Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Skuldaniðurfærsla og réttlæti.

Tillögur um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána, sem forsætis- og fjármálaráðherra kynntu á laugardaginn eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná.  Faglega eru tillögurnar vel unnar af sérfræðingahópnum. Erfitt er að ná fram réttlæti mörg ár aftur í tímann og framhjá þeirri staðreynd verður ekki gengið.

Niðurfærsla höfuðstóla verðtryggðra lána sem samsvarar verðbótum umfram 4.8% frá desember 2007 til ágúst 2010 skiptir mestu. Þar er þó ekki nóg að gert til að ná fram réttlæti. Á þessu tímabili voru engar almennar hækkanir eða virðisauki hér á landi, en hækkun verðtryggðra lána var vegna kyrrstöðuverðbólgu. Niðurfærsla allra verðbótanna á þessum tíma hefði því verið réttlát en því miður óframkvæmanleg svo mörgum árum síðar.

Það mátti öllum vera ljóst þegar Hrunið varð, að það varð að taka verðtrygginguna úr sambandi til að alls réttlætis yrði gætt. Það réttlæti vildu þau Jóhanna Sigurðardóttir, Gylfi Arnbjörnsson og ýmsir forustumenn í fjármálakerfinu ekki heyra minnst á. Búsáhaldabyltingin kom síðan í veg fyrir skynsamlegar aðgerðir á þeim tíma. Ábyrgða þeirra aðila sem þar stóðu svo illa að verki er því mikil.

Kyrrstöðustjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði ekki neitt nema að fresta fullnustuaðgerðum og bjóða upp á aðgerðir sem höfðu enga þýðingu nema  að fresta vandanum. Lagðir voru milljarðar í tilgangslítið embætti umboðsmanns skuldara og gallaða greiðsluaðlögun. Þær aðgerðir voru mislukkaðar og hafa engu skilað nema samfélagslegum útgjöldum og brostnum vonum.  Óneitanlega er ömurlegt að hlusta nú á forustufólk Samfylkingar og Vinstri grænna vandræðast með fyrstu raunhæfu tillögurnar í skuldamálum heimilanna sem fram hafa komið frá Hruni.

Kosturinn við tillögur ríkisstjórnarinnar nú eru að þær taka til venjulegs fólks sem var að fjárfesta í fasteignum og vill standa í skilum og hefur burði til að gera það svo fremi ástandið í þjóðfélaginu versni ekki. Leiðrétting verðtryggðu lánanna og skattleysi séreignalífeyrissparnaðar eru góð nálgun. 

 


Meira en helmingur þjóðar á launum hjá ríkinu

Í bók sem kom út í gær  "Af hverju ég ætla að fara frá Frakklandi" kemur fram að  vinnufært fólk í Frakklandi sé um 28 milljónir og af þeim fái 14.5 milljónir eða rúmur helmingur laun sín frá ríkinu með einum eða öðrum hætti. Opinberir starfsmenn eru rúmlega 22% af vinnufæru fólki. Höfundur bætir síðan við þeim sem eru atvinnulausir og fá ríkisstuðning við atvinnustarfsemi sína.

Um eða yfir helming þjóðartekna í vestrænum ríkjum Evrópu tekur hið opinbera og eyðir því. Í Alþýðulýðveldinu Kína er sambærileg tala 19% eða rúmur þriðjungur af því sem Vestur-Evrópu ríkin taka til hins opinbera. Það er því tæpast spurning um hvar sósíalisminn hefur yfirtekið af fullum þunga.

Hér á landi tekur hið opinbera um helming af þjóðartekjum og dugar ekki til miðað við daglegar fréttir af meintu hörmungarástandi víða í heilbrigðis-,velferðar- og menntamálum miðað við talsmenn opinberra stofnanna á þeim sviðum.

En hvenær komast skattgreiðendur yfir sín þolmörk?  Mikilvægasta byltingin sem verður að eiga sér stað er bylting hugarfarsins  gegn ríkisvæðingu en fyrir aukinni ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og takmarkaðri skattheimtu.  

Enginn hugmyndafræðilegur grundvöllur eða heildstæð stefna hefur verið mörkuð um niðurskurð ríkisútgjalda. Meðan svo er þá tekst ekki að draga úr kostnaði hin opinbera svo neinu nemi.  Skuldsetning ríkisins og sveitarfélaga er svo gríðarleg að þar er um algjört ábyrgðarleysi stjórnmálastéttarinnar að ræða.  Framkvæmdavílji og framkvæmdageta einstaklinganna er lömuð vegna ofurskatta og eignamyndun einstaklinga nánast útilokuð í skattkerfi þar sem fólki er refsað fyrir dugnað en sumir velferðarfarþegar verðlaunaðir.

 


Milljarðagjöf ritstjóra Fréttablaðsins

Ritstjóri Fréttablaðsins heldur því fram að þeir sem hafa veitt makríl undanfarin ár hafi fengið milljarða að gjöf. En hver er gjöfin? Gjöfin er sú að mati ritstjórans og nokkurra pistlahöfunda í blaðinu, að ríkið skuli ekki hafa tekið allan hagnað af veiðunum í skatta. Þá er einnig fjallað um nauðsyn þess að settar verði reglur um makrílveiðar og veiðarnar kvótasettar.

Það sem Ronald Reagan sagði um slíka skatta- og ríkisvæðingarstefnu á algjörlega við um þessa hugsun þ.e: Ef það hreyfist skattlegðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast settu lög um það. Ef það hættir að hreyfast styrktu það af almannanfé. (If it moves tax it, if it keeps on moving regulate it, if it stops moving subsidise it)

Einn af pistlahöfundunum sem telur þjóðina hafa tapað milljörðum á því að skattleggja ekki makrílveiðar  fellur algjörlega að því sem Reagan segir um skattlagningarsósíalisma eins og þennan, en sá maður vill skattleggja makrílveiðar af því að þær bera sig á sama tíma og hann vill beita innflutningshöftum í landbúnaði og styrkja landbúnaðarframleiðsluna um milljarða til að framleiða sauðakjöt ofan í útlendinga.

Eðli þeirrar gjafar sem ritstjóri Fréttablaðsins lýsir er því sú að ríkið skattleggi arðbæra atvinnugrein til að færa þá peninga sem þar verða til yfir í óarðbæran atvinnurekstur.  

Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að hverfa frá ofurskattahugmyndunum draga úr skattheimtum á sama tíma og dregið er úr völdum, bruðli og óráðssíu stjórnmálamanna með skattfé almennings. Annars verður alltaf vitlaust gefið og þjóðin öll mun líða fyrir það.  


Verðtrygging og verðbólguskot

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í lánamálum og skuldamálum heimilanna var vart hægt að skilja með öðrum hætti en þeim að afnema ætti verðtryggingu af neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum til neytenda auk einhverrar óskilgreindrar niðurfærslu.

Verðtryggingarfurstarnir hampa því mjög að fólk sækist nú frekar í verðtryggð lán en óverðtryggð. Það gerist iðulega þegar verðbólga dettur niður, en þeir hinir sömu fá að finna fyrir því síðar. Kosturinn sem fólk sér eru lágar afborganir í upphafi lánstímans. Verðtryggingarfurstarnir tala hins vegar ekki um það að ástæðan er líka sú að vextir af óverðtryggðum húsnæðislánum eru allt of háir.

Margt bendir til þess að hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar verði veruleg á næstu mánuðum. Þá munu þeir neytendur sem eru með verðtryggð lán tapa milljónum á milljónir ofan og sumir missa það litla sem þeir eiga enn í húsnæðinu sínu. Brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna var því að afnema verðtrygginguna af lánum til neytenda.

Það hefði verið hægt að standa þannig að málum að verðtrygging af neytendalánum væri afnumin með lögum sem afgreidd hefðu verið á síðasta sumarþingi. Það er engin afsökun fyrir ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokka að afgreiða ekki strax afnmám verðtryggingar af neytendalánum.

Aðgerðir strax. Það er engin þörf að bíða eftir nýju ári og láta verðtrygginguna éta upp milljarða af eignum fólksins í landinu á næstu mánuðum. Hvað dvelur Sigmund Davíð?


Kamelljónið

Kamelljón eru dýr sem breyta stöðugt um lit eftir því sem þeim hentar. Reykvíkingar eiga sitt kamelljón í Jóni sem nefnir sig Gnarr og er borgarstjóri í Reykjavík. Á hinseginn dögum er Jón Gnarr flottasta dragdrottningin. Hann er fatlaðasti einstaklingurinn þegar fatlaðir vekja athygli á sínum málum og er ofvirkasti einstaklingurinn þegar talað er um ofvirka og lýsir óhugnanlegu einelti í sinn garð og föður síns þegar einelti ber á góma. Engin vandamál í mannlegu samfélagi eru til, sem Jón Gnarr er ekki haldinn.

Af skoðanakönnunum má ráða að fjöldi Reykvíkinga kann vel við að hafa Jón kamelljón í stóli borgarstjóra, þó hann sé upptekin við að bregða sér í allra kvikinda líki en láti embættismönnum og Degi Eggertssyni eftir daglegt amstur við stjórn borgarinnar. Leikarinn Jón Gnarr  getur enn fær heillað hluta kjósenda með leikbrellum sínum og uppákomum.

Stjórnun borgarmála virðist skipta stóran hóp kjósendur minna máli en leikræn tilþrif og uppákomur.  Það flýr þó engin staðreyndir til langframa. Reykjavík er illa stjórnað. Fjárhagsleg staða Reykjavíkur versnar og beinar skuldir Reykjavíkur hafa aukist um 26 milljarða á kjörtímabili Jóns Gnarr eftir því sem Júlíus Vífill Ingvarsson forustumaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins segir frá í dag.

Auk þess að hafa klúðrað fjárhagsstjórn borgarinnar á kjkörtímabilinu mega borgarbúar þola sífellt meiri tafir og klúður í umferðinni vegna aðgerða Jóns Gnarr og félaga til að torvelda samgöngur auk ýmissa annarra vandamála.

Eftir að hugmyndafræðinni var að mestu vísað út úr íslenskri pólitík hefur almenn stjórn lands- og sveitarstjórnarmála versnað til muna.   Vegna þess hefur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki mótað nægjanlega skíran valkost við óstjórninni þar sem kjölfestuna hefur vantað þó heldur hafi þeir hlutir batnað á síðustu misserum.

Við framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar verður maður helst var við að frambjóðendur komi fram og segi ég vil þetta eða hitt sætið og ætla að bæta í þessi eða hin velferðarmál sem mundi þýða aukna skuldaaukningu fyrir Reykjavíkurborg og í raun ekkert fráhvarf frá leikrænum stjórnunarháttum kamelljónsins.

Þess vegna var kærkomið að sjá skírskotun Herdísar Þorvaldsdóttur framkvæmdastjóra Þyrluþjónustunnar,þar sem hún leggur áherslu á að rétta af hallarekstur borgarinna og leggur áherslu á frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja og forgangsröðun í þágu heildarhagsmuna. Ég þekki þennan frambjóðanda ekki neitt en hún virðist alla vega hafa grunngildin sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir á hreinu. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins nær ekki fylgi og á það ekki skilið nema hann sé tilbúinn til að standa að málum á grundvelli einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis og draga úr sóun, umframeyðslu og dekri við sérhagsmuni. 

 


Sprengjur eða friðarsamningar og umbætur

Obama fer nú um lönd og álfur og reynir að fá ríki til fylgis við sprengjuárásir Bandaríkjanna á Sýrland. Sýrland þarf ekki fleiri sprengjur heldur frið og umbætur. Vesturlandabúar hafa mislesið hið svokallaða arabíska vor hrapalega. Arabíska vorið snérist ekki um lýðræði heldur brauð og lífskjör.

Uppreisnir og stríð snúast sjaldnast um grundvallaratriði í trúfræði, pólitík eða heimspeki. Efnahagsleg atriði eru venjulega það sem skiptir mestu. Stundum er það auglóst eins og þegar nasistar komust til valda vegna óðaverðbólgu, vonleysis og hungurs í Weimar lýðveldinu sem og franska byltingin.

Sömu ástæður eru að baki Arabíska vorinu. Efnahagslíf ríkja á þessu svæði er undantekningarlítið í miklum erfiðleikum. Fámenn valdaklíka arðrænir almenning og skiptir olíuauðnum á milli sín. Almenningur býr við sára fátækt og vonleysi. Aðeins tvö lönd í þessum heimshluta Ísrael og Sameinuðu Arabísku furstadæmin skera sig úr enda búa þau ein við opið hagkerfi án gjaldeyrishafta.

Þjóðarframleiðsla á mann í Sýrlandi og Egyptalandi er um 400 þúsund krónur á ári. Matarverð fer hækkandi og helmingur  er undir 25 ára aldri, fólk sem sér ekki fram á að geta látið drauma sína rætast nema með því að gera uppreisn gegn valdaklíkunni eða flytja úr landi til Evrópu eða USA. 

Assad og klíka hans vill ekki breytingar frekar en hershöfðingjarnir í Egyptalandi eða kóngar og prinsar í Jórdaníu og Saudi Arabíu. Forréttindastéttin gerir allt til að tryggja sér auð og völd meðan almenningur sveltur. Frelsi einstaklinganna er takmarkað og frjálst markaðshagerfi ekki fyrir hendi. 

Það þjónar litlum tilgangi að skipta á einum einræðisherra fyrir annan eins og raunin varð í Egyptalandi. Víðtækar breytingar á stjórnarstofnunum og efnahagslífi verða að eiga sér stað.  Það verður að afnema einokunarfyrirtækin og forréttindin og koma á markaðshagkerfi og stjórnarskrárbundnum ríkisstjórnum sem hægt er að skipta um í frjálsum kosningum.

Obama og Bandaríkjamenn telja það skipta  máli að skjóta eldflaugum á stjórnarstofnanir í Sýrlandi. Sú leið Bandaríkjanna að senda fyrst inn landgönguliðið og athuga svo málið er röng. Obama ætti að reyna að fá Rússa og Kínverja til að standa að áætlun um friðsamlega lausn í Sýrlandi og víðar í þessum heimshluta. Bandaríkjamenn ættu að berjast fyrir því að spilltu valdastéttirnar færu frá en reynt yrði að byggja upp stjórnarstofnanir, lýðræðiskerfi og efnahagslíf á grundvelli markaðslausna. 

Milljónir flóttamanna og þær hroðalegu mannlegu hörmungar sem fólkið í Sýrlandi þarf að þola kallar á alvöru lausnir en ekki bull og flugskeytaárásir. Hvernig stendur á því að lýðræðið í dag hefur hvergi komið afburðafólki til valda í hefðbundnum lýðræðisríkjum, sem sjá víðtækari og betri lausnir en flugskeytaárásir.

 


Hverju má trúa?

Ekki liggur enn fyrir hver beitti efnavopnum í Sýrlandi fyrir nokkrum dögum. Talsmenn innrásarveldanna í Afganistan eru þó sammála um að það hafi verið stjórnarher Assads. Fróðlegt verður að fá úr því skorið hvað sé rétt í þeim staðhæfingum. Hafi stjórnarherinn beitt efnavopnum nú þegar hann er kominn með undirtökin í baráttunni við uppreisnarmenn þá væri það ótrúlega heimskulegt.

Í dag var sagt frá því í grein í Daily Telegraph að Bandar bin Sultan yfirmaður leyniþjónustu Saudi Arabíu hafi átt fund með Putin Rússlandsforseta fyrir þremur vikum og boðið honum upp á samvinnu um að halda uppi olíuverði en löndin framleiða um 45% af heimsframleiðslunni auk þess að stöðva hryðjuverkastarfsemi Chechena ef Rússar hættu að styðja ríkisstjórn Assads Sýrlandsforseta. Putin mun hafa hafnað tilboði Saudi Araba og sagt að Rússar teldu núverandi ríkisstjórn vera bestu talsmenn fólksins í Sýrlandi en ekki mannæturnar í liði uppreisnarmanna. Bandar mun þá hafa sagt að þá kæmi ekkert annað til greina en hernaðaríhlutun í Sýrlandi.

Skyldi þessi frásögn vera rétt? Sé svo þá er spurningin gerðu Saudi Arabar, Bretum, Bandaríkjamönnum og Frökkum tilboð um eitthvað til að  þeir beittu hernaðaríhlutun í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi?


Vondar eru nefndirnar.

Vondar eru nefndirnar þungt er þeirra hlass sagði Ægir Ó stórkaupmaður í ljóðinu "Brestir og brak" eftir Jónas Árnason. Þessi ljóðlína kom mér í hug þegar sagt var frá því í fréttum að ríkisstjórnin væri enn að vandræðast með að finna fólk í sérfræðinganefnd eða nefndir vegna afnáms verðtryggingar á neytendalánum og niðurfærslu verðtryggðra skulda.

Það er nokkuð sérstakt að það skuli vefjast fyrir ríkisstjórn að finna hæft fólk til að sitja í nefndum sem þessum og hvor ríkisstjórnarflokkur um sig hafi neitunarvald gagnvart tillögu hins ríkisstjórnarflokksins. Hætt er við að það taki þá nokkurn tíma að skipa í nefndirnar og ráðherrar geti þá dundað sér við að beita neitunarvaldi sínu eftir geðþótta ef þeim finnst þetta vera mikilvægt framlag til landsstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur mótað ákveðna stefnu í málinu og samið um hana í stjórnarsáttmála. Nefndirnar eru því ekki ákvörðunaraðilar heldur til þess að útfæra tillögur ríkisstjórnarinnar og vinna nákvæmnisvinnuna og handavinnuna við að koma stefnunni frá orðum til athafna. Þess vegna er það sérstakt að skipan í nefndina eða nefndirnar skuli vera orðið að sérstökum samkvæmisleik ríkisstjórnarinnar.

Brýna nauðsyn bar til að skipa nefndir til afnáms verðtryggingar og niðurfærslu lána strax í kjölfar myndunar ríkisstjórnarinnar. Þar  sem það var ekki gert, þá er eins gott að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben setjist niður í fyrramálið og afgreiði málið sín á milli á klukkutíma. Báðir flokkar eiga mikið af hæfileikafólki sem mundi leika sér af því að vinna þessa handavinnu fljótt og vel.

Þessi mál þola enga bið.


Hlaðið í Hrun

Fyrirlestur Ásgeirs Jónssonar um fjórföldun peningamagns í umferð á 4 árum fyrir hrun er mjö athyglisverður. Þar kemur m.a. fram að hér á landi var beitt sömu aðferðum af hálfu Seðlabanka Íslands og annarsstaðar í okkar heimshluta. Bindisskylda var lækkuð og veðreglur Seðlabankans rýmkaðar (svokölluð ástarbréf) Við það m.a. jókst peningamagn í umferð og við erum enn að glíma við þann vanda að fjármálakerfið er fullt af peningum. 

Fram kom að það séu mistök að greiða jafn háa vexti og gert er af jöklabréfainnistæðum og fjármálakerfið verði að minnka þar sem það sé allt of stórt. Þá telur hann það hafa verið önnur mistök að láta bankana í hendur erlendum kröfuhöfum eins og ríkisstjórn Jóhönnu gerði. Raunar lýsti þessi fyrirlestur vel þeim 4 árum kyrrstöðu í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Umfjöllun um verðtrygginguna og áhrif hennar í hagkerfinu var athyglisverð. Þannig telur Ásgeir að nauðsynlegt sé að fjármálalífið færi sig úr verðtryggingu verði tekið upp fljótandi gengi og ég gat ekki skilið hann með öðrum hætti en sú aðgerð væri raunar líka nauðsynleg til að hægt yrði að aflétta gjaldeyrishömlum.

Ásgeir sagði það hafaverið mistök að taka ekki verðtrygginguna úr sambandi við hrun. Ég var eini talsmaður þess á sínum tíma því miður. Ég krafðist þess að sett yrðu önnur neyðarlög sem mundu afnema verðtrygginguna eða alla vega taka hana úr sambandi. Það lá svo ljóst fyrir að það yrði að gerast að mínu mati, en Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Arnbjörnsson ásamt hagsmunaaðilum fjármálakerfisins og hinum þögla meiri hluta Alþingis komu í veg fyrir þá nauðsynlegu aðgerð.

Nú sjá fleiri og fleiri að það var fráleitt að láta verðtrygginguna æða áfram þegar fyrirsjáanlegt var að laun mundu lækka, verð fasteigna mundi lækka, skattar hækka og verðbólgan æða áfram vegna gengishruns og annarra afleiðinga fjármálakreppu.  Vegna þess að ekki var farið að tillögum mínum hafa skuldir heimilanna aukist um 400 milljarða. Það er raunar sá samdráttur peningakerfisins, sem Ásgeir telur nauðsynlegan. Þeir peningar eru gervipeningar og best að horfast í augu við það strax og skila ránsfengnum þannig að það sé lífvænlegt í landinu. Þessar skuldir eru hvort eð er að mestu leyti bara til á pappír það er engin innistæða fyrir þeim og einungis lítill hluti verður greiddur.

Vandamál niðurfærslu og afnám verðtryggingar væru ekki fyrir hendi hefði verið brugðist við strax við bankahrunið eins og ég lagði til, en því miður er þetta allt saman flóknara í dag. En ekki óleysanlegt. Þeir sem nú mæla á móti eðlilegum skuldalækkunum og afnámi verðtryggingar á neytendalánum ættu að minnast þess sem skáldið Leo Tolstoy sagði forðum.

"Það þjóðfélag sem gætir ekki réttlætis fær ekki staðist."´

Óbreytt peningamálastefna með verðtrygginguna áfram að leiðarljósi hleður hratt og örugglega í nýtt Hrun. Það Hrun verður allt annars eðlis og mun alvarlegra fyrir íslenskt þjóðfélag en bankahrunið.


Er Ísland tifandi tímasprengja

Athyglisverð grein birtist í tímaritinu Fortune í gær þar segir að Ísland geti verið tifandi tímasprengja  efnahagslega og annað efnahagshrun (meltdown) gæti  verið á leiðinni. Getur eitthvað verið til í þessu?

Í Fréttablaðinu er leitað til Kúbu Gylfi Magnússonar fyrrverandi viðskiptaráðherra sem telur greinina jafnranga og fjarri raunveruleikanum og íslenskir ráðamenn töldu skýrslu den Danske bank árið 2006 og umfjöllun í Financial Times 2007. Hvorutveggja reyndist þó rétt. 

Er þetta bara heilaspuni pistlahöfundar sem ekkert veit og ekkert skilur. Cyrus Santani sem skrifar umrædda grein í Fortune bendir óneitanlega réttilega á að ekkert hafi verið gert raunhæft til að byggja upp íslenskt efnahagslíf frá hruni og á því ber m.a. Gylfi Magnússon ábyrgð.

Greinarhöfundur bendir á að með gjaldeyrishöftum og fleiru hafi vandamálum verið skotið á frest og gefur í raun efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórnar algjöra falleinkunn sem er rétt.

Gríðarlega aukinn ferðamannastraumur og makrílveiðar fyrir milljarða voru gæfa okkar á tíma síðustu ríkisstjórnar þar sem hún amaðist við nýsköpun í atvinnulífi og byggingu vatnsaflsvirkjana. Annað var því í kyrrstöðu. Ofurskattheimta á lítil fyrirtæki og einstaklinga hefur líka haft neikvæð áhrif og fróðlegt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að vinna úr því.

Ef við höldum áfram á sömu leið þá er hætt við að spádómur Cyrus Santani rætist að einhverju leyti. Við getum ekki rekið ríkissjóð með viðvarandi 20% halla. Við verðum að skera niður ríkisútgjöld og lækka skatta. Smáskammtalækningar duga ekki. Það verður að taka á skuldamálum heimilanna afnema verðtryggingu á neytendalánum og taka upp lánakerfi eins og gerist í okkar heimshluta. Þeir hlutir eru forsenda þess að við getum fyrr en síðar aflétt gjaldeyrishöftunum, sem er forsenda aukinar fjárfestingar og vaxtar í íslensku efnahagslífi.

Svo verða menn að horfa raunhæft á gjaldmiðilinn krónuna. Er hún blessun eða böl?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 59
  • Sl. sólarhring: 786
  • Sl. viku: 3114
  • Frá upphafi: 2604832

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 2923
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband