Leita í fréttum mbl.is

Það er svo bágt að standa í stað

Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sagði í kvæði sínu "Ísland farsældar Frón", að það væri svo bágt að standa í stað og mönnunum munaði annað hvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið. Í lok kvæðisins spyr skáldið: "Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?"  og hann svarar að hluta.

Við þurfum alltaf að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg. Fámenn þjóð með sérstakt tungumál og menningu þarf stöðugt að gæta þess að ganga til góðs ef ekki á illa að fara. 

Umræður undanfarna daga um skólamál og útkoma íslenskra nemenda í Pisakönnunum sýnir að það er mikið að í mennta- og skólamálum. Strax ætti að bregðast við og stíga á stokk og heita því að koma málum í viðunandi horf. Þetta virðast flestir sjá nema helst nokkrir talsmenn kennara. Þær úrtölu- og kyrrstöðuraddir mega ekki koma í veg fyrir að strax verði brugðist við og það gert sem gera þarf. 

Á sama tíma skýrir forstjóri Barna og unglingastofu frá því að áhættuhegðun og ofbeldisbrotum barna og unglinga hafi fjölgað gríðarlega. Þar er líka ljóst að þar verður líka að bregðast við.

Stjórnmálamenn þjóðarinnar hafa látið reka á reiðanum og árum saman hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla. Þegar forsætisráðherra tilkynnir á alþjóðavettvangi að við ætlum að styrkja Úkraínu um 4 milljarða á ári næstu fjögur árin, þá er allt það fé tekið að láni og börnunum okkar ætlað að borga það.

Börnunum, sem fá ekki tilhlýðilega menntun og eiga auk þess við margvísleg vandamál að stríða eins og kom fram hjá forstjóra Barna og unglingastofu. 

Íslensk tunga á í vök að verjast og fari svo sem horfir og íslenska þjóðin horfir metnaðarlaus á það sem er að gerast án þess að bregðast við þá eru líkur meiri en minni að almennt samskiptamál á Íslandi árið 2050 verði enska en ekki íslenska.

Stöðugt fjölgar hælisleitendum, sem stjórnvöld hlutast svo til um að njóti forgangs umfram íslendinga hvort heldur sem er varðandi tannviðgerðir, læknishjálp, heyrnartæki,mat, húsaskjól o.fl. o.fl.

Hvers eiga efnalitlir Íslendingar að gjalda sem hafa ekki efni á að veita sér það sem hælisleitendur fá ókeypis frá ríkinu sem tekur það fé líka að láni. Útgjöld til þess málaflokks er svo gríðarlegur að grípa verður til allra þeirra aðgerða sem unnt er til að ekki eigi verr að fara.  

Við erum ekki að ganga til góðs götuna fram eftir veg. Við verðum að bregðast við. 

Einu sinni var sagt. Þegar býður þjóðarsómi þá á Ísland eina sál.

Nú býður þjóðarsómi að tekið verði á málum með öðrum hætti en gert hefur verið. Á sama tíma og við eigum að vera þjóð meðal þjóða, þá skiptir mestu að standa vörð um og sækja fram varðandi uppfræðslu barna- og unglinga og gæta að tungu og menningu þjóðarinnar, frelsi þjóðarinnar og fullveldi. Þar verðum við að sækja fram og varpa bruðlinu, ómennskunni og atlögu að þjóðlegum gildum fyrir róða.

Við eigum verk að vinna og það verður að hefjast strax.


Loksins tókst flokkseigendafélagi Demókrata að þvinga Biden til að hætta.

Joe Biden forseti Bandaríkjanna dró framboð sitt til baka. Það var næsta víst að til þess mundi draga eftir að helsta áhrifafólk í Demókrataflokknum og þau sem Biden taldi vini sína snéru við honum baki. 

Hvers vegna datt þessu fólki í hug til að byrja með að stilla Biden upp sem forsetaframbjóðanda. Þegar fyrir fjórum árum réði ekki við að gegna þessu viðamikla embætti. 

Biden lýsti ekki yfir stuðningi við neinn ekki einu sinni varaforsetann sinn, en þakkaði henni bara fyrir. 

Ætla má að flokkseigendafélagið sé tilbúið með frambjóðanda og komi til opins kjörs, vega þungu atkvæði flokkseigandanna mestu. Fróðlegt verður að vita hvort þeir vilja áfram halda til vinstri eða sveigja flokkinn að meiri skynsemi. 

Ég skrifaði fyrir nokkru að Trump hefði gert þau stóru mistök í að etja kappi við Joe Biden of snemma. Þær kappræður sýndu Bandarísku þjóðinni að forsetinn gengur ekki heill til skógar og er allsendis ófær um að gegna embættinu.

En Joe Biden dregur sig í hlé sem betur fer og eftir óstjórn hans og mistök undanfarin ár þá er ekki hægt að segja annað en:

Farið hefur fé betra. 


mbl.is Biden dregur framboð sitt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum hefur hann hjálpað?

Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðsson hefur átt annríkt undanfarið með vinum sínum hælisleitendum frá  Palestínu. Áður dundaði hann sér við að ráðast á Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Nú ræðst hann á Ásgerði Jónu Flosadóttur formann Fjölskylduhjálpar Íslands og segir hana vera rasista, en að vísu heiðarlegan. 

Munurinn á Braga Páli og Ásgerði Jónu felst ekki síst í því að Bragi Páll hefur verið styrkþegi úr opinberum sjóðum á meðan Ásgerður Jóna hefur varið lífi sínu í að hjálpa fátæku fólki, styrkja það og styðja.

En hverjum skyldi Bragi Páll hafa hjálpað ef frá er tekin þráhyggja hans við að skipta um þjóð í landinu og planta inn Palestínuaröbum?

Ástæða þess að rithöfundurinn ræðst með þessum hætti að Ásgerði Jónu er sú, að vinir hans úr hópi Palestínu araba hafa ítrekað látið dólgslega við úthlutun Fjölskylduhjálparinnar. Þessvegna varð að taka upp breytt skipulag við úthlutun. Það var ekkert sem Fjölskylduhjálpin vildi eða óskaði eftir. En annað var ekki hægt vegna yfirgangs, ofbeldis og frekju vina rithöfundarins úr ofangreindum hópi. Rasisminn er því allur hjá þeim þar sem þeir telja að sérreglur eigi að gilda um sig. 

Það situr því síst á rithöfundinum að vera með brigslyrði í garð Ágerðar Jónu, sem hefur svo sannarlea unnið fyrir því að verða sæmd æðsta heiðursmerki íslensku þjóðarinnar og því fólki sem aðstoðar hana og leggur mikinn tíma að mörkum til að hægt sé að aðstoða sem flesta án tillits til ættar eða uppruna, litarháttar eða trúar. Að kalla slíkt fólk rasista er argasta öfugmæli og fordæmanleg lygi.  

 


Stjórnmálaflokkurinn í Efstaleiti 1

Íslenska þjóðin er stofnanavæn og þýlynd. Þessvegna m.a. fær litli stjórnmálaflokkurinn á fréttastofu RÚV að Efstaleiti 1 að fara sínu fram. Þessi óskammfeilni stjórnmálaflokkur hirðir ekkert um það þó hann brjóti lög um RÚV enda helgar tilgangurinn meðalið. 

Merkilegt að stjórnmálaflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn "málsvari frelsis, takmarkaðra ríkisafskipta" eða þannig á það a.m.k. að vera, skuli ekki fyrir löngu hafa tryggt borgurum þessa lands það lágmarksfrelsi að velja hvort þeir vilji styrkja og styðja litla stjórnmálaflokkinn í Efstaleitinu eða ekki.

Eitt af helstu áhugamálum litla stjórnmálaflokksins í Efstaleiti 1,  sem byggir á þeirri skoðun gamalla einvaldskonunga; "vér einir vitum" er að koma Íslandi inn í Evrópusambandið hvað sem tautar eða raular. Sumt af tilburðum þeirra í Efstaleitinu í því sambandi er næsta broslegt, en taka verður að sjálfsögðu viljann fyrir verkið. 

Fyrir nokkrum dögum fjallaði fréttastofa RÚV um hvað Bretar væru andsnúnir Brexit, enda hefði það ekki haft neitt nema illt í för með sér. Til að stimpla þetta var dregin upp einhver kona, sem kvartaði sáran yfir því að þurfa að sinna ýmissi skriffinsku vgna Brexit. Raunar var ekki á hreinu hvort það var frekar vegna Schengen. En hvaða máli skipti það og þó kona þessi hefði ekkert fram að færa, hún þjónaði alla vega málstaðnum.

Allt var þetta af sama meiði og fá sérfræðing í Bósa sögu og Herrauðs til að þykjast vera sérfræðingur um franska pólitík af því að hann var eindregin andstæðingur frönsku þjóðfylkingarinnar.

Stjórnmálaflokkurinn að Efstaleiti 1, fjallar aldrei  um þær breytingar sem hafa orðið á Evrópusambandinu hin síðari ár og hvernig völdin eru dregin frá þjóðríkinu til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Ísland verður ekki frjálst og fullvalda ríki gangi það í Evrópusambandið. Sá sannleikur er aldrei sagður á fréttastofunni enda væri það til þess fallið að draga úr þeim dýrðarljóma sem reynt er að sveipa ES aðild. Sá sannleikur fær því ekki að komast að. Sannleikurinn í þeim efnum og fleirum þjónar ekki stefnu stjórnmálaflokksisn að Efstaleiti 1. 


Ekki segja frá hverjir það voru

Fjölskylduhjálp Ísland neyðist til að breyta aðferðum við matarúthlutun vegna Palestínuaraba, sem hafa ítrekað verið með yfirgang og ógnanir gagnvart starfsfólki og m.a. hótað að sækja að þeim á heimilum þeirra. Þetta kom fram í viðtali við formann Fjölskylduhjálpar Íslands, Ásgerði Jónu Flosadóttir á Bítinu á Bylgjunni í morgun og í frétt Morgunblaðsins í dag.

Fram kom einnig að lögreglan hefði þrívegis verið kölluð til vegna yfirgangs þessa liðs, það sem af er þessu ári. 

Ásgerður segir að útlendingar sem sæki aðstoð, sé yfirleitt gott fólk og ekki með yfirgang. En vegna yfirgangs palestínuarabanna verði að breyta úthlutunarreglum.

Í fréttum Bylgjunar í hádeginu var vísað í viðtalið við Ásgerði Jónu, en þess gætt að aðalatriðið þ.e. yfirgangur og ruddaháttur Palestínuarabanna ylli því að breyta yrði úthlutunarreglum. Það var þó aðalatriði málsins. Af hverju sleppti fréttastofan að minnast á aðalatriðið? 

Fréttastofur á Vesturlöndum hafa gætt þess, að segja ekki fréttir af öðru en góða duglega innflytjandanum frá arabalöndum ekki síst Palestínu, en forðast að gera grein fyrir þeim raunveruleika sem um er að ræða. Stöð 2 sýndi af sér sama heigulshátt í fréttum sínum í hádeginu. 

Enskt máltæki segir: "Beggars can´t be choosers" Þetta skilja Palestínuarabarnir ekki og telja sig eiga að ráða hvar sem þeir eru og í hvaða stöðu sem þeir eru. Fólk ætti að hugleiða af hverju engin af nágrannaþjóðum þeirra vill fá þá til sín. Ekki Egyptar, Saudi Arabar, Flóaríkin, Írak og jafnvel ekki Íran þó þeir styðji þá til óhæfuverka eftir því sem þeir mögulega geta. 

Varað var við því í vor að stór hópur Palestínuaraba kæmi til landsins vegna þeirrar reynslu sem af þeim er í nágrannalöndunum ekki síst í Danmörku. Ekki var hlustað á það. Þvert á móti sendi ríkisstjórnin flugvélar til að sækja á annað hundrað Palestínuaraba og flytja þá til landsins. 

Hvers konar rugl var það nú? Eðlilegt er að fólk spyrji að því fyrir hverja ríkisstjórn er að vinna sem hegðar sér svona. Alla vega ekki borna og barnfædda Íslendinga.  

 


mbl.is Palestínumenn haft í hótunum við matarúthlutun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðvið manninn hvað sem það kostar

Orð geta verið dýr. Í pólitískri umræðu gætir þess oft, að fólki er ekki sýnd tilhlýðileg virðing og það jafnvel útmálað í sterkari litum en skrattinn sjálfur. 

Þeir sem berjast fyrir breytingum í stjórnmálum og falla ekki að því hefðbundna verða iðulega fyrir gríðarlegum hatursáróðri frá málsmetandi stjórnmálamönnum, sem leiðir til þess, að ýmsir telja sig þurfa að bregðast við. 

Þ.6.maí árið 2002 var hollenski stjórnmálamaðurinn Pim Fortyn myrtur af manni vegna skoðana sinna og herhvöt annarra hollenskra stjórnmálamanna að þennan mann þyrfti að stöðva hvað sem það kostaði.

Pim Fortyn var samkynhneigður og barðist fyrir róttækum breytingum á innflytjendalöggjöfinni, varaði við múslimum m.a. Pim Fortyn varaði sjálfur við hatursáróðrinum gegn honum og sagði hanng geta haft þær afleiðingar sem þær höfðu.

Í gær var skotið á Donald Trump á framboðsfundi. Sem betur fer geigaði skotið.

Trump hefur verið útmálaður af andstæðingum sínum sem glæpamaður og þaðan af verra og andstæðingar hans hafa iðulega sagt, að það verði að stöðva hann hvað svo sem það kostar. Sjálfur Bandaríkjaforseti hefur sagt hann ógn við Bandaríkin og hann verði að stöðva hvað svo sem það kostar. Slík orð eru dýr.

Einhverjir gætu tekið orð Biden sem herhvöt eins og riddarar Hinriks annars Bretakóngs gerðu þegar þeir fóru og drápu erkibiskupinn Thomas Becket, sem Hinrik átti í útistöðum við. Hinrik þessi er annars helst þekktur fyrir að vera faðir Ríkharðs Ljónshjarta og bróður hans Jóns sem báðir urðu konungar af Englandi.

Því má aldrei gleyma ekki síst í pólitík að aðgát skal höfð í nærveru sálar og orð geta verið dýrari en sá sem segir þau ætlaði þeim að vera.


Ég veit ekki hvað hann var að segja og ég held að hann viti það ekki heldur

Donald Trump gerði sín fyrstu mistök í kosningabaráttunni með því að eiga kappræður í sjónvarpi við Biden of snemma. Frammistaða Biden var skelfileg. Svo skelfileg, að allt í einu opinberaðist leyndarmálið sem Demókratar eru búnir að halda frá þjóðinni, að Biden er löngu kominn fram yfir síðasta söludag. Raunar var hann það líka þegar hann var kosninn, en þá gekki flokkselítunni í Demókrataflokknum betur að fela það. 

Fátt sýnir ömurleika Biden en þegar Trump sagði í kappræðunum. 

"Ég veit ekki hvað hann var að segja og ég held að hann viti það ekki heldur."  Það var enginn sem mótmælti. 

Allir sem fylgdust með kappræðunum áttuðu sig á því að þetta var rétt sem Trump var að segja. Biden bullaði út í loftið. Í kappræðunum gat hann ekki haldið heilli hugsun í framsetningu í eina mínútu. 

Vinir og vandamenn og flokkselítan reynir að ljúga að bandarísku þjóðinni og segja að þetta sé allt í lagi, en í gær opinberaðist það svo enn einu sinni að Biden er úti um holt og móa.  Hann bauð Pútín velkominn í ræðustól þegar hann átti að kynna Zelensky og Trump þegar hann var að tala um Kamillu Harris varaforsetann sinn. 

Það er með miklum ólíkindum, að ættingjar, vinir og flokkselíta Demókrata skuli ekki fyrir löngu hafa gripið inn í, en það sýnir e.t.v. betur en svo margt annað hvað þeir sem hafa hagsmuni að gæta af völdum einstaklings,  hanga á því eins og hundar á roði að þeirra maður haldi stöðu sinni því annars mundu þeir missa gullspóna úr askinum sínum. 

En nú er nóg komið. Staðreyndunum verður ekki neitað frekar en þegar barnið benti á að keisarinn væri ekki í neinum fötum. 


Frestur er á illu bestur

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur frestað kynningu á aðgerðaráætlun þar sem á að bregðast við slökum niðurstöðum íslenskra grunnskólanema í Pisa könnunum. Sjálfsagt  vegna þess að aðgerðaráætlunin er ekki til. 

Slakur árangur íslenskra grunnskólanemenda í Pisa könnunum er ekki nýr af nálinni. Alla öldina eða tæplega í aldarfjórðung hefur sigið hratt á ógæfuhliðina. Ekki hefur verið brugðist við. Helstefna fáránleikans í skólakerfinu, sem gengur undir heitinu skóli án aðgreiningar leikur lausum hala öllum til tjóns. Yfirstjórn skólamála er í afneitun gagnvart þeim raunverulega vanda sem við er að glíma. 

Að óbreyttri skólastefnu fá nemendur sem hafa hæfi ekki viðunandi tækifæri til að ölast eðlilega fræðslu í íslenskum grunnskólum. 

Allt þetta hefur verið ljóst frá fyrstu árum þessarar aldar, en ekki hefur verið brugðist við. Jón Pétur Ziemsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla segir að nú sé svo komið að helmingur drengja og þriðjungur stúlkna sem útskrifast úr grunnskóla skilji ekki mælt mál nema það allra einfaldasta. 

Fyrst árangurinn af skólastefnu Ásmundar Einars og skólaelítunnar er með þeim hætti að nemendur skilja ekki mælt mál við útskrift og standa sig hraklega í lestri, hvað kunna  þá í stærðfræði, landafræði og sögu? 

Þrátt fyrir að vandamálið hafi verið þekkt í tvo áratugi og farið versnandi ár frá ári, þá er ekki brugðist við og ráðherrar menntamála síðustu tvo áratugi bera allir ábyrgð á hvernig komið er. 

En frestsmálaráðherrann Ásmundur Daði ber mesta ábyrgð fyrir að vera ekki búinn að taka í taumana og gera grundvallarbreytingar á skólakerfinu. Hvaða vit er í því að fólk sem hefur ólíka getu, þekkingu og færni skuli sitja í sama bekki og tali jafnvel ólík tungumál tvo til þrjú? 

Allt er þetta undir vígorði ráðandi skólaspeki um að fólki eigi að líða vel í skólanum. Vissulega er gott að svo sé. En skólar eru fyrst og fremst til að kenna fólki og uppfræða. Það er margreynt að það gengur ekki í skóla án aðgreiningar. 

Nú 25 árum eftir að vandamálið var þekkt tilkynnir Ásmundur ráðherra að fresta verði kynningu á "aðgerðaráætlun" í skólamálum. Hversu lengi getum við verið með ráðherra og ríkisstjórn þar sem ráðherrar hafa ekki burði til að takast á við æpandi vandamál sem heyrir undir þá. 

Er þá ekki best að aðrir sem geta, nenna og kunna taki við?


mbl.is Fresta kynningu á viðbrögðum við PISA-könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Af ótta við stórsigur hægra fólks í frönsku þingkosningunum gerði hinn lánlausi Frakkaforseti Macron bandalag við kommúnista og öfgavinstrið. Afleiðingin er að Vinstrið sigraði og Macron stendur uppi með þá sem ráðandi afl nema hann kúvendi og snúi sér til Þjóðfylkingarinnar um stuðning. 

Það er jafnan talað um öfgahægrið í Frakklandi og þá talað um Þjóðfylkinguna. En engin fréttamiðill talar um öfgavinstrið. Samt sem áður er það nú svo, að öfgavinstrið ræður nú för með stuðningi Macron. Það getur ekki endað nema á einn veg. Stórsigur frönsku þjóðflylkingarinnar í næstu kosningum eftir óstjórn öfgavinstrisins í Frakklandi.

Þetta kjörtímabil verður Frökkum dýrt og ríkisskuldirnar geta þá orðið á pari við það sem Giorgiana Meloni tók við á Ítalíu og er að laga til eftir óstjórn vinstri aflanna. 

Það væri þó aldrei að það verði hlutskipti hins svokallaða "öfga hægris" að koma reiðu á hlutina og sinna því hlutverki í efnahagsstjórn sem venjulegir hægri flokkar gerðu áður en þeir fóru á bak vinstra tígrisdýrinu. Já og lentu flestir inn í því  eins og segir í afrískum málshætti að þeir geri sem fari í slíkan reiðtúr. .  


mbl.is Útgönguspár: Vinstriflokkar með flest þingsæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandalag fáránleikans

Síðari hluti frönsku þingkosninganna fer fram í dag. Greidd eru atkvæði milli tveggja efstu úr fyrri umferð kosninganna þar sem frambjóðandi fékk ekki hreinan meirihluta. 

Þjóðfylkingin franska vann stórsigur í fyrri umferðinni og til að reyna að koma í veg fyrir að flokkurinn nái hreinum meirihluta mynduðu hefðbundnir hægfara hægri menn Macron forseta hræðslubandalag með vinstri fylkingunni.

Hræðslubandalag Macron og vinstri fylkingarinnar er merkilegt fyrir það, að í raun á hægri flokkur Macron miklu meira sameiginlegt með frönsku þjóðfylkingunni en ofstopa vinstrinu sem leitt er m.a. af Jean Luc Mélanchon, sem er öfgafullur vinstri maður sem neitar m.a. að fordæma hryðjuverk Hamas 7. október s.l.

Vinsti fylkingin hefur það helst á stefnuskrá sinni að afnema allar þær umbætur sem Macron gerði sumt í hörðum átökum eins og að færa eftirlaunaaldurinn upp í 64 ár. Macron er sama þó hann fordjarfi öllum sínum stefnumálum ef honum tekst að koma í veg fyrir að franska þjóðfylkingin vinni meirihluta á franska þinginu. 

Ekki nóg með að segja sig til sveitar með villta tryllta vinstrinu, þá hótar Macron því að vinni þjóðfylkingin samt, þá muni þess ekki langt að bíða að hann rjúfi þing aftur til að reyna að ná fram hagstæðari úrslitum. Macron ætlar semsagt ekki að virða lýðræðið, ef úrslitin eru honum ekki hagfelld. 

Í umfjöllun ríkisfjölmiðilsins um frönsku kosningarnar var dreginn á flot maður, sem í trúarlegri upphafningu réðist gegn frönsku þjóðfylkingunni en lofaði vinstri fylkinguna.  

Öfgaflokkurinn í þessum kosningum er vinstri fylkingin, sem er með stefnu, sem mundi leggja franskan efnahag í rúst á stuttum tíma. Aukin ríkisútgjöld vegna stefnumála vinstrisins eru talin nema um 24 milljörðum Evra eða 3.600 milljörðum ísl. króna. 

Franska þjóðfylkingin er mun hógværari í velferðinni og ein tillaga þeirra er allrar athygli verð, að undanþiggja fólk undir 30 frá að greiða tekjuskatt. Margt sem getur mælt með því. 

Sleeping with the enemy (að sofa hjá óvininum) er heiti á frægri kvikmynd. Spurningin nú er hvort Macron sefur hjá óvininum eða hvort villta tryllta vinstrið, sem hann samsamar sig með núna er frekar spurning sem gæti borið engilsaxneska heitið "sleeping with the devil" (að sofa hjá djöflinum) Alla vega er Macron tilbúinn til að berjast við hlið þeirra sem hvað harðast hafa staðið gegn öllu því sem hann hefur lagt fram til framfara í forsetatíð sinni og vilja afnema það allt saman.

Álíka kúvending og færi Guðni Th.forseti Íslands að borða pissur með ananas og mælti með að fólk gerði það líka.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 51
  • Sl. sólarhring: 1141
  • Sl. viku: 4192
  • Frá upphafi: 2598425

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 3912
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband