Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Þursaríkið afhjúpað

Undanfarin ár hefur Saudi Arabía stutt við hryðjuverkastarfsemi vítt og breytt um heiminn, konur og farandverkafólk er nánast svipt öllum mannréttindum. Þá fer Saudi Arabía með hernaði á hendur Yemen þar sem þúsundir almennra borgara hafa verið drepin og hungursneið milljóna fólks vofir yfir. Framferði Sáda í Yemen hefur verið óafsakanlegt, en einhverra hluta vegna hefur þetta verið gleymda stríðið og fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa ekki séð ástæðu til að fordæma það með sama hætti og t.d. borgarastryjöldina í Sýrlandi.

Ekkert af þessu hefur leitt til fordæmingar alþjóðasamfélagsins á Sádi-Arabíu og refsiviðurlaga. Þvert á móti þá eru Sádar með fulltrúa í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og stjórnendur lýðræðisríkja í Evrópu einkum Trump og May mæla til mikillar vináttu við þursaríkið og setja kíkinn fyrir blinda augað þegar rætt er um framferði þessa þursaríkis.

þ.2.október s.l. fór landflótta Sádi Arabi Jamal Khashoggi inn á sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl og kom ekki lifandi út af henni aftur. Khashoggi sem bjó í Bandaríkjunum hafði snúið sér til sendiskrifstofu Sádi-Arabíu í Whasington DC til að fá skilnaðarpappíra vegna þess að hann ætlaði að giftast tyrkneskri unnustu sinni. Honum var sagt að þeir gætu ekki afgreitt það heldur yrði hann að fara til Istanbúl þ.2. október og sækja pappírana þangað. 

Sama dag og Khashoggi átti að fá pappírana flugu 15 opinberir starfsmenn frá Saudi Arabíu og komu sér fyrir á sendiskrifstofunni og tóku síðan á móti Khashoggi þegar hann birtist. Þeirra á meðal voru þrír menn úr lífverði krónprinsins og sérfræðingur í að saga upp líkama með beinasög mann að nafni Salah Tubaigy.

Þegar Khashoggi kom ekki lifandi út, sögðu Sádi Arbar, að hann hefði víst gert það. Síðan sögðu þeir að hann hefði látið lífið eftir að kom til átaka milli hans og einhverra í sendiráðinu. Í síðustu útgáfunni segja stjórnvöld í Sádi Arabíu, að teppi hafi verið vafið utan um lík hans og honum komið fyrir í því og flutur þannig út úr sendiráðinu. 

Allt í einu vaknaði heimurinn og hafði meiri áhyggjur af morði blaðamannsins, en öllum þeim ódæðum sem þetta þursaríki fremur á degi hverjum. Trump rembist þó eins og hann getur við að bera blak af stjórnvöldum í Saudi Arabíu, enda telur hann stjórnendur þessa þursaríkis til vina sinna. Theresa May mælir ekki með refsiaðgerðum eins og hún gerði gagnvart Rússlandi vegna máls Skrípal feðga enda eiga bretar billjóna hagsmuni af samskiptum við Sáda eins og Bandaríkin. 

En með morðinu á Khashoggi hefur verið velt hlassi, sem hefði átt að vera velt fyrir áratugum síðan og vonandi láta stjórnendur Vesturlanda nú til sín taka þannig að heimurinn sjái að vinnubrögð eins og þau að myrða fólk á sendiskrifstofum, svipta fólk mannréttindum og ógna lífi heillar þjóðar með miskunarlausum hernaðaraðgerðum verður ekki liðið. 

Það verður fróðlegt að sjá hvort að stjórnvöld á Vesturlöndum falla á þessu prófi og það verður líka fróðlegt að sjá hvort að Pútín Rússlandsforseti muni reyna að fiska í gruggugu vatni eða sýna þann manndóm að fordæma aðfarir Sáda. 

Skipan mála í Sádi Arabíu og framferði stjórnvalda þar hefði átt að vera öllum á Vesturlöndum ljós, eftir að fyrrum forstöðumaður CIA leyniþjónustu Bandríkjanna í Mið-Austurlöndum skrifaði eftir starfslok bókina:

¨Sleeping with the Devil"  

Hvað sem líður billjóna viðskiptahagsmunum þá er ekki hægt að láta framferði eins og Sádi Arabar sýna nánast á öllum sviðum viðgangast. 


Dauðans alvara þegar fréttamiðlar stunda hatursáróður.

Varla hefur liðið sá frétttími í fjölmörgum fréttamiðlum í henni Ameríku án þess að andskotast væri út í Donald Trump og allt sem hann gerir og stendur fyrir. Garmurinn hann Ketill íslenska Ríkisútvarpið hefur fylgt dyggilega eftir þessum hatursáróðri, sem nú er farinn að taka á sig hættulega,  grafalvarlega og andlýðræðislega mynd.

Fyrir nokkru var Ted Cruz öldungardeildarþingmaður frá Texas, sem var helsti andstæðingur Trump í forkosningum Repúblikana fyrir síðustu kosningar á veitingastað ásamt konu sinni þegar hópur fólks veittist að þeim fyrir það eitt, að Ted Cruz hafði greitt atkvæði með staðfestingu dómarans Brett Kavanaugh í embætti Hæstaréttardómara. Hjónin þurftu á vernd lögreglu að halda þegar þau yfirgáfu veitingastaðinn. 

Öldungardeildarþingmaður Repúblikana frá Maine í norðausturhluta Bandaríkjanna hefur orðið fyrir ítrekuðu aðkasti undanfarið vegna þess að hún greiddi líka atkvæði með staðfestingu Brett Kavanaugh Hæstaréttardómara. Veitingahúsakeðja í Texas hefur hætt að kaupa skelfisk frá Maine og segist gera það til að refsa fylkinu fyrir að hafa Senator sem greiðir atkvæði með þessum hætti.

Ekki nóg með það. Öldungardeildarþingmaðurinn frá Maine, Susan Collins hefur fengið hótanir og í gær var lögreglan kvödd að heimili hennar í öryggisskyni vegna haturspósta og grunsamlegra sendinga.

Þessi tvö dæmi er það nýjasta af röð þess, sem að öfgafullir Demókratar hafa staðið fyrir, þar sem þeir hika ekki við að ráðast að fólki sem hefur aðrar skoðanir. Þessir Demókratar virða ekki það sjónarmið sem talsmenn lýðræðis, lýðfrelsis og hugmyndafræði upplýsingaaldarinnar færa fram um að allar skoðanir skipti máli og fólk hafi rétt til að tjá skoðanir sínar hversu vitlausar sem okkur þykja þær þó vera. 

Þegar vikið er frá þessu grundvallaratriði réttarríkisins og fasisminn tekur völdin og krest þess að fólki verði refsað vegna skoðana sinna þá er hætta á ferðum í lýðræðisríki. 

Sök þess fólks sem staðfesti tilnefningu Brett Kavanaugh í embætti Hæstaréttardómara var að greiða atkvæði með því að óumdeilanlega mjög hæfur lögfræðingur með óaðfinnanlegan feril sem dómari settist í Hæstarétt Bandaríkjanna. 

Demókratarnir veitast að fólki sem greiddi þessum hæfa dómara atkvæði sitt vegna þess að það hafnaði honum ekki vegna ósannaðara og upploginna saka sem á hann voru bornar.

Forusta Demókrataflokksins ætti að fordæma þetta athæfi öfgafullra flokkssystkina sinna og Ríkisútvarpið á Íslandi ætti að sjá sóma sinn í að flytja sannar hlutlægar fréttir af því sem gerist án þess að setja fram dóma. Væri e.t.v. ekki við hæfi að kalla þessa öfgafullu Demókrata sem hér er á minnst, "öfgavinstri" fólk. Það hugtak virðist ekki til á fréttastofu RÚV en "öfgahægri" að jafnaði fjórum sinnum í viku eða oftar. 

Það er dauðans alvara í orðsins fyllstu merkingu að vera í pólitík ef fréttamiðlar og skoðanafasistarnir hvaðan sem þeir koma heimila einstaklingum ekki að fylgja sannfæringu sinni án þess að þeir eigi það á hættu að vera úthrópaðir og hvatt til árása á þá vegna skoðana þeirra.


Vondu kapítalistarnir og bjórinn.

Í frábærum þætti Veröld sem var sem sýndur var um helgina í sjónvarpinu var fjallað um fyrirbrigðið bjórlíki og afnám banns við bjórsölu. 

Vafalaust finnst mörgum skondið í dag, að það skuli hafa verið leyft að drekka sterk vín, meðalsterk vín og létt vín, en ekki bjór. En það tók heldur betur tíma að ná meirihluta stuðningi á Alþingi við að leyfa bjórinn. 

Í ofangreindum þætti var viðtal við Guðnýju Halldórsdóttur vegna bjórbannsins, en faðir hennar Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxnes var einlægur stuðningsmaður þess að bjórinn yrði leyfður. Í viðtalinu sagði Guðný að vondir kapítalistar hefðu staðið á móti því að bjórinn yrði leyfður. Það er rangt. Það voru góðir kapítalistar, sem náðu því fram.

Fyrst flutti Pétur Sigurðsson frumvarp til breytinga á áfengislögum þess efnis, að bjór yrði leyfður. Síðan flutti ég frumvarp um að bjór yrðu leyfður og það í tvígang og þeir sem voru meðflutningsmenn á frumvarpinu sem fór í gegn með breytingum voru þeir Ingi Björn Albersson og Geir H. Haarde eða allt þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þannig að fyrirstaðan var ekki hjá kapítalistunum Guðný. 

Staðreyndin er líka sú að lengi vel var einn flokkur sem skar sig úr og hafði flokkslega afstöðu gegn því að bjór yrði leyfður en það var Alþýðubandalagið helsti andstöðuflokkur okkar kapítalistanna, en mikill meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins greiddi ávallt atkvæði með því að bjór yrðu leyfður í landinu.

Það hefði því verið réttara hefði Guðný sagt að það hafi verið vondu kommarnir sem voru á móti því að fólk nyti frelsisins, en kapítalistarnir hefðu barist þá sem fyrr fyrir frelsinu.

Halldór Kiljan Laxnes, var eins og áður sagði einlægur áhugamaður um að bjórinn yrði leyfður og var að því leyti í andstöðu við flokkinn sem eignaði sér hann. Hann skrifaði ítrekað greinar í blöð því til stuðnings og hafði nokkrum sinnum samband við mig eftir að ég flutti frumvörp um að leyfa bjórinn og lagði mér margt til, sem ég notaði í framsöguræðu mína í málinu á Alþingi á sínum tíma með leyfi höfundar.  

 


Eru bara sumir verðugir launa sinna?

Gjörskyggnir Íslendingar gerðu sér grein fyrir því, að kæmi til þess, að alþingisfólk tæki sér 44% launahækkun skv. niðurstöðu Kjararáðs um launakjör alþingisfólks og háembættismanna, þá mundi það leiða til ófarnaðar í þjóðfélaginu. 

Sumir urðu til að vara við þ.á.m.Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri, sá sem þetta ritar og margir fleiri. En stjórnmálastéttin lét sér þau varnaðarorð í léttu rúmi liggja. Pólitísk samstaða myndaðist um það á Alþingi að þingmenn tækju sér 44% launahækkun.

Í frétt í Fréttablaðinu í dag segir fyrrum fjármálastjóri Alþingis Karl M. Kristjánsson frá því þegar hann var kosinn í sveitarstjórn í litlu hreppsfélagi við höfuðborgina, þá hafi hann séð, að þar höfðu sveitartjórnarmenn hækkað greiðslur til sín og nefndarlaun um það sama og alþingisfólk skammtaði sér.

Karl bendir á, að á sama tíma hafi laun fólksins sem vinnur fyrir sveitarstjórnirnar ekki fengið neina launahækkun. Sama gildir raunar um ríkisstarfsfólk. Þrátt fyrir að þingfólk hafi hækkað laun sín um 44% þá datt því ekki í hug, að skrifstofulýðurinn hjá ríkinu eða aðrir launaþrælar þar á bæ ættu rétt á nokkurri launahækkun í líkingu við fína fólkið á Alþingi eða í sveitarstjórnum.

Þá hefur komið í ljós að bæjar- og sveitarstjórar höfðu tekið sér gríðarlegar launahækkanir víða jafnvel umfram það sem Kjararáð skenkti alþingisfólki svo rausnarlega. 

Finnst stjórnmálastéttinni virkilega skrýtið að almennt launafólk telji sig eiga rétt til kjarabóta til jafns við það fólk, sem að hluta til mundi ekki einu sinni fá vinnu væri það á hinum almenna vinnumarkaði og engin nein ofurlaun?

Hætt er við að stjórnmálafólk sem þannig hagar sér þrjóti örendið fyrr fremur en síðar. Alla vega ættu kjósendur að hlutast til um það.


Huglæg þráhyggja og forræðishyggja

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur verið haldinn þeirri huglægu þráhyggju, að Borgarlínan svokallaða mun leysa allan vanda í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins. Nú hefur Dagur eignast samherja í þessari þráhyggju, en það er Helga Vala Helgadóttir alþingiskona.

Í grein sem Helga Vala skrifar í Morgunblaðið þ.21.september s.l. fjallar hún um stórátak ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og segir að stinga megi "þessu stórátaki í loftslagsmálum strax ofan í skúffu og stimplað, falleg orð á blaði, en lítið í verki" Ég vona að hún hafi rétt fyrri sér.

Ástæða þess að Helga Vala kemst að þessari niðurstöðu varðandi stórátakið í loftslagsmálunum er sú, að ríkisstjórnin hugsar ekki um það mikilvæga skref að fækka einkabílum á götum borgarinnar. Eins og Dagur hefur hamast við að reyna að gera með litlum árangri.

Þau Dagur og Helga Vala eiga það sameiginlegt að vilja hafa vit fyrir fólki og segja því hvernig það á að hegða sér og ganga iðulega langt í forræðishyggjunni. Að þeirra mati er vont að fólk skuli aka um á einkabílum. 

Nú er það svo að furðufyrirbrigði ríkisstjórnarinnar um stórátak í loftslagsmálum tekur forræðishyggju Helgu Völu og Dags fram að nokkru leyti. Skv. áætluninni á að banna fólki að kaupa og nota bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti. En það er ekki nóg að mati Helgu Völu enn frekari tálmanir skulu lagðir í götu einkabílsins og þá er það Borgarlínan sem leysir allan vanda. 

Í bið eftir Borgarlínunni mega síðan íbúar höfuðborgarsvæðisins norpa í kulda og norðangarra af því að það er gott að ferðast með þessum nýmóðins strætó og þetta forræðishyggjufólk nú í öllum flokkum telur að Borgararnir séu þess ekki umkomnir að velja sjálfir með hvaða hætti þeir telja hentugast að komast milli staða. 

En jafnvel þetta er ekki nóg fyrir Helgu Völu lengra skal haldið. Spurningin er hvort hún skrifar næst pistil um að allir skuli neyddir til að borða skv. matseðli frá Lýðheilsustöð ríkisins.


Sænska siðferðiskenndin. Engin er nyfiken lengur.

Í gær voru skemmtilegar leiðtogaumræður í sænska ríkissjónvarpinu. Frammistaða ríkissjónvarpsins hefur verið til fyrimyndar í þessari kosningabaráttu og þangað til í gær þegar annar af tveim stjórnendum leiðtogaumræðnanna vék af vegi hlutleysisins og hlutlægninnar og mótmælti harðlega sjónarmiðum Jimmy Åkesson þegar hann sagði "sumir innflytjendur passa ekki inn í sænkst samfélag" 

Í sjálfu sér var engin þörf á því fyrir stjórnandann að andæfa þessum sjónarmiðum þar sem tvær kynsystur hennar formenn sinna flokka höfðu gert það harðlega. En hún gerði það samt og blandaði sér því í umræður með ósmekklegum og ómálefnalegum hætti. Fraukurnar þrjár sem máttu ekki vatni halda yfir þessum ummælum sjá greinilega eða vilja ekki sjá það sem er og hefur verið að gerast í landi þeirra. 

Ef til vill sér elítan ekki nema hluta af þeim veruleika sem almenningur í Svíþjóð og sænska lögreglan sér í sambandi við innflytjendur. Þar utan má ekki segja sannleikann í Svíþjóð um vandann sem stafar af innflytjendum og eru þeir ekki einir um það þó þeir gangi hvað lengst. 

Þessi ummæli Jimmy Åkesson um að sumir innflytjendur passi ekki inn í sænskt samfélag. Eru þau rétt eða röng. Passa innflytjendur sem lifa í samræmi við Sharia lög, neita að læra sænsku og stunda bílabrennur inn í sænkst samfélag? Að sjálfsögðu ekki. Skyldu þeir sem búa í Roesngården í Malmö almennt passa inn í sænskt samfélag. Sænska lögreglan fer ekki inn í hverfið nema vel víggirt og hópum saman. Skyld það vera vegna þess að íbúarnir passa svo vel inn í sænskt samfélag. 

Svo var það eins og danskurinn segir Alle tiders þegar fréttstofa RÚV fékk til sín svonefndan fréttaskýranda til að fjalla um þetta hneyksli þáttastjórnandans, sem ruglaði um sérstakt sænskt siðferði.

Vá sænsku klámmyndirnar, jeg er nyfiken gul, röd og blå eru greinilega ekki lengur á dagskrá í sænsku samfélagi af því að siðferðið er svo sérstakt og á svo háu plani í Svíþjóð. Eða er allt í lagi með jeg er nyfiken gul, röd eller blå og það er bara sannleikurinn í innflytjendamálum, sem hreyfa við stinga prjóni eða þaðan af hættulegra vopni í sænsku siðferðiskenndina.  


Afbókanir, Sterk króna og svört atvinnustarfsemi

Í fréttum í kvöld var sagt að mikið væri um afbókanir erlendra ferðamanna. Framkvæmdastjóri bændaferða sem rætt var við, var ekki í vanda með að finna blórabögglana sem væru þessu valdandi. Að hans mati þá eru vandamálin tvö:

Sterk króna og svört atvinnustarfsemi.

Hér á landi þurfa menn almennt ekki að rökstyðja sitt mál og fréttamenn spyrja sjaldnast áleitinna spurninga. 

Eðlileg spurning til framkvæmdastjórans hefði t.d. verið. Með hvaða hætti getur svört atvinnustarfsemi orsakað það að ferðamenn afbóki sig. Það er ekkert orsakasamhengi þar á milli. Svört atvinnustarfsemi hefur ekkert með afbókanir að gera. 

Þegar krónan styrkist þá verða aðföng keypt erlendis frá ódýrari. Sterk króna ætti því að gera aðilum í ferðaþjónustu kleift að selja þjónustuna ódýrari. Sterka krónan er notuð sem til að afsaka það gegndarlausa okur, sem er í landinu. Okur sem stafar að hluta til vegna þess, að stjórnvöld hér hafa aldrei talið sig eiga skyldum að gegna við neytendur þessa lands. Þess vegna komast seljendur upp með hluti sem þeir gera ekki í nágrannalöndum okkar. 

Öllum sem hafa fylgst með hefur verið ljóst að okrið í  ferðaþjónustunni hefur verið gegndarlaust. "Ódýr" bændagisting kostar iðulega meira en 5 stjörnu hótel í erlendum stórborgum. Matur á veitingahúsum er svo dýr, að ferðamenn flykkjast í lágvöruverslanir til að kaupa sér vistir. Bílaleigubílar og hvað sem er kostar margfalt meira en í okkar heimshluta. Þetta veldur íslenskum stjórnmálamönnum ekki andvökum. Þeirra helsta áhyggjuefni hefur fram að þessu verið með hvaða hætti hægt er að skattleggja ferðamenn enn meir en þegar er gert.

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvægur atvinnuvegur. Við vorum í fyrra mesta ferðamannaland í Evrópu hlutfallslega miðað við fólksfjölda. Viðfangsefni þeirra sem stýra málum innan ferðaþjónustunna sem og stjórnvalda ætti að felast í, að stuðla að því að þjónusta hér verði seld ferðamönnum sem og íslenskum borgurum á samkeppnishæfu verði. 

Það mun valda þjóðhagslegri kreppu ef ferðamönnum fækkar verulega. Stundum betra að græða minna í einu en meira til lengri tíma litið og okra ekki á fólki eins og engin sé morgundagurinn. 

Afbókanir erlendra ferðamanna er okri seljenda að kenna ekki krónunni eða svartri atvinnustarfsemi. 

Vinur minn sem fer víða sagði mér um daginn, þá nýkominn frá Bandaríkjunum, að öðruvísi en áður var, þá vissu allir eitthvað um Ísland og það væri áhugavert land, en það væri hins vegar hræðilega dýrt. Af hveru vita Bandaríkjamenn það. Vegna þess að landar þeirra sem hafa sótt Ísland heim hafa þá sögu að segja. Líka frá þeim tímum þegar krónan var mun veikari.

Hvað var þá að? 


Gunnfánar Viðreisnar

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn er óðum að verða eitt mesta furðufyrirbæri íslenskra stjórnmála. Fyrir nokkrum dögum greiddi flokkurinn atkvæði með vantrausti á dómsmálaráðherra fyrir að fara að m.a. tillögum Viðreisnar í síðustu ríkisstjórn. Yfirklór þingmanna flokksins vegna þessa asnasparks eru allt síðari tíma skýringar og vægast sagt aumkunarverðar. Með því að lýsa yfir vantrausti á dómsmálaráðherra lýsti Viðreisn vantrausti á sig sjálfa.

Tveggja daga flokksþingi Viðreisnar er nýlokið. Í fréttatíma sjónvarpsins var sýnt frá þinginu og undir hvaða gunnfánum það starfar. Athygli vakti að auk fána flokksins þá taldi Viðreisn rétt að flagga einnig fánum samkynhneigðra og Evrópusambandsins.

Íslenski fáninn sást hins vegar hvergi. Áherslur flokksins liggja þannig ljósar fyrir.

Þetta sýnir vel hvers konar flokkur Viðreisn er. Hann er ekki þjóðlegur flokkur og leggur ekki áherslu á þjóðleg gildi. Hann leggur áherslu á að Ísland gangi í Evrópusambandið hvað sem það kostar. Þó svo að daglega megi horfa upp á hvaða fantatökum Evrópusambandið beitir Breta sem hafa sagt sig úr bandalaginu þá hreyfir það ekki við steinbarninu sem flokksfólk Viðreisnar er með í maganum. Þetta fólk sér enga framtíð nema í faðmi Angelu Merkel í Evrópusambandinu.

Flestum sem fylgjast með þróun Evrópumála er ljóst að  innganga í Evrópusambandið fyrir smáþjóð í dag þýðir í raun  algjört afsal fullveldis þjóðarinnar og framsal þjóðfélagsvaldsins til yfirstjórnarinnar í Brussel. Það breytir engu fyrir flokksfólk í Viðreisn.

Það er síðan að vonum að formaður Viðreisnar skuli líkja fyrrum flokkssystkinum sínum við áfa út úr hól og risaeðlur. Formaðurinn hefur raunar áður gefið fólki einkunnir. Mánuði fyrir hrun sagði hún um erlendan sérfræðing sem sagði að veruleg vandamál væru framundan í íslensku efnahagslífi, að hún sem menntamálaráðherra teldi að maðurinn þyrfti að fara í skóla í endurmenntun því vitleysan í honum væri æpandi.

Mánuði síðar hrundi íslenska bankakerfið og Þorgerður Katrín og millistjórnandi stærsta banka landsins á þeim tíma sem er eiginmaður hennar urðu aldeilis hlessa, en höfðu haft vaðið fyrir neðan sig og komið sér úr persónulegum ábyrgðum af því, að þau eru þegar botninum er hvolft ekki eins og álfar út úr hól þegar gæta þarf eigin hagsmuna. 


Mainstream stjórnmálaflokkar, fasistar og pópúlistar

Eiríkur Bergmann kennari og Samfylkingarmaður var enn einu sinni fengin sem fréttaskýrandi til að fara yfir ítölsku kosningarnar. 

Stjórnmálafræðiprófessornum var eins og svo oft áður tíðrætt um pópúlískar og fasískar hreyfingar, sem hann skilgreindi sem ruslflokk stjórnmálanna sem væru á móti því sem prófessorinn kallar "the mainstream flokkum" eða flokkum sem styðjast við ríkjandi viðhorf, meirihlutaflokkum. 

Í yfirferð sinni tókst prófessornum að tala um Norður Bandalagið sem fasískan flokk og ásamt 5 stjörnu hreyfinunni báða sem pópúlíska flokka og í andstöðu við mainstream prófessorsins. 

Það sem þeir flokkar eiga sameiginlegt sem prófessorinn kallar pópúlíska og fasíska er að þeir eru á móti ríkjandi innflytjendastefnu og hafa efasemdir um Evrópusambandið og evruna. Það virðist í huga prófessorsins vera nóg til að flokkar verðskuldi þá skilgreiningu hans að vera pópúlíska og jafnvel fasíska. 

Nú er það svo að 5 stjörnu hreyfingin og Liga Nord unnu um helming atkvæða og gætu myndað ríkisstjórn saman. Eru þeir þá ekki samkvæmt eðlilegri orðaskýringu "mainstream" eða meirihlutaflokkar. Einhver mundi segja að með því að kunna skil á einfaldri samlagningu og frádrætti þá kæmist fólk að rökréttari niðurstöðu en prófessorinn kemst að með sinni flóknu sósíalísku nálgun.

Sú skoðun að vilja breyta Evrópusambandinu, fara úr Evrópusambandinu og takmarka aðgengi innflytjenda að löndum eru eðlilegar pólitískar skoðanir, sem allar eiga rétt á sér ekkert síður en hjónabönd samkynhneigðra eða velferðarkerfið. Þeir sem hafa aðra skoðun en sósíalistarnir á Evrópusambandinu og innflytjendamálum verða ekki við það hægri öfgafólk eða pópúlistar. Það fólk er fólk sem hefur skoðanir sem eru aðrar en sósíalistarnir og þær skoðanir eiga jafn mikinn rétt á sér og það án merkimiða og uppnefninga eins og sósíalisminn sem raunar er sú pólitíska stefna, sem hefur misheppnast hvað hrapalegast frá lokum síðara heimsstríðs. 

Það er mál til komið að sósíalistar eins og Eiríkur Bergman átti sig á að þeir eru ekki mainstream og síður en svo merkilegri en það fólk sem er á móti Evrópusambandinu, Evrunni og óheftu aðgengi innflytjenda. 


Þegar RÚV fer úr vitsmunalegu sambandi við raunveruleikann.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort það eitt að nafn Donald Trump sé nefnt leiði til þess að fréttastofa Ríkisútvarpsins fari úr vitsmunalegu sambandi við raunveruleikann. Eða hvort allt of margir sem þar starfa kunni ekki að skilja aðalatriði frá aukaatriðum eða einfaldlega svo pólitískt siðblindir að þeim sé fyrirmunað að segja hlutlausar fréttir.

Í gær var almenningi leyft að lesa minnisblað sem nefnd Devin Nunes þingmanns og formanns "House Intelligence Committee" um rannsókn alríkislögreglunnar þ.á.m. símhleranir í kosningamiðstöð Trump á grundvelli upplýsinga sem aðilar á vegum Demókrataflokksins útveguðu, borguðu fyrir og lugu að lögreglunni að væri heilagur sannleikur til að koma höggi á Trump. Þetta er hneyksli sem kemur sér illa fyrir Hillary Clinton og Barrack Obama auk ýmissa annarra af sama sauðahúsi.

RÚV skilur þetta hins vegar þannig að þarna sé kominn enn einn naglinn í líkkistu Trump. Talað er um hvað Demókratar í Bandaríkjunum segja um málið og hversu hneykslaðir þeir eru á því að lögleysa  þeirra skuli vera opinberuð. RÚV getur ekki greint aðalatriði frá aukaatriðum í málinu og sagt hlustendum sínum um hvað málið snýst. Það er byrjað á öfugum enda og mikilvægustu upplýsingarnar skila sér aldrei til hlustenda og var e.t.v. aldrei ætlað að gera það. 

Þetta hneykslismál Demókrata er með sama hætti og Watergate þar sem menn úr endurkjörsteymi Nixons forseta brustust inn í kosningamiðstöð Demókrata í Watergate byggingunni margfrægu og fengu makleg málagjöld. Þau málagjöld hefðu þeir ekki fengið ef fréttamiðlar allir sem RÚV hefðu endalaust talað við Nixon og Repúblikana um málið og engin hefði fengið að vita hvað gerðist. 

Þegar skýrsla er birt sem sýnir fram á að rangar upplýsingar frá kosningastjórn Hillary Clinton leiðir til þess að virkjuð er aðgerðaráætlun gegn kosningamiðstöð Trump og brotist inn í hana með hlerunum og rannsóknum þá er það alvarlegt mál í lýðræðisríki. Það minnir á Erdogan og aðferðir hans. En þegar Demókratar og Hillary eiga í hlut þá sér RÚV ekki hneykslið eða samhengi hlutana en telur, að nú þurfi Trump að taka pokann sinn.

Aumingja við sem þurfum að borga fyrir þetta lið sem eru áskrifendur að laununum sínum við að uppdikta rangar og lélegar fréttir. Finnst íslenskum stjórnmálamönnum og alvöru fréttafólki það boðlegt hvernig RÚV hagar sér?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.4.): 379
  • Sl. sólarhring: 436
  • Sl. viku: 3637
  • Frá upphafi: 2508630

Annað

  • Innlit í dag: 352
  • Innlit sl. viku: 3406
  • Gestir í dag: 341
  • IP-tölur í dag: 332

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband