Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Hagkvæm lán til húsnæðiskaupa

Kjarninn í velferðarstefnu Sjálfstæðisflokksins var m.a. að fólki stæði til boða hagkvæm lán til húsnæðiskaupa. Síðasti Landsfundur samþykkti að taka upp þá stefnu á nýjan leik. 

Víða hafa fjármálafyrirtæki og fjármagn verið látin hafa forgang. Á þeim forsendum hefur á undanförnum árum og mánuðum verið varið trilljónum dollara til að dæla inn í gjaldþrota banka í Bandaríkjunum, Englandi og víða um Evrópu. Nú örlar á skilningi á því að það þarf að fara aðrar leiðir.

Ríkisstjórn Bretlands hefur nú ákveðið að verja hundruðum milljóna enskra punda til að auðvelda fólki að eignast sína fyrstu íbúð. Ríkið mun samkvæmt þessari stefnu  einnig bera áhættuna að hluta af veðlánum á íbúðunum. En ríkisstjórn Bretlands ætlar að gera meira til að auðvelda fólki að eignast íbúðir og vinna að viðunandi íbúðarverði.  Með þessum aðgerðum m.a. telur breska ríkisstjórnin best að koma hagvexti á fulla ferð á ný og auka þjóðarframleiðslu.

Það sama á við hér.

Er einhver von til þess að ríkisstjórnin hafi skilning á að láta hagsmuni fólksins ráða meiru en hagsmuni fjármagnseigenda? 


Auknir skattar meiri velferð?

Formaður BSRB skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir heitinu "Félagsleg samheldni skilar meiru en einstaklingshyggja" Athyglivert að í greininni eru ekki  færð fram rök fyrir réttmæti þessarar fullyrðingar.  Meginefni greinarinnar er fögnuður yfir hárri skattheimtu.  Svo er að skilja að formaður BSRB telji að háir skattar tryggi velferð og aukna framleiðslu í þjóðfélaginu. 

Samt sem áður er staðan sú í háskattalandinu Íslandi að helmingur heimila getur ekki borgað óvænt útgjöld eins og t.d. ef þvottavél bilar eða ef leita þarf til tannlæknis svo eitthvað sé nefnt.

Formaðurinn segir "Skattar hverfa nefnilega ekki bara ofan í einhvern pytt"  En  því miður gera þeir það af of stórum hluta til. Er  afsakanlegt t.d. að reka sendiráð á Indlandi, Japan og öllum Norðurlöndunum. Er  afsakanlegt að eyða milljörðum af opinberu fé í óarðbæra framleiðslu afurða? Hægt væri að spyrja hundruð álíka spurninga.

Þetta er þeim mun sárgrætilegra þar sem ein króna af hverjum fimm er tekin að láni til að standa undir ríkisútgjöldum og þann kostnað verða börnin, barnabörnin og jafnvel barnabarnabörnin okkar Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns BSRB hvors um sig að greiða eigi íslenska ríkið að komast hjá gjaldþroti.

Formaður BSRB og fleiri sem hugsa eins og hún og setja fram fullyrðingar eins og þær sem koma fram í heiti greinarinnar ættu að skoða hvort staðhæfingin stenst sögulega skoðun.  Hvort sem okkur líkar betur eða verr  þá gerir hún það ekki. Þvert á móti þá er ofurskattheimtan og skuldasöfnun lýðræðisríkjanna ein versta og mesta ógnunin við efnahagslega sjálfstæð þjóðfélög og lýðræðið í dag.

Það þarf nefnilega alltaf að framleiða verðmætin sem standa undir velferðinni og sköttunum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Fjölgun sjúkrahúsa, tónlistarhúsa og skóla svo gott sem það kann að vera kemur því ekki til nema einstaklingshyggjan fái svigrúm til að skapa verðmætin sem þarf til að eitthvað verði afgangs til þess að reka öflugt velferðarkerfi.   


Slitastjórnir og ofurlaun

Tvisvar til þrisvar á ári uppgötva stjórnmálamenn og fréttamenn að sjálftaka þeirra sem sitja í slitastjórnum föllnu fjármálafyrirtækjanna er með öllu óeðlileg. Í janúar 2010 fordæmdu  þeir Gylfi Magnússon þá ráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þetta og töluðu um að breyta þessu. Það reyndist bara gaspur. Engu hefur verið breytt.

En það eru ekki bara ofurlaun slitastjórna sem eru óeðlileg. Það er líka óeðlilegt með hvaða hætti margt slitastjórnarfólk vinnur þannig að það fer út yfir öll siðferðileg mörk oft á tíðum. En engin gerir neitt og þetta fólk kemst óáreitt upp með að taka sinn ránsfeng.  Engin ber ábyrgð, en slitastjórnir ákveða að fara í mál gegn einstaklingum og fyrirtækjum. Þegar þau mál tapast þá yppta slitastjórnarmenn bara öxlum og halda jafnvel áfram málarekstri. Þetta fólk þarf engar áhyggjur að hafa það ber enga ábyrgð.

Þeir sem sitja í slitastjórnum hafa engan hag af því að ljúka vinnu sinni hratt og vel. Þvert á móti hefur slitastjórnafólkið hag af því að draga þetta sem lengst af því að meðan svo er getur það haldið áfram að skammta sér starfskjör eins og ekkert hafi í skorist.

Þegar ég talaði um það við fall bankanna að það væri betra að kjósa stjórnir fyrir föllnu fjármálafyrirtækin með svipuðum hætti og bankaráð þá töluðu menn um að það yrði of dýrt.  Hefði það verið gert þá hefði kostnaðurinn ekki orðið nema um 20-30% af því sem hann hefur orðið vegna kostnaðar við sjálftökuliðið.

Það getur verið dýrt að vera vitur eftir á og  enn dýrara að gera þá ekkert í því eins og þau Steingrímur og Jóhanna gera í þessu tilviki.

Var þetta hluti af því Nýja Íslandi sem þau Steingrímur og Jóhanna sögðu að mundi rísa af rústum hins spillta?


Burt með verðtrygginguna

Skoðanakönnun Hagsmunasamtaka heimilanna sýnir að mikill meiri hluti landsmanna vill fá lánakerfi eins og neytendur á hinum Norðurlöndunum búa við. Lán án verðtryggingar með eðlilegum vaxtakjörum.

Samkvæmt því sem kemur fram frá samtökunum þá kemur fram mikill meiri hluti í öllulm stjórnmálaflokkum með breytingu á lánakjörunum þannig að eðlilegt tillit sé tekið til hagsmuna neytenda.

Miðað við það væri því eðlilegt að samtökin mynduðu þverpólitískan hóp til að vinna að þessu hagsmunamáli innan stjórnmálaflokkana. Láta á það reyna hvort þeir eru tilbúnir til að standa fyrir þeirri breytingu sem nauðsynleg er í lánamálum neytenda.  Það hlítur að verða næsta og brýnasta verkefni samtakanna og miklu brýnna en að samtökin verði framboðssamtök. Það gæti orðið til að eyðileggja málið

Nema baráttan hefði  verið reynd til þrautar fyrst.

Verðtrygging verður að fara í lánum til neytenda. Eðlileg og sanngjörn lánakjör ætti að vera á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka og þeir ættu líka að koma breytingum fram. Það reynir á það hvort þeir gera það eða ekki. Fari svo að þeir geri það ekki þá eiga þeir stjórnmálaflokkar ekki lögmætt erindi við kjósendur.


Harðasti rukkarinn

Viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í morgun að Lífeyrissjóðirnir væru harðasti rukkarinn gagnvart skuldugum heimilium og kæmi minnst að lausn á skuldavanda heimilanna.  Þetta eru merkilegar upplýsingar.

Lífeyrissjóðirnir eru hugsaðir til að tryggja ákveðna velferð fólks þegar það hættir að vinna. Slíka velferð má tryggja með öðrum hætti en nú er gert t.d. með því að fólk geti myndað lífeyrissparnað með því að fjárfesta í eigin húsnæði og sé þá fjár síns ráðandi í stað þess að löggjafinn taki fjárráðinn af fólki með skylduaðild að lífeyrissjóðum og takmörkunum á fjárfestingum fólks vegna lífeyris.

Stjórnendur lífeyrissjóðanna vilja ekki horfa á það stóra samhengi að með því að neita aðkomu að og vilja til að leysa skuldavanda þeirra sem eiga eitthvað og geta eitthvað þá eru þeir að framlengja kreppu í landinu og koma í veg fyrir að aukna tekjuöflun sína í nánustu framtíð. Þessi afstaða lífeyrissjóðanna er því líkleg til að skaða þá þegar á heildarmyndina er liðið.

En stjórnendur lífeyrissjóðanna starfa samkvæmt því sem viðskiptaráðherra segir á þeim grundvelli að bjóða skuli upp hús fólks og reka það út á Guð og gaddinn til þess að því geti hugsanlega liðið betur í ellinni.


Ónýt úrræði

Fulltrúi ríkisins sem fylgist með meintum úrræðum ríkisstjórnarinnar  segir á Alþingi,  að bæði sértæka skuldaaðlögunin og 110% leiðin séu ótækar og/eða nái ekki markmiði sínu.

Þessi ónýtu úrræði ríkisstjórnarinnar komu fram eftir að ríkisstjórnin hafði áður lagt fram 3 ónýta svokallað velferðarpakka fyrir skulduga einstaklinga í þjóðfélaginu.

Einhvern veginn virðist stjórnendum þessa lands ganga erfiðlega að skilja að það varð sami bresturinn og óréttlætið hvað varðar verðtryggðu lánin og þau gengistryggðu. Í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin hefði þurft að gæta jafnræðis skuldara og endurreikna verðtryggðu láinin miðað við vísitölu októbermánaðar 2008. Þessi réttláta og nauðsynlega leiðrétting verðtryggðu lánanna verður að ná fram.

Það er betra að móta almennar leikreglur í þjóðfélaginu sem gilda jafnt fyrir alla í stað þess að búa til sérreglur fyrir suma. Ríkisstjórnin hefur búið til sérreglur fyrir þá allra skuldugustu oft þá sem ekkert áttu og ekkert höfðu í raun lagt fram af eigin fé.  Þetta var röng leið.

Jafnvel þó að færustu hagfræðingar heims sem koma sérstaklega til að fjalla um vanda íslensks efnahagslífs segi allir að verðtryggingin gangi ekki og létta verði skuldabyrðum af venjulegu fólki sem stynja undir oki verðtryggingarinnar þá neitar ríkisstjórnin að gera nokkuð af viti í málinu.

Það er tími til komin að þrælar verðtryggingarinnar láti almennilega til sín taka og sýni þessari ríkisstjórn að þeir sætta sig ekki við þetta rán lengur.


Upphefðin kemur að utan

Paul Krugman hagfræðiprófessor frá Bandaríkjunum,  lýsir enn einu sinni yfir aðdáun sinni á því hvað vel hafi tekist til á Íslandi frá hruni og stuðningsmenn Samfylkingarinnar mega ekki vatni halda og lýsa hver um annan þveran  ánægju sinni með Krugmann.

Athyglivert er í þessu sambandi að skoða að Paul Krugmann bendir sérstaklega á hvað það hafi verið gott fyrir Ísland að hafa krónuna og getað skert lífskjör almennings með því að lækka laun um allt að 70% miðað við fjölþjóðlega gjaldmiðla. 

Óneitanlega er það sérstakt að flokksspírur Samfylkingarinnar skuli hver um aðra þvera ásamt nokkrum verkalýðssinnum lýsa yfir ánægju með þessa gríðarlegu tekjuskerðingu launþega og mikilvægi þess að hafa íslensku krónuna.

Paul Krugmann kemur ekki inn á það að yfir 5.000 Íslendingar hafa flúið land frá hruni og skuldir heimila eru hæstar á Íslandi.

Paul Krugmann dáist að  því að fjármála- og ríkiskerfið á Íslandi skuli komast upp með að stela eignum fólksins með verðtryggingu og lækka laun að raungildi um allt að 70% til að bankar og ríki komist á þokkalegan kjöl. 

Er þetta virkilega það sem Samfylkingarfólk, verkalýðshreyfing og þeir sem kalla sig til vinstri í íslenskum stjórnmálum telja mikilvægast til heilla fólkinu í landinu og lýsa ánægju með?


3 ár

3 ár eru liðin frá bankahruni. Engin hefur verið ákærður í sambandi við það. Ekkert fé hefur fundist eða verið gert upptækt hvorki á Tortóla né annarsstaðar. Skuldavandi heimilanna hefur ekki verið leystur, en vogunarsjóðir og stórfyrirtæki hafa fengið gefnar upp skuldir sem nema 5 faldri þeirri fjárhæð sem þarf til að leysa vanda heimilanna.

Þeir sem nanfgreindir voru af útrásarvíkingum sem helstu orsakavaldar hrunsins lifa vel og praktuglega og virðast halda öllu sínu eða mestu leyti.

Engin ákæra tengd falli stóru bankanna þriggja hefur enn séð dagsins ljós og er ekki að vænta á næstunni miðað við upplýsingar frá Sérstökum saksóknara.  Þúsundir íslendinga eru landflótta og atvinnuleysi er meira en nokkru sinni fyrr. Nauðungaruppboðum og gjaldþrotum fjölgar.  Fleiri og fleiri eiga í alvarlegum skuldavanda og sé miðað við nýjustu tölur þá virðist sá skuldavandi geta tengst rúmlega 100 þúsund Íslendingum. Þannig er Ísland Jóhönnu og Steingríms í dag þremur árum eftir hrun.

Steingrímur J. Sigfússon sem krafðist þess í kjölfar  hrunsins að eignir bankamanna og útrásarvíkinga yrðu frystar auk annars þá hefur ekkert slíkt gerst þó að Steingrímur hafi verið helsti ráðamaður í pólitík í landinu 2 ár og 8 mánuði af þeim 3 árum sem liðin eru frá hruni. Hann stóð síðan fyrir því að framselja skuldir heimilanna til erlendra vogunarsjóða, en vel kann að vera að eignarráð þeirra sé m.a. einmitt í höndum þeirra sem bankamanna og útrásarvíkinga hverra eigur Steingrímur krafðist að yrðu frystar meðan hann var í stjórnarandstöðu.

Jóhanna Sigurðardóttir sem sat í ríkisstjórninni þegar hrunið var og var ráðherra Íbúðalánasjóðs,sem líka fór á hausinn í hennar ráðherratíð en hefur verið bjargað með framlögum frá skattgreiðendum, man ekki eftir því að hún hafi setið í ríkisstjórninni sem hún kallar hrunstjórnina og hún man heldur ekki eftir því að hún og Samfylkingarliðið knúði á um það í þeirri ríkisstjórn að ríkisútgjöld hækkuðu meir en nokkru sinni fyrr í sögu lýðsveldisins.  Það gerðist í bullandi þenslu og ábyrgð allra þeirra sem að þessu stóðu er mikil.

Jóhanna og Steingrímur hafa talað um að þeir sem voru við stjórn þegar stóru bankarnir þrír féllu yrðu aða axla ábyrgð og þau töluðu upp hatrið í þjóðfélaginu og hafa lagt grunninn að þeirri málefnasnauðu upphrópsumræðu sem varð í kjölfar hrunsins einmitt á þeim tíma sem nauðsyn bar til að bregðast við með málefnalegum hætti.

Á vakt þeirra Jóhönnu og Steingríms hafa fjölmörg fjármálafyrirtæki fallið má þar minna á t.d.

VBS þrátt fyrir að Steingrímur gæfi þeim 26 milljarða af fé skattgreiðenda, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Straumur fjárfestingabanki, Sjóvá-Almennar tryggingar sem Steingrímur greiddi 12 milljarða af fé skattgreiðenda, Sparisjóður Keflavíkur og Byr er rekin á undanþágu. En þau Jóhanna og Steintrímur telja sig ekki bera neina ábyrgð á þessu og Steingrímur sér ekki að hann beri ábyrgð á þeim kostnaði sem vitlaus pólitísk stefnumörkun hans í málefnum sparisjóðanna hefur kostað ríkissjóð. Þau Steingrímur og Jóhanna eiga það sammerkt að sjá ekki bjálkana í eigin augum en greina hins vegar glögglega flísina í augum pólitískra andstæðinga.

Til að drepa umræðunni á dreif og þegar ekki dugar að lýsa endalaust ábyrgð á bankahruninu á Sjálfstæðisflokkinn, frjálshyggjuna, Davíð og eftirlitsaðila þá fann Jóhanna það út í samvinnu við vinstri sinnaða lukkuriddara, að stjórnarskráin bæri  ábyrgð á bankahruninu og því bæri brýna nauðsyn til að breyta henni.

Er einhvers að vænta af fólki eins og Jóhönnu og Steingrími nema aukna eymd og volæði auk fleiri vitlausra ákvarðana. 


Réttlætið í nefnd

Fólk mótmælir verðtrygginarráninu og lánaokrinu. Loksins hefur forsætisráðherra áttað sig á því að mótmælin við Alþingishúsið snúast um það.  Fyrir ári  þegar hún áttaði sig á því sama setti hún málið í nefnd. Niðurstaðan varð engin. Nú býður forsætisráðherra enn upp á nefndina.

Réttlæti felst ekki í því að setja óréttlætið ítrekað  í nefnd. Þess vegna var það rétt afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna að segja nei takk við boði um að taka þátt í friðþægingar nefndarstarfi forsætisráðherra.

Réttlætið felst í pólitískri stefnumörkun. Sú stefnumörkun snýst um að íslenskir neytendur fái sömu lánakjör og neytendur á hinum Norðurlöndunum. Sérkennilegt að þetta skuli vefjast fyrir Norrænu velferðarstjórninni.

Réttlætið fellst líka í því að ránsfeng innistæðulausrar höfuðstólshækkana verðtryggðu lánanna verði skilað til baka og höfuðstólarnir endurreiknaðir miðað við 1.10.2008.

Það er þetta sem þarf að gera hvorki meira né minna. Málið snýst um réttlæti og sanngirni.

Jóhanna Sigurðardóttir minnir mig á dönsku drottninguna sem bað ráðgjafa sinn um að fræða sig um sósíalisma og hann sagði henni að margt fólk væri óánægt með að hafa lítið að borða og fátækt. Þá sagði danska drottningin. "Hvílík vanþakklæti og við sem höfum gefið þeim Tívolí." 


Nú er nauðsyn

Við stefnuræðu forsætisráðherra í fyrra mótmæltu þúsundir á Austurvelli lánaokrinu og getuleysi stjórnvalda. Jóhanna varð hrædd og skipaði nefnd og þegar nefndin tók jóðsótt fæddist lítil mús, sem engu máli skiptir fyrir skuldastöðu heimilanna.

Þjófnaðurinn í gegn um verðtrygginguna heldur áfram og lánin hækka og hækka þrátt fyrir að þjóðarframleiðsla dragist saman. Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi sagði á Bylgjunni í morgun að höfuðstóll þeirra hefði hækkað um 70 milljarða á síðasta ári. Það er álíka og nettóverðmæti sjávarafla af Íslandsmiðum á einu ári.  Sá samanburður sýnir hversu gegndarlaust verðtryggingarránið er.

Á sama tíma og raunverð fasteigna hefur hrunið og lækkað miðað við Evru eða Bandaríkjadal um 70% frá 2008 þá hefur höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkað og hækkað. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að bregðast við þessu.  Ekki er lengur hægt að una við slíkt aðgerðarleysi.

Í fjárlagafrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar er gert fyrir hækkun ákveðinna neysluskatta sem munu enn auka verðbólguna og hækka höfuðstól verðtryggðu lánanna. Þjófur verðtryggingarinnar mun stela síðustu krónunni sem þú átt í húsinu eða íbúðinni þinni.

Leo Tolstoy sagði að það þjóðfélag þar sem ekki væri gætt réttlætis fengi ekki staðist. Íslenska þjóðfélag lánaokursins fær ekki staðist. Í því efni verður réttlætið að ná fram að ganga. Íslenskir neytendur verða að njóta sömu lánakjara og eru á hinum Norðurlöndunum.  Það verður líka að skila ránsfeng verðtryggingarinnar frá hruni til þessa dags og taka verðtrygginguna úr sambandi þegar í stað.  Ekkert minna dugar.

Nú verðum við að sameinast um að mótmæla óréttlæti lánaokursins og standa saman og berjast hvar sem við getum. Í kvöld gefst gott tækifæri til að láta stjórnvöld heyra að okkur er alvara. Við ætlum að ná fram réttlæti. Við ætlum að eiga framtíð með virðingu og reisn. Við ætlum að víkja burtu lánaokri og sérhagsmunagæslu.

Stöndum saman. Mætum kl. hálfátta í kvöld á Austurvöll og sýnum samstöðu gegn verðtryggingu og okri. Mótmælum friðsamlega og af  festu. 

Sýnum samstöðu gegn verðtryggingarofbeldinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 47
  • Sl. sólarhring: 510
  • Sl. viku: 4155
  • Frá upphafi: 2603929

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 3892
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband