Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Hvað kostar bókin.

Í bókabúðum og stórmörkuðum landsins svigna borð undan þeim tæplega 1000 bókum sem gefnar eru út fyrir þessi jól. Bóksala er mjög takmörkuð nema bara í desember. Þess vegna er rangt að við séum bókaþjóð. Við erum bókagjafaþjóð. 

Mér virtist sem verð á ýmsum þýddum skáldverkum væri um 5.000 krónur. Sumar dýrari aðrar ódýrari. Aðrar bækur almennt dýrari. Hægt er að deila um hvort það er dýrt eða ódýrt. Hitt er ljóst að fæstir höfundar fá lágmarkslaun fyrir vinnu sína við samningu og frágang bóka sinna. Hönnun, umbrot, pappír, prentun og markaðssetning kostar sitt. Bókagjafaþjóðin gefur nefnilega innbundnar bækur. Þegar allt kemur til alls þá eru bækur sennilega ekki dýrar miðað við tilkostnað.

Í gær keypti ég tvær bækur inn á lestölvuna mína frá Amason. Að sjálfsögðu fara þær ekki í bókahillur eða verða gefnar. Komnar hingað í bókabúðir innbundnar hefði hvor um sig sennilega kostað nálægt 10 þúsund krónur og því prýðis jólagjöf. Kostnaður minn var þó rétt um 2.000 íslenskar krónur fyrir báðar bækurnar eða innan við helming af þýddri, innbundinni spennusögu í bókabúð í Reykjavík.

Spurning er þá hvað er dýrt og hvað er ódýrt og hvernig ráðstafar neytandinn peningunum sínum sem best.


Nýja Íslandið

Jóhanna Sigurðardóttir segir að baráttan sé um hið nýja Ísland Samfylkingarinnar og hins gamla sem hún segir Sjálfstæðisflokkinn vera í forsvari fyrir.  Hvað er hið nýja Ísland? Hvað er að gerast þar?

ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru sammála um að ríkisstjórnin svíki samninga

Hlutafjárútboð í Eimskip óskabarni þjóðarinnar er með þeim ósköpum að flestum er ofboðið.

Bakkavararbræður tryggja sér meiri hluta í Bakkavör eftir tuga milljarða afskriftir skulda.

Karl Wernerson og fleiri kóngar ofurskuldsettra fyrirtækja sem hafa fengið milljarða afskriftir fá 20% álag á peninga sem þeir koma með til Íslands. Karl fékk 240 milljónir fyrir 200.

Sjálftaka slitastjórna og annarrs sjálftökuliðs skiptir milljörðum á ári.

Verðbólga magnast og verðtryggðu lánin hækka og hækka.

Ekkert er gert af viti til að leysa skuldavanda einstaklinga og fjölskyldna.

Atvinnuleysi er viðvarandi.

Uppbygging í atvinnulífinu er nánast engin.

Skattheimta eykst

Krónan fellur og fellur og Seðlabankinn hefur engin úrræði.

Lífskjör versna og spillingin blasir við í öllum áttum.

Er þetta það Nýja Ísland sem Samfylkingin  berst fyrir?


Rökfræðileg uppgjöf. Atlagan að stjórnarskránni VIII.

Stjórnlagaráðsliðar sem hafa hvað hæst um nauðsyn heildarbreytingar á stjórnarskránni eru rökþrota.

Undanfarið hef ég hrakið rök og sjónarmið þeirra sem standa að atlögunni að stjórnarskránni. Engin haldbær mótmæli hafa komið fram þó að sjónarmið stjórnlagaráðsliðanna hafi verið hrakin lið fyrir lið. 

Rangfærslum og ósannindum er beitt er af hálfu þeirra sem krefjast þess að þóðin játi ófullburða og oft vanhugsuðum tillögum stjórnlagaráðsins.  Þeir treysta sér ekki til að mótmæla með rökum en halda sig við sömu röngu fullyrðingarnar í þeirri von að blekka megi þjóðina fram yfir kjördag.

Rökfræðileg uppgjöf þeirra sem gera atlögu að stjórnarskránni er algjör.

Það skiptir því máli að kjósendur hrindi þessari atlögu og mæti á kjörstað og sýni upphlaupsliðinu það sem það á skilið með atkvæði sínu.

Til ítrekunar vil ég benda á að tillögur stjórnlagaráðs breyta ekki fiskveiðistjórnarkerfinu, þær greiða ekki lánin, þær afnema ekki verðtrygginguna og þær hafa ekkert með hrun á banka- eða fjármálamarkaði að gera.

Þetta upphlaup og atlaga að stjórnarskránni hefur dregið athygli þjóðarinnar frá þeim verkefnum sem eru mikilvægust og skipta máli við uppbyggingu aukinnar velferðar og velmegunar.

Ljúkum þessu óráðs- ferli núna og segjum afgerandi  Nei við tillögum stjórnlagaráðs.

Snúum síðan bökum saman til sóknar til aukins jöfnuðar, gegn spillingu, gegn verðtryggingu og fyrir bættum lífskjörum.


Gott að eiga blaðafulltrúa á RÚV

Blaðafulltrúi Steingríms J. Sigfússonar hafði við hann tvö viðtöl í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gær. Þar lýsti Steingrímur J. því yfir vegna ummæla þingmannanna Atla Gíslasonar og Jóns Bjarnasonar sem fólu í sér að hann væri í þjónustu stórútgerðarinnar, að þessi mál væri í sérstakri skoðun í ráðuneytinu. Steingrímur sagði að þau ákvæði sem voru í frumvarpsdrögum Jóns Bjarnasonar hefðu ekki verið nógu góð og þess vegna væri verið að vinna þau betur.

Trúir þessu nokkur maður?

En það er gott að hafa blaðafulltrúa á Ríkisútvarpinu sem auk þess er líka þingfréttaritari Ríkisútvarpsins til að hjálpa til alltaf  þegar Steingrímur J. er beraður af því að gera eitt og segja annað. Sér í lagi er það gott þegar samþingmenn hans sem hafa lotið forustu hans halda því fram að Steingrímur gangi erinda stórútgerðarmanna.

Velferðarráðherrann Guðbjartur Hannesson er ekki svo lánsamur að eiga blaðafulltrúa á RÚV. Enda var hann tekinn og grillaður í Kastljósþætti í gærkvöldi. Alþjóð gerir sér því góða grein fyrir dómgreindar- og siðleysi Guðbjartar Hannessonar vegna launa mála ríkisforstjóra. Hann hélt að enginn mundi kjafta.

Það er munur að vera tungulipur "málsvari alþýðunnar" og hafa sérstakan blaðafulltrúa á RÚV eins og Steingrímur J. Sigfússon og komast upp með það að tala tungum tveim og jafnvel þrem og sverja af sér vondu málin. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, nýtur ekki sömu velferðar hjá RÚV.


Neytendur sviknir. Þess vegna hækka lánin.

Flest lán almennings eru bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Vöruverð í landinu skiptir því meira máli hér en í nokkru öðru landi fyrir velmegun fólksins. Svo virðist sem kaupmenn hafi svikið neytendur í sumar með þeim afleiðingum að neytendur greiddu hærra verð fyrir vörurnar en þeir áttu að gera. Þess vegna hækkuðu lánin líka í stað þess að lækka.

Frá því í apríl þangað til í júlí hækkaði gengi krónunnar um tæp 12%. Af þeim sökum hefði vöruverð innfluttrar vöru átt að lækka um svipaða prósentutölu en svo er ekki. Þegar vísitölur Hagstofunnar eru skoðaðar, sést að breytingar á vöruverði vegna styrkingar krónunnar skilar sér ekki til neytenda.

Breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sýnir líka að  hækkun á gengi krónunnar skilar sér mjög illa til lækkunar á vöruverði. Hvað gerist þá núna þegar krónan er að veikjast?

Skrýtið að vöruverð skuli nánast standa í stað þegar Evran er 168.4 og þegar hún er 146.6. Þrátt fyrir þessa tæplega 12% hækkun krónunnar gagnvart Evru þá damlar vísitala neysluverðs til verðtryggingar á sama róli og hækkar milli júlí og ágúst en lækkar aðeins í september eða sem svarar broti úr prósenti.

Það er vitlaust gefið og það er allt á kostnað neytenda og þeirra sem skulda verðtryggð lán. Meðan stjórnvöld láta þetta viðgangast þá eru þau ekki að vinna fyrir almenning í landinu.


Ráðningarpukur Steingríms J. Sigfússonar.

Það er skýr meginregla og góðir stjórnsýsluhættir að auglýsa störf þegar ráðið er í stöður hjá hinu opinbera.  Þetta er gert til þess að ráðningar séu gegnsæjar, gætt sé jafnræðis og hæfasti einstaklingurinn verði ráðinn í starfið.  Þar sem erfitt er að segja ríkisstarfsmönnum upp er ennþá mikilvægara að ráðningar séu faglegar. 

 

Þrátt fyrir þetta ætlar Steingrímur J. Sigfússon ekki að gæta gegnsæis, jafnræðis eða bjóða hæfileikaríku fólki að sækja um stöðu ráðuneytisstjóra í nýju atvinnuvegaráðuneyti.  Steingrímur ætlar að stunda pukur og geðþóttaráðningu án auglýsingar.  Þessi aðferð Stengríms við ráðningu í eitt æðsta embætti ríkisins er enn eitt dæmið um atlögu ríkisstjórnarinnar að faglegri og gagnsærri stjórnsýslu.

Athyglisvert verður að sjá hvort að Umboðsmaður alþingis telji ráðningaferlið samræmast góðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður ákvað, að eigin frumkvæði, að ávíta Geir Haarde, forsætisráðherra, fyrir að auglýsa ekki ráðningu í tímabundið skrifstofustjórastarf á nýrri efnahags-og alþjóðamálaskrifstofu í forsætisráðuneytinu í miðju efnahagshruni.  Málið var keyrt áfram af methraða. Umboðsmaður lauk því á 2 mánuðum (29/12/2008)

enda stóðu öll spjót á Geir og auðvelt að kaupa sér vinsældir með því að hnýta í hann.

Hvað bregst Umboðsmaður Alþingis við núna?


Alvarlega námskreppan

Kalli vinur minn segir að námskreppan sé búin hjá sér. Hann hækkaði sig úr tveim í aðaleinkunn í 4 eða um 100% og sagði að kennarinn hefði sagt að hann væri langflottastur. Kalli sagði að Einar bekkjarbróðir hans hafi verið eitthvað súr af því að kennarinn sagði að það væri ekki í lagi hjá honum af því að hann lækkaði úr 8.4 í 8.3 í aðaleinkunn sem er náttúrulega rosalegt hallæri. Þannig að Kalli sagði að Einar væri í alvarlegri námskreppu meðan námskreppan væri búin hjá sér, eins og Gylfi Zoega aðal hagfræðingur RÚV mundi orða það.

Ósýnilega höndin eða dauða höndin.

Stjórnmálamenn hafa sjaldnast búið til arðbær störf. Þeir geta hins vegar stuðlað að umhverfi hagvaxtar og velmegunar með  því að takmarka skattheimtu og afskipti ríkisvaldsins af þeim sem eiga sjálfir fyrirtækin sín og bera alla ábyrgð á þeim.

Ríkisstjórnin hefur farið þveröfuga leið. Skattlagning hefur verið óhófleg á lítil og meðalstór fyrirtæki.  

Það fer oftast framhjá stjórnlyndum stjórnmálamönnum að smá og meðalstór fyrirtæki eru forsenda framfara, hagvaxtar og velmegunar.  Þessi fyrirtæki verða útundan af því að litli kapítalistinn berst áfram og nýtur afrakstursins ef vel gengur en það hjálpar honum enginn ef illa fer. Smá- og meðalstóra fyrirtækið fær ekki milljarða lán og það fær ekki afskrifað háar fjárhæðir. Það nýtur heldur ekki sérstakra skattaívilnana sem stórfyrirtækin geta nýtt sér.  Eigendur litlu fyrirtækjanna vinna meira, taka minni laun og missa eignir sínar ef það gengur ekki vel.

Hvílíkt regindjúp er staðfest á milli þeirra sem vinna í umhverfi smáatvinnurekstursins og velferðarkerfis stórfyrirtækjanna og ríkisfyrirtækjanna þar sem stjórnendurnir taka venjulegast enga áhættu en geta átt völ á góðum eftirlaunum, starfslokasamningum auk ýmiss smáræðis eins og námsferðum, orlofsárum o.s.frv. Milljarðarnir eru afskrifaðir á stórfyrirtækin og síðan halda sömu stjórnendurnir sem ekkert eiga áfram að stjórna endurreistum fyrirtækjum og geta grafið upp milljarð eða fleiri ef á þarf að halda til að halda fyrirtækinu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur aukið vanda smá og meðalstórra fyrirtækja verulega. Þannig var virðisaukaskattur hækkaður. Fjármagnskostnaður er sá hæsti sem þekkist í heimi og ofurskattheimta og pappírsfár í kringum lítil fyrirtæki íþyngir rekstrinum.

Nú hefur ríkisstjórnin komið með áætlun um atvinnusköpun með áherslu á millifærslur í gegn um ríkisfjárhirsluna með því að skattleggja suma og millifæra þá peninga til annarra. Atvinnuáætlun ríkisstjórnarinnar sem Guðmundur Steingrímsson alþingismaður kallar "planið góða" byggist aðallega á því að ná peningum frá útgerðinni með auðlindaskatti, til að millifæra peningana í gæluverkefni sem eru þóknanleg kommissar Jóhönnu og kommisar Steíngrími. 

Þessi hugmyndafræði fer þvert á það sem stjórnmálamenn í Bandaríkjunum eru að átta sig á að gengur ekki lengur. Obama forseti sem og pólitískir andstæðingar hans standa nú fyrir aðgerðum sem hafa fengið nafnið "Jumpstart our business startups act." Það felst m.a. í því að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem eigendurnir eiga og bera áhættu af fyrirtækjunum sínum.

Á Evrópska efnahagssvæðinu eru meir en 23 milljónir einkafyrirtækja þau fyrirtæki þyrftu ekki að ráða nema einn starfsmann hvert til að eyða atvinnuleysinu í álfunni en þar eru tæplega 23 milljónir atvinnulausir. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi eru umtalsvert fleiri en þeir atvinnulausu. Með því að lækka skatta og gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum eðlilegt svigrúm á markaðnum og eðlilegt lánaumhverfi  þá væri hægt að eyða atvinnuleysinu, auka velmegun og hagvöxt í landinu umtalsvert.

Dauða hönd ríkisstjórnarinnar, ríkisafskipta, gæluverkefnanna, útblásins svonefnds velferðarkerfis og andlitslausu stórfyrirtækjanna sem starfa á ábyrgð skattgreiðenda dregur hins vegar máttinn úr hagkerfinu.

Það verður að gefa því duglega fólki sem er tilbúið til að vinna mikið og leggja mikið af mörkum og taka áhættu til að gera drauma sína að veruleika eðlilegt svigrúm. Það er forsenda sjálfbærni og framfara í þjóðfélaginu.


Hvað nú kona?

Til hamingju með baráttudaginn íslenskar konur. 

Ef til vill var það þannig að þegar konur tóku sér frí og héldu einn best heppnaða útifund sem haldinn hefur verið í landinu, að þá opnuðust augu margra varðandi kynjamismun í landinu. Einn elsti þingmaðurnin á þeim tíma, dr. Gunnar Thoroddsen var af sumum atyrtur fyrir að leggja fram frumvarp um jafna stöðu karla og kvenna. En frumvarpið var samþykkt af Alþingi og  jafnstaða kynjanna urðu lög í landinu.

Hvað hefur gerst síðan? Njóta konur jafnréttis og jafnstöðu?   Í lagalegu tilliti gera þær það en mikill launamunur er enn á milli kynjanna. Stafar hann bara af kynferði eða eru aðrar ástæður sem valda því?

Viðurkennt er og hefur verið sýnt fram á í ítrekuðum könnunum á vegum Sameinuðu þjóðanna að velferð þjóða er þeim mun meiri eftir því sem jafnstaða kynjanna er meiri og atvinnuþáttaka kvenna. Þrátt fyrrir það býr rúmur helmingur mannkyns við mikla kvennakúgun.  Þvingaðar giftingar, umskurn, svipting eðlilegra réttinda, bann við skólanámi, atvinnuþáttöku og fleira er víða í Afríku, Asíu og raunar víðar. Í Evrópu viðgengst þrælasala þar sem konur eru hnepptar í ánauð og misnotaðar. 

Kvennréttindahópar hafa því verk að vinna sem og aðrir sem unna mannréttindum. Þetta er ekki einkamál kvenna. Þetta er hluti af almennri mannréttindabaráttu. Það skiptir máli að berjast fyrir því sem máli skiptir en láta vera aukaatriði sem jafnvel geta á endanum orðið til tjóns fyrir eðlilega starfsemi í þjóðfélagið.

Spurning er hvort að sumar kröfur femínístanna hafa orðið til þess t.d. að lækka laun ákveðinna stétta í stað þess að koma á launajafnrétti sem að var stefnt. Þá er spurning um hvort kynjakvótar og fléttuhugmyndir allskonar á kynjavísu eigi rétt á sér eða standist kröfur um jafnstöðu kynjanna.

Ég lít á réttindabaráttu kvenna fyrir jafnstöðu sem sjálfsagðan og eðlilegan lið í að koma á mannréttindum.  En það er rangt að láta fólk njóta eða gjalda kynferðis síns vegna þess að svo og svo margar konur eða karlar eru í fleti fyrir þar sem einstaklingur vill hasla sér völl

Aðalatriðið er samt að gleyma ekki grundvelli hugmyndarinnar um jafnstöðu kynjanna og nú er baráttuvettvangurinn sérstaklega að ná jafnstöðu fyrir konur þar sem réttindi þeirra eru smáð og svívirt og koma í veg fyrir kynlífsþrælkun og misnotkun á fólki. Það eru næg verkefni.

 Unga kona það er aldrei hægt að játa oki kynsystra þinna á forsendum ólíkrar menningar eða trúarbragða. Mannréttindi eru algild og það er aldrei hægt að samþykkja frávík frá þeim.


Skuldavandinn hvað er það?

Vinstri Grænir og Samfylking lofuðu kjósendum fyrir síðustu kosningar að leysa skuldavanda heimilanna. Það hét hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Loforðin reyndust vel til atkvæðaveiða.

Þrem árum síðar hefur ríkisstjórnin ekkert gert sem máli skiptir en Jóhanna segir mesta skuldaniðurfellingin hafi verið hér og ruglar þá með lækkun gengisbundinna lána vegna dómsniðurstöðu.

Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðarpakka eftir aðgerðarpakka fyrir þá sem geta ekki borgað. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því ekki gegnt  öðrum tilgangi en auka flækjustig í fullnustukerfinu og halda óinnheimtanlegum skuldum við.

Nú er málið komið á það stig að velferðarráðherra viðurkennir að hann viti ekki sitt rjúkandi ráð. Í viðtali sagði velferðarráðherrarnn að ríkisstjórnin hefði ekki tekið endanlega ákvörðun það væri verið að greina vandann betur og skoða hvað er hægt að gera.

Má minna á að það eru rúm 3 ár síðan ríkisstjórnin tók við. Hvað skyldi taka ríkisstjórnina mörg ár að greina vandann? Hvað skyldi það síðan taka ríkisstjórnina mörg ár að átta sig á hvað hún vill gera? Hvað skyldi það síðan taka ríkisstjórnina mörg ár að hrinda  því í framkvæmd?

Sem betur fer eru kosningar eftir eitt ár og þá gefst tækifæri til að losna við þetta fólk sem getur þá reynt að greina vandann í stjórnarandstöðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 10
  • Sl. sólarhring: 666
  • Sl. viku: 4118
  • Frá upphafi: 2603892

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 3857
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband