Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Ósmekkleg fréttamennska RÚV

Á Stöð 2 og Ríkissjónvarpinu var sagt frá sérstökum vildarkjörum sem bróðir þingmannsins Björns Vals Gíslasonar Vinstri grænum hafði gert við kaup á stórhýsi á Grensásvegi. Þeir sem þekkja til fasteignaviðskipta sjá strax að þarna voru sérstök vildarkjör í boði þrátt fyrir að verð á fasteignum hafi lækkað. Þrátt fyrir það þurfa viðskiptin ekki að vera óeðlileg og þar vantaði upp á eðlilega fréttamennsku. Það eitt að vera bróðir Björns Vals Gíslasonar veldur því ekki sjálfkrafa að viðskipti séu óeðlileg.

Þá var það með endemum að nöfn þeirra Skúla Helgasonar þingmanns Samfylkingarinnar og Sigríðar Önnur Þórðardóttur fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins skyldu vera dregin inn í þessa umfjöllun. Við fyrsta augnakast þá verður ekki séð að um óeðlilega lágt verð hafi verið á þeirra eignum og það að vera eða hafa verið þingmaður gerir hluti ekki tortryggilega nema eitthvað meira komi til.

Það var með miklum ólíkindum að draga Skúla Helgason og Sigríði Önnu inn í umfjöllun um kaup á atvinnuhúsnæði. Fréttin á RÚV var fréttastofunni hvað þau varðaði var ósæmileg.


Aðför að tjáningarfrelsinu?

Blaðamannafélög á hinum Norðurlöndunum segja í yfirlýsingu að tjáningarfrelsi á Íslandi sé í hættu.  Svo er að skilja að Davíð Oddsson ritstjóri sé sú hin mikla ógn við tjáningarfrelsið.

Það er með miklum ólíkindum að forustufólk blaðamanna á hinum Norðurlöndunum  skuli hafa jafn skertan skilning á því hvað átt er við með hugtakinu tjáningarfrelsi og fram kemur í yfirlýsingu þeirra. Því fer að sjálfsögðu fjarri að ráðning Davíðs Oddssonar til starfa sem ritstjóri á Morgunblaðinu hafi nokkuð með tjáningarfrelsið að gera á Íslandi.

Þá hafa uppsagnir blaðamanna hvort sem er á Morgunblaðinu eða annarsstaðar upp á síðkastið  ekkert með tjáningarfrelsi að gera. Blaðamönnunum var ekki sagt upp vegna þess hvernig þeir tjáðu sig.  Á sínum tíma var ég með fastar greinar í Fréttablaðinu en var látinn hætta að skrifa í blaðið vegna umfjöllunar minnar um fyrirtæki eins eiganda blaðsins.  Tjáningarfrelsi mitt var ekki skert með því þó að þessi fjölmiðill vildi ekki hafa meira með mig að gera.

Blaðamannafélögum hinna Norðurlandanna væri sæmra að taka til skoðunar með hvaða hætti fréttum hefur verið miðlað eða í raun ekki miðlað á Íslandi undanfarin ár. Þá kæmust þessir blaðamenn sennilega að raun um að veikasti þáttur lýðræðislegrar umræðu undanfarin ár hafa verið fjölmiðlar í landinu. ´

Við erum eina landið í heiminum þar sem þeim röngu fullyrðingum var markvisst haldið að fólki og er enn haldið marksvisst að fólki í gegn um ákveðna fjölmiðla að ástæða bankahrunsins á Íslandi sé fyrst og fremst stjórnmálamönnum, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti að kenna. Það er gert þó að fyrir liggi óyggjandi upplýsingar um að ábyrgðin er stjórnenda bankanna og stærstu viðskiptavina þeirra sem voru oftar en ekki í hópi eigenda bankanna. 

Vandamálið er ekki að fólk sé svipt tjáningarfrelsi heldur hitt að allt of margt fjölmiðlafólk hefur talið hentugra að miðla þeim upplýsingum sem koma sér vel fyrir eigendur viðkomandi fjölmiðils en gleyma hinum.  Oft hefur því verið meira tilefni fyrir blaðamenn á Norðurlöndum til að tjá sig um íslenska fjölmiðla en núna.


Skilyrðislaus uppgjöf eða nýir tímar?

Jón Baldvin Hannibalsson segir í grein sem hann nefnir “Skilyrðislaus uppgjöf” að undirritaður hafi loks ratað heim í Sjálfstæðisflokkinn og gleymd sé öll gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn út af gjafakvótanum og annarri kerfislægri spillingu og öðru sem hann rekur með þeim hætti sem aflaði honum slíks fylgis sem formanns Alþýðuflokksins að hann fann þann kost vænstan að Alþýðuflokkurinn yrði lagður í dvala og eingöngu tekin úr múmíuhulstrinu þegar fyrrum foringinn þarf að tala.  

Það er rétt að ég hef verið gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn þau 18 ár sem ég hef verið utan hans. Ég taldi óráð að krónan yrði látin fljóta og nauðsyn að marka aðra peningamálastefnu. Ég var og er á móti gjafakvótakerfinu og tel forgangsatriði að vextir og lánakjör í landinu verði með sama hætti og í nágrannalöndum okkar svo nokkuð sé talið. Jón Baldvin veltir fyrir sér hvort Jón Magnússon sé að umbuna “íhaldinu” eða hvort aumingjagæska hans sé komin á svo hátt stig að hann telj eðlilegt að rétta fram sáttfúsa hjálparhönd.  Til skýringar fyrir nafna minn  þá er  hvorki um umbun eða aumingjagæsku að ræða.  

Ég met það svo að nýir tímar séu komnir í Sjálfstæðisflokknum. Ný kynslóð og forusta er að taka við. Hún hefur aðrar áherslur og ég vil taka þátt í þeirri vegferð með henni að beina Sjálfstæðisflokknum á þá braut að hann verði á nýjan leik flokkur allra stétta og starfi í þeim anda mannúðlegrar markaðshyggju sem gerði flokkinn að stórum víðsýnum fjöldaflokki.  

Sumir segja að kjósendur hafi gullfiskaminni, slíkt á varla við um Jón Baldvin. Það er  því merkilegt að maðurinn sem barðist harðast fyrir sameiningu vinstri manna, guðfaðir Samfylkingarinnar, þar sem  Alþýðuflokksmenn, Kommar og Konulistinn runnu saman að mestu leyti, skuli ekki muna að hann lagði áherslu á að með slíkri sameiningu næðu vinstri menn að vera stjórnmálaafl sem væri einhvers megnugt í íslenskum stjórnmálum. Með sama hætti greini ég það nú  þegar vinstri menn boða aukna þjóðnýtingu, aukna skattheimtu og upplausn ríkir í þjóðfélaginu,  að þá beri brýna nauðsyn til að við sem hægra megin erum í stjórnmálum sameinumst um að styrkja Sjálfstæðisflokkinn sem brjótvörn frjásrar atvinnustarfsemi, lýðræðis og allsherjarreglu í landinu.

 

Birt í Fréttablaðinu 24.febrúar. 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 151
  • Sl. sólarhring: 201
  • Sl. viku: 4259
  • Frá upphafi: 2604033

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 3983
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 126

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband