Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Forseti ASÍ skiptir um stefnu.

Forseti ASÍ sem ber ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur hvað mesta ábyrgð á því að ekki var farið að tillögu minni við Hrunið að verðtryggingin væri tekin úr sambandi hefur nú iðrast gjörða sinna. 

Í fréttum í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ að nauðsyn væri að taka upp danska kerfið varðandi húsnæðislán til neytenda.  En ekki nóg með það. Gylfi sagði líka að verðtryggingin gengi ekki. Við sem erum á móti verðtryggingunni og höfum barist gegn henni um árabil fögnum að sjálfsögðu þessum nýja liðsmanni í baráttunni. Við tökum á móti Gylfa eins og segir í Nýja testamenntinu um fögnuð yfir einum  syndara sem snýr frá villu síns vegar. Til hamingju Gylfi og vertu velkominn.

Gylfi tekur þar með undir kröfuna um sambærilegt lánakerfi og á hinum Norðurlöndunum. Nú þegar þessi öflugi liðsmaður er kominn í hóp okkar andverðtryggingarsinna fer vonandi að hrikta í máttarstoðunum sem halda þessu svívirðilega ránskerfi verðtryggingarinnar gangandi.


Einkavinavæðing Steingríms J.

Steingrímur J. skipaði einkavin sinn Svavar Gestsson yfirmann Icesave samninganefndarinnar. Þjóðin þekkir hvernig til tókst.

 

Nú hefur annar einkavinur Steingríms, Gylfi Magnússon, fyrrum samráðherra hans hlotið umbun þjónkunar sinnar og störf sín fyrir Vinstri grænu byltinguna í desember 2008 og janúar 2009.

 

Steingrímur J telur eðlilegt að Gylfi Magnússon sé formaður nefndar um tillögur að fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða.  Margir velta því fyrir sér hvort það hafi hvarflað að Steingrími J að þessi skipan væri fagleg og besti maðurinn valinn til þessara mikilvægu starfa. 

 

Gylfi hefur vissulega töluverða reynslu úr stjórn Kauphallarinnar á bóluárunum, en einhverra hluta vegna hafa menn eins og Gylfi og Steingrímur alveg gleymt að ræða um ábyrgð þeirrar stofnunar. 

 

Skarpskyggni Gylfa og spá varðandi  Icesave-samninga þar sem Gylfi sagði að við yrðum  Kúba noðursins ef við samþykktum ekki Svavarssamningana um Icesave sýndi djúpa og einlæga samkennd með Steingrími

 

Sömu samkennd sýndi Kúbu Gylfi líka við sóun á fjármunum skattborgara í fjármálafyrirtæki á borð við VBS, Sögu Capital, Askar Capital, SpKef og Byr. 

 

Einhvern tímann hefði Steingrímur talið fráleitt að skipa útgefanda skráðra verðbréfa í slíka nefnd.


Nýar áherslur eða orð án innihalds

Árni Páll Árnason flutti um margt athyglisverða ræðu eftir að hann var kjörinn formaður Samfylkingarinnar.  Tal Árna Páls um samfélagssýn norrænna jafnaðarmanna og fráhvarf frá hugmyndafræðilegum skotgröfum er  árás á stefnu Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur vikið frá samfélagssýn jafnaðarmanna og stendur föst í foræði vinstri sinnaðrar hugmyndfræðilegrar skotgrafar, þar sem m.a. er lýst yfir stríði við markaðshagkerfið.

Árni Páll Árnason er markaðshyggjumaður eins og flokksbræður hans á hinum Norðurlöndunum. Áhersla  hans á frið og sátt er athyglisverð.  Meini Árni Páll það sem hann sagði þá tekur hann stjórnarskrármálið strax úr átakaferli og  finnur  sátt með sama hætti og jafnaðarmenn á hinum Norðurlöndunum. 

Skuldavandi heimilanna er mikilvægasta málið sem verður að leysa á næsta kjörtímabili. Árni Páll hafði þetta að segja um málið:

"Heil kynslóð stendur frammi fyrir óleystum vanda. Eitt er skuldavandinn sem heldur mörgum í helgreipum ofveðsetningar. Það er ekki ásættanlegt að gefa ekki skýr svör um hvort lausna sé að vænta í afmörkuðum málum, eins og lánsveðsmálunum. Ég er tilbúinn til að hlusta á allar hugmyndir um lausnir á skuldavandanum, en veit af biturri reynslu að hann er of umfangsmikill til að honum verði létt af öllum án þess að hann verði færður á aðra sársaukalaust og ég veit líka að allar nýstárlegar úrlausnir munu reyna á þanþol stjórnarskrárinnar. En ég er til.“

Í fyrsta lagi viðurkennir Árni Páll að ríkisstjórnin hafi ekki leyst skuldavanda heimilanna hvað svo sem Jóhanna segir. Í annan stað þá segir hann að það sé ekki ásættanlegt að halda mörgum í helgreipum ofurveðsetningar. Í þriðja lagi að gefa verði skýr svör um hvort lausna sé að vænta. Í fjórða lagi að hann sé tilbúinn í að hlusta á allar góðar tillögur jafnvel þó það reyni á þanþol stjórnarskrárinnar.

Þetta þýðir að Árni Páll er tilbúinn að ganga lengra en gert hefur verið jafnvel svo langt að reyni á þanþol stjórnarskrárinnar. Á það þol reynir ekki nema um einhvers konar skerðingar eignarréttar sé að ræða. 

Eina skynsamlega lausnin og sú eina tæka út frá janfréttissjónarmiðum, hagrænum sjónarmiðum og sanngirnissjónarmiðum er að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður lánin þó ekki væri um meira en hækkanir lánanna vegna skattahækanna en það eitt hefur fært 100 milljarða frá neytendum til fjármagnseigenda.

En Árni Páll við viljum sjá tillögur þínar  til að ná aukinni sátt í samfélagið og raunhæfar tillögur um lausn skuldavandans. Vígorð hins nýja formanns eru: Lífskjör, leikreglur, tækifæri og lífsgleði. 

Þjóðin getur ekki notið góðra lífskjara nema skattar verði lækkaðir, fjárfesting aukin og verðtrygging á neytendalánum afnumin. Það verða engin tækifæri eða hagræn lífsgleði eða eðlilegar leikreglur nema arðrán verðtryggingarinnar verði afnumið af neytendalánum Árni Páll Árnason. 

Þess vegna Árni Páll Árnason markaðu stefnuna. Það er þitt hlutverk sem formanns.  Hvað viltu gera?


Íbúðarlánasjóður og verðtrygging

Íbúðarlánasjóður verður ítrekað að fá tugi milljarða frá skattgreiðendum til að fara ekki í þrot.

Af hverju er Íbúðalánasjóður í stöðugum vandræðum? Íbúðalánasjóður tekur verðtryggð lán til endurlána. Verðtryggingin étur upp eignir hans eins og annarra sem taka verðtryggð lán.

Ýmsum hefur verið brigslað um misfellur vegna málefna Eir. Eir byggði og byggði og tók verðtryggð lán. Lánin hækkuðu en verð fasteigna stóð í stað eða lækkaði. Á endanum á Eir á ekki fyrir skuldum ekki frekar en Íbúðalánasjóður eða aðrir sem skulda verðtryggð lán.

Verðmætasköpun verður ekki með verðtryggingu. Verðtryggingin færir eignir frá skuldurum til fjármagnseigenda. Íbúðalánasjóður og Eir eru þess vegna gjaldþrota vegna verðtryggingar.

Hver sagði annars þetta endemis bull: "Það er ekki verðtryggingin sem er vandamálið heldur verðbólgan."   Verðtryggingin er verðbólguhvetjandi það ættu þeir að gaumgæfa sem vitna í þetta bull.


Gengisfelling og verðbólga

Evran kostar 170  krónur og dollarinn 129. Í ágúst kostaði Evran 146 og dollarinn 118 krónur. Áður fyrr hefði verið talað um 12% gengisfellingu.  Þrátt fyrir gjaldeyrishöft tekst ekki að skapa stöðugleika í gengismálum. 

Mikil lækkun krónunar og nýir neysluskattar ríkisstjórnarinnar á áfengi og tóbak munu auka verðbólguna. Innflutt verðbólga verður meiri á næsta ári vegna seðlaprentunar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrulandinu.  Þrátt fyrir þessa seðlaprentun erlendis gefur krónan samt eftir.

Vísitala neysluverðs til verðtryggingar mun taka stökkbreytingum upp á við einu sinni enn. Svik stjórnmálaflokkana að hafa ekki þegar afnumið verðtryggingu á lánum til neytenda mun því enn á ný leggja auknar byrðar á fólkið í landinu og gera hóp eignafólks að öreigum.

Hvað lengi enn ætlar valdastéttin á Íslandi að reyna sérleið verðtryggingar á neytendur?

Hvað lengi enn ætla neyendur að láta bjóða sér þetta óréttlæti?


Eldspúandi dreki eyðileggingarinnar

Í ævintýrum er sagt frá því hvernig vaskir riddarar og jafnvel heilar byggðir glímdu við eldspúandi dreka sem eyðilögðu hús, önnur mannvirki og uppskeru bænda. Þegar unnið hafði verið á drekanum færðist líf og velmegun yfir svæðið.

Við höfum eldspúandi dreka eyðileggingar, sem rænir húsum, mannvirkjum og festir fólk í skuldafjötra. Þessi dreki er verðtrygging neytendalána sem hefur gert heila kynslóð íslendinga gjaldþrota. Afleiðingin er aukin fátækt og örbirgð. Kreppuskýið stækkar af því að þessi dreki er ekki lagður af velli.

Jafnvel stofnanir eins og Íbúðalánasjóður verður ítrekað gjaldþrota vegna verðtryggingar og vaxtabyrði verðtryggðra lána sem sjóðurinn endurlánar. Það gleymist varðandi Eir sem mikið er talað um og maður eftir mann sakfelldur án dóms og laga að dreki eyðileggingarinnar er þar að verki. Stærsti orsakavaldur eignarýrnunar og greiðsluerfiðleika.

Leggja verður þennan dreka eyðileggingar og kreppu að velli. Afnema verðtryggingu og endurgreiða ránsfenginn. Þá fyrst geta landsmenn haldið gleðileg jól og stórum hluta fátæktar og örbirgðar verðru vísað á bug vegna gróandi þjóðlífs og aukinnar atvinnu.


Millifærsluþjóðfélagið

Millifærsluþjóðféalgið byggir á því að peningar eru teknir frá sumum til að láta aðra hafa. "Velviljaðir" stjórnmálamenn sem vilja slá sig til riddara fyrir vasklega framgöngu í þágu sérhagsmuna ákveðinna hópa leggja því til nýa skatta fyrir þá sem náðar njóta.

Almenn sátt varð eftir miðja síðustu öld um almennt velferðarkerfi sem byggðist á hjálp við þá sem virkilega þörf höfðu, til að tryggja þeim fæði, húsnæði, almenna heilsugæslu og menntun.  

Nú er velferðar- og millifærslukerfið komið í algjörar ógöngur. Grundvallarvelferðin verður oft útundan og fólk þarf að leita eftir matargjöfum frá hjálparstofnunum. Á sama tíma er flókið millifærslukerfi t.d. á stundum fyrir atvinnugreinar og þá sem betur mega sín í þjóðfélaginu.

Eftir því sem stjórnmálamenn föndra lengur við vinsældaleit með frekari ríkisafskiptum án heildarstefnu eða markmiða þá verður kerfið dýrara, flóknara og ómarkvissara. Sumir fá margfalt meira en aðrir þó þörfin sé hin sama.

Velferðarkerfi Vesturlanda er löngu orðið ósjálfbært en þjónar samt ekki nægjanlega vel þeim grundvallaratriðum sem þjóðfélagssáttinn um velferð byggir á. Þjóðirnar horfa fram á auknar lántökur,  ríkisgjaldþrot og hrun velferðarkerfisins innan fárra ára með sama áframhaldi.

Eitt mikilvægasta verkefni Sjálfstæðisflokksins er að móta velferðarstefnu sem byggir á raunverulegri velferð fyrir þá sem á þurfa að halda og sem mestri takmörkun á millifærslum.  Það er forsenda minni ríkisútjgalda, skattalækkana og kemur í veg fyrir þjóðargjaldþrot.

Samband ungra Sjálfstæðismanna bendir réttilega á það að ástandið sé ekki björgulegt þegar hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins mælir fyrir auknum millifærslum, sem renni til sumra með aukinni skattheimtu á allan almenning. 

Unga fólkið í flokknum spyr með hvaða hætti og hvernig ætla menn að móta stefnu velferðar til framtíðar og  komast út úr þeim vanda sem millifærslurnar valda.

Smáskammtalækningar fyrir suma skapa ekki raunverulegt velferðarkerfi jöfnuðar með lágmarksskattheimtu, en samt afgangi á ríkisútgjöldum.


Öreigar

Við bankahrunið var fyrirsjáanlegt að verðbólga mundi aukast en verð á eignum standa í stað eða lækka. Ég gerði þá kröfu að neyðarlög yrðu sett, sem tæki verðtrygginguna úr sambandi. Jóhanna Sigurðardóttir og formaður ASÍ vildu það ekki. Þess vegna er stór hluti þjóðarinnar öreigar í dag.

Verðtryggingin étur upp eignir fólks. Verðtryggð lán á Íslandi eru dýrustu lán í heimi. Væri verðtrygging ekki til staðar yrði ekki unnt að koma henni á miðað við reglur um neytendavernd.

Allir stjórnmálaflokkar hafa í stefnuskrám sínum að afnema verðtryggingu. Samt gerir engin neitt.

Nú er komið í algjört óefni. Þá dettur skátaforingjanum frá Akranesi í hug að að lappa upp á kerfið með  því að setja verðbólguþak á verðtrygginguna. Hærra en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. 

Það verður fróðlegt að heyra formann Sjálfstæðisflokksins og þingmenn skýra það út fyrir Landsfundarfulltrúum í febrúar af hverju þeir sviku stefnu Sjálfstæðisflokksins um að afnám verðtryggingar á neytendalánum og færa niður höfuðstóla verðtryggðra lána.

Frá fátækt til bjargálna var vígorð Sjálfstæðismanna, þegar þjóðin átti færri kosti og var verr stödd. Nú hefur staðan breyst vegna verðtryggingarinnar. Tugir þúsunda hafa verið færðir í helsi fátæktar.  

ASÍ og stjórnmálaflokkarnir hafa svikið fólkið í landinu knúðir áfram af kór lífeyrisfurstana sem kyrja samstilltan verðtryggingarsöng sem leiðir til örbirgðar fólksins í landinu.

Öreigar Íslands munu hrista af sér hlekki örbirgðar með því að hætta að borga og flytja úr landi. Var það óskastaðan sem vormenn Íslands vildu að fengnu sjálfstæði þjóðarinnar?


Velsæld er vond

Umhverfisráðherra var í hópi 17.000 opinberra starfsmanna á loftslagsráðstefnunni í furstadæminu Qatar, þar sem samþykktar voru aðgerðir sem fela í sér nýja skatta og takmarka framkvæmdir. Að vísu ná samþykktir ráðstefnunar aðeins til 15% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum skv. upplýsingum ráðherrans í morgunútvarpinu.

Í viðtalinu sagði upptendraði umhverfisráðherrann í tengslum við þessa loftslagsráðstefnu,  að hún hefði móast gegn nýrri stóriðju í landinu. Atvinnulausir landsmenn hljóta að færa ráðherranum sérstakar þakkir fyrir það.

Einnig sagði ráðherrann gott að útblástur gróðurhúsalofttegunda hefði minnkað í kreppunni. Var á henni að skilja að það væri hið besta mál og við ættum að keppa að því að vera í viðvarandi kreppu. Þannig verður það raunar ef fólk eins og Svandís Svavarsdóttir halda áfram að stjórna landinu.

Athyglisvert var að heyra  frá umhverfisráðherranum að við heyrum undir lögsögu Evrópusambandsins í loftslagsmálum, en þar er rekin vitlausasta stefna sem um getur í þessum málaflokki. Ráðherrann sagði að losun í stóriðju og flugi væri alfarið á valdi Evrópusambandsins fyrir Ísland.

Evrópusambandið er eini hópur iðnríkja sem hafa með ákvörðunum sínum á ráðstefnunni í Qatar dæmt íbúa sína til að þola samdrátt og lakari lífskjör vegna pólitísku veðurfræðinnar. Einnig að dragast aftur úr öðrum þjóðum í iðnaði og annarri framleiðslu. Það er eðlilegt að ráðherra Vinstri grænna fagni að vera í þeim hópi.


Verndarar sjálftökuliðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður bendir á það í Morgunblaðsgrein í gær að laun slitastjórnarmanna hafi hækkað úr 16.000 krónur á klukkustund í 35.000 á 4 árum eða um tæpan helming. Þá bendir Guðlaugur Þór á það með glöggum hætti að slitastjórnir heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og ríkisvaldinu í lófa lagið að taka í taumana og stöðva sjálftöku slitastjórnarfólks,  ef vilji væri fyrir hendi.

Frá því í janúar 2010 og allt til þessa dags hefur þetta mál ítrekað komið til umræðu á Alþingi og jafnan hefur Steingrímur J. Sigfússon fordæmt sjálftöku slitastjórnanna og hvatt til aðgerða. Aðgerðirnar heyra raunar undir hann og hann getur haft frumkvæði í málinu en gerir það ekki eins og Guðlaugur Þór bendir réttilega á.

Í bloggfærslu 27.9.2012  http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1259678/

benti ég sérstaklega á þá svívirðu sem hér væri á ferðinni og hvernig þau Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og fyrr Gylfi Magnússon hefðu í raun gerst verndarar sjálftökuliðsins. Þau hefði látið undir höfuð leggjast að taka á málinu.

Enn viðgengst sjálftaka slitastjórna þar sem fólk hækkar laun sín að vild og beinir viðskiptum til eigin fyrirtækja án þess að eftirlitsaðilinn eða ráðherra láti sig málið varða nema með því að gelta á Alþingi.

"Alþýðuforingjarnir" Jóhanna og Steingrímur J. hafa því í verki gerst verndarar sjálftökuliðsins. Gott væri ef "alþýðuforingjarnir" hefðu bætt kjör fólksins í landinu með sama hætti og laun sjálftökuliðsins, en því miður njóta almennir sjálfstæðir atvinnurekendur og launþegar ekki sömu náðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 679
  • Sl. viku: 4114
  • Frá upphafi: 2603888

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 3853
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband