Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Réttlæting ofbeldis

Það var annkannanlegt að hlusta á þáttastjórnanda í morgunútvarpi Rásar 2, tala um það sem afsökun fyrir manndrápstilraun við Players um helgina, að það væri svo mikil reiði í þjóðfélaginu.  

Ég vona að þessi annars ágæti útvarpsmaður biðjist afsökunar á svona bulli þegar færi gefst.

Það er aldrei afsökun að ráðast á annað fólk og misþyrma því. Hvað þá að sparka ítrekað í höfuð á liggjandi fólki.  Slíkt hefur leitt til varanlegra örkumla ef til vill dauða.

Áður fyrr gátu menn látið hnefana tala, en þeim viðskiptum lauk þegar annar lét undan síga eða féll. Nú gerist það aftur og aftur að hópur fólks ræðst að liggjandi bjargarlausum einstaklingi með höggum og spörkum. Það er ógeðslegt og óverjandi.

Fjölmiðlafólkið ætti að hætta að tala um reiðina í þjóðfélaginu eða vísa til hennar sem afsökun fyrir afbrigðilegri og andfélagslegri hegðun.  Það er bull í þágu ofbeldisfólks, bófa og drullusokka.

Fjölmiðlafólk þarf jafnan að gera sér grein fyrir hvað mikla ábyrgð það ber. Við mundum ekki búa í jafnafgerandi bullukollusamkomfélagi og raun ber vitni ef við hefðum fleiri fjölmiðla og fjölmiðlafólk sem gerði sér grein fyrir ábyrgð sinni og mikilvægi þess að leggja mál fyrir af skynsemi.

 


Stefna og stefnuleysi borgarstjórans

Í drottningarviðtali síðdegisútvarpsins við Jón Gnarr borgarstjóra virtist þess vandlega gætt að tala um allt annað en borgarmál. Jón Gnarr lét móðann mása um eigið ágæti og það að  Besti flokkurinn hefði enga stefnu jafnvel þó hann hefði stefnu sem engin vissi hver væri þó hún væri til en væri samt ekki til.

Þó fór svo að Jón Gnarr gerði grein fyrir þeim atriðum sem virðast inntak í pólitískri hugsun hans. Í fyrsta lagi sagði hann nauðsynlegt að losna við markaðsþjóðfélagið eða kapítalsimann. Í annan stað að fá hingað fleiri ferðamenn og í þriðja lagi að friðarsamningar í millum Ísraelsmanna og Palestínumanna færu fram í Höfða. Jón Gnarr segir að forsenda þess að eitthvað sé hægt að gera sé að losna við markaðsþjóðfélagið.

Andstaða við markaðsþjóðfélagið er merkileg pólitísk yfirlýsing sem felur í sér hinn valkostinn að vilja miðstýringu og áætlunarbúskap. Áætlunarbúskap eins og í Norður Kóreu eða eins og það var í Kína og að hluta til á Indlandi. Sjálfsagt veit Jón Gnarr að fjöldi Norður Kóreubúa deyja úr hungri árlega og þannig var það í Kína og Indlandi. En e.t.v. veit hann ekki að eftir að Kína og Indland markaðsvæddust hefur þjóðarframleiðsla og velmegun aukist í stórum stökkum.

Sá sem segir það forsendu góðra hluta í þjóðfélagsbaráttu að kasta markaðskerfinu burt verður að segja hvaða valkosti hann boðar í staðinn. Ekki verður hjá því komist lengur að taka það alvarlega sem stjórnmálamaðurinn Jón Gnarr segir. Vissulega er það líka nauðsynlegt að fjölmiðlar taki hann sömu tökum og þeir taka aðra stjórnmálamenn og láti hann standa fyrir máli sínu með sama hætti og þeir þurfa að gera.

Meðal annarra orða hefur Jón Gnarr staðið fyrir bættri stjórnun borgarinnar? Hefur hann dregið úr bruðlinu?Hefur hann lækkað laun borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa á krepputímum? Hefur hann fækkað einkabílum og einkabílstjórum borgarfulltrúa á kostnað borgarbúa? Af hverju er hann ekki spurður að þessu af fjölmiðlafólki? 

Bullukollaviðtöl eru ekki boðleg þegar stjórnandi stærsta fyrirtækis landsins Jón Gnarr á í hlut eða að talað sé um allt annað en fyrirtækið Reykjavíkurborg, rekstur þess og stjórnun.

 


Meiri hluti ríkisstjórnar. Fréttir og ekki fréttir.

Fjölmiðlar slá upp þeirri ekki frétt í dag að varamaður Þráins Bertelssonar styðji ekki ríkisstjórnina. Það er ekki frétt. Afstaða Katrínar Snæhólm hefur legið fyrir frá því að ríkisstjórnin var mynduð.  Hins vegar skiptir meira máli varðandi líf og stöðu ríkisstjórnarinnar hvaða afstöðu fríjadrottning Alþingis, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tekur þegar hún kemur úr nýjasta barneignarfríinu sínu.

Varamaður Guðfríðar Lilju styður sinn formann og ríkisstjórnina. En Guðfríður Lilja fundaði með þremenningunum í þingflokki VG sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna um fjárlögin áður en atkvæði voru greidd. Það bendir til þess að Guðfríður Lilja rói á sama báti og Lilja Móses og félagar. Þar með er meiri hluta stuðningur við ríkisstjórnina ekki fyrir hendi þegar Guðfríður Lilja sest á þing aftur,  miðað við skilgreiningu Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar og Róberts Marshall.´

Sérkennilegt að fjölmiðlar skuli ekki spyrja Guðfríði Lilju um afstöðu hennar m.a. um hjásetu félaga hennar við afgreiðslu fjárlaga. Það væri frétt. Í stað þess er birt hundgömul ekki frétt um varamann þingmannsins sem lét sig hafa það við afgreiðslu fjárlaga að greiða atkvæði með sérstakri styrkveitingu til sjálfs síns. 

Þeir eru flottir þingmennirnir hjá Vinstri grænum annað hvort í fríi eða sjálfsmennsku nema skaraður sé eldur að eigin köku  á kostnað skattgreiðenda. 


Egill Helgason réttlætir árásir og skemmdarverk

Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins og Eyjunnar telur réttlætanlegt að ráðast að fólki og skemma eigur þess. Sá er munurinn á Agli Helgasyni og Hallgrími Helgasyni skáldi og rithöfundi, að Hallgrímur réðist að bifreið forsætisráðherra í tímabundinni geðsveiflu og baðst afsökunar og  telur það óhæfuverk, en Egill Helgason telur slík verk réttlætanleg.

Í bloggfærslu sinni á Eyjunni þ. 9.12.s.l. réttlætir Egill  fólskulegar árásir óeirðamanna á bifreið Karls Bretaprins þegar hann ásamt konu sinni voru á leið í leikhús. Í færslunni segir Egill

" Maður hefur lengi furðað sig á langlundargeði fólks í Bretlandi. Óvíða í Evrópu er jafnmikill ójöfnuður – óvíða hefur auðræðið náð slíkum tökum. En nú er ungt fólk farið að mótmæla. Og kannski er einmitt ágætt að hinn gagnslausi prins fái smá málningu á lúxusbílinn."

Fjölmiðlar á Bretlandi, jafnt sem leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu hafa fordæmt atlöguna að krónprinsinum og talað um hana sem fólskulega og óafsakanlega.  En hinn "virti" þáttastjórnandi á Íslandi Egill Helgason telur hins vegar réttlætanlegt að ráðast á fólk m.a. vegna þess að það eigi peninga og sé gagnslaust að hans mati.

Er það virkilega svo að stjórnendur Ríkisútvarpsins telji það eðlilegt að hafa Egil Helgason áfram í vinnu þegar fyrir liggur að hann er andvígur því að virt séu mannréttindi fólks en telur þvert á móti eðlilegt og réttlætanlegt að á fólk eða eigur þess sé ráðist. 

Egill Helgason er greinilega ósammála viðmiðunum réttarríkisins um mannréttindi og mannhelgi. Það er því ekki tilviljun hvernig Egill Helgason hefur stjórnað pólitískum viðræðuþætti sínum.


RÚV og Pravda

Sú var tíðin að austur í Sovét höfðu menn fréttamiðla sem sögðu alltaf það sem stjórnendurnir vildu.  Þar var alræðið og Pravda fréttastofa Sovétstjórnarinnar flutti alltaf þann boðskap og fréttir sem foringjar Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna vildu.  Þannig er það víða enn í alræðisríkjum að ríkisfjölmiðlarnir flytja bara það sem stjórnendunum er þóknanlegt.

Fyrir nokkru varð opinbert að fjármálaráðherra hafði sent þáverandi félagsmálaráðherra hálfgerð hótunarbréf til að tryggja greiðslur með ákveðnum hætti til kjósenda sinna í Árbót í Þingeyjarsýslu. Málið fékk þóknanlega afgreiðslu félagsmálaráðherra án þess að málið fengi að því er virðist eðlilega stjórnskipulega meðferð.

Fram kom að þingmenn kjördæmisins höfðu fjallað um málið á fundum sínum þar sem helst virðist rætt um með hvaða hætti megi koma sem mestu af skattfé borgaranna heim í hérað.

Það var  nokkuð sérstakt þegar RÚV notaði tækifærið til að ræða Árbótarmálið í Kastljósi að fá til þess tvo þingmenn kjördæmisins annan úr Sjálfstæðisflokknum en hinn úr Vinstri grænum. Ekki gekk hnífurinn á milli Þingmannanna. Skoðanalega féllust þeir í faðma. Ekki var annað að skilja en Árbótarmál væri hið eðlilegasta í alla staði hvernig svo sem því yrði snúið eða endastungið. Óneitanlega beið ég eftir því að pólitíski brúðkaupsvalsinn yrði leikinn þegar þessir samherjar og verjendur Steingríms J. Sigfússonar gengu í andlegu bandalagi úr sjónvarpssal.

Í síðdegisútvarpinu í dag var síðan talað við lögmann Árbótarfólksins sem skýrði mál sitt ágætlega eins og hans er von og vísa. Vel má vera að Árbótarfólkið hafi átt skilið að fá þær greiðslur sem um ræðir en hvorki ég né aðrir útvarpshlustendur höfum forsendur til að dæma um það út frá þeim forsendum sem RÚV hefur boðið upp á.  Hvar voru fulltrúar þeirra sem hafa gert athugasemdir við afgreiðslu málsins? Af hverju voru þeir ekki í Kastljósi eða í síðdegisþættinum? 

RÚV hefur kosið að slá varnarmúr um  Árna Pál og Steingrím J. til að dusta rykið af aðkomu þeirra að Árbótarmálinu.

Af hverju má ekki allur sannleikurinn koma í ljós. Af hverju að standa svona strangan vörð um Steingrím J og stjórnmálalega samspillingu þeirra sem að bera ábyrgð á afbrigðilegri afgreiðslu málsins.

Pravda sannleikurinn heldur aldrei endalaust. En hann getur ruglað fólk tímabundið.


Uppreisn Alþingis?

Fréttamaður Bloomberg fréttastofunnar á Íslandi sá ástæðu til þess að birta "ekki frétt" á fréttavefnum í gær sem er til þess fallin að skaða hagsmuni Íslands. Til þess fær hann sérstaka aðstoð Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur þingflokksformanns Vinstri grænna.

Í  fréttinni er sagt að Alþingi geri uppreisn gegn aðstoð við banka og haft er eftir Guðfríði Lilju að allt of miklum peningum hafi verið pumpað inn í fjármálakerfið nú þegar. Þá er sagt að 34 þingmenn muni greiða atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um að bjarga lánastofnunum. Inn í fréttina er síðan sett sú greining Moody´s um að lánshæfi Íslands yrði hugsanlega fært niður í ruslflokk.

Niðurstaða fréttarinnar er síðan sú með tilvísun í ummæli forstjóra FME að Ísland gæti verið á leið inn í aðra fjármálakreppu meðan Alþingi sé í fríi til 1. september. Þá segir að áhættan af öðru bankahruni ógni tilraunum Íslands til að byggja upp á nýjan leik samband við fjárfesta.

Þeir sem trúa þessari frétt geta ekki annað en ályktað sem svo að Ísland sé á leið í enn verri fjármálakreppu en nokkru sinni fyrr en Alþingi taki þessum alvarlegu málum svo létt að þar á bæ séu menn bara í góðu fríi og meiri hluti þingsins sé fyrirfram búinn að taka óábyga fyrirfram afstöðu til tillögu ríkisstjórnarinnar sem þó liggur ekki fyrir.

Því miður sér Guðfríður Lilja ástæðu til að bullukollast við fréttamanninn Ómar Valdimarsson, en sá bullukollugangur gefur rangri frétt ákveðinn trúverðugleika fyrir þá sem ekki þekkja til.

En hvernig á að bregðast við?

Í fyrsta lagi hljóta forsætis-fjármála- og viðskiptaráðherra að gefa út yfirlýsingar um íslenska fjármálamarkaðinn af gefnu tilefni sem og Seðlabankastjóri og forstjóri FME.

Síðan væri það mikill mannsbragur af þeim Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins að gefa út yfirlýsingar vegna fréttarinnar um að gætt verði íslenskra hagsmuna í hvívetna þar með talið hagsmuna íslenska fjármálakerfisins og því fari fjarri að Alþingi Íslands sé í uppreisn gegn ómótuðum hugmyndum ríkisstjórnar um hugsanlega aðstoð við lánastofnanir ef svo færi að ef til vill kæmi til þess að Alþingi þyrfti að fjalla um málið.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að fréttin fjallar um uppreisn Alþingis gegn tillögu sem ekki er til vegna atburða sem ekki hafa orðið.  

Þrátt fyrir það að þessi vonda ekki frétt sé jafn fáránleg og hún er í raunveruleikanum þá verður að bregðast við henni vegna þess vantrausts sem er ríkjandi í þjóðfélaginu á fjármálastofnunum og Alþingi.  


Sjálfstæðisflokkurinn sterkasta þjóðmálaaflið

Niðurstaða kosninganna er ótvírætt  að Sjálfstæðisflokkurinn er sterkasta þjóðmálaaflið. Þvert á hrakspár þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn mun meira fylgi og sýndi meiri styrk, en ímyndarfræðingar fjölmiðlanna höfðu haldið fram vikum fyrir kosningar. Þá verður ekki annað séð en að frásagnir af dauða fjórflokksins séu stórlega ýktar svo vísað sé til orða Mark Twain þegar hann las andlátsfregn sína í víðlesnu dagblaði.

Sjálfstæðísflokkurinn tapar fylgi í Reykjavík en þó minna fylgi en spáð hafði verið. Þegar rýnt er í tölurnar kemur fram að þeir flokkar sem tapa hlutfallslega mestu í Reykjavík eru Vinstri Grænir og Framsóknarflokkurinn, sem tapa nánast öðrum hvorum kjósanda. Athyglisvert er að hlutfallslega er tap Samfylkingarinnar meira í Reykjavík en Sjálfstæðisflokksins.

Í Hafnarfirði vann Sjálfstæðisflokkurinn góðan sigur og er í með hreinan meiri hluta í Garðabæ, Álftanesi, Seltjarnarnesi, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerði, Árborg og Vestmannaeyjum. 

Hvernig sem ímyndarfræðingarnir og vinstri sinnaðir fjölmiðlamenn vilja snúa málum þá liggur samt fyrir að staða Sjálfstæðisflokksins er sterk og  það er engin flokkur sem kemur jafn sterkur út úr þessum sveitarstjórnarkosningum og Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er alltaf þannig í sveitarstjórnarkosningum að gengi hefðbundinna stjórnmálaflokka er misjafnt og þeir tapa sumsstaðar og vinna annarsstaðar.  Þar skipta oftast staðbundin mál mestu. Á Akureyri vann L listinn gríðarlegan sigur og sem slíkur er L listinn stóri sigurvegari kosninganna.  Miðað við það sem forustumaður L listans sagði þegar úrslit lágu fyrir þá byggist gengi flokksins fyrst og fremst á svæðisbundinni afstöðu í bæjarmálum á Akureyri.  Ég reikna með að sama eigi við á Akranesi án þess þó að þekkja það nægjanlega vel.

Varðandi Besta flokkinn í Reykjavík þá vísa ég á blogg Ómars Ragnarssonar um kosningaúrslitin í morgun og tek undir þau sjónarmið sem hann setur þar fram. Ég hef á þessari stundu engu við það að bæta.


Hagsmunir Reykvíkinga að Hanna Birna haldi áfram sem borgarstjóri

Í umræðuþáttum á Stöð 2 og Kastljósi kom það í ljós að Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri ber af sem stjórnmálamaður og forustumaður í borgarmálunum.

Í kosningum eiga kjósendur að kjósa í samræmi við hagsmuni sína.  Það skiptir máli að traustur og öflugur málsvari og foringi leiði mál farsællega til lykta á næsta kjörtímabili.  Hanna Birna er eini valkosturinn vilji fólk kjósa hæfasta einstaklinginn sem borgarstjóra sinn. Málefnaleg frammistaða hennar sýnir það ótvírætt. Í störfum sínum sem borgarstjóri hefur hún  þegar  sýnt að hún er í fremstu röð þeirra sem gegnt hafa störfum sem borgarstjóra í Reykjavík.

Það er ljóst að hagsmunum Reykvíkinga verður vel borgið undir forustu Hönnu Birnu.

Mér finnst nauðsynlegt að hvetja kjósendur til að mæta á kjörstað og kjósa áframhaldandi forustu Hönnu Birnu með því að merkja X við D. 

Við þá mörgu sem hafa sagt mér frá óánægju sinni með einstaka frambjóðendur langar mig til að benda á að strika þá út en láta ekki slíka óánægju bitna á hagsmunum sínum með því að kjósa ekki eða kjósa þann versta til að refsa þeim besta. Það má aldrei verða valkostur kjósandans.

Stjórnmál snúast um hagsmuni og framtíðarmöguleika. Þess vegna skiptir máli að velja þann hæfasta til forustu. Allt annað er óafsakanlegt.  X-D


Umfram skyldu

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tveir þingmenn hafa fengið tímabundið leyfi frá þingstörfum meðan mál þeirra eru rannsökuð.  Þetta gera þeir umfram skyldu.  Spurning er hvort að fleiri þingmenn og ráðherrar þurfi ekki miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar fráhvarfs þremenninganna að segja af sér alla vega tímabundið?

Þá vaknar líka sú spurning hvort þetta eigi bara að taka til stjórnmálastéttarinnar. Hvað með löggilta endurskoðendur fjármálafyrirtækja og alla vega sumra vátryggingafélaga. Þurfa þeir ekki að skila inn löggildingu sinni og taka sér leyfi frá störfum meðan mál þeirra eru í rannsókn?

Hvað með þá sem  bera megin ábyrgð á hruninu er ekki eðlilegt að þeir víki úr stjórnum og frá stjórnun fyrirtækjanna sem einu sinni voru þeirra en eru nú á grundvelli nauðasamninga eða yfirtöku banka.

Hvað með fjölmiðlamennina og forsetann sem voru klappstýrur útrársarinnar og öfgafullrar lánastefnu. Þurfa þeir ekki með sama hætti að velta fyrir sér sinni stöðu. Í því sambandi þá er spurning hvort útvarpsstjóri ætlar að taka málefni fréttastofu til umfjöllunar innan stofnunarinnar miðað við þær forsendur.   Ríkisútvarpið er sagt eign okkar allra. Er ekki rétt að við gerum kröfur til þess um hlutlæga fréttamennsku meir en gert hefur verið?


Enginn er óskeikull

Í fjölmiðlaumræðunni að undanförnu mætti ætla að á morgun birtist skýrsla óskeikulu vitringanna þriggja í Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, sem allt eiga að vita og allan vanda eiga leysa.  Þannig er það ekki. Í nefndinni sitja venjulegir einstaklingar. Dómar þeirra og niðurstaða er ekki endanleg.  Vonandi hefur þremenningunum þó gengið vel að sjá skóginn fyrir trjánum og gera sér grein fyrir hvað voru aðalatriði og hvað aukaatriði.

Fróðlegt verður að sjá hvort að fram kemur í skýrslunni upplýsingar um þá stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og háskólamenn sem voru með einum eða öðrum hætti á mála hjá banka- og útrásarvíkingunum og/eða þáðu af þeim gjafir, styrki eða boðsferðir.  Vilji þjóðin horfast í augu við rauverulega spillingu í þjóðfélaginu þá eru upplýsingar um þetta algjör nauðsyn.

Vítin eru til að varast og vonandi verður skýrsla þessarar rannsóknarnefndar ekki dæmd jafn dauð og ómerk og skýrsla síðustu rannsóknarnefndar sem Alþingi skipaði en í henni sátu þrír einstaklingar sem felldu þunga dóma yfir ákveðnum einstaklingum og stofnunum. Þegar endanlegur dómur gekk í þeim málum fyrir dómstólum stóð harla lítið eftir. Endanlega niðurstaða var sú að á annan tug manna var ranglega ákærður vegna rangra fullyrðinga í skýrslunni og vanþekkingar þeirra sem komu að saksókn málsins.  

Eftir stóðu einstaklingar sem urðu fyrir miklu tjóni og miska vegna rangra aðdróttana í skýrslu þeirrar rannsóknarnefndar. Þeir fengu ekki tjón sitt bætt og þeir sem sátu í nefndinni báru enga ábyrgð ekki frekar en þeir sem sitja í þessari rannsóknarnefnd.

Skýrslan um bankahrunið hefur birst þjóðinni dag frá degi upp á síðkastið í fjölmiðlum nú síðast með stefnu skilanefndar Glitnis banka á hendur tveim af stærstu fyrrverandi eigendum bankans.  Skýrslan sem birtist á morgun verður fyllri og studd ítarlegri gögnum og ég ítreka þá von mína að vel hafi tekist til.

En skýrslan verður fyrst og fremst formlegt innlegg til upplýsinga fyrir fólkið í landinu og til að við getum afgreitt sem fyrst umræðuna um þáið til að geta snúið okkur sem fyrst að núinu og framtíðinni til hagsbóta, vaxtar og auðsældar fyrir íslenska þjóð. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 133
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 4241
  • Frá upphafi: 2604015

Annað

  • Innlit í dag: 120
  • Innlit sl. viku: 3967
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband