Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Löggæsla

Á að banna að ljósmyndir séu teknar í húsakynnum dómstóla?

Fyrir nokkru neitaði sakborningur að mæta við þingfestingu máls nema ljósmyndarar færu úr húsinu. Saksóknari sagðist þá mundu færa hann fyrir dóminn með lögregluvaldi. 

Víða um heim er bannað að taka ljósmyndir í húsakynnum dómstóla. Ljósmyndarar verða að bíða fyrir utan dómhús í Bretlandi og Bandaríkjunum svo dæmi séu tekin. Af hverju? Til að veita aðilum máls sérstaklega sakborningum lágmarksvernd.

Það er óneitanlega hvimleitt og óviðeigandi að grunaður maður þurfi að brjóta sér leið í lögreglufylgd framhjá her ljósmyndara þegar hann er færður fyrir dóm. Iðulega er um saklausa menn að ræða sem þannig eru myndaðir og fá ákveðna brennimerkingu almenningsálitsins algjörlega að ástæðulausu.

Væri ekki eðlilegt að banna aðgang ljósmyndara að dómhúsum eins og gerist víða í réttarríkjum? Er ekki sjálfsagt og eðlilegt að sakað fólk njóti þeirra mannréttinda að fá að teljast saklaust þangað til sekt þess er sönnuð?

Dómsmálaráðherra ætti þegar í stað að gera ráðstafanir til að banna aðgang ljósmyndara að dómhúsum. 

 


Hvar eru mótmælendur nú?

Í fréttum er greint frá því að fjöldi lögreglumanna hafi hlotið alvarleg líkamleg meiðsl eftir óeirðir svonefndra mótmælenda við Alþingishúsið og Stjórnarráðið í fyrra. Skríl eins og þann sem veitti lögreglumönnunum þessi líkamsmeiðsl á að sækja til saka. Yfirstjórn lögreglunnar stóð því miður ekki nægjanlega með sínu fólki þegar óeirðirnar gengu yfir með því að handtaka og láta þá sæta refsiábyrgð sem unnið höfðu til þess.

Áður en átökin urðu hörð höfðu Steingrímur J. Össur og Ögmundur lagt á ráðin um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Nú hefur byltingin étið fyrsta barnið sitt Ögmund Jónasson sem rekinn var úr ríkisstjórninni.

Hvernig stóð á því að óeirðirnar fóru gjörsamlega úr böndum eftir samkomulag þremenningana?

Sumir segja að þar hafi óeirðaöflin í VG undir forustu heilbrigðisráðherra og skrímsladeildin í Samfylkingunni undir forustu utanríkisráðherra skipulagt aðför að sitjandi stjórnvöldum til að ná fram samstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar.

Nú ári síðar er ástandið alvarlegra en það var í janúar 2008. Ekkert hefur verið gert varðandi skuldavanda heimilanna sem skiptir máli.  Sömu athafnamennirnir sitja við völd í fyrirtækjunum sínum með örfáum undantekningum.  Enginn hefur verið lögsóttur og ríkisstjórnin er ónýt og úrræðalaus.

Samt sem áður mætir óeirðafólkið ekki lengur niður á Austurvöll.  Af hverju ekki? 

Var eina raunverulega markmið skipuleggjenda óeirðanna að fella sitjandi ríkisstjórn og koma á þeirri sem nú situr?


Aðgerðarsinnar?

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að "aðgerðarsinnar" hafi valdið milljónatjóni á húsi og bifreið  Hjörleifs Kvaran forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Í frétt blaðsins er því síðan lýst með hvaða hætti "aðgerðarsinnar" skemmi eigur fólks.  Hingað til hefði talist eðlilegt að kalla þetta fólk skemmdarvarga eða hryðjuverkahópa. Hér er um að ræða fólk sem fremur afbrot. Það veldur eignaspjöllum og ræðst gegn friðhelgi einkalífs þeirra sem árásirnar beinast að.

Orðanotkun skiptir máli. Hugtakið aðgerðarsinni er jákvætt orð. Það vísar til þeirra sem gera eitthvað, annast um eitthvað eða framkvæma.  Þetta orð er það nýtt að ég finn það ekki í orðabókum en mér sýnist helst að andstæða orðsins sé aðgerðarleysi sem er neikvætt.  Með því að velja þetta orð er Fréttablaðið sennilega ómeðvitað að taka afstöðu með og/eða  með ákveðnum hætti að afsaka þau afbrot sem framin eru af þessum skemmdarvörgum.  

Mér finnst óviðunandi að fréttamiðill eða fréttamiðlar (Fréttablaðið er ekki eini fréttamiðillinn sem hefur notað þetta orð um þessa skemmdarvarga) noti ekki rétt hugtök um þá sem veitast að samborgurum sínum með eignaspjöllum og skemmdarverkum. Með því að nota jákvæðar umsagnir um slíka glæpi er viðkomandi fréttamiðill í raun að leggja blessun sína yfir afbrotið og með því að stuðla að frekari afbrotum sömu tegundar.

Fréttafólk verður að átta sig á að það ber mikla ábyrgð og má ekki misfara með það vald sem það hefur í störfum sínum.


Leiðin til stjórnleysis.

Daglega berast fréttir af einstaklingum sem missa stjórn á skapi sínu og telja sér heimilt að ráðast til atlögu við dauða hluti eða lifandi fólk. Allt of oft verða ýmsir til að afsaka slíkt og benda á að bankahrunið valdi ójafnvægi hjá mörgum. Vel kann það að vera.  Samt sem áður þá er engin afsökun fyrir því að valda eignaspjöllum eða ráðast á fólk sem er að sinna störfum sínum.

Flestum er verulega brugðið við að lesa um  hvernig margir í viðskipta- og fjármálalífi landsins störfuðu fyrir hrun.  Mörgum gremst hvað seint gengur að koma lögum yfir þá sem virðast hafa gerst sekir um mjög alvarleg brot og valdið þjóðinni hundraða milljarða skaða.  Allt venjulegt fólk kallar eftir því að þessi mál verði gerð upp og verulegur kraftur settur í rannsókn og saksókn þessara mála. En þó að seint gangi þá gefur það engum rétt til að taka lögin í sínar hendur.

Saving Iceland hópurinn er sérstakt fyrirbrigði stjórnleysingja sem hafa talið sér heimilt að eyðileggja eignir fyrirtækja og ráðast gegn þeim sem eru að sinna löggæslustörfum. Það er ekki hægt að líða slíka framkomu. Réttarríkið byggir á því að fólk mótmæli með friðsamlegum. Slík mótmæli eru liður í lýðræðislegum afskiptum fólks. Þegar farið er yfir þau mörk þá er réttarríkinu ógnað.

Það er alvarlegt hvað stjórnvöld hafa lítinn skilning á nauðsyn þess að efla lögregluna. Það er ljóst að lögreglan þarf að takast á við mun fleiri og alvarlegri verkefni en áður. M.a. vegna þjóðfélagsástandsins, aukinnar fíkniefnaneyslu, vaxandi andfélagslegra viðhorfa og útlendra glæpahópa. 

Á sama tíma og draga á saman í lögreglunni og borið við fjárskorti á að setja 500 milljónir í stjórnlagaþing. Er það eðlileg forgangsröðun?  Mér finnst það ekki.

Krafan hlítur því að vera sú að efla lögregluna í stað þess að veikja hana. 

Mikilvægasta hlutverk réttarríkisins er að halda uppi lögum og innanlandsfriði. Það verður gert m.a. með öflugri löggæslu og hörðum refsingum yfir þeim sem hindra störf lögreglunnar eða ráðast á lögregluþjóna í starfi. 

Mér finnst alvarlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa skilning á þörf traustrar löggæslu í landinu.


mbl.is Sparkað í höfuð lögreglumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaupptaka og gæsluvarðhald.

Tæpir 10 mánuðir eru liðnir frá bankahruninu og setningu neyðarlaga. Þrátt fyrir það að fréttir berist af vafasömum gerningum ýmissa leikenda á fjármálasviðinu þá hefur enginn verið handtekinn eða settur í gæsluvarðhald. Engar eignir auðmanna hafa verið frystar. 

Fréttir sem berast eru af rannsóknum sem meira eða minna voru komnar í gang fyrir bankahrunið.  Af hverju gengur þetta svona hægt?

Að tala nú um að frysta eignir auðmanna er aðgerð sem er sennilega rúmum meðgöngutíma of seint á ferðinni. Það hefði þurft að gera það strax í október  2008 eins og ég krafðist að gert yrði á þeim tíma.

Nú skiptir máli að rannsóknum verði hraðað sem mest og lögum komið yfir þá sem ábyrgð bera þannig að Gróa á Leiti taki ekki endalaust völdin og fólk dæmt oft á tíðum saklaust. Það er því mikilvægt að rannsóknum verði hraðað og til þeirra varið þeim mannafla og fjármunum sem til þarf. Við eigum ekki endalaust að hengja þá sem stela karmellu en láta hina lausa sem misfara með milljarða.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 459
  • Sl. sólarhring: 1078
  • Sl. viku: 3996
  • Frá upphafi: 2579781

Annað

  • Innlit í dag: 439
  • Innlit sl. viku: 3743
  • Gestir í dag: 433
  • IP-tölur í dag: 424

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband