Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

17.000 ráðstefnugestir menga sem aldrei fyrr.

Forréttindaaðallinn sem þvælist ítrekað heimsálfa á milli  til að álykta um aukna skattheimtu og takmarkanir á athafnafrelsi einstaklinga á grundvelli pólitískrar veðurfræði hélt nýlega fund í furstadæminu Qatar.

Ráðstefnuna um meintar loftslagsbreytingar og hlýnun af mannavöldum sóttu 17.000 ráðstefnugestir og ráðstefnan stóð í 12 daga.

Ráðstefnugestum var flogið til Qatar og fluttir á milli loftkældra vistarvera í stærstu gerðum og eyðslufrekustu bifreiðum sem framleiddar eru. Hvergi sást við framkvæmd ráðstefnunar, fjölda þáttakenda, aðbúnaði þeirra eða hegðun að þeir teldu ástæðu til að takmarka útblástur koltvísýrings þegar forréttindastéttin  á í hlut.

Áætlað er að útblástur koltvísýrings vegna ráðstefnunnar og ráðstefnugesta hafi verið um 40 þúsund tonn og Qatar er með mestu eyðslu koltvísýrings á jörðinni á hvern íbúa. Sannkallaður súrrealismi í framkvæmd þessarar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir um 17 þúsund ríkisstarfsmenn.

Samþykkt var að leggja þungar byrðar á skattgreiðendur í Evrópu á grundvelli pólitísku veðurfræðinnar og takmarka framleiðslugetu álfunnar. Nú er að sjá hvort stjórnmálamenn í Evrópu samþykkja þetta rugl eða láta skattgreiðendur sína og efnahagslíf landa sinna blæða út vegna þessarar dýru vitleysu.

Bandaríkin,Indland, Japan, Kanada,  Kína og Rússland taka ekki  þátt í þessu rugli og munu ekki draga úr neinu hjá sér eða leggja á jaðrhlýnunarskatta.

Hvað skyldi sendinefnd Íslands hafa gert? Á síðustu ráðstefnu beitti hún sér fyrir kynbundinni nálgun að viðfangsefninu og samþykkti nú aðför að velferð og möguleikum að efnahagslegum bata Íslands.


Vesalings prófessorinn.

Sumir róttækir vinstri menn eru svo illa haldnir af mannfyrirlitningu gagnvart  þeim sem eru á öndverðum meiði við þá í pólitík að þeir mega ekki heyra af mannkostum þeirra án þess að hreyta í þá ónotum. Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands er einn þessara manna.

Í gær benti ég á bók sem fyrrum lífvörður Margaret Thatcher skrifaðu um hana og þær fallegu lýsingar sem hann gaf af henni sem umhyggjusamri og góðri konu. Konu sem hugsaði vel um starfsfólkið sitt.

Þetta var of mikið fyrir Stefán Ólafsson sem í blindu ofstæki hefur fundið út að skrif mín um Margaret Thatcher stafi af meiriháttar plotti frjálshyggjumanna. Auk þess sem fátækt barna sé sópað undir teppið. Þau tilþrif prófessorsins eru þess eðlis að ég hlakka til að svara honum hvað það varðar. Ég mun gera það fljótlega með grein í Morgunblaðinu.

Prófessorinn finnur það út í sínum tryllta pólitíska hugarheimi að ég sé að hippavæða frjálshyggjuna með þessum skrifum og kasta sauðagærunni yfir gráðuga fjárglæfrafólkið sem í mér og öðru markaðshyggjufólki búi. Mig skorti hugmyndaflug til að átta mig á þessu alheimsplotti mínu, sem Stefán Ólafsson telur sig hafa afhjúpað.

Af tilliti til andlegrar og pólitískrar heilsu Stefáns Ólafssonar prófessors mun ég láta hjá líða um stund að benda á hvað Ronald Reagan var einstaklega vænn maður og vandaður til munns og handa.


Heildarendurskoðun hvað er það? Aðförin að stjórnarskránni VII.

Ítrekað er haldið fram af stjórnlagaráðsliðum að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hafi staðið til frá 1944  með þeim hætti að lýðveldisstjórnarskráin yrði afnumin. 

Þetta er rangt. Um það má m.a. lesa í bókinni Land og Lýðveldi I.hefti bls. 177-206. 

Dr. Bjarni Benediktsson  forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gerir þar grein fyrir störfum stjórnarskrárnefndar, tillögum og hugmyndum. Bjarni var þá formaður nefndarinnar en með honum í nefndinni sátu af hálfu Sjálfstæðisflokksins þeir Dr. Gunnar Thoroddsen og Jóhann Hafstein.

Sjálfstæðismenn lögðu til 20 breytingar á stjórnarskránni. Aðrar hugmyndir voru ekki um  endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944. Af þessum 20  hafa 5 náð fram að ganga að fullu en nokkrar að hluta.

"Gallana á núverandi fyrirkomulagi ber að finna og úr þeim bæta en ekki kasta fyrir borð öllu því, sem vel hefur reynst í heild,"  var það sem haft var að leiðarljósi.

Hvernig rímar það við hugarsmíð stjórnlagaráðsliða?

Lagt var til að Forseti Íslands fengi aukin völd og meiri hluti þjóðarinnar yrði að greiða honum atkvæði sitt. Tillögurnar um aukin völd forsetans voru 5. Engin náði fram að ganga.

Fleiri tillögur má nefna varðandi aukin jöfnuð og auðveldari leið til að breyta kjördæmaskipan, takmörkun ríkisútgjalda og leggja niður Landsdóm

Aðrar tillögur um endurskoðun stjórnarskrárinnar voru ekki til staðar nema hvað varðaði kjördæmaskipan. Það er því sögufölsun að halda því fram að það hafi alltaf staðið til að kollvarpa lýðveldisstjórnarskránni.  Það stóð aldrei til. Á þessari röngu söguskýringu byggir stjórnlagaráð verk sitt og viðmiðanir.

Um leið og Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir tillögum sínum, Gunnars og Jóhanns segir hann:

"Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál, sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði það er alþjóðarmál sem meta verður með langa framtíð fyrir augum" 

Loks segir Bjarni:

"Ég hef ætíð talið að það skipti ekki öllu máli, hvort stjórnarskrárbreytingar yrðu afgreiddar árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti, að þjóðin áttaði sig til hlítar á, um hvað væri að ræða, og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um, svo að hin nýja stjórnarskrá hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð."

Aldrei stóð annað til en að gera afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni. Mikilvægustu atriðin hafa náð fram að ganga önnur en um aukin völd forsetans og takmörkun á möguleikum til að auka ríkisútgjöld.

Þetta rifjað upp til að sýn að rangt er farið með staðreyndir af helstu stuðningsmönnum stjórnlagaráðstillagnanna varðandi breytingar á stjórnarskrá.  Allt frá lýðveldisstofnun hefur verið ríkur skilningur á því að stjórnarskrárbreytingar ætti að gera í góðri sátt með þessum hætti:

að skaplegt samkomulag geti fengist um ný stjórnarskrárákvæði eftir ítarlegar umræður og athuganir.

Tillaga stjórnlagaráðs uppfyllir ekki þessi skilyrði. Hún byggir á fölskum og röngum forsendum. Reynt er að þvinga fram ákvæði eftir takmarkaðar umræður og umfjöllun. Svona gera menn ekki og mega ekki gera í lýðræðisríki varðandi mikilvægustu grundvallarlög þjóðarinnar.  

Þess vegna verður svarið við atlögunni að stjórnarskránni að hafna því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Segjum NEI við að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Stöndum vörð um góða stjórnarskrá en breytum því sem þarf að breyta. 

Nei við tillögum stjórnlagaráðs.  
 


Heimskautaísinn er ekki að bráðna.

Ísinn á suðurskautinu eykst en minnkar nokkuð á norðurskautinu.  Heildar ísbreiða jarðarinnar hefur verið svipuð á jörðinni frá 1979. Þetta er staðreyndin. Heimsendaspámönnum hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum líka þær ekki.  

Í september 2007 var ísinn á norðurskautinu minni en hann hafði verið nokkru sinni áður frá því að mælingar úr gervitunglum byrjuðu 1979. Þá voru settar fram spár um að ísinn á Norðurskauti mundi hverfa algjörlega yfir sumartímann,  innan 5 ára eða 2011.

Þegar gervitungl NASA, bandarísku geimferðarstofnunarinnar, sýndu í síðasta mánuði að bráðnun þessa árs yrði meiri en metárið 2007 birtust sambærileg skrif og árið 2007.  Fréttamiðlar eins og BBC og The Guardian stóðu heimsendavaktina ásamt Greenpeace og WWF að þessu sinni ásamt fleirum og sögðu að nú væri komið að því.  Einn helsti trúboðinn Peter Wadhams prófessor sagði „endalokin væru að gerast og mundu vera algjör um  2015 eða 2016. 

Þegar sjórinn fór allt í einu að frjósa aftur þá sýndi NASA vídeó sem sýndi að sterkur hvirfilbylur í byrjun Ágúst s.l. hafði haft þessi áhrif á ísbreiðuna og ýtt gríðarlegu magni af ís inn á heitari sjó lengra í suðri með þeim afleiðingum að ísinn bráðnaði. Nasa sagði að þessi hvirfilbylur hefði leikið lykilhlutverk í því að metbráðnun var á ísnum á norðurskautinu

Hitamælingar NASA á yfirborðinu sýna að Norðurskautið var nokkru hlýrra upp úr 1930 en það hefur verið nokkru sinni síðan. Auk þess þá gleyma hitafræðingarnir í hræðsluáróðrinum alltaf að segja okkur frá því að pólísinn á hinum hluta jarðarinnar hefur náð metþykkt á undanförnum árum. Í síðustu viku var ísinn á Suðurskautinu örlítið frá því mesta sem hefur mælst.

Graf á vísinidablogginu „Watts up with that“  http://wattsupwiththat.com/ sýnir að íssvæði og ísþykkt jarðar hefur verið nánast það sama síðustu 33 árin eða frá 1979 þó það þynnist stundum á einum stað jarðar en þykkni á hinum. 

Við erum að tala um hnattræna hlýnun en ekki svæðisbundna ekki satt. (Byggt á grein Christopher Booker í the Daily Telegraph í dag)


Milton Friedman, Hannes Hólmsteinn og fleiri

Milton Friedman sá merki hagfræðingur fæddist 31. júlí 1912. Aldarafmæli hans er því minnst víða um heim. Milton Friedman þótti geta sett fram flóknar hagfræðikenningar á mannamáli sem er óvenjulegt fyrir hagfræðinga.

Margir hafa lesið bækur Friedman: "Markaðshyggja og frelsi" og "Frelsi til að velja" Í báðum bókunum (frelsi til að velja voru raunar sjónvarpsþættir líka) tekur hann fyrir brýn þjóðfélagmál og bendir á mikilvægi þess að einstaklingarnir, hinn frjálsi borgari hafi sem mest með sín mál að gera, en ríkið taki sér ekki valdið og stjórni á kostnað einstaklinganna.

Í upphafi bókar sinnar "Frelsi til að velja" er Friedman með tilvitnun í Lous Brandeis Hæstaréttardómara í dómi í málinu "Olmstead gegn Bandaríkjunum, þar sem m.a. kemur fram að mesta ógnin sem steðji að frelsinu sé vegna skilningslausra, velmeinandi  baráttumanna.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur fremur öðrum kynnt kenningar Milton Friedman hér á landi. Hannesi ber að þakka fyrir það. 

Við Hannes ætlum að fjalla um Milton Friedman og raunar fleiri hagfræðinga á Útvarpi Sögu þriðjudag 31.ágúst kl. 16-18.  Hannes kynntist Miltin Friedman persónulega. Það verður fróðlegt að ræða við hann um manninn og kenningar hans sem og hvernig Milton Friedman kynni að hafa litið á íslenskt þjóðfélag í dag. Einnig hvaða úrræði hann hefði talið brýnust til að auka frelsi í okkar samfélagi.

Ég tel að sjónarmið og skoðanir Milton Friedman eigi einmitt erindi í dag og er ekki í vafa um að hann hefði orðið æfur yfir að sjá að ríkisstjórnir um allan heim eru að bjarga bönkum og óráðssíumönnum í pólitík á kostnað skaggrreiðenda jafnvel í löndum sem kemur málið ekkert við. Fróðlegt að heyra hvað Hannes segir um það mál.


Þegar Grænlandsjökull var næstum bráðnaður

Reynt er með öllum ráðum að halda við óttanum um hræðilegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum.  Í síðustu viku voru sýndar myndir teknar úr amerísku gervitungli sem voru sagðar sýna að Grænlandsjökull væri allur að bráðna.

Sagt var að í fyrsta skipti í sögunni næði bráðnun Grænlandsjökuls til alls jökulsins. Hnýtt var við fréttina um þessa ógnvænlegu bráðnun Grænlandsjökuls hvaða áhrif það mundi hafa á sjávarborðið, en helst mátti skilja að það mundi hækka um nokkra sentimetra á næstu dögum.

Nokkru síðar kom í ljós að hryllingssagan var ekki sönn.  Lofthiti yfir Grænlandi hefur verið mjög hár undanfarið, þess vegna náði bráðnun á Grænlandsjökli til nokkurra sentimetra á yfirborðinu. Það skiptir litlu máli þegar verið er að tala um íshettu sem er allt að 3, þriggja  kílómetra há. 

Svo kom í ljós að þetta hafði gerst áður. Meira að segja hafði sambærileg bráðnun á Grænlandsjökli orðið árið 1889, en ekki fer sögum af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á þeim tíma. Þá er sagt að ískjarnar sýni að sambærileg bráðnun eigi sér stað á um hundrað ára millibili.

Svo gerðist það að nokkrum klukkustundum eftir að þessir sentimetrar á Grænlandsjökli bráðnuðu að þeir frusu aftur og yfirborð sjávar hækkaði ekkert. 

Skyldu margir fréttamiðlar hafa leiðrétt fréttina um bráðnun Grænlandsjökuls? Alla vega ekki RÚV eða fór það framhjá mér?


Forsetinn "sjokkerar og hræðir"

Samfylkingarkonan Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti noti alþekkta aðferð sem fólgin sé í því að "sjokkera og hræða" Hún segir að þetta sé þrælhugsuð og skipulögð "strategía" hjá forsetanum.

Sigurbjörg segir að ofannefnd bellibrögð forsetans setji spyrla og fjölmiðlamenn í óþægilega stöðu og þetta geri forsetinn meðvitað sem þaulvanur stjórnmálamaður, stjórnmálafræðingur o.s.frv.

Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur er ásamt nokkru öðru Samfylkingarfólki og Vinstri grænum fastur viðmælandi svonefnds fréttaskýringaþáttar sem nefnist Spegillinn. Þessi vinstri Spegill er nánast eini þjóðmálaþátturinn í ríkisútvarpinu. Í gær fékk Sigurbjörg rúmar 15 mínútur til að bullukollast um Ólafs Ragnars Grímssonar.

Það er sérkennilegt hvað RÚV tekur endurkjöri Óalfs Ragnars Grímssonar illa og leyfir sér að fara oft yfir mörk eðlilegrar hlutlægrar umfjöllunar í þeim efnum sem öðrum. Af sjálfu leiðir að ljóst má vera að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og hlutlæg umfjöllun um menn og málefni eiga fátt sameiginlegt. Það sást m.a. þegar Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur skrifaði í erlenda fjölmiðla eins og franska blaðið Le Monde til að gera lítið úr íslenskri þjóð. 

Hvort sem Samfylkingunni og Sigurbjörgu stjórnsýslufræðingi líkar betur eða verr þá var Ólafur Ragnar endurkjörinn forseti og tilraunir stjörnulögmanns villta vinstrisins Ragnars Aðalsteinssonar hrl. til að fá kosningarnar ógiltar munu ekki bera árangur.

Samfylkingarfólki virðist því miður um megn að virða niðurstöður kosninga í orði þegar þær eru því ekki að skapi.

Væri ekki rétt að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og nýr lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands reyndi að skilgreina það í næsta pistli sínum hvað veldur því að lýðræðisleg vitund vinstra fólks á Íslandi er jafn takmörkuð og raun ber vitni.


Hversvegna?

Fyrst gott ástand þorskstofnsins er Hafrannsóknarstofnun og kvótakerfinu að þakka.

Hverju á þá að kenna um lélegt ástand ýsustofnins?


Vindmyllur græna hagkerfisins.

Í Hollenskri skýrslu sem sagt er frá í enska stórblaðinu Daily Telegraph í gær kemur fram að vindmyllur til rafgmangsframleiðslu valdi meiri koltvísýringsmengun en þau orkuver sem knúin eru með olíu. Auk þess er kostnaður neytenda miklu hærri.

Sama gildir fyrir Bretland og væntanlega aðrar þjóðir sem hafa komið sér upp vindmyllufrumskógum eins fallegt og það nú er í landslaginu.

Hollenska skýrslan er gefin út af Dr. C le Pair sem er efnafræðingur á eftirlaunum og þar segir m.a.

" Vindmyllurnar eru ekki sjálfbærar. Þær eyða meira eldsneyti en þær spara og þær draga ekki úr útblæstri koltvísýrings. Þvert á móti þá valda þær auknum umhverfisskaða."

Þá hefur Civitas hugmyndabankinn gefið út skýrslu þar sem niðurstaðan er svipuð. Það virðist því vera niðurstaðan að hvar sem gripið er á hinu svonefnda "græna hagkerfi" að þá fylgja því meiri vandamál en það leysir.

Við búum svo vel að hafa náttúrulega orku úr iðrum jarðar og afli fossa. Þess vegna eigum við ekki að láta okkur dreyma um að fara í kostnaðarsama tilraunastarfsemi græna hagkerfisins. 


DDT er gott fyrir mig.

Ég sá myndskreytingu á tímariti Máls og menningar þar sem stóð. DDT er gott fyrir mig.  Þessi mynd minnti mig á það að vinstri elítan og umhverfisverndarsinnar og aðrir fulltrúar váfræðinnar komu því fram að undraefnið eins og það var kallað, DDT, var bannað.

En hvað er DDT?

DDT er eiturefni sem  vann kraftaverk. Þetta eiturefni drap mosquito flugur sem báru malaríu og bjargaði  milljónum mannslífa.  Þrátt fyrir þetta var DDT bannað þó að sannanir fyrir því að það ylli fólki eða búfé heilsutjóni  þegar efnið er notað með réttum hætti, væru ófullkomnar. En EPA (Environmental Protection Agency) umhverfisverndarstofnunin bannaði efnið engu að síður. Banninu var fagnað af vinstri sinnum eins og aðstandendum tímarits Máls og menningar. 

Bann EPA leiddi til minni framleiðslu á DDT og mjög takmarkaðrar notkunar. Hverjar hafa afleiðingarnar orðið? 

Á Sri Lanka voru um 3 milljónir malaríusýkinga og 7.300 dauðsföll vegna þess árið 1948. Vegna DDT þá voru sýkingarnar 1964 aðeins 17 og engin dó. Eftir að notkun DDT var hætt sýktust um 500 þúsund. 

Á milli 1950 og 1970 var malaríu nánast útrýmt og sá sem fann upp þetta undraefni Dr. Paul Muller fékk Nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 1948.  Árið 1970 var skrifað af vísindaráði Bandaríkjanna að DDT hefði komið í veg fyrir dauða 500 milljóna manna. 

Váfræðingunum gengur vafalaust oft gott til. En þeir gleyma því iðulega í offorsinu að í upphafi skyldi endirinn skoða. Þeir sem stóðu að banninu á DDt verða að viðurkenna það tjón sem þeir hafa unnið með því að banna efnið. Það er í samræmi við annað að helsta menningartímarit kommúnista á sínum tíma "Tímarit Máls og menningar." skuli telja eðlilegt að taka sérstaklega upp baráttuna gegn efninu sem bjargaði hundruðum milljóna manna á sama tíma og bannið veldur sýkingum og dauða fjölda fólks.

Væri nokkuð úr vegi að skoða þessar staðreyndir í sambandi við váfræðikenningarnar um loftslagsbreytingar af manna völdum.  Undarlegt að það eru sömu öflin í báðum tilvikum sem berjast fyrir banni á bann ofan.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 361
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 3862
  • Frá upphafi: 2513666

Annað

  • Innlit í dag: 336
  • Innlit sl. viku: 3613
  • Gestir í dag: 314
  • IP-tölur í dag: 310

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband