Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Áskorun á menntamálaráðherra

Sú ákvörðun stjórnenda Verslunarskóla Íslands, að stytta stúdentsnám um eitt ár er áskorun á menntamálaráðherra að láta hendur standa fram úr ermum varðandi þau sjónarmið sem hann hefur sett fram sem stefnumörkun í þeim málum.

Það er fráleitt að íslenskt námsfólk skuli útskrifast stúdentar tveim árum síðar en ungt fólk á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi svo dæmi séu tekin. Íslenskt námsfólk er ekki verr gefið eða seinþroskaðra en ungt fólk í nágrannalöndunum þannig að það er kerfisvilla sem veldur þessu.

Þegar búið verður að koma á þeirri nauðsynlegu kerfisbreytingu að fólk verði almennt stúdentar 18 ára að aldri þá sparar það gríðarlega fjármuni bæði fyrir einstaklinga og ríkið. Það má líka rökfæra það að brotthvarf frá námi muni þá minnka verulega. Fólk væri þá að koma út í atvinnulífið með háskólapróf 23-24 ára.

Takist menntamálaráðherra að koma þessum breytingum í kring að stytta stúdentsnámið um tvö ár þá hefur hann unnið þrekvirki og full ástæða að skora á hann að láta hendur standa fram úr ermum hvað þetta varðar.


Sannleikurinn og meirihlutinn

Í morgunútvarpinu gagnrýndi fréttastjóri Ríkissjónvarpsins nafngreindan bandarískan þingmann fyrir að vera slíkt afturhald og fáráð að draga í efa að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum. Fréttastjórinn benti á að 97% vísindamanna héldu því gagnstæða fram og þá þyrfti  ekki frekari vitnana við.

Galileo Galilei hélt því fram að jörðin snérist í kringum sólina en aðrir vísindamenn þess tíma héldu fram því gagnstæða. Galilei þurfti að vinna það sér til lífs að afneita skoðunum sínum og 99% vísindamanna þess tíma hrósuðu sigri. En samt snérist þó jörðin í kringum sólina.

Meiri hluti vísinda- og fræðimanna þurfa ekki að hafa rétt fyrir sér. Má minna á gleðidans fræðimanna um efnahagsmál fyrir hrun og hvernig þeir sem andæfðu og héldu því fram að guðdómlegi gleðileikurinn um að búa til auðæfi úr engu gengi aldrei upp voru hæddir og hrakyrtir. Eða aðgerðir vegna sel- eða hvalveiða þar sem ögfarnar bera skynsemina ofurliði.

Tim Yeo formaður nefndar breska þingsins um orkumál og loftslagsbreytingar segir að hnattræn hlýnun þyrfti ekki að vera af mannavöldum, heldur geti náttúrulegar aðstæður valdið þeim breytingum sem hafa orðið. Tim Yeo var umhverfisráðherra í ríkisstjórn John Major og harðasti baráttumaðurinn fyrir hörðum aðgerðum til að koma í veg fyrir losun kolefnis út í andrúmsloftið. Árið 2009 sagði hann að þeir sem andæfðu hnattrænni hlýnun af mannavöldum mundu þagna innan 5 ára vegna. Nú telur hann staðreyndirnar um hnattræna hlýnun af mannavöldum ekki eins augljósar. Sá stimpill verður því ekki hengdur á Tim Yeo að hann sé öfgamaður í afneitun.

Þrátt fyrir það að ég dragi í efa að meiri háttar loftslagsbreytingar stafi af mannavöldum þá skiptir samt máli að við göngum um jörðina og auðlindir hennar af virðingu og gætni.  Góð umgengni, nýting og umhverfisvernd skipta miklu máli vegna svo margra hluta sem eru mikilvægir fyrir gott líf og velferð jarðarbúa í framtíðinni. Það að hrapa að niðurstöðum á hæpnum forsendum er hins vegar allt annað mál


Báknið burt er forgangsverkefni

Forsenda þess að ríkisstjórnin geti framkvæmt þá góðu hluti sem hún lofar að framkvæma á þessu kjörtímabili er m.a. að draga mjög úr umsvifum og útgjöldum ríkisins.

Til tilbreytingar mætti fara aðra leið við að ná útgöldum ríkisins niður en norræna velferðarstjórn Jóhönnu fór.

Í stað þess að ráðast að sjúkrastofnunum, öryrkjum og öldruðum mætti skoða að skera í burtu flottheitin og fíneríið og fituna sem hefur dafnað ágætlega hjá ríkinu frá því fyrir Hrun.

Af hverju má ekki endurskipuleggja utanríkisþjónustuna miðað við nútímaþarfir í margmiðlunarumhverfi? Leggja niður sendiráð og fækka starfsfólki. Hvað með að draga úr styrkjum til stjórnmálaflokka, samtaka og félaga sem eðlilegt er að standi á eigin fótum án aðkomu skattgreiðenda. Hvað með að einfalda ríkiskerfið án þess að draga úr þjónustu með hjálp tækninnar? Hvað með að draga úr velferðarkerfi atvinnuveganna?

Spennandi verkefni bíða nýs menntamálaráðherra, en hann þarf að einhenda sér í að íslenskir námsmenn útskrifist stúdentar 2 árum fyrr en þeir gera núna þ.e. á sama aldri og í nágrannalöndum okkar.  Auk þess þarf að umbylta skólastarfinu þar sem möguleikar í margmiðlun gefa tækifæri til að bæta kennslu og fræðslu með mun minni tilkostnaði en nú.


Aðförin að stjórnarskránni misheppnast.

Aðförin sem gerð hefur verið að stjórnarskránni á þessu kjörtímabili er nú endanlega runnin út í sandinn. Þór Saari sækist eftir því að flytja líkræðuna til að ná forskoti fyrir Dögun á Lýðræðisvaktina eða hvað þeir nú heita nýjustu skemmtikraftarnir með formanninn sem klæðir sig til höfuðsins sem kúreki norðursins.

Aðförin hófst með því að hópur fólks með viðskiptafræðiprófessor í broddi fylkingar hrópaði að Hrunið væri stjórnarskránni að kenna. Á þeim tíma var þessi prófessor í nokkrum metum. Nú sjá fleiri og fleiri að þessir menn eru naktir vitrænt eins og keisarinn í Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen. Rök þeirra halda ekki.

Við erum með góða stjórnarskrá. Sambærilega þeim sem eru í nágrannalöndum okkar. Nauðsyn ber til að skoða nokkur ákvæði hennar t.d. varðandi þjóðaratkvæði, eignarráð og ráðstöfun auðlinda, en engin þörf var á að umbylta stjórnarskránni. Slík aðför hefði haft slæmar afleiðingar hefðu bestu menn ekki komið í veg fyrir það. 

Eftir að álit Feneyjarnefndarinnar lá fyrir og allir málsmetandi lögfræðingar landsins höfðu varað við samþykkt stjórnlagafrumvarpsins sem Valgerður og Jóhanna rembast enn við að styðja varð ljóst að Alþingi mundi ekki samþykkja þetta ólánsfrumvarp.

Athyglisvert er, að helsta stuðningsfólk aðfararinnar að stjórnarskránni var líka stuðningsfólk Icesave landráðasamninganna. Ef til vill segir það einhverja sögu.


Sérfræði nei takk

Valgerður Bjarnadóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Sú nefnd hefur helst fjallað um tillögur til breytinga á stjórnarskránni. Í gær gaf hún lítið fyrir sérfræðilega vinnu við stjórnarskrána.

Tilefnið var að Feneyjarnefndin skilaði athugasemdum við tillögur til breytinga á stjórnarskrá.  Athugasemdir Feneyjarnefndarinnar voru margar og þegar álit nefndarinnar er skoðað þá kemur í ljós að bak við kurteislegt orðfæri sem svona fjölþjóðlegar nefndir nota jafnan þá gefur Feneyjarnefndin  stjórnarskrártillögunum algjöra falleinkunn. 

Valgerði Bjarnadóttur þingmanni Samfylkingarinnar fannst af því tilefni rétt að taka fram sérstaklega aðspurð um álit Feneyjanefndarinnar að í nefndinni sætu lögfræðingar sem væru eins og lögfræðingar almennt en ekki væri mikið gefandi fyrir slíka pótintáta. Þeir væru sérfræðingar í lögum en töluðu ekki eins og almenningur.

Valgerður ráðleggur þá sennilega fólki í samræmi við þetta álit sitt á sérfræðingum að rétt sé að leita til pípulagningarmanna við magakveisu af því að magalæknar tali mál sem almenningur skilur ekki og fyrirtak sé að trésmiðir taki að sér lýtalækningar. Þetta er þó sagt með fullri virðingu fyrir sérfræðiþekkingu pípulagningamanna og trésmiða.

Í samræmi við þetta álit formannsins þegar um mikilvægustu löggjöf landsins stjórnarskrána er að ræða þá er rétt að leggja af allar sérfræðinefndir sem eiga að vera Alþingi til ráðuneytis um vandað löggjafarstarf og segja upp lögfræðingum sem starfa fyrir Alþingi. Þeir þvælast sennilega bara fyrir að mati formannsins.

 

 


Pólskan sækir á í Englandi.

Sagt er frá því í fréttum í dag frá Englandi að pólska sé orðin næst algengasta málið í landinu. Meir en hálf milljón segja að pólska sé móðurmál sitt í Englandi og velta þá tungumálunum Urdu og Bengali úr sessi. 

Margir hafa talið að enska yrði alþjóðamál og þannig er það raunar að felst menntafólk í heiminum talar ensku venjulega sem annað mál sitt. En það er verulega pottur brotinn varðandi það að allir tali ensku í Englandi.  Um milljón manns í Englandi segja að þeir tali litla eða enga ensku. Svo virðist sem ríkisvaldið hafi lítil áform varðandi aðlögun innflytjenda að þjóðfélaginu. Telja sennilega að það komi af sjálfu sér.

Í London eru um 20% íbúa sem tala annað móðurmál en ensku og  aðeins í þrem af 33 hverfum í London eru töluð færri en 100 tungumál. 

Óneitanlega athyglisverðar upplýsingar í landi alheimsmálsins.

 


Kynblinda

Vinur minn Guðmundur Sigurðsson aðstoðarforstjóri Samkeppnisstofnunar vakti athygli mína á fyribrigðinu kynblinda og spurði hvort ég vissi hvað það væri. Fátt varð um svör.

Guðmundur sagðist hafa rekist á frétt í dagblaði þar sem fjallað var "um tilraunaverkefni í kynjaðri fjárhags- og starfsáætlunargerð (hm!) hjá Reykjavíkurborg. Niðurstaðan var sú að fjárlög og fjárhagsáætlanir mismuni ekki kynjunum en“fjárúthlutanir eru ekki að nýtast kynjunum jafnt og er því ekki um kynhlutleysi að ræða heldur kynblindu.“

Tæpst tæmir þetta nú alveg skýringu á hugtakinu kynblindu og væri æskilegt að þeir sem ábyrgð bera á þessu nýyrði geri okkur fyllri grein fyrir fyrirbrigðinu sem sómir sér væntanlega vel við hlið fyrirbrigðisins í stóli borgarstjóra sem ég veit ekki hvort er haldinn kynblindu eða ekki miðað við skilgreiningu fréttarinnar.

Svo er spurningin hvort að kynblindir þurfi ekki á bókum að halda með kynblindraletri og kynblindrastaf til að rata ekki í ógöngur vegna kynblindunnar.


Járnfrúin, prófessorinn og tölfræðin.

Benjamin Disreli hinn merki forsætisráðherra Breta sagði einu sinni að það væri til þrenns konar lygi. Það væri lygi, helvítis lygi og tölfræði. Fyrir nokkru skrifaði ég grein vegna bókar sem fyrrum lífvörður Margaret Thatcher skrifaði um hana og lýsti henni sem mjög umhyggjusamri og hjartahlýrri konu, sem gerði allt til að starfsfólki hennar liði vel. Lífvörðurinn var upphaflega andstæðingur hennar í pólitík og varð undrandi að kynnast þessari góðu konu og taldi rétt að láta það koma fram í bók sinni.Þetta var meira en Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands gat þolað.  Ekki mátti tala vel um Thatcher. Prófessorinn segir m.a. að Jón Magnússon „lögfræðingur í Sjálfstæðisflokknum,  „var búinn að skrifa grein í dag sem hann kallar „Umhyggjusama járnfrúin“, datt mér í hug að þarna væri kominn enn ein tilraunin til að tengja frjálshyggjuna við hugmyndafræði hippana, með áherslu á friði, ást og umhyggju.“Síðar í greininni segir prófessorinn að þróun fátæktar og ójafnaðar í stjórnartíð Thatcher 1979-1990 hafi verið mikil og vísar í tölfræðiúttekt  um hlutfall barna sem búa í fjölskyldum undir fátæktarmörkum. Prófessorinn gleymir því meðvitað að greina frá því að þegar Thatcher tók við var kreppa í Bretlandi og gríðarlegt atvinnuleysi.  Á valdatíma hennar komust Bretar út úr kreppunni og hagur alls almennings batnaði til muna.  En það gildir ekki þegar reiknilíkan tölfræðinnar hans Stefáns prófessors er skoðað. Þar er reiknuð út hlutfallsleg fátækt en ekki raunveruleg. Þegar Verkamannaflokkurinn kom til valda í Bretlandi árið 1997 vöktu þeir sérstaka athygli á að 35% barna í Bretlandi lifði í fátækt.  Ekki algjörri fátækt því jafnvel þeir fátækustu voru almennt ekki í neinum vanda varðandi mat, föt, nám eða heilsugæslu.  Hlutfallsleg fátækt hét það.  Allir eru á móti fátækt og vilja vinna gegn henni. Hún er hræðileg. En hlutfallsleg fátækt þarf ekki að vera annað en gott pólitískt vígorð eins og í þessu tilviki. Í bók sinni „Crimes against logic“  eða glæpur gegn rökhyggju, talar Jamie Whyte sérstaklega um þessa birtingarmynd áróðurs Verkamannaflokksins í Bretlandi, sem félagsfræðiprófessorinn Stefán er svo hugfanginn af.  Whyte bendir á að þetta dæmi sýni með almennum hætti hvernig tölfræði geti afvegaleitt þegar byggt sé á röngum eða ófullnægjandi forsendum.  Í úttekt Verkamannaflokksins og prófessorsins var miðað við að þeir sem væru með undir 60% af meðaltekjum byggju við hlutfallslega fátækt. Það þýðir að jafnvel þó að þjóðfélagið auðgist og allir hafi það betra þá eykst jafnvel fjöldi þeirra sem búa við hlutfallslega fátækt samkvæmt þessum tölfræðikúnstunum.  Svo merkilega vill líka til að sósíalistarnir í Verkamannaflokknum og prófessor Stefán gleyma alltaf að reikna inn í formúluna sína áhrif skattlagningar og velferðarkerfisins til jöfnunar í þjóðfélaginu. Whyte bendir á sláandi dæmi í þessu sambandi: Tveir enskir skóladrengir búa hlið við hlið í áþekkum húsum í Bretlandi og ganga í sama skóla, ganga í sambærilegum fötum, stunda sömu áhugamál og fara til sama læknis þegar þeir eru veikir.  Efnaleg velferð þeirra er sú sama að öllu leyti nema að því leyti að annar fær 10 pund í vasapeninga en hinn 5 pund.  Samkvæmt þeim tölfræðikúnstum sem prófessor Stefán Ólafsson og Verkamannaflokkurinn byggja á þá er sá sem fær 5 pundin hlutfallslega fátækur þó hann hafi allt til alls og mismunur á efnalegri velferð beggja drengjanna sé ekki umtalsverður.

Tölfræðin getur verið varasöm og stundum verri en bölvuð lygi prófessor Stefán Ólafsson. Þar fyrir utan var sérstakt að prófessor eins og Stefán skyldi hlaupa svona upp á nef sér bara af því að fjallað var um Margaret Thatcher persónulega og kosti hennar.

(Grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu á þriðjudaginn 8.1. (Stefán Ólafsson er greinilga ekki áskrifandi að Morgunblaðinu því að í dag heldur hann áfram með tölfræðikúnstir sínar í pistli)

 

Breska veðurstofan endurskoðar spár um hnattræna hlýnun.

Frá því er sagt í dag að breska veðurstofan hafi breytt um spá um hnattræna hlýnun og geri ráð fyrir að árið 2017 þá hafi meðalhitinn verið nánast sá sami  í 20 ár. Nýar vísindaspár gera jafnvel ráð fyrir kólnun næstu 5 árin. En þeir segja í leiðinni að þrátt fyrir að þeir spái kólnun næstu 5 árin þá segi það ekki söguna um hvernig hnattræn hlýnun verði til lengri tíma litið. Heyr fyrir þeim. Loksins er hægt að fara að tala vitrænt um þessi mál.

Hlýjasta árið í Bretlandi í 160 ár var árið 1998. Svo virðist því sem eitthvað hafi komið í veg fyrir hnattræna hlýnun af mannavöldum í þau 14 ár sem liðin eru frá þeim tíma. Dr. Peter Stott yfirmaður lotslagsbreytingarannsókna á bresku veðurstofunni segir að hægt hafi á hlýnun frá árinu 2000 í samanburði við hlýnunina sem varð milli 1990 og 2000. 

Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð óafturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.

Fróðlegt verður að heyra hvað trúboði hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum Al Gore fyrrum varaforseti Bandaríkjanna segir um málið. Hann var raunar svo vinsamlegur að bjóða Forseta lýðveldisins með sér á Suðurskautið fyrir skömmu og þar komust þeir að því að ísinn á Suðurskautinu væri að minnka meðan aðrir vísindamenn og mælingar segja að hann sé að aukast.

Ævintýrið um hnattræna hlýnun af mannavöldum er dýrasta ævintýrið sem mannkynið hefur nokkurn tíma látið sér detta í hug að trúa á.  Það breytir hins vegar ekki því að okkur ber að ganga vel um náttúruna en það er annað mál og kemur ævintýrinu um  hnattrænu hlýnuninni ekkert við.


Burt með sérfræðinga

Lýður Árnason læknir, sem sat í stjórnlagaráði birtir grein í Fréttablaðinu. Meginniðurstaðan er sú að Alþingi verði að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs og megi ekki láta sérfræðinga koma að málinu.

Orðrétt segir: "Ruglumbull er að láta sérfræðinga tefja för þess frekar." Síðar segir læknirinn "Þinginu ber því  skylda til að standa við sinn hlut og samþykkja nýja stjórnarskrá óbreytta fyrir þinglok."´

Lýður telur ranglega að stjórnlagaráð hafi fengið umboð til að taka stjórnarskrármálið í eigin hendur og þeir sem þvælist fyrir séu óvinir þjóðarinnar. Sérstaklega á það við sérfræðinga að mati læknisins, sem geti sullumbullast við að ruglumbullast gegn heilögum tillögum stjórnlagaráðs.  

Stjórnlagaráðsliðar voru hvorki alvitrir né óskeikulir. Einn sérfræðingur bendir  t.d. á,  að yrðu tillögur stjórnlagaráðs samþykktar þá mundu útlendingar fá aðgang að auðlindum þjóðarinnar til jafns við Íslendinga. Heldur læknirinn að það sé þjóðarvilji að framselja auðlindirnar til útlendinga eins og stjórnlagaráð leggur til?

Af grein læknisins má ætla, að hann telji að komist grasalæknir sem hluti fólks treystir, að þeirri niðurstöðu að maður sé með hjartasjúkdóm, þá beri að fara að öllum ráðum grasalæknisins. Ekki megi kalla til hjartasérfræðinga eða sérhæft hjúkrunarfólk til sjúkdómsgreiningar eða aðgerða.

Læknirinn og frambjóðandi Dögunar vill vísa sérfræði á bug og láta kukl, vangetu og vanþekkingu ráða ferð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 291
  • Sl. sólarhring: 302
  • Sl. viku: 3792
  • Frá upphafi: 2513596

Annað

  • Innlit í dag: 273
  • Innlit sl. viku: 3550
  • Gestir í dag: 259
  • IP-tölur í dag: 255

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband