Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Grænn vegur til versnandi lífskjara

Við húrrahróp og fögnuð samþykkti Alþingi einróma þingályktunartillögu um eflingu svonefnds græns hagkerfis. Verði þessi græna ályktun að veruleika þá verða meiri höft lögð á borgarana og  atvinnustarfsemi verður gert erfiðara fyrir.

Það er athyglivert að á sama tíma og íslenskir stjórnmálamenn sameinast í húrrahrópum og lýðskrumi um gildi græna hagkerfisins, þá eru þær þjóðir sem áður hafa lagt út á þessa braut að uppgötva hvílíka lífskjaraskerðingu það hefur í för með sér fyrir almenning. Einnig gríðarlegan kostnaðarauka fyrir ríki og sveitarfélög. Eðlilegt að þingheimur fagni.

Í Bretlandi er rætt um í tengslum við umræður um fjárlög og útgjöld ríkisins, að lög vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar og græna hagkerfisins,  valdi gríðarlegum hækkunum á raforku til almennings. Með skírskotun til græna hagkerfisins eru skattar á bensín og aðrar munaðarvörur auknir- skemmtileg tilhugsun fyrir íslenska neytendur eða hvað?

Í grein enska stórblaðsins The Daily Telegraph í dag segir að græna hagkerfið valdi kostnaðarauka upp á 650 pund árlega á venjulega fjölskyldu eða 130.000 íslenskar krónur á ári. Skyldu íslenskir alþingismenn hafa hugsað um þennan viðbótarpinkil á fjölskyldurnar í landinu þegar þeir stigu stríðsdans á Alþingi til að fagna samþykkt þingsályktunartillögunnar um græna hagkerfið?

Fjármálaráðherra Breta hefur áhyggjur af uppsöfnuðum áhrifum "grænnar stefnumörkunar" eins og hún hefur verið rekin í Bretlandi og Evrópusambandinu og segir að endalausar kröfur um þjóðfélagsleg og umhverfisleg markmið þýði gjaldþrota fjölda fyrirtækja,  mörg störf muni tapast og landið verði fátækara."  Athyglisvert að þetta skuli fjármálaráðherra Breta segja á sama tíma og Alþingismenn á Íslandi dönsuðu stríðsdans af fögnuðu yfir því að koma þessum hömlum á íslenska þjóð.

Skrýtið að þessi græna leið til versnandi lífskjara skuli hafa forgang á Alþingi en verðtryggingu og skuldavanda skuli ýtt til hliðar.  Eðlilega nýtur Alþingi trausts þjóðarinnar í samræmi við þessa forgangsröðun.


Sérleiðirnar duga ekki.

Verðbólga mælist nú tæp 7%, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er að verðbólga sé ekki yfir 2.5%. Seðlabankinn telur sig geta ráðið við vandamálin með því að beyta stýrivöxtum. Þess vegna eru stýrivextir Seðlabanka Íslands 4.75%. Þeir hæstu í okkar heimshluta.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir Seðlabankans og séríslenskar sérleiðir í efnahags- og lánamálum þá er verðbólga hér sú hæsta í Evrópu.  Ákveðinn hluti fjármagnseigenda græða á því að verðbólgan sé sem mest vegna verðtryggingar lána. Mistökin í efnahagsstjórninni sem lýsa sér m.a. í  7% verðbólgu í efnahagslegri kyrrstöðu veldur því að lánþegar og launþegar eru arðrændir í hverjum mánuði.

Í Noregi eru stýrivextir seðlabankans 1.5% og verðbólga er 1%. Þar eru laun mun hærri en hér á landi og skattar lægri. 

Verstu lífskjör vinnandi fólks á Norðurlöndunum eru á Íslandi. Okkur liggur á að hætta sérleiðunum í efnahags- og lánamálum og afnema verðtrygginguna og koma á ábyrgri efnahagsstjórn á forsendum og með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.


Sýniþörf fullnægt.

Í gær féll dómur í Hæstarétti. Niðurstaðan var að lánveitandi gæti ekki krafið lántaka um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann af gengisbundnum lánum. Jafnframt voru réttilega gagnrýnd ólög sem eru kennd við Árna Pál Árnason þáverandi viðskiptaráðherra. 

Af rökstuðningi meiri hluta Hæstaréttar að dæma má ætla að lántakandi geti krafist viðbótarvaxtagreiðslna af ógreiddum vöxtum aftur í tímann.  

Á Alþingi varð írafár strax og fréttist af dóminum. Þingmaður Hreyfingarinnar krafðist fundar í viðkomandi starfsnefnd nokkrum mínútum eftir að dómurinn var kveðinn upp. Sérstakar umræður eru á Alþingi í dag um dóminn.

Hvaða tilgangi þjónaði þetta?  Í sjálfu sér ekki neinum öðrum en að opinbera sýniþörf þeirra sem að þessu standa. Hvað gerir Alþingi vegna þessa dóms?

Nú liggur fyrir að búið er að létta skuldum af þeim sem voru áhættusæknastir og tóku gengisbundin lán. Þarf þá ekki  að skoða hvað á að gera fyrir þá sem voru varkárari og tóku verðtryggð lán. Gefur það ekki auga leið að það er ekki hægt að láta það fólk sitja uppi með Svarta Pétur?

Eina viðfangsefni Alþingis bæði fyrir og eftir dóm Hæstaréttar er í fyrsta lagi að  afnema verðtrygginguna og í öðru lagi að færa niður höfuðstóla þeirra lána alla vega til jafns við niðurfærslu gengisbundnu lánanna.


1.1.2008

Kristján Þór Júlíusson skrifar góða og athygliverða grein í Morgunblaðinu í dag.  Þar gerir hann kröfu til þess að höfuðstóll verð- og gengistryggðra lána verði færður niður miðað við stöðu þeirra þ.1.1.2008.

Kristján rekur í grein sinni á rökfastan og gagnorðan hátt með hvaða hætti beri að framkvæma niðurfærsluna. Hann bendir á hvernig eigi að útfæra lækkunina, hvaða vexti skuli greiða og hvernig fara skuli með umframgreiðslur.

Kristján Þór gerir sér grein fyrir að stefna ríkisstjórnarinnar vegna vanda skuldsettra heimila er óréttlát og ósanngjörn.

Kristján Þór segir m.a. "Almenningi ofbýður þetta óréttlæti. Skuldsett heimili, sem vilja standa í skilum krefjast réttlætis og sanngirni í sinn garð,........  Að mínu mati eru bæði sterk sanngirnis- og réttlætisrök sem mæla með því að tekist verði á við þann hluta forsendubrestsins sem löggjafinn getur tekið beint á."

Kristján Þór stígur nú opinberlega fram og sýnir að hann hefur hafið þá vinnu sem Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fól þingflokknum. Sú vinna er að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður höfuðstóla þeirra lána. Kristján Þór á heiður skilinn fyrir þetta framlag sitt.

Verðtrygginguna verður að afnema strax  Kristján Þór virðist gera sér glögga grein fyrir því.

Þeim mun fyrr sem þingflokkur Sjálfstæðisflokkurinn leggur allan sinn þunga í svipaða vinnu og þingmennirnir Kristján Þór  og Guðlaugur Þór hafa hafið við að afnema verðtryggingu á neytendalánum og bakfæra höfuðstólana þeim mun fyrr nær þetta brýnasta réttlætismál í þjóðfélaginu fram að ganga.


Tilraun til hvítþvottar?

Áttar fólk sig ekki á að skýrslan um lífeyrissjóðina var unnin fyrir þá á þeirra forsendum. Skýrslan greinir frá þekktum staðreyndum þó fólk hafi ekki áttað sig á hversu gríðarlegt tap þetta var.  En þar sem skýrslan var unnin fyrir lífeyrissjóðina þá var það ekki verkefni nefndarinnar að sýna fram á bruðlið og sóðaskapinn.


1. Það er ekki sagt frá dýru boðsferðunum sem stjórnarmenn og starfsmenn lífeyrissjóða fóru í á vegum banka og útrásravíkinga.
2. Það er ekki sagt frá hagsmunaárekstrum nema ör örlítið
3. Það er ekki sagt frá bruðlinu í lífeyrissjóðunum.
4. Það er ekki sagt frá ofurlaununum sem stjórnendur lífeyrissjóðanna voru með.

Af hverju er ekki sagt frá þessu?


Af því að það var ekki verkefni nefndarinnar. Lífeyrissjóðirnir borga fyrir það að koma eins vel út og mögulegt er eftir að hafa tapað rúmum fjárlögum.  Formaður lífeyrissjóðasambandið lýsti síðan ánægju sinni með störf nefndarinnar.

Mennirnir sem töpuðu 480 milljörðum halda því síðan fram að það megi ekki í neinu slaka varðandi verðtrygginguna.  Þarf eitthvað að tala við þá meira um það?


Vindmyllur græna hagkerfisins.

Í Hollenskri skýrslu sem sagt er frá í enska stórblaðinu Daily Telegraph í gær kemur fram að vindmyllur til rafgmangsframleiðslu valdi meiri koltvísýringsmengun en þau orkuver sem knúin eru með olíu. Auk þess er kostnaður neytenda miklu hærri.

Sama gildir fyrir Bretland og væntanlega aðrar þjóðir sem hafa komið sér upp vindmyllufrumskógum eins fallegt og það nú er í landslaginu.

Hollenska skýrslan er gefin út af Dr. C le Pair sem er efnafræðingur á eftirlaunum og þar segir m.a.

" Vindmyllurnar eru ekki sjálfbærar. Þær eyða meira eldsneyti en þær spara og þær draga ekki úr útblæstri koltvísýrings. Þvert á móti þá valda þær auknum umhverfisskaða."

Þá hefur Civitas hugmyndabankinn gefið út skýrslu þar sem niðurstaðan er svipuð. Það virðist því vera niðurstaðan að hvar sem gripið er á hinu svonefnda "græna hagkerfi" að þá fylgja því meiri vandamál en það leysir.

Við búum svo vel að hafa náttúrulega orku úr iðrum jarðar og afli fossa. Þess vegna eigum við ekki að láta okkur dreyma um að fara í kostnaðarsama tilraunastarfsemi græna hagkerfisins. 


Landsbyggðin borgar eða við öll.

Ríkisstjórnin hefur aukið skattheimtu á flugstarfsemi á rúmu ári um 400 milljónir. Hluti af þessari skattlagningu er vegna átrúnaðar ríkisstjórnarinnar á draugasöguna um hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Þessi aukna skattlagning hækkar verðlag í landinu og framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að þessi skattur bitni harðas á landsbyggðinni. Raunar veit ég ekki hvernig á að skilgreina landsbyggð í þessu sambandi. Fólk á höfuðborgarsvæðinu flýgur jú eins og aðrir.

Það er hins vegar ekki aðalatríðið heldur endalaus aukning á gjaldtöku ríkisins af neytendum.

Lendingagjöld hækka á Reykjavíkurflugvelli um 72%, farþegagjöld um 71% og flugleiðsögugjald um 22%

Hvert var annars verðbólgumarkmið ríkisstjórnarinnar? Var það ekki töluvert lægra en þessar  hækkanir?

Er virkilega engin sem vill tala máli neytenda varðandi þessar glórulausu skattahækkanir?


Verðhækkanir, dagvöruverslun og verðbólga

Verðbólga mælist 5.3% og fer vaxandi. Hvernig getur verið svona mikla verðbólgu í landi þar sem gengi gjaldmiðilsins er nánast stöðugt vegna gjaldeyrishafta og launahækkanir litlar.

Í fréttum í kvöld var sagt að jólasteikin hefði hækkað um 40% sú hækkun hefur ekki verið skýrð.  Víðast hvar í Evrópu mundu talsmenn launþega, neytendur og stjórnmálamenn krefjast svara við því af hverju svona miklar verðhækkanir hafi orðið á vörum sem ættu eðli máls samkvæmt ekki að hækka meira en nemur innlendum kostnaðarhækkunum.

Vöruverð á Íslandi er óeðlilega hátt miðað við laun og gengi, og hefur farið hækkandi án þess að eðlilegar skýringar hafi komið fram á nema örlitlum hluta. Verð á nánast allri innlendri framleiðslu hefur hækkað umtalsvert umfram launa- og kostnaðarhækkanir. Það þýðir að einhver er að taka meira til sín en áður. Hver eða hverjir skyldu það nú vera?

Alþingismenn telja eðlilegt að færa réttarfarið í landinu í hendur rannsóknarnefnda og þá væri e.t.v. mikilvægasta rannsóknarnefndin sú, sem þeir eiga eftir að skipa. Það er eftirlitsnefnd með eðlilegri verðþróun og verðlagningu í dagvöruverslun. Sú nefnd mundi ekki fjalla um söguskýringar eins og hinar heldur væri viðfangsefni hennar samtíminn og framtíðin.

Nýlokið er hlutafjárútboði í fyrirtækinu Hagar, sem rekur meginn hluta dagvöruverslunar í landinu. Allir hlutir sem voru til sölu í Högum,  seldust upp á svipstundu.  Þeir sem sjá sér hagnaðarvon í að kaupa í Högum telja að flá megi feitan gölt þar sem íslenskir neytendur eru. 

Þrátt fyrir að íslensk dagvöruverslun sé dýr og óhagkvæm, þá sjá fjárfestar þar samt mikla hagnaðarvon. Mikilvægt væri að fá vitrænar skýringar á því.

Alþýðusambandið sem annast um verðkannanir gæti gefið launafólki þá jólagjöf að fara að vinna af alvöru gegn óeðlilegum verðhækkunum í landinu.  Verðhækkanir eru kjararýrnun launþega, en hér á landi hittir það launþega tvöfalt vegna verðtryggingarinnar.

En hvernig er það fjárfestu lífeyrissjóðirnir e.t.v. mikið  í Högum? Sé svo er ASÍ þá úr leik í baráttunni fyrir réttlátri verðlagningu í dagvöruverslun fyrir launþega?


Ný hagfræðikenning

Gylfi Anbjörnsson forseti ASÍ var í síðdegisútvarpinu á Bylgjunni nú síðdegis. Þar var Gylfi spurður hvað það væri sem ylli verðbólgunni. Gylfi svaraði að bragði og sagði: "Það sem veldur verðbólgunni er verðbólgan sjálf" 

Þá vitum við það. Verðbólgan er samkvæmt áliti forseta ASÍ sjálfbær og er bæði orsök og afleiðing sjálfs sín.

Hagspekingurinn Gylfi Arnbjörnsson sem er helsti baráttumaður fyrir verðtryggingu lána til neytenda er það þrátt fyrir það að hann telji verðbólguna vera sjálfsprotna.

Skrýtið að þessi meinti hagsmunagæslumaður launafólks  skuli sætta sig við, að nú þegar Steingrímur hækkar skatta á brennivíni og tóbaki að þá skuli sú hækkun hækka verðtryggð lán.

Skrýtið? Nei. Gylfi Arnbjörnsson hugsar fyrst og fremst um hagsmuni fjármagnsins. Í fyrsta skiptið er helsti kapítalisti þjóðarinnar Gylfi Arnbjörnsson einnig forseti ASÍ.


Til varnar verðtryggingunni

Nú hefur forseti ASÍ stigið fram sem fyrsti maðurinn í varnarlínunni fyrir verðtryggingu lána til neytenda. Framsetning hans er óneitanlega sérstök en samkvæmt fréttum þá bendir hann sérstaklega á að vextir af óverðtryggðum lánum hafi almennt verið hærri en af verðtryggðum.  Í sjálfu sér ekki fréttir og segja ekkert um gildi verðtryggingarinnar. En betra er að veifa tilgangslausum rökum en engum.

Vextir á verðtryggðum íbúðarlánum húsbréfa Jóhönnu Sigurðardóttir voru hærri en vextir eru almennt í dag Gylfa forseta ASÍ til upplýsingar. En það skiptir ekki höfuðmáli.

Það sem skiptir höfuðmáli er að verðtrygging er óhagkvæmasta tegund húsnæðislána sem neytendum stendur til boða í okkar heimshluta. Það er mergurinn málsins og fjöldi kannana sýna þá staðreynd. En forseti ASÍ vandræðast ekkert með það. Hans viðfangsefni og hlutverk að eigin mati er að standa vörð um hagsmuni fjármagnseiganda á kostnað hins venjulega daglaunamanns.

Er maðurinn ekki á vitlausum stað í tilverunni?

Á ekki ASÍ til að gæta hagsmuna launafólks í landinu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 20
  • Sl. sólarhring: 650
  • Sl. viku: 4128
  • Frá upphafi: 2603902

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 3866
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband