Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Vont er þeirra ranglæti

Í íslenskum hjúskaparlögum segir, að brúðhjón þurfi að vera orðin 18 ára og þau séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap. Mannréttindabarátta fyrir jafnstöðu kvenna og karla hefur haft gríðarleg áhrif í okkar heimshluta og sem betur fer náð að tryggja lagalega að konur hafi sama rétt en karlar, en séu ekki þjónar þeirra og háðar duttlungum þeirra. 

Þrátt fyrir sambærileg lagaákvæði á hinum Norðurlöndunum,hefur það ítrekað gerst, að ólöglegir innflytjendur og ákveðinn hluti aðfluttra karla kynni stúlkubörn allt niður í 12 ára sem eiginkonur sínar og þessi 12 ára stúlkubörn eru jafnvel barnshafandi. Samræði við stúlkur undir lögaldri er refsiverð skv. okkar lögum, en það virðist ekki gilda þegar um þennan þjóðfélagshóp er að ræða. 

Danskur ráðherra Inger Stöjberg vildi stemma stigu við þessum ófögnuði,barnabrúðkaup stúlkubarna. Stúlkur undir lögaldri voru látnar ganga í hjónaband. Um var að ræða þvingunarhjónabönd og brotið var gegn ákvæðum hegningarlaga varðandi kynmök við börn. Ef til vill fór Inger ekki rétt að, en ljóst er að hún var með aðgerðum sínum að berjast fyrir hagsmunum stúlkubarna og það hefði heldur betur átt að vera herhvöt fyrir baráttusamtök kvenna fyrir jafnrétti og jafnstöðu kvenna og gegn kynferðislegri misnotkun á konum. 

Í gær var Inger Stöjberg dæmd af Landsrétti Dana í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að standa vörð um þau gildi sem hjúskaparlög og refsilög kveða á um. Reglu- og formfesta danska Landsréttarins ber greinilega skynsemina og virðingu fyrir kvenréttindum og jafnstöðu borgaranna ofurliði. 

Við á Norðurlöndunum megum ekki glata tengslum við grundvallarmannréttindi þ.á.m. jafnstöðu kynjanna. Við getum ekki samþykkt það að ein lög gildi fyrir þá sem búa í landinu en önnur lög skuli gilda fyrir ólöglega innflytjendur og ákveðna aðflutta þjóðfélagshópa og þeim skuli heimilt að hafa samræði við stúlkubörn, eiga börn með stúlkunum og giftast þeim í þvinguðum hjónaböndum, þar sem ekkert jafnrétti ríkir milli  aðila en konan er gjörsamlega undirokuð undir vilja mannsins. 

Gott væri ef samtök kvenna sýndu það nú, að þau berjast almennt fyrri rétti kvenna og styðja baráttuna gegn þessum ófögnuði.

Inger Stöjberg á þakkir skilið fyrir að standa í báðar fætur fyrir réttindum kvenna og almennum mannréttindum í Danmörku. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn á Norðurlöndum geri það almennt sem og hefðbundnir fréttamenn, en dansi ekki í kringum lögbrot innflytjenda og stingi höfðinu í sandin þó verið sé að misnota stúlkubörn kynferðislega. 

Þvingunarhjónabönd og kynferðisleg misnotkun stúlkubarna undir lögaldri er glæpur. Að reyna að sporna við glæpum á ekki að vera refsivert. Sé svo eins og kom í ljós í Danmörku í gær, þá gildir sennilega það sama og Jón Hreggviðsson sagði á sínum tíma um réttlætið hjá danskinum.

"Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti."  


Vont er þeirra ranglæti

Í íslenskum hjúskaparlögum segir, að brúðhjón þurfi að vera orðin 18 ára og þau séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap. Mannréttindabarátta fyrir jafnstöðu kvenna og karla hefur haft gríðarleg áhrif í okkar heimshluta og sem betur fer náð að tryggja lagalega að konur hafi sama rétt en karlar, en séu ekki þjónar þeirra og háðar duttlungum þeirra. 

Þrátt fyrir sambærileg lagaákvæði á hinum Norðurlöndunum,hefur það ítrekað gerst, að ólöglegir innflytjendur og ákveðinn hluti aðfluttra karla kynni stúlkubörn allt niður í 12 ára sem eiginkonur sínar og þessi 12 ára stúlkubörn eru jafnvel barnshafandi. Samræði við stúlkur undir lögaldri er refsiverð skv. okkar lögum, en það virðist ekki gilda þegar um þennan þjóðfélagshóp er að ræða. 

Danskur ráðherra Inger Stöjberg vildi stemma stigu við þessum ófögnuði,barnabrúðkaup stúlkubarna. Stúlkur undir lögaldri voru látnar ganga í hjónaband. Um var að ræða þvingunarhjónabönd og brotið var gegn ákvæðum hegningarlaga varðandi kynmök við börn. Ef til vill fór Inger ekki rétt að, en ljóst er að hún var með aðgerðum sínum að berjast fyrir hagsmunum stúlkubarna og það hefði heldur betur átt að vera herhvöt fyrir baráttusamtök kvenna fyrir jafnrétti og jafnstöðu kvenna og gegn kynferðislegri misnotkun á konum. 

Í gær var Inger Stöjberg dæmd af Landsrétti Dana í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að standa vörð um þau gildi sem hjúskaparlög og refsilög kveða á um. Reglu- og formfesta danska Landsréttarins ber greinilega skynsemina og virðingu fyrir kvenréttindum og jafnstöðu borgaranna ofurliði. 

Við á Norðurlöndunum megum ekki glata tengslum við grundvallarmannréttindi þ.á.m. jafnstöðu kynjanna. Við getum ekki samþykkt það að ein lög gildi fyrir þá sem búa í landinu en önnur lög skuli gilda fyrir ólöglega innflytjendur og ákveðna aðflutta þjóðfélagshópa og þeim skuli heimilt að hafa samræði við stúlkubörn, eiga börn með stúlkunum og giftast þeim í þvinguðum hjónaböndum, þar sem ekkert jafnrétti ríkir milli  aðila en konan er gjörsamlega undirokuð undir vilja mannsins. 

Gott væri ef samtök kvenna sýndu það nú, að þau berjast almennt fyrri rétti kvenna og styðja baráttuna gegn þessum ófögnuði.

Inger Stöjberg á þakkir skilið fyrir að standa í báðar fætur fyrir réttindum kvenna og almennum mannréttindum í Danmörku. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn á Norðurlöndum geri það almennt sem og hefðbundnir fréttamenn, en dansi ekki í kringum lögbrot innflytjenda og stingi höfðinu í sandin þó verið sé að misnota stúlkubörn kynferðislega. 

Þvingunarhjónabönd og kynferðisleg misnotkun stúlkubarna undir lögaldri er glæpur. Að reyna að sporna við glæpum á ekki að vera refsivert. Sé svo eins og kom í ljós í Danmörku í gær, þá gildir sennilega það sama og Jón Hreggviðsson sagði á sínum tíma um réttlætið hjá danskinum.

"Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti."  


Fórnarlambið

Í janúar 2019 tilkynnti leikarinn Jussie Smollet, sem er dökkur á hörund, til lögreglu í Síkakó í Bandaríkjunum, alvarlegan hatursglæp gegn sér. Hann sagði að tveir hvítir menn hefðu ráðist á sig barið sig vegna kynþáttar hans, kallað hann ýmsum ónefnum og hellt yfir hann litarefni. Af þessu tilefni sagði leikarinn, að þetta væri það sem við mætti búast í svona MAGA landi (make America great again)og vísaði þar til Donald Trump. 

Fjölmiðlar um allan heim fóru hamförum yfir því hverskonar ríki Bandaríkin væru orðin undir stjórn Trump, þar sem hvítir rasistar teldu sér allt leyfilegt. Frambjóðendur Demókrata notuðu þennan "rasíska hatursglæp" út í æsar.

Ekki er allt sem sýnist. Í ljós kom,að árásarmennirnir á Smollet voru ekki hvítir heldur þeldökkir Nígeríumenn. Það sem meira var Smollet borgaði þeim fyrir að sviðsetja árásina, alls 3.500 dollara og 100 dollara í útgjöld fyrir litarefnið. Dómstóll í Síkakó dæmdi Smollet sekan á fimmtudagskvöldið fyrir að sviðsetja árásina og ljúga að lögreglu varðandi atburðinn.

Fróðlegt verður að sjá hvort talsmenn Demókrata sem gerðu málið að áróðursatriði í síðustu kosningum, leiðrétti og biðjist afsökunar. Sjálfsagt gera þeir það ekki frekar en fjölmiðlarnir sem fóru hamförum. Reynt verður af þessum aðilum að þegja um málið.

Lygin hleypur iðulega marga hringi umhverfis hnöttinn  á meðan sannleikurinn er enn að reima á sig skóna. 


Stöðnun og kyrrstaða

Í gær lét Angela Merkel af embætti kanslara Þýskalands. Hún naut fádæma vinsælda lengst af á ferli sínum, en eftir 2015 fór að halla undan fæti. Hún var lengi kanslari í samsteypustjórn stóru flokkana tveggja,helstu andstæðinganna, Kristilegra og Sósíalista.

Angela Merkel hafði þá einu hugmyndafræði,að láta enga hugmyndafræði þvælast fyrir sér. Inntak stefnu hennar var að hanga á völdunum hvað svo sem gera þyrfti til þess. Að því leyti var hún e.t.v. frumkvöðull þeirrar nýbylgju stjórnmálanna, sem stór hluti stjórnmálamanna fylgir í dag. 

Merkel var ekki framsýnn stjórnmálamaður. Hún tók almennt ekki á neinum málum fyrr en þau voru orðin að vandamáli. Hún mótaði almennt ekki framtíðarstefnu nema í loftslagsmálum með slæmum afleiðingum. Þessvegna býr Þýskaland við orkuskort.

Því miður virðist eftirmaður Merkel á kanslarastóli vera slæm eftirlíking af henni og með sömu grunnhugsjónir um að hanga á völdum. Þýskaland verður því sennilega ekki pólitísk forustuþjóð í Evrópu á næstunni.


Ný málið sem Evrópusambandið heimilar.

Fyrir nokkrum dögum gaf Evrópusambandið út 32 síðna leiðbeiningareglur um hvaða orð skyldi nota og hver ekki. Óneitanlega minnir þetta á kerfið sem George Orwell lýsir í bókinni 1984, þar sem til var pólitískt ný mál, til að tryggja að fólk héldi sig innan kerfislægrar rétthugsunar. 

Sama virðist vera upp á tengingnum hjá valdaklíkunni í Brussel, sem amast m.a. við því að fólk noti orðið "jól" eða Christmas yfir hátíðarnar. Það á að nota "human induced" í staðinn fyrir "man made" svo dæmi sé tekið."

Það er sjálfsagt að hneykslast á þessu rugli. Þau eru að vega að Evrópskum gildum og viðmiðunum. E.t.v. vegna þess að fólkið í kanselíinu í Brussel telur að evrópskt orðfæri geti sært aðkomufólk og rótað upp fjölmenningunni.

Stóra spurningin er hvernig dettur möppudýrunum í Brussel í hug, að setja út samevrópskar leiðbeiningarreglur um hvaða orð má nota og hver ekki í daglegu máli. Einvaldskonungum fortíðar í Evrópu létu sér aldrei detta slíkt og þvílíkt í hug. Valdhroki hinnar nýju stéttar Brussel valdsins kemur stöðugt sífellt meira á óvart. 


Hinir landflótta

Í Eþíópíu hefur verið grimmileg styrjöld. Forseti landsins og friðarverðlaunahafi Nóbels ákvað að fara með hernaði á hendur Tigray þjóðarinnar í landinu. Her Eþíópíu og Erítreu réðust inn í hérað Tigray þjóðarinnar, frömdu þar mörg illvirki og hermdarverk og stökktu tugum þúsunda fólks á flótta. 

Aldrei sá nokkur hér á landi ástæðu til að mótmæla harðneskjulegum hernaðaraðgerðum og illvirkjum stjórnarhersins gagnvart Tigray þjóðinni. En svo kom að því að Tigray þjóðin snéri vörn í sókn og sækir nú að höfuðborg Eþíópíu, Addis Abeba.

Þá bregður svo við skv. frétt og forsíðumynd Fréttablaðsins í dag, að á þriðja tug Eþíópíubúa, sem margir hafa komið hingað til að fá alþjóðlega vernd frá vondum stjórnvöldum í Eþíópíu safnast saman á Skólavörðuholti í Reykjavík til að styðja stjórnina í Addis Abeba, sem þeir sögðust þurfa að flýja frá ættu þeir að halda lífi og limum þegar þeir sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi.

Svona er nú ruglið, en svo einsdæmi, að flóttamenn undan meintum ógnarstjórnum mótmæli ef að þeim er sótt. Hvað voru þeir þá að flýja?

Það er vafalaust margt skrýtið í kýrhausnum, en það er enþá  fleira skrýtið í höfðinu á hefðbundnum stjórnmálamönnum, sem hafa búið til glórulaust kerfi, fyrir flóttamannaiðnaðinn í veröldinni. Útlendingalögin íslensku bera þess glöggt vitni.


Vinstri græn ríkisstjórn í Þýskalandi.

Umferðaljósaríkisstjórnin í Þýskalandi kölluð svo, af því að flokkslitir þeirra sem mynda hana eru rauður, gulur og grænn.Sósíaldemóktar, Frjálsir demókratar og Græningjar.

Lengi var beðið eftir því að sjá hvað þessir flokkar gætu komið sér saman um og þá helst hvað Frjálsir demókratar væru tibúnir að kokgleypa, en þeir eru lítill hægri flokkur, sem þyrstir svo mjög að komast í ríkisstjórn, að þeir kokgleyptu allt nema skattahækkanir. 

Stefna nýju ríkisstjórnarinnar er einu orði sagt skelfileg þannig stefnir hún á að: 

Gera betur við hælisleitendur og leyfa þeim að flytja fjölskyldur sínar til sín. Þetta fólk hefur ekkert lært af afleik Merkel 2015. Þýskaland mun fá nýja holskeflu fólks,sem að stórum hluta ætlar sér að lifa á  velferðarkerfinu.

Annað stórmál er enn meiri kolefnisjöfnun, ávísun á hækkað orkuverð og sterkari tök Rússa. 

Í þriðja lagi lækkun kosningaaldurs í 16 ár. 

Í fjórða lagi lögleyðing á kannabis, sem gerir Þýskalandi að stærsta markaði með fíkniefni í heiminum. 

Þýska hagkerfið er í verulegri lægð. Nýja ríkisstjórnin virðist ætla sér að stefna að því að það fái falleinkun. 

Vart við öðru að búast af núverandi hugmyndafræðingum sósíaldemókrata í Þýskalandi. Heldur betur viðsnúningur frá mönnum eins og Helmut Schmit og Gerhard Schröder,sem gættu þess að byggja Þýskaland upp sem efnahagsveldi í stað þess að leggja upp með vinstri pópúlíska vitleysu  eins og ríkisstjórn sósíalistans Olaf Scholz ætlar sér greinilega að gera.


Það er sitt hvað frelsi og frelsi.

Forseti Evrópusambandsins Ursula von der Leyen og öll hirðin allt frá þingi Evrópusambandsins til einstakra topp Evrópu leiðtoga fóru hamförum gegn Ungverjalandi þegar þeir ákváðu að kynfræðsla í skólum landsins yrði ekki á grundvelli hugmyndafræði samkynhneigðra og transfólks. Svipuð þó takmarkaðri aðför var gerð að Pólverjum þegar þeir neituðu að samþykkja fjölþjóðasamnings af sömu ástæðum.

Þetta athæfi Ungverja að takmarka kennslu í  hugmyndafræði transara og samkynhneigðra í kynfræðslu í skólum landsins var talað um sem ógn við Evrópu og brot á lögum Evrópusambandsins og grundvallarreglum og grunngildum. 

Óskiljanleg viðbrögð hjá EU, en sýnir hvaða grunngildi Evrópusambandinu þykir mikilvægast að standa vörð um. 

Austurríki næsti nágranni Ungverja skellti öllu í lás og lokað fólk inni nýverið vegna Covid faraldursins og jafnframt var því lýst yfir, að frá og með febrúar n.k. verði öllum óbólusettum bannað að fara út  úr húsi. Þeir verði að sæta þvingaðri innilokun vegna ógnunar við velferð og öryggi samfélagsins.

Inngrip eins og þetta hjá Austurríkismönnum í borgaraleg réttindi og grundvallarfrelsi fólks í lýðfrjálsu ríki er óásættanlegt og án allra forsendna. Búast hefði mátt við því,að Evrópusambandið léti í sér heyra þegar önnur eins atlaga er gerð að frelsi borgaranna í aðildarríki sambandsins. 

En það heyrist ekkert frá Evrópusambandinu. Ursula von der Leyen hefur ekkert um málið að segja og þá ekki íturmennið Macron. 

 Evrópusambandið telur að frelsið sé fyrir ákveðna minnihlutahópa og þá sérstaklega fólk í kynáttunarvanda. Raunverulegt stofufangelsi stórra hópa einstaklinga virðist ekki koma þeim við. Sýnir hvað stjórnmálastéttin já og fjölmiðlaelítan er gjörsamlega heillum horfin að fara ekki hamförum gegn þessari svívirðilegu frelsisskerðingu sem boðuð er í Austurríki. 


Hnípnar þjóðir í vanda

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir frá því í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, að hún sitji samráðsfund Norðurlandaráðherra þar sem fjallað er um útlendingamál. Vonandi verður þetta gagnlegur fundur. 

Af grein dómsálaráðherra að dæma, þá virðist fundurinn eiga að fjalla um þessi mál á grundvelli verkferla og skilvirkrar stjórnsýslu, en gæta þess að stinga höfðinu í sandinn gagnvart þeim vandamálum sem Norðurlöndin standa frammi fyrir vegna rangrar stefnu í þessum málum á undanförnum árum. Það væri verra ef ekki yrði rætt um alvöru málsins.

Við getum margt lært af Norðurlöndunum og gætt þess, að lenda ekki í sama vandamáli og þau varðandi innfleytjendur. Samt virðist sem íslensk stjórnvöld vilji ótrauð ana áfram ofan í sama forarpyttinn og Norðurlöndin eru sokkin í.

Dómsmálaráðherra segir að tryggja verði þeim forgang sem eru í mestri neyð. Það er rétt. Þá liggur fyrir að hin "kristnu" Norðurlönd ættu að einhenda sér í að taka á móti kristnu fólki frá Mið-Austurlöndum, sem er í mestri neyð. Á sama tíma að vísa múslimskum skilríkjalausum hlaupastrákum í burtu. 

Dómsmálaráðherra getur líka um frumvarp sitt til breytinga á útlendingalögum varðandi þá sem þegar hafa fengið svokallaða alþjóðlega vernd í öðrum Evrópuríkjum og vill draga úr möguleikum þeirra til að fá líka alþjóðlega vernd á Íslandi. Þetta frumvarp gengur ekki nógu langt. Það á ekki að fjalla um mál þeirra sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd annarsstaðar en vísa þeim lóðbeint úr landi. Íslenskir skattgreiðendur þurfa ekki fleiri velferðarfarþega.

Í grein sinni nefnir dómsmálaráðherra,að taka þurfi til skoðunar atvinnuleyfi erlendra ríkisborgara og möguleika þeirra til að koma hér til starfa. Hér hreyfir dómsmálaráðherra mjög mikilvægu máli, sem þarf að skoða vel. Við höfum í dag enga stjórn á landamærunum hvað þetta varðar og erum með opinn vinnumarkað með allri Evrópu og það getur verið þungt fyrir 350.000 manna þjóð. Þessvegna lagði ég til á sínum tíma, að við fengjum ákveðnar undanþágur frá fjórfrelsi EES samningsins varðandi frjálsa för fólks til atvinnuþáttöku til þess að við gætum haft einvherja stjórn á málum við sérstakar aðstæður. Á sama tíma er líka mikilvægt að fólk sem er nauðsynlegt fyrir framþróun og vöxt íslensks atvinnulífs geti komist til landsins. Það liggur því fyrir að hér þarf að vanda til verka og bregðast við skjótt. 

Ráðherrafundurinn getur verið gagnlegur og gott ef dómsmálaráðherra leitar eftir því að fá heiðarleg svör frá samráðsráðherrum sínum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi hvernig þessar þjóðir klúðruðu innflytjenda- og útlendingamálum sínum svo gjörsamlega og hvað við getum af þeim lært til að detta ekki ofan í sama pyttinn. Þar hljóta að koma til skoðunar framsæknar hugmyndir ríkisstjórnar Dana um að meðhöndla umsóknir hælisleitanda í öðru ríki. Það er besta tillagan sem hefur komið  fram í Evrópu varðandi þessi mál. Gott væri ef íslenska ríkisstjórnin tæki upp sömu stefnu og Danir í þessum málum.

Við viljum ekki lenda í sama fári og Danir, Norðmenn og Svíar, þar sem heilu hverfin eru í sumum borgum þessara landa, þar sem fólk talar ekki tungumálið en er sérstakt samfélag út af fyrir sig. Þar sem lögreglan getur ekki farið inn í ákveðin hverfi nema þungvopnuð jafnvel til að hjálpa slökkviliði eða sjúkrabílum til að gera skyldu sína.

Ræða þarf hvernig á því stóð að þúsundir múslismskra innflytjenda til Norðurlandanna fóru til að berjast með Ísis hryðjuverkasamtökunum og snéru svo aftur til baka eftir að hafa verið þáttakendur í þjóðernishreinsunum, kynlífsþrælkunum Yasída kvenna og kristinna kvenna og mannsali á uppboðsþingum sem og mörgum öðrum viðbjóði. 

Er í lagi að bjóða slíkt fólk velkomið til baka og hvaða þýðingu hefur það fyrir öryggi borgara Norðurlanda að bæta enþá fleirum við þessarar gerðar. 

Vonandi ræða ráðherrarnir með hreinskiptum hætti um þær ógnir sem við okkur blasa vegna innflytjendastefnunnar, sem kristallast m.a. í útlendingalögunum íslensku og ákveða að taka upp gjörbreytta stefnu sem tryggir norrænum ríkisborgurum öryggi  það hlítur að vera aðalatriðið. 

 

 


Að ala nöðru við brjóst sér

Biskupakirkjan á Englandi hefur fundið fyrir því hvernig það er að ala nöðru við brjóst sér. Íslömsku hryðjuverkamennirnir í Liverpool voru teknir undir verndarvæng kirkjunnar og gátu því undirbúið hryðjuverkaárásina í hennar skjóli. 

Ekki er dregið í efa að margir kirkjunnar þjónar hafa mikinn áhuga og vilja til að láta gott af sér leiða og huga þá stundum ekki að því þegar verið er að misnota velvilja þeirra. Þetta getur leitt til fáránlegra viðbragða kirkjunnar þjóna eins og þegar þeir með fulltingi biskups hindruðu störf lögreglunnar með uppákomu í Laugarneskirkju um árið. 

Sami barnaskapur og hjá biskupnum forðum einkenndi þá í biskupakirkjunni  í Liverpool. Þar komu nokkrir múslimskir strákar og vildu kasta trú sinni að eigin sögn og gerast kristnir. Þeim var tekið fagnandi. Kirkjunnar menn athuguðu ekki að þessum mönnum hafði verið neitað um hæli og vísað úr landi í Bretlandi þegar þeir sóttust eftir að komast undir náðarfaðm kirkjunnar. Þeir voru teknir nánast undirbúningslaust inn í samfélag kristins fólks, en hjá þeim var þetta allt í plati af því að skv. trúarskoðunum múslima, þá mega þeir ljúga og svíkja alla sem eru ekki múslimar. 

Ekki má útiloka það að múslimskur hælisleitandi vilji skipta um trú. Kirkjunnar menn verða að gæta allrar varúðar í því sambandi einkum þegar liggur fyrir, að smyglararnir sem moka inn peningum fyrir að smygla fólki til Vesturlanda gefa þeim grundvallarráðleggingar eins og þær að henda öllum skilríkjum eins og vegabréfum, svo þeir geti haldið því fram, að þeir séu að koma frá stríðshrjáðum ríkjum eins og Sýrlandi eða Írak. Þeim er einnig ráðlagt af smyglurunum og raunar ýmsum lögmönnum hælisleitenda líka að skipta um trú og gerast kristnir að nafninu til. Þá njóti þeir verndar kristinnar kirkju og jákvæðar verði litið á umsóknir þeirra enda geti þeir  þá haldið því fram að þeir verði ofsóttir þegar heim er komið vegna trúskiptanna. Þannig lætur kristin kirkja í allri Evrópu þó síst kaþólska kirkjan misnota sig til að veita lögbrjótum skjól og hryðjuverkamönnum athvarf. Naðran þrífst því vel í náðarfaðmi kirkjunnar.

Kristin kirkja getur að sjálfsögðu haft skoðanir á þjóðfélagsmálum, en má ekki gleyma því að það eru stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi sem stjórna í þjóðfélaginu og þeim reglum verður að hlíta sem þessir aðilar setja. Í Laugarneskirkju virtust kirkjunar yfirvöld hafa gleymt þessu grundvallaratriði. 

Kirkjan getur að sjálfsögðu mótað ákveðnar skoðanir um móttöku hælisleitenda og hefur gert það. En það merkilegasta við kristna kirkju á Vesturlöndum undanfarna tvo áratugi er að þeim virðist helst ekki koma neitt við nema múslimskir strákar sem þykjast vera á flótta undan harðræði heima fyrir á sama tíma og kristið fólk sætir mestum ofsóknum í löndum eins og Sýrlandi, Írak og raunar um allan hinn múslimska heim. Í Íran eru kerfisbundnar ofsóknir gegn kristnum og í Pakistan vegna laga um guðlast.

Ofsóknir gegn kristnu fólki í Sýrlandi og Írak leiða til þess, að því er ekki vært í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna. Kristið fólk eru hinir réttlausu og kristin kirkja Vesturlanda er svo upptekin við að ala nöðruna við brjóst sér, að hún hefur engin úrræði til að veita þeim hjálp sem mest þurfa á henni að halda. Trúarsystkinum okkar.  

Leiðtogar kristins fólks á Vesturlöndum hafa því miður brugðist eigin fólki, öryggi þess og hagsmunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 3554
  • Frá upphafi: 2513358

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 3329
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband