Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Rós í hnappagat íbúðalánasjóðs.

Á tímum hárra stýrivaxta og hækkana þá er það gleðiefni að íbúðarlánasjóður skuli lækka vexti. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að íbúðarlánasjóður gæti lækkað vexti ennþá meira miðað við löng fasteignalán í nágrannalöndum okkar.
mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að stoppa atvinnlífið?

Ég veit eiginlega ekki hvert stjórnvöld eru að fara í efnahagsmálum. Þrátt fyrir að flesti bendi til þess að samdráttur sé í vændum í íslensku efnahagslífi þá hækkar Seðlabankinn stýrivexti ítrekað. En það er ekki gripið til annarra ráðstafanna sem eru mun mikilvægari eins og staðan er í dag. Hvernig á að leysa lausafjárkreppu bankanna og bregðast við komist lánastofnanir í verulega erfiðleika. 

Háir stýrivextir Seðlabankans hafa ekki megnað að hamla gegn verðbólgunni og hún er nú sú hæsta í okkar heimshluta og það eru stýrivextir Seðlabankans einnig. Segir það ef til vill einhverja sögu?


mbl.is Seðlabankinn hækkar stýrivexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Clinton og Gore staðfestu ekki Kyoto.

Ég hlustaði á Gore flytja boðskap sinn og að vonum gerði hann það frábærlega með góðri hjástoð mynda á breiðtjaldi Háskólabíós. Al  Gore hefur raunar flutt þennan fyrirlestur með takmörkuðum málefnalegum  breytingum í tæp 7 ár þannig að það var að vonum að fyrirlesturinn væri frábær.  Málflutningurinn er raunar nokkuð einhæfur og áróðurskenndur eins og gengur og gerist hjá bandarískum stjórnmálamönnum og farandprédikurum.

Það dregur enginn í efa að hnattræn hlýnun hafi orðið á undanförnum árum. Menn greinir á hvað mikinn þátt maðurinn eigi í þeirri hnattrænu hlýnun og ég er einn af þeim sem dreg í efa að maðurinn hafi þar úrslitaáhrif. Samt sem áður er mikilvægt að fara að öllu með gát og leyfa náttúrunni að njóta vafans. Þess vegna þurfum við að bregðast við en þá er spurning um að bregðast við með skynsömum áhrifaríkum hætti. Það er hins vegar ekki ástæða til að bregðast við með þeim hætti sem kallar á mun verri lífskjör til langframa vegna aðgerða sem ekkert liggur fyrir um að muni skila sér í baráttu gegn hnattrænni hlýnun.

Kyoto bókunin hefur verið samþykkt af flestum ríkjum heims, en samt sem áður fara Kínverjar, Indverjar og Bandaríkjamenn sínu fram. Það er annars merkilegt að hugsa um það að Al Gore var varaforseti Bandaríkjanna þegar spurning kom upp um það hvort Bandaríkjamenn ættu að fullgilda Kyoto bókunina fyrir sitt leyti. Mér er ekki kunnugt um að hann sem varaforseti Bandaríkjanna á þeim tíma og síðar forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins hafi barist fyrir því að Bandaríkjamenn fullgiltu Kyoto.


mbl.is Þróun sem hægt er að stöðva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörubílstjórar njóta samúðar en mega ekki ganga of langt.

Aðgerðir vörubílstjóra undanfarna daga hafa vakið verðskuldaða athygli og notið almennrar velvildar almennings þrátt fyrir að aðgerðirnar hafi hingað til bitnað á almennum borgurum í umferðinni. Bæði vörubílstjórum og venjulegum bifreiðaeigendum finnst ríkið leggja of miklar álögur á olíur og bensín.

Mikilvægt er fyrir vörubílstjóra að hafa almenning með sér í baráttunni. Aðgerðir eins og vörubílstjórarnir standa fyrir eru jú til þess að fá almenning til liðs við sig og gera ráðamönnum grein fyrir því hvað málið er alvarlegt. Það hefur vörubílstjórum tekist.

Vörubílstjórar mega vita það að ýmsir sem sitja á Alþingi þar á meðal ég telja nauðsynlegt að draga úr álögum ríkisins á bensín og olíur og við eigum þannig fulla samstöðu með Vörubílstjórum.  Ríkisstjórnin hefur hins vegar traustan meirihluta og án vilja ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna þá næst ekki sá árangur sem vörubílstjórar stefna að. Það hlítur því að vera umhugsunarefni fyrir vörubílstjóra hvort það er eðlilegt að beina mótmælaaðgerðum gegn Alþingi. Þá hlítur það líka að vera umhugsunarefni hvort ekki sé h ætta á að gengið verði of langt þannig að sú samúð sem vörubílstjórar hafa með málstað sínum snúist gegn þeim ef of lengi er haldið áfram með aðgerðir sem bitna fyrst og fremst á fólki sem hefur sömu hagsmuni og sjónarmið og vörubílstjórar.


mbl.is Sturta möl fyrir framan Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíur og bensín verður að lækka.

Hvað með fyrirheitið um að díselolía yrði ódýrari en bensín? Það hefur ekki verið efnt. Hvernig væri að fjármálaráðherra beitti nú áhrifum sínum til að koma á móts við alla bifreiðastjóra og lækka álögur ríkisins til að vega á móti þeim verðhækkunum sem hafa orðið vegna gengisfellingar krónunnar og hækkandi oliuverðs. Það er ekki til of mikils mælst.

Tryggar og öruggar samgöngur eru mikilvægar og fæstir komast hjá því í borgarsamfélaginu að nota bílinn sinn. Þeir sem eru í dreifbýlinu þurfa þess enn þá frekar.  Bifreið er nauðsyn og það verður að gæta þess að verð á nauðsynjaþjónustu sé ekki spennt upp úr öllu valdi.


mbl.is Árni reiðubúinn til viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrk efnahagsstjórn?

Nú mælist verðbólga síðustu 3 mánuði 12.8% það er óásættanlegt. Verðbólga síðasta heila árið er 8.7%. Þessar verðbólgutölur mælast þó að stór hluti verðhækkana vegna gengisbreytinga eigi eftir að koma fram í verðlagi og kynda enn undir verðbólgubálið.  Þá liggur fyrir að búvörur munu hækka á grundvelli miðstýrðra verðákvarðana.  Hætt er því við að verðbólga muni enn magnast en gegn þeirri vá hefur Seðlabankinn sagst vinna með því að setja stýrivexti í ofurhæðir.

Verðbólgan nú ber þess glöggt vitni að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans nær ekki tilætluðum árangri.  Ástandið er svo alvarlegt að það er tími til kominn að  skoðaðar verði nýjar leiðir til að vinna okkur frá þeim vanda sem nú er við að etja og mun bitna harkalega á lífskjörum fólksins í landinu. Þá er fyrirséð að vaxtaokrið og verðtryggingin mun í óðaverðbólgu éta upp eignir fólks.

Ríkisstjórnin verður strax að bregaðst við með því að afnema vörugjöld og lækka álögur á olíur til að hamla gegn verðbólguþróuninni og vinna tíma til að koma okkur frá því versta á meðan unnið er að nýrri langtímastefnumörkun.

Hafi einhverntíma verið tilefni til að leita eftir víðtækri þjóðarsátt stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka um nýjar og róttækar aðgerðir í efnahagsmálum þá er það núna og það reynir á forsætisráðherra hvort hann þekkir sinn vitjunartíma og bregst við með þeim hætti eða ekki.


mbl.is Mesta verðbólga í 6 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstarfsmönnum á að fækka en ekki fjölga.

Fjölgun ríkisstarfsmanna um 3000 á Reykjavíkursvæðinu á 5 árum er slæm frétt.  Það er síðan ótrúlegt að aðeins fjölgi um 100 ríkisstarfsmenn á Akureyri  á þessum 5 árum meðan það fjölgar um 3000 í Reykjavík. Sérstaða höfuðborgarinnar sem þjónustumiðstöðvar verður alltaf að viðurkenna og þess vegna verður meginhluti starfa ríkisins á Faxaflóasvæðinu.  En þessi munur er gjörsamlega óásættanlegur og ekki í samræmi við þá stefnumörkun að flytja störf út á land.


mbl.is Ekki á móti flutningi starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krampakennt fálm.

Bankastjórn Seðlabankans virðist halda að það sé enn þensla í landinu.  Ég átta mig ekki á því hvað Seðlabankinn er að reyna með þessu.  Ef til vill að reyna að hækka gengi krónunnar? En er innistæða fyrir því að hækka gengi gjaldmiðils á grundvelli ofurhárra stýrivaxta í krampakenndu fálmi við að fá erlenda fjárfesta til að fjárfesta áfram í íslenskum krónum.

Er ekki nær að viðurkenna að hávaxtastefna Seðlabankans hefur mistekist. Hágengisstefna Seðlabankans hefur mistekist.  Hagstjórn Seðalbanka og ríkisstjórnar hafa valdið ofurþenslu og gríðarlegri skuldsetningu. Ofurþenslu sem nú er lokið og hætt er við samdrætti.  Ýmis teikn eru á lofti um að  samdráttur sé þegar hafinn.  Er þá rétti tíminn til að hækka stýrivexti?

Af hverju fer Seðlabanki Íslands algjörlega öfuga leið miðað við Seðlabanka annarra landa í Evrópu og Ameríku. Af hverju lækkar hann ekki stýrivexti og veitir viðskiptabönkunum fyrirgreiðslu til að örva lánastarfsemi til að hjól atvinnulífsins geti snúist með eðlilegum hætti.  Það gilda ekki önnur lögmál á Íslandi en í öðrum löndum hvað hagstjórn varðar.

Færa má að því gild rök að við stæðum nú betur að vígi hefði enginn Seðlabanki verið í landinu.

Er ekki kominn tími til að viðurkenna að íslenska krónan gengur ekki lengur sem flotkróna. Það verður að tengja hana raunverulegum verðmætum eða raunverulegum gjaldmiðli. Mér fannst þessi frétt um stýrivaxtahækkun verulega vond frétt.

En vel má vera að það hlýni aðeins við að pissa í skóinn sinn, en það er skammtímalausn.


mbl.is Stýrivextir hækka í 15%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynþáttafordómar og Obama.

Barack Obama flutti frábæra ræðu um kynþáttamál um daginn. Ég hvet alla til að hlusta á þessa ræðu.  Þá vek ég líka athygli á umfjöllun Obama um innflytjendur í bók hans The Audacity of Hope.

Þar bendir hann á nauðsyn þess að innflytjendur aðlagist þjóðfélaginu en verði ekki utangarðs. Nákvæmlega eins og við Frjálslynd höfum bent á varðandi okkar innflytjendur. Í fyrsta lagi að innflytjendastraumurinn verði ekki meiri en velferðarkerfið ráði við hverju sinni og allir sem komnir eru til landins eigi að búa við full og óskert mannréttindi.

Þetta er grunnur að því að skapa umburðarlyndi milli fólks af ólíkum uppruna. Lausnin felst ekki í að gera lítið úr menningu okkar og síðum. Hún felst heldur ekki í því að þeir sem koma haldi sínum siðum og taki ekki upp okkar. 


mbl.is Kynþáttaræða Obama slær í gegn á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir hagsmunir í Kabúl?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar var í Danmörku í síðustu viku að gera Dönum grein fyrir hvað allt væri í góðu lagi í efnahagsmálunum á Íslandi. Á sama tíma var pólitískur ástmögur hennar Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins að segja frá því á Amrískum fréttamiðlum eins og CNN hvað íslenska efnahagslífið væri ofboðslega flott. Þetta forustufólk í flokkum sínum og ríkisstjórn hefur talið heppilegra að tala hlýlega um efnahagsástandið í landinu erlendis en forðast það að taka á málunum hér heima.  Það er alltaf flott að vera flottur í útlandinu.

Nú ekur Ingibjörg Sólrún ásamt íslenskum sérsveitarmönnum  á brynvörðum bifreiðum um götur Kabúl til að skoða stríðsástandið í landinu. Á sama tíma fellur flotkrónan sem aldrei fyrr og hlutabréfavísitalan sömuleiðis. Hvorki utanríkisráðherra né forsætisráðherra hafa séð ástæðu til að móta stefnu sem gæti verið trúverðug fyrir fólkið í landinu sem er áhyggjufullt yfir þeirri þróun sem er að verða og hefur verið í gangi í haust. Það er mikilvægt að forusta ríkisstjórnarinnar sinni  hagsmunum íslensku þjóðarinnar en láti það mæta afgangi að vera flott í útlöndum.

Ingibjörg hefur ekkert til Afghanistan að sækja nema þá íslensku friðargæsluliðana sem hún hefur illu heilli sent þangað.


mbl.is Ingibjörg Sólrún í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 496
  • Sl. viku: 2066
  • Frá upphafi: 2505494

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1940
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband