Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Samtök fáránleikans

Í dag tekur Íran við formennsku í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ).Fátt sýnir betur hvers konar samtök fáránleikans SÞ eru. Íransstjórn beitir morðsveitum á ungt fólk,sérstaklega konur, sem neita að hylja hár sitt og þjóðernisminnihluta. Fjöldi ungs fólks og almennra borgara hefur verið drepið vegna baráttu fyrir grundvallarmannréttindum. 

Afganistan var kosið í nefnd SÞ um jafnrétti kynjana á sama tíma og stúlkur í Afganistan fá ekki að ganga í skóla eða ráða klæðaburði sínum.

Kommúnistaríkið Norður Kórea er risastórt fangelsi þar sem borgararnir eru sviptir mannréttindum,samt lagði N.Kórea til og fékk samþykkta tillögu á þingi SÞ um að fordæma Ísrael fyrir meinta hörku lögreglu við mótmælendur. 

SÞ eru í hugum margra mikilvæg og merkileg samtök. Það er því miður liðin tíð. Samtökin hanga helst saman á því að krefjast peninga af Evrópu og Bandaríkjunum og fordæma Ísrael. Af 25 tillögum sem komu fram hjá SÞ árið 2022 gegn þjóðríkjum, beindust 13 gegn Ísrael,oftast að ástæðulausu. 

SÞ var stofnað á grundvelli hugmynda um frið og mannréttindi þ.á.m. að komið yrði í veg fyrir þjóðarmorð á Gyðingum. 

Upphaflegur tilgangur er gleymdur. Bandalög múslimaríkja og ýmissa annarra einræðisríkja mynda meirihluta á þingi SÞ og það eina sem virðist sameina þennan hóp er hatrið á Ísrael og ná sem mestum peningum frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Svona geta hlutirnir breyst í andhverfu sína. Stundum var sagt sem brandari um fáránleika, að gera Dracula að bankastjóra blóðbankans. Nú er það ískaldur veruleiki, að í dag tekur Íran við forustu Mannréttindanefndar SÞ.

Þegar áður góð samtök breytast í samtök fáránleikans er bara eitt að gera. Að láta þau sigla sinn sjó eins og sagt var forðum:

"Mér og mínum að meinalausu.

 

 


Stríðshaukur slíðrar sverðið

Meðan stríðsátök milli Rússa og Úkraínumanna hafa staðið, hefur Katrín Jakobsdóttir verið fyrst til að mæta á fundi NATO og standa með öllum ályktunum um stigmögnun ófriðarins. 

Hundruðir þúsunda ungra manna hafa fallið á vígvöllunum í Úkraínu og fjölmargir óbreyttir borgarar. 

Aldrei hefur Katrínu Jakobsdóttur lagt til vopnahlé í átökunum. Þvert á móti hefur hún verið helsti stríðshaukur NATO á sama tíma og hún mælir fyrir því á heimavelli að Ísland fari úr NATO.

Flutt var áróðurstillaga Arabaríkja á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) um vopnahlé í stríði hryðjuverkasamtaka Hamas og Ísrael. Ríkisstjórn Íslands ákvað í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, að standa með öðrum NATO ríkjum og sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Nú bregður svo við að stríðshaukurinn Katrín Jakobsdóttir vill slíðra sverðin í Mið-Austurlöndum og talar um mannfórnir, sem henni finnst verri en mannfórnir í austurhluta Evrópu. Hvernig skyldi standa á því og hvernig skyldi nú Katrín rökfæra það að ætla að standa með Arababandalaginu og rjúfa nánast órofa samstöðu NATO ríkja í þessu máli? 

Miðað við sókn Katrínar Jakobsdóttur í að vera helsti stríðshaukurinn á öllum NATO fundum, þá er hér eitthvað nýtt á ferðinni og eðlilega vefst það fyrir almúganum að skilja stefnu forsætisráðherra,sem krefst órofa samstöðu um mannfórnir í Úkraínu, kemur árásar- og landvinningastríð Aserbajan gegn Armeníu ekki við, en telur vopnahlé á Gasa brýna nauðsyn.

Katrín hefur verið mótfallinn vopnahléi í Úkraínustríðinu vegna þess, að það væri hagfellt fyrir Rússa því þá gæfist þeim svigrúm til endurskipulagningar hernaðaraðgerða. Gildir ekki það sama um Hamas? 

 


Við áttum að hafna Hamastillögunni hjá SÞ.

Í leiðara Daily Telegraph í gær er fjallað um nauðsyn þess, að breska ríkisstjórnin haldi áfram að sýna fram á hversu fráleitar og óframkvæmanlegar kröfur um vopnahlé séu í stríðinu milli Ísrael og Hamas á Gasa.

Í leiðaranum segir eftirfarandi:

„Það er hryllilegt að óbreyttir borgarar skuli falla á Gasa. En ábyrgðin er algjörlega Hamas. Hamas samtökin gætu lokið stríðinu með því að gefast upp og leysa úr haldi meira en 200 gísla sem samtökin hernámu 7.október. Þeir gætu líka dregið úr hættu eigin borgara með því að hvetja þá til að flytja sig tímabundið til suðurhluta Gasa. Þess í stað eins ógeðfellt og það er þá ákváðu liðsmenn samtakanna að nota bæði gísla sína og íbúa á Gasa sem mannlega skildi.

Hamas er líka um að kenna allan skort á nauðsynjum þ.m.t. eldsneyti. Sagt er að samtökin séu með miklar birgðir og noti mikla orku til að lýsa upp víðtækt og umfangsmikið net neðanjarðarganga. Ísrael hefur líka sýnt fram á að Hamas staðsettu höfuðstöðvar sínar í neðanjarðarbyrgi undir helsta sjúkrahúsinu, Shifa sjúkrahúsinu, sem veldur beinni hættu fyrir sjúka og þá sem eru illa settir.

Það er skiljanlegt að fólk vonist til að það verði stund milli stríða (humanitarian „pause“) í átökunum, til að neyðarhjálp komist inn á Gasa svæðið. En vopnahlé kemur ekki til greina. Það mundi ekki aðeins gefa Hamas tækifæri til að endurskipuleggja liðssveitir sínar og undirbúa frekari eldflaugaárásir á Ísrael.

Margir þeirra sem krefjast þess að Ísrael leggi niður vopn eru óheiðarlegir. Eru til nokkur hernaðarleg umsvif Ísrael sem að gagnrýnendur þeirra vilja leyfa landinu að taka til að svara fyrir svívirðilega hryðjuverkaárás Hamas? Halda þeir virkilega að það sé einhver pólitísk lausn í sjónmáli milli Ísrael og samtakanna, sem vilja eyða Ísraelsríki af yfirborði jarðar? Ísraelsmenn vita nú, að yfirlýsingar og stefna Hamas um þjóðarmorð á Gyðingum er ekki tómt orðagjálfur.

Ísrael stendur nú frammi fyrir hugsanlegu stríði á mörgum vígstöðvum. Þeim liggur á að sýna fram á að þeir geti komið í veg fyrir árásir á Ísrael með því að sýna fram á ótvíræðan hernaðarlegan styrk og lausnir.

Það eru hagsmunir bæði Ísrael og Palestínumanna, að Ísrael verði leyft að eyða Hamas.“

Hér er ekki töluð vitleysan en bent á staðreyndir. Stríð er alltaf slæmt, en stundum er það því miður óumflýjanlegt. Bandaríkin mátu það svo þegar Japanir gerðu árás á flotastöð þeirra í Pearl Harbour á sínum tíma að það væri óumflýjanlegt fyrir þá að ganga milli bols og höfuðs á þeim sem bæru ábyrgð á þeirri fólksulegu árás. Þeir gerðu það og engum datt í hug á þeim tíma að krefjast þess að Bandaríkjamenn samþykktu vopnahlé þegar Japönum hentaði eða slíkt vopnahlé yrði algerlega á þeirra forsendum eins og tillaga Jórdaníu kvað á um varðandi vopnahlé hjá Sameinuðu þjóðunum.

Að sjálfsögðu hoppaði erkipópúlistinn Katrín Jakobsdóttir á vagn Hamasvænu tillögu Jórdana og vælir yfir því að utanríkisráðherra hafi ekki talað við sig. Einhverra hluta vegna sér sá ráðherra ekki ástæðu til að varða þá vegferð sem hann ákvað neinum rökum eða sýna fram á að afstaða Íslands í atkvæðagreiðslunni var pólitískt rétt.

Óneitanlega sérkennileg ríkisstjórn svo ekki sé meira sagt. Einhverntíma og það jafnvel fyrr hefði forsætisráðherra í ríkisstjórninni sagt: „Innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um neitt sem máli skiptir og því einboðið að hún segi af sér og fari frá.“


Má Davíð fara í bað?

Eitt sinn gagnrýndi ég þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins Davíð Oddsson fyrir að ekki hefði náðst í hann við vinnslu ákveðinnar fréttar á RÚV.

Magnús Óskarsson heitinn, lögmaður m.a. borgarlögmaður og stórsnillingur svaraði greininni með grein sem hét. "Má Davíð fara í bað." þar gerði hann grein fyrir að stjórnmálamenn væri að sjálfsögðu ekki alltaf tiltækir. Við Magnús urðum sammála um það, að Davíð mætti fara í bað en ekki dvelja þar svo lengi að heilsu hans væri hætta búinn eða hann vanrækti stjórnsýsluna.

Davíð Oddson má eiga það að meðan hann var formaður Sjálfstæðisflokksins þá stóð ekki upp á hann að gera pólitíska grein fyrir afstöðu sinni og flokksins varðandi pólitísk ágreiningsmál. Hann gerði það raunar svo vel,að hátt í 40% kjósenda studdu Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma. 

Ekki hefur náðst í formann Sjálfstæðisflokksins í mun lengri tíma en tekur að fara í bað, til að hann skýri afstöðu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í mikilvægu pólitísku ágreiningsmáli þ.e. hjáseta við tillögu um vopnahlé á Gasa. 

Að sjálfsögðu á utanríkisráðherra,formaður Sjálfstæðisflokksins að rökfæra þá ákvörðun, að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna strax í kjölfar hennar. Það er skylda hans sem utanríkisráðherra og það er skylda hans sem formanns Sjálfstæðisflokksins að gera grein fyrir stjórnmálastefnunni í mikilvægum málum. Það hefur sýnt sig að til þess er hann vel hæfur. Þetta var enn brýnna varðandi atkvæðagreiðsluna þar sem forsætisráðherra kvikaði strax í afstöðunni sem og flokkur hennar.

Það er ekki sérstakt hlutverk, ritstjóra Morgunblaðsins,  Björns Bjarnasonar, Hannesar H.Gissurarsonar og annarra minni spámanna að standa stöðugt í því hlutverki að rökfæra stefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn meðan formaður og stór hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins, telur rétt að vera fríhjólandi í guðsgrænni náttúrunni. Það kann ekki góðri lukku að stýra.


Tilveruréttur Ísrael og hryðjuverkaárásir Hamas.

Hamas eru hryðjuverkasamtök, sem ráða Gasa svæðinu. Ríkisstjórn, embættismenn og stjórnendur Gasa eru Hamas liðar.

Þegar Hamas sendi herlið sitt inn í Ísrael, til að fremja fjöldamorð á ísraelskum borgurum, skera ungabörn á háls og misþyrma fjölda fólks þ.á.m. líkum og taka stóran hóp fólks í gíslingu lýsti Gasa yfir stríði við Ísrael.

Gasa heyrir ekki undir stjórnvöld í Ísrael. Það slæma sem þar gerist er Hamas að kenna og  langvarandi sjálfskaparvíti.

Árið 2005 sá Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels til þess, að Ísraelsmenn færu frá Gasa og létu íbúum Gasa eftir stjórnina. Gasa búar tóku við stjórninni og sumir vonuðu, að byggt yrði upp gott framsækið borgarsamfélag sbr Hong Kong og Singapore.

Ráðgert var að laða að túrista, reisa stórt spilavíti og nýta strendurnar sem eru með þeim bestu í heiminum ekki síst fyrir sjóbrettaíþróttir og flugvöllur var á teikniborðinu.

Því er ranglega haldið fram, af Gyðingahöturnum og nytsömum sakleysingjum, að Gasa hafi aldrei átt möguleika á að þróast efnahagslega og byggja upp sambönd við aðra. Gasa búar höfðu alla möguleika til  að byggja upp ríki friðar og samvinnu, en þeir kusu að fara með ófriði gegn Egyptalandi og Ísrael, sem  leiddi til lokunar beggja landamæra.

Áætlanir um spilavíti voru teknar af dagskrá og búnaður sem erlend ríki sendu sem hjálpargögn til Gasa var breytt í eldflaugaskotpalla og fljótlega eftir að Ísrael gaf Gasa sjálfsstjórn byrjuðu ógæfumenn Hamas og annarra haturshreyfinga að skjóta eldflaugum á Ísrael hundruðum og þúsundum saman. Þannig hefur það verið þau 18 ár sem liðin eru frá því að Gasa búar tóku örlög sín í eigin hendur já og veldur hver á heldur.

Hamas réðist á Ísrael úr launsátri og Ísraelsk stjórnvöld brugðust við og eiga nú í varnarstríði við stjórnendur Gasa svæðisins eins og Bandamenn áttu í varnarstríði við Þjóðverja í síðustu heimstyrjöld. Ekki þá frekar en nú var stríð við þýska borgara heldur nasísk stjórnvöld í Þýskalandi eins og nú nasísk hryðjuverkasamtök sem stjórna Gasa og heita Hamas.

Genfarsáttmálin um stríðsátök kveður m.a. á um að í hernaði beri að lágmarka svo sem kostur er að átökin bitni á almennum borgurum. Það reyndist erfitt þá og æ síðan sérstaklega eins og á Gasa þar sem vígamenn Hamas fela sig meðal borgaranna og skjóta eldflaugum frá skólum, bænahúsum og jafnvel sjúkrahúsum og sprengdu m.a.eigið sjúkrahús í loft upp og kenna Ísrael um.

Nú fara leiðtogar Vesturlanda hver á fætur öðrum í pílagrímsferðir til Jerúsalem og lýsa yfir stuðningi við Ísrael, sérstaklega ef Ísrael gerir ekki neitt. Það er ekki einu sinni talað um að refsa hryðjuverkamönnum og leysa gíslana úr haldi. Hvernig dettur ábyrgum þjóðarleiðtogum í hug að hægt sé að leysa ágreining við hryðjuverkamenn með kökuboðum og þeir haldi síðan áfram hryðjuverkum eins og ekkert hafi í skorist.

Fordæming fáráðlinga og Gyðingahatara á Vesturlöndum nær síðan algleymi þegar þeir saka Ísrael um að skrúfa fyrir rafmagn og hætta að senda vatn til Gasa(sem er um 10 km á breidd og 40 km. á lengd þó RÚV segi að það nái yfir svipað svæði og Reykjavík og Kópavogur)

Hvenær hefðu Churchill, Roosevelt eða Stalín dottið í hug að senda vatn, matvæli, sjúkragögn til Þýskalands í síðari heimstyrjöld og sjá Þjóðverjum fyrir rafmagni. En vestrænum fréttastofum, nytsömum sakleysingjum og Gyðingahöturum á Vesturlöndum telja að Ísrael eigi að sjá borgurum óvinaríkis fyrir vatni, rafmagni og sjúkragögnum sem og fleiru.

Síðan dynja yfir fréttir af mannfalli á Gasa allt úr áróðurssmiðju Hamas og fréttastofur eins og RÚV taka því sem heilögum sannleika. Af hverju á að taka það trúanlegt sem barnamorðingjarnir segja, hafa þeir sýnt það að þeir séu áreiðanleg heimild?

Ísrael á í mikilvægu varnarstríði og þeir sem standa á bak við hernaðaraðgerðir Hamas og veita peningum til þeirra er m.a. þursaríkið Íran. Koma má með getgátur um þáttöku annarra ríkja m.a. þeirra sem hafa hagsmuni af því að Vesturlönd séu upptekin við fleira en bara Úkraínu. Það er ljóst, að árásarstríð Aserbajana gegn Armenum kemur Vesturlöndum ekki við svo merkilegt sem það nú er og greinilega ekki háheilög landamæri þar eins og í Úkraínu.

Íran veitir líka Hisbollah í Líbanon virkan stuðning og talið er að eldflaugaforði þeirra sé meiri í dag en stórs hluta ríkja NATO í Evrópu. Þeim eldflaugum er bara beint gegn hinum eina óvini „Ísrael.“ Á sama tíma er reynt að kveikja glóðir elds á Vesturbakkanum svokallaða, þannig að Ísrael verði enn einu sinni að berjast fyrir tilveru sinni á þrem vígstöðvum. Hingað til hefur það gengið vel, en það er ekki þar með sagt að það sama gerist alltaf.

Tapi Ísrael, þá er úti um Ísrael og griðlandi Gyðinga þar og Ísrael heyrir þá sögunni til. Þetta vita Gyðingar og einnig sæmilega skynugir íbúar Vestur Evrópu og Bandaríkjanna.

Hamas liðar munu þá reyna að ná fram hinni endanlegu lausn, sem er enn hroðalegri en nasistana dreymdi nokkru sinni um. Endanleg lausn nasistanna í Þýskalandi var að útrýma Gyðingum í Evrópu með því að koma þeim á brott eða útrýma þeim ella. Hamas nasistarnir ganga enn lengra. 

Stefna Hamas er að drepa alla Gyðinga hvar svo sem þeir finnast. Eða eins og segir í hugmyndafræði og stefnumörkun Hamas sem byggir á að drepa alla Gyðinga ekki bara Gyðinga í Ísrael heldur hvar svo sem þeir finnast eða eins og þeir segja: 

„Þá munu Gyðingarnir fela sig á bak við kletta og tré, en klettarnir og trén munu hrópa: „Ó þú múslimi það er Gyðingur, að fela sig á bakvið mig, komdu og dreptu hann.“

Þessari grunnstefnu Hamas hefur ekki verið breitt og á þessum forsendum unnu Hamas liðarnir sem gerðu innrás í Ísrael fyrr í mánuðinum. Ráðist var á ungt fólk á tónleikahátíð í Negev eyðimörkinni og það myrt, svívirt og tekið í gíslningu. Fólkið á tónleikunum faldi sig á bakvið steina og tré, en hryðjuverkamennirnir eltu það og drápu um 300 unglinga og ungt fólk. Ungabörn voru tekin og skorin á háls og villimennirnir sendu myndbönd til að hæla sér af voðaverkunum. Þarna var Ísis endurborið á ferðinni.

Hvernig getur fólk á Vesturlöndum varið þetta eða slett í góm og sagt jamm eru ekki margar hliðar á málinu?

Hryðjuverk hafa alltaf eina hlið og þau ber alltaf að fordæma hver svo sem vinnur þau og í hvaða tilgangi sem er.

Viðbrögðum við hryðjuverkum hættir til að fara út í öfgar og hugsanlega hafa Hamas liðar haft það í hyggju þegar þér gerðu hryðjuverkaárásina á Ísrael á dögunum. Þeim gæti orðið að ósk sinni ef ríki Vesturlanda standa ekki þétt við bakið á Ísrael og krefjist þess að öllum gíslum verði skilað og hryðjuverkamennirnir framseldir þeim alþjóðlegu dómstólum sem ákæra og dæma í málum varðandi þjóðarmorð og hryðjuverk.

Ekkert minna kemur til greina ásamt því að stjórnvöld Hamas fari frá og Gasa verði sett undir tímabundna stjórn Arababandalagsins sem skuldbindi sig til að reyna að koma á friðsamlegri sambúð við nágranna Gasa Egyptaland og Ísrael, sem stuðli þá að eðlilegum samkiptum og nýrri tilraun til að Gasa brauðfæði sig og íbúar Gasa hugsi ekki einungis um hvað þeir eiga bágt og hvernig þeir geti náð sér niðri á Gyðingum og drepið þá sem flesta.

Já og Gasa búar læri að elska börnin sín meira en þeir hata Gyðinga.


Það er sitthvað Belgrad eða Baku

Enn á ný sækir her múslimska Aserbajan með stuðningi Tyrkja, fram í Nagorno Karabak, til þess að flæma kristna Armena burt þaðan,sem þeir  hafa búið um aldir. Þessar þjóðernishreinsanir Aserbajana gegn Armenum eru fordæmanlegar.  

Í fyrri heimstyrjöld og fram til 1920 stóðu Tyrkir fyrir þjóðernishreinsunum og fjöldamorðum á Armenum. Talið er að Tyrkir hafi drepið eina og hálfa milljón Armena. En Tyrkir kunna ekki að skammast sín og neita að þetta hafi gerst þó staðreyndirnar liggi fyrir. 

Nú eru það múslimarnir í Aserbajan, sem standa fyrir þjóðernishreinsunum og fjöldamorðum með velþóknun Tyrkja. 

Hver skyldu verða viðbrögð NATO með Bandaríkin í broddi fylkingar? Skyldi NATO gera loftárásir á Baku höfuðborg Aserbajan og hafa í hótunum um víðtækari hernað, eins og NATO gerði þegar þeir sprengdu sem óðast í Belgrad og víðar í Serbíu, þegar þeir sökuðu Serba um að reka múslimska Albani burt úr Kosovo héraði þá í Serbíu. 

Herhlaup NATO gegn Serbum undir forustu Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta var fordæmanlegt og brot á grundvelli NATO sem varnarbandalags, því NATO réðist á Serbíu. 

Nú er spurningin hvort Bandaríkin og NATO telja kristna Armena eigi að njóta sömu verndar og múslimska átroðsluhópa í Kósóvó héraði í Serbíu á sínum tíma. Eða skipta Armenar minna máli en Kósóvó Albanir.

Vesturveldin ættu að skammast sín fyrir að hafa ekki veitt Armenum víðtækan stuðning en þessi harðgerða þjóð, sem hefur mátt þola endalausar ofsóknir múslima um aldir á það skilið að kristnar þjóðir sýni þem þá virðingu og stuðning sem þeir eiga skilið. 


Lampedusa og innrásin í Evrópu

Ítalska eyjan Lampedusa í Miðjarðarhafinu, er mun nær Norður Afríku en næsta ítalska byggðu bóli, Sikiley. Ferð með ferju til Sikileyjar frá þessari 8 ferkílómetra eyju tekur 9 klst. Íbúarnir hafa iðulega verið hart leiknir af sjóránum Tyrkja. 

Íbúar eyjarinnar eru 5 þúsund og síðustu 20 árin hefur mikill fjöldi hælisleitenda komið ólöglega til eyjarinnar. Byggð hafa verð flóttamannaskýli og ýmis aðstaða. En þar sem eyjan er fámenn og lítið jarðnæði var ákveðið í síðustu viku að flytja þá ólöglegu hælisleitendur sem voru í búðum á eyjunni til Sikileyjar. 

En andrúmið entist ekki. Sama dag og daginn eftir komu um 10.000 nýir ólöglegir hælisleitendur til eyjarinnar. Helmingi fleiri en íbúarnir. Skipulögð innrás af hálfu þeirra sem smygla fólki til Evrópu. Miðað við það regluverk sem SÞ, Schengen og ES hafa sett er úr vöndu að ráða. 

Íbúar Lampedusa eru orðnir eins og gestir á eyjunni sinni, mannlíf eins og þau þekktu fyrir árið 2000 er horfið. Það er engin Ítalía eftir þó eyjan sé ítölsk. 

Sama hendir okkur ef við gjörbreytum ekki um stefnu. Við erum fámenn þjóð og höfum þegartekið við of mörgum hlaupastrákum frá Afríku og Asíu. Okkar hlutskipti verður svipað og íbúa Lampedusa ef við bregðumst ekki við af krafti þegar í stað. 

Þá verður ekkert Ísland nema að nafninu til. Barnfæddir íslendingar verða eins og gestir í enskumælandi landi. Við eigum bara eitt Ísland. Ef við glötum því, þá heyrir tungumál, saga þess og menning sögunni til. Hvaða máli skiptir þá fullveldi og þá fyrir hverja?

Viljum við virkilega ekki berjast fyrir Íslandi, íslenskri menningu, íslenskri tungu og íslenska þjóð?

Þá verður að loka landinu fyrir hælisleitendum og takmarka innflæði og afgreiða mál þeirra sem enn bíða úrlausnar með hraði. Það verður að gjörbreyta útlendingalöguum og stjórnvöld verða að viðurkenna að allt þetta kerfi "umsækjenda um alþjóðlega vernd" samrýmist ekki staðreyndum samtímans. Verndarkerfið er fyrir fólk sem þarf í meira en 99% tilfella ekki á henni að halda.  

Hvað sem því líður þá er okkar hlutverk að varðveita það dýra land, sögu þess, tungumál og menningu og fullveldi, sem við eigum enn.

 


Í tilefni hinseginn daga.

Í kosningum 2015 í bænum Hamtramck í Michican í Bandaríkjunum urðu múslimar í meirihluta. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn fögnuðu og sögðu þetta sýna gildi fjölmenningar og fólk frá ólíkum menningarheimum, gæti búið saman í sátt og samlyndi.

Vinstri menn voru ekki lengi í Paradís og vissu ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga þegar bæjarstjórnin í Hamtramck samþykki samhljóða, að banna regnbogafána hinsegin fólks í bænum. Múslimar sem fylltu ráðhús bæjarins fögnuðu.

Hvað hefði gerst ef kristið fólk hefði verið í meirihluta og bannað regnbogafánann? Vinstra fólkið hefði farið hamförum vegna ofbeldis gegn minnihlutahópi og staðið fyrir mótmælagöngum og óeirðum og sagt bannið sýna ógeðfelda og fordæmanlega hvíta kynjahyggju ferðarveldisins .

En þarna var meintur minnihlutahópur að taka afstöðu gegn öðrum meintum minnihlutahópi. Málstað hvors á vinstri hugmyndafræðin að taka? Ef þeir snúast gegn múslimunum geta þeir sagt að verið sé að þvinga þá til að samþykkja ákveðin gildi þvert á trúarskoðanir og haldið því fram að um sé að ræða Íslamshatur.

Sérkennilegt, að vinstra fólk á Vesturlöndum, sem áður voru boðberar frelsis og mannréttina og hinsegin fólk hér á landi, skuli ekki skynja að múslimar og hinsegin fólk eru andstæður og múslimar og fjölmenning eru andstæður. Þeir eru boðberar einmenningar í andstöðu við frjálslynd gildi mannréttinda og tjáningarfrelsis.


Hvika nú þeir sem síst skyldu?

Haustið 2005 birtust teikningar af Múhammeð spámanni í danska blaðinu Jótlandspóstinum. Nokkur Íslömsk ríki brugðust ókvæða við og stóðu fyrir refsiaðgerðum gegn Dönum. Þess var krafist að bannað yrði að teikna eða birta myndir af spámanninum og teiknaranum og ritstjórn blaðsins refsað. 

Ander Fogh Rasmussen sem var forsætisráðherra neitaði að mæta á fund með fulltrúum 11 Íslamskra ríkja til að ræða málið og biðjast afsökunar á teikningunum. Anders Fogh sagði að þetta kæmi stjórnvöldum ekki við, það væri tjáningarfrelsi í Danmörku. Það eiga Íslamistar erfitt með að skilja. Mótmælin fjöruðu út og Danmörk átti hrós skilið og fékk það fyrir að standa með grunngildum sínum gegn Íslamska ofbeldinu. 

Að undanförnu hafa nokkrir flóttamenn frá Íslömskum ríkjum staðið fyrir því að rífa Kóraninn og/eða brenna fyrir framan sendiráð nokkurra íslamskra ríkja í Danmörku og Svíþjóð. Samtök 57 íslamskra ríkja krefjast þess, að þetta verði bannað og hóta hefndaraðgerðum gegn Svíþjóð og Danmörku. 

Því miður er nú enginn Andres Fogh til að standa með tjáningarfrelsinu og þeir Lars Lökke Rasmussen í Danmörku og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía bregðast við með undirlægjuhætti til að þóknast Íslamistunum.

Við megum hvergi hvika gagnvart íslamska ofbeldinu og þurfum að sýna það einarðlega að við stöndum með okkar gildum og mannréttindum. Jafnvel þó við séum ekki sammála því sem flóttamennirnir frá íslamska ofbeldinu eru að gera, þá megum við ekki bregðast okkar grunngildum. Aldrei að víkja.

Við eigum aldrei að hvika vegna ofbeldishótanna þursaríkja. Það er meira en nóg komið af þjónkun við þessa óværu. 

 


Sjóðandihlýnun

Nú er ekki lengur hamfarahlýnun. Ástandið er miklu verra það er sjóðandi hlýnun, sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kommúnistinn Antonio Guterres fyrir nokkrum dögum. 

Hvað er sjóðandi hlýnun? Vatn sýður við ákveðið hitastig eins og við þekkjum vel. Er það þannig á jörðinni? Eru höfin sjóðandi, vötnin eða ár og lækir? 

Ummæli Guterres eru ekkert annað en fals og rangfærslur.

En hvað vilja Guterres, Katrín Jakobsdóttir og þeirra líkar? Hvaða heim vilja þau sjá í sínu kolefnishlutlausa framtíðarríki?  Það er ekki heimurinn eins og við þekkjum hann með velmegun og lágri dánartíðni og lengri og lengri lífaldri. 

Þeirra draumaheimur er eins og hann var fyrir tíma iðnbyltingarinnar á 18.öld. Þá dóu hlutfallslega margfalt fleiri vegna náttúrulegra hamfara. Auk heldur var líftími mun styttri.

Viljum við virkilega fara á stig fátæktar og afturfara akuryrkjustigið eins og Guterres og Katrín krefjast?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 634
  • Sl. viku: 2334
  • Frá upphafi: 2506096

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2180
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband