Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Minnisblaðið, Trump og Washington Post

Margir eru á nálum í Washington DC og víðar vegna þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni e.t.v. heimila birtingu minnisblaða um rannsókn FBI meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra og samband lykilmanna Trump og þeirra sem og annarra. 

Nú bregður svo við að Demókratar á Bandaríkjaþingi vilja ekki með neinu móti að minnisblöðin verði birt. Í blöðum í Bretlandi er talið að birting þeirra geti skaðað leyniþjónustu Breta. Skrýtið það?

Ekki nóg með það. 

Eitt er það dablað vestur í Bandaríkjunum, sem aldrei hefur skeytt um þjóðarhag þegar hægt hefur verið að koma höggi á repúblíkana en það er Washington Post. Blaðið birti m.a. viðkvæm leyniskjöl vegna Víetnam stríðsins í forsetatíð Nixon og skipti þá engu máli þó það skaðaði bandaríska hagsmuni verulega. 

Ekki brá blaðið vana sínum heldur í svonnefndu Watergate máli þar sem blaðið fór hamförum og skipti þá heldur engu máli þó um viðkvæm þjóðaröryggismál væri að ræða. 

Nú bregður svo við að framámenn Washington Post hafa lýst ótta við að birting minnisblaðana geti haft skaðleg áhrif fyrir leyniþjónustu Bandaríkjanna og e.t.v. Breta.

Svo virðist sem Washingtin Post telji nú nauðsynlegt að þegja og fela leyndarmál af því að birting skjalanna gæti komið öðrum til góða en þeim eru þóknanlegir. Athyglisvert þegar vegið er og metið hversu hlutlæg fréttamennska þessa blaðs er.


Ber einhver ábyrgð í núinu?

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með varnarræðum Barnaverndarnefndar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna ótrúlegra mistaka beggja þessara stofnana vegna máls kynferðarafbrotamanns gagnvart börnum. 

Barnaverndarstofa lét manninn starfa áfram þrátt fyrir fyrri brot hans, sem sýndu að honum var ekki hægt að treysta. 

Lögreglan tilkynnti ekki um kæru gegn manninum vegna brots svo mánuðum skipti þótt hann væri í vinnu á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. 

Engum vafa er undirorpið að þarna urðu báðum aðilum á alvarleg mistök, sem eðliegt er að verði skýrð og gaumgæft hvort einhverjir beri þá ábyrgð á þessum mistökum að þeim sé ekki lengur sætt í störfum sínum. Þetta ætti að vera augljóst öllum. 

Nú bregður hins vegar svo við í umræðunni að þegar fjallað er um mistök Barnaverndarnefndar og lögreglu sem gerðust í þátíð og í núinu, þá setja talsmenn þessara stofnana á alinlangar ræður um hvað þeir ætli að gera í framtíðinni til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Allt er það gott og blessað, en hefur ekkert með þá spurningu að gera:  "Hver eða hverjir bera ábyrgð" á þessum mistökum.

Það er satt að segja óttalega kauðslegt að tuða endalaust um framtíðina þegar viðfangsefnið er í nútíð og þátíð, en bendir til þess að það sé verið að fela eitthvað. 

Nokkrir hlutir hafa komið á óvart við umfjöllun fréttamiðla um þetta mál. Í fyrsta lagi er engin nafnbirting, sem er ólíkt því sem áður hefur þekkst í sambærilegum málum. Í öðru lagi þá er eins og einhverri verndarhendi hafi verið haldið yfir þessum manni af einhverjum, en sé svo er brýnt að upplýsa það. 

Ágæti lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og talsmaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þurfið þið ekki að hreinsa til og segið fólkinu í landinu hvað gerðist. Af hverju þessi alvarlegu mistök áttu sér stað og hver ber ábyrgð á þeim og hvort viðkomandi þurfi að svara til saka vegna þess.

Fólk á rétt á að fá að vita það.


Öryggi borgara í hættu vegna innflytjenda.

Eitt af því sem stjórn Angelu Merkel hefur reynt að gera frá því að hún tók þá ákvörðun að opna landamæri Evrópuríkja fyrir hælisleitendum - er að kæfa niður umræðu um afleiðingar þeirrar glórulausu ákvörðunar.

Samt sem áður hafa komið fréttir, sem sýna fram á að afleiðingar af óheillastefnu Merkel hafa leitt til þess að borgararnir eru í meiri hættu en áður. Svo alvarlegt er ástandið sem má ekki tala um, að gera þurfti sérstakar girðingar fyrir konur í Berlín til að þær gætu leitað þar skjóls vegna hættu á að þeim yrði nauðgað við hátíðarhöld á gamlárskvöld. 

Nú hefur verið birt fyrsta hlutlausa könnunin um aukningu glæpatíðni frá því að stefna Merkel í málefnum "hælisleitenda" náði fram að ganga. 

Niðurstaðan er sú að veruleg aukning varð á ofbeldisglæpum á árunum 2014-2016 í ríkinu Neðara Saxlandi þar sem könnunin var framkvæmd og hún talin marktæk fyrir Þýskaland í heild. Í frétt dagblaðsins Daily Telegraph af könnuninni segir að aukningin sé afleiðing af stefnu Angelu Merkel um að opna landamærin fyrir svonefndum flóttamönnum og hælisleitendur báru ábyrgð á 92% af aukningu ofbeldisglæpa eða nánast allri aukningunni. 

Athyglisverð er mjög há tíðni ofbeldisglæpa hælisleitenda frá Norðanverðri Afríku (Túnis, Marokkó, Alsír). Það er líka athyglisvert að ofbeldisglæpirnir beinast að stórum hluta að öðrum hælisleitendum. Samt sem áður veldur stefna Merkel því að almenningur í Þýskalandi er í auknum mæli þolendur ofbeldis.

Þetta eru staðreyndir sem allar ríkisstjórnir ættu að gaumgæfa. Ríkisstjórn Íslands hefur í raun tekið upp stefnu Angelu Merkel um nánast opin landamæri. Slík stefna hefur hvarvetna bitnað á borgurum þeirra landa sem henni fylgja. 

Ástæða er til að skora á ríkisstjórnina að taka þessi mál til málefnalegrar umræðu með hag þeirra sem búa í landinu fyrst og fremst að leiðarljósi og gaumgæfa hvort ekki sé betra að taka upp sömu stefnu í málefnum útlendinga og ríkisstjórn Sebastian Kurz í Austurríki hefur tekið upp. 

Komi til þess að ríkisstjórnin láti þessi mál reka á reiðanum eins og verið hefur þá lendum við fljótlega í verri vandamálum vegna hælisleitenda en Svíar, Norðmenn, Danir og Þjóðverjar vegna fámennis íslensku þjóðarinnar.

Fróðlegt að vita hvort ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vilja fljóta áfram sofandi að feigðarósi í faðmi Vinstri grænna í þessum málum.


Bjarni Benediktsson er vaxandi stjórnmálamaður

Í leiðtogaumræðunum í sjónvarpssal í kvöld bar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins höfuð og herðar yfir aðra flokksleiðtoga bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Bjarni var málefnalegur og sýndi fram á að hann hefur yfirburða þekkingu á íslensku samfélagi. Vona að frammistaða formannsins skili flokknum auknu fylgi í kosningunum á morgun. 

Bjarni gerði góða grein í stuttum setningum fyrir þeim reginmun sem er á lífsskoðun okkar sem viljum að hver og einn fái að njóta verka sinna og sósíalistanna sem vilja láta aðra njóta þess sem þú gerir. Á sama tíma og við viljum hafa öryggisnet velferðar í landinu og svigrúm fyrir einstaklinganna til að vera sinnar gæfu smiðir, þá telja sósíalistarnir nauðsynlegt að skattleggja þá sem mest, sem vinna sjálfum sér og þjóðfélaginu best.

Þeir Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi komu líka fram sem öruggur stjórnmálaleiðtogar. Vel að merkja miðað við málflutning þeirra þá voru þeir ekki að lýsa skoðunum miðflokka heldur hægri flokka. 

Katrín Jakobsdóttir komst líka vel frá þessum umræðum málefnaleg og rökföst. 

Þar sem ég lofaði konunni minni að vera ekki neikvæður fram yfir kosningar þá ræði ég ekki frammistöðu annarra flokksleiðtoga. 

Hvernig svo sem kosningarnar fara þá verður ekki annað sagt en að formaðurinn hafi lagt sitt að mörkum með frábærri frammistöðu sinni í kvöld til að við vinnum góðan sigur í kosningunum á morgun. 


Veisluborð á þinn kostnað.

Stjórnmálaumræður forustufólks stjórnmálaflokkana í Ríkissjónvarpinu í gær voru að verulegu leyti skelfilegar.

Sá veikleiki lýðræðisins, sem helst gæti orðið því að fjörtjóni, innistæðulaus yfirboð, léku þar stórt hlutverk. Þar var Katrín Jakobsdóttir í aðalhlutverki. Formaður Samfylkingarinnar og Flokks fólksins létu sinn hlut heldur betur ekki heldur eftir liggja varðandi höfnun á kostum markaðskerfisins og boðun innistæðulausrar velferðar á kostnað skattgreiðenda.

Aðspurð um það með hvaða hætti Katrín Jakobsdóttir og flokkur hennar ætlaði að afla þeirra skatttekna sem VG boðar, þá varð fátt um svör en þeim mun meira orðagjálfur um ekki neitt eins og þess formanns er gjarnt að grípa til enda hefur hún tileinkað sér umræðustjórnmál út í bláinn mun betur en nokkur nokkru sinni gerði meðan það var inntak stefnu Samfylkingarinnar.

Annar hlutur sem var eftirtektarverður er, að allir flokkar að Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum undanskildum og e.t.v. Miðflokknum telja fráleitt að nýta kosti frjálsrar samkeppni. Í markaðsþjóðfélaginu þar sem það er viðurkennt meira að segja í lögum eins og t.d. Samkeppnislögum, að samkeppni á markaði stuðli að bættum lífskjörum. Þá mótmæla stjórnmálaleiðtogar vinstri flokkanna þ.á.m. Flokks fólksins því að tækt sé að nýta frjálsa samkeppni til að stuðla að aukinni velferð borgaranna og betri þjónustu fyrir minni pening. 

Öðru vísi mér áður brá t.d. með Samfylkinguna undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar, en hann hafði jafn næman skilning á því og Sósíaldemókratar þess tíma að forsenda framfara og velferðar væri sú að kostir markaðskerfisins væru nýttir. 

Staðreyndirnar sem umræður um íslensk stjórnmál ætti að snúast um eru þær að skattar á almenning eru allt of háir og brýnt er að lækka skatta á almenning í landinu. Í öðru lagi þá er rekstrarafgangur ríkisins óverulegur þrátt fyrir skattpíningu og gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Í þriðja lagi þá hafa stjórnvöld vanrækt viðhald og uppbyggingu á innviðum samfélagsins vegna gríðarlegra velferðarútgjalda m.a. til velferðartúrista sem kallaðir eru hælisleitendur.

Eftir umræðurnar í gær sýnist mér brýnast að sett verði nýtt stjórnarskrárákvæði til varnar eigum og tekjum fólksins í landinu með því að takmarka það sem ríkisvaldið getur tekið af fólkinu í formi skatta.  Verði það ekki gert og forynjum sósíalismans sem birtust aftur og aftur í umræðunum í gær verður sleppt lausum, þá er hætt við að dugandi fólk greiði í auknum mæli atkvæði með fótunum eins og var í óskalandi sósíalismans Austur Þýskalandi allt fram að lokum síðustu aldar. 


Upphefðin sem átti að koma að utan

Lengi hefur það þótt til framdráttar á Íslandi að um menn, málefni væri fjallað í erlendum fjölmiðlum. Með sama hætti töldu slúðurberar villta vinstrisins, að best væri að koma höggi á forsætisráðherra með því að fá erlent blað til að birta ávirðingar um hann. 

Dagblaðið The Guardian er mjög vinstri sinnað blað og því fer fjarri að það sé vandaðra í fréttaflutningi sínum en blöð gulu pressunar þar í landi t.d. Daily Mail og The Sun.

Sú gjörð villta vinstrisins að fá The Guardian til að birta óhróður um forsætisráðherra og brigsla honum um óheiðarleika í aðdraganda að Hruninu er athyglisverð tilraun til að reyna að fá kjósendur til að ímynda sér að ekki frétt og slúður, sé marktæk frétt af því að erlent kommablað birtir slúðrið. 

Í nóvember 2007 sat ég á Alþingi og sá ekki annað en þær blikur væru á lofti að stefndi í kreppu í síðasta lagi haustið 2008. Ljóst var að gengi krónunnar var allt of hátt miðað við gengi dollars, Evru og Punds og innlendi hlutabréfamarkaðurinn hafði hækkað mun meira en sambærilegir markaðir erlendis. Þá var ljóst að óhjákvæmilega kæmi til verulegs samdráttar í byggingariðnaðinum þegar liði á árið 2008.  Hins vegar óraði mig ekki fyrir að helstu viðskiptabankarnir stæðu jafn illa og raun bar vitni. 

Í framhaldi af þessu flutti ég ítrekað varnaðarorð og gagnrýndi samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir ógætilega efnahagsstjórn. Nú veit ég ekki hve vel samþingmaður minn, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, fylgdist með þessum málflutningi mínum, en hafi hann gert það þá hefði honum átt og mátt vera ljóst að það væri veruleg áhætta að geyma peningana sína í innlendum hlutabréfum og bankasjóðum sem fjárfestu í innlendum hlutabréfum að mestu. 

Þeir váboðar sem voru fyrir hendi í nóvember 2007 urðu síðan alvarlegri þegar leið á árið 2008. Það sem kemur mér því á óvart varðandi frétt The Guardian og útbreiðslulausa miðilsins sem birtu slúðrið um forsætisráðherra, að forsætisráðherra skuli ekki löngu áður en raun bar vitni gert skynsamlegar ráðstafanir í eigin fjármálum og selt allt sem hann átti í Sjóð 9 svo dæmi sé tekið. 

Annað sem vekur einnig athygli er að virtir fjölmiðlar í Bretlandi eða annarsstaðar, hvers fréttir ég hef kynnt mér í dag birta ekki slúðrið í The Guardian. Sú staðreynd er sýnir vel að þetta níðhögg villta vinstrisins þykir ómarktæk ekki frétt á erlendum vettvangi.


Af lögbrotum þingmanns Bjartrar framtíðar.

Lögfræðimenntaður þingflokksformaður Bjartrar framtíðar sagði eftir fund þingnefndar með dómsmálaráðherra í gær, aðspurð af fréttamanni RÚV að í því máli sem um var fjallað hefði ráðherra framið fjöldamörg lögbrot.

Aldrei þessu vant spurði fréttamaður RÚV sjálfsögðu spurningarinnar. Hvaða lögbrot eru það? Lögfræðimenntaða þingflokksformanni Bjartrar framtíðar vafðist þá tunga um tönn og setti á almennt fjas út í bláinn. 

Lögfræðimenntaði þingflokksformaðurnn veit það vel að sá sem sakar einstakling hvort heldur það er ráðherra eða annan um lögbrot verður að finna þeirri ásökun stað og vísa til þeirra lagaákvæða sem viðkomandi telur að hafi verið brotin. Sé það ekki gert er öll sú ræða og ásakanir ónýt og rugl eitt. 

Það er ábyrgðarhluti að saka fólk um lögbrot. Þingmenn hafa ekki sérstaka undanþágu frá því að fara með rétt mál. Jafnvel skásti þingmaður Bjartrar framtíðar Theódóra S. Þorsteinsdóttir sem viðhafði ofangreint rugl er þar heldur ekki undanþegin. 

Það er síðan umhugsunarefni í aðdraganda kosninga hvort það lið sem eyðir ómældum tíma í rannsóknarstörf á hinu liðna með ærnum upphrópunum, en sinnir ekki vandamálum nútíðar með tilliti til framtíðar á nokkurt erindi í pólitík.

Hefði ekki verið nær að eyða nokkrum tíma í húsnæðis- og fjárfestingavanda unga fólksins. Ruglaðar reglur og kjör sem öldruðum eru búin svo fátt eitt af því brýnasta sé tekið.

Þar skortir hugmyndir umræður og framtíðarsýn. 

 


Lögreglan ekki óvopnuð í Víðines- No go Zone?

Á fundi í gær lýsti forsætisráðherra hversu vanhugsað það hafi verið og mikil atlaga að íslensku samfélagi og öryggi borgaranna að samþykkja Útlendingalögin og opna allar flóðgáttir fyrir svonefndum hælisleitendum. 

Forsætisráðherra upplýsti, að lögreglan færi ekki óvopnuð í Víðines, þar sem yfirvöld leigja aðstöðu fyrir hælisleitendur. Fyrst svo er komið að lögreglan telur ekki öruggt að fara í Víðines nema vopnuð er þá ekki komið sama ástand og í Rosengård hverfinu í Malmö í Svíþjóð. 

Fyrst lögreglan metur aðstæður með þessum hætti í Víðinesi hvað þá með íbúa sem búa næst þessum stað. Hvaða þýðingu hefur það fyrir öryggi íbúanna og gæti þetta haft þau áhrif að fasteignaverð í Mosfellsbæ og Kjalarnesi snarlækki í verði?

Þá nefndi forsætisráðherra sem valkost, að teknar yrðu upp vegabréfsáritanir til Íslands. Þá hljóta spurningar að vakna. Hvað með ferðamannalandið Ísland. Af hverju vegabréfsáritun. Af hverju nefnir forsætisráðherra þetta sem valkost? Hvaða vandamál er verið að leysa með því?

Ári eftir samþykkt útlendingalaganna erum við komin með No go Zone þar sem lögreglan treystir sér ekki nema vopnuð. Við erum með þvílík vandamál og kostnað vegna ólöglegra hælisleitenda að varðar sennilega um eða yfir 10 milljarða í ár auk þess vanda sem forsætisráðherra lýsti og varðar aukna ógn í samfélaginu.

Miðað við ummæli forsætisráðherra ætlar ríkisstjórnin samt að stinga höfðinu í sandinn. Ríkisstjórnin ætlar ekki að stórefla lögreglu og löggæslu í landinu til að mæta þeirri vá sem forsætisráðherra lýsir. Það á ekki að breyta útlendingalögnum, en halda áfram að bæta í með töku fleiri kvótaflóttamanna.

Engin fréttamiðill hefur birt frétt um þessi ummæli forsætisráðherra nema Morgunblaðið í almennri frásögn af fundinum. Skrýtið? 

Það er allt í stakasta lagi sagði strúturinn um leið og hann stakk höfðinu í sandinn til að sjá ekki ljónið sem kom hlaupandi á móti honum. 

 


Hin mikla reiði

Fréttamaður sjónvarpsins ræddi við formann Samfylkingarinnar í kvöldfréttum RÚV í gær og byrjaði á að tala um hina miklu reiði sem væri í samfélaginu vegna afgreiðslu Útlendingastofnunar og úrskurðarnefndar á málefnum hælisleitenda, sem á að vísa úr landi í samræmi við lög.

Sjónvarpsfréttamaðurinn spurði hvort væntanlegt frumvarp formanns Samfylkingarinnar um að Alþingi setji lög til að ógilda ákvarðanir stjórnsýslunnar væri andsvar við reiðinni miklu og var því jánkað.

Hvaða reiði er fréttamaðurinn að tala um? Er einhver reiði? Hefur það verið kannað? Var útifundurinn sem boðað var til í gær vegna málsins mælikvarði á hina miklu reiði? Sé svo þá má álykta sem svo að það sé engin reiði og flestir telji þetta eðlilega málsmeðferð. En fréttastofa RÚV les annað út úr hlutum með sínum gleraugum.

Athyglisvert er að engin fréttamiðill hefur talað um þau "víðtæku" mótmæli í þjóðfélaginu sem hljóta að hafa átt sér stað vegna hnnar "miklu reiði". Það mótmælir raunar engin nema hefðbundinn kjarna vinstri elítunnar með Ofbeldisskáldið Hallgrím Helgason í broddi fylkingar. 

Það mældist engin reiði nema hjá Fréttastofu RÚV og vinstri no border elítunni.

Enn einu sinni er fréttastofa RÚV með vonda og ávirka áróðursfréttamennsku. Ágæta útvarpsráð. Er ekki kominn tími til að gera þá kröfu til starfsmanna RÚV að þeir fari að minnsta kosti eftir þeim lögum sem gilda um stofnunina sem þeir vinna hjá svo sem með tilliti til hlutlægni og sanngirni o.s.frv.

Já og biðjist afsökunar þegar þeir fara með rugl og dellu og skaða fólk og fyrirtæki.


Yfirlæti - Hroki - Metnaður og RÚV

Fyrir nokkru birti fréttastofa RÚV í sjónvarpsfréttum æsifrétt um stjórnendur veitingastðarins Sjanghæ á Akureyri. Eigandi staðarins var nánast tekin mannorðslega af lífi og staðurinn stimplaður sem miðstöð þrælahalds. 

Engin innistæða reyndist fyrir fréttinni eins og ítarlega var rakið í leiðara Morgunblaðsins um daginn. Hver skyldu þá viðbrögð fréttastofu RÚV vera. Leiðréttir fréttastofan hina röngu frétt? Biðjast þeir afsökunar?

Eða láta fréttastjórarnir rigna upp í nefið á sér eins og jafnan og halda áfram í sjálfbirgingshætti og hroka?

Óneitanlega er sorglegt að sjá og fylgjast með hvernig komið er fyrir fréttastofu RÚV. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins kl. 6 og síðar eru iðulega tvær fréttir. Hér á árum áður þegar Jón Thordarson og hinn voru á næturvaktinni þá voru ítarlegar fréttir frá kl. 5 að morgni. 

Fréttamat RÚV í sjónvarpi er síðan einstakt ef borið er saman við aðrar fréttastofur sem ég fylgist með og satt að segja ekki boðlegt og hef ég þó tíða skoðun á dönskum, norskum, sænskum og  enskum fréttum sem og Euronews, RT og Al Jaseera. Fréttastofa RÚV ber af fyrir bull- rugl og einhliða fréttir, sem engum af virtari fréttastofum mundi til hugar koma á senda frá sér. 

Hversu lengi á þetta að ganga svona. Sjái menntamálaráðherra ekki ástæðu til aðgerða getum við  þá fengið að losna undan skylduáskrift að þessum miðli. Annað er skerðing mannréttinda.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.4.): 485
  • Sl. sólarhring: 542
  • Sl. viku: 3512
  • Frá upphafi: 2512398

Annað

  • Innlit í dag: 454
  • Innlit sl. viku: 3279
  • Gestir í dag: 449
  • IP-tölur í dag: 435

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband