Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Þegar sorgin ber að dyrum

Ákveðinn hópur berst gegn kirkju og kristni af miklum ákafa. Almennt er þetta ekki fólk sem tilheyrir öðrum trúarbrögðum. Þekking á trúarbrögðum eyðir fordómum á meðan vanþekkingin og bókstafstrúin sem henni er venjulega samfara eykur á þá. Aukin vanþekking fólks á kirkju og kristni hefur leitt til þess að engin íslensku stjórnmálaflokkanna myndar lengur varðstöðu um kristlegar lífsskoðanir og trúarleg gildi.

Ég spurði vin minn sem er í þjónustu kirkjunnar að því í gær af hverju hann hefði ekki mætt á ákveðna samkomu. Hann sagði að það væri vegna þess að hann hefði verið kallaður til vegna skyndilegs sorgaratburðar sem hefði átt sér stað í þann mund. Síðan hefði hver atburðurinn rekið annan og því hefði hann gegnt þeirri starfsskyldu sinni að vera til staðar þar sem válegir hlutir hefðu orðið til að veita styrk og von.

Þeir sem gagnrýna kristna kirkju og þjóna hennar átta sig ekki á eða vilja ekki vita hve mikilvægu samfélagshlutverki kirkjan gegnir og hvað hún er nauðsynleg fyrir stærstan hluta fólksins í landinu. Stöðugt nagg og nag út í kirkjuna og kirkjunar þjóna eru óverðskuldaðir og rangir. Kirkjan og kirkjunar þjónar gegna mikilvægu þjónustuhlutverki í þjóðfélaginu.

Við skulum minnast þess þegar jólahátíðin fer í hönd að það eru ekki allir jafn heppnir og þeir sem njóta samveru með sínum nánustu í góðu yfirlæti. Í kjölfar lesturs jólaguðspjallsins kann presturinn að vera kallaður til, þar sem válegur atburður hefur orðið og þarf að gegna þar erfiðu og vandasömu hlutverki fyrir fólk í neyð. 

Slík sáluhjálp er nauðsynleg og gerir miklar kröfur til þeirra sem hana veita.


Miskunsami Samverjinn og Albanskir innflytjendur.

Í sögu Jesús af miskunsama Samverjanum segir frá manni af kynþætti sem Gyðingar fyrirlitu, sem kom einum þeirra til hjálpar, af því að hann var illa haldinn. Samverjinn kom honum í húsaskjól og til aðhlynningar og borgaði allan kostnað við það. Samverjanum datt ekki í hug að bjóða Gyðingnum heim til sín eða búa  hjá sér. Miskunsami Samverjinn taldi það hins vegar skyldu sína að hlú svo að sjúkum einstaklingi, að hann gæti náð heilsu og eftir það farið ferða sinna.

Í gær og í dag hefur verið fjallað um mál Albanskra innflytjendafjölskyldna sem hafa engan rétt á að vera í landinu. Sú niðurstaða Útlendingastofnunar að vísa þeim úr landi var lagalega rétt.

Þó að niðurstaða embættismanna sé með þeim hætti, þá er ekki þar með sagt að sérstakar aðstæður afsaki ekki - já og geri það beinlínis sjálfsagt, að ráðherra beiti sér fyrir því að veik börn fái aðhlynningu og læknisaðstoð.

Það er mikilvægt að við breytum eins og miskunsami Samverjinn og hrekjum ekki á vergang sjúkt fólk og örvasa jafnvel þó við bjóðum þeim ekki að vera hjá okkur eftir að því hefur verið hjálpað til sjálfshjálpar.

Því miður brugðust þeir sem halda um hið pólitíska vald, Innanríkisráðherra og flokksmenn hennar í ríkisstjórn í þessu máli.


Donald Trump, fjölmiðlar og lýðræðið.

Fjölmiðlun hefur færst í það horf að birta upphrópanir helst þær hástemmdustu og vitlausustu í pólitískri umræðu. Fjölmiðlar hafa áhrif á það hvernig stjórnmálamenn tala. Uppsláttarstíll þeirra hefur gert pólitíska umræðu enn innihaldsrýari og vitlausari.

Donald Trump spilar á fjölmiðla. Fáránleg ummæli, andstæð heilbrigðri skynsemi eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum. Skiptir þá engu hversu vitlaus þau eru. Donald Trump fór illum orðum um fólk af Mexíkönskum uppruna og kallaði þá m.a.nauðgara. Vilji fólk velta fyrir sér rasisma þá hafa sjaldan sést rasískari ummæli frá vestrænum stjórnmálamanni. Fjölmiðlar slógu þessu upp, en fordæming á ummælanna var minni en ætla mátti.Nú hefur Trump sagt,að loka eigi Bandaríkjunum fyrir Múslimum þangað til að ljóst sé hvað sé að gerast í Múslimska heiminum. Allt logar vegna þessa og Trump er fordæmdur sem aldrei fyrr- Af hverju var meiri ástæða til að fordæma hann fyrir þessi ummæli en ummælin gegn Mexíkönum- já eða konum o.s.frv. o.s.frv.

Þegar talað er um trúarbrögð og andstaða við þau er færð undir rasisma, þá er það rangt. Trúarbrögð eru kenningarkerfi sem eðlilegt er að gagnrýna ekkert síður en stjórnmálastefnur. Andstaða við trúarbrögð eins felur ekki í sér rasisma ekkert frekar en andstaða við kommúnisma eða fasisma.

Trump nær enn því markmiði að vera helsti uppsláttur fjölmiðla. Ummæli Trump um múslima eru einnig sögð vegna þess að nær daglegar hryðjuverkaárásir Íslamista á Vesturlöndum, sem beinast að óbreyttum borgurum vekur óhug og öryggisleysi gagnvart fólki sem aðhyllast þessi trúarbrögð. 

Ég hef ítrekað sagt að virkasta leiðin til að vinna sigur á herskáum Íslamisma sé að standa fast fyrir og hvika hvergi frá þjóðlegum og kristilegum gildum. Það gerist ekki með því að útiloka alla frá komu og starfi í þjóðfélaginu sem aðhyllast Múhameðstrú. Á sama tíma verður að gera kröfu til þeirra sem það gera að þeir taki virka afstöðu og baráttu gegn Íslamismanum. Í sumum tilvikum getur það verið dauðans alvara og jafnvel meiri dauðans alvara fyrir Múhameðstrúarfólk heldur en okkur sem aðhyllumst ekki þessi trúarbrögð. Það leiðir þó ekki til þess að fólk sem aðhyllist Múhameðstrú geti verið stikkfrí í baráttunni við öfgamenn af eigin trúarbrögðum -ekkert frekar en það afsakar ekki okkur kristið fólk að taka upp baráttu gegn þeim, sem betur fer, fáu kristnu sem geta verið ógn við öryggi almennra borgara eða fólk af öðrum trúarhópum.

Neiti vestrænir stjórnmálamenn að horfast í augu við hvað ástandið er eldfimt og hættulegt vegna þess hvað Íslamistarnir hafa lengi farið sínu fram og vestrænir stjórnmálamenn afsakað þá, eins og gerðist á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá leiðir slík óábyrg afstaða til þess, að þessir sömu stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn eiga ekki lengur samleið með stórum hluta kjósenda.


Hin réttláta reiði.

Ein er sú vörn undansláttarfólks í friðþægingarherferðinni fyrir hryðjuverk Íslamistana, að múslimar séu fullir réttlátrar reiði vegna krossferðana. Þá er verið að tala um atburði sem gerðust fyrir 1000 árum og stóðu í eina öld þegar kristni heimurinn reyndi að endurheimta svæði í Mið-Austurlöndum sem áður hafði verið kristinn.

Mikið óskaplega hljóta þá Vestmannaeyjingar að vera reiðir Íslamska heiminum fyrir að hafa farið með ránum og morðum um Vestmannaeyjar og hneppt fólk í þrældóm fyrir 400 árum.

Mikið óskaplega hljóta Ítalir,Frakkar, Spánverjar, Möltubúar, Grikkir, Serbar,Svartfellingar, Búlgarar,Rúmenar, Króatar, Slóvenar og Austurríkismenn að vera reiðir Íslamska heiminum fyrir ítrekaðar árásir um aldir á þessi lönd, rán, nauðganir og mannsal.

Þeir sem þekkja söguna vita að útþensla og yfirráðastefna Íslams hófst fyrir 1400 árum. Þeirréðu stórum hluta Spánar í 800 ár og stóðu við borgarmúra Vínarborgar. Það er sé draumur sem kalífaveldið sem kallar sig ISIS ásamt fleiri samtökum Íslamista leitast nú við að verði aftur að veruleika í Evrópu.

Fyrst Íslamistarnir eiga engan rétt til að vera reiðir umfram okkur. Þá má alltaf grípa til Múhameðsteikningana í Jótlandspóstinum fyrir 10 árum og "ögrandi" myndum af spámanninum í Charlie Hedbo, sem undansláttarliðið á Fréttablaðinu og Stöð 2, telur að Íslamistar eigi helgan rétt á að vera reiðir yfir svo áratugum skiptir.

Eða eins og góður maður sagði forðum "Ef það eru ekki krossferðirnar þá eru það skopmyndir sem reita þá til reiði."


Allahu Akbar

Allahu Akbar er vígorð Íslamistanna sem hatast út í vestræna menningu, kristileg gildi og tjáningarfrelsi. Þetta vígorð hefur sömu skírskotun til alræðishyggjunar og Sieg Heil hafði hjá SS liðum nasistanna.

Fólk á Vesturlöndum sérstaklega stjórnmálamenn og háskólaelítan reyna að gleyma því að það er nákvæmlega sama stjórnlyndis hugmyndafræðin sem er að verki hjá Íslamistunum og var hjá nasistum. Þeir einir hafa rétt fyrir sér og er heimilt að fylgja orðum sínum eftir með því að myrða fólk og fylgja skoðunum sínum gegn mannréttindum eftir með hríðskotarifflum ef orðræða og ógn dugar ekki ein og sér.

Háskólaelítan hefur skilgreint með sérstökum hætti hvað er hatursumræða gegn Múhameðstrú. Þær skilgreiningar gilda ekki um önnur trúarbrögð sérstaklega ekki kristna trú. Þannig má fara háðuglegum orðum um kistna trú og trúarsannfæringu kristins fólks og það er talið eðlilegt og sjálfsagt en séu sambærileg ummæli höfð um Múhameðstrú þá er það hatursumræða.

Stjórnmálafólk Vesturlanda og Bandaríkjanna horfa framhjá því að Múhameðstrú skiptist í trú og pólitík, sem hefur ekki verið aðskilin eins og í kristninni en hjá Íslamistunum er þetta eitt af grundvallaratriðunum eða eins og einn helsti leiðtogi Íslamistanna í Evrópu segir: Trúin á að vera algjör, allsherjar og verður að ná til allra þátta samfélagsins og stofnana þess. Hún verður að ná inn í skólana, laganna og stjórnunar ríkisins." Íslamisminn er þannig pólitísk samtök, sem reyna að komast undan stjórnmálalegri gagnrýni á forsendum "hatursumræðu"

Þeir sem vilja láta sem mest undan Íslamistunum gera þeim múslimum verst til sem eru veraldarhyggjufólk og vill iðka trú sína án þess að blanda pólitík inn í trúna. Þeir gera það líka að verkum að Íslamistunum vex ásmegin á kostnað þeirra hófsömu. Við getum ekki gert venjulegum múslimum á Vesturlöndum nokkuð verra en að gefa eftir fyrir Íslamistunum og forðast að taka á þeim málefnalega.

Það er kominn tími til að fólk vakni og átti sig á því að þeir sem vilja taka á Íslamistunum eru ekki óvnir Múhameðstrúar alla vega ekki sá sem þetta skrifar. Við erum andstæðingar alræðisríkinu sem Íslamistar boða og ég tel það hættulegustu hugmyndarfæðina sem hefur náð fótfestu í Evrópu frá stríðslokum. Nái hún auknum styrk þá þýðir það endalok mannréttinda eins og við þekkjum þau og afkomendur okkar munu ekki fá tækifæri til að búa við það frelsi og öryggi sem við höfum hingað til getað búið við.

Það má engan tíma missa. Ísland verður að vakna og takast á við þá böðulshönd, sem lyfti síðast vopni sínu í París. Þá baráttu verður að heyja bæði hugmyndafræðilega gegn heildarhyggju Íslamismans og einnig með baráttu á öllum sviðum til að uppræta hið illa.


Mannúð og umburðarlyndi

Í hirðisbréfi biskupsins yfir Íslandi var hvatt til, að sem flestir úr hópi þeirra ólöglegu innflytjenda og flóttafólks sem streymir inn í Evrópu fái ævivist hér á landi. Páfinn í Róm hafði áður sent út samskonar hirðisbréf.

Evrópa er umfram önnur svæði á þessari jörð griðarstaður fyrir fólk á flótta vegna mannúðar og umburðarlyndis gagnvart mismunandi fólki og skoðunum. Mannúð og umburðarlyndi Evrópubúa er grunduð á hugmyndafræði kristinnar trúar. Þegar þessi hugmyndafræði mannúðar var þróuð af kristnum þjóðum voru þær tilbúnar til að verja sig og lífsskoðanir sínar. Þess vegna voru færðar fórnir þar sem milljónir týndu lífi í átökum við myrk ölf nasisma og kommúnisma.

Kristnar þjóðir Evrópu byggja enn á hugmyndafræði kristninnar. En þeir sem hirðisbréfin senda hirða ekki um að gæta hagsmuna trúarsystkina okkar og láta grimmdarverk villimanna bitna á þeim, án þess að rísa upp í sjálfsagðri vandlætingu með kröfu um að trúarsystkinum okkar sé veitt vernd hvort heldur það er í Sýrlandi, Írak eða annarsstaðar. Engin hópur trúaðra verður fyrir eins miklum ofsóknum og kristið fólk.

Í sumar var skipi með flóttamönnum bjargað á Miðjarðarhafi. Í ljós kom að kristna fólkið sem var um borð hafði verið drepið og kastað útbyrðis. Þrátt fyrir það tók hin umburðarlynda Evrópa á móti morðingjunum og veitti þeim griðland.

Í dag sækja hundruð þúsunda ólöglegra innflytjenda og tuga þúsunda flóttamanna til Þýskalands í kjölfar ruglanda Angelu Merkel. Af þeim eru um 40% Kosovo Albanar og önnur 40% Afganar. Flóttafólk frá Sýrlandi er í algjörum minnihluta. Í flóttamannabúðunum aðhyllist mikill meiri hluti þá trú sem heiminum og heimsfriðnum stendur í dag mest ógn af. Salafistar, öfgahópur þeirra trúarbragða sækir skipulega inn í búðirnar til að fá nýja liðsmenn.

Í nafni umburðarlyndis og mannúðar hefur hin kristna Evrópa hafnað því að það megi gera upp á milli fólks. Það má ekki veita kristnu fólki og Yasidum, sem eru í mestri hættu forgang.

Nýverið barst frétt þess efnis að árás var gerð á flóttahjón í flóttamannabúðum í Þýskalandi vegna þess að konan bar krossmark en hjörðin sem var í búðunum hafði ekkert umburðalyndi gagnvart því.

Hirðisbréf kirkju "leiðtoganna" nær ekki til og tekur ekki til eða setur fram tilmæli um að kristið fólk standi vörð um kristin gildi og hagsmuni kristins fólks og vísi burt fólki sem berst gegn grunngildum mannúðar og umburðarlyndis. Þessir kirkju"leiðtogar" fljóta því með ssama hætti sofandi að feigðarósi og íbúar Miklagarðs þegar Múslimaherirnir sóttu að borginni, sem lögðust á bæn í stað þess að verjast þó næg væru efni til þess.

 


Hallgrímur sálugi Pétursson og Gyðingahatur.

Hallgrímur sálugi Pétursson orti Passíusálma um pinu og dauða Jesú Krists. Kveðskapur Hallgríms hefur lifað með þjóðinni og  lesin í kirkjum landsins og víðar í aðdraganda Upprisuhátíðar Jesús. Þó margt af því orðfæri sem Hallgrímur sálugi notar sé æði fornt og torskilið mörgum nútímamanninum þá skilja flestir meininguna. Alltént er þetta hluti þess kristilega þjóðlega menningararfs sem við vonandi erum enn stolt af og viljum varðveita.

Nú hafa Gyðingar í andsvari sínu við ruglsamþykkt Dags B. Eggertssonar og meirihluta hans um viðskiptabann á Ísrael fundið það út að Hallgrímur sálugi hafi verið Gyðingahatari og það eigi við um þjóðina alla,  sem hafi kveðskap hans í þvísa hávegum að hann sé jafnvel lesinn upp dag eftir dag í sjálfu Ríkisútvarpinu.

Málflutningur þeirra sem halda þessu fram eru álíka vitlaus og samþykkt meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Hallgrímur sálugi Pétursson notar orðfæri og yrkir í samræmi við tíðarandann á þeim tíma sem sálmarnir eru ortir og það er ekki hægt að flytja þá til í tíma og lesa út úr því að þarna sé hatursumræða, sem hvergi er að finna.

Það er e.t.v. meiri ástæða fyrir Hallgrím Pétursson að koma núna og segja ekki meir ekki meir heldur en við húsameistara ríkisins, þegar Hallgrímskirkja var byggð, samanber samnefnt kvæði Steins Steinars.


NATO , Tyrkir, Kúrdar og ÍSIL

Tyrkir hafa beðið um fund í fastaráði NATO til að fjallað verði um hernaðaraðgerðir þeirra gegn Kúrdum undir því yfirskini að verið sé að ráðast gegn hermdarverkasamtökunum ISIL.

Tyrkir undir stjórn Erdogan forseta sem er öfgafullur íslamisti hefur færst undir hans stjórn til meiri harðlínustefnu. Stjórn Erdogan hefur stutt starfsemi Isil í Sýrlandi og Tyrkland, hefur verið griðastaður fyrir Isil, þar sem nýir liðsmenn hafa komið til stuðnings við þessi hermdarverkasamtök. Tyrkland hefur verið miðstöð fyrir liðsflutninga, flutninga á vistum og hergögnum auk fjármálastarfsemi fyrir Isil. Eðlilegt er að aðrar NATO þjóðir spyrji Tyrki að því hvort þeir hafi endanlega hætt virkum stuðningi við Isil.

Frá því að Tyrkir tilkynntu að þeir mundu ráðast gegn frelsisher Kúrda í Írak og gegn Isil hefur sprengiregnið dunið á Kúrdum. Ekki fer eins sögum af því að Ísil hafi mátt þola svipaða ásókn frá her Tyrkja. Finnst fulltrúum NATO eðlilegt að þannig sé staðið að verki.

Bandaríkjamenn sem hafa ekki rekið skilvirka utanríkisstefnu á þessari öld, slógust í för með öfgafullum Íslömskum ríkjum eins og Saudi Arabíu, Quatar og Tyrklandi til að koma á borgarastyrjöld í Sýrlandi og hafa viðhaldið henni m.a. með því að styðja Isil, Al Nusra. Þessar þjóðir hafa stuðlað að langvinnu borgaratríði, gríðarlegum hörmungum og bera ábyrgð á morðum hundrað þúsund einstaklinga, mannránum, mannsali og hungursneyð. Fastaráð NATO ætti að ræða þessa hermdarverkastarfsemi NATO ríkjanna Tyrklands og Bandaríkjanna í frjálsu og fullvalda ríki.

Fundurinn í NATO í dag á að verða tímamótafundur þar sem þjóðir Evrópu segja Tyrkjum og Bandaríkjunum að NATO sé friðarbandalag og líði ekki eða hafi jákvæð afskipti af hentistefnu Tyrkja eða Bandaríkjanna og fordæmi aðgerðir þeirra sem hafa leitt til þess að kristið fólk hefur verið hundelt, myrt og selt í ánauð. Að það fordæmi þá stefnu Bandaríjanna og Tyrkja sem hefur leitt til þess að Yasídar hefa verið hundeltir myrtir og seldir í ánauð. Að það fordæmi þá stefnu Bandaríkjanna og Tyrkja sem hefur leitt til langvinnrar borgarastyrjaldar í Sýrlandi með ómælanlegum hörmungum fyrir milljónir fólks og leitt til þess að versta flóttamannavandamálið sem Evrópa hefur þurft að glíma við er núna.

Utanríkisráðherra Íslands ætti að gera grein fyrir að við teljum aðferðir Bandaríkjanna og Tyrkja með stuðningi við hryðjuverkasamtök og bein afskipti af borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sé ógn við öryggi Evrópu og það sé komið að þeim að bæta fyrir þau mistök sem þau hafa gert í þessum heimshluta á undanförnuum árum. Þá yrði Gunnar Bragi Sveinsson maður að meiri og ríkisstjórn Íslands væri þá alla vega á réttri leið í mannúðarmálum.

Eða er það bara Úkraína sem skiptir máli?

 


Kirkjum breytt í moskur

Hafi Íslendingar álitið að það væri einstaklega nýstárlegt og listrænt að breyta kirkju í mosku sbr. gjörning Íslands á Feneyjatvíæringnum þá er því nú ekki þannig varið.

Í Frakklandi er hreyfing sem stendur á móti því að kirkjum sé breytt í moskur. Nicolas Sarkozy  og Valerie Giscard d'Estaing fyrrum Frakklandsforsetar hafa báðir lýst stuðningi við hreyfinguna ásamt Balladur fyrrum forsætisráðherra. Enginn þeirra hefur verið talinn til "hægri" öfgamanna og "pópúlista" svo vinsælt orðfæri vinstri elítunnar á Íslandi um alla þá sem leyfa sér að standa upp fyrir kristilegum og þjóðlegum gildum sé notað.

Immaminn í í stóru Moskunni í París hefur lýst sig fylgjandi að breyta kirkjum í moskur eins og íslensku lístaelítunni finnst svo sniðugt og einstaklga frumlegt af hverju sem það nú kann að vera- þar sem þetta hefur verið gert í meir en 500 ár. Immaminn í stórmoskunni sagði að þrátt fyrir að það væru 2.500 moskur í Frakklandi og 300 í byggingu að það þyfti að tvöfalda fjölda moska í Frakklandi fyrir 2017. Honum finnst því tilvalið að nota kirkjur og breyta þeim í moskur.

Gaman hefði verið að sjá fyrrum forsætisráðherra og ég tala nú ekki um biskupinn og menntamálaráðherrann taka svipaða afstöðu til listaverks Íslands á Feneyjatvíæringnum og þeir Sarkozy, d'Estaing og Balladur gerðu í Frakklandi taka til samskonar hugmynda um gjörning i gömlum kirkjum í Frakklandi.


Að samsama sig með soranum

Charlie Hedbo var lítt útbreitt franskt ádeiluteikningarit,sem fór iðulega langt yfir öll velsæmismörk í lítilsvirðingu sinni gagnvart skoðunum annarra samborgara þar með talið trúarskoðunum. Blaðið birti ítrekað lágkúrulegar og hallærislegar sóðamyndir af Guði, Jesú, Múhameð og mörgum fleirum. 

Charlie Hedbo mátti birta þessar myndir og ádeilu vegna þess að við búum við rit- og skoðanafrelsi eða eins og merkur maður sagði eitt sinn. Klámið og ritfrelsið ganga hönd í hönd. Til að njóta þess góða þurfa menn að umbera hið slæma þó þeir þurfi ekki að samsama sig soranum.

Eitt er að virða rétt einstaklinga til að tjá sig þess vegna meiðandi og særandi fyrir marga. Hitt er að samsama sig þeim sora. Fáir málsmetandi evrópskir stjórnmálamenn hefðu tekið undir með Charlie Hedbo áður en starfsmenn blaðsins voru drepnir í hryðjuverkaárás. Þá var eðlilegt að fólk fylltist samúð og tækju sér  í munn "Je suis Charlie" til að lýsa andúð sinni á tilraunum til ritskoðunar og þöggunar.

Í dag var samþykkt að fella ákvæði um guðlast úr lögum. Í sjálfu sér skiptir það ekki miklu máli þar sem að almennt haturs ákvæði eru í almennu hegningarlögunum.

Þegar Alþingi var að samþykkja það að fella niður refisákvæði vegna guðlasts þótti þingmönnum Pírata sæma að koma upp í ræðustól Alþingis og lýsa því yfir um leið og þau greiddu atkvæði með afnámi gulasts út hegningarlögum og segja "Je suis Charlie" Hvað þýddi það? Að Píratar vilji að nú verði sótt að trúarskoðunum kristins fólks, múslima o.fl. og hæða og smá Jesús og Múhameð eins og Charlie Hedbo er þekkt fyrir þar sem ákvæði um guðlast er nú fallið úr lögum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 3554
  • Frá upphafi: 2513358

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 3329
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband