Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Sérkennileg stjórnsýsla.

Borgarstjórinn þáverandi fékk ekki álit þess embættismanns borgarinnar, borgarlögmanns, sem eðli máls samkvæmt átti að gefa álit um umboð borgarstjóra og hæfi.  Hann leitaði til aðila sem átti ríka hagsmuni af því að samningar tækjust og borgarstjórinn þáverandi samþykkti þá.  Bæði borgarstjóri og álitsgjafinn, sem eru lögfræðimenntaðir vissu að álitsgjafinn var ekki til þess bær að gefa álit í þessu efni og álitið var einskis virði.  Spurningarnar sem eftir standa eru: Af hverju leitaði þáverandi borgarstjóri ekki til þess embættismanns sem á að gefa álit í málum eins og þessum? Af hverju gaf Hjörleifur Kvaran álit í máli þar sem honum mátti vera ljóst að hann var vanhæfur? Enfremur má spyrja mátti þeim Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Hjörleifi Kvaran ekki vera ljóst á grundvelli menntunar sinnar og þekkingar að Vilhjálm skorti fullnægjandi umboð?

Er það ekki sérkennileg stjórnsýsla að borgarstjórn Reykjavíkur skuli ákveða að gera úttekt á REI málinu m.a. aðkomu eða skorts á aðkomu borgarstjórnar og skuli telja eðlilegt að úttektin sé unnin af borgarfulltrúum sjálfum eða á þeirra vegum og samið sé um það hvað komi í skýrsluna og hvað ekki. Hefði ekki verið eðlilegra að vísa málinu til skoðunar hjá óháðum aðilum til að fá hlutlæga niðurstöðu?

Sýnir þetta ekki að það er rík þörf á að endurskoða og breyta stjórnkerfi borgarinnar í grundvallaratriðum? Sýnir þetta e.t.v. að þeir sem sitja í borgarstjórn í dag skortir sýn á hvað eru eðlilegir starfshættir?  


mbl.is Forstjóri OR álitsgjafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur á líka rétta á bótum.

Dómur Hæstaréttar í bótamáli Reykjavíkurborgar gegn Olíufélögunum gefur góðar vonir um að prófmálið sem Neytendasamtökin hafa höfðað til að láta á það reyna hvort einstaklingar sem urðu fyrir tjóni vegna ólögmæts verðsamráðs olíufélaganna fá bætur eins og Reykjavíkurborg hefur nú fengið samkvæmt þessum dómi.

Verðsamráð olíufélaganna sem Samkeppnisstofnun upplýsti var með þeim hætti að olíufélögin komu sér saman um verð á oíuvörum ekki bara bensíni og díselolíu heldur allt niður í verðlagningu á frostlegi. Þeir sem að þessu stóðu vissu nákvæmlega að þeir voru að brjóta samkeppnislög eða eins og varaformaður Samfylkingarinnar orðaðið það einu sinni að um væri að ræða samsæri þeirra gegn almenningi í landinu. Þar sem flett var ofan af samsærinu gegn almenningi þá skulum við vona að sá hluti almennings sem hefur höfðað mál til að krefja olíufélögin um bætur vegna ólögmæta samráðsins hafi á endanum fullan sigur.


mbl.is Olíufélög greiði bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona umfjöllun verður að taka alvarlega.

Umfjöllun eins og sú sem er um íslenska efnahagskerfið í Sunday Telegraph verður að taka alvarlega. Sunday Telegraph sunnudagsútgáfa Daily Telegraph er blað sem nýtur virðingar og þykir hallt undir sjónarmið íhaldsmanna í enskum stjórnmálum og því eins konar Morgunblað þar í landi.

Þrátt fyrir að taka verði fréttir eins og þessar alvarlega þá verður samt að benda á að það er ekki einsdæmi að erlend blöð birti fréttir sambærilegar þessari í Sunday Telegraph. Sem betur fer haf þær fréttir ekki reynst vera réttar. Það er hins vegar ljóst að í fjármálastarfseminni þá hafa íslensku bankarnir og fjárfestarnir gengið hratt um gleðinnar dyr og öll merki benda til þess að niðursveifla sé í efnahagslífi Bandaríkjanna og Bretlands sem getur haft afdrifarík áhrif fyrir okkur.

Það má ekki gleyma því að fjármálastarfsemi hefur verið helsti vaxtabroddur íslensks efnahagslífs undanfarin ár og niðursveifla á þeim markaði og enn alvarlegri hlutir mundu hafa verulega afdrifarík áhrif til ills fyrir okkur. Það verður því að gera allt til að koma í veg fyrir að spár eins og þessar rætist.

Hitt er svo annað mál að forustumenn í íslensku fjármálalífi hafa hagað sér með ólíkindum í ýmsum tilvikum. Ofurlaun sem eru langt umfram það sem sæmilegt er, kaupaukar og bruðl sem hefur um of einkennt starfsemi sumra fjármálastofnana eru óeðlileg og fráleitt annað en brugðist sé við með hátekjuskatti á ofurlaun.  Bruðl og ofurlaun sem hafa viðgengist undanfarin ár í fjármálastofnununum eru ósæmileg og enn verri ef í ljós kemur að engin innistæða var fyrir slíku.


mbl.is Er allt á niðurleið á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að endurskoða lögin.

Reykingar eru heilsuspillandi og stórhættulegar. Það er öllum ljóst ekki síst þeim sem reykja en þau sem það gera hafa kosið áhættuna. Að sjálfsögðu eiga þau að hafa möguleika á að reykja innan dyra t.d. á skemmtistöðum eða krám miðað við ákveðin skilyrði.  Þrátt fyrri að ég sé eindreginn andstæðingur reykinga þá tel ég að of langt hafi verið gengið með fortakslausu reykingabanni. Við verðum að finna eitthvað meðalhóf. Spurningin er hvað það meðalhóf á að vera. Fortakslaus bönn féalgsfræðistjórnmálamanna  og sósíalista sem sett eru í lög eru yfirleitt vond lagaákvæði.

Það verður að breyta lögunum hvað varðar fortakslaust reykingabann til þess að ekki sé gengið nær einstaklingsfrelsinu en brýna nauðsyn ber til.


mbl.is Leyfa reykingar í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglandinn í stjórn Reykjavíkur kemur niður á Frjálslynda flokknum.-

Stjórnmálamenn eiga ekki að taka skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka of hátíðlega hvernig svo sem niðurstaðan er. Samt sem áður er útilokað annað en skoða þær vegna þess að þær gefa ákveðna vísbendingu um stöðu flokkana.

Frjálslyndi flokkurinn fær ekki viðunandi fylgi samkvæmt skoðanakönnun í Fréttablaðinu í dag en þar mælist flokkurinn með 3.6% fylgi og kæmi engum manni á þing ef það yrði niðurstaðan. Benda má á að Frjálslyndi flokkurinn hefur alltaf fengið meira fylgi í kosningum en í skoðanakönnunum en miðað við málatilbúnað flokksins á Alþingi og starf flokksins þá verður þessi niðurstaða ekki skýrð með öðrum hætti en þeim að Frjálslyndi flokkurinn líði fyrir það að þeir fulltrúar Íslandshreyfingarinnar sem leiða nýjan meirihluta í Reykjavík með Sjálfstæðisflokknum vísa ávallt til sín sem F lista og í opinberri umræðu er alltaf talað um Frjálslynda þó að Frjálslyndi flokkurinn eigi enga formlega aðild að þessu meirihlutasamstarfi og beri enga pólitíska ábyrgð á því.

Það verður verkefni okkar á næstunni að gera grein fyrir því að við í Frjálslynda flokknum berum ekki ábyrgð á borgarstjóranum í Reykjavík og höfum ekkert með að gera það rugl sem er í ráðhúsi Reykjavíkur.

Það er ósanngjarnt að Frjálslyndi flokkurinn gjaldi fyrir aðgerðir liðhlaupa úr Frjálslynda flokknum. En þannig verður það meðan við náum ekki að gera kjósendum grein fyrir að meirihlutinn í Reykjavík er okkur óviðkomandi.

Samfylkingin má vel við sína útkomu una og ljóst að ruglandinn í Reykjavík hefur styrkt stöðu flokksins en að sama skapi veikt stöðu Sjálfstæðisflokksins. Það ber líka að skoða að Sjálfstæðisflokkurinn mælist alltaf í skoðanakönnunum Fréttablaðsins mun hærri en útkoma hans er í Alþingis- eða borgarstjórnarkosningum.

En við Frjálslynd verðum að taka mark á þessari niðurstöðu og skoða með hvaða hætti við vinnum okkur úr þeim vanda sem að borgarstjórnarflokkur  liðhlaupanna hefur komið okkur í.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan harðnar milli Obama og Clinton

Nú þegar John Edwards dregur sig úr forvalinu fyrir útnefningu Demókrataflokksins við forsetakjör eru aðeins tveir alvöru frambjóðendur eftir. Hillary Clinton og Barack Obama.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig úrslitin verða á stóar þriðjudeginum 5. febrúar n.k. þar sem John Edwards dreifir þá ekki atkvæðunum þannig að úrslitin verða hreinni á milli Obama og Clinton.

John Edwards var varaforsetaefni John Kerry við síðustu forsetakosningar og hann lýsir e.t.v. ekki yfir stuðningi við Obama eða Hillary fyrr en ljóst má vera hvort þeirra verður líklegra til að verða valin forsetaefni. Hins vegar var það athyglivert að sá virti öldungardeilarÞingmaður Edward Kennedy skyldi lýsa yfir stuðningi við Obama nú í vikunni. Sá stuðningur skemmir alla vega ekki fyrir Obama.

Sagt er að Edward Kennedy hafi ofboðið framganga Clinton hjónanna í kosningabaráttunni en það er þá ekki í fyrsta skipti sem þau ofbjóða fólki. Clintonarnir hafa komist upp með það að ofbjóða fólki og getað treyst því að fólk er fljótt að gleyma.  Þau kunna líka þá list til fullnustu að rugla umræðuna eins og nú er verið að gera af Sjálfstæðisflokknum og fjölmiðlum hans varðandi skömm flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.


mbl.is Edwards hættur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar enda þessi ósköp? Hverjir verða timburmennirnir?

Margir veltu því fyrir sér hvort íslenska krónan mundi gefa verulega eftir í janúar þegar kæmi að stórum gjalddögum krónubréfa. Spurning var hvort að ný krónubréf yrðu gefin út á móti þannig að skuldastaðan yrði sú sama og hægt yrði að halda krónunni uppi eitthvað lengur.

Nú liggur fyrir að tekist hefur að selja krónubréf fyrir 76 milljarða eða sem svarar afborgun þeirra krónubréfa sem gjaldféllu í janúar auk vaxta. Vextir af krónubréfum er mjög háir og því freista margir að fjárfesta í þeim til skammst tíma í þeirri von að krónan hangi meðan krónubréfin þeirra eru að skila arði. Með þessu erum við að flytja inn peninga og út vexti og/eða eins og nú virðist vera að bæta vöxtum ofan á þannig að höfuðstóllinn hækkar og hækkar þangað til stóra fallið kemur.

Hver einasti einstaklingur veit að það væri mjög gott að greiða aldrei neitt af lánunum heldur skuldbreyta stöðugt vöxtum og afborgunum með því að taka stöðugt hærri og hærri lán. Í sjálfu sér væri það allt í lagi kæmi ekki að skuldadögum. En svo fer alltaf þegar fólk, fyrirtæki eða þjóðir haga sér óskynsamlega að það kemur að skuldadögum. Spurninig er þá hversu alvarlegir verða timburmennirnir og hvaða afleiðingar hafa þeir fyrir fólk, fyrirtæki og þjóðfélag.

Mér er ljóst og væntanlega mörgum öðrum að skuldasöfnun þjóðarinnar er orðin of mikil og það er brýnt að haga efnahagsstjórninni þannig að þjóðin geti búið við stöðugleika og öryggi í efnahagsmálum og hagsstjórn. Stefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar stuðla að hinu gagnstæða. Það verður að vinda ofan af skuldsetningunni og taka upp alvörugjaldmiðil.


mbl.is Stærsti útgáfumánuður krónubréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtæki Haraldar Böðvarssonar á betra skilið.

Það eru fá útgerðarfyrirtæki í landinu sem eiga jafn farsælan feril og útgerðarfélag Haraldar Böðvarssonar á Akranesi. Heila öld hefur þetta fyrirtæki verið einn af helstu burðarásunum í atvinnulífi á Akranesi. Stundum var svo komið að Akranes hefði ekki náð fótfestu sem þéttbýlisstaður hefði þeirra athafnamanna sem byggðu upp fyrirtækið Haraldur Böðvarsson ekki notið við.

En nú er öldin önnur og kvótakerfið hefur leikið sjávarútveginn grátt hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. Í einu vetvangi er fótunum kippt undan því fólk sem sumt hefur unnið alla sína starfsævi hjá Haraldi Böðvarssyni og síðan HB Granda.  Mér er sagt að starfsmenn á Akranesi séu felstir bornir og barnfæddir íslendingar en þeir sem vinna hjá HB Granda í Reykjavík séu allt að 80 prósent innflytjendur eða fólk sem er komið til lengri dvalar erlendis frá.

Ég átta mig ekki alveg á því miðað við þá stefnumörkun sem Faxaflóahafnir hafa kynnt að það sé mikið samræmi í því sem þar er boðað og stefnu forráðamanna HB


mbl.is Svartur dagur í sögu Akraness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvískinnungur Egypta gagnvart Palestínumönnum.

Egyptar hamast við að hafa Palestínumenn lokaða inni á þéttbýlasta svæði veraldar. Þeir reyna að meina þeim frjálsa för til að kaupa nauðsynlegar vörur og vistir í Egyptalandi.  Það er með öllu óskiljanlegt og furðulegt í ljósi yfirlýsinga um samstöðu með Palestínumönnum.  Stjórnin í Egyptalandi setur niður við þetta. Ekki má gleyma því að Gasa svæðið var hluti af Egyptalandi fyrir 6 daga stríðið.

Það er ljóst að öfgaöfl bæði meðal Palestínumanna og í Ísrael mega ekki til þess hugsa að sátt náist um frið og friðsamlega sambúð Palestínuríkis og Ísrael. Þeir gera allt sem þeir geta til að spilla hvaða friðarferli eða samningum sem vera kann. Þannig skjóta öfgamenn á Gasa ströndinni stöðugt eldflaugum inn í Ísrael og Ísraelsmenn bregðast við með því að beita ólögmætum  hóprefsingum gagnvart Palestínumönnum. Síðan þegar fólkið leitar sér bjargar með því að brjóta niður aðskilnaðarmúrinn við Egyptaland þá koma Arabar eins og þeir og meina þeim för. Á sínum tíma stóð Nasser forseti Egyptalands fyrir svokölluðum Pan-Arabískri stefnu sem miðaði að því að sameina alla Araba í eitt ríki. Nú vilja Egyptar ekkert vita af þeirri stefnu og rétta Palestínumönnum vart hjálparhönd á meðan Evrópusambandið og Norðurlönd fara að með öðrum hætti og eru með virkt velferðar- og hjálparstarf fyrir Palestínumenn.

Þegar ríki eins og Egyptaland vill ekki hjálpa meðbræðrum sínum hinumegin aðskilnaðarmúrsins þá segir það ljóta sögu um Hosni Mubarak forseta og stjórn hans.


mbl.is Unnið að lokun landamæranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sé ykkur á laugardaginn.

Eins og kemur fram á heimasíðu Frjálslynda flokksins þá verð ég með viðtalstíma í félagsheimili Frjálslynda flokksins að Skúlatúni 4, 2.hæð Reykjavík á hverjum laugardegi milli kl. 13.30 og 16. Ég vona að ég sjái sem flesta. Það verður auk þess opið hús og heitt á könnunni og kalt í ísskápnum. Vonast til að sjá ykkur sem flest.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 223
  • Sl. sólarhring: 283
  • Sl. viku: 2544
  • Frá upphafi: 2506306

Annað

  • Innlit í dag: 207
  • Innlit sl. viku: 2374
  • Gestir í dag: 198
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband