Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Þingsetning og mótmæli

Í lýðræðisríki er mikilvægt að borgararnir beri virðingu fyrir þeim stofnunum sem fara með lýðræðislegt vald.  Það á við m.a. um Alþingi, ríkisstjórn, dómstóla og lögreglu.

Setning Alþingis er hátíðleg stund, sem markar nýtt upphaf mikilvægustu stofnunar íslensks lýðræðis. Við borgarar þessa lands eigum að sýna þessari stund virðingu sem og Alþingi. Mótmæli og aðsókn að alþingismönnum við það tækifæri er óhæfa. Þess vegna eiga þeir sem vilja fylgjast með þingsetingunni að gera það af virðuleika í samræmi við þá hátíðarstund sem þingsetningin er.

Öðru máli gegnir um það þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi þá er mörkuð stefna ríkisstjórnar sem að eðlilegt er að bæði alþingismenn sem og almennir borgarar segi skoðun sína á þess vegna með friðsamlegum mótmælum ef svo ber undir. 

Ég hef hvatt fólk til að mæta við Alþingishúsið þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína til að mótmæla því óréttlæti sem íslenskir borgarar eru beittir með verðtryggingu lána. Krafan er að við njótum sambærilegra lánakjara og fólk í nágrannalöndum okkar í lánamálum og hvað varðar verðlag í landinu. Það er eðlilegt að við sýnum þeim sem hafa verið kjörnir til að gæta almannahagsmuna að þeir eru ekki að standa sig. Þar kemur ríkisstjórnin númer eitt. Þess vegna á að mótmæla við stefnuræðu forsætisráðherra.

En það þarf einnig að sýna þeim sem hafa verið kjörnir fulltrúar alþýðu manna í verkalýðsfélögum og ASÍ að þeirra þáttur er ósæmileg og andstæð hagsmunum umbjóðenda þeirra. Verkalýðshreyfingin á Íslandi ber umfram aðra ábyrgð á því lánaokri sem almenningur í landinu hefur þurft að sæta og sætir.  Er ekki kominn tími til að það fólk verði kallað til ábyrgðar ekkert síður en stjórnmálamennirnir?


Af hverju hafa konur lægri laun en karlar?

Hvar sem er í heiminum er launamunur milli karla og kvenna. Ekki skiptir máli hvers konar þjóðfélög er um að ræða. Á heimsvísu hafa konur lægri laun en karlar svo munar  10-30%.  Þetta vekur athygli vegna þess að ætla má að eftir því sem þjóðfélög þróast og menntun kvenna verður betri þá ætti launamunur kynjanna að minnka en svo er ekki.

Þetta er merkilegt m.a. vegna þess að í ríkum löndum starfa hlutfallslega fleiri hjá hinu opinbera þar sem launamunur kynjanna er almennt minnstur en samt sem áður kemur það fyrir ekki launamunur eftir kyni er umtalsverður.

Þrátt fyrir að minna sé um erfiðisvinnu þar sem reynir á líkamlegan styrk þá raðast kynin hvar sem er í heiminum í ákveðin og sambærileg störf og þar skiptir engu máli hverjar þjóðartekjurnar eru.

Í grein í Economist 24.4.s.l. er fjallað um þetta og velt fyrir sér ástæðum þessa kynbundna launamunar og þeir sem hafa áhuga á málinu ættu að kynna sér skrifin þar, en meginástæðuna fyrir því að konur eru í láglaunastörfum segir Alþjóðabankinn að sé vegna þess að konur stjórni ekki tíma sínum eins og karlar. Á Ítalíu og Austurríki t.d. þá eyða konur þrisvar sinnum lengri tíma í húsverk og barnapössun en karlar.  Í mörgum fátækari löndum þá eyða þær mun lengri tíma í þessa vinnu.

Eitt kemur þó sérstaklega á óvart en það er að í landi kvenfrelsisins Svíþjóð og kvennakúgunarinnar, Pakistan eyða karlar í báðum löndum álíka tíma í heimilisstörf. Sérkennilegt?????

Það að konur eyða svona miklu meiri tíma en karlar í heimilisstörf og barnauppeldi takmarkar það möguleika kvenna til starfsvals og þær þurfa frekar að vinna hlutastörf. 

Það er athyglivert að skoða þetta og það vekur upp spurningar miðað við herferð VR varðandi þessi mál hvernig er þessu fyrirkomið hér á landi hve miklum tíma eyða kynin í heimilsstörf og barnauppeldi t.d. og einnig hvort auglýsingaherferð VR er ekki byggð á röngum forsendum. 

Þá er spurningin hvort að áherslur femínista og kvennahreyfinga hafi ekki verið á röngum forsendum og það þurfi aðra hluti en útgjöld skattgreiðenda t.d. vegna fæðingarorlofs sem átti að mati femínista að draga úr launamun, sem ekki varð, til að tryggja raunverulega jafnstöðu karla og kvenna í launamálum.


Níðst á neytendum

Neytendum á Íslandi er bannað að gera hagkvæm innkaup vegna löglausra stjórnvaldstilskipana.  Það þýðir hærra verð á mat og hækkar verðtryggð húsnæðislán. Jóni Bjarnasyni ráðherra er alveg sama um það vegna þess að hann er staðráðinn í að standa vörð um hagsmuni hina fáu á kostnað almennings.

Meðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lætur ráðherrann fara sínu fram þá ber öll ríkisstjórnin ábyrgð á árás Jóns Bjarnasonar á neytendur og lífskjörin í landinu. Ríkisstjórnin ber líka öll ábyrgð á því að ekki skuli farið að lögum en valdheimildum sem Umboðsmaður Alþingis segir að standist ekki lög skuli beitt gegn hagsmunum fólksins í landinu.

Brýnasta hagsmunamál fólks er að brugðist sé við hækkandi verðbólgu. Það verður m.a. gert með viðskiptafrelsi þannig að fólk geti keypt ódýrt. Það verður líka m.a.gert með því að ríkisstjórnin aflétti órétmætum neyslusköttum. 

Af hverju stendur Norræna velferðarstjórnin ekki með neytendum?  Er það Norræn velferðarstjórn sem stendur með framleiðendum og fjármagnseigendum á kostnað neytenda? 

Á hinum Norðurlöndunum standa stjórnvöld vörð um hagsmuni neytenda. Hér níðast stjórnvöld á neytendum. 

 


Af hverju hækkar íbúðarhúsnæði í verði?

Meir en 1400 íbúðir eru í eigu fjármálafyrirtækja og yfir 400 þeirra stendur auður.  Kaupgeta almennings er nánast engin og lánafyrirgreiðsla til fasteignakaupa er takmarkaðri en verið hefur um árabil.

Samt mælist hækkun á verði fasteigna. Hvað veldur því?  

Fasteignaverð á Íslandi er lágt miðað við fasteignaverð á hinum Norðurlöndunum. Ástæðan er gengishrunið  og  offramboð á íbúðarhúsnæði. Þrátt fyrir það verður ekki séð hvað það getur verið sem knýr fasteignaverð upp nema þá  hagsmunir fjármálafyrirtækjanna sem eiga 1400 íbúðir. Það kemur betur út í reikningum fjármálafyrirtækjanna að fasteignaverð sé skráð sem allra hæst. Það kemur þeim einnig vel vegna þess að þá hækka verðtryggðu lánin.

Verðtrygging veldur því að skuldarar tapa milljörðum vegna  gervihækkunar á fasteignum á nánast steinddauðum fasteignamarkaði.   

Norræna velferðin og réttlætið er greinilega ekki fyrir aðra en fjármálafyrirtækin.


Lífeyrisránið

Ríkiskerfi sósíalismans skyldar alla  til að borga 15% af launum sína alla ævi í lífeyrissjóði.  Þeir sem borga í lífeyrissjóðina ráða engu um það með hvaða hætti peningunum þeirra er ráðstafað eða þeir ávaxtaðir.  Við ráðum ekki nema að takmörkuðu leyti í hvaða lífeyrissjóð við verðum að greiða. Hér gildir fullkomið einræði.

Við eigum þess ekki kost að spara sjálf á eigin forsendum.  Ríkisvald forsjárhyggjunnar svipti okkur því frelsi.

Lífeyrissjóðirnir spila á hlutabréfamörkuðum erlendis og tapa miklu fé. Ef til vill andvirði eins músikhúss eða 40-50 milljörðum síðustu viku.  Þá er eftir að gera upp tapið á vogunarsjóði lífeyrissjóðanna sem er í samkeppnisatvinnurekstri við einkafyrirtæki og ruglar allt sem heitir frjáls samkeppni.

Ræningjar forsjárhyggjunnar hafa ekki áhyggjur af þessu. Þeir stela sparnaðinum okkar með því að segja að við fáum bara minna borgað til baka. Hvaða ábyrgð ber ríkið á þessu. Það setti þvingunarlögin en ber enga ábyrgð.

Er lífeyriskerfið  risastórt svindl þar sem núkynslóðin er sú eina sem fær eitthvað út úr þessu, en komandi kynslóðir ekki. Í grein í Daily Telegraph á sunnudaginn var þessu líkt við frægasta svindl sögunnar kennt við Ponzi en þar gilti reglan fyrstir koma fyrstir fá hinir borga bara.

Þarf ekki að hugsa þetta kerfi upp á nýtt og gefa borgurunum aukið frelsi. Þeir sem vilja það ekki treysta fólki ekki og álíta að forsjárhyggjan sé betri en einstaklingsfrelsið. 

Hvernig stóð annars á því að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessari skerðingu einstaklingsfrelsisins?


Verkalýðshreyfing í vanda

Verkalýðshreyfingin er í meiri vanda nú en nokkru sinni fyrr á þessum baráttudegi verkalýðsins. Það þarf því ekki að koma á óvart að hópur félagsmanna sendi forustumönnum ASÍ tóninn.

Verkalýðshreyfingin heldur uppi varðstöðu um hagsmuni fjármagnseigenda.

Verkalýðshreyfingin ver verstu lánakjör sem almenningi er boðið upp á  í Evrópu.

Verkalýðshreyfingin sættir sig við að skattastefna ríkisins leggi þær byrðar á atvinnurekendur m.a. með stórhækkuðu tryggngargjaldi af hverjum starfsmanni að atvinnuleysi eykst.

Verkalýðshreyfingin virðist ekki átta sig á hvar hagsmunir umbjóðendanna liggja og ætlar sér að semja um hækkun í  krónum sem verða teknar af fólkinu  og rúmlega það  með sköttum verðhækkunum og hækkaðri lánskjaravísitölu.

Vekalýðshreyfingin hefur sætt sig við mestu kjararýrnun launafólks hér á landi í Evrópu siðast liðin 3 ár vegna þess að hún telur nauðsynlegt að styðja við bakið á ríkisstjórninni- eða er einhver önnur ástæða?

Verkalýðshreyfingin er föst í hugmyndafræðinni um lífeyrissjóðina sem hefur fært henni og atvinnurekendum völd, en um leið gert verkalýðshreyfinguna að mesta fjármagnseiganda í þjóðféalginu og tannlausu tígrisdýri í kjarabaráttunni.

Verkalýðshreyfingin hefur sætt sig við að bætur geti verið hærri en lægstu launatekjur.

Nú þegar verkalýðshreyfingin þarf að sýnast fyrir fólkinu sínu og segist stefna í verkfall eftir mánuð þá mættu menn þar á bæ og líka hjá Samtökum atvinnulífsins athuga það að þeir eru  málsvarar innan við helming launafólks og minna en helmings atvinnufyrirtækja.

Auk þess mættu þeir hjá ASÍ gera sér grein fyrir að launakjörin sem þeir eru að tala um að ná fram í samningum  hafa þegar verið afgreidd og rúmlega það til launafólks hjá alvöru fyrirtækjum.

Ábyrg og virk verkalýðshreyfing er þjóðfélagslega mikilvæg en hugmyndafræðilega stöðnuð verkalýðshreyfing er skaðleg bæði umbjóðendum sínum og þjóðfélaginu í heild.  

Verkalýðsforingjarnir ættu að huga að raunverulegum langtíma- og skammtímahagsmunum vinnandi fólks þegar froðan sjatnar í kampavínsglösum hátíðardagsins. 


Fá ekki að drekka í vinnunni

Franskir lögregluþjónar hafa mótmælt reglum sem banna þeim að drekka í vinnunni.  Hingað til hafa franskir lögregluþjónar fengið bjórinn sinn eða rauðvínið sitt í matarpakkanum. Nú er því  lokið.

Eðlilega finnst frönsku lögregluþjónunum vegið að persónufrelsi sínu auk þess sem vinnuaðstæður verða stórlega verri hvað þá heldur leiðinlegri að mati eins forustumanns félags lögreglumanna í Frakklandi.

Einn talsmaður lögreglujþóna orðaði þetta þannig að hið opinbera ætlaði að gera alla að prestum þó þannig að messuvínið væri líka frá þeim tekið í ofanálag við annan heilagleika.

Svona snúa nú mannréttindin mismunandi við fólki. Ég hefði haldið að það væru réttindi borgaranna að þeir sem eru að vinna fyrir þá lögregluþjónar, þingmenn, læknar eða aðrir séu edrú meðan þeir eru í vinnunni.

 

 


Skjaldborgin um fjármálafyrirtækin

Ríkisstjórnin hefur reist skjaldborg um fjármálafyrirtækin og gefið þeim 250 milljarða eftir því sem fram kemur í svari við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.  En það er ekki bara ríkisbankinn Landsbankinn sem fær þessar gjafir. Steingrímur styrkir einkabanka og sparisjjóði með framlögum auk þess að dæla nokkrum tugum milljarða í Íbúðalánasjóð og milljónum í siðlausa pólitíska fyrirgreiðslusjóðinn Byggðastofnun.

Miðað við yfirlýsingar Steingríms J. og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir kosningar hefði mátt ætla að meginhluti fjárframlaga ríkisins mundi renna til að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Þessu lofuðu þau Jóhanna og Steingrímur. En á sama tíma og fólkinu er boðið að kaupa yfirskuldsettar eignir sínar á 110% yfirverði þá er fjármálastofnunum gefnir 250 milljarðar.

Ekki nóg með það. Á sama tíma og fjármálaráðherra upplýsti að hann hefði greitt 250 milljarða til fjármálastofnana þá birtist sakleysisleg frétt sem lítið fór fyrir, en hún sagði að lán fólksins í landinu hefðu hækkað um 18 milljarða vegna skattahækkana Steingríms J.  

Hvað halda alþýðuforingjarnir í ríkisstjórn búsáhaldabyltingarinnar, hinni hreinu og tæru vinstri stjórn, að  þeir geti lengi haldið áfram að ráðast á kjör almennings í landinu um leið og þeir stefna í greiðsluþrot ríkisins. 


Verðbólga og samdráttur?

Getur þetta farið saman verðbólga og samdráttur?  Ég sé ekki betur en við þekkjum það mæta vel að það gerist. Við þurfum ekki annað en horfa á hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar um 10% á sama tíma og landsframleiðsla dregst saman um rúm 10%

Olía hefur hækkað mikið í verði og ríkið leggur nú hærri skatta á olíuvörur en nokkru sinni fyrr og neitar að lækka skattpíninguna þrátt fyrir gríðarlegar verðhækkanir á olíu vegna óróa í olíuframleiðsluríkjunum. Hækkun olíu leiðir til hækkunar á vöruverði og flutningskostnaði sem veldur verðbólgu á sama tíma og minna verður eftir til að kaupa vörur sem áður voru efni til að kaupa. Það leiðir til samdráttar.

Bregðist ríkisstjórnin ekki við og lækki verulega skattlagningu sína á olíuvörum hrindir hún af stað mikillil verðbólguþróun á sama tíma og hún stuðlar að enn frekari samdrætti, auknu atvinnuleysi og versnandi lífskjörum.  Kjarasamningar geta breytt þessum staðreyndum.

Það verður að koma þessari ríkisstjórn frá og koma því fólki til valda sem veit, kann og getur.  En umfram allt skilur samhengi hlutanna í efnahags- og atvinnumálum.


Hækkaði lánið þitt?

Hækkun á bensín- og olíuverði undanfarið hækkar höfuðstól verðtryggðra lána um 0.5%.  Höfuðstóll 20 milljón króna láns hækkar þá um 100 þúsund í þessum mánuði og á það leggjast vextir.  Þeir sem hafa keypt íbúðirnar sínar aftur á grundvelli úrræða Skjaldborgar Jóhönnu skulda þá enn meira en áður en eiga samt ekki neitt.

Ríkisstjórnin lætur eins og hækkun olíuverðs komi henni ekki við.  Þegar um það er rætt bullar Steingrímur J. um vistvæna orkugjafa eins og það  greiði afborgun af vísitölubundna láninu. 

Ríkissjóður tekur mest til sín af olíuverðshækkuninni. Væri hér ábyrg ríkisstjórn sem hugsaði um hag heimilanna og neytenda þá mundi hún strax í í dag lækka skatta á eldsneyti verulega. Það mikið að hækkun olíuverðs vegna tímabundins óróa í Norður Afríku ylli ekki verðbólguskoti, sem gæti þá verið byrjun á nýju verðbólgutímabili. Framleiðsluverð á vörum hækkar nefnilega líka vegna hækkandi eldsneytisverðs vegna aukins tilkostnaðar.

Ríkisstjórn sem lætur vísitölubindingu lána viðgangast og hækkar höfuðstól lánanna ítrekað með vanhugsuðum skattahækkunum er vinsamleg fjármálafyrirtækjum en fjandsamleg fólkinu í landinu.

Það verður að afnema vísitöluna og byggja upp heilbrigt lánakerfi þar sem báðir aðilar bera ábyrgð en ekki bara skuldarar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 130
  • Sl. sólarhring: 251
  • Sl. viku: 4238
  • Frá upphafi: 2604012

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 3964
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband