Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál

Vegin og léttvæg fundin

Biskupinn yfir Íslandi situr umboðslaus, deilir og drottnar og skammtar meintum undirsátum sínum tíma og tíðir heimildar- og umboðslaust.

Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar kvað í gær upp þann úrskurð að biskupinn yfir Íslandi væri vanhæf til að gegna embætti frá því að skipunartími hennar rann út 1. júlí 2022.

Í sjálfu sér þurfti enga úrskurðarnefnd til að komast að þeirri niðurstöðu að þegar skipunartími embættismanna er liðinn, þá eru þeir umboðslausir eins og forsetar Íslands og Bandaríkjanna hafa engar heimildir að loknu kjörtímabili til að ragast í stjórnunarmálefnum. En þeim Donald Trump og Agnesi M. Sigurðardóttur sést yfir þessar einföldu staðreyndir.

Skipunartími Agnesar fyrrverandi biskups rann út 1. júlí 2022. Biskup hlutaðist ekki til um að eftirmaður hennar yrði kjörinn eða leita eftir endurkjöri. Hún sat sem fastast ólöglega. 

Forherðing Biskups var raunar svo algjör að hún fékk eitt fáránlegasta lögfræðiálit sem samið hefur verið á Íslandi, þar sem lögmaður hennar komst á þeirri niðurstöðu, að embættismaður ef hann væri kirkjunnar maður gæti haldið starfi sínu áfram þó kjörtímabil eða skipunartími væri liðin. Álitið var byggt á svipuðum forsendum og 2 plús 2 séu fimm og Vatnajökulsþjóðgarðurinn sé aldingarður.

Þegar einfaldar staðreyndir eru reknir framan í umboðslausa biskupinn, þá ætlar hún að áfrýja málinu að því er segir "með hagsmuni þjóðkirkjunnar að leiðarljósi" Forherðing biskups er algjör. Hagsmunir þjóðkirkjunar er að hún hætti strax að þykjast vera biskup. 

Ef til vill væri eðlilegt að biskupinn yfir Íslandi og lögmaður hennar skoðuðu 116 gr. almennra hegningarlaga nú þegar biskupinn hefur verið veginn og léttvæg fundin, en þar segir: 

"Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum."

Agnes biskup. Þú hefur verið vegin og léttvæg fundinn. Gerðu þjóðkirkjunni það gagn að axla ábyrgð og tryggja að lögmætur biskup geti tekið til starfa sem fyrst. 

Þarf e.t.v. ósýnileg hönd að skrifa á vegginn "mene tekel parsin" eins og mig minnir að standi í Daníelsbók til að biskup skynji sinn vitjunartíma.


Hvika nú þeir sem síst skyldu?

Haustið 2005 birtust teikningar af Múhammeð spámanni í danska blaðinu Jótlandspóstinum. Nokkur Íslömsk ríki brugðust ókvæða við og stóðu fyrir refsiaðgerðum gegn Dönum. Þess var krafist að bannað yrði að teikna eða birta myndir af spámanninum og teiknaranum og ritstjórn blaðsins refsað. 

Ander Fogh Rasmussen sem var forsætisráðherra neitaði að mæta á fund með fulltrúum 11 Íslamskra ríkja til að ræða málið og biðjast afsökunar á teikningunum. Anders Fogh sagði að þetta kæmi stjórnvöldum ekki við, það væri tjáningarfrelsi í Danmörku. Það eiga Íslamistar erfitt með að skilja. Mótmælin fjöruðu út og Danmörk átti hrós skilið og fékk það fyrir að standa með grunngildum sínum gegn Íslamska ofbeldinu. 

Að undanförnu hafa nokkrir flóttamenn frá Íslömskum ríkjum staðið fyrir því að rífa Kóraninn og/eða brenna fyrir framan sendiráð nokkurra íslamskra ríkja í Danmörku og Svíþjóð. Samtök 57 íslamskra ríkja krefjast þess, að þetta verði bannað og hóta hefndaraðgerðum gegn Svíþjóð og Danmörku. 

Því miður er nú enginn Andres Fogh til að standa með tjáningarfrelsinu og þeir Lars Lökke Rasmussen í Danmörku og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía bregðast við með undirlægjuhætti til að þóknast Íslamistunum.

Við megum hvergi hvika gagnvart íslamska ofbeldinu og þurfum að sýna það einarðlega að við stöndum með okkar gildum og mannréttindum. Jafnvel þó við séum ekki sammála því sem flóttamennirnir frá íslamska ofbeldinu eru að gera, þá megum við ekki bregðast okkar grunngildum. Aldrei að víkja.

Við eigum aldrei að hvika vegna ofbeldishótanna þursaríkja. Það er meira en nóg komið af þjónkun við þessa óværu. 

 


Mr. Humphrey Appleby er alltaf til staðar ef á reynir.

Ég gat ekki varist því að brosa út í báðar og hugsa til frægasta ráðuneytisstjóra veraldar Mr. Humphrey Appleby úr þáttunum "Já ráðherra" þegar Halldór Þorgeirsson formaður loftslagsráðs lagði fram tillögur ráðsins um viðbrögð við meintri loftslagsvá. 

Í samanburðarþættinum var Mr. Humphrey að ræða við ráðerrann um fullbúið sjúkrahús, með 1.500 starfsmenn, en engan sjúkling. Ráðuneytisstjórinn sagði að fjölga yrði starfsfólki um 500.  Ráðherrann spurði til hvers hvað er þetta fólk að gera. Mr. Humphrey talaði lengi um alls kyns verkefni, skjalavörslu, rannsóknarstörf,skipulagningu,stjórnsýsluverkefni,fjármálastjórn o.s.frv. Já sagði ráðherrann en það eru engir sjúklingar. Til hvers sjúklingar sagði Humphrey. Af því að sjúkrahús eru fyrir sjúklinga sagði ráðherra, en þar var Mr. Humphrey ekki á sama máli og færði fróðleg rök máli sínu til stuðnings. 

Í tillögum loftslagsráðs er lagt til að móta markvissa loftslagsstefnu, stórefla stjórnsýslu loftslagsmála m.a. í öllum krummaskuðum og hreppum landsins, skerpa aðgerðir stjórnvalda, beita stjórntækjum skilvirkar, nýta sérfræðiþekkingu, virkja getu stjórnvalda. bæta rannsóknir, bæta vöktun og undirbyggja ákvarðanir. Alvege eins og Mr. Humphrey hefði samið þetta.

Því miður bregst loftslagsmálaráðherrann okkar öðru vísi við en í þættinum Já ráðherra. Loftslagsmálaráðherra Íslands finnst tillögur hins íslenska Humphrey vera einmitt stórasannleikann í málinu og grípa þurfi til hamfaraðgerða alias Kóvíd gegn almenningi.

Vissulega má sjálfsagt finna matarholu fyrir 1500 opinbera starfsmenn til viðbótar til að sinna þeim stjórnsýslutengdu verkefnum sem íslenski Humphreyinn leggur til og ráðherrann er greinilega tilbúinn til að kokgleypa. Jafnvel þó að hamfarahlýnunin hér sé sú að hitastig undanfarna mánuði og ár hefur verið að lækka en ekki hækka. En það skiptir Guðlaug Þór ráðherra og hinn íslenska Humphrey formann Loftslagsráðs engu máli. Alþýðan skal blæða.  

 

 


Dagur dúkkulísunar og miðaldahugsunarinnar.

Á morgun verður hátíðisdagur í Bretlandi þegar Karl 3 verður krýndur konungur í Bretaveldi með öllu því miðalda umstangi sem fylgir slíkri viðhöfn og gjörhugulli athygli  royalista og annarra um allan heim, sem hafa gaman af að sjá glitta í ytra borð heims dúkkulísanna.

Allar eru þessar dúkkulísur í konungsfjölskyldu Bretlands orðum prýddar og þau öll óverðug þeirra titla, en það er í samræmi við kveðskap mörlandans hér uppi á Íslandi sem orti um orður og titla sem úrelt þing, sem notaðist helst sem uppfylling í eyður verðleikanna. 

Á 18.öld skrifaði baráttumaðurinn Thomas Paine ritgerðina "common sense", sem fjallar um það hversu fáránlegt það sé að hafa konungsveldi, þar sem byggt er á þeirri hugsun, að konungar séu öðruvísi fólk og betur af Guði gert og æðra en venjulegt fólk. Konungar séu fæddir til að stjórna skv. ákvörðun Guðs almáttugs. Ætla hefði mátt, að lýðræðisríki, sem byggja á jafnræði og jafnstöðu borgaranna mundu afnema þessa miðaldahefð, sem byggist á enn fornari hugmyndafræði um sérstaka hæfileika konungsborins fólks til að skipa almúganum til verka eða þýum sínum.

Thomas Paine er talinn eiga bróðurpart í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna,sem Thomas Jefferson færði í letur, en þar eru m.a. tekið orðrétt ýmislegt, sem Paine skrifaði í bók sína "The rights of man".

Lýðveldi er ríki, sem hafnar miðaldahugsuninni um að konungar séu öðrum æðri og viti allt best. "Vér einir vitum" var og hefur verið vígorð arfakónga í gegnum tíðina og þá hugsun fékk Karl þriðji í arf með móðurmjólkinni, svo sem forverar hans. 

Á sama tíma og konungssinnar og aðrir sem hafa gaman að sjá dúkkulísur upp á sitt besta, fagna krýningu hins nýja, gamla konungs, kemur samt fram í skoðanakönnunum, að um helmingur þegna konungsins vill losna við konungsdæmið og afgerandi meirihluti ungs fólks vill það burt sem allra fyrst. 

Vonandi kemur sá tími, að lýðræðissinnar varpi þeirri hugmynd fyrir róða, að sumir séu valdir til þess af Guði að stjórna öðrum af því að þeir eða þau hafi unnið sér slíkt vald með því að vera ákveðinnar ættar. Þessi konungshugsun er algerlega andstæð hugmyndafræði lýðræðisins ogfólk séu borgarar í ríkjum sínum en ekki þegnar eða þý. En áfram má síðan hafa skrúðgöngur með dúkkulísum til að gleðja fólk sem hefur gaman af slíku tilstandi, en það er þá undir þeim formerkjum að þar fari dúkkulísur en ekki fólk sem stjórni þjóðfélaginu.

Sú hugmyndafræði konungssinna er andstæð þeim fornnorrænu viðhorfum sem komu fram, þegar norrænir menn herjuðu á England á 11. öld, og sátu um borg mig minnir London. Sendimenn voru sendir á þeirra fund, sem báðu um að konungur þeirra kæmi til friðarviðræðna og því var þá svarað:

"Við höfum engan konung. Við erum allir jafnir."


Hvernig kemur kanínan páskunum við?

Þegar stórt er spurt verður á stundum fátt um svör. Svarið við spurningunni um það hvernig kanína komi páskunum við er hinsvegar einföld. Hún kemur þeim ekkert við. 

Samt er eðlilegt að spurt sé um þennan fáránleika vegna þess að kristin lönd mótmælenda virðast hafa gleymt öðru í tengslum við páska en því sem tengist páskaeggjum, sælgæti og að gera sér glaðan dag. 

Páskarnir eða "upprisuhátiðin", sem við ættum að kalla þessa hátíð, er mikilvægasta trúarhátíð kristins fólks. Upprisa Jesú er tilefni þessara hátíðahalda. Upprisan er fyrirheit um eilíft líf þeirra,sem eru þess verðugir vegna breytni sinnar og trúar. 

Vissulega er ástæða til að gera sér glaðan dag og fagna á upprisuhátíðinni þar sem Guð birti staðfestingu fyrirheits síns fyrir allt mannkyn með upprisu Jesú Krists. En við megum aldrei láta það vera aðalatriðið og gleyma tilefninu. 

Sigurinn yfir dauðanum, fagnaðarerindi Jesús Krists og staðfesting þess með upprisunni er svo stórkostleg að kristnar þjóðir verða að gera það að aðalatriði á hátíðum eins og þessum til að missa ekki rótfestu við trú sína og menningu. 


Stöðvum morð og ofsóknir gegn kristnu fólki

Helsta trúarhátíð okkar kristins fólks er að ganga í garð. Við á Vesturlöndum njótum þess, að geta áhyggjulaust undirbúið jólin og íhugað hvað við eigum að gefa fjölskyldu og vinum í jólagjöf. 

En það er ekki allt kristið fólk, sem býr við sömu forréttindi og við. Í mörgum löndum er hættulegt fyrir kristið fólk að mæta til jólamessu á aðfangadagskvöld.

Í síðasta mánuði var kristið fólk drepið víðs vegar um heiminn vegna trúar sinnar og kirkjur og kristnir helgistaðir eyðlagðir: 

Í Islamaband höfuðborg Pakistan var kirkja og heimili meira en 200 kristinna íbúa eyðilögð með jarðýtum. Aserbadjan heldur áfram að eyðileggja klaustur og kristna helgistaði í héruðum sem þeir lögðu undir sig í árásarstríði á Armeníu fyrir nokkru. Landamæri Armeníu voru ekki heilög að mati Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem landamæri Úkraínu.

Í Mosambiqe voru margir tugir kristinna drepnir af Íslamistum í aðskildum árásum. Yfir 40 kristnir voru myrtir í Nígeríu í árásum múslimskra vígamanna.

Árásir og mannréttindabrot áttu sér stað gegn kristnum í mörgum fleiri löndum m.a. Tyrklandi, Indónesíu og Súdan. 

Hvern einasta mánuð ársins er tugir og hundruð kristins fólks drepið, limlest eða svipt borgaralegum réttindum vegna trúar sinnar nánast alltaf af múslimskum vígamönnum eða stjórnvöldum. 

Bandaríkin og Evrópusambandið hafa ekki haft mikil afskipti af því harðræði sem kristið fólk býr við í nánast öllum löndum sem játa Múhammeðstrú. Landamæri kristinnar trúar eru stjórnvöldum í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum ekki mjög hugleikin.

Við gerum ekki nóg til að vekja athygli á hlutskipti okkar minnstu bræðra sem standa fremst í víglínunni til verndar trúarinnar.

Við getum líka áfellst kristnar kirkjudeildir fyrir afskiptaleysi m.a. íslensku þjóðkirkju,sem hefur þrátt fyrir áskoranir látið sem sér komi  ofsóknir gegn kristnum meðbræðrum og systrum ekki við. 

Því miður hefur verkhelgin í kristnum kirkjum og hlaup kirkjudeilda mótmælenda eftir vinsældum dregið úr skilvirkni trúarlegrar boðunar og samstöðu með kristnu fólki, sem á um sárt að binda. 

Við skulum beita okkur fyrir því að kristin ríki grípi til aðgerða til verndar kristnu fólki um allan heim á næsta ári og geri það að forgangsverkefni. Það er besta jólagjöfin, sem við getum gefið trúarsystkinum okkar. 

 

 

 


Vanþekking fóstrar af sér hatur.

Um miðja síðustu öld var byrjað að tala um jólin og jólagjafir í byrjun desember. Nú byrjar jólaumstangið og kauphátíðin í lok október. Umfjöllun um tilefni jólanna dregst að sama skapi saman eins og þegar ungi drengurinn spurði á aðfangadag. "Erum við ekki að gleyma fæðingardegi jólaveinsins?"

Markaðssetning jólanna hefur tekist svo vel, að vítt og breytt um heiminn ekki bara í kristna heiminum er haldið upp á jól með einum eða öðrum hætti. 

Helgisagan fagnaðarboðskapur jólanna um frið og styrkleika sem rís upp úr vanmætti er einstakur. 

Þrátt fyrir friðar- og kærleiksboðun kristninnar, halda ýmsir fram, að trúarbrögð séu orsakavaldur illsku og haturs. Þetta er rangt. Trúarbrögðin hafa hins vegar oft verið tekin herfangi til að þjóna ákveðnum veraldlegum hagsmunum. 

Það er ekki hægt að skilja trúarbrögð nema kynna sér þau og þekkja. Nýja testamenntið segir stórkostlegustu sögu fjölbreytileika og mannúðar. Góð inngangsfræði við að kynna sér trúarbrögð almennt t.d. Gyðingdóm og Íslam.

Aðalvandi við trúarbrögð í nútímanum er vanþekking, sem m.a. birtist svo skrýtið sem það kann að vera í öfgafullum Íslamisma. Vanþekking fóstrar heimsku og hatur.

Vandi trúarbragðafræðslu í dag er að hún er of lítil. Börn verða miklu betri hvort við annað ef þau þekkja meginboðorð kristinnar trúar um náungakærleik og boðorðin 10 og hvað þau þýða. Sú ráðstöfun skólayfirvalda að úthýsa kristinfræðslu í aðdraganda jólanna er því spor í ranga átt í kristnu samfélagi.

 


Þjóðnýting vinstrimennskunar.

Vinstra fólki mistókst að þjóðnýta efnahagskerfið eins og hugmyndir sósíalismans ganga út á. Þess vegna breyttist barátta vinstra fólks í þá átt að reyna að þjóðnýta fólkið. 

Orðið kyn og notkun þess og skilgreiningar í dag er eitt dæmi um sigur vinstri mennskunnar. Það orð var lengst af notað um karl og konu og mismun á þeim. Vinstra fólkið hóf fyrir allmörgum árum að halda því fram, að þetta væri eitthvað sem þú værir ekki fæddur með, heldur væri þessu troðið upp á þig af karlaveldinu, til að knýja á um kynbundna mismunun. 

Frá þessari hugmyndafræði var stutt í að halda því fram, að kyn væri eitthvað sem væri óeiginlegt og skilgreiningin væri vandabundin. Í framhaldi af því fóru ýmsir háskólaspekingar vinstri öfgahyggjunnar ekki síst í háskólum Vesturlanda að halda því fram, að það væri ekki nógu gott að nota orðin hann og hún þar sem þessi orð væru kyngreind og þessvegna slæm betra væri að nota t.d. furðuorðskrípið "hán" eða á ensku "ze" eða "hir" Baráttan snerist síðan upp í það að allir opinberir staðir yrðu að hafa fjölkynja klósett.

Fólk hló sig margt máttlaust yfir þessu bulli eða hryllti við þessum öfgum, en það var ekki lengi. Vinstri elítan réði því hverjir fengju að tjá sig um þessi mál í háskólasamfélaginu og gera enn og orð þeirra tóku yfir eins og Gyðinganna forðum sem kröfðust þess að Jesús yrði krossfestur. 

Breski Verkamannaflokkurinn telur sér ekki lengur unnt að skilgreina orðið "kona" og það varð uppi fótur og fit þegar metsöluhöfundurinn J.K. Rowling sagði að það væru bara konur sem færu á túr. Yfir þessum orðum ærðist vinstri háskólaelítan. Enda berst hún eilíflega gegn því að fólk bendi á einfaldar staðreyndir lífsins, af því að það passar henni ekki. Reynt var að útiloka Rowling og aðra sem leyfðu sér að bera sannleikanum vitni. En það tókst ekki og vitundarvakning og andstaða við bullfræði vinstrimennskunar er nú í fullum gangi í Bretlandi.

Hér á landi samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn að tengjast vinstri bullfræðinni að þessu leyti og styðja hugmyndafræði Katrínar Jakobsdóttur um kynrænt sjálfræði (eins og raunar flest annað) og þegar makalaust furðufrumvarp um "kynrænt sjálfræði" var lagt fram á Alþingi þá fór það svo að allir stjórnmálaflokkar greiddu því atkvæði svo gjörsamlega vitifirrtir af hugmyndafræðilegum doða samþykktu þingmenn allra flokka öfgar og ranghugmyndir vinstri elítunnar. Alþingi Íslands samþykkti með þessu rangtúlkun á staðreyndum lífins og andstöðu við einstaklinginn konu og karl og fjölskylduna sem grunneiningu í þjóðfélaginu. 

Hvar var brjóstvörn borgaralegra og hægri sjónarmiða á þeim tíma? Hún var ekki til á Alþingi. Engin skilningur eða yfirsýn var um að það þyrfti að grípa til varna gegn öfgavinstrinu. Ekki bara í þessu máli heldur svo fjölmörgum öðrum.

Stundum er betra að fórna stjórnarsamstarfi en leggja endalaut steina til að byggja hugmyndafræðilega dýflissu sína. 


Spámaður í föðurlandi

Helsti sérfræðingur alheimsins og mannkynsfrelsari, Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum forseti íslenska lýðveldisins, sagði í kvöldfréttum 28.ágúst, að Grænlandsjökull væri að bráðna og sjávaryfirborð mundi þá hækka allt að tvo metra. Í sama fréttatíma kom annar sérfræðingur sem talaði um bráðnun Suðurskautsins, en allt var þar í meiri óvissu en hjá Ólafi.

Sérfræðingar á borð við mannkynsfrelsarann Ólaf Ragnar hafa oft komist að sömu niðurstöðu, ranglega, með hnattræna hlýnun og bráðnum Grænlandsjökuls og Suðurskautsins. 

Fyrir 99 árum þ. 7. apríl 1923, sagði blaðið Daily Mercury, "Norðurpóllinn er að bráðna. Margir jöklar eru horfnir".

Í sama streng tók blaðið Harrisburg Courier 17.des.1939 en þar sagði "Vísindamenn segja að Grænlandsjökull sé að bráðna."

Árið eftir þ. 13.okt 1940 sagði síðan blaðið Hartford Courant Magazine "Ísinn á Suðurhvelinu bráðnar hratt."

Okkar ástsæli fyrrum forseti ætti e.t.v. að snúa sér að öðru en  að taka undir aldargamla spádómum um hamfarahlýnun og hamfarabráðnun. Honum fer ýmislegt betur úr hendi en að gerast sölumaður "snákaolíu".

 


El Nino og La Nina

Stórflóð í Pakistan. Þurkar í Vestur Afríku og víðar. Þrumur og eldingar, hvirfilbylir, hiti hér, kuldi þar. Stjórnvöld segja þetta vera vegna loftslagasbreytinga. 

Vond veður koma og góð líka. Ógnarveður eru ekkert algengari nú en þau voru í byrjun aldarinnar eða á síðustu öld.

Umdæmisstjórar loftslagstrúboðsins setja stöðugt upp nýja mæla í stórborgum, jafnvel fyrir enda flugbrauta og mæla þar methita þó hiti og hitabylgjur séu svipaðar og á árum áður. 

Áður en trúarbrögð hamfarahlýnunar af mannavöldum tók völdin af skynseminni,veltu lofts- og veðurfræðingar fyrir sér ýmsum áhrifavöldum. Talað var um el Nino og la Nina t.d. 

El Nino og la Nina er nú óttalegt frat og gamaldags og það fást engir styrkir til annars en að rannsaka eitthvað sem styður loftslagstrúboðið. Samt eru el Nino og la Nina öflug veðurfyrirbrigði og hafa áhrif á veður um allan heim. El Nino, sem er mjög öflugur kemur í haust. Sjálfsagt verður ekkert fjallað um áhrifa þess. Það fellur ekki að trúboðinu. 

Sólin,el Nino, la Nina eru mikilvæg varðandi veðurfar m.a. úrkomu, hita og kulda. Í samanburðinum við sólina, el Nino eða la Nina eru mennirnir lítil sandkorn á auðn hins óþekkta.

En samt skal skal skattleggja  lýðinn og setja fleiri boðu og bönn, til að feta leið frelsisskeðinga einstaklinga og verri lífskjara, í þágu loftslagtrúarinnar.

Er ekki mál að lini nú þegar Okið er upprisið þrátt fyrir jarðaförina og enn hangir snjórinn fyrir augum allra Reykvíkinga sem aldrei fyrr bæði í Gunnlaugsskarði og Kerhólakambi. Ekki beinlínis merki um hamfarahlýnun. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 317
  • Sl. sólarhring: 759
  • Sl. viku: 2703
  • Frá upphafi: 2294254

Annað

  • Innlit í dag: 294
  • Innlit sl. viku: 2461
  • Gestir í dag: 287
  • IP-tölur í dag: 279

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband