Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Brot á tjáningarfrelsi?

Í dag vann Erla Hlynsdóttir blaðamaður þriðja mál sitt gegn íslenska ríkinu. Íslenska ríkið var dæmt fyrir brot á  tjáningarfrelsisákvæði 10.gr.  Mannréttindasáttmála Evrópu.

Sama dag lýsti menntamálaráðherra því yfir að yfirvöld í Feneyjum hefðu brotið gegn tjáningarfrelsinu þegar þau lokuðu mosku sem svissneskur listamaður gerði til kynningar á íslenskri myndlist.

 Illugu Gunnarsson menntamálaráðherra hlutaðist til um það að tugum milljóna af peningum skattgreiðenda væri varið til moskubyggingar og bænahalds múslima í Feneyjum og er því að vonum sár yfir því að yfirvöld í Feneyjum skuli bregðast svona illa við og skilja ekki þá mögnuðu listsköpun sem þeir Christopher og Ibrahim höfðu fram að færa til að kynna íslenska nútímamyndlist á kostnað skattgreiðenda.

Sé menntamálaráðherra raunverulega á þeirri skoðun að lokun íslensku moskunnar í Feneyjum sé brot á tjáningarfrelsi þá er dómstólaleiðin greið og hann gæti væntanlega fengið stuðnings hins margdæmda íslenska ríkis til að það borgaði fyrir málssóknina þar sem engin ætlast til að ráðherrann láti reyna á meint réttlæti á eigin kostnað eins og Erla Hlynsdóttir varð að gera.  

 


Það er eitthvað rotið í listalífi Íslands

Einhver tók ákvörðun um að svisslendingur skyldi reisa mosku inn í kirkju í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Listamaðurinn hefur m.a, í listsköpun  lýst aðdáun á sjálfsmorðsfluginu á tvíburaturnana í New York 11. september.  Það var því að vonum að íslenska listaelítan sem sér um Feneyjatvíæringinn skuli hafa valið hann til að koma íslömskum áróðri á framfæri í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda  á forsendum listar.

Þrátt fyrir að borgaryfirvöld í Feneyjum hafi ekki leyft opnun moskunnar inn í kirkjunni þá var hún samt opnuð. Ibrahim Sverrir Agnarsson helsti talsmaður Múslima á Íslandi lýsti þessu með eftirfarandi hætti:

"Frábær dagur í moskunni í dag og ekkert vesen með yfirvöld og reglulegt hefðbundið bænahald. Sádar og fleiri forríkir hafa reynt að fá að byggja mosku í Feneyjum í áratugi og ekkert gengið---- Svo kemur hið smáa Langtiburtustan Ísland og reisir fallegustu og áhrifamestu mosku í Evrópu. Glæsilegt Múslimar taka andköf af hrifningu."

Þá liggur það fyrir. Markmiðið var að byggja mosku í Feneyjum á fölskum forsendum.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hver ber ábyrgð á þessu?  Málið heyrir undir menntamálaráðuneytið og Illugi Gunnarsson verður að svara fyrir málið. Ber hann ábyrgð en ef ekki hver þá.

 


Löglegt en siðlaust

Þingmaður Framsóknarflokksins sér ekkert við það að athuga að fjalla um afgreiðslu frumvarps um makrílkvóta, sem færa mun fjölskyldu hans tugi milljóna ef ekki hundrað.

Björg Thorarensen prófessor við Háskóla Íslands og helsti ráðgjafi ríkisstjórna um lögfræðileg málefni segir að lagalega sé ekkert athugavert við málið þar sem um almenna löggjöf sé að ræða. Spurning hlítur þó alltaf að vera hversu almenn sú löggjöf er,sem færir nokkrum tugum einstaklinga milljóna gróða og 99.9% þjóðarinnar ekki neitt.

Óneitanlega eru hagsmunatengsl þessa þingmanns Framsóknarflokksins, Páls Jóhanns Pálssonar með þeim hætti að flestum siðuðum mönnum er það morgunljóst að jafnvel þó þetta kunni að vera löglegt, sem ég raunar efa, þá er það gjörsamlega siðlaust. Átti flokksforusta Framsóknarflokksins sig ekki á hversu fráleitt þetta er, þá er hún jafn siðlaus og þessi þingmaður flokksins.

Svo er það annað mál og miklu alvarlegra að stjórnvöld með atvinnumálaráðherra Framsóknarflokksins í broddi fylkingar þykir það eðlilegt og jafnvel sanngjarnt að afhenda litlum hluta þjóðarinnar milljónir og jafnvel milljarða fyrir það eitt að veiða úr flökkustofni sem er nýr á miðunum og hefur ekkert með upprunalegt kvótakerfi að gera.

Væri  ekki nær að bjóða upp veiðiheimildir úr þessum flökkustofni og sjá hvernig það kerfi mundi reynast. Það á engin rétt til að veiða úr honum og Alþingi getur ákveðið að láta alla þjóðina njóta afraksturs veiða á makríl í stað þess að gefa konu Páls Jóhanns þingmanns Framsóknarflokksins ásamt nokkrum öðrum velunnurum sínum þessi verðmæti sem syntu inn í íslenska lögsögu algerlega án þess að kona Páls Jóhanns eða nokkur annar sem á að fá milljónir og milljarða gefins frá ríkisstjórninni og meirihluta Alþingis, hafi til þess unnið.  

Velti því fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi endanlega skilið við markaðshyggjuna með því að hampa svona ríkisvæðingu.


Rétturinn til lífs.

Mikilvægustu mannréttindin eru rétturinn til lífs. Önnur mannréttindi eru líka mikilvæg t.d. tjáningarfrelsið.

Fyrir nokkrum vikum var Frakkland undirlagt vegna morða öfgamúslima á starfsfólki teiknimyndaritsins Charlie Hedboe. Forustumenn ýmissa ríkja m.a. Afríkuríkja mættu til Parísar til að taka þátt í skrúðgöngu til að fordæma aðför að tjáningarfrelsi.  Forustumenn þjóðanna töluðu um nauðsyn þess að bregðast af hörku við glæpaverkum Íslamskra öfgamanna.

Í gær myrtu íslamskir öfgamenn undir fána al-Shabaab samtakanna 150 háskólastúdenta í Kenýa. Íslömsku öfgamennirnir völdu kristna stúdenta út úr stúdentahópnum til að myrða þá. Sjónarvottar segja að margir kristnu stúdentarnir hafi verið myrtir með því að skera þá á háls með sama hætti og Ísis samtökin gera iðulega t.d. við vestræna gísla og kristna Kopta sem þeir tóku til fanga í Líbýu fyrir skömmu.

Á einhver von á því að ráðamenn heimsins muni bregðast við með svipuðum hætti og vegna morðana á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hedboe vegna þess að 150 kristnir stúdentar í Kenýa voru sviptir grundvallarmannréttindum sínum "réttinum til lífs"?  Á einhver von á því að kristnar kirkjudeildir í söfnuðum værukærra ríkiskirkna geri athugasemdir?

Hryðjuverkamenn Íslömsku vígasveitanna  al-Shabaab völdi helgidag kristins fólks "skírdag" til að fremja voðaverk sitt á stúdentunum af því að þeir voru kristnir.

Óneitanlega er dapurlegt að verða vitni að því hvað það skiptir vesturlandabúa litlu máli þó að fólk með öðrum litarhætti í annarri heimsálfu sé svipt lífi sínu og frelsi. Morðið á ritstjórn Charlie Hedbo er meira mál í hugum stjórnmálamanna og álitsgefenda já jafnvel kristinna klerka, en morð á kristnum stúdentum í Kenýa, rán og kynlífsþrælkun hundruða stúlkna í Níegeríu eða morð á hópi kristinna Kopta í Líbýu. Allt vegna þess að þetta fólk vildi fá að vera í friði til að játa kristna trú.

Ömurleiki, aumingjaskapur og hugmyndafræðilegt fráhvarf Evrópskra stjórnmálamanna og samtaka frá baráttu fyrir réttindum fólks óháð kyni, litarhætti eða trú er fordæmanleg.

Sá tími er runninn upp að kristið fólk bregðist við ofbeldinu og myndi sín varnarsamtök gegn ofbeldi, kúgun og morðum gagnvart kristnu fólki hvar í heiminum sem er.

 


Fjórmenningaklíkan/ The gang of four

Sú var tíðin að hópur valdþyrstra einstaklinga, kölluð fjórmenningaklíkan reyndi að ná alræðisvaldi í kínverska Kommúnistaflokknum og þar með Kína. Klíkan stóð fyrir menningarbyltingunni í Kína, en sú bylting var til að niðurlægja pólitíska andstæðinga Maos formanns og reyna að tryggja honum alræðisvald. Þegar leið á valdaránstilraunina þá réttu andstæðingar fjórmenningaklíkunnar jafnan upp fimm fingur en fimmti valdaránsmaðurinn var að sjálfsögðu Mao Tse Tung.

Samfylkingin hefur átt sína fjórmenningaklíku um nokkurra ára skeið. Hún kom fyrst fram grímulaust á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um Landsdómsmálið, en þá skáru þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Ólína Þorvarðardóttir og Helgi Hjörvar sig úr hópi þingmanna Samfylkingarinnar og greiddu atkvæði með ákærum á hendur m.a. Geir Haarde.

Ýmsir urðu til að halda því fram að þarna hefði verið um að ræða þaulhugsað plott Samfylkingarinnar, en svo var ekki. Það var bara fjórmenningaklíkan sem stóð fyrir þessu, en þá eins og í Kína forðum, þá glitti í andlit Jóhönnu Sigurðardóttur á bakvið plottið eins og í andlit Mao forðum í Menningarbyltingunni.

Í hlutafélagi hefði það verið talin tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku hefði hópur hluthafa paufast með mótframboð gegn sitjandi stjórn og safnað liði á laun og látið til skarar skríða þegar gagnaðilinn uggði ekki að sér. .Í Samfylkingunni er samskonar tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku og valdaráns af hálfu fjórmenningaklíkunnar kallað virkt lýðræði

Foringi valdaránstilraunarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sagði eftir tap sitt að hún væri að íhuga stöðu sína af því að hún hefði orðið fyrir árásum. Það tók hana ekki nema nokkra klukkutíma enda öllum ljóst að með því var hún aðeins að biðja sér griða. Formaðurinn sem Sigríður Ingibjörg vóg að úr launsátri,  lýsti því yfir í kristilegum kærleiksanda að syndir hennar væru henni fyrirgefnar.  

Öll Samfylkingardýrin eiga að vera vinir þrátt fyrir að nætur hinna löngu hnífa séu jafnan tiltækar plottmeisturum fjórmenningaklíkunnar. Þegar valdaránstilraunin hafði mistekist voru sumir hershöfðingjar valdaránsins eins og Ólína Þorvarðardóttir fljótir að beina athyglinni að einhverju sem engu máli skipti eins og  tillögu ungra Samfylkingarmanna um að hætt skuli tilraunum til olíuvinnslu í íslenskri lögsögu. Tillaga sem vó að fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar Össuri Skarphéðinssyni. Væringjum innan Samfylkingarinnar er ekki lokið, af því að fjórmenningaklíkan hefur enn trausta valdastöðu. Á bakvið þau fjögur glittir í fimmta andliðit. Andlit Jóhönnu Sigurðardóttur sem  engu hefur gleymt, en ekkert man þegar það hentar.

Er það virkilega bara Sighvatur Björgvinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir meðal Samfylkingarfólks,  sem geta talað þokkalega hreint úr pokanum um það sem Vilmundur heitinn Gylfason hefði kallað sk...pa..

 

 


Björk bullar

 Þegar Björk Guðmundsdóttir söngkona setur fram hugleiðingar um alþjóðamál þá vekur það athygli af því að hún er góður söngvari, en ekki vegna þess að greining hennar sé brillíant hvað þá heldur gáfuleg. Fjölmiðlamenn hlaupa á eftir frægu fólki sem iðulega setur fram mis gáfuleg ummæli oft til að halda sér í umræðunni í auglýsingaskyni.

Ekkert skal fullyrt um að ofangreindar hvatir ráði því að Björk Guðmundsdóttir söngkona skuli bulla um hryðjuverkaárásirnar í Kaupmannahöfn og París. Björk tengir hryðjuverkaárásir Íslamista í þessum löndum við hernað þeirra erlendis eins og hún kallar það. En er það svo? Liggur ekki fyrir hvað var orsök hryðjuverkaárásanna í París og Kaupmannahöfn?

Í París var ráðist á höfuðstöðvar teiknimyndablaðs sem birti dónalegar myndir og að mínu mati ósæmilegar af Múhameð spámanni, Jesú og fleirum. Orsök árásarinnar var myndbirtingin. Ráðist var gegn tjáningarfrelsinu. Í sömu atrennu var ráðist á Gyðinga vegna trúarskoðana þeirra. Hryðjuverkaárásin í París hafði því ekkert með hernað Frakka að gera. Hún var annars vegar atlaga að tjáningarfrelsinu og hins vegar vegna haturs á Gyðingum.

Í Kaupmannahöfn var það sama upp á teningnum. Ráðist var á bænahús Gyðinga vegna haturs á Gyðingum og saklaus borgari drepinn þegar markmiðið var að drepa sænskan teiknara vegna teikninga af Múhameð. Aftur atlaga að tjáningarfrelsinu og Gyðingahatur.

Það er með miklum ólíkindum að á samfélagsmiðlunum skuli sumt vinstra fólk bera blak af þessu rugli í söngkonunni, sem er með yfirlýsingum sínum í fyrsta lagi að rugla saman orsök og afleiðingu og í öðru lagi að bera blak af hryðjuverkamönnum á fölskum forsendum.

Baráttan gegn hryðjuverkum Íslamista er óhjákvæmileg og það er slæmt þegar fólk í vestrænum löndum telur sig vera friðflytjendur þegar það í raun samsamar sig með glæpamönnum. 

Við gerum venjulegu fólki í Evrópu sem játar Íslam ekki verri óleik en að taka ekki hart á móti glæpum Íslamistanna.


Sekur er sá einn sem tapar

Kl. 10 að morgni 13.febrúar 1945 fyrir 70 árum síðan hófust hrikalegustu loftárásir sem sögur fara af. Þann dag og daginn eftir vörpuðu um 1200 breskar og bandarískar flugvélar sprengjum á menningarborgina Dresden í Þýskalandi og jöfnuðu meir en 60% borgarinnar við jörðu og steiktu meginhluta þeirra sem þar voru með vítislogum.

Sennilega fæst aldrei úr því skorið hvað margir voru drepnir í þessum hildarleik, en tölurnar eru á bilinu 32.000 manns til 600.000.- Sá sagnfræðings sem skrifað trúverðugustu söguna af þessum stríðsglæp telur að 130.000 þúsund manns hafi verið drepin.

Dresden var var kölluð Flórens við Elbu vegna Baroque bygginga og arkitektúr, menningar- og listalífs. Þar voru engin hernaðartæki eða framleiðsla vígtóla. Þar voru aðallega skólar og spítalar. Tugþúsundir flóttamenn voru í borginni þegar þessi versti stríðsglæpur síðari heimstyrjaldar var framinn. Borgin hafði engar loftvarnir af því að engum datt í hug að þessi borg yrði skotmark.

Á þeim tíma sem Churchill og Rosevelt gáfu skipun um að sprengja Dresden í tætlur voru Þjóðverjar búnir að tapa stríðinu. Rúsneski herinn var  um 100 kílómetra frá borginni. Fyrirskipunin um að sprengja óbreytta borgara í tætlur var óafsakanlegur stríðsglæpur. Í kjarnorkuárásinni á Hirosima í Japan dóu um 70.000 manns eða færri en ég tel að hafi dáið í Dresden. Sú árás á saklausa borgara var líka óafsakanlegur stríðsglæpur.

Í allri seinni heimstyrjöldinni voru færri en 50.000 Bretar sem dóu í loftárásum. Bretar hafa samt lýst þeim loftárásum sem óafsakanlegum stríðsglæpum. Loftárásum á Coventry í Englandi þar sem mikil hergagnaframleiðsla var fórust um 380 manns. Þeim árásum var lýst af Bretum sem óafsakanlegum þýskum stríðsglæpum.

Það getur aldrei verið réttlætanlegt að drepa saklausa borgara. Það er alltaf stríðsglæpur. Stundum verða mistök, en þegar tugir þúsunda borgara eru sprengd í tætlur eða farast í vítiseldi vegna ákvarðana æðstu ráðamanna eins og var um árásina á Dresden þá er það stríðsglæpur engu betri en ódæðin sem glæpamenn nasista frömdu gagnvart óbreyttum borgurum í löndum sem þeir hernámu aðallega í Póllandi og Sovétríkjunum.

Þeir sem tóku ákvörðun um að drepa tugi þúsunda óbreyttra borgara í Dresden og eyðileggja menningarlegan gimstein án hernaðarlegrar nauðsynjar eru stríðshetjur með sama hætti og þeir sem tóku ákvörðun um að varpa kjarnorkusprengum á Hírósíma og Nagasakí. Allt tal um að þessir stríðsglæpir hafi stytt stríðið og komið í veg fyrir annað manntjón er rangt.

Þeir sem töpuðu eru útmálaðir sem böðlar og glæpamenn eins og þeir voru. En verður þá ekki að leggja dóm á sama grundvelli á alla sem frömdu stríðsglæpi. Var betra að Rosevelt og Churchill dræpu saklaust fólk en Hitler og Hirohito?

En sekur er sá einn sem tapar. 


Glæpamannavæðingin og traustið.

Fram til 6.október 2008 taldi þorri þjóðarinnar allt vera afsakanlegt, væri hægt að græða á því eða þeir sem röngu hlutina gerðu ættu mikla fjármuni. Sú peningalega afsiðum sem átti sér stað í nokkur ár fram að hruni var skelfileg.

Þegar þjóðin komst að því að hún var ekki rík, en hafði í besta falli verið blekkt til að trúa því og þeir sem höndluðu með milljarða, milljarðatugi og milljarðahundruð ýmist áttu ekkert á yfirborðinu eða höfðu klúðrað málum með þeim hætti að vogunarsjóðir þeirra, bankar og önnur fjármálafyrirtæki fóru á hausinn hófst glæpamannavæðing þjóðfélagsins.

Það var eðlilegt að fólki yrði brugðið og gleymdi á svipstundu peningalegri afsiðun sinni og leitaði að sökudólgum. Fremstir í för fóru tveir háskólakennarar ásamt Agli Helgasyni sem mærðu síðan þann sem tók við Fjármálaeftirlitinu sem forstjóri fyrir að henda ónýtum málum í haugum í hausinn á Sérstökum saksóknara. Báðir háskólakennararnir vörðu forstjórann síðan þrátt fyrir að íljós hafi  komið að hann hafði gerst sekur um afbrot sem hann hefur nú verið dæmdur til refsingar fyrir.

Egill Helgason einn helsti talsmaður glæpamannavæðingarinnar fékk fjölda fólks í viðtöl sem glæpamannavæddu stofnanir og fyrirtæki eða íjuðu að því og nægir í því sambandi að nefna Sigurbjörgu stjórnsýslufræðing og Evu Joly, auk ýmissa minni spámanna sem gátu eftir hrun allan vanda leyst og töldu sig hafa séð allt fyrir þó engin hefði orðið var við það áður.

Glæpamannavæðingin náði til þess að allt að 3% fullorðinna íslenskra karlmanna lá undir grun hjá Sérstökum saksóknara um árabil. En svo er nú komið að mest var það á fölskum forsendum. Enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á neinn glæp sem leiddi til bankahrunsins hvort sem okkur líkar betur eða verr.

En hluti af glæpamannvæðingunni og sú staðreynd að hún var röng hefur leitt til mikils vantrausts þjóðarinnar á stofnanir og stjórnmálamenn. Þess vegna er mikilvægt að vinna úr því til að eðilegt þjóðfélag geti þrifist á Íslandi

Ef til vill var það óheppilegt vegna vantrausts þjóðarinnar,  að leikendur í viðskiptalífi fyrir hrun skyldu veljast til helstu forustustarfa í íelenskri pólitík en þá er þeim mun nauðsynlegra að sýna fram á að þeir hinir sömu séu traustsins verðir og góðir hagsmunagæslumenn almannahagsmuna.

Þess vegna skiptir miklu fyrir ríkisstjórnina nú að kaupa þau gögn um meint skattsvik íslendinga og fjármálaleg undanskot í gegn um erlend fjármálafyrirtæki, sem henni standa til boða hratt og örugglega.

Til að við getum sem fyrst unnið í eðlilegu þjóðfélagi þarf fólkið í landinu að ná að höndla aftur það meginatriði að hver maður er saklaus þangað til sekt hans er sönnuð og hætta að glæpamannavæða samfélagið að ósekju. Ráðamenn þjóðarinnar hafa mikið verk að vinna og það er ekki til auðveldunar þessu mikilvæga atriði að skipa æ ofan í æ þá til verka í stjórnsýslunni sem voru með báðar hendur í hunangskrukkunni fyrir hrun.


Ég um mig frá mér til mín.

Í greinarkorni sem Jón Gnarr ritar í Fréttablaðið í dag tekst honum að nota persónufornafnið, ég í meir en tuttugu skipti. Nú er það ekki nýlunda að stjórnmálafólki þyki vænt um sjálft sig og þyki mikið til sín koma, en það er fátítt að þeir hinir sömu sýni það á jafn grímulausan hátt og Jón Gnarr gerir í greininni.

Grínistinn Tom Lehrer sem var vinsæll á áttunda áratug síðustu aldar segir frá því í einu ljóði sínu, "We are the folk song army" með sinni kaldhæðnislegu kímni, hvað það er erfitt og óvinsælt að berjast fyrir hlutum, "sem allir aðrir eru á móti" og Jón Gnarr fjallar um í grein sinni málum eins og friði, vináttu og mannkærleik.  

Hér skal tekið undir allar hugrenningar og stílbrögð Jóns Gnarr um gæskuna og mannkærleikann, sem gott er að hafa jafnan í huga og þá er e.t.v. ekki fráleitt að spyrja fyrrum ráðandi stjórnmálamann hvort það hafi verið inntakið í stjórnsýslu hans á liðnu kjörtímabili sem borgarstjóri í Reykjavík. Einhver mundi segja að þar hafi verið "business as usual" (sama stefna og áður) með þeim blæbrigðum sem fólust í lélegri stjórnun, hækkun gjalda og verri þjónustu fyrir borgaranna.

 


Í værðarvoðum hins örugga tóms

Hryðjuverkasamtökin ISIL hafa farið um með hryðjuverkum,morðum, nauðgunum og mannsali. Þúsundir Yasida, Kristinna, Kúrda o.fl. hafa verið drepnir og/eða hnepptir í þrældóm. Opinber stefna samtakanna er að sigra heiminn með hryðjuverkum og morðum og gera út af við alla þá sem aðhyllast ekki þeirra skoðun á Íslam.

Það skiptir ekki máli fyrir ISIl liða hvort einhver berst gegn þeim eða ekki. Hver sem deilir ekki trúarhugmyndum þeirra, að þeirra mati, er dauðasekur óháð þjóðerni, kyni, litarhætti eða aldri.

Samt sem áður tókst ISIL liðum að verða helsta fréttaefni allra helstu fréttamiðla í hinum vestræna heimi í rúma viku vegna þess að þeir voru sagðir vilja semja um að láta japanskan fréttamann og jórdanskan flugmann lausa í skiptum fyrir hryðjuverkafólk. Látlaust voru sýndar myndir og fjallað um málið með þeim hætti að þrátt fyrir morð á þúsundum, nauðganir, rán og kynlífsþrælkun þúsunda kvenna þá bæri að semja við glæpamennina.

Nú þegar búið er að drepa bæði japanska fréttamanninn sem ekkert hafði til saka unnið annað en að vinna vinnuna sína og Jórdanska flugmanninn sem ekki fékk að njóta alþjóðareglna um meðferð á stríðsföngum heldur var brenndur lifandi þá er að vonum að fleiri fréttamenn átti sig á að þeir eiga ekki að láta ISIL hafa sig að leiksoppi aftur.

Vilji Vesturlandabúar búa um sig til hinstu hvílu í værðarvoðum hins örugga tóms eins og heimspekingur orðaði það þá skal tekið undið með heimspekingnum "að slíkt er tómhyggja og til marks um dauðþreyttar og örvæntingarfullar sálir." Eða enn frekar til marks um samfélög sem eru rúin öllum hugmyndafræðilegum styrk til að takast á við raunveruleg vandamál.

Það væri ósiðlegt að semja við ISIL. Hvernig á að semja við samtök sem segjast ætla að fara um heiminn með ránum, nauðgunum, mannsali og morðum, setja upp kalífadæmi í Evrópu og sigra heiminn með því að drepa alla sem þeim eru ekki sammála. Samtök sem eru tilbúin til að beita hvaða ódæði sem vera skal til að ná fram markmiðum sínum.

Winstons Churchill fyrrum forsætisráðherra Breta neitaði að semja við hið illa og varaði við uppgangi þess á þeim tíma sem fyrirfólk og fréttamenn í lýðræðisríkjum Vesturlanda spiluðu á flautur ódæðismannanna sem unnu ein hræðilegustu hermdaarverk sögunnar. Það þurfti að færa fórnir til að sigra hryllinginn sem þá ógnaði mannréttindum og lýðfrelsi. Fórnirnar urðu meiri og þungbærarari af því að ekki var hlustað á varnaðarorð og brugðist við af þeirri hörku sem þarf gagnvart hinu illa á öllum tímum.

Af hverju átta þá fréttamenn virtra fjölmiðla Vesturlanda sig þá ekki á þeirri staðreynd í dag að það er rangt að semja við eða gera ISIL eitthvað til geðs. ISIL liðar eru holdgervingar hins illa og við hið illa verður að berjast, sigra það og útrýma því.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 288
  • Sl. sólarhring: 299
  • Sl. viku: 3789
  • Frá upphafi: 2513593

Annað

  • Innlit í dag: 271
  • Innlit sl. viku: 3548
  • Gestir í dag: 257
  • IP-tölur í dag: 253

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband