Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Nýja stjórnarskráin

Margra kynlegra grasa kennir í tillögum stjórnlagaráðsins sáluga, en aðstandendur þess telja að þjóðin eigi að lögfesta það eins og Guð hafi sagt það, án þess að breyta um kommu eða punkt. 

Öllu málsmetandi fólki var ljóst, þegar það sá tillögurnar, að þarna var um framsetningu að ræða eins og oft er hjá fólki sem er í lögfræðilegum æfingabúðum iðulega án þess að eiga þangað erindi. 

Einfalt dæmi: 

Ákvæði núverandi stjórnarskrár um sveitarfélög gr. 78

"Sveitarfélög skulu ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir."

Stutt einföld framsetning, sem segir allt sem segja þarf. 

En það var að sjálfsögðu ekki nógu gott fyrir stjórnlagaráðið. 

Í stað þeirrar einu greinar sem er í stjórnarskránni um sveitarfélög koma fjórar greinar í tillögum stjórnlagaráðs og þegar betur er að gáð, þá tryggja þær hvorki sveitarfélögum eða íbúum þeirra neinn sérstakan rétt umfram það sem þessi eina hnitmiðaða grein núverandi stjórnarskrár gerir: 

Í greinum 105-108 í tillögum stjórnlagaráðs segir í 105 gr. að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem að lög ákveða og þau skuli hafa nægjanlega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum. (Ekki er sagt hver eigi að tryggja þeim þessar tekjur) og að tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum.

Í 106 gr. stjórnlagaráðs  segir að á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra (hvaða samtök skyldu það nú vera) eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir komið í héraði svo sem nánar skal ákveðið í lögum. 

Í 107 gr segir að sveitarfélögum skuli stjórnað af sveitarstjórnum (eins gott að taka það fram) og þá að rétti íbúa til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess skal skipað með lögum. 

108 gr. mælir síðan fyrir um að samráð skuli haft við sveitarfélög um undirbúning lagasetningar sem þau varðar. 

Er eitthvað í tillögum stjórnlagaráðs, sem eykur á réttindi sveitarstjórna með þessum langhundi sem ráðið sullar saman umfram það sem kveðið er á um í 78. gr. núverandi stjórnarskrár? Vissulega ekki. Þarna er um að ræða hrófatildur, sem hróflað er saman af fólki oft velmeinandi fólki sem einskonar óskalista, sem er þó ekkert annað og meira en það sem sagt er í tveim línum og einni grein núverandi stjórnarskrár. 

Öllum má vera ljóst, að tillögur stjórnlagaráðs um sveitarstjórnir eru ekki innihaldsríkar og nauðsynlegar umfram það sem er í núverandi stjórnarskrá heldur þvert á móti og dæmi um það að þeir sem settu þetta saman gera sér ekki að fullu grein fyrir hvaða tilgangi stjórnarskrá á að þjóna.   

 


Það sem þú mátt ekki heyra

Hefur þú heyrt það nýjasta um Hunter son Joe Biden forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum?

Sennilega ekki vegna þess að netmiðlar þ.á.m. fésbók hafa komið í veg fyrir birtingu umfjöllunar um Hunter.

Sérkennilegt að Fésbók skuli taka sér slíkt ritstjórnarvald, þegar um er að ræða frétt, sem ótvírætt á erindi til almennings. Hér er ekki verið að ræða um kynþáttafordóma, kynjamisrétti eða annað sem bannfært hefur verið af samfélagsmiðlum. Það er sögð saga af manni sem er og/eða hefur verið eiturlyfjaneytandi og hefur þegið gríðarlega fjármuni frá vafasömu úkraínsku orkufyrirtæki án þess að gera neitt annað en að sitja í stjórn félagsins að nafninu til og vera sonur föðrur síns. 

Sú staðreynd, að maðurinn sem verið er að fjalla um skuli vera sonur forsetaframbjóðandans Joe Biden skiptir hér öllu máli þar sem fésbók hefur ekki bannað umfjöllun um eiturlyfjafíkn eða fjármálaskandala. Fréttin skaðar að sjálfsögðu Joe Biden vegna þess að hún sýnir þá spillingarveröld sem hann hrærist í sem þáttakandi og aðstandandi.

Með því að banna frétt, sem á erindi til almennings og er ekki röng, tekur fésbók sér ritstjórnarvald, sem hlítur að kalla á að settar verði ákveðnari reglur um netmiðla, sem m.a. takmarka rétt þeirra til að útiloka almennar umræður sem eiga erindi við almenning. 

Hvað sem líður stuðningi eða andstöðu við einstaka forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum, þá er hér of langt gengið í ritskoðun og afstöðutöku með einum frambjóðanda og á móti hinum og það í forsetakosningum í sjálfum Bandaríkjunum.

Fróðlegt verður að sjá hvort að ljósvakamiðlar á Íslandi, RÚV og Stöð 2 telja þetta fréttnæmt eða ekki. Ef til vill eru bara neikvæðar fréttir af Trump þess virði að þessir fréttmiðlar telji þær eiga erindi við almenning.


Er eitthvað að gerast í Kína?

Kínaveiran Covid 19, sem byrjaði í Wuhan héraði í lok ársins 2019 hefur leitt til fjölda dauðsfalla, atvinnuleysis, samdráttar og hættu á efnahagslegri kreppu á flestum stöðum í heiminum nema í Kína og Austurlöndum fjær. 

Hvernig skyldi ástandið vera í Kína? Það þarf að grafa eftir fréttum þaðan, vegna þess að helstu fjölmiðlar veraldar segja sömu fréttir og endurtaka hver eftir öðrum og Kína hefur ekki verið til umfjöllunar svo nokkru nemi í langan tíma.

En er eitthvað að frétta frá Kína?

Er það frétt, að í landinu þar sem Kórónuveiran kom upp, skuli engin sérstök vandamál vera í gangi hvað hana varðar? Dánartíðni er um 3 á hverja milljón íbúa eða svipað og hjá okkur, á sama tíma og dánartíðni í Bretlandi er um 630 á hverja milljón íbúa og 660 í Bandaríkjunum og 116 í Þýskalandi.

Efnahagslífið í Kína virðist vera búið að ná fullum styrkleika. Fjöldi flugferða er um 90% af því sem þær voru á sama tíma í fyrra og meiri fjöldi fólks fer á ýmsar skemmtanir núna eins og t.d. bíó en áður.

Síðan er alltaf spurningin hvað mikið er hægt að treysta tölulegum upplýsingum frá einræðisríkjum eins og Kína. Allavega mundi Kína ekki geta dulið það fyrir heiminum, ef veiran geisaði af hörku í landinu og þúsundir væru á sjúkrahúsum eða dánir.

Kína er einræðisríki og þar leyfist ekki nema ákveðin umræða og ákveðin hegðun. Í síðustu viku handtóku yfirvöld móður veirufræðings sem var handtekinn fyrir löngu og heldur því fram, að Covid 19 hafi verið búin til á tilraunastofu. Þetta má ekki segja. Skrýtnu tilvikin í upphafi veiruárásarinnar voru fjölmörg m.a. dularfullt dauðsfall læknis sem hafði varað við málinu og þá hurfu aðilar, sem höfðu haft ákveðnar meiningar. Eitthvað er, sem kínversk yfirvöld vilja ekki að rætt sé um. En Vesturlönd geta ekki samþykkt, að ekki fari fram fullkomin rannsókn á tilurð veirunnar og með hvaða hætti kínversk yfirvöld komu fram í upphafi faraldursins, þegar þeir dreifðu veirunni til alheimsins á sama tíma og þeir takmörkuðu ferðir innanlands í Kína. Þá verður að fara fram ítarleg rannsókn á því hvort að veiran var búin til í tilraunastofu t.d. í Kína eða ekki.

Ef til vill er það fréttnæmasta frá Kína það sem áður er getið um, að veiran er ekki að hrjá þá, þjóðarframleiðslan er nánast sú sama og hún var fyrir veiru og samgöngur eru með hefðbundnum hætti. 

Það er ýmislegt fleira sem þarfnast skoðunar varðandi veiruna m.a. af hverju hún leggst mun léttar á þjóðir Austurlanda fjær en annarsstaðar. Er fólk þar með virkt mótefni eða er eitthvað annað sem getur skýrt það? Þar kæmi e.t.v. líka til skoðunar hvort að veiran hafi verið útbúin þannig, hafi hún orðið til á tilraunastofu.

 


Hvar eru karlarnir?

Í gær var fjallað um geymslu svonefndra menningarverðmæta og malbik í þættinum Kveikur í Ríkissjónvarpinu.

Við umfjöllun um geymslumálin kom á óvart gríðarlegt magn efnis og hluta ríkisvaldinu er ætlað að varðveita. Þrátt fyrir að þátturinn ætti að sýna fram á hve illa væri staðið að geymslumálum, þá kom raunar á óvart hvað vel er staðið að þessum málum víðast hvar miðað við það óhemju magn sem um ræðir. 

Annað sem kom á óvart er af hverju allt það efni sem hægt er að míkrófilma sé ekki míkrófilmað og varðveitt eingöngu með þeim hætti og öðru fargað sem ekki teljast mikilvægir minnisvarðar íslenskrar listar og menningar. 

Í þriðja lagi þá var eingöngu talað við konur enda þær allsstaðar í stjórnunarstöðum á safna og listmunasviðinu.

Þegar fjallað var um malbikið og gæði þess í síðara umfjöllunarefnis Kveiks, var vegamálastjóri, sem er kona líka til andsvara.

Það er ánægjuefni að konur sæki fram og gegni forustu- og stjórnunarhlutverki á sem flestum sviðum í þjóðfélaginu til jafns við karla. Þegar svo er komið að konur hafa haslað sér völl sem stjórnendur til jafns við karla,er þá réttlætanlegt að hafa lög um jafnstöðu kynjana með þeim hætti, að við mat á því hvort ráða skuli konu eða karl til starfa, þurfi sérstaklega að réttlæta það að karlinn var valinn umfram konuna. Sú viðmiðun, sem t.d. réði niðurstöðu í kærumáli gegn Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, á engan rétt á sér lengur og stuðlar frekar að óréttlæti en réttlæti. Við erum á allt öðrum stað en þegar lögin voru samþykkt.

Hinn "kúgaði minnihlutahópur" konur hefur sem betur fer sótt fram og tími er til kominn að af-fórnarlambavæða þennan "kúgaða minnihlutahóp" og viðurkenna að það er ekki um neina lagalega kúgun að ræða gagnvart konum. Við erum fyrst og fremst einstaklingar og það á að velja fólk til starfa vegna hæfileika hvort sem er í pólitík eða öðrum störfum en ekki kynferði. Gamla viðmiðunin á við þjóðfélag sem er ekki lengur til staðar. 


Hvað er vitlegt að gera?

Flestir telja það ávísun á galgopahátt að fara til Spánar vegna þess hve mikið er um Covid smit. En er það svo?

Hér í Valencia skíri og Costa Blanca svæðinu er töluvert minna  um smit en heima á Íslandi. Samt sem áður er engin skimun á landamærunum hvað þá síðari skimun og sóttkví á milli. Flest smit hér eru eins og heima vegna skemmtanahalds um helgar. 

Nánast engin smit greinast í síðari skimun en samt ætlar ríkisstjórnin að framlengja þessu argans bulli til 1. desember. Hvað kostar það fólk að þurfa að hanga heima eftir að það kemur heim í næstum því viku vegna þessa endemis rugls ríkisstjórnarinnar. Hvað skyldu nú margir hafa greinst við síðari skimun og eru það svo margir að það réttlæti þessar aðgerðir? Af hverju spyrja fréttamenn aldrei um það. Hvað kostar þetta margar tapaðar vinnustundir og leiðind án nokkurs vitlegs tilefnis. 

Í kvöldfréttum kom fram, að sóttvarnarlæknir ætlar sér að auka á frelsisskerðingar fólks án þess að það sé skoðað hvaðan smitin koma. Þau koma ekki frá líkamsræktarstöðvum, hárgreiðslustofum eða áhorfendum á íþróttaviðburðum. Meginhluti smitana koma vegna skemmtanahalds í Reykjavík um helgar. Er þá ekki nauðsyn að skoða það en láta aðra mannlega starfsemi í friði. Hvað þá að halda ekki áfram einhverju sem er algjör óþarfi eins og tvöföld skimun á landamærunum - já og þú þarft að borga fyrir þetta rugl. 


Stjórn eða ofstjórn

Fyrir rúmum mánuði ákvað ríkisstjórnin skv. einni af tillögum sóttvarnarlæknis og að boði landsstjórans Kára Stefánssonar, að gera út af við ferðamannaiðnaðinn með tvöfaldri skimun og sóttkví í fimm daga milli skimana. Þetta átti auk herts samkomubanns, upptöku 2 metra fjarlægðarreglu á ný o.s.frv., að leysa vandann vegna skyndilegrar aukningar á Covid smitum. 

Í dag einum og hálfum mánuði síðar liggur fyrir að þessi stefna var röng. Hún stórskaðar efnahag þjóðarinnar og hefur og mun leiða til stórkostlegs atvinnuleysis, fjárhaslegra áfalla og gjaldþrota. En ekki bara það. Það er enginn árangur. Smitum fjölgar. 

Landsstjórinn gerir nú þá kröfu, að beitt verði mun harðneskjulegri aðgerðum og innilokunum. Ríkisstjórnin hefur hingað til farið að tillögum Landsstjórans eins og Guð hefði sagt það. Það væri því ánægjuleg tilbreyting ef ríkisstjórnin hætti því og færi að gegna hlutverki sínu sem ríkisstjórn og móta stefnu. Ekki bara skammtímastefnu heldur langtímastefnu. 

Í fyrsta lagi þarf að skilgreina að hverju er stefnt. Hvert er markmiðið. 

Öll viljum við búa í veirufríu landi. En er það raunhæft markmið.

Gæti verið að sú stefna hafi verið rétt,sem mörkuð var í upphafi að miða við aðgerðir sem koma í veg, að heilbrigðiskerfið ráði ekki við vandann.

Í löndum eins og á Ítalíu og Spáni, þar sem langvinnu útgöngubanni var beitt og grímuskylda innleidd, fjölgar nú smitum á nýjan leik. Niðurstaðan stefna stjórnvalda í þeim löndum voru mistök. Sama er að segja um Bretland. 

Í landi eins og Svíþjóð, sem beitti vægustu skerðingum á frelsi fólksins virðist útkoman í augnablikinu vera ásættanlegust. Þá segja margir. Já en það voru miklu fleiri dauðsföll í Svíþjóð en á hinum Norðurlöndunum. Það er rétt, en á því kunna að vera ýmsar skýringar m.a. sú sem sóttvarnarlæknir þeirra hefur bent á m.a að flensan í Svíþjóð 2019 var mjög væg og rúmlega 1000 færri dóu úr henni en í meðalári eða rúm 20% af þeim sem hafa dáið úr C-19. 

Þjóðarframleiðsla Svía dróst saman um 8% vegna Covid en rúmlega 20% í Bretlandi. Samskonar samanburður við önnur Evrópulönd er Svíum mjög hagstæður. 

Miðað við það sem við vitum og þekkjum í dag, þá virðist skynsamlegt, að móta þá stefnu:

Hvetja borgarana til að gæta sóttvarna m.a. þvo sér um hendur og  halda fjarlægðarmörkum. Skimunum yrði haldið áfram á landamærunum þessvegna tvöfaldri en ekki sóttkví á milli. Þessu yrði ekki breytt nema svo ólíklega vildi til að heilbrigðiskerfið réði ekki við vandann.

Er ásættanlegt að frjálst þjóðfélag gangi lengra en þetta þegar það liggur fyrir að sjúkdómurinn er nú ekki alvarlegri en svo, að langt innan við hálft % af þeim sem veikjast þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og afleiðingarnar fyrir flesta eru ekki alvarlegri en í venjulegri flensu. 

 

 

 

 


Blessuð börnin og ofbeldi ráðamanna

Halldór Laxnes skilgreindi vel sérkennilega náttúru íslendínga í rökræðum: 

"Því hefur verið haldið fram, að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um titlingaskít sem ekki kemur málinu við;en verði skelfingu lostnir og setji hljóða þegar komið er að kjarna máls."

Ákvörðun var tekin af löglegum yfirvöldum að vísa egypskri fjölskyldu úr landi í samræmi við íslensk lög og alþjóðalög. Ljóst var frá upphafi, að egypska fjölskyldan átti ekki rétt á alþjóðlegri vernd, en með fölskum málatilbúnaði og hatrammri varnarbaráttu lögmanns fjölskyldunnar var málið teygt og togað og dregið þannig að niðurstaða lá loks fyrir 15. nóvember 2019. Fjölskyldan átti þá að fara brott. Sú staðreynd að hún skyldi ekki fara var alfarið á hennar ábyrgð ekki annarra. 

Loksins þegar ríkisvaldið ákvað, að sjá til þess, að lögum væri framfylgt, hófst sérkennilegur farsi þar sem lögmaður fjölskyldunnar leiddi málatilbúnaðinn. Málið var tekið upp í nefnd Alþingis. Ýmsir aðilar með lögmann fjölskyldunnar í broddi fylkingar halda því fram, að verið sé að brjóta á fjölskyldunni, þó engin lög eða reglur séu færðar fram því til staðfestingar.

Enn byrjar síðan nýr þáttur leikritsins, þar sem því er haldið fram að verið sé að brjóta rétt á börnum. Hvaða réttur skyldi það nú vera? Hvað hafa þeir sem þannig tala fært fram máli sínu til stuðnings. Ekki neitt. Vegna þess, að það er ekki verið að brjóta rétt á börnunum. Allt hefur verið gert hvað hana varðar með faglegum hætti á grundvelli laga og réttar. 

Íslendingar eru góðgjarnt fólk og þessvegna á þessi falski áróður um að verið sé að brjóta rétt á börnunum greiðan aðgang að mörgum Talsmenn þeirra sjónarmiða gæta þess þó jafnan, að ekki sé horft á heildarmyndina og skoðað í alvöru hvort það sé verið að brjóta rétt á börnum og/eða valda þeim einhverjum varanlegum vanda. 

Sé svo, að flutningur barna egypsku fjölskyldunnar til heimalands síns, leiði af sér einhver vandamál fyrir þau, eins og haldið er fram, þar sem þau hafi myndað slík tengsl við Ísland á rúmu ári, hvað þá með börn námsmanna sem þurfa þessvegna að taka sig upp með foreldrum sínum og jafnvel þvælast á milli þriggja eða fjögurra þjóðlanda í æsku. Eru foreldrarnir að brjóta rétt á þeim í hvert skipti sem það gerist? Foreldrarnir mega þá eiga von á að börnin lögsæki þau þegar fram í sækir fyrir slík mannréttindabrot.

Hvað með börn starfsfólks utanríkisþjónustunnar eru þeir að brjóta rétt á börnum sínum með því að taka skipun í nýtt starf í öðru landi þar sem börnin hafa fest ákveðnar rætur?

Eru líkur á að börn námsmanna og starfsfólks utanríkisþjónustunnar bíði varanlegt tjón vegna þessara meintu brota á rétti barna með tilflutningi milli landa skv. því sem talsmenn egypsku fjölskyldunnar halda fram að gildi um þau. 

Þeir sem til þekkja vita að það eru lítil vandamál því samfara að börn flytjist á milli landa eða ferðist í flugvélum, ekki frekar en fullorðnir. Í tilviki barnana eru þau oftast fljótari að aðlaga sig en hinir fullorðnu. Þessi málatilbúnaður um að verið sé að brjóta rétt á börnum í þessu tilviki eða valda þeim tjóni er rangur og stenst ekki rökhugsun. 

Þá kemur að lokakaflanum. Egypska fjölskyldan ákveður enn einu sinni að brjóta gegn íslenskum lögum og fer í felur þegar framfylgja á reglum réttarríkisins um að vísa henni úr landi og það verður ekki gert nema með atbeina lögreglu. Getur frjálst og fullvalda ríki sætt sig við slíkt?

Staðreyndin er því sú, hvaða moldviðri sem reynt er að þyrla upp, að lögleg yfirvöld hafa fjallað um mál egypsku fjölskyldunnar á grundvelli mannúðar og hún hefur fengið að njóta vafans í hvívetna, vegna þess heldur hún áfram lögbrotum og þykist ætla að vinna rétt með því. Það er merkilegt, að slíkt athæfi skuli eiga sér talsmenn meðal forustu þjóðkirkjunar og vinstri sinnaðra stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokka sem bera alla ábyrgð á því hvernig þessi lög eru og þegar á að framfylgja þeirra eigin lögum þá fordæma þeir að farið sé að reglunum sem þeir sjálfir stóðu að. 

Því miður er réttarvarslan slík í þessu þjóðfélagi að lögreglumaður sem tjáði sig á fréttamiðli í gær sagði aðspurður að lögreglan hefði ekki hugmynd um hvað mikill fjöldi þeirra sem hefði verið vísað brott úr landinu væru hér enn. Væri ekki rétt að taka upp umræðu um að breyta lögum og verkfellum þannig að þeim sem vísað er úr landi væri gert að gera það og fluttir úr landi strax eftir að lokaúrskurður gengur í máli þeirra. 

Núverandi verklag býður upp á almannahættu eins og dæmin sýna erlendis frá. 

Meðal annarra orða íbúar Egyptalands eru 90 milljónir og helmingur þjóðarinnar 45 milljónir eru undir 25 ára aldri. Það er auðvelt að kaffæra fámenna Ísland á stuttum tíma ef fjöldi fólks þar í landi fær þau skilaboð að þeir sem komast inn í landið fái að vera hér það sem eftir er þessvegna á kostnað skattgreiðenda ef ekki vill betur. 


Hvernig væri að taka afstöðu á grundvelli málavaxta.

Í nokkra daga hafa fjölmiðlar og ýmsir spekingar farið hamförum yfir því að nú eigi að vísa egypskri fjölskyldu úr landi. Margir hafa gripið eitthvað á lofti sem þeir telja réttlætismál, án þess að kynna sér hvað er um að ræða. Einn þeirra er þingmaður Samfylkingarinnar, sem segir að ástæða á að málsmeðferð hefði dregist hefði verið út af Covid og taldi að með því ætti ólöglegu innflytjendurnir að vinna einhvern rétt. 

Staðreyndin er nú samt sú, að yfirvöld afgreiddu umsókn egypsku fjölskyldunar endanlega í byrjun nóvember. Þá var Covid ekki komið til sögunnar. Covid hafði því ekkert með afgreiðsluna að gera og það eina sem skiptir máli er að egypska fjölskyldan hefur ekki fylgt fyrirmælum um að koma sér úr landi í rúmar 10 mánuði. 

Er það virkilega svo, að fólk telji að fólk eigi að vinna einhvern rétt með því að óhlýðnast fyrirmælum yfirvalda?

Útlendingalögin eru eins vitlaus og þau eru vegna þess, að þeir sem vilja hleypa nánast öllum ólöglegum innflytjendum inn í landið réðu meðferð málsins á Alþingi. Þegar fólki sem hefur engan rétt til að vera hér skv. lögunum, sem vinstra liðið ber alla ábyrgð á er vísað úr landi  á grundvelli laganna, þá stekkur þetta fólk upp og hrópar og hamast gegn því að farið sé eftir lögunum, sem þetta sama fólk ber alla ábyrgð á. 

Staðreyndin er sú, að það er ekkert sem afsakar það að egypsku fjölskyldunni verði ekki vísað úr landi þegar í stað. Verði það ekki gert yrði það hinsvegar til ámælis fyrir ríkisstjórnina og mundi leiða til þess, að fleiri úr múslimska bræðralaginu reyndi að komast til landsins. Væri það til góðs fyrir land og þjóð?

 

 


Þjóðkirkjan

Franska tímaritið Charlie Hedbo birtir grínmyndir af ýmsum gerðum, m.a. af Múhameð, Jesú og Guði almáttugum í því skyni að hæðast að þeim og trúarskoðunum fylgjenda þeirra. Íslenska þjóðkirkjan hefur hafið kynningarherferð fyrir börn í anda Charlie Hedbo þar sem Jesús er teiknaður sem einhverskonar kynskiptings fígúra. Á ritstjórn Charlie Hedbo vita menn hvað þeir eru að gera. Spurning er hinsvegar hvort þeir á biskupsstofu vita hvað þeir eru að gera. Viti þeir ekki hvað þeir eiga að gera getur biskup og taglhnýtingar hennar notið þess sem Jesú sagði á krossinum.

"Guð fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra".

Áður en kirkjuþing fyrir árin 2019 og 2020 hófust um síðustu helgi lá fyrir, að fjölda kristins fólks í þjóðkirkjunni var ofboðið með hvaða hætti þjóðkirkjan fór fram með myndbirtingunni af kynskiptings Jesú og fyrirhugaðri kynfræðslu fyrir börn og unglinga á forsendum samtakanna 78, þ.á.m. kvalalosta. Þrátt fyrir það þótti biskupi og hennar fólki rétt að hvika hvergi. Þá vissu þau líka hvað þau voru að gera og duttu þar með úr náðarfaðmi frelsarans. 

Ætla mátti, að á kirkjuþingi mundu verða snarpar umræður um málið. En svo varð ekki. Það sýnir e.t.v. betur en nokkuð annað hvar kirkjan er stödd. Það er enginn Kaj Munk eða Dietrich Bonhofer innan kirkjunnar, sem er tilbúinn að verða við ákalli Jesú um að menn taki sinn kross og beri hann.

Þessvegna varð til loðmullulegasta yfirlýsing,sem sést hefur frá nokkurri samkomu á Íslandi fyrr og síðar:

"Kirkjuþing 2020 þykir afar miður að jesúmynd í auglýsingu um sunnudagaskóla kirkjunnar hafi sært fólk. Ætlunin var sú að undirstrika fjölbreytileikann en hvorki særa fólk né ofbjóða."

Kirkjuþing segir þetta í lagi, en æ ef það særir ykkur þá finnst okkur það leiðinlegt. Er það skoðun Þjóðkirkjunnar að mikilvægast sé að leggja áherslu á fjölbreytileikann á kynferðissviðinu og mæla sem mest með honum? Á slíkt sértakt erindi við uppfræðslu sunnudagaskólabarna?

Stendur kristin trú ekki fyrir annað en sérstakar áherslur á kynhneigð fólks og kynlíf. Er fagnaðarboðskapur hins sagnfræðilega Jesú ekki inntakið í boðun Þjóðkirkjunnar? Sé ekki svo, hvaða þóknanlegan grundvöll hefur Þjóðkirkjan þá til að starfa í þjóðfélaginu sem kristinn söfnuður. Af hverju eiga skattgreiðendur að standa undir þessum söfnuði? 

Á Kirkjuþingi var einnig rætt um loftslagsbreytingar og ályktað á svipuðum forsendum og samtökin extinct rebellion, þá var ályktun um að opna landamærin fyrir ólöglegum innflytjendum í anda no border samtakanna, vísað til nefndar. Hvorutveggja sýnir að Þjóðkirkjan er  að breytast í stjórnmálasamtök úr því að vera kirkja Jesú Krists.

Í Nígeríu hafa tugir þúsunda kristinna manna verið teknir af lífi á undanförnum árum vegna trúar sinnar. Það sem liðið er af þessu ári hafa meir en 1.200 kristins fólks verið tekið af lífi vegna trúar sinnar í Nígeríu og álíka fjöldi hlotið varanleg örkuml vegna trúarinnar, ungum kristnum stúlkum er einnig rænt í stórum stíl. Þetta er bara í Nígeríu. En það er hart sótt að kristnu fólki víða í heiminum og tugir þúsunda kristinna eru drepin árlega vegna trúar sinnar. Í Nígeríu og víðar eru til kennimenn eins og Munk og Bonhofer, sem bera sinn kross fyrir trúna og meðbræður sína jafnvel þó það kosti þá lífið.

Ég hef ítrekað skorað á biskup og íslensku þjóðkirkuna að taka sérstaklega upp málefni kristins fólks sem sætir ofsóknum í heiminum, en hún hefur engan áhuga á því. 

Íslensku Þjóðkirkjunni er sama um ofsóknir gegn kristnu fólki og sér ekki neina ástæðu til viðbragða. Engin tillaga hefur komið fram um að aðstoða sérstaklega kristið fólk sem býr við raunverulegar ofsóknir. Engin tillaga um að taka við kristnum fjölskyldum sem sæta ofsóknum. Nei það á ekki upp á pallborðið hjá Þjóðkirkjunni og þessum furðulega biskup hennar. Örlög kristins fólk sem sætir ofsóknum skiptir þessa pópúlista ekki máli.

Á sama tíma ályktar Þjóðkirkjan að bjóða eigi múslima sem hingað koma á vegum smyglhringja með ólöglegum hætti velkomna þrátt fyrir að innan við 10% þeirra sem þannig koma séu í einhverri hættu og nánast enginn sem býr við sömu ógn og hundruð þúsunda kristins fólks í löndum múslima.

Í ljósi asnasparka biskups og umræðunnar á síðasta Kirkjuþingi og þá frekar skorts á umræðunni á kristið fólk þá lengur samleið með þessum söfnuði sem nefnist Þjóðkirkja. 


Egypska fjölskyldan

Í gær hófst lokaþátturinn í leikritinu um Egypsku fjölskylduna í fréttatíma Stöðvar 2. Áður hafa verið sýndir samskonar lokaþættir leikrita m.a. um albönsku fjölskylduna og afgönsku fjölskylduna o.s.frv. o.s.frv.

Fyrsti þáttur leikritsins: Egypska, albanska eða afganska fjölskyldan kemur til landsins og óskar eftir alþjóðlega vernd, sem hún á engan rétt á. Búinn er til saga, sem stenst ekki þegar betur er að gáð (semsagt lygi). Fjölskyldan nýtur fáránlegra útlendingalaga, fær húsnæði, dagpeninga og læknisaðstoð frá skattgreiðendum. Í ljós kemur að fjölskyldan á ekki rétt á alþjóðlegri vernd og er vísað úr landi. 

Annar þáttur leikritsins:Synuninni er mótmælt og vísað til úrskurðarnefndar og málið rekið þar á lögfræðilegum forsendum á grundvelli vitlausu útlendingalaganna, á kostnað skattgreiðenda. Niðurstaðan skv. íslenskum lögum og rétti,: Egypska fjölskyldan á ekki rétt á alþjóðlegri vernd á Íslandi. 

Þriðji þáttur leikritsins: Lögmaður egypsku fjölskyldunnar kemur í einhliða fréttþátt á Stöð 2 og lýsir fjálglega hvílíkt óréttlæti það sé, að fara skuli eftir íslenskum lögum, sem þó eru hvað vilhöllust hælisleitendum í okkar heimshluta. Vísað er til þess, að á þeim tíma sem honum hefur tekist að tefja málið allt á kostnað íslenskra skattgreiðenda, hafi fjölskyldan myndað tengsl og börnin tali hrafl í íslensku. Börnin fá síðan sinn skerf í þessari einhliða frétt. 

Lokaþáttur leikritsins er síðan mótmæli við dómsmálaráðuneytið og þess freistað að fá ráðherra dómsmála til að kikna í hnjáliðunum og víkja til hliðar allri málsmeðferðinni og íslenskum réttarreglum. Geri ráðherra það ekki verður flogið með egypska fjölskyldan til Egyptalands á kostnað íslenskra skattgreiðenda og úti er ævintýri. 

Fari hinsvegar svo, að ráðherra dómsmála kikni í hnjáliðunum og ómerki allt það sem undirmenn hennar hafa gert á grundvelli íslenskra laga, þá heldur egypska fjölskyldan áfram að búa á Íslandi á kostnað skattgreiðenda og fer til Egyptalands eftir hentugleikum í fríum og til að rækta fjölskyldutengsl. 

Skyldi endalaust vera hægt að blekkja fólk til fylgis við málstað kerfisbundins smygls á ólöglegum innflytjendum til landa Evrópu á þeim grundvelli að um mannúðarmál sé að ræða? 

Síðustu 20 mánuði hafa álíka margir hælisleitendur fengið hæli á landinu og íbúar Blönduóss. Munurinn er sá, að íbúar Blönduóss þurfa að vinna fyrir sínu daglega brauði, húsnæði o.s.frv. en skattgreiðendur borga þetta og meira til, að mestu til frambúðar fyrir hælisleitendurna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 141
  • Sl. viku: 2550
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2349
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband