Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna II.

Forsætisráðherra leggur til að skipaður verði sérfræðihópur um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Með neytendalánum virðist forsætisráðherra miða við verðtryggðar lánveitingar til neytenda hvort heldur er til húsnæðiskaupa eða annars. Verkefni sérfræðingahópsins er að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána.

Hér er ekki gengið nógu langt. Nokkur óvissa gildir um það hvort verðtryggð neytendalán séu lögleg. Löng og óslitin lagaframkvæmd gæti haft þýðingu við mat á því. Hins vegar virðist nokkuð ljóst að verðtrygging neytendalána mundi ekki standast lög ef setja ætti hana á núna.

Verði verkefni sérfræðingahópsins að útfæra afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum er verkefni hans einfalt og mætti ljúka starfinu fyrir helgi og leggja frumvarp fyrir sumarþing til að ljúka þeim þætti málsins.

Raunar hefur almenningur í landinu flúið verðtryggðu lánin í nokkur ár með sama hætti og fólkið sem bjó við Kommúnismann greiddi atkvæði með fótunum gegn Kommúnismanum og flúði í frelsið til Vesturlanda. Ríkisstjórnin verður að gefa þeim sem bundnir eru á klafa verðtryggingarinnar kost á að flýja hana og njóta frelsis í stað helsis verðtryggðra skulda.

Mikilvægt er að víkka verkefni sérfræðingahópsins og miða við að hópurinn útfæri afnám verðtryggingar neytendalána jafnt gamalla sem nýrra. 


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna I.

Forsætisráðherra hefur kynnt tímasetta aðgerðaráætlun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Þær hugmyndir lofa góðu og tímamörk sem einstökum ráðherrum eru sett til að ljúka vinnunni.

Miðað er við það í tillögu forsætisráðherra að ná fram leiðréttingu verðtryggðra höfuðstóla lána vegna verðbólguskots áranna 2007-2010.  Verðbólguskotið sem talað er um hófst raunar ekki að marki fyrr en í janúar árið 2008 og var komið niður í þokkalega ástættanleg mörk í júní árið 2010. Annað verðbólguskot kom frá júlí 2011 til júlí 2012. 

Viðmiðun forsætisráðherra er að leiðrétta verðtryggða höfuðstóla á ákveðnu tímabili. Einfaldasta leiðin, sem tryggir fullt jafnræði, er sú að taka vísitölu verðtryggingar úr sambandi frá því í janúar 2008 til júní 2010. Höfuðstóll lánanna yrði þá óbreyttur að frádregnum greiðslum inn á höfuðstól frá 1.1.2008 til 1.6.2010. Höfuðstólshækkun mundi þá ekki reiknast fyrr en í júní 2010 af höfuðstólnum 1. janúar 2008 miðað við vísitöluhækkun m.v. næsta mánuð á undan. Uppfærður höfuðstóll miðað við þennan útreikning mundu skuldarar síðan geta breytt í óverðtryggð lán með 2% hærri ársvöxtum en verðtryggðu lánin bera frá og með 1.1.2014. 

Þessi leið sem hér er bent á er einföld, sanngjörn og mismunar ekki skuldurum. Varla er hægt að ganga skemur í leiðréttingu stökkbreyttra höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Vissulega kostar þessi leið, en sá kostnaður er fyrst og fremst því að kenna að stjórnmálamenn neituðu að taka á þessum vanda þegar átti að taka á honum í október 2008 og vandinn varð verri og verri í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Forsætisráðherra hefur með framsetningu sinni hvað varðar niðurfærslu stökkbreyttra verðtryggðra höfuðstóla  stigið jákvæðasta skrefið sem ráðamaður í landinu hefur stigið frá bankahruni og fram til þessa.

Þessa vinnu verður að vinna hratt vegna þess að hver mánuður sem líður er dýr.


Þegar ríkið stal gjaldeyrinum.

Ástmundur hefur lengi verið skrifstofustjóri á ríkisstofnun. Hann segir farir sínar ekki sléttar. Hann sagði að vegna tíðra utanlandsferða fyrir ríkið, hafi hann jafnan fengið farareyri, en þar sem hann er maður sparsamur hafi hann alltaf átt fyrningar og lagt afganginn inn á gjaldeyrisreikninga í Evrum og Bandaríkjadölum. Sama sagðist Ástmundur hafa gert með annan erlendan gjaldeyri sem hann fékk. 

Ástmundur  á rúmlega 100 þúsund Evrur á gjaldeyrisreikningnum  og álíka mikið í Bandaríkjadölum. Fyrir nokkru afréð Ástmundur að festa kaup á íbúð á Costa del Sol. Vegna íbúðarkaupanna ætlaði Ástmundur að millifæra af gjaldeyrisreikningunum sínum en þá kom babb í bátinn.

Ástmundur segir að bankafólkið hans hafi sagt að hann ætti engan gjaldeyri. Þessir reikningar hans væru reikningseiningar í erlendum gjaldmiðli en hann ætti hvorki Evrur né Bandaríkjadali. Ástmundur segist hafa hváð og fengið þetta ítrekað þrátt fyrir að hann hafi alltaf lagt inn gjaldeyri á reikningana.

Ríkið plataði Ástmund til að leggja inn gjaldeyri og stal honum síðan og býður honum að fá greitt í íslenskum krónum.  Ástmundi finnst að þessi þjófnaður á gjaldeyrinum hans jaðri við hegningarlög.

Nú krefst Ástmundur þess að hann sitji við sama borð og erlendir kröfurhafar í bankana. Fái kröfuhafarnir greitt í gjaldeyri þá ætlar Ástmundur að krefjast þess á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að hann fái líka greitt af gjaldeyrisreikningunum sínum í gjaldeyri. Ástmundur skilur hreint ekki að annað eigi að gilda fyrir hann en erlendu kröfuhafana.

 


Til hvers sumarþing?

Stjórnarandstaðan segist hafa fengið fundarboð á sumarþing með matseðli eldhúss Alþingis. Slíkt fundarboð er óvenjulegt en ekki úr takti við soðbrauðið og aðrar krásir sem fjölmiðlar röktu svo rækilega að væru á borðum formannanna við stjórnarmyndunina.

Óháð fundarboðinu þá er spurning af hverju verið er að boða til sumarþings.  Slíkt er eðlilegt ætli ríkisstjórnin að beita sér fyrir breytingum á lögum sem ekki mega bíða til haustsins í stað þess að beita bráðabirgðalögum. 

Vissulega er eðlilegt að boða sumarþing til að afnema verðtryggingu á neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum neytenda þegar í stað. Einnig er mikilvægt að nota tækifærið í sparnaðarskyni til að leggja af stofnanir og rekstur sem ríkisstjórnin telur að ekki sé á vetur setjandi.  Ekki verður séð að önnur mál kalli sérstaklega á sumarþing.

Við andstæðingar verðtryggingar á neytendalánum getum því verið vongóð um að ríkisstjórnin láti það mál til sín taka eigi síðar en í næstu viku.

 


Báknið burt er forgangsverkefni

Forsenda þess að ríkisstjórnin geti framkvæmt þá góðu hluti sem hún lofar að framkvæma á þessu kjörtímabili er m.a. að draga mjög úr umsvifum og útgjöldum ríkisins.

Til tilbreytingar mætti fara aðra leið við að ná útgöldum ríkisins niður en norræna velferðarstjórn Jóhönnu fór.

Í stað þess að ráðast að sjúkrastofnunum, öryrkjum og öldruðum mætti skoða að skera í burtu flottheitin og fíneríið og fituna sem hefur dafnað ágætlega hjá ríkinu frá því fyrir Hrun.

Af hverju má ekki endurskipuleggja utanríkisþjónustuna miðað við nútímaþarfir í margmiðlunarumhverfi? Leggja niður sendiráð og fækka starfsfólki. Hvað með að draga úr styrkjum til stjórnmálaflokka, samtaka og félaga sem eðlilegt er að standi á eigin fótum án aðkomu skattgreiðenda. Hvað með að einfalda ríkiskerfið án þess að draga úr þjónustu með hjálp tækninnar? Hvað með að draga úr velferðarkerfi atvinnuveganna?

Spennandi verkefni bíða nýs menntamálaráðherra, en hann þarf að einhenda sér í að íslenskir námsmenn útskrifist stúdentar 2 árum fyrr en þeir gera núna þ.e. á sama aldri og í nágrannalöndum okkar.  Auk þess þarf að umbylta skólastarfinu þar sem möguleikar í margmiðlun gefa tækifæri til að bæta kennslu og fræðslu með mun minni tilkostnaði en nú.


Stjórnarsáttmáli og verðtrygging

Það er röng staðhæfing í stjórnarsáttmálanum að skuldavandi heimila sé tilkominn "vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins."

Höfuðstólshækkanir verðtryggðu lánanna voru að öllu leyti fyrirsjáanlegar og á það benti ég í þingræðu sama dag og neyðarlögin svokölluðu voru samþykkt í október 2008 og krafðist að sett yrðu neyðarlög fyrir heimilin í landinu þar sem verðtryggingin yrði tekin úr sambandi þá strax.

Það þurfti engan spámann til að sjá fyrir höfuðstólshækkanir verðtryggðra lána, lækkun fasteignaverðs og lækkun launa við hrun fjármálafyrirtækjanna. Það gerist alls staðar á öllum tímum þegar slík kreppa dynur yfir. 

Norræna velferðarstjórnin gerði ekkert af viti varðandi skuldavanda heimilanna og þess vegna er sá skuldavandi eitt brýnasta vandamálið að leysa til að stuðla að jafnræði neytenda og fjármagnseigenda sem og koma hjólum efnahagslífsins í gang.

Brýnast er að afnema verðtryggingu á neytendalánum þegar í stað. Ekki bíða til áramóta og láta málið þæfast í nefnd. Það er ekki flókin lagabreyting að afnema verðtryggingu á neytendalánum.

Hitt er flóknara að færa niður höfuðstóla og í þá vegferð verður að fara af mikilli varfærni og nákvæmni til að hún nýtist sem best og kosti skattgreiðendur sem minnst. 

Það er hins vegar ekki ásættanlegt að leiðrétting verðtryggðu höfuðstólanna sé miðuð við árin 2007-2010. Væri ekki rétt að taka líka höfuðstólshækkunina á verðtryggðu lánunum frá því að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti árið 2011 að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður höfuðstóla.  Frá þeim tíma hafa höfuðstólar verðtryggðu lánanna hækkað meir en 100 milljarða.

Það er alltaf dýrt að vera vitur eftir á.  Það er gæfa þjóða að eiga stjórnmálaleiðtoga sem eru vitrir þegar á þarf að halda og hafa þekkingu og menntun til að takast á við verkefnin af skynsemi strax.

Vonandi erum við að fá slíka leiðtoga.


Hver er á beit í buddunni þinni?

Stofnaður hefur verið "Samráðvettvangur" skipaður stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar og fleirum. Margt hefur vettvangurinn bent nýtilegt og gagnlegt. Annað orkar tvímælis

Vettvangurinn bendir á þá staðreynd, að bankastarfsmenn og útibú séu hlutfallslega fleiri en í nágrannalöndunum og kostnaður neytenda miklu meiri. Sama gildir um verslun með lengsta afgreiðslutíma, flesta verslunarfermetra og flest verslunarfólk á hvern íbúa. Vöruverð er því mun hærra en í nágrannalöndunum.  Ríkisvaldið verður því að stuðla að virkri samkeppni en leiðin til þess er að afnema allar hömlur í viðskiptum fólksins. Það leggur vettvangsfólk þó ekki til. 

Raunar féll Vettvangurinn á fyrsta prófi skynseminnar þegar lagt var til að hætta samkeppnishamlandi aðgerðum ríkisvaldsins í svína- og kjúklingaframleiðslu,en ríghalda í hæstu landbúnaðarstyrki og innflutningsvernd fyrir kál,mjólkur- og sauðfjárbændur. Allt á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Auk þess eiga neytendur áfram að borga hæsta verð sem um getur fyrir þetta fínerí.

Rök vettvangsins varðandi svína- og kjúklinga er að þar sé um verksmiðjuframleiðslu að ræða og þess vegna þurfi þeir ekki styrki eða innflutningsvernd. Annað gildi um búframleiðslu með óhagkvæmni flutningskostnaðar og lítilla eininga. Neytendur og skattgreiðendur eiga enn að mati vettvangsins að borga fyrir þá rómantík sem slíkri framleiðslu fylgir.

Jónas frá Hriflu og sá þýski skoðanabróðir hans frá sama tíma sem börðust fyrir smábýlastefnunni sem skyldi þróast og dafna á kostnað Grimsbý lýðsins geta snúið sér við í gröfinni harla glaðir yfir því að jafnvel þeir stjórnmálamenn sem segjast aðhyllast frjálsa samkeppni sem og þeir sem aðhyllast sósíalisma skuli sameinast í Samráðsvettvangi um smábýlastefnu sem stríðir gegn hugmyndum um frjálsa samkeppni, hagkvæmni og jöfnuð.

Samráðsvettvangurinn er eitt besta dæmið um hugsjónasneyð í íslenskri pólitík og skort á því að stjórnmálamenn samtímans séu tilbúnir til að berjast fyrir skynsamlegum hlutum á grundvelli hugmyndafræðinnar sem þeir eiga að standa fyrir.

Hvaðan kemur framleiðenda réttur til óhagkvæmrar framleiðslu og að vera á beit í buddunni þinni?


Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða

Samfylkingin gleymdi strax í febrúar 2009 að flokkurinn hafði verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í október 2008.  Hrunmálaráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir, sem kom í veg fyrir að verðtryggingin væri tekin úr sambandi við Hrun talar jafnan eins og hún hafi ekki setið í ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2007-2009.

Margir héldu að þetta væru elliglöp hjá Jóhönnu sem byrjuðu langt fyrir aldur fram, en nú hefur komið í ljós að svo er ekki. Þetta er Samfylkingarheilkennið. Með sama hætti og Jóhanna Sigurðardóttir var búin að gleyma því mánuði eftir að hún hætti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að hún hefði verið þar eða hvað gerðist á stjórnartímabilinu þá gleymdu aðrir forustumenn flokksins þessu líka. Nú hefur ný forusta Samfylkingarinnar gleymt því hvað þau og Samfylkingin hafa verið að gera síðustu 4 ár í ríkisstjórninni.

Nýja forustan leggur til að húsnæðislánakerfið verði eins og á hinum Norðurlöndunum en hefur verið á móti því í ríkisstjórn síðustu 4 ár.

Nýja forustan er á móti verðtryggingunni en engir hafa staðið dyggari vörð um verðtrygginguna síðustu 4 árin en Jóhanna Sigurðardóttir, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir.

Nýja forustan segir mikilvægt að eyða ekki meiru en aflað er. Ríkissjóður undir stjórn Katrínar Júlíusdóttur varaformanns Samfylkingarinnar og annarra fjármálaráðherra í ríkisstjórninni hefur eytt tæpum hundrað milljörðum árlega meir en aflað hefur verið. Fjárlagahallinnn á Íslandi undir stjórn Katrínar Júlíusdóttur er einna mestur í Evrópu.

Fleiri dæmi af Samfylkingarheilkenninu mætti nefna, en vísa má á vefinn xs.is fólki til skemmtunar. Þar eru margar lýsingar á því hvað Samfylkingin vill gera þert á það sem Samfylkingin gerði í ríkisstjórninni.  Eða eins og það er orðað í Rómverjabréfinu 7. kapítula 18. og 19. versi af Páli postula:

"Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.


2000 leiguíbúðir

Fylgið dvínar fölnar rós.

Þannig er ástatt hjá Samfylkingunni að vonum eftir að hafa setið í 4 ár í vondri ríkisstjórn og svikið öll helstu kosningaloforðin frá 2009.

Í örvinglan sinni lofar Samfylkingin kjósendum 2000 leiguíbúðum. Þau Árni Páll og Katrín Júl sem eru í dag forusta Samfylkingarinnar og fengu sitt pólitíska uppeldi í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins sáluga gera enga grein fyrir hvernig á að framkvæma þetta kosningaloforð.

Á ríkið að kaupa 2000 íbúðir og bjóða til leigu? Hvað skyldi það nú kosta marga milljarða?  Hver ætti leigan að vera? Ef miða ætti við eðlilega arðsemi af slíkri fjárfestingu þá mundi leiguverð hækka.

Vissulega er það réttmæt ábending hjá Árna Páli að Framóknarflokkurinn boðar að hundraða milljarða skuldbindingum verði velt yfir á skattgreiðendur og að slíkt sé óábyrgt. En leiguíbúðastefna Samfylkingarinnar er engu betri. 

Óneitanlega er það aumkunarvert að sjá flokk sem hefur setið í ríkisstjórn í fjögur ár lofa að afnema stimpilgjöld og uppgreiðslugjöld og leiðrétta ósanngjarnar byrðar verðtryggðra lána. Getur nokkur maður trúað eftir það sem á undan er gengið að þessu megi treysta frekar en öðru sem frá Samfylkingunni kemur.

Hvað voruð þið að gera Katrín og Árni Páll í þessi fjögur ár, bæði ráðherrar sem þessi mál heyrðu undir?


Ránsfeng verðtryggingarokursins verður að skila.

Ítrekað hefur verið sýnt fram á að dýrustu og óhagkvæmustu lánin eru verðtryggð lán til húsnæðiskaupa fyrir neytendur. Krafan um að afnema verðtryggð neytendalán er því að vonum sterk. Allir sjá óréttlætið sem fellst í verðtryggingarokrin nema þeir sem fá ránsfenginn og  stjórnmála- og fræðimenn sem eru á mála hjá þeim.

Margir halda því fram að verðtryggð lán til neytenda séu ólögleg. Ég efast um það miðað við þá óslitnu framkvæmd sem verið hefur hér í áratugi. Verðtryggð neytendaán eru hins vegar óréttlát og við eigum að koma í veg fyrir óréttlæti. Það þjóðfélag sem ekki gætir réttlætis fær ekki staðist sagði Leo Tolstoy og ég sammála.

Ég krafðist þess 6. október 2008 að verðtryggingin yrði tekin úr sambandi með nýjum neyðarlögum. Því miður komu Gylfi Arnbjörnsson, Jóhanna Sigurðardóttir og þeir sem þurftu að blása út höfuðstóla sína eftir 600 milljarða tap í hruninu í veg fyrir það. Afleiðingin er sú að  350 milljarðar hafa verið færðir frá neytendum til lífeyrissjóða, hrægammabanka og annarra fjármálafyrirtækja. Hefði tillaga mín verið samþykkt þyrfti ekki að tala um skuldavanda heimila í þessum kosningum og almenn velmegun væri

350 milljarðar hafa verið teknir af neytendum með verðtryggingunni vegna verðlagsbreytinga á sama tíma og húsnæði lækkar í verði, laun lækka og það er engin virðistauki í þjóðfélaginu. Hækkun höfuðstóla verðtryggðra lána við þessar aðstæður er því ekkert annað en ránsfengur.  Ránsfeng ber að skila.

Það er ekki sama með hvaða hætti ránsfeng er skilað.  Það gengur ekki að skila ránsfeng til eins með því að ræna annan eins og Framsóknarmenn og fleiri leggja til, sem ætla að færa fjármagnseigendum rúma hundrað milljarða á kostnað skattgreiðenda vegna lækkunar óinnheimtanlegra ónýtra skulda.  Það er til betri leið og hana verður að fara.

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 281
  • Sl. sólarhring: 1002
  • Sl. viku: 3336
  • Frá upphafi: 2605054

Annað

  • Innlit í dag: 260
  • Innlit sl. viku: 3139
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 251

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband