Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Í þágu mannréttinda

Að sjálfsögðu er það heiður fyrir fámenna þjóð eins og Ísland að eignast forseta Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassbourg. Róbert Spanó er vel að þessum heiðri kominn. Þessvegna kemur það fólki illa, að sjá hann falla í þá gryfju, að samsama sig með ofbeldisöflunum í Tyrklandi og þykja sér sæma að þiggja upphefð frá Erdogan Tyrklandsforseta.

Róbert Spanó fór til Tyrklands til að taka við heiðursviðurkenningu úr hendi þeirra, sem takmarka tjáningarfrelsi og fangelsað blaða- og fréttafólk hundruðum saman. Dómarar hafa þurft að víkja fyrir þeim sem eru þóknanlegir yfirvöldum og fólk er ofsótt vegna skoðana sinna.  

Miðað við þessar aðstæður var vægast sagt sérkennilegt að forseti við mannréttindadómstól teldi rétt að heimsækja Tyrkland til að leggja blessun sína yfir aðgerðir stjórnvalda. 

Ó ekki segir glaðbeittur þingmaður Vinstri Grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Nýkomin frá því að herja á Pólverja fyrir að neita að kenna kynfræðslu í skólum á grundvelli sjónarmiða kynskiptinga, heldur hún því fram, að það sé í góðu lagi fyrir Róbert Spanó að fara til ofbeldismannsins í Istanbul, af því að þá færi hann fram sjónarmið mannréttinda gagnvart ofbeldinu. 

Þingmaðurinn hafði greinilega ekki kynnt sér það sem Róbert Spanó sagði í Tyrklandsheimsókn sinni. Í ræðu sinni þ.3. september s.l. í höfuðborg Tyrklands í Ankara fjallar hann m.a. almennt um mannréttindi,reglur laganna, lögbundna stjórnsýslu, sjálfstæði dómstóla. Þar segir hann m.a.

"það skiptir miklu máli fyrir tyrkneska dómara, að halda áfram með áhrifaríkum hætti að fara eftir og gefa þessum grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar líf." 

Með þessu tekur forseti Mannréttindadómstólsins afstöðu með tyrknesku ofbeldisstjórninni og segir í raun að tyrkneskir dómarar hafi haft grundvallaratriði stjórnarskrár og mannréttinda í heiðri. Róbert vék að því í ræðu sinni að dómstóllinn hefði til meðferðar ákveðin mál sem varðaði dómara frá Tyrklandi en sagðist stöðu sinnar vegna ekki geta vikið að þeim málum eða tekið afstöðu til þeirra. 

Hvað stendur þá eftir? Forseti Mannréttindadómstóls Evrópu fer til Tyrklands og víkur ekki einu orði að mannréttindabrotum Tyrkja, en talar almennum orðum um mannréttindi. Rússínan í pylsuendanum er síðan að gefa dómarastétt landsins, sem hefur böðlast áfram í þágu Erdogan, ágætiseinkunn eins og sést á tilvitnuðum orðum hér að frama. 

Við sem þjóð eigum að gleðjast yfir því þegar Íslendingar fá verðskuldaða upphefð eins og Róbert Spanó í þessu tilviki, en við eigum líka að gera kröfur til þeirra. Þeir eru andlit þjóðar okkar út á við að mörgu leyti og við eigum að ætlast til mikils af þeim. Þessu sárari verða því vonbrigðin með vafasama framgöngu íslenskra trúnaðarmanna á erlendum vettvangi. 

 


Vér einir vitum

Vígorð einvaldskonunga og einræðisherra var og er "Vér einir vitum" á síðari tímum hefur það verið hlutskipti háskólamenntaðra "sérfræðinga" að taka sér þessi orð í munn eða njóta slíks átrúnaðar eins og arfagkonungar gerðu forðum. Enda þurfti þá ekki frekari vitnanna við.

Í C-19 faraldrinum hafa fjölmiðlar, heilbrigðisyfirvöld og margir stjórnmálamenn farið hamförum, þannig að valdið hefur ofsahræðslu meðal almennings, sem hefur sætt sig við innilokanir og aðrar frelsisskerðingar vegna átrúnaðar á óskeikulleika "sérfræðinga". 

Ríkisstjórn Íslands gafst upp á því að stjórna landinu eða hafði ekki til þess kjark og fól sóttvarnarlækni og síðan ásamt Kára Stefánssyni, að taka ákvarðanir fyrir sína hönd að vísu yfirstimplaðar af viðkomandi stjórnvaldi, sem fór í framhaldi af því í felur eins og henni kæmi málið ekki við. 

Brugðist var við andófi við nýjum allsherjarreglum í boði sóttvarnaryfirvalda með því að kalla andólfsfólk, kverúlanta, fólk, sem viðurkenndi ekki vísindi og í versta falli til að sýna hverskonar úrhrök hér væri á ferðinni "Trumpista" Síðan komu sérvaldir hamfarahagfræðingar í hópin til að tvístimpla aðgerðirnar um raunverulega lokun landsins, efnahagslegar hamfarir og aukna fátækt og atvinnuleysi.

Nú bregður svo við, að margt fólk lætur ekki bjóða sér þetta lengur og skynjar, að það er falskur tónn í áróðrinum. Hættan er í fyrsta lagi ekki eins mikil og látið hefur verið í veðri vaka. Til að mynda deyja nú fleiri í Bretlandi vegna sumarhita en vegna C-19. Í öðru lagi eru engin markmið eða stefna sett fram varðandi aðgerðirnar. Í þriðja lagi eru vísindin að baki þeim ekki ótvíræð og í fjórða lagi þá brjóta þær gegn lögum. 

Stórséníið skemmtilegasti maður þjóðarinnar Óttar Guðmundsson nálagast þetta með háði, sem honum einum er lagið. Bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi Karl Pétur Jónsson bendir réttilega á að markmiðin að baki ráðstöfununum og stefnan sé óviss. Einn fremsti lögmaður landsins Reimar Pétursson segir á vef Fréttablaðsins, skoðanir, að sóttvarnaraðgerðirnar nú brjóti í bága við stjórnarskrá og er þá í hópi með lögfræðingum, sem hafa bent á að ekki sé gætt meðalhófs í aðgerðum ríkisvaldsins og að öllum líkindum sé ekki lagagrundvöllur fyrir þeim. Seðlabankastjóri gefur greinilega lítið fyrir álit hamfarahagfræðinga þjóðarinnar um einhliða tap þjóðfélagsins af því að leyfa ferðafólki að koma til landsins og segir slíka útreikninga út í hött. 

Einvaldsstétt sóttvarnarsérfræðinga með ríkisstjórnina í sínu rækilega taumhaldi getur því ekki lengur fordæmt þá sem tjá sig um málið gegn niðurstöðum þeirra, sem kjána, Trumpista eða fólks í afneitun.

Í dag rekur Jón Ívar Einarsson prófessor við læknadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunu í grein í Morgunblaðinu, enn einn naglann í fráleitt regluverk veirutríósins og Kára. Jón bendir á, að dánartíðni vegna sóttarinnar sé mjög lítil og ýmislegt annað í þjóðfélaginu sé mun hættulegra. Þá bendir hann á, að það sé óraunhæf útópía að búa í veirufríu landi og það sé skynsamlegra að gæta meðalhófs og vernda lýðheilsu, en jafnframt að hlúa að frelsi einstaklingsins og finna leiðir til að lágmarka skaðann fyrir alla. Hér talar maður sem hefur ekki síðra vit á því sem hér er um að ræða heilsufarslega en veirutríóið og Kári. 

Ég hef hér vísað í skrif tveggja lækna, seðlabankastjóra sem er hagfræðingur og bæjarfulltrúa, sem allir sýna fram á með skynsamlegum öfgalausum málflutningi hversu glórulausar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í sóttvarnarmálum.

Ríkisstjórnin verður að fara að stjórna landinu út frá þeim forsendum sem Jón Ívar og Reimar Pétursson tala um, að lágmarka skaðann fyrir alla. Þessvegna á ríkisstjórnin þegar í stað að marka stefnu í samræmi við lög landins þar sem mannréttindaákvæði stjórnarskrár eru virt og afnema þær reglur, sem leiða til stórkostlegs atvinnuleysis, fjöldagjaldþrota og skertrar lýðheislu fólks í framtíðinni. Ríkisstjórnin hefur enga afsökun fyrir að bregðast ekki strax við til að efla þjóðarhag.  


Að vera pínulítið óléttur

Einhverntímann var sagt, að fólk væri annaðhvort ólétt eða ekki. Það væri ekki hægt að vera pínulítið óléttur. 

Svo virðist hinsvegar að það sé hægt að vera pínulítið smitaður af C-19 veirunni miðað við það sem landlæknir segir: Hún sagði í daglegum sjónvarpsþætti veirutríósins í dag, að einu skýring á því af hverju veiran nú legðist mun léttara á fólk en í vor væri ef til vill sú, að fólk fengi ekki eins mikið magn af veirunni í sig vegna sóttvarna. 

Er það ekki svo að annaðhvort smitast fólk eða ekki. Er hægt að fá meira eða minna smit eftir atvikum? Miðað við þessa nýju kenningu landlæknis, þá ætti að vera komin upp virk leið til að leysa C-19 vandann í eitt skipti fyrir öll. Þannig er þá hægt að smita fólk hæfilega lítið þannig að það fyndi ekki fyrir þessu og myndaði mótefni. Málið leyst. 

En að sjálfsögðu er það ekki svo. 

Hræðsluáróðrinum verður að viðhalda. Af hverju má ekki viðurkenna, að það sem nú er í gangi sem ný Covid smit leggjast almennt ekki þyngra á fólk en flensusmit. Frá því var greint í Daily Telegraph í gær, að fleiri deyja nú vegna sumarhita í Bretlandi en vegna Covid. Raunar er þessi seinni bylgja það væg, að engin þörf er fyrir sérstakar ráðstafanir. Þó fæstir vilji smitast og sjálfsagt sé að fólk viðhaldi almennum smitvörnum. 

Af hverju er veirutríóinu og Kára Stefánssyni svona mikið í mun að viðhalda óttanum og knýja fram ráðstafanir sem kosta hundruði milljarða? Ráðstafanir, sem munu valda verri lífskjörum, þrátt fyrir að meiningin sé að leggja stóran hluta byrðana í núinu á ungabörn og ófædda.  

Ber ríkisstjórnin ekki ábyrgð á því að starfa skv. heilbrigðri skynsemi og aflétta ónauðsynlegum frelsisskerðingum þegar í stað og segja fólki þann sannleika að miðað við þessa seinni bylgju C-19 faraldursins, þá er hættan á dauða eða alvarlegum afleiðingum vegna sjúkdómsins svo lítil, að engin ástæða sé til að halda þjóðfélaginu öllu í helgreipum vegna ógnar sem er minni en við höfum ítrekað staðið frammi fyrir án þess að skerða frelsi borgaranna. 


Fyrrum formaður Viðreisnar skákar Samfylkingunni út í horn í fáránleikanum

Stofnandi og fyrsti formaður Viðreisnar skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið undir heitinu "Ég er ekki rasisti en..

Greinarhöfundur telur,að Viðreisn eigi ekki frekari atkvæða von hjá Sjálfstæðisfólki eða fólki hægra megin við miðju og jafnvel á miðju stjórnmálanna og því sé helst atkvæðavon að höfða til hefðbundins fylgis Samfylkingarinnar og yfirbjóða Samfylkingarfólk í rangnefnum og merkimiðapólitík.

Greinin er árás á skrif formanns Miðflokksins um samtökin BLM.  Greinarhöfundur telur Sigmund slíkt úrhrak að heimilt sé að hengja merkimiða ófrægjingar á hann m.a. að hann sé rasisti.

Skilgreiningar greinarhöfundar á því á hverja skuli hengja rasistaheitið er athyglisverð. 

Greinarhöfundur telur að gulu stjörnu rasismans skuli hengja á alla þá, sem segi: Öll líf skipta máli, en ekki bara svört. Fáir hafa slegið met fáránleikans jafn rækilega. 

Þá segir, að þeir sem þannig tali séu slægir stjórnmálamenn, sem séu að fiska í gruggugu vatni. Greinarhöfundi kemur annaðhvort ekki til hugar eða hann telur ekki pólitískt praktískt að nefna það, að einhverjir séu til, sem fari ekki í kynþáttaaðgreiningu og telji öll líf óháð því hvers litar og kynþáttar fólk er skipti máli. Nei að mati greinarhöfundar eru þeir sem þannig tala rasistar. Hlutum er snúið á hvolf eins og sósíalistum og systurflokkum þeirra fasistum og nasistum hefur tekist betur að gera en nokkrum öðrum.

En þetta er ekki nóg greinarhöfundur hefur öðlast sýn á því hvers konar skepnur það eru, sem tala um að öll líf skipti máli og eru þar af leiðandi rasistar og því fylgir að mati greinarhöfundar að slíkt fólk er: marhnútar, afætur, talar háðslega um "góða fólkið", rétttrúnaðinn og fórnarlambamenningu. En ekki nóg með það svona dýrslegar skepnur sem segja að öll líf skipti máli geri líka gys að konum, og fötluðum í góðra vina hópi.

Jafnan er fullkomin og skilgreiningin slík að ólíklegt verður að telja að helstu hugmyndafræðingar Samfylkingarinnra Logi formaður og Ágúst frændi minn Ágússon nái að toppa hana.


Bregðumst við af skynsemi en ekki vegna ótta.

C-19 er vond sótt, en fjarri sú versta sem gengið hefur yfir veröldina eða er til staðar. Það sem gerir C-19 sérstaka eru viðbrögðin við veirunni, sem eru fordæmalaus. 

Í henni veröld er það mannlegt, að óttast það óþekkta. Jafnvel þó okkur stafi meiri ógn af hinu þekkta, þá vekur það ekki eins mikla óttatilfinningu. Í hartnær hálft ár hefur dunið yfir fólki um veröld víða hvað margir hafi sýkst af C-19 og hve margir hafi dáið. Þessar fréttir hafa valdið verri múghræðslu en þekkst hefur á síðari árum og vegna hennar hefur verið gripið til aðgerða, sem eru líka fordæmalausar. Á sama tíma deyja mun fleiri vegna reykinga og berkla.

Þegar aðgerðir til skerðingar frelsi borgaranna vegna C-19 voru kynntar af veirutríóinu fyrir hálfu ári var markmiðið, að koma í veg fyrir of mikið álag á heilbrigðisþjónustuna. Það markmið náðist og gott betur. Engin hætta er fyrir hendi nú, að einhver breyting verði á því. Kalla þá nokkur smit sem greinst hafa að undanförnu á aukna skerðingu á frelsi landsmanna? Ofangreind markmiðssetning er ekki í hættu þannig að hertar reglur og frekari skerðing á réttindum borgaranna er ekki réttlætanleg útfrá þeim forsendum. Samt situr ríkisstjórnin á fundi til að ræða hertar reglur sem engin þörf er á að svo komnu máli.

Vilji ríkisstjórnin skerða frelsi borgaranna vegna nokkurra smita verður að vera skírt hvert markmiðið er. Á að eyða veirunni úr umhverfinu? Slíkt er raunar tæpast gerlegt.

Að sjálfsögðu viljum við öll, að sem fæst smit greinist hér á landi og helst engin, en þannig er það ekki og verður ekki meðan veiran er á meðal okkar og fáir hafa sýkst.

Sóttvarnarlæknir verður stöðu sinnar vegna að gera ítrustu kröfur og það er ljóst að landlæknir telur sig vera í sömu stöðu. En það er ríkisstjórnin sem verður að meta heildarhagsmuni. Ríkisstjórnir eru ekki til að stimpla pappíra og tillögur sérfræðinga eins og þær séu eins og Guð hafi sagt það. Haldi ríkisstjórn að hlutverk hennar slíkt,  þá á hún ekki sjálfstætt erindi lengur við þjóðina. 

Talað er um að taka aftur upp fjarlægðarmörk 2 metra. Slíkt drepur niður eðlileg mannleg samskipti.

Við erum félagsverur, það er það mannlega. Líkamleg nánd við annað fólk er útilokað, að ýta út úr menningu okkar enda værum við þá komin í þursaríki. Vinátta, ást, hluttekning í sorg og gleði, lærdómur börn að leik, hópíþróttir,fundir, allt kallar þetta á líkamlega nánd og það er allt í lagi nema einhver meiriháttar vá steðji að, sem gerir ekki núna. Við viljum vera nálægt hvert öðru og þjóðfélagið er byggt þannig upp, að hjá því verður ekki komist nema að loka á eðlileg mannleg samskipti. Tölvuskjárinn og einangrun heima geta aldrei komið í stað fyrir mannleg samskipti. 

Má vera, að hræðslan við C-19 sé vegna þess hvað við höfum búið við mikið öryggi í langan tíma. Í Afríku og Asíu hefur fólk þurft að glíma við verri veirur en C-19 sem eru enn til staðar en hafa ekki breiðst út til Vesturlanda. Sóttir eins og Sars og Ebóla. Reynt var að hræða fólk með fuglaflensu og svínaflensu, en það tókst ekki þó að fjölmiðlar reyndu sitt besta. Við höfum fengið smitsjúkdóma eins og HIV og Zika, en allar þessar sóttir höfðu mun hærri dánartíðni en C-19. En engin þeirra snerti Evrópu nema HIV og þann sjúkdóm fékk fullorðið fólk ekki nema það tæki meðvitaða áhættu. 

Þó Covid 19 sé hættulegur sjúkdómur þá er dánartíðni fólks undir fimmtugu lægri en í venjulegri flensu og í miklum meirihluta tilvika er sjúkdómurinn mildur og gengur yfir á stuttum tíma eins og Jonathan Sumption fyrrum hæstarréttardómari í Bretlandi benti á í grein í Daily Telegraph 28.júlí s.l. 

Á sama tíma og allir fréttamiðlar í heiminum eyða stórum hluta jafnvel meirihluta fréttatíma í C-19 og hafa gert í hálft ár, þá eru samt fleiri að deyja úr berklum og vegna reykinga.

Það þurfa allir að meta það fyrir sig hvaða áhættu þeir vilja taka í lífinu og hvað sé rétt fyrir okkur að gera miðað við aldur og líkamlegt atgervi. Í sumum tilvikum vill fólk einangra sig, aðrir vilja viðhalda fjarlægðarmörkum og við eigum að virða allar slíkar óskir og varúðarráðstafanir. En ríkisstjórnin á líka að virða óskir okkar hinna, sem viljum lifa lífinu lifandi í samskiptum við annað fólk. Eða eins og ofangreindur Jonathan sagði í grein sinni. Við getum ekki haldið áfram að hlaupa í burtu við verðum að halda áfram með lífið. 

Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna sagði á sínum tíma fræg orð "The only thing you have to fear is fear itself" það eina sem þú þarft að óttast er óttinn sjálfur. Þó það sé ekki allskostar rétt þá skiptir það máli í þessu óttaþrungna umhverfi í skugga C-19 að við missum ekki óttans vegna eðlilega rökhyggju og skynsemi og hlaupum undan og föllumst athugasemdalaust á allar hugmyndir sem hefta eðlilegt frelsi. 


Baráttan við Covid meðalið og afleiðingarnar

Síbylja hamfarafrétta um háa dánartíðni og ógnir vegna Covid veikinnar þrumuðu í hverjum fréttatíma allra helstu fréttamiðla í veröldinni dag eftir dag. Fólk varð felmtri slegið og margir frávita af ótta, sem var eðlilegt miðað við hamfarafréttir, sem áttu sér raunar minni stoð í raunveruleikanum en fram kom í hefðbundnum fréttamiðlum. 

Almenningur í þróuðum lýðræðislöndum krafðist þess, að mannréttindi yrðu skert og lýst var yfir útgöngubanni víða um lönd, sem er eindæmi og afar hættulegt fordæmi. Aðrar þjóðir fóru aðrar leiðir m.a. við. 

Ísland valdi eina af skynsamlegustu leiðunum, sem farin var. Settar voru ákveðnar reglur, en fólki að öðru leyti treyst til að gæta nauðsynlegrar varúðar. Gagnrýna má sumar reglurnar sem settar voru og hvað þær stóðu lengi, en okkur tókst vel með samstilltu átaki fólksins í landinu. Þjóðir sem beitt hafa útgöngubanni eins og t.d. Bretar og Spánverjar hafa ekki náð sama árangri og við í baráttunni við veiruna af hverju svo sem það stafar. 

Útgöngubannið og mjög strangar reglur sem settar hafa verið geta orðið til þess að viðbrögðin valdi hugsanlega álíka skaða. Í opinberri skýrslu frá Bretlandi um afleiðingar útgöngubanns sem vísað var til í Daily Telegraph þ.20. júlí s.l. kemur fram, að hugsanlega muni það valda 200.000 dauðsföllum. 

Nú eru rúm 50 þúsund dauðsföll rakin til C-19 veirunnar, en villtustu hrakspár töldu að allt að 500 þúsund manns mundu missa lífið í Bretlandi ef ekkert yrði gert í málunum. Þessar tölur 200 þúsund dauðsföll vegna útgöngubannsins og 500 þúsund dauðsföll vegna veirunnar eru frekar ótrúverðugar og færa má rök að því að þær fjölfaldi nokkuð fjölda dauðsfalla í báðum tilvikum. Samt sem áður sýnir þetta, að veruleg inngrip í daglegt líf og starf borgaranna til varnar einni vá getur skapað aðra e.t.v. lítið betri en þá sem brugðist er við. 

Í upphafi var markmiðið sett á að gæta þess, að heilbrigðiskerfið réði við vandann, sem skapaðist vegna C-19 veirunnar. Það tókst og gott betur. En það kostaði sitt. 

Smitum er nú að fjölga í löndum eins og í Þýskalandi og Spáni. Vonandi tekst að ráða við það, en það verður að gera með öðrum hætti en útgöngubanni og öðrum álíka ráðstöfunum. Slíkt mundi sennilega valda meira tjóni. 

Á síðustu dögum hafa greinst fleiri smit hér en vikurnar á undan. Engin ástæða er samt til að þjóðfélagið verði sett á hvolf á nýjan leik vegna þess. Nú skiptir máli að fólk gæti að sóttvörnum og öðrum varúðarráðstöfunum, það er virkasta vörnin við útbreiðslu veirunnar á nýjan leik. 


Loksins stjórnmálaleiðtogi sem þorir að andæfa.

Mörg grundvallaratriði vestrænna samfélaga hafa átt undir högg að sækja sem og hlutir á borð við samkennd, jafnræði, verðmætasköpun atvinnulífsins og öryggi. Þannig kemst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins að orði í frábærri heilsíðugrein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag. 

Sigmundur Davíð brýtur að mörgu leyti blað með grein sinni, þar sem hann er fyrsti stjórnmálaleiðtoginn á Vesturlöndum sem tekur heilstætt á þeirri atlögu sem nú er gerð að vestrænni sögu, menningu og arfleifð og andæfir gegn öfgunum sem ráðast gegn grunngildum lýðræðisþjóðfélaga. 

Sigmundur vekur athygli á því að allir hafi verið sammála um að mótmæla hrottafengnum aðgerðum lögreglu í Bandaríkjunum gegn fólki ekki síst hörundsdökku fólki. Slík mótmæli eiga að vera lausnarmiðuð og snúa að því hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Þar eiga allir kynþættir að njóta jafnstöðu enn ekki einn húðlitur umfram annan.

Þegar ég sá forustufólk Demókrata í Bandaríkjunum, ýmsa viðskiptajöfra ásamt fleirum falla á kné og lýsa yfir stuðningi við samtökin "Black Lives Matter" (BLM) velti ég því fyrir mér hvort þetta fólk væri svona illa upplýst eða svona ofurpópúlískt, að það skyldi lýsa yfir stuðningi og veita fé til samtaka sem berjast gegn markaðsþjóðfélaginu, vestrænni menningu, fjölskyldunni og vilja leggja niður lögreglu og dómstóla. 

Vestrænir fjölmiðlar sungu kórsönginn með BLM og það gerðu einnig fjölmargir stjórnmálamenn úr öllu hinu hefðbundan litrófi stjórnmálanna. Vissu þeir ekki hverju þeir voru að samsinna? Hafði þetta fólk ekki fyrir því að kynna sér málið? Var því alveg sama og tilbúið að hlaupa á þann vagn pópúlismans? 

Horft er framhjá kynþáttahyggju eða rasisma BLM, þar sem fólk er flokkað eftir húðlit og þjóðerni og öll ummæli jafnvel jákvæð ummæli um þjóðir og kynþætti eru flokkuð sem rasismi. Þau viðhorf eru afturhvarf til ákveðinnar kynþáttahyggju. Það er dapurlegt þegar íslenskir stjórnmálamenn ánetjast þessu rugli eins og  mátti sjá í yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar og annars þingmanns flokksins í vikunni. 

Nú má ekki segja "All lives matter" hvað þá "White lives matter". Kynþáttahyggjan skal höfði í fyrirrúmi og BLM slagorðið er ekki langt frá "Black only" sjónarmiðum sem koma þá í stað "Whites only", sem barist var gegn á 7 áratug síðustu aldar og tókst að sigra á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum. 

Undanfarna daga hefur það komið mörgum á óvart, að vestrænir stjórnmálamenn hvort heldur þeir eru borgaralega sinnaðir eða sósíaldemókratar skuli ekki hafa lýst megnustu skömm á andfélagslegum markmiðum og baráttuaðferðum BLM.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins er fyrstur til að tala rödd skynseminnar og bjóða ofbeldis- og öfgaöflunum byrginn. 

Til hamingju með frábæra grein Sigmundur Davíð, þar sem þú gengur í lið með heilbrigðri skynsemi gegn heimskunni og öfgunum. Vonandi verða fleiri stjórnmálamenn sem þora að taka undir með þér, það verður eftir því tekið hverjir verða til þess.


Vandlifað í honum heimi á tímum "woke" byltingarinnar

Fyrirlesari við háskóla í Southampton á Englandi var rekinn fyrir að segja að Gyðingar væru sérstaklega góðir í efnafræði. Hann sagði líka í öðru tilviki, að Þjóðverjar væru góðir í verkfræði og gerði grein fyrir því af hverju hann teldi svo vera í báðum tilvikum. 

Þetta var meira en "woke" kynslóðin getur þolað, en "woke" öfga fólkið er í allsherjarkrossferð gegn rasisma og þegar er þessi barátta farin að taka á sig galnar myndir. 

Miðað við þeirra hugmyndafræði þá er það rasismi að segja eftirfarandi:

Gyðingar eru sérstaklega góðir í efnafræði.

Grænlendingar eru mjög góðir fiskimenn

Þjóðverjar eru góðir verkfræðingar

Hörundsdökkir eru fremstir í hlaupum

Margt fólk af kínversku bergi brotið er best allra í stærðfræði.

Áfram má halda, en svo er nú komið að það að hrósa fólki eða þjóðum fyrir sérstaka hæfileika er nú flokkað sem rasismi

Af hverju vegna þess að skv. "woke" hugmyndafræðinni þá eiga allar þjóðir að vera eins og engin á að vera frábrugðin annarri eð hafa einhverja sérstaka gáfu eða hæfileika. Það getur því verið hættulegt að benda á, að engir hafa unnið eins mörg Nóbelsverðlaun og Gyðingar. 

Svo er komið, að það má hvorki segja neitt jákvætt um þjóðir né neikvætt. 

Á grundvelli þessa bulls er amríski sendiherrann á Íslandi dæmdur rasisti fyrir að tala um "kínaveiru"

Hvað þá með "spænsku veikina" eða "frönsku mislingana" sem rauðir hundar eru kallaðir sumsstaðar.

Ekki verður betur séð, en markmið þessara öfgaskoðana sé sú, að taka í burtu allt sem heitir þjóðríki og gera það saknæmt að hrósa einum umfram annann einkum og sér ef það er látið fylgja hverrar þjóðar viðkomandi er. 

Hér áður fyrr var miðað við að mæla ekkihnjóðsyrði til fólks á grundvelli þjóðernis og það var talið rasismi, en núna má heldur ekki hrósa fólki á grundvelli þjóðernis.

En hvernig skyldi það svo vera að lífskjör í Svíþjóð og Sierra Leone eru ekki þau sömu og lagaumhverfi og öryggi borgaranna er ólíkt. Þegar enginn er munurinn og það gert refsivert að íja að því að um einhvern mun geti verið að ræða. 

 


Ugla og endurmenntunin

Fyrir nokkru leyfði J.K.Rawlings höfundur Harry Potter bókana sér, að segja, að það væru konur sem færu á túr. Það var meira en hluthafar í fórnarlambakúltúr transfólks gat sætt sig við. Sótt var að J.K. Rawlings og skorað á hana að draga ummæli sín um staðreyndir til baka. Ólíkt því sem flest meiriháttar fólk gerir í dag, þá baðst J.K.Rawlings ekki afsökunar á því að gera grein fyrir alkunnum staðreyndum og hefur síðan mátt þola ásókn og glórulausa gagnrýni á grundvelli sýndarhyggju hugmyndabrenglunar vestrænna samfélaga.

Í gær var sagt frá því í bresku dagblöðunum "The Guardian og "The Daily Telegraph" og RÚV, að fjórir höfundar, sem voru á samningi við sama útgáfufyrirtæki og J.K.Rawlings, "The Blair Partnership", m.a. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir og sambúðaraðili þeirrar persónu hefðu krafist þess, að starfsfólk "The Blair Partnership" færi í endurmenntun til að ná sömu sýn á kynjamálum og Ugla og félagar hennar. Ugla og sambúðaraðili hennar skrifuðu saman bókina "Trans Teen Survival Guide"

Í frétt breska blaðsins "The Guradian" segir að Ugla hafi lagt til, að starfsfólk útgáfufyrirtækisins skyldi sækja fræðslu til hóps sem er nefnt "All about Trans", en útgáfufyrirtækið hefði hafnað því og með sorg í hjarta þyrfti Ugla og félagar hennar því að yfirgefa útgáfufyrirtækið. 

Talsmaður "The Blair Group" sagði "Við styðjum rétt allra viðskiptavina okkar til að koma fram með skoðanir sínar og viðhorf og við styðjum tjáningarfrelsi---- Okkur þykir leitt að leiðir hafi skilið á milli okkar og fjögurra viðskiptavina okkar, en þessir viðskiptavinir hafa ákveðið það vegna þess að við vorum ekki tilbúin til að verða við kröfum þeirra að fara í endurmenntun sem miðaði að því aðvið tækjum upp skoðanir þeirra".

Samkvæmt fréttum "The Guradian" og "Daily Telegraph" í gær er skýrt frá fráhvarfi Uglu og félaga með þessum hætti. Ugla og félagar voru ekki tilbúin til að hafa útgefenda, sem hafnaði því að starfsfólk fyrirtækisins yrði að sæta endurmenntun þar sem því yrði innrættar skoðanir Uglu og félaga.

Sérkennilegt að Rúv skuli skýra frá þessu máli einhliða og með öðrum hætti en ofannefnd bresk dagblöð, annað sem talið er vinstri sinnað, en hitt hægri sinnað. Má vera, að RÚV hafi ekki í heiðri sömu gildi tjáningarfrelsisins og breska útgáfufélagið?

Svo stendur eftir spurningin um það hvort það sé ásættanlegt að minnihlutahópar sjálfsskipaðra fórnarlamba eigi heimtingu á því, að allir samsami sig skoðunum þeirra að viðlagðri ábyrgð að lögum, en ef ekki lögum þá með ofsóknum af hálfu minnihlutahópfsins, þangað til viðkomandi einstaklingur eða fyrirtæki hefur verið neytt til að samsama sig með skoðunum minnihlutahópsins.

Hver er þá fórnarlambið?

  


Ísland. Land. Þjóð og þjóðmenning

Af hverju erum við að halda þjóðhátíð? Er verið að viðhalda þjóðernisstefnu eða er markmiðið annað? 

Þjóðhátíðardagur Íslands 17 júní var valinn í minningu þjóðfrelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem barðist fyrir lýðræðislegum réttindum Íslendinga og viðurkenningu á því að Íslendingar væru sérstök þjóð, sem bæri öll réttindi og viðurkenning sem slík. Íslenska frelsishetjan Jón Sigurðsson barðist ekki með öðrum vopnum eða vígvélum, en pennanum og hinu talaða máli. Með beittum rökum lagði hann grunn að sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, sem skilaði Íslendingum auknu sjálfstæði í ákveðnum skrefum frá því seinni hluta 19.aldarinnar þangað til endanlegur sigur vannst með stofnun lýðveldisins Íslands á Þingvöllum 17.júní 1944.

Íslensk þjóðfrelsisbarátta var alla tíð háð með friðsamlegum hætti með rökum frjálslyndis, mannréttinda og sjálfstjórnar þjóðar, sem á sína sérstöku menningu og tungumál. Þjóð sem er sérstök og frábrugðin öðrum, þó hún eigi mikinn skyldleika með öðrum norrænum þjóðum og menningartengsl okkar og íbúa norðurálfu hafi auðgað og þróað íslenska menningu á sama tíma og við höfum lagt nokkurn skerf til sameiginlegs menningararfs nágrannaþjóða okkar. 

Í sjálfstæðisbaráttu smáþjóðar og gæslu þjóðlegra hagsmuna, tungumáls og menningar vinnst aldrei endanlegur sigur. Þessvegna verðum við að vera á varðbergi gagnvart því, sem getur orðið okkur að falli sem sjálfstæðri fullvalda þjóð. 

Hætturnar sem blasa við eru margar. Mesta hættan er aðsóknin að íslenskri tungu og með hvaða hætti hún er að láta undan á mörgum sviðum. Íslensk þjóð verður að hafa þann metnað að kosta því til sem þarf til að varðveita íslenskt tungutak og þróun málsins þannig að hún verði lifandi tungutak í almennu mæltu máli, bókmáli og vísindum. 

Margir hafa á undanförnum árum gert lítið úr þjóðmenningu íbúa í norðurhluta Evrópu og hafa Svíar gengið þar fremstir í flokki. Einn forsætisráðherra þeirra, Frederick Rheinfeld, sagði að varla væri hægt að tala um sænska þjóðmenningu og formaður sósíalista,Mona Sahlin,að það eina sem hægt sé að tala um sem sænska menningu sé miðsumarhátíðin. Sjálfstæð tilvera þjóða, sem tala með þeim hætti niður menningu sína til að hygla einhverju sem þeir kalla fjölmenningu er neikvæður áróður gegn eigin þjóð og gildum hennar. Við verðum að varast að ganga þann veg. Telji þjóð, að hún sé svo ómerkileg, að hún eigi enga sjálfstæða menningu, sem sé einhvers virði að varðveita er þeirri þjóð best að hverfa úr þjóðasafninu, sem sjálfstæð þjóð. Slík þjóð á engan tilverugrundvöll. 

Við skulum gæta þess að eiga tilverugrundvöll sem þjóð og geta sagt með stolti að við séum Íslendingar og við skulum gæta þess fjöreggs sem okkur hefur verið falið og gæta vel að hagsmunum þjóðarinnar í viðskiptum við útlönd jafnvel þó að um vinveitt ríki sé að ræða og varast að framselja eða deila um of fullveldi okkar yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar sem og öðru því sem íslenskt er. 

Gleðilega þjóðhátíð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 126
  • Sl. viku: 2553
  • Frá upphafi: 2514338

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2351
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband