a hafa tekið á móti 240 milljónum úr ríkissjóði vegna Flokks fólksins, meðvituð um að hún átti ekki rétt á að fá þessa peninga.

Greiðslan til Ingu var því ólögleg og þeir sem um málið héldu hvort heldur í fjármála- eða dómsmálaráðuneyti bera ábyrgð á því að misfara með opinbert fé með því að greiða fjármunina til aðila, sem átti ekki rétt á greiðslunni. Með sama hætti og enn frekar ber Inga Sæland ábyrgð á því að hafa móttekið og nýtt sér ríkisstyrki sem hún átti ekki rétt á að fá. 

Inga Sæland viðurkennir í viðtali við Morgunblaðið að hún átti ekki rétt á að fá eða taka við umræddum fjármunum, en þrátt fyrir það gerði hún það og nýtti þá að eigin geðþótta að því er ætlað verður, en Flokkur fólksins hefur ekki skilað ársreikningum svo sem honum ber frá árinu 2021 og landsfundur hefur ekki verið haldinn síðan 2018. 

Eftir þessa viðurkenningu Ingu Sæland á að hafa tekið og fénýtt gríðarlegar fjárhæðir úr ríkissjóði ólöglega verður ekki séð hvernig viðkomandi ráðherra telur sér stætt á því að ætla að sitja áfram sem ráðherra. Fólk hefur fokið fyrir minni sakir úr ráðherrastólum. 

Þá er það líka spurning hvernig forsætisráðherra hyggst taka á þessu máli. Samþykkir hún að ráðherra í hennar ríkisstjórn sitji áfram þrátt fyrir að hafa viðurkennt alvarlegt brot á lögum?

Allt þetta styrkjakerfi til stjórnmálaflokkana er fráleitt spillingardýki og á að leggja niður. Það bíður upp á spillingu, sem aldrei hefur veri jafn rækilega afhjúpuð og nú þegar flett hefur verið ofan af lögbrotum í sambandi við greiðslur til Flokks fólksins sem formaður hans vissi þegar hún tók við greiðslunum, að hún hefði ekki rétt til.

Hversu vel eða illa sem fólki líkar við Ingu Sæland, þá gengur ekki að hún sitji áfram í ríkisstjórn Íslands. Það gengur ekki heldur að þeir sem misfóru með fé ríkissjóðs með því að greiða fjármuni til stjórnmálaflokka án heimilda gegni óáreittir stöðum sínum eða þurfi ekki að sæta ábyrgð jafnvel þó að ráðherrar eigi þar í hlut. 


Frábær innsetningarræða Trump

Það var með eftirvæntingu sem ég settist niður til að hlusta á innsetningarræðu Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann hafði lofað ýmsu og spurning var ætlar hann að standa við stóru orðin? Í innsetningarræðunni gaf hann ekkert eftir. 

Hallarekstur ríkissjóðs Bandaríkjanna er svo mikill eftir Biden stjórnina að gert er ráð fyrir að Bandaríkin þurfi að taka 2 trilljónir dollara að láni á hverju ári fram á næsta áratug ef ekkert verður að gert. Heldur betur verk að vinna fyrir Musk og Trump að draga úr ríkisútgjöldum og auka hagvöxt í landinu það ætla þeir að gera. 

Trump lofaði því í kosningabaráttunni, að hlutast til um að ólöglegum innflytjendum yrði vísað úr landi. Talið er að um 11 milljón manns séu ólöglega í landinu þannig að það er verk að vinna. Það verk þyrftum við líka að vinna og verðum að vinna ef við ætlum ekki að drukkna í þjóðahafinu. Í ræðu sinni ítrekaði Trump stefnu sína og sló ekkert af varðandi múrinn á landamærum Mexícó og Bandaríkjanna.

Trump hefur lofað að orkuverð muni lækka um helming innan 12 mánaða frá því að hann tekur við embætti með því að auka þróun og notkun jarðefnaeldsneytis. Í ræðu sinni ítrekaði Trump þetta og sagðist ætla að láta bora og bora eftir olíu. Heldur betur annað en hjá Evrópusambandinu þar sem orkuverð hefur hækkað og hækkað og er mun hærra en í Bandaríkjunum. Stefna Trump er ávísun á hagvöxt og betri lífskjör. Stefna Evrópusambandsins er hærra orkuverð og verri lífskjör. 

Trump var óhræddur við að segja sannleikann í líffræði, að það væru  bara tvö kyn karlar og konur. 

Það var ferskur tónn og óvægin gagnrýni á Biden óstjórnina og heldur betur tekið á loftslagsruglinu og woke hugmyndafræðinni. 

Þessi ræða Trump var sterk og vonandi tekst honum vel upp. 

Tvennt sem ég hjó sérstakelga eftir, sem var frábært. 

Trump talaði um að vinna sigur með því að þurfa ekki að fara í stríð . Einnig að Bandaríkin ættu að vera litblind en meta hvern einstakling út frá hæfi viðkomandi.

Sterk ræða og frábær. 


Í mesta lagi framkvæmdastjórar

 Á sínum tíma var prestur utan af landi sakaður um að hafa verið að kíkja á glugga hjá ungum stúlkum að kvöldlagi. Þótti þetta hið versta mál og var prestur handtekinn. Stuttu síðar áttu þeir spjall saman sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup í Dómkirkjunni og Páll Ísólfsson vinur hans og organisti. Páll færði þetta athæfi prestsins í tal og sagði við sr. Bjarna.  "Finnst þér þetta ganga sr.Bjarni fyrir prest." Sr. Bjarni svaraði að bragði.

"Nei í besta falli fyrir organista."

Nú hefur Samfylkingin fundið sína fjöl um hvað gengur fyrir hvern. Dóni, sem talar niður til kvenna og sýnir megnustu kvennfyrirlitningu í ræðu og riti getur ekki verið þingmaður flokksins en gengur sem framkvæmdastjóri þingflokksins. Þórður Snær Júlíusson var neyddur til að segja af sér þingmennsku fyrir flokkinn vegna dónaskapar í garð kvenna, en að mati forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar þá gengur það að framkvæmdastjóri þingflokksins sé dóni gagnvart konum þó hann geti ekki verið þingmaður. 

Eða eins og kerlingin sagði það er sitthvað Ólafur Pá eða Ólafur uppá.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.2.): 54
  • Sl. sólarhring: 587
  • Sl. viku: 3977
  • Frá upphafi: 2478363

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 3669
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband