Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Af hverju ekki hvalkjöt?

Nokkrir eigendur veitingastaða telja það sér til tekna að lýsa því yfir að þeir bjóði neytendum ekki upp á hvalkjöt. Ég veit ekki til að nokkur af þessum stöðum hafi nokkru sinni boðið viðskiptavinum sínum upp á hvalkjöt þannig að hér er þá ekki neitt nýtt á ferðinni nema yfirlýsingin.

Óneitanlega hefði viðskiptavinum nokkurra af þeim kaffistöðum sem auglýsa hvalkjötsskort brugðið í brún ef hvalkjöt hefði allt í einu birst á matseðlinum auk kaffibrauðs og Hnallþóra sem þar eru jafnan í boði. Sama er að segja um veitingastaði fyrir grænkera sem eru ekki með  kjöt á boðstólum.

Undirtónninn í yfirlýsingunni er þó alvarlegur. Talsmaður hvalkjötsyfirlýsingarinnar lætur í veðri vaka að það sé siðferðilega ámælisvert að bjóða upp á hvalkjöt eða borða það.  Af hverju? Dýrin eru ekki í útrýmingarhættu. Ekki er um verri meðferð á dýrum að ræða en gengur og gerist við kjötframleiðslu.

Barátta gegn loðdýrarækt og selveiðum er jafnundarleg. Einhver háskólaspekingur kom með gjörsamlega rakalaus andmæli gegn loðdýrarækt í fyrradag. Slík andmæli eru raunar ekki ný af nálinni. Brigitte Bardot sem einu sinni var fræg fyrir fríðleika fór í tildurklæðnaði sínum á norðurslóðir til að mótmæla veiðum og vinnslu selaafurða og það hafa ýmsir aðrir gert án nokkurra skynsamlegra raka. 

Rómantískir sveimhugar víða um heim virðast telja að nauðsyn beri til að koma í veg fyrir að fólk á norðurslóðum nýti með sjálfbærum hætti þau gæði sem náttúran býður upp á. Rökin eru alltaf tilfinningaþrungin, en án hagrænnar eða vistræðilegrar skírskotunar.

Það er slæmt að veitingahúsaeigendur skuli taka þátt í svona auglýsingaherferð. Með sömu rökum og sjónarmiðum mætti mótmæla ansi mörgu sem finnst á matseðli sumra þeirra.

 


Gáfumannafélagið fellur á enn einu prófi

Gáfumannafélagið undir forustu Egils Helgasonar pistlahöfundar á Eyjunni finnur nú Brynjari Níelssyni alþingismanni allt til foráttu. Brynjar er kallaður nettröll, heimskur og jafnvel geðveikur.

Ástæða þessara skrifa Egils og aðdáenda er sú að Brynjar skrifaði málefnalega grein fyrir nokkrum dögum um starfsemi embættis Sérstaks saksóknara. Í grein Brynjars kom fram m.a. hvað ákært hefði verið í fáum málum sem vörðuðu gjaldþrot stóru viðskiptabankanna 2008 og ekkert málanna varðaði í raun það að banki eða bankar fóru í þrot.  Þá benti Brynjar á hvað gríðarlegur fjöldi mála hefði verið felldur niður af Sérstökum saksóknara, sem er að hluta til vegna þess að Gunnar Andersen þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins skóflaði til hans lítt eða óunnum og ónýtum málum undir húrra- og fagnaðarhrópum Egils Helgasonar og Þorvaldar Gylfasonar prófessors.

Allt eru þetta staðreyndir sem Brynjar fjallar um og ekkert af þessum atriðum varðar andlega hæfi hans. Umfjöllun Brynjars er innlegg í málefnalega umræðu um staðreyndir.

Þessir forustumenn hins eina sannleika bankahrunsins, þeir Egill Helgason og Þorvaldur Gylfason sporgöngumenn Evu Joly virðist í mun að girða fyrir málefnalega og vitsmunalega umræðu um staðreyndir málsins. Sjálfsagt vegna þess að við skoðun kemur í ljós að það stendur ekki steinn yfir steini af fullyrðingum þeirra eða Evu Joly varðandi gjaldþrot bankanna í kjölfar gjaldþrots þeirra.

Umræða eins og sú sem Egill Helgason stendur fyrir sem miðar fyrst og fremst að því að vega að einstaklingi og hæfileikum hans í stað þess að fjalla málefnalega um efnisatriði er í samræmi við þá greindarlegu hugsun hans og Þorvaldar Gylfasonar að bankarhrunið sé stjórnarskránni að kenna.


Er tími til kominn?

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi segir að það vanti 700 milljarða í lífeyriskerfið þrátt fyrir skerðingar.   Hvað er til ráða. Hækka lífeyrisaldur upp í 70 ár e.t.v. 75 ár. Hækka iðgjöld upp í 19%. Breyta um kerfi.

Hvað með að láta það vera hlutverk ríkisins að annast um heilbrigðismál og vistun aldraðra sem og annarra. Hvað fólk sparar að öðru leyti ætti að vera mál þess sjálfs. Tónleikar, leikhúsferðir, utanlandsferðir eða annað í ellinni á að lúta sömu lögmálum og annarra borgara. Það þarf ekki þvingaðan sparnað í lífeyrissjóði til þess.

Hvernig ætlum við að komast í gegn um erfiðleika sem blasa við eins og svokallaða snjóhengju upp á rúma 500 milljarða. Lífeyrissjóðsvanda upp á rúma 700 milljarða. Einna skuldugustu fyrirtæki og fjölskyldur í Evrópu. Launakjör sem duga vart til framfærslu hjá stórum hluta launþega.

Það er kominn tími til að hugsa þetta upp á nýtt. Hvað með að láta markaðslausnir ráða í stað þess að hneppa borgarana í stöðugt meiri sósíalíska ánauð ofurskatta og ofurgjalda til lífeyrissjóða. Svo ekki sé minnst á lánskjör sem miðast við hagsmuni lífeyrissjóða en hvorki eðlilega vaxtatöku á markaði né almenn sjónarmið varðandi lánakjör.

Er ekki tími til kominn að velja leið frelsisisins en hafna ánauðinni?


Fjölmiðlar, arabíska vorið eða hvað?

Arabíska vorið var það kallað þegar forseta Túnis var steypt af stóli eftir að óeirðir urðu í landinu eftir að Mohammed Bouazizi kveikti í sér og brann á fjölförnu markaðstorgi fyrir tveim árum. Í framhaldinu urðu mótmæli í Cairó og Moubarck Egyptalandsforseta var steypt af stóli. Þá var röðin komin að Ghaddafi einræðisherra í Líbýu og hann var drepinn með aðstoð Breta og Frakka.

Vestrænir fjölmiðlar fóru hamförum og dásömuðu frelsisþránna sem birtist í mótmælunum en könnuðu aldrei hvað var á ferðinni og skrifðu fréttir sem gáfu iðulega alranga mynd af því sem var að gerast. Fjölmiðlafólki liggur svo mikið á að segja frá atburðum að þeir mislesa iðulega það sem er að gerast, kynna sér ekki sögu eða menningu og gefa því iðulega alranga mynd af þeim atburðum sem eiga sér stað.

Nú spyrja margir hvort við séum þessa daganna að horfa á Arabíska vorið spilað aftur á bak eftir að Egypski herinn hefur aftur tekið völdinn ógilt stjórnarskrána og vikið forsetanum úr embætti. En um hvað snérist og snýst þetta allt þarna í Norður Afríku?

Maðurinn sem brenndi sig í Túnis var ekki að kalla eftir lýðræði heldur frjálsri markaðsstarfsemi öðru nafni kapítalisma. Hann var að mótmæla aðferðum lögreglunnar sem hafði gert notuðu raftækin sem hann seldi og innkomu upptæka. Sagt er að það hafi tekið undir stjórn Moubarak um 500 daga að fá leyfi fyrir smásöluverslun og það þurfti að eiga við 29 stjórnarstofnanir. Lítið lagaðist skrifræðið í stjórnartíð Morsis.

Hernando de Soto hagfræðingur frá Perú rannsakaði ástæður ókyrrðarinnar í Norður Afríku og komst að þeirri niðurstöðu að mótmælin væru til að ná fram grundvallarmannréttindum eins og starfs- og eignarréttindum. Hann sagði í skýrslu til Bandaríkjaþings að fólk á Vesturlöndum hefði misskilið það sem væri að gerast þarna og krafan væri fyrst og fremst um vernd grundvallarmannréttinda eins og starfs- og eignarréttar. Með því að sinna þessum kröfum og gera það að skilyrði aðstoðar að þessi grunnmannréttindi væru virt þá gætu Vesturlönd eignast milljónir nýrra vina í þessum ríkjum.

Vandamálin í þessum löndum eru mikil og um helmingur íbúanna eru 25 ára og yngri.  Spurningin er hvort þessi ríki þurfi ekki einmitt á sama meðali að halda og Alþýðulýðveldið Kína á sínum tíma. Aukna markaðshyggju og meiri virðingu fyrir atvinnu- og séreignarrétti.


Ríkisbankar og bankahrun

Margir trúa því að ríkisbankar séu þeirrar náttúru að þeir fari ekki á hausinn. Margir héldu því fram við bankahrunið, að stofna bæri ríkisbanka í stað einkabanka. Skýrsla um starfsemi Íbúðalánasjóðs var birt í dag. Staðreyndin er sú að Íbúðalánasjóður er margfalt gjaldþrota og hefur tapað yfir 370 milljörðum.

Íbúðalánasjóður sem átti að hafa með höndum einfalda og örugga banka-og fjármálastarfsemi fór samt á hausinn. Ekki var þar um að kenna græðgisvæðingu og frjálshyggju, sem fyrrum forsætisráðherra og einn helsti örlagavaldur Íbúðalánasjóðs Jóhanna Sigurðardóttir taldi orsök falls einkabanka árið 2008.

Annar hópur opinberra og hálfopinberra fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóðirnir, sem fólk verður nauðugt viljugt að borga 12% af tekjum sínum samkvæmt þrælalögum frá Alþingi hafði tapað við hrun um 600 milljörðum.

Samtals hafa þessar opinberu og hálfopinberu fjármálaaðilar tapað um 1000 milljörðum eða sem svarar til nokkrum snjóhengjum og þrefallt því sem þarf til að lagfæra verðryggingarhallann fyrir almenning með niðurfærslu höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Enn stjórna þeir sömu og áður þessum opinberu og hálfopinberu sjóðum nema þeir hafi horfið til annarra starfa eða hætt fyrir aldurs sakir.

Versta fyrirbrigði í fjármálaheiminum eru einkabankar sem reknir eru á ábyrgð skattgreiðenda. Í ljósi þessara staðreynda er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort sé betra ríkisbankar á ábyrgð skattgreiðenda eða einkabankar á ábyrgð eigenda sinna.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þá ekki einkareksturinn á ábyrgð eigenda besti kosturinn?

  

 

 


Flöt lækkun lána og OECD

Nú berst sá erkibiskups boðskapur frá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD að flöt lækkun lána sé óráðleg. Einkum þvælist fyrir OECD að þessi lækkun muni ekki nýtast þeim sérstaklega sem geta ekkert borgað hvort sem er.  

OECD gefur reglulega út skýrslur um efnahagsmál og við skoðun skýrslna fyrir hrun verður ekki séð að við þurfum að sækja sérstaklega og alltaf í boðskap þeirra. Þá skoða spekingarnir hjá OECD ekki misgengið á íslenskum lánum vegna verðtryggingarinnar. Þeir skilja ekki að hér er um réttlætismál að ræða.

Í öllum OECD löndum hefur iðulega verið um flata lækkun lána að ræða. Það gerist í verðbólgu þegar neytendalán eru óverðtryggð eins og í öllum OECD löndum nema á Íslandi.

Þjóðir sem lenda í kreppum og fjárhagsvanda eru venjulega 2-4 ár að vinna sig út úr því vegna þess að verðbólga tryggir flata niðurfærslu lána. En verðbólga fylgir alltaf slíkum hremmingum. Hér gilda ekki þau lögmál vegna þess að það er nefnilega vitlaust gefið.


Kastið ekki náttúruperlum fyrir Orkuveituna eða Landsvirkjun

Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti er einn fallegasti ef ekki fallegasti foss á Íslandi. Umhverfi fossins er einstakt og stuðlabergsskálin sem hann rennur um er mjög sérstök. Iðulega hef ég sagt ferðamönnum að það sé þess virði að leggja þá löngu lykkju á leið sína, sem þarf ef þjóðvegur 1 er ekinn til þess að skoða þennan fallega foss. Enginn hefur orðið fyrir vonbrigðum. Þvert á móti hafa allir þakkað mér fyrir ábendinguna og lýst því hvað þeim þyki Aldeyjarfoss mikil náttúruperla.

Nú vilja Orkustofnun og Landsvirkjun virkja við Aldeyjarfoss og hafa sótt um rannsóknarleyfi. Það leyfi á ekki að veita. Þó ég sé almennt hlynntur vatnsaflsvirkjunum þá er mikilvægt að banna virkjanir til að vernda viðkvæma náttúru og náttúruperlur.

Aldeyjarfossi á ekki og má ekki fórna  undir virkjun eða eitthvað annað. Aldeyjarfoss á að vera í sama verndunarflokki og Gullfoss. Náttúruperlur sem núkynslóðin má ekki fórna á altari græðgisvæðingarinnar. 


Seðlabankinn gegn ríkisstjórninni?

Seðlabankinn segir fyrirhugaða skuldaleiðréttingu verðtryggðra lána dýra og ómarkvissa og leggst gegn skuldaleiðréttingu sem ríkisstjórnin hefur boðað. Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri fer einnig mikinn og telur alla hafa orðið fyrir forsendubresti og því sé það ekki réttlátt að gera neitt. 

Jónas og Seðlabankinn ættu að skoða að árið 2008 ábyrgðist íslenska ríkið allar innistæður í íslenskum bönkum hérlendis. Sú ábyrgðaryfirlýsing var aldrei borin undir Alþingi og Seðlabankinn hefur aldrei látið í ljósi vanþóknun á þeirri aðgerð. Sumir áttu þá hundruði milljóna á bankareikningum sem verðtryggingarþrælarnir þurftu að axla ábyrgð á.

Forsendubresturinn varðandi hækkun á verðtryggðu lánunum var fyrirséður við hrun. Ég benti á það sérstaklega og ítrekað í umræðum á Alþingi og krafðist þess að sett yrðu neyðarlög fyrir neytendur sem tækju verðtrygginguna úr sambandi meðan fár kyrrstöðuverðbólgunarinnar riði yfir. 

Það átti öllu sæmilega menntuðu fólki að vera ljóst að það sama mundi gerast hér og alls staðar þar sem bankahrun hefur orðið eða greiðslufall ríkis. Þess vegna skipti svo miklu til að gæta jafnræðis og réttlætis að taka verðtrygginguna úr sambandi. Það voru verstu mistök ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að taka ekki verðtrygginguna úr sambandi og höfuðábyrgð á því ber Jóhanna Sigurðardóttir og þvergirðingshættinum við að sinna réttlætiskröfum fólksins s.l. fimm ár.

Það kostar að leiðrétta mistök aftur í tímann og þannig verður það líka með leiðréttingu verðtryggingarokursins. Sá kostnaður er fyrst og fremst vegna skammsýni síðustu ríkisstjórnar og sem skynjaði ekki mikilvægi skuldaleiðréttingar og hafði ekki nægjanlega ríka réttlætiskennd til að taka á málinu.


Veiðigjald og beint lýðræði

Það hentar okkur greinilega vel sem þjóð að tala út í það óendanlega um hlutina setja fram tillögur en gera síðan ekkert með það. Þannig er það með hugmyndir um beint lýðræði og setja ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Margt bendir til að starfsemi þjóðþinga í hefðbundnum lýðræðisríkjum hafi takmarkaðri þýðingu en áður. Með hvaða hætti á þá að tryggja eðlilegri lýðræðislegri starfsemi framgang er það með þjóðaratkvæðagreiðslum eða með einhverjum öðrum hætt?

Beint lýðræði í formi aðgengileika að þjóðaratkvæðagreiðslum hefur gefist vel í Sviss en miður í Kaliforníu. Í Sviss hafa menn haft aðgengi að þessu formi beins lýðræðis í meir en 100 ár og það hefur gefist mjög vel og segja má að jafnan þegar þing og þjóð eru ósammála þá hafi þjóðin haft rétt fyrir sér með sama hætti og í Icesave málunum hjá okkur.

Vandamál Kaliforníu er ekki síst vegna þess að þar er verið að greiða þjóðaratkvæði um skattlagningu og það virðist ekki ganga vel og Kalifornía iðulega verið á barmi gjaldþrots.

Margir telja af þeim sökum að nauðsynlegt sé að skattamál séu undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslum.  Sjálfur mundi ég gjarnan vilja sjá alla ósanngjarna skatta falla brott eða lækka eins og virðisaukaskatt, tekjuskatt sem og tryggingagjald. Ef til vill er það íhaldssemi að vilja ekki láta þjóðina greiða atkvæði um slíka hluti.

Með sama hætti er það með veiðigjaldið og hvað það á að vera hátt. Þar er einnig um grein af sama meiði að ræða þ.e. skattlagning. Spurning er hvort það henti að greidd séu þjóðaratkvæði um að lögð séu sérstök gjöld af hálfu ríkisins á suma og hversu hátt það skuli vera. 

Hér er vakið máls á þessu vegna þess að það skiptir máli að koma sem fyrst á virkara lýðræði í landinu með beinni aðkomu kjósenda, en spurning er hvar takmarkanirnar skuli vera til að borgurum landsins verði ekki mismunað og eðlileg starfsemi stjórnvalda geti haldið áfram.


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna III

Mikilvægustu tillögur forsætisráðherra vegna skuldavanda heimilanna eru höfuðstólsleiðréttingar verðtryggðra skulda og afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Önnur atriði sem nefnd eru felast í eins konar lyklafrumvarpi þ.e. að eigendur yfirveðsettra íbúða geti skilað þeim án þess að þola gjaldþrotameðferð í framhaldinu vegna ógreiddra húsnæðisskulda.  Hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða fyrir venjulegt fólk sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði á þenslu og verðbólgutímum.

Afnema á stimpilgjalda vegna kaupa á húsnæði til eigin nota og frumvarp þess efnis lagt fyrir á haustþingi 2013. Ég flutti frumvarp þessa efnis þegar ég sat á þingi og það mætti dusta rykið af því og hér með gef ég Bjarna Benediktssyni sem hefur umsjón með verkefninu höfundarréttinn.

Sum önnur atriði í tillögum forsætisráðherra skipta litlu eða engu máli eða eru langtímaverkefni. Þannig verður ekki séð réttlæting sérstakrar gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum vegna endurútreiknings gengistryggðra lána nema um skaðabótaábyrgð sé að ræða. Ríkið getur fellt niður gjaldtöku vegna gjaldþrota einstaklinga og auðveldað eignalausum einstaklingum að óska eftir gjaldrþoti. Ekki flókið.

Hvað sem þessu öllu líður þá er það fyrst og fremst afnám verðtryggingar og niðurfærsla höfuðstóla sem skipta máli fyrir venjulegt fólk. Það skiptir máli að þar verði hendur látnar standa fram úr ermum og gerðar þær leiðréttingar sem sanngjarnar eru og nauðsynlegar.  Það þýðir ekkert hálfklák. Með myndarlegum aðgerðum í þessum efnum skapast grundvöllur til nýrrar sóknar þjóðarinnar til farsælli og hamingjuríkari framtíðar.

Aukinn hagvöxtur og einkaneysla mun þá knýja áfram þær aflvélar þjóðfélagsins sem skipta mestu til að ná fram verulegum kjarabótum og hagsæld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 80
  • Sl. sólarhring: 807
  • Sl. viku: 3135
  • Frá upphafi: 2604853

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 2944
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband