Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Helgi Hallvarðsson skipherra fallinn frá.

Helgi Hallvarðsson vakti athygli á sér sem traustur gæslumaður þjóðarhagsmuna sem starfsmaður en lengst af skipherra hjá Landhelgisgæslunni þegar harðast var sótt sérstaklega af Bretum að hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Helgi Hallvarðsson ávann sér traust og virðingu íslensku þjóðarinnar fyrir framgöngu sína og skarpa dómgreind á þeim viðsjáverðu tímum.

Við Helgi kynntumst í starfi hjá Sjálfstæðisflokknum og síðar í starfi hjá Frjálslynda flokknum. Helgi var ákveðinn en  hlýr og skemmtilegur maður og ógleymanlegur okkur sem fengum að njóta samvista við hann.

Ég votta eftirlifandi eiginkonu Helga og börnum hans svo og öðrum aðstandendum hans innilega samúð mína.


Skattpíningu á almenning verður að linna.

Ríkisstjórnin lækkar skatta á fyrirtæki þó að brýnasta þörfin fyrir skattalækkun sé hjá launafólki. Nú er það enn einu sinni staðfest að ríkisstjórnin er ójafnaðarstjórn. Hlutafall skatta hækkar á barnafólki á sama tíma og hún lækkar í öllum ríkjum OECD. Það verður að breyta þessu.

 Skattpíningu á venjulegt fólk verður að linna.


mbl.is Áfellisdómur yfir skattastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ríkið að byggja olíuhreinsunarstöð eða vera stór hluthafi?

Ég veit ekki hvort það gætir ónákvæmni í fréttinni en ég skil Einar Kr. Guðfinnsson sjávar- og landbúnaðarráðherra þannig að hann telji að ríkisvaldið eigi að koma að því að olíuhreinsunarstöð verði að veruleika þá væntanlega á Vestfjörðum.

Það kann að vera vænlegur kostur í atvinnumálum að olíuhreinsunarstöð verði að veruleika á Vestfjörðum. Þó þannig að það séu áhættufjárfestar sem standi að henni að öllu leyti og starfræki hana. Ríkið á ekki koma að málinu nema hvað varðar hafnar- og vegagerð.

Það er mikilvægt að ríkishyggjunni í atvinnumálum verði ýtt til hliðar. Hún hefur skaðað okkur gríðarlega og ríkishyggjan í byggðamálum hefur ekki orðið til góðs til að styrkja byggðirnar. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki aftur fyrir Stalínískri atvinnuuppbyggingu eins og þeir gerðu við Kárahnjúka.


mbl.is Einar Kr.: Ríksvaldið á að beita sér fyrir olíuhreinsistöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber einhver ábyrgð á þessu?

Ber einhver ábyrgð á því að kostnaður við íþróttamannvirki skuli kosta um milljarði meir en áætlað var. Hver ber ábyrgð á þessu. Er það núverandi meirihluti? Er það meirihlutinn sem Dagur B. Eggertsson leiddi eða er það meirihlutinni sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiddi? Verður málið e.t.v. rakið lengra aftur.

 Það er ekki í lagi þegar hagsmunagæsla borgarfulltrúa fyrir borgaranna er jafn léleg og raun ber vitni. Þessi vinnubrögð eru óviðunandi. Þau bera fyrst og fremst vott um að það sé kastað til höndunum og það er nauðsynlegt að fá allar upplýsingar í málinu. Það er ekki ásættanlegt að stjórnkerfi og stjórn Reykjavíkur sé geri svona mistök.

Hver ber ábyrgðina?


mbl.is Vissu um framúrkeyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þessi hnattræna hlýnun? Ekki í Vestmannaeyjum.

Hvernig skyldi hin pólitíska veðurfræði skýra kaldan vetur á Íslandi í ár þar sem meðalhiti þeirra vetrarmánaða sem liðnir eru, er lægri en í meðalári. Mér er sagt að elstu menn í Vestmannaeyjum muni ekki annan eins harðræðisvetur og þennan.

Er það ekki bara þannig að það skiptast á skin og skúrir og hiti og kuldi og það er útilokað að álykta um hnattræna hlýnun af mannavöldum með því að taka loftslagbreytingar síðustu ára og áratuga inn í myndina. Við höfum dæmi um það í veraldarsögunni að það hefur verið mun hlýrra en það er nú og þá voru engar gróðurhúsalofttegundir af mannavöldum. Yfirborð sjávar var fyrir nokkrum þúsund árum mun hærra en það er núna og Sahara eyðimörkin var aldingarður.  Þegar loftslagsbreytingar verða þá tapast ákveðin svæði en önnur vinnast.

Þrátt fyrir að ég vilji að náttúran njóti vafans þá er ég ekki trúaður á helvítisspár Al Gore og Þórunnar umhverfisráðherra vegna hnattrænnar hlýnunar.


mbl.is Innisnjóaðir Vestmannaeyingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónýtur gjaldmiðill.

Man nokkur eftir því að bankastjóri Seðlabankans þá forsætisráðherra sagði að Evran væri ónýtur gjaldmiðill? 

Nú ber þessi sami maður mesta ábyrgð á gengi eða gengisleysi íslensku krónunnar. Hvað skyldi hann segja um krónuna í dag? 

Nú veikist krónan þá við séum með hæstu stýrivexti allra OECD ríkjanna e.t.v. að Tyrklandi undanskildu.  Krónan veikist líka þó að jöklabréfin séu framlengd og vöxtunum bætt ofaná.  Sú staðreynd er raunar uggvænleg.


mbl.is Evran náði sögulegum hæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg umræða.

Um nokkurt skeið hefur verið mjög neikvæð umræða um íslenskt fjármálalíf og stöðu íslensku bankanna í fjölmiðlum í Bretlandi og Danmörku. Sú umræða og þær niðurstöður sem dregnar eru af erlendum aðilum sem fjallað hafa að undanförnu um þessi mál er mjög neikvæð og til þess fallin að hækka skuldatryggingarálag á íslenska banka.  Jafnframt er umræðan til þess fallin að auka vantraust á íslenskum fjármálastofnunum og íslenskri fjármálastjórn. 

Hátt skuldatryggingarálag á bankana er alvarlegt mál. Afleiðingar þess munu draga kraft úr efnahagslífinu í landinu. Háir stýrivextir Seðlabanka Íslands og hátt skuldatryggingarálag á bankana eykur líkur á því að ákveðinn samdráttur geti orðið að kreppu.

Það er óneitanlega athyglivert að umræða og mat fjármálastofnana og fjölmiðla í Danmörku og Bretlandi skuli vera svo gjörólík sem raun ber vitni og umræðunar hér á landi um stöðu fjármálafyrirtækja og íslenska hagkerfisins. Sé um rangar upplýsingar og niðurstöður sem koma fram erlendis þá er nauðsynlegt að leiðrétta það þegar í stað.  Guðni Ágústsson vakti athygli á þeim gríðarlega auði sem við ættum í lífeyrissparnaði landsmanna. Sú staðreynt er vafalaust vanmetin af erlendum sérfræðingum. En kann að vera um fleiri atriði að ræða. Það er með ólíkindum að umræðan hér á landi um íslenskt fjármálalíf og í nágrannalöndunum skuli vera svona ólíkt. Hvað veldur?


mbl.is Skuldatryggingarálagið hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál

Minn maður tekur þarna afgerandi afstöðu í þessu vandræðamáli í Bandaríkjunum. Það er með ólíkindum að löggjafinn þar vestra skuli ekki fyrir löngu hafa komið þessum málum í viðunandi horf. Hvað þarf að drepa marga áður.

Vonandi er Obama á sigurbraut og verður næsti forseti Bandaríkjanna.


mbl.is Obama segir að útrýma verði byssuofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi nást samningar.

Sem betur fer getum við verið hóflega bjartsýn um að samningar náist og vinnufriður haldist.  Mikilvægt er að í tengslum við kjarasamninga nú verði þess gætt að kjör þeirra sem hafa lægstu launin batni hlutfallslega meira en annarra. Við Frjálslynd höfum lagt áherslu á að gera þurfi skattakerfið réttlátara með því að hækka skattleysismörk. Það er virkasta og besta kjarabótin fyrir láglaunafólk, öryrkja og ellilífeyrisþega. 

Því miður er svo komið eftir langt velsældarskeið að almenningur í landinu sem og flest framleiðslufyrirtæki að þjóðfélagið, einstaklingar og fyrirtæki mega  ekki við verkfalli.


mbl.is Fundi ráðherra og ASÍ lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkisstjórnin að ranka við sér?

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins hefur ítrekað kallað eftir því að ríkisstjórnin vaknaði og tæki alvarlega váboða í fjármálalífi þjóðarinnar og alþjóðlega fjármálamarkaðnum. Nú hefur ríkisstjórnin svarað kalli eftir að meir en árs þjóðarframleiðsla hefur gufað upp af hlutabréfamarkaðnum og gengi krónunnar hefur fallið mikið frá áramótum.

En hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Seðlabankinn situr við sinn keyp og heldur ofurstýrivöxtum. Ég sé ekki vitræna skýringu á því að halda ofurstýrivöxtum Seðlabankans svona háum nema ef vera skyldi til að koma í veg fyrir verulegt fall íslensku krónunnar. En háir stýrivextir munu ekki endalaust ná að vernda hágengisstefnu sem engin innistæða er fyrir.

Hvað ætlar þá ríkisstjórnin að gera. Seðlabankinn kemur í veg fyrir að hægt sé að veita hagstæð lán til venjulegra íslendinga en á meðan talar forsætisráðherra um stöðu mála á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Skyldi slíkt ylja þeim sem sjá lánin sín hækka og hækka vegna ofurvaxta og verðtryggingar. Alla vega skilar það ekki árangri.

Mér sýnist því að fundur forsætisráðherra til að ræða stöðuna á fjármálamarkaðnum hafi verið friðþægingarfundur. Orð án athafna. 

Ríkisstjórnin er ekki að ranka við sér.


mbl.is Ræddu stöðu á fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 634
  • Sl. viku: 2333
  • Frá upphafi: 2506095

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 2179
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband