Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Glórulaus áróður og viðbrögð við loftslagskvíða.

Áróðursþáttur frá BBC var sýndur í sjónvarpinu í kvöld. Þetta rifjaði upp fyrir mér skrif Fraser Nelson um viðbrögð við loftslagskvíða.

Fraser sagðist hafa fengið tölvupóst frá bæjarfélaginu þar sem boðið var upp á námskeið fyrir fólk með loftslagskvíða. Loftslagssálfræðingur (hvað svo sem það nú er) hefði stjórnað hópnum og spurt fólk um líðanina. Svörin voru:hræddur,sakbitinn hjálparvana,reiður. Stjórnandinn sagði það eðlilegt, en fólk ætti að halda sér frá umræðum um loftslagsmál.

Það er hægara sagt en gert. Endalaus áróður er í sjónvarpi. Lloftslagsáróður er kennsluefni í skólum. Dálkahöfundurinn vísaði til loftslagsáróðursþáttarins sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöld og þess neikvæða áróðurs sem þar var. Stjórnmálamenn, fjölmiðlar og „vísindamenn“ sem lifa á því að halda fram að það sé banvæn loftslagshlýnun hamast við að yfirbjóða hvern annan og mála hlutina stöðugt dekkri litum.

Afleiðingin af þessu ofstæki er að koma í ljós. Sumir eru dauðhræddir einkum börn og unglingar. Fólk neitar sér jafnvel um að eiga börn. Samt er ekkert merkilegt að gerast nema á teikniborði þeirra sem vilja bara skoða neikvæðar fréttir.

En skattlagning á almenning og afleiðingarnar af „grænu stefnunni“ sem felst aðallega í að styrkja ákveðin fyrirtæki og millifæra peninga frá skattgreiðendum til ákveðinna framleiðenda er aftur á móti að koma í ljós og fleirum og fleirum ofbýður þrátt fyrir allan áróðurinn og átta sig á að þetta er komið allt of langt.

Hollenskir bændur hafa orðið illilega fyrir barðinu á þessum trúarbrögðum og mótmæla kröftuglega. Sænski umhverfisráðherrann er í rólegheitum að útvatna grænu lögin sem hún tók í arf frá sósíalistunum og Emanuel Macron er í vandræðum heima fyrir þar sem gulvestungarnir neituðu að taka meiri hækkunum á orkuverði og hófu mótmælaaðgerðir og hafa krafist þess að Evrópusambandið hætti þessu og segja það sé þegar nóg komið. Þýskaland skrifaði upp á að bensínbílar yrðu bannaðir frá árinu 2035, en er nú á móti þeirri hugmynd.

Þegar loftslagspólitíkin fór á flug í Evrópu, þá var aldrei spurt hvað kostar þetta. Hverju náum við fram. Þýski flutningamálaráðherrann leyfði sér meira að segja að spyrja um daginn. „Hvaða skynsemi er í því að kaupa rafmagnsbíl ef rafmagnið er framleitt með því að brenna kolum“?

En það er aldrei minnst á jákvæðu hliðarnar sem eru að gerast á henni jörð. Jörðin hefur aldrei verið grænni og dauðsföllum tengdum loftslagi hefur fækkað um 90% á einni öld.  Ástæðan er einföld ríkar þjóðir eiga betra með að takast á við náttúruvá.

Með því að veikja efnahagslegar undirstöður Vesturlanda má búast við að hættan aukist frá því sem nú er í stað þess að það dragi úr henni. 

En það er ekki beint búin að vera hamfarahlýnun á Íslandi síðustu misserin og það eru engar stórkostlegar breytingar á veðurfari eða loftslagi umfram það sem gerist og gerst hefur í sögu jarðarinnar. Við erum frekar svo heppin að búa við meiri stöðugleika en iðulega hefur verið fyrir hendi - og þá þarf að skattleggja það að fólki líður vel og hræða það.


Gleðileikur innihaldsleysisins.

Leiðtogafundi Evrópuráðsins er lokið. Allir eru sammála um að umbúnaður fundarins, öryggisgæsla og framkvæmd hafi verið frábær. Við eigum því hrós skilið. Jákvæður árangur af fundinum er fyrst og fremst, að það var fjölgað í lögreglunni og hún fékk þjálfun og tæki,sem á hefur skort í langan tíma.

Fundir sem þessir eru athyglisverðir einkum fyrir þá sök, að þeir sem taka til máls eru sammála síðasta ræðumanni og reyna að yfirbjóða hann í orðfæri og framsetningu. Megintemað Rússar eru vondir komst vel til skila.

Niðurrigndir fulltrúar með kalda sultardropa í nefinu komnir inn í Hörpu úr norðannepjunni töluðu um ógnir af loftslagshlýnun, sem er álíka raunveruleg og Grýla og Gilitrutt í hugum ungbarna á árum áður.

Utanríkisráðherra meinaði breska forsætisráðherranum að taka á dagskrá, raunveruleg vandamál þ.e. Innflytjendamálin og vandamál vegna furðulegra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Sagt er að honum hafi verið svo misboðið að hann lét sig hverfa þegar hann hafði gætt sér á lambalærinu og fúlsaði við skyrinu sem sletta átti í hann í eftirrétt.

Í sjálfu sér var eðlilegt að utanríkisráðherra meinaði Rishi Sunnak forsætisráðherra Breta, að tala um eitthvað sem gæti eyðilagt þann guðdómlega gleðileik innihaldsleysisins, sem fram fór í Hörpu sl. þriðjudag og miðvikudag.

Ef til vill vantaði mann eins og listmálarann Jóhannes Sveinsson Kjarval til að greina mikilleik ráðstefnu eins og þeirri sem fram fór í Hörpu. Hann var fyrir löngu á fundi í Félagi íslenskra myndlistarmanna og fannst lítill árangur af fundarstörfum og tók því til máls og sagði:

"Heiðruðu félagar. Áður en ég kom á fundinn var ég að lesa í Vísi og rakst þar á auglýsingu um að grár köttur hefði tapast. Eins og þið finnið þá er frost og nepja, svo að veslings kötturinn getur haft illt af. Nú er það svo, að félag þetta hefur fátt unnið sér til fræðgar eða ágætis, þá legg ég til að við slítum fundinum nú þegar og förum að leita að kettinum. Það er ekki víst að við finnum köttinn, en það verður þó líklega fjallað um þetta framtak í blöðunum."


Dagur dúkkulísunar og miðaldahugsunarinnar.

Á morgun verður hátíðisdagur í Bretlandi þegar Karl 3 verður krýndur konungur í Bretaveldi með öllu því miðalda umstangi sem fylgir slíkri viðhöfn og gjörhugulli athygli  royalista og annarra um allan heim, sem hafa gaman af að sjá glitta í ytra borð heims dúkkulísanna.

Allar eru þessar dúkkulísur í konungsfjölskyldu Bretlands orðum prýddar og þau öll óverðug þeirra titla, en það er í samræmi við kveðskap mörlandans hér uppi á Íslandi sem orti um orður og titla sem úrelt þing, sem notaðist helst sem uppfylling í eyður verðleikanna. 

Á 18.öld skrifaði baráttumaðurinn Thomas Paine ritgerðina "common sense", sem fjallar um það hversu fáránlegt það sé að hafa konungsveldi, þar sem byggt er á þeirri hugsun, að konungar séu öðruvísi fólk og betur af Guði gert og æðra en venjulegt fólk. Konungar séu fæddir til að stjórna skv. ákvörðun Guðs almáttugs. Ætla hefði mátt, að lýðræðisríki, sem byggja á jafnræði og jafnstöðu borgaranna mundu afnema þessa miðaldahefð, sem byggist á enn fornari hugmyndafræði um sérstaka hæfileika konungsborins fólks til að skipa almúganum til verka eða þýum sínum.

Thomas Paine er talinn eiga bróðurpart í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna,sem Thomas Jefferson færði í letur, en þar eru m.a. tekið orðrétt ýmislegt, sem Paine skrifaði í bók sína "The rights of man".

Lýðveldi er ríki, sem hafnar miðaldahugsuninni um að konungar séu öðrum æðri og viti allt best. "Vér einir vitum" var og hefur verið vígorð arfakónga í gegnum tíðina og þá hugsun fékk Karl þriðji í arf með móðurmjólkinni, svo sem forverar hans. 

Á sama tíma og konungssinnar og aðrir sem hafa gaman að sjá dúkkulísur upp á sitt besta, fagna krýningu hins nýja, gamla konungs, kemur samt fram í skoðanakönnunum, að um helmingur þegna konungsins vill losna við konungsdæmið og afgerandi meirihluti ungs fólks vill það burt sem allra fyrst. 

Vonandi kemur sá tími, að lýðræðissinnar varpi þeirri hugmynd fyrir róða, að sumir séu valdir til þess af Guði að stjórna öðrum af því að þeir eða þau hafi unnið sér slíkt vald með því að vera ákveðinnar ættar. Þessi konungshugsun er algerlega andstæð hugmyndafræði lýðræðisins ogfólk séu borgarar í ríkjum sínum en ekki þegnar eða þý. En áfram má síðan hafa skrúðgöngur með dúkkulísum til að gleðja fólk sem hefur gaman af slíku tilstandi, en það er þá undir þeim formerkjum að þar fari dúkkulísur en ekki fólk sem stjórni þjóðfélaginu.

Sú hugmyndafræði konungssinna er andstæð þeim fornnorrænu viðhorfum sem komu fram, þegar norrænir menn herjuðu á England á 11. öld, og sátu um borg mig minnir London. Sendimenn voru sendir á þeirra fund, sem báðu um að konungur þeirra kæmi til friðarviðræðna og því var þá svarað:

"Við höfum engan konung. Við erum allir jafnir."


Frekja, óbilgirni og yfirgangur.

Í gær lýsti innviðaráðherra því í sjónvarpi, hvernig gæslumenn íslenskra hagsmuna hefðu á öllum stigum reynt að koma í veg fyrir, að lagður yrði sérstakur skattur á flugferðir til og frá Íslandi, af hálfu Evrópusambandsins(ES), en skatt þennan á að leggja á í viðleitni ES.til að þóknast pólitísku veðurfræðinni.

Skatturinn mun bitna hart á Íslendingum og gæti kippt stoðum undan ferðamannaiðnaðinum og valdið ferðafólki stórauknum kostnaði.

Þrátt fyrir tilraunir íslenskra ráðamanna, var ekki annað að skilja af ráðherranum, en að engar varanlegar undanþágur yrðu veittar frá þessum skatti. Spurning væri líka hvort að tímabundnar undanþágur yrðu veittar. Innviðaráðherra var í raun að lýsa því sem þekkt er í samskiptum ES og einstakra EES og/eða ES ríkja. Þeim  samskiptum má lýsa með tveim orðum. Yfirgangur og óbilgirni.

Að óbreyttu verður þessi ósanngjarni skattur lagður á með þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem það kann að hafa.

Hvenær gengumst við undir það að ES hefði eitthvað með loftslagsmál að gera fyrir okkar hönd. Þau atriði eru ekki hluti af EES samningnum. Hvenær gengumst við undir það að ES hefðu einhliða með skattlagningarvald á Íslandi? 

Í 40.gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er sérstaklega tekið fram,að engan skatt megi leggja á þjóðina nema með lögum frá Alþingi. Ekki verður því séð, að þessi skattur verði lagður á íslenskt fólk eða fyrirtæki nema með samþykkt Alþingis, þar sem enn höfum við ekki framselt löggjafarvaldið, þó tilburðir séu uppi til að vængstýfa það með því að veita ES löggjöf forgang umfram íslensk lög. 

Er ekki kominn tími til að þjóðin taki EES samninginn til endurskoðunar á grundvelli hagsmuna þjóðarinnar, en hætti að láta eins og hjáleiga í samskiptum við ES höfuðbólið. 


Þrír í fríi en einn á vaktinni.

Vinur minn sem búsettur er í Danmörku, sagði mér, að vinafólk hans, búsett skammt frá honum í einu af betri hverfum kóngsins Kaupmannahafnar, hefði fengið 4 Íranska hælisleitendur í næsta hús við hliðina, eftir að húsið var leigt bæjarstjórninni. 

Vinafólkið var í vanda með hvernig það ætti að bregðast við nýju nágrönnunum. En að góðum dönskum skikk, ákváðu þau að koma fram við þá eins og aðra nema undanskilja gammel dansk og öl.

Þau fóru því næsta sunnudag með nýbakaða tertu til að bjóða írönsku hælisleitendurna velkomna. Hælisleitandi opnaði fyrir þeim, þakkaði fyrir tertuna, en sagði,að því miður væri hann einn heima hinir þrír væru í fríi í Íran. Semsagt farnir aftur heim stuttu eftir að fá hæli vegna lífshættu í Íran.

Þessi saga er ekkert einsdæmi og svipaðar sögur eru sagðar í bók Douglas Murray í bók hans "Dauði Evrópu." 

Sagan sýnir hversu fráleitt allt þetta kerfi og lagaumgjörð varðandi hælisleitendur er.

Það er fráleitt, að bjóða hælisleitendum betri kjör en við bjóðum öldruðum eða öryrkjum. Það er fráleitt, að það skuli vera hlutverk ríkisvaldsins að sýna fram á að hælisleitandi eigi ekki rétt á að koma hingað. Þar er hlutunum snúið á haus. Það er líka fráleitt að íslenskir skattgreiðendur borgi allt fyrir þessa stráka.

Hælisleitandi ætti undantekningarlítið að þurfa að sýna fram á það með óyggjandi sönnunargögnum, að honum væri bráð hætta búin í heimalandi sínu. Þá þyrftu engar úrskurðarnefndir eða dýra málsmeðferð. Málin væru afgreidd með eðlilegum hætti strax.

Á sama tíma og þjóðir Evrópu eru að sligast undan þessari innrás hlægja Kínverjar, Japanir og Saudi Arabar sig máttlausa yfir því hvað Vestur Evrópa er galin að viðhalda þessu kerfi. Það dettur þessum þjóðum ekki í hug.  

 


Er eitthvað rotið í konungdæminu?

Það er eitthvað rotið í Danmörku segir í "Hamlet" einu höfuðleikriti Vilhjálms Seikspír.(William Shakespear)Þessa umsögn hefur í tímans rás mátt færa upp á margar þjóðir. 

Forseti Kína setur sína taflmenn á mikilvægustu reitina, á meðan Vesturveldin sér í lagi Bandaríkin hafast ekki að. 

Meðan Kínverjar sóttu fram sem áhrifavald í Mið-Austurlöndum, þar sem Bandaríkjamenn voru einráðir voru Bretar uppteknir við að ræða það hvort að konur gætu haft tippi eða ekki. 

Í Bandaríkjunum beindust allra augu að réttarhaldi yfir fyrrum forseta Bandaríkjanna, þar sem vinstri sinnaður saksóknari gerir sitt til að vekja á sér athygli með svo galinni málssókn, að helstu andstæðingar Donald Trump í Repúblíkanaflokknum fordæma hana sem og flestir virtir lögmenn í Bandaríkjunum. 

Meðan þau Macron og Ursula flugu til Kína til að biðja forseta Kína ásjár vegna Úkraínustríðsins, beindust allra augu á Vesturlöndum sérstaklega í Bandaríkjunum að málssókninni gegn Trump. Fjölmiðlafólk beið í röðum til að ná myndum af uppákomunni, þar sem nánast engir aðrir voru viðstaddir en fjölmiðlafólk til að taka myndir hvert af öðru. 

Í góðri grein sem Douglas Murray skrifar í DT í dag, vísar hann til þess, að á sama tíma vaxi rán og gripdeildir í Bandarískum borgum einkum þeim sem stjórnað er af Demókrötum og þær séu að rotna innanfrá á meðan forsetinn hinn "svefnþrungni Jói" er aðgerðarlaus í felum og varaforsetinn hefur enga burði til að gera eitt eða neitt.

Kína blómstrar og fer sínu fram í öllum málum hvort sem er varðandi mannréttindi eða kolefnisfótspor. Vesturlönd eru upptekin við að gera lífskjör verri og draga mátt úr framleiðslu sinni vegna bábilju pólitísku veðurfræðinnar.

Svo illa er komið fyrir Bandaríkjunum, forusturíki Vesturlanda í hartnær heila öld, að helstu forustumenn Vestur Evrópu halda til fundar við Kínverska forsetann í máli, sem forustumenn Evrópu hefðu sótt Bandaríkjaforseta heim til að biðja hann um að taka að sér forustu frá lokum síðasta heimsstríðs 1945. 

Fólk á Vesturlöndum þarf að huga að þeirri nýju stöðu, sem er að verða til í heimspólitíkinni og átta sig á að leið Evrópu og Bandaríkjanna verður  bara verri í samanburði við önnur lönd, ef fólk ætlar að halda áfram að eyðileggja framleiðslutækifæri sín, rífa sig niður á grundvelli sögulegra sjálfsásakana og muna ekki hvaða mannréttindi skipta mestu máli og er harðast sótt að.


Kína í öndvegi

Macron forseti Frakklands og Ursula von der Leyen flugu til Kína til að biðja forseta Kína um að beita sér fyrir friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands.

Góðs viti að forustufólk í stjórnmálum í Evrópu átti sig á því, að það skiptir miklu máli fyrir lífskjör og framtíð Evrópu,að þessu stríði ljúki sem fyrst. Svo virðist sem þetta sé ákveðin stefnubreyting, þar sem hingað til hafa stjórnmálamenn í Evrópu virst vera á Joe Biden línunni um að magna ófriðinn sem mest.

Vonandi tekst forseta Kína vel upp þegar hann talar við forseta Úkraínu og Rússlands og einnig er vonandi að hann nái með aðstoð stjórnmálamanna í Evrópu, sem átta sig á að það skiptir miklu að koma á friði sem fyrst í stað þess að magna stríðið. (því miður virðist utanríkisráðherra og forsætisráðherra Íslands ekki vera í þeim hópi)

Takist Kínaforseta að fá aðila að samningaborðinu svo ekki sé talað um ef hann nær að ná fram friðarsamningum, þá hefur hann enn og aftur náð verulegum árangri þar sem Bandaríkin undir stjórn Biden eru hliðsett úti að aka í Guðs grænni náttúrunni. 

Forseti Kína náði samningum á milli Saudi Araba vinaþjóð  Bandaríkjanna og Írana. Bandaríkjamenn voru ekki einu sinni á hliðarlínunni. Þeir voru ekki með. En afgerandi pólitískur sigur forseta Kína. Nái hann árangri nú varðandi Úkraínu og Rússland, ýtir hann Bandaríkjunum út af borðinu sem því stórveldi, sem mest áhrif hefur varðandi samskipti þjóða. 

Það hefnir sín þegar þjóðir velja lélega forustumenn eins og Bandaríkjamenn gerðu þegar þeir kusu Joe Biden til forseta. Undir stjórn hans eru Bandaríkin því miður á hraðri leið til að verða annars flokks stórveldi á vettvangi heimsmálanna. Því  miður svo virkilega því miður. 

 


Bara Íslam

Sameinuðu þjóðirnar (S.Þ.)hafa helgað ákveðna daga í baráttu fyrir eða gegn því sem samtökin telja mikilvægast. Þannig er 18. júní alþjóðadagur í baráttu gegn hatursorðræðu og 19. nóvember alþjóðlegi klósettdagurinn svo dæmi séu tekin. 

Gegn Íslamfóbíu eða andúð á Íslam er helgaður 18.júní. Ekki er að finna sambærilega daga hjá S.Þ., sem vísa til Kristni andúðar eða gegn Gyðingahatri. Samt er það kristið fólk sem þarf að sæta mestu ofsóknum í dag. Engin trúarhópur hefur sætt eins miklum ofsóknum öldum saman og Gyðingar.

Eðlilegt hefði verið til samræmis, að til væri hjá S.Þ dagur gegn hatri á Kristni og gegn hatri á Gyðingum. Svo ekki sé minnst á Hindúa, sem sæta sérstaklega ofsóknum af hálfu Íslamista eins og raunar kristið fólk og Gyðingar í dag.

Virkastir í hatri á kristni og Gyðingum og fylgja því iðulega eftir með hryðjuverkum og morðum eru Íslamistarnir.

Íslamandúð er það iðulega nefnt þegar sannleikurinn er sagður um Íslam. Það þola ýmsir trúarhópar Íslam ekki sbr. bók Salman Rushdie um söngva Satans. Þá sameinuðust Íslamistar í Salman Rushdie hatri, en S.Þ hafa ekki enn tileinkað dag gegn Rushdieandúð og munu ekki gera.   


Þeir hættulegu

Í grein ristjóra Heimldarinnar, Þórðar Snæs Júlíussonar um ofurinnflutning hælisleitend fjallar hann um hryðjuverk og kemst að þeirri niðurstöðu með tilvísun í kennara nokkurn, að helsta hryðjuverkaógnin stafi frá Evrópubúum, sem vilji ekki skipta um þjóð í löndum sínum. 

Niðurstaða ritstjórans er dæmigert heilkenni vinstri sinnaðra fulltrúa opinna landamæra. Þeir stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við raunveruleikann. 

Íslamistar hafa staðið fyrir nánast öllum hryðjuverkum í Evrópu frá síðustu aldamótum. Lögreglu í Evrópu hefur tekist að koma í veg fyrir nánast öll hryðjuverk múslima síðustu 10 árin, en frá því er sjaldnast sagt í fréttum, en sýnir vel hvaðan ógnin kemur.

Í gær var t.d. sagt frá því og fór lítið fyrir, að sænsku lögreglunni hefði tekist að koma í veg fyrir hryðjuverk Íslamista. 

Hvað skyldi mönnum eins og Þórði Snæ ganga til að reyna að afvegaleiða umræðuna í stað þess að benda á staðreyndir?

Viðbrögð bresku lögreglunnar eftir að Íslamistar myrtu alla ristjórn franska tímaritsins Charlie Hebdo voru að hafa sérstakt eftirlit með áskrifendur Charlie Hebdoe í Bretlandi til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Þessi viðbrögð þóttu að sjálfsögðu  svo galin, að lögreglan gerði sig að algjöru athlægi.

Er ekki rétt að það sama gildi um ritstjóra Heimildarinnar.   

 


Látum ekki 100 ára gamla sögu vitfirringar endurtaka sig.

Sömu daga og þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fóru til Kænugarðs til að taka í höndina á Zelinski Úkraínuforseta, rak hann liðsforingjann Kupol,einn dugmesta liðsforingja sinn á vígstöðvunum við Bakhmut. Brottrekstarsökin:Kupol sagði sannleikann um mannfall Úkraínuhers.

Kupol sagði að úr 500 manna herdeild hans,væru nánast allir fallnir eða særðir. Hann greindi frá miklu mannfalli og stór hluti hermanna,sem nú kæmu á vígstöðvarnar væru illa þjálfaðir og mannfallið í Úkraínuher væri að aukast.

Áætlað er af Bandarískum yfirvöldum, að mannfallið í Úkraínustríðinu sé nú orðið meir en 300 þúsund manns, þar sem Rússar hafi misst um 200 þúsund en Úkraínumenn um 120.000. 

Á fjórða hundruð þúsunda ungra manna hafa verið drepnir í þessari hræðilegu styrjöld, sem allir skynsamir menn sjá, að getur ekki endað annarsstaðar en við samningaborðið. 

Katrín og Þórdís mættu ekki til Kænugarðs til að tala um frið. Þær mættu,sem hluti þeirrar halarófu úrræðalausra Evrópskra stjórnmálamanna, sem mætir til Zelinskys til að votta honum virðingu sína, dást að honum og hvetja hann til að láta hvergi deigan síga til að manndrápin magnist sem mest.

Kvikmynd eftir sögunni "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum" vann Óskarsverðlaunin núna,sem besta erlenda kvikmyndin. Myndin segir sögu ungra óharðnaðra þýskra ungmenna, sem eru blekktir til að fara í stríð. Hún segir sögu tilgangslausra mannfórna og þann hrylling sem ungmennin þurftu að upplifa. Hershöfðingjar og úrræðalausir stjórnmálamenn öttu ungmennunum fram vitandi að þeir yrðu stráfelldir. Gjörsamlega án vitræns tilgangs eins og nú í Úkraínustríðinu. Þetta var á árunum 1914-1918. Nú öld síðar eru sömu tilgangslausu mannvígin og hryllingurinn.

Hermennirnir í skotgröfunum á víglínunni í kringum Bakhmut og víðar upplifa sama helvítið og hermennirnir á vesturvígstöðvunum í fyrri heimstyrjöld.

Í stað þess að fara í halarófur buktandi sig og beygjandi fyrir Zelinski ættu vestrænir stjórnmálamenn að móta afstöðu friðar milli Rússlands og Úkraínu og sjá til þess að þessum hryllingi ljúki þegar í stað. 

Stjórnendur koma og fara líka í Rússlandi. En það verður meiriháttar ógæfa til frambúðar fyrir Evrópu, ef Rússar verða  hraktir algjörlega í fang  Kínverja til að verða upp á þá komnir í fyrirsjáanlegri framtíð í stað þess að samskipti þjóða verði með þeim hætti, að Rússsar verið fullgildir í samstarfi Evrópuþjóða.

Haukarnir Katrín og Þórdís hefðu átt að taka sér stjórnmálamenn Íslands árið 1945 til fyrirmyndar þegar þeir neituðu að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur á þeim forsendum, að við værum herlaus þjóð, sem vildum hafa sem best samskipti við allar þjóðir. Hefðu þær Katrín og Þórdís farið sem friðardúfur til Kænugarðs væri hægt að taka ofan fyrir þeim. Þá hefði för þeirra haft vitrænan tilgang.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 241
  • Sl. sólarhring: 245
  • Sl. viku: 2562
  • Frá upphafi: 2506324

Annað

  • Innlit í dag: 224
  • Innlit sl. viku: 2391
  • Gestir í dag: 213
  • IP-tölur í dag: 210

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband