Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Boris rær lífróður

Boris Johnson forsætisráðherra Breta er um margt sjarmerandi  ólíkindatól. Hann náði að verða borgarstjóri í London, sem annars er hefðbundið vígi Verkamannaflokksins og var besti málflytjandinn fyrir Brexit. Íhaldsflokkurinn vann stórsigur undir hans forustu í síðustu kosningum.

Þrátt fyrir þetta rær Boris nú lífróður fyrir því að halda embættinu. Margir spáðu því, að efnahagsmálin yrðu honum þung í skauti og þau verða það standi hann af sér spjótalögin núna. Boris er baráttumaður og í gær náði hann því tárfellandi á stundum, að fá ýmsa þingmenn Íhaldsflokksins til að draga til baka kröfu um vantraust og leiðtogakjör. Það var áfangasigur.

Boris er samt verulega laskaður.  Í fyrsta lagi reyndi hann að blekkja þingið. Í öðru lagi gerðist hann brotlegur við eigin sóttvarnarlög. Þó svo að Boris nái höfn núna, þá hefur hann misst tiltrú þjóðarinnar og hana verður erfitt að endurvinna.

Í Bretlandi taka menn það óstinnt upp þegar ráðherrar segja þinginu ekki satt. En eru ekki eins teprulegir gagnavart áfengisneyslu og við.  Áfengisneyslan er þó ekkert atriði heldur brot Borisar á lögum og með hvaða hætti hann reyndi að blekkja þingið. 

Sennilega er hann svo laskaður að það væri best fyrir Íhaldsflokkinn að hann færi. En Boris er ólíkindatól og ólíkindatól geta stundum staðið af sér storma sem engir aðrir geta. 


Evrópusambandið eða þjóðarhagsmunir

Evrópusambandið (ES) heldur því fram, að lög þess eigi að gilda umfram lög einstakra aðildarríkja og EES ríkja eins og Íslands.  

Dómstólar í Póllandi og Þýskalandi hafa komist að þeirri niðurstöðu, að lög þeirra eigi að gilda umfram ES lög. ES hefur hótað lögsókn gegn Póllandi en Þýska ríkisstjórnin hefur lýst yfir,að hún muni virða lög ES að fullu.

Nú hefur dómstóll í Rúmeníu komist að sömu niðurstöðu og sá pólski,að lög Rúmeníu gildi umfram lög ES. ES mótmælir með sama hætti og fyrr, hótar málsókn og refsiaðgerðum. 

Skv. nýlegri skoðanakönnun í Rúmeníu, telja 70% Rúmena, að stjórnskipulegt fullveldi Rúmeníu sé svo mikilvægt, að það verði að greiða það gjald, sem því fylgir til að varðveita það. 

Rúmenía er eitt fátækasta land í Evrópu og nýtur verulegra styrkja frá ES. Landið þolir illa refsiaðgerðir. Samt sem áður er niðurstaða úr skoðanakönnuninni sú, að mikill meirihluti er reiðubúinn til að greiða það gjald sem fylgir því að varðveita fullveldi landsins.

Vonandi er jafnstór meirihluti Íslendinga líka tilbúinn að greiða það gjald sem þarf til að varðveita fullveldi Íslands. Tekist verður á um þau sjónarmið næstu ár þar sem ES ætlar hvergi að hvika í þeim áformum sínum að vera allsráðandi.


Jafnvel gamlir símastaurar syngja

Guðmundur Árni Stefánsson fyrrum þingmaður, ráðherra og sendiherra hefur ákveðið að gefa kost á sér við bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði. Ekki fór hjá því,að mér dytti í hug stef úr ljóði Tómasar Guðmundssonar "Austurstræti" þegar ég las hjartnæma yfirlýsingu Guðmundar Árna, þar sem skáldið segir "og jafnvel gamlir símastaurar syngja".

Nú skal tekið fram, að Guðmundur Árni er á besta aldri yngri en við Trump, sem erum þó enn í fullu fjöri.

Guðmundur Árni á margt gott skilið. Hann var hógvær geðþekkur stjórnmálamaður. Hann hrökklaðist úr ráðherrasæti vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar fyrir atriði, sem mundu ekki teljast miklu máli  skipta í dag. Alla vega hefur núverandi forsætisráðherra tekið ákvarðanir án heimilda í fjárlögum um margfallt meiri ríkisútgjöld án heimilda, en þeirra,sem Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við á sínum tíma í ráðherratíð Guðmundar Árna. Guðmundur Árni hefði ekki þurft að segja af sér, en gerði það samt og það var mannsbragur af því. 

Jafnvel þó að stjórnmálamönnum verði eitthvað á, þá eru það kjósendur sem ákveða pólitísk örlög þeirra.

Það er kærkomið að eðalkrati eins og Guðmundur Árni skuli gefa kost á sér til starfa í pólitík á ný. Samfylkingin hefur ekki verið í raunpólitík undanfarin ár og núverandi formaður hefur ýtt flokknum út á ystu brún bjargsnasar villta vinstrisins þar sem hann lafir á klettabrúninni ásamt Pírötum. Maður eins og Guðmundur Árni ætti að geta spornað við þessari pólitísku vinstri nauðhyggju formannsins og flokksins og gert hann að raunverulegum pólitískum valkosti á ný.

Fyrsta verkefni Guðmundar Árna eftir 28 ára hvíld við kjötkatla sendiherraembætta og froðumennsku íslenskrar utanríkisþjónustu verður að fá stuðning til forustu í Hafnarfirði, sem ég vona að honum takist og síðan að heyja kosningabaráttu þar sem hann ætlar sér að sækja að Sjálfstæðisflokknum.

Á sama tíma og ég óska Guðmundi Árna til hamingju með endurkomu í pólitík og vona að hann hafi mikil og góð áhrif innan eigin flokks, þá vona ég að honum mistakist það ætlunarverk sitt að koma meirihluta Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði frá völdum. 

Meirihluti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði hefur staðið sig vel á kjörtímabilinu og á það skilið að fá víðtækan stuðning kjósenda. Guðmundur Árni veit það en telur greinilega að best sé að byrja pólitísk afskipti á nýjan leik með þessum hætti. En hugur hans stefnir örugglega frekar í landsmálin, þar sem hann á frekar heima og getur gefið meira af sér.  Þar er verk að vinna fyrir Guðmund, en ekki í bæjarstjórnarmálum í Hafnarfirði. Þar getur hann ekki bætt um betur.


Straumrof

Ég las grein í þýsku dagblaði í gær um stöðu orkumála í Þýskalandi.  Þar hefur stjórnmálastéttin verið með hjarðhegðun pólitísku veðurfræðinnar og barist fyrir hröðun svokallaðra "orkuskipta" sem er tískuorð stjórnmála í dag, með þeim  afleiðingum að fjórða stærsta viðskiptaveldi heims, Þýskalandi býr nú við alvarlegan orkuskort og er auk þess komið upp á náð og miskun Pútín í orkumálum.

Vítt og breitt í Evrópu Evrópusambandsins með alla sína orkupakka horfir fólk fram á gríðarlegar hækkanir á raforku, orkuskort og tíðari straumrof vegna þess, að stjórnmálastéttin hefur neitað að horfast í augu við raunveruleikann í orkumálum og stundað bullpólitík meintrar hamfarahlýnunar eins og furðumaðurinn Boris Johnson gerði fyrir loftslagsráðstefnuna í Glasgow í haust.

Velferð og atvinna í löndum eins Íslandi og Þýskalandi byggjast á því m.a. að til sé næg ódýr orka til að atvinnulífið geti gengið og hægt sé að ráðast í gróskumikla nýsköpun. Skólar, sjúkrahús, tölvufyrirtæki ekkert síður en fiskvinnslufyrirtæki og stóriðja byggja tilveru sína og framfarasókn á því að það sé til næg orka.

Vera Vinstri grænna í ríkisstjórn á Íslandi hefur leitt til þess, að í fyrsta skipti svo árum skiptir er ekki til næg orka í landinu og grípa verður til skömmtunar. Samstarfsflokkarnir geta ekki heldur firrt sig  ábyrgð. Þessvegna hefði verið betra að gefa Vinstri grænum frí þetta kjörtímabil til að hægt væri að sinna mikilvægustu málum eins  og orkumálum af viti.

Það er mikilvægt að stjórnmálafólk hugi að velferð eigin borgara og láti gæluverkefni grænna lausna og orkuskipti bíða þess tíma,að þau geti verið raunhæfur valkostur til að tryggja atvinnu og velferð. Meðan þessi valkostur er ekki fyrir hendi, þá bjóða stjórnvöld upp á versnandni lífskjör og atvinnuleysi með stefnu sinni.

Slíka ríkisstjórn orkuskortsins er ekki hægt að styðja. Sjálfstæðismenn á þingi og í ríkisstjórn þurfa að taka þessi mál föstum tökum með eða án Vinstri grænna. Það er ekki hægt að bíða lengur.


Neyðaraðstoð til ógnarstjórnar

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir að Afganistan verði veitt gríðarleg neyðaraðstoð. 

Öfgamúslimar, Talibanar, tóku völdin í landinu á miðju ári og stjórna. Þeirra er ábyrgðin. En þeim virðist umhugað um annað en velferð fólksins sem lýtur stjórn þeirra nauðugt viljugt. 

Talibanar leita uppi andstæðinga sína til að drepa þá.Þeir eru önnum kafnir við að loka skólum fyrir konur og stúlkur og hrekja konur af vinnumarkaði. Þeir eru líka önnum kafnir við að koma sharía lögum á í landinu og tryggja að allir lúti vilja þeirra. 

Við þessar aðstæður er kallað eftir því,að Evrópa og Norður Ameríka taki vænar fúlgur frá eigin skattgreiðendum til að tryggja að Talibanar geti haldið áfram voðaverkum sínum og undirokun þjóðarinnar undir  sharia lög og fornaldartrúarbrögð. 

Er ekki rétt, að þær þjóðir sem stóðu við bakið á Talibönum og tryggðu þeim valdatöku í landinu opni nú fjárhirslur sínar og láti eigin skattgreiðendur blæða vegna óstjórnarinnar. 

Stundum verða Vesturlönd, að leyfa þeim sem vandanum valda að leysa eigin mál án þeirra aðkomu. Það á við um  Afganistan og átti líka við fyrir 21 ári þegar Vesturlönd hófu að dæla peningum til þeirra og reyna að koma þessari þjóð inn í 21 öldina gegn harðri andstöðu Talibana og nágrannaþjóða þeirra.

Hvað með gleymda stríðið í Eþíópíu eru ekki meiri möguleikar á að koma á röð og reglu í því landi og veita virka aðstoð en þar sem miðaldamyrkur Íslam hefur tekið öll völd einsog í Afganistan 

 


Flogið án farþega

Reglur Evrópusambandsins skylda flugfélög til að fljúga ákveðin fjölda af flugum til að viðhalda rétti sínum til lendinga og þjónustu á flugvöllum. Vegna þess eru flugfélög að fljúga tómum vélum til að uppfylla þessar reglur sem eru algerlega glórulausar þegar fólk heldur sig heima vegna kóvíd. 

Lufthansa samsteypan segist hafa þurft að fljúga 18 þúsund ónauðsynleg flug eða "draugaflug" þ.e. flug án farþega vegna þessa, frá því í desember 2020 til mars 2021. Önnur flugfélög í álfunni hafa svipaða sögu að segja. 

Kommissararnir í Bruessel hafa nú dregið úr  kröfunum, en reglurnar leiða samt til tugaþúsunda draugafluga á ári. 

Kerfið er svo stirðbusalegt, að jafnvel þó Æðsta Ráðið í Brussel hafi ítrekað að loftslagsvandi vegna hlýnunar jarðar sem þeir segja að stafi af bruna jarðefnaeldsneytis, sé alvarlegasta áskorunin sem sambandið takist á við, þá þvinga þau flugfélög í álfunni til að fljúga tugi og jafnvel hundruð þúsunda af ónauðsynlegum flugum með enga farþega, vegna fáránlegra reglna. 

Þegar regluverkið verður flókið, fer það oft að vinna gegn markmiðum sínum. Hvað skyldi mörgum milljónum lítra af bensíni vera sóað vegna þessara fráleitu reglna?  


Trump

Ár var liðið í gær síðan óeirðarfólk sótti að þinghúsinu í Washington DC. Þetta var það versta sem stuðningsfólk Donald Trump gat gert honum og nú minnist Joe Biden þessa atburðar með tár á hvarmi hvernig svo sem það tár var framkallað. 

Stundum verða stjórnmálamenn að gjalda gjörða stuðningsmanna sinna og það er næsta víst, þó Donald Trump sé ólíkindatól, að hann eigi ekki afturkvæmt í forsetastól í Bandaríkjunum. Það besta sem hann getur gert er að styðja efnilegasta frambjóðanda Repúblikana Nikki Haley til framboðs forseta. Hvílíkur munur væri að fá þessa hæfileikaríku konu í stað Joe Biden. 

Það var ógeðfellt að fylgjast með hvernig fjölmiðlar beittu sér gegn Trump meðan hann var forseti. Væri ekki hægt að ráðast að honum vegna þess,sem hann gerði, þá var eitthvað fundið upp til að sýna hverskonar illmenni og/eða fáráður maðurinn væri. 

Komið  var af stað af hálfu Demókrata einkum stuðningsmanna Hillary  Clinton upplognum sögum um Rússagrýluna,sem Trump átti að hafa tekið ástfóstri við. Allt tóm lygi og della. Rándýr rannsókn fór af stað og undir þessu sat Trump svo árum skipti. Er einhver kallaður til ábyrgðar? Nei réttlætið nær víst ekki svo langt í USA þessa dagana, að Hillary og hennar fólk þurfi að svara til saka.

Fréttastofa RÚV lét ekki sitt eftir liggja. Allan tímann meðan Trump var forseti og kórónuveiran geisaði sagði RÚV frá sem fyrsta eða aðra frétt hve margir hefðu smitast í USA. Þær fréttir hurfu eins og dögg fyrir sólu um leið og Joe Biden tók við. Hefur einhver skýrt þessa furðfréttamennsku? Er það yfirleitt hægt með öðru en að vísa til þess hve fréttamennska RÚV er lituð af pólitískum viðhorfum.

 


200 þúsund

Skýrt var frá því fyrir áramót, að Egyptum hefði fjölgaði um 200 þúsund manns s.l. 60 daga. 

Í Egyptalandi eins og í langflestum Arabaríkjum er um helmingur íbúa 25 ára eða yngri. Atvinnutækifæri eru af skornum skammti og fornaldartrúin, Íslam, hamlar uppbyggingu og sókn til framfara.

Hver á að leysa fyrirsjáanlegan vanda misheppnaðra ríkja eins og Egyptalands, Afganistan o.s.frv. Ríku Arabaríkin, Saudi Arabía og Flóaveldin gera það ekki. Þau taka ekki við flóttamönnum. Ætlast er til að Evrópa leysi þennan vanda, sem verður ekki leystur nema innanlands í viðkomandi löndum. Hann verður ekki leystur með því að flytja fleiri og fleiri milljónir ungra múslima til Evrópu eins og skammsýnir evrópskir og íslenskir stjórnmálamenn vilja gera. 

Við verðum að bregðast við og gjörbreyta reglum um hælisleitendur og meinta umsækjendur um alþjóðlega vernd strax. Annars vex vandamálið gríðarlega á næstu árum.

Við getum ekki leyst vanda Egyptalands, Afganistan, Pakistan o.s.frv. en með því að reyna það, þá eyðileggjum við okkar samfélag. Þeir sem koma frá þessum ríkjum og öðrum sambærilegum eru ekki tilbúnir til að aðlaga sig þeim gildum, sem Evrópa byggir á.

Þjóðerni,menning og  grunngildi Evrópuríkja, sem meitluð hafa verið í aldanna rás á grundvelli kristinnar arfleifðar, frjálslyndra viðhorfa og virðingar fyrir gildi einstaklingsins og frelsi borgaranna mun láta undan nema við bregðumst strax við og leggjum fyrst og fremst áherslu á hagsmuni eigin borgara. 

 

 

 


Lungnabólga af óþekktri tegund

Þ.5.janúar 2020 sendi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) frá sér tilkynningu um tilvist óþekktrar lungnabólgu, sem komin væri upp í Kína, en skv. rannsóknum þar benti ekkert til að smit bærust á milli fólks, engin heilbrigðisstarfsmaður hefðu sýkst og augum beint að matvælamörkuðum og leðurblökum sem smitberum.

Kínverjar sögðu ekki rétt frá um upptök og smitleiðir veirunnar, Kóvíd, sem heimurinn hefur glímt við síðan 2 ár. Kínverjar leyndu uppruna og tilkomu Kóvíd veirunnar, en um það  mátti ekki ræða það á Vesturlöndum e.t.v. vegna þess að Trump sagði það eða ríkisstjórnir og vísindamenn vildu ekki styggja ofurveldið Kína. 

Í tæp 2 ár hefur heimsbyggðinni sérstaklega Vesturlöndum verið haldið í helgreipum  óttans með mismunandi miklum lokunum, frelsisskerðingu og takmörkunum á eðlilegu lífi. Gríðarlegar efnahagslegar fórnir hafa verið færðar og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur og þjónustu- og framleiðslufyrirtæki hafa orðið fyrir þungum búsifjum. Þjóðarframleiðsla hefur víða dregist mikið saman nema þá  helstí Kína, sem selur m.a. mikið af sýnatökuvörum til Vesturlanda. 

Nú tveim árum eftir að þessi vírus kom upp. Vírus sem sannanlega hefur orðið mildari sbr. Omicron og  í ljósi  bólusetninga, sem stjórnvöld halda fram að veiti virka vörn, þá hlítur sú spurning að vakna hvort enn sé nauðsynlegt að stunda fjöldaskimanir á heilbrigðu fólki.

Ef við ætlum einhverntíma að læra að lifa með þessari veiru, sem við verðum fyrr heldur en síðar hvort heldur sem okkur líkar betur en verr, þá er kominn tími til að hætta skimunum á fullfrísku fólki og leyfa sjúkdómnum að hafa sinn gang eins og við höfum hingað til gert við sjúkdóma af ekki alvarlegri eða lífshættulegri tegundum en veiran er nú.

Ef til vill á það við í dag, sem orðað var á umliðinni öld.

"Það sem ekki drepur þig gerir þig sterkari."


Litháen

Tímaritið Economist hefur valdið Litháen land ársins, ekki vegna þess, að það sé ríkast eða íbúarnir hamingjusamastir heldur vegna þess hvernig Litháen brást við á alþjóðavettvangi. 

Í því sambandi er bent, á, að þeir leyfðu Taiwan að opna viðskiptaskrifstofu í höfuðborginni Vilníus og ráðlögðu íbúum landsins að henda farsímum frá Kína eftir að upp komst, að símarnir eru með ritskoðunarforrit, sem hægt er að gera virkt hvenær sem er. 

Litháen hefur ekki látið hótanir Kínverja eða refsiaðgerðir hafa nein áhrif á sig heldur farið sínu fram. 

Hvað gera svo aðrar Vesturlandaþjóðir gagnvart vaxandi yfirgangi Kína og mannréttindabrotum. Því miður ekki neitt. Það leiðir hugann að því hvað það er nauðsynlegt, að Evrópuríki sem og önnur ríki sem vilja standa vörð um mannréttindi í heiminum láti sameiginlega til sín taka og leyfi Kína ekki að fara sínu fram. 

Má minna á, að rétt fyrir áramót tóku Kínverjar niður minnismerki um ógnarverkin á Torgi hins himneska friðar í Hong Kong, vegna þess, að ekki má segja frá blóði drifinni sögu kínverska kommúnistaflokksins. 

Evrópuríki verða að bregðst við vaxandi vanmætti og óstjórn í Bandaríkjunum með því að taka strax forustu gegn yfirgangs tilburðum Kínverja í stað þess að mæta sundruð og þakka fyrir hvern brauðmola viðskipta,sem einræðisríkið fleygir til þeirra. Það er óttalega lítilmótlegt.

Tökum Litháen til fyrirmyndar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 434
  • Sl. viku: 3506
  • Frá upphafi: 2513310

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 3282
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband