Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Hvað þá Katrín, Árni Páll og Steingrímur?

Skynsamlegar tillögur um niðurfærslu höfuðstóla verðtryggðra lána ásamt öðrum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað er fyrsta almenna og vitræna skuldaleiðréttingin frá Hruni.

Það er aumkunarvert að sjá ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn þau Steingrím J. Sigfússon, Katrínu Jakobsdóttur og Árna Pál Árnason  finna tillögunum allt til foráttu og vera með úrtölur og nöldur. Þau sátu í ríkisstjórn sem gerði lítið annað en eyðileggja fullnustukerfið og standa að  kostnaðarsömum og ónýtum aðgerðum.

Við Hrunið átti að taka verðtrygginguna úr sambandi. Þó það væri ekki gert voru samt betri aðstæður þá og fyrstu árin á eftir en nú til að taka á forsendubrestinum. Ríkisstjórn  Jóhönnu Sigurðardóttur gerði engar almennar skuldaleiðréttingar fyrir fólk sem átti eitthvað í eignum sínum. Skömm ráðherranna sem sátu í þeirri ríkisstjórn er mikil. Þau ættu því að einhenda sér í það með ríkisstjórninni að draga úr skaðanum sem þau ollu síðustu fjögur árin á fjárhagsstöðu heimilanna í landinu.

Að sjálfsögðu kosta skuldaleiðréttingar. Ríkissjóður greiðir stóran hluta af því vegna seinagangsins á að taka á málinu. Eðlilegast hefði verið að þeir sem fengu óréttmætan ávinning vegna ranglátrar verðtryggingar hefðu greitt þann kostnað, en því verður ekki viðkomið svo löngu síðar. Aftur rekum við okkur á þá hræðilegu arfleifð sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skilur eftir sig. 

Þau Steingrímur, Árni Páll og Katrín Jakobs hamast nú gegn tillögum ríkisstjórnarinnar. En hvar eru þeirra úrræði? Eru þau til? Ef svo er þá er eðlilegt að þau segi fólkinu í landinu frá þeim tillögum.

Svo er að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Það þolir enga boð. 


Skuldaniðurfærsla og réttlæti.

Tillögur um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána, sem forsætis- og fjármálaráðherra kynntu á laugardaginn eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná.  Faglega eru tillögurnar vel unnar af sérfræðingahópnum. Erfitt er að ná fram réttlæti mörg ár aftur í tímann og framhjá þeirri staðreynd verður ekki gengið.

Niðurfærsla höfuðstóla verðtryggðra lána sem samsvarar verðbótum umfram 4.8% frá desember 2007 til ágúst 2010 skiptir mestu. Þar er þó ekki nóg að gert til að ná fram réttlæti. Á þessu tímabili voru engar almennar hækkanir eða virðisauki hér á landi, en hækkun verðtryggðra lána var vegna kyrrstöðuverðbólgu. Niðurfærsla allra verðbótanna á þessum tíma hefði því verið réttlát en því miður óframkvæmanleg svo mörgum árum síðar.

Það mátti öllum vera ljóst þegar Hrunið varð, að það varð að taka verðtrygginguna úr sambandi til að alls réttlætis yrði gætt. Það réttlæti vildu þau Jóhanna Sigurðardóttir, Gylfi Arnbjörnsson og ýmsir forustumenn í fjármálakerfinu ekki heyra minnst á. Búsáhaldabyltingin kom síðan í veg fyrir skynsamlegar aðgerðir á þeim tíma. Ábyrgða þeirra aðila sem þar stóðu svo illa að verki er því mikil.

Kyrrstöðustjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði ekki neitt nema að fresta fullnustuaðgerðum og bjóða upp á aðgerðir sem höfðu enga þýðingu nema  að fresta vandanum. Lagðir voru milljarðar í tilgangslítið embætti umboðsmanns skuldara og gallaða greiðsluaðlögun. Þær aðgerðir voru mislukkaðar og hafa engu skilað nema samfélagslegum útgjöldum og brostnum vonum.  Óneitanlega er ömurlegt að hlusta nú á forustufólk Samfylkingar og Vinstri grænna vandræðast með fyrstu raunhæfu tillögurnar í skuldamálum heimilanna sem fram hafa komið frá Hruni.

Kosturinn við tillögur ríkisstjórnarinnar nú eru að þær taka til venjulegs fólks sem var að fjárfesta í fasteignum og vill standa í skilum og hefur burði til að gera það svo fremi ástandið í þjóðfélaginu versni ekki. Leiðrétting verðtryggðu lánanna og skattleysi séreignalífeyrissparnaðar eru góð nálgun. 

 


Meira en helmingur þjóðar á launum hjá ríkinu

Í bók sem kom út í gær  "Af hverju ég ætla að fara frá Frakklandi" kemur fram að  vinnufært fólk í Frakklandi sé um 28 milljónir og af þeim fái 14.5 milljónir eða rúmur helmingur laun sín frá ríkinu með einum eða öðrum hætti. Opinberir starfsmenn eru rúmlega 22% af vinnufæru fólki. Höfundur bætir síðan við þeim sem eru atvinnulausir og fá ríkisstuðning við atvinnustarfsemi sína.

Um eða yfir helming þjóðartekna í vestrænum ríkjum Evrópu tekur hið opinbera og eyðir því. Í Alþýðulýðveldinu Kína er sambærileg tala 19% eða rúmur þriðjungur af því sem Vestur-Evrópu ríkin taka til hins opinbera. Það er því tæpast spurning um hvar sósíalisminn hefur yfirtekið af fullum þunga.

Hér á landi tekur hið opinbera um helming af þjóðartekjum og dugar ekki til miðað við daglegar fréttir af meintu hörmungarástandi víða í heilbrigðis-,velferðar- og menntamálum miðað við talsmenn opinberra stofnanna á þeim sviðum.

En hvenær komast skattgreiðendur yfir sín þolmörk?  Mikilvægasta byltingin sem verður að eiga sér stað er bylting hugarfarsins  gegn ríkisvæðingu en fyrir aukinni ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og takmarkaðri skattheimtu.  

Enginn hugmyndafræðilegur grundvöllur eða heildstæð stefna hefur verið mörkuð um niðurskurð ríkisútgjalda. Meðan svo er þá tekst ekki að draga úr kostnaði hin opinbera svo neinu nemi.  Skuldsetning ríkisins og sveitarfélaga er svo gríðarleg að þar er um algjört ábyrgðarleysi stjórnmálastéttarinnar að ræða.  Framkvæmdavílji og framkvæmdageta einstaklinganna er lömuð vegna ofurskatta og eignamyndun einstaklinga nánast útilokuð í skattkerfi þar sem fólki er refsað fyrir dugnað en sumir velferðarfarþegar verðlaunaðir.

 


Verðtrygging og verðbólguskot

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í lánamálum og skuldamálum heimilanna var vart hægt að skilja með öðrum hætti en þeim að afnema ætti verðtryggingu af neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum til neytenda auk einhverrar óskilgreindrar niðurfærslu.

Verðtryggingarfurstarnir hampa því mjög að fólk sækist nú frekar í verðtryggð lán en óverðtryggð. Það gerist iðulega þegar verðbólga dettur niður, en þeir hinir sömu fá að finna fyrir því síðar. Kosturinn sem fólk sér eru lágar afborganir í upphafi lánstímans. Verðtryggingarfurstarnir tala hins vegar ekki um það að ástæðan er líka sú að vextir af óverðtryggðum húsnæðislánum eru allt of háir.

Margt bendir til þess að hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar verði veruleg á næstu mánuðum. Þá munu þeir neytendur sem eru með verðtryggð lán tapa milljónum á milljónir ofan og sumir missa það litla sem þeir eiga enn í húsnæðinu sínu. Brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna var því að afnema verðtrygginguna af lánum til neytenda.

Það hefði verið hægt að standa þannig að málum að verðtrygging af neytendalánum væri afnumin með lögum sem afgreidd hefðu verið á síðasta sumarþingi. Það er engin afsökun fyrir ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokka að afgreiða ekki strax afnmám verðtryggingar af neytendalánum.

Aðgerðir strax. Það er engin þörf að bíða eftir nýju ári og láta verðtrygginguna éta upp milljarða af eignum fólksins í landinu á næstu mánuðum. Hvað dvelur Sigmund Davíð?


Spilltir kjósendur kjósa spillta stjórnmálamenn

Í Zimbabwe í suðurhluta Afríku hefur Mugabe forseti enn einu sinni unnið stórsigur í kosningum með réttu eða röngu. Stuðningsmenn hans kætast og fara í sigurgöngur.  Í stjórnartíð Mugabe hefur fjárhagur Zimbabwe hrunið. Verðbólgan verið mest í heimi og mannréttindi virt að vettugi. Spilltir kjósendur sjá til þess að þessi gjörspillti maður heldur völdum valdanna vegna.

En þetta er í Afríku og einhver mundi segja að aðrir hlutir ættu við í Evrópu og Bandaríkjunum.  Samt sem áður hafa gjörspilltir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum t.d. borgarstjórar sem teknir hafa verið fyrir eiturlyfjabrask og misferli með peninga náð endurkjöri þegar þeir komu úr fangelsi. Franskir kjósendur lýsa yfir mesta stuðningi við Zarkosy fyrrum forseta í nýrri skoðanakönnun þó hann sé sterklega grunaður um alvarleg fjármálaleg afbrot.

Fyrirbrigðið Silvio Berlusconi mesti áhrifavaldur í ítalskri pólitík á þessari öld hefur verið dæmdur fyrir skattsvik, fjármálaleg misferli, mök við ólögráða stúlku ásamt fleiru. Þrátt fyrir að þessir hlutir hafi legið fyrir um nokkra hríð nýtur Berlusconi mikils fylgis. Enn ætlar hann sér að verða örlagavaldur í ítalskri pólitík og svo virðist sem kjósendur muni styðja hann til þess þrátt fyrir allt.

Ítalía hefur verið á niðurleið efnahagslega allan stjórnartíma Berlusconi en það skiptir kjósendur ekki neinu máli heldur.  Þeir styðja sinn mann.

Skyldu íslenskir kjósendur vera frábrugðnir þeim frönsku eða ítölsku?

Spurning hvort við horfum upp á siðferðilegt hningnunarskeið í stjórnmálum og viðskiptum. Spilltir stjórnmálamenn eru endurkjörnir og stórfyrirtæki sem eru gripin í glæpum sleppa með minni refsingu en hagnaði þeirra nemur fyrir ólöglegt athæfi. 

Skattgreiðendur og þar með kjósendur borga síðan allan kostnaðinn vegna spillingarinnar og sitja uppi með milljarðaskuldbindingar vegna endurreisnar fyrirtækja sem rekin voru í þrot af mönnum sem halda áfram að reka þau og skammta sér áfram milljarða í arð og kaupauka.

Vegurinn til versnandi lífskjara er varðaður. Spurning er hvort kjósendur sjá nokkra ástæðu til að víkja af honum?


Ríkisbankar og bankahrun

Margir trúa því að ríkisbankar séu þeirrar náttúru að þeir fari ekki á hausinn. Margir héldu því fram við bankahrunið, að stofna bæri ríkisbanka í stað einkabanka. Skýrsla um starfsemi Íbúðalánasjóðs var birt í dag. Staðreyndin er sú að Íbúðalánasjóður er margfalt gjaldþrota og hefur tapað yfir 370 milljörðum.

Íbúðalánasjóður sem átti að hafa með höndum einfalda og örugga banka-og fjármálastarfsemi fór samt á hausinn. Ekki var þar um að kenna græðgisvæðingu og frjálshyggju, sem fyrrum forsætisráðherra og einn helsti örlagavaldur Íbúðalánasjóðs Jóhanna Sigurðardóttir taldi orsök falls einkabanka árið 2008.

Annar hópur opinberra og hálfopinberra fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóðirnir, sem fólk verður nauðugt viljugt að borga 12% af tekjum sínum samkvæmt þrælalögum frá Alþingi hafði tapað við hrun um 600 milljörðum.

Samtals hafa þessar opinberu og hálfopinberu fjármálaaðilar tapað um 1000 milljörðum eða sem svarar til nokkrum snjóhengjum og þrefallt því sem þarf til að lagfæra verðryggingarhallann fyrir almenning með niðurfærslu höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Enn stjórna þeir sömu og áður þessum opinberu og hálfopinberu sjóðum nema þeir hafi horfið til annarra starfa eða hætt fyrir aldurs sakir.

Versta fyrirbrigði í fjármálaheiminum eru einkabankar sem reknir eru á ábyrgð skattgreiðenda. Í ljósi þessara staðreynda er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort sé betra ríkisbankar á ábyrgð skattgreiðenda eða einkabankar á ábyrgð eigenda sinna.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þá ekki einkareksturinn á ábyrgð eigenda besti kosturinn?

  

 

 


Hver er á beit í buddunni þinni?

Stofnaður hefur verið "Samráðvettvangur" skipaður stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar og fleirum. Margt hefur vettvangurinn bent nýtilegt og gagnlegt. Annað orkar tvímælis

Vettvangurinn bendir á þá staðreynd, að bankastarfsmenn og útibú séu hlutfallslega fleiri en í nágrannalöndunum og kostnaður neytenda miklu meiri. Sama gildir um verslun með lengsta afgreiðslutíma, flesta verslunarfermetra og flest verslunarfólk á hvern íbúa. Vöruverð er því mun hærra en í nágrannalöndunum.  Ríkisvaldið verður því að stuðla að virkri samkeppni en leiðin til þess er að afnema allar hömlur í viðskiptum fólksins. Það leggur vettvangsfólk þó ekki til. 

Raunar féll Vettvangurinn á fyrsta prófi skynseminnar þegar lagt var til að hætta samkeppnishamlandi aðgerðum ríkisvaldsins í svína- og kjúklingaframleiðslu,en ríghalda í hæstu landbúnaðarstyrki og innflutningsvernd fyrir kál,mjólkur- og sauðfjárbændur. Allt á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Auk þess eiga neytendur áfram að borga hæsta verð sem um getur fyrir þetta fínerí.

Rök vettvangsins varðandi svína- og kjúklinga er að þar sé um verksmiðjuframleiðslu að ræða og þess vegna þurfi þeir ekki styrki eða innflutningsvernd. Annað gildi um búframleiðslu með óhagkvæmni flutningskostnaðar og lítilla eininga. Neytendur og skattgreiðendur eiga enn að mati vettvangsins að borga fyrir þá rómantík sem slíkri framleiðslu fylgir.

Jónas frá Hriflu og sá þýski skoðanabróðir hans frá sama tíma sem börðust fyrir smábýlastefnunni sem skyldi þróast og dafna á kostnað Grimsbý lýðsins geta snúið sér við í gröfinni harla glaðir yfir því að jafnvel þeir stjórnmálamenn sem segjast aðhyllast frjálsa samkeppni sem og þeir sem aðhyllast sósíalisma skuli sameinast í Samráðsvettvangi um smábýlastefnu sem stríðir gegn hugmyndum um frjálsa samkeppni, hagkvæmni og jöfnuð.

Samráðsvettvangurinn er eitt besta dæmið um hugsjónasneyð í íslenskri pólitík og skort á því að stjórnmálamenn samtímans séu tilbúnir til að berjast fyrir skynsamlegum hlutum á grundvelli hugmyndafræðinnar sem þeir eiga að standa fyrir.

Hvaðan kemur framleiðenda réttur til óhagkvæmrar framleiðslu og að vera á beit í buddunni þinni?


Ránsfeng verðtryggingarokursins verður að skila.

Ítrekað hefur verið sýnt fram á að dýrustu og óhagkvæmustu lánin eru verðtryggð lán til húsnæðiskaupa fyrir neytendur. Krafan um að afnema verðtryggð neytendalán er því að vonum sterk. Allir sjá óréttlætið sem fellst í verðtryggingarokrin nema þeir sem fá ránsfenginn og  stjórnmála- og fræðimenn sem eru á mála hjá þeim.

Margir halda því fram að verðtryggð lán til neytenda séu ólögleg. Ég efast um það miðað við þá óslitnu framkvæmd sem verið hefur hér í áratugi. Verðtryggð neytendaán eru hins vegar óréttlát og við eigum að koma í veg fyrir óréttlæti. Það þjóðfélag sem ekki gætir réttlætis fær ekki staðist sagði Leo Tolstoy og ég sammála.

Ég krafðist þess 6. október 2008 að verðtryggingin yrði tekin úr sambandi með nýjum neyðarlögum. Því miður komu Gylfi Arnbjörnsson, Jóhanna Sigurðardóttir og þeir sem þurftu að blása út höfuðstóla sína eftir 600 milljarða tap í hruninu í veg fyrir það. Afleiðingin er sú að  350 milljarðar hafa verið færðir frá neytendum til lífeyrissjóða, hrægammabanka og annarra fjármálafyrirtækja. Hefði tillaga mín verið samþykkt þyrfti ekki að tala um skuldavanda heimila í þessum kosningum og almenn velmegun væri

350 milljarðar hafa verið teknir af neytendum með verðtryggingunni vegna verðlagsbreytinga á sama tíma og húsnæði lækkar í verði, laun lækka og það er engin virðistauki í þjóðfélaginu. Hækkun höfuðstóla verðtryggðra lána við þessar aðstæður er því ekkert annað en ránsfengur.  Ránsfeng ber að skila.

Það er ekki sama með hvaða hætti ránsfeng er skilað.  Það gengur ekki að skila ránsfeng til eins með því að ræna annan eins og Framsóknarmenn og fleiri leggja til, sem ætla að færa fjármagnseigendum rúma hundrað milljarða á kostnað skattgreiðenda vegna lækkunar óinnheimtanlegra ónýtra skulda.  Það er til betri leið og hana verður að fara.

  

 


Flórinn hans Steingríms J. og Jóhönnu.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon dæsa mæðulega og andvarpa þegar þau eru spurð erfiðra spurninga af fjölmiðlum og svara síðan staðlað "Já en það varð hrun" og "Við þurftum að moka flórinn eftir Íhaldið og Framsóknarflokkinn"

Staðreyndin er nú samt sú að hér urðu helstu viðskiptabankarnir gjaldþrota, en þjóðfélagið hélt áfram vegna neyðarlaganna og réttra viðbragða og vinnubragða.  Þannig tókst að afstýra hruni. Flórinn sem þau vitna í hefur aldrei verið skilgreindur. En hvað skilja þau Jóhanna og Steingrímur eftir sig.

Seðlabankinn keypti nýlega evrur á gjaldeyrisútboði á 233 krónur. Opinbera gengið var þá 167 krónur. Gengi krónunnar er því skráð um 30-40% of hátt.

Kaupmætti er haldið uppi með falskri gengisskráningu.

Verðbólga hefur verið viðvarandi allt kjörtímabilið og fer nú vaxandi.

Heildarskuldir ríkisins eru yfir 1500 milljarðar auk 500 milljarða króna skuldbindingar vegna lífeyrisréttinda og Íbúðalánasjóðs.  Hver á að takast á við vanda 2 þúsund milljarða skulda ríkisins?

Vaxtakostnaður ríkisins er 90 milljarðar á ári eða andvirði helmings verðmætis fiskafla úr sjó við Ísland árlega. Hver á að takast á við þann vanda og leysa hann.

Seðlabankastjóri lýsir því yfir að Íbúðalánasjóður sé í raun gjaldþrota hver á að takast á við það.

Vandi skuldsettra heimila vegna verðtryggingarránsins er algjörlega óleystur hver á að leysa það.

Jóhanna og Steingrímur hafa ekki mokað neinn flór. Þau hafa því tafið þá uppbyggingu sem var hafin þegar Samfylkingin ákvað að gera byltingu með VG í janúar 2009 til að tryggja sér völd og aukin áhrif. 

 Það þarf kjark, dugnað og áræði til að takast á við þau vandamál sem þetta ólánsfólk skilur eftir sig og það verður ekki létt verk að hreinsa þá rotþró.


Leiðin til vondra og versnandi lífskjara

Í kvöldfréttum RÚV þ.12.2. var sagt frá því að lífskjör hér á landi væru mun lakari en á hinum Norðurlöndunum. Launþegar hér hafa 60% lægri tekjur en launþegar á hinum Norðurlöndunum. Auk þess erum við með dýrustu lán í Evrópu. 

Markmið okkar er að vera í fararbroddi ásamt frændum okkar á Norðurlöndunum og geta boðið fólkinu í landinu upp á bestu lífskjör sem völ er á, frelsi og frjálsa samkeppni. Þessi markmið eru því miður fjarlæg nú  og langt í að framfarasókn þjóðarinnar hefjist.

Sama dag og fréttist af bágum kjörum launamanna í landinu voru stjórnmálamenn þjóðarinnar önnum kafnir við  að gera kröfur um að  auknar byrðar yrðu lagðar á skattgreiðendur og reyna að koma í veg fyrir samkeppni á fjármálamarkaðnum, til að bjarga örsparisjóð á Siglufirði. Fjármálaráðherra og varaformaður Framsóknar jörmuðu um þetta í einum kór eins og þau hafi gleymt að gjaldþrota sparisjóðastefna Steingríms J. hefur þegar kostað þjóðina yfir 50 milljarða.

Fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra og strengjabrúða hans í Samfylkingunni voru önnum kafnir við að auka ríkisstyrk til Hörpu til að rugla samkeppnina á þeim markaði enn meir. Skattgreiðendur borga. Stjórnir Hörpu sitja allar áfram enda málið í endalausu ferli hjá menntamálaráðherra.

Leiðin til vondra og versnandi lífskjara er vörðuð og markviss undir forustu hugsjónalausra, markmiðslausra stjórnmálamanna sem telja rétt að skattgreiðendur hendi endalaust góðum peningum á eftir vondum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 696
  • Sl. sólarhring: 747
  • Sl. viku: 4163
  • Frá upphafi: 2603870

Annað

  • Innlit í dag: 657
  • Innlit sl. viku: 3898
  • Gestir í dag: 621
  • IP-tölur í dag: 604

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband