Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Tjáningarfrelsið og rétthugsunin.

Páll Vilhjálmsson er einn af beittustu pistlahöfundum, sem skrifa um dagleg málefni. Hann hefur ekki vílað fyrir sér að taka til umræðu í pistlum sínum ýmis mál, sem er nauðsynlegt að ræða á opinberum vettvangi en margir vilja láta kyrrt liggja. Í stað þess að andmæla honum með rökum grípa margir sem eru á öndverðum meiði til þess, að ráðast persónulega á Pál með fullum ónotum,  hótunum og hatursorðræðu. 

Skólastjóri Fjölbrautarskólans í Garðabæ (FG), hefur leyst nemendur undan því að mæta í tíma hjá Páli. Allt er þetta vegna pistla hans undanfarið. Skólastjórinn gerir ekki tilraun til að rökræða málin við kennarann heldur grípur til einhliða ráðstafana með fullyrðingum, sem standast vart rökrænt samhengi við það sem verið er að amast út af varðandi pistla Páls.

Í pistlum sínum varðandi hinsegin fræðslu, samtökin 78 o.fl í því sambandi setur Páll fram ýmsar fullyrðingar. Spurningin sem skólastjórinn hefði átt að skoða fyrst, er hvort fullyrðingarnar eru réttar eða rangar. Séu þær réttar er ekkert tilefni til að skrifa það bréf sem skólastjórinn skrifaði til foreldra og nemenda. Séu þær rangar þá er eðilegt að skólastjórinn bendi á það og biðji kennara sinn um að leiðrétta misfærslur. Þannig ber að bregðast við á markaðstorgi tjáningarfrelsisins í stað þess að ráðast á einstakling, sem nýtir sér tjáningarfrelsið. 

Ég bíð þess, að þeir sem telja að Páll fari með rangt mál í pistlum sínum eigi við hann eðlilega rökræðu svo almenningur geti tekið afstöðu á grundvelli vitrænnar umræðu. Það að hóta mönnum starfsmissi eða lítillækka fyrir skoðanir, sem eiga erindi í umræðuna í lýðræðisríki, er fordæmanlegt.


mbl.is Þurfa ekki að mæta í tíma til Páls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamálafræði og vansæld

Sagt er frá niðurstöðu könnunar, sem sýnir að íslendingar eru nú óhamingjusamari en fyrr. 

Hvað veldur því að sú þjóð, sem býr við hvað mestu efnahagslegu velsæld, býr við frið og meira öryggi,en flestir aðrir í heimi hér, skuli vera svona vansæl. Já og hvernig stóð á því að þjóðin var mun hamingjusamari hér áður fyrr, þó efnahagsleg verðmæti og almenn velsæld væri minni en nú er. 

Getur verið að vandamálafræðin sem umlykur fólk með allskyns greiningum og meðferðum og lyfjagjöf valdi hér einhverju? 

Pólitíkin hefur e.t.v. ákveðið með þetta að gera, en stjórnarandstaða á öllum tímum hamast við að segja fólki hvað því líður illa þó því líði þokkalega og jafnvel asskoti vel. Horfa má á leikþátt með einleik Inga Sæland til að sjá það. 

Et til vill skortir fólk markmið hugsjónir og áskoranir til að það átti sig á hvað lífið er skemmtilegt og þess virði að lifa því sælt og ánægt þó að stundum gefi hressilega á bátinn.

Já og ef til vill vantar þjóðina rótartengingu við kristilegan menningararf til að geta betur áttað sig á þeim áskorunum sem allir standa frammi fyrir á lífsleiðinni. Sumir oftar aðrir sjaldnar og hvernig á að bregðast við og með von og trú.

Já og ef til vill skortir á, að fólki sé bent á þá grundvallarstaðreynd að: "Hver er sinnar gæfusmiður" 

Sennilega væri þjóðin hamingjusamari ef fólk fengi að vera í friði fyrir vandamálafræðinni og háskólaspekinni og gerði sér grein fyrir því að við höfum öll gildi sem einstaklingar og við höfum þær skyldur að ávaxta okkar pund hvort sem er í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu eins vel og við getum.

 

 


Stjórnmálamenn taka eyri ekkjunar og gefa þeim ofurríku

 

Stór hluti stjórnmálamanna tók þá trú, að hamfarahlýnun væri yfirvofandi vegna aðgerða mannfólksins. Þar sáu stjórnmálamenn leið til að ríkið gæti í auknum mæli stjórnað lífi og starfi borgaranna og aukið ríkisbáknið svo um munar. Gríðarlegu fé er varið til "vísindamanna" sem eru fyrirfram þeirrar skoðunar að tryllt hamfarahlýnun sé í gangi. Hinir fá ekkert.

Stjórnvöld á Vesturlöndum fengu auðmenn í lið með sér, með því að peningar væru teknir frá skattgreiðendum til að gefa þeim ofurríku og fyrirtækjum þeirra. Það var gert með allskyns brellum m.a. kolefniskvóta og ofurstyrkja til hins svokallaða "græna hagkerfis", sem hvergi er rekið nema með gríðarlegum fjárframlögum skattgreiðenda. Allt er þetta síðan vafið inn í góðmálapakka undir ýmsum nöfnum þó markmiðið sé aðeins það eitt að færa til fjármuni frá hinum snauðu til hinna ríku.

Með þessu náðu stjórnmálamenn því að vekja athygli á góðmennsku sinni og ráðsnilld og þá skiptir engu máli þó að snilldin kosti skattgreiðendur trilljónir á heimsvísu. Á sama tíma brosir ofurauðvaldið út í bæði yfir þeim viðskiptatækifærum, ríkisstyrkjum og gróða, sem stjórnmálamennirnir færa þeim allt á kostnað skattgreiðenda, iðulega fátæks fólks sem þarf að horfa í hverja krónu og er við það að missa húsin sín vegna vaxtaokurs sem afleiðing af glórulausri peningastjórn stjórnmálamannanna.

Í vor var frá því skýrt, að bílaleigur fengu milljarð frá skattgreiðendum til að kaupa rafbíla. Þessi milljarður var að sjálfsögðu tekinn frá skattgreiðendum og greiddur til fyrirtækja sem notuðu peninga skattgreiðenda til að borga sjálfum sér aukinn arð. 

Nú hefur verið tilkynnt um styrkveitingar úr Orkusjóði, en þar er tæpur milljarður tekinn frá skattgreiðendum til að greiða fyrir orkuskiptum atvinnurekenda. Hæstur styrkveitingarnar í ár ganga til ofurríkra hlutafélaga annarsvegar Samherja og hinsvegar Ísfélags Vestmannaeyja um og yfir 100 milljónir til hvors félags. Garmurinn hann Jón Ásgeir, sem skildi eftir 1000 milljarða skuld í Hruninu,  fær síðan dúsu líka þó hún sé ekki nema 12 milljónir.

Á sama tíma þurfa neytendur og almennir skattgreiðendur að sitja uppi með kostnaðinn vegna þessara gjafa stjórnvalda til hinna ofurríku og þurfa líka að sæta auknum kostnaði og hærri sköttum vegna loftslagsmarkmiða ríkisstjórnarinnar sem fyrst og fremst eru í þágu hinna ofurríku. Við neytendur og skattgreiðendur þurfum t.d. núna að greiða um 20 krónur af hverjum bensínlítra í loftslagshítina og eigum ekki lengur kost á öðru en lélegu bensíni allt vegna aðgerða og markmiða ríkisstjórnarinnar. 

Er ekki kominn tími til að losna við þessa stjórnmálaelítu sem étur upp afkomu og lífskjör venjulegs fólks. Eyrir ekkjunar er enn á ný tekinn, til að færa auðmönnum og stjórnmálaelítunni til að leika sér með. 

 


Guð býr í myndverinu amma.

Í fréttamiðlum er greint frá því að Leonardo diCaprio leikari ásamt nokkrum erlendum kollegum hans hafi í hótunum við Íslendinga ef þeir ætli að voga sér að koma fram sem sjálfstæð þjóð og nýta landsins og sjávarsins gæði, svo sem gert hefur verið í aldir.

Leonardo þessi, skutilsveinar hans og hofróður halda, að peningarnir verði til í myndverinu og standa saman um að berjast fyrir því, að venjulegt fólk geti ekki farið í ferðalög og greiði mun meira fyrir nauðsynjar en áður. Það skiptir diCaprio og hans fólk litlu máli þar sem þau eru milljarðamæringar sem ferðast um á einkaþotum eins og enginn sé morgundagurinn.

Þetta kvikmyndafólk heldur að það geti ráðið málum á litla Íslandi og beygt fólk til hlýðni hvort sem er sjálfbærar veiðar á hval eða greiðsla loftslagsskatta. Fyrir svona fólki má ekki hvika því þá gerist aðeins eitt. Hótanirnar færast í aukana.

Haft er á orði að kvikmyndafólk þetta færi gríðarleg verðmæti inn í landið. Er það svo? Ríkið endurgreiðir vegna kvikmyndagerðar allt að 35% af framleiðslukostnaði. Hvað situr þá eftir þegar erlenda fyrirtækið krefst endurgreiðslunnar? Er í raun þjóðhagslegur hagnaður af þessari starfsemi þegar upp er staðið? Gæti verið að skattgreiðendur væru í raun að greiða meira en þeir fá til baka vegna þessarar starfsemi.

Hræddur er ég um að svo sé. 

En hvort heldur sem er, þá megum við aldrei beygja okkur fyrir hótunum eins og þessum en standa keikir við okkar gildi og grundvallaratriði stjórnarskrár landsins um atvinnufrelsi. 

En er ekki annars skrýtið að þessi mótmæli kvikmyndafólksins skuli koma einmitt í dag þegar spurningin er um að ráðherra framlengi ekki geðþóttaákvörðun sína um veiðibann á hval. 

Skyldi þetta erlenda sjálftökulið kvikmyndanna eiga sér innlenda vitorðsmenn, þegar beygja á Ísland til hlýðni?


Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar er skelfilegt.

Enn á ný beitir stjórn KSÍ refsivaldi gegn leikmanni landsliðsins í knattspyrnu vegna ásökunar sem hann getur ekki afsannað að svo stöddu. Öll þessi dyggðarskreyting stjórnar KSÍ er andstæð grundvallarreglum laga um að hver skuli talinn saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. 

Stjórn KSÍ eyðilagði íslenska landsiðið um árabil vegna þessarar dyggðarskreytingar gagnvart okkar bestu landsliðsmönnum vegna ásakana, sem ekkert varð úr. Nú á að halda áfram þeim leik. 

KSÍ er ekki eitt um þessi viðbrögð því miður. Íslenska dyggðarsamfélagið hefur hverfst um refsigleði af þessum toga um nokkurra ára skeið. En það er ekki hlutverk KSÍ að refsa fólki og það á ekki að taka sér refsivald í hönd.

Það sem er enn alvarlegra við þessa nýtískulegu refsigleði gagnvart mönnum, sem hafa ekki haft tækifæri til að grípa til varna er að refsing hins nýgerða almannavalds í réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar felst í því sama og var á svörtustu tímum í sögu kaþólsku kirkjunnar þegar menn voru bannfærðir og gátu enga björg sér veitt. Þeir máttu ekki vinna og enginn mátti rétta þeim hjálparhönd. Í Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar eru menn flæmdir úr starfi og geta takmarkaða björg sér veitt að því leyti er um harðari refsingu að ræða, en almannavaldið gerir mönnum sannist meint sök þeirra. 

Svona má þetta ekki ganga til. Hver einstaklingur verður að njóta mannréttinda og þeirra kosta sem réttarríkið býður þegnum sínum. 


Í tilefni hinseginn daga.

Í kosningum 2015 í bænum Hamtramck í Michican í Bandaríkjunum urðu múslimar í meirihluta. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn fögnuðu og sögðu þetta sýna gildi fjölmenningar og fólk frá ólíkum menningarheimum, gæti búið saman í sátt og samlyndi.

Vinstri menn voru ekki lengi í Paradís og vissu ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga þegar bæjarstjórnin í Hamtramck samþykki samhljóða, að banna regnbogafána hinsegin fólks í bænum. Múslimar sem fylltu ráðhús bæjarins fögnuðu.

Hvað hefði gerst ef kristið fólk hefði verið í meirihluta og bannað regnbogafánann? Vinstra fólkið hefði farið hamförum vegna ofbeldis gegn minnihlutahópi og staðið fyrir mótmælagöngum og óeirðum og sagt bannið sýna ógeðfelda og fordæmanlega hvíta kynjahyggju ferðarveldisins .

En þarna var meintur minnihlutahópur að taka afstöðu gegn öðrum meintum minnihlutahópi. Málstað hvors á vinstri hugmyndafræðin að taka? Ef þeir snúast gegn múslimunum geta þeir sagt að verið sé að þvinga þá til að samþykkja ákveðin gildi þvert á trúarskoðanir og haldið því fram að um sé að ræða Íslamshatur.

Sérkennilegt, að vinstra fólk á Vesturlöndum, sem áður voru boðberar frelsis og mannréttina og hinsegin fólk hér á landi, skuli ekki skynja að múslimar og hinsegin fólk eru andstæður og múslimar og fjölmenning eru andstæður. Þeir eru boðberar einmenningar í andstöðu við frjálslynd gildi mannréttinda og tjáningarfrelsis.


Vér mótmælum allir.

Þegar við gengum í EES, þá samþykktum við ákveðin atriði sem tengdust viðskiptum, þjónustu, frjálsri för og nokkur fleiri atriði. En við samþykktum aldrei, að Evrópusambandið hefði sjálfstæða skattlagningarheimild gagnvart Íslandi eða fólki og fyrirtækjum hér á landi. 

Evrópusambandið hefur samþykkt viðamiklar tillögur í loftslagsmálum vegna ímyndunar um manngerða hlýnun jarðarinnar. Tillögurnar fela í sér, að leggja verulega skatta á flutninga til og frá landinu með flugvélum eða skipum.

Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna í þessu efni og gert Evrópusambandinu grein fyrir að við værum ekki sett undir skattlagningarvald sambandsins og ætluðum okkur ekki að vera það. 

Það er ljóst, að frjáls og fullvalda þjóð, getur ekki sætt sig við að velferð og velmegun þjóðarinnar verði frá henni tekin vegna skattpíningar Evrópusambandsins. 

Við eigum hvert og eitt sem og þingmenn þjóðarinnar að rísa upp eins og gert var á þjóðfundinum í Menntaskólanum í Reykjavík í ágústmánuði árið 1851, þegar dönsk stjórnvöld ætluðu að innlima Ísland í Danmörku og Ísland hefði sömu lög og Danmörk.

Þá reis upp frelsishetjan Jón Sigurðsson sagði ég mótmæli þessu ranglæti fyrir hönd konungsins og þjóðarinnar og aðrir þingfulltrúar risu úr sætum og sögðu við mótmælum allir. 

Við eigum ekki að vera minni menn og mótmæla allir þeirri rangsleitni sem Evrópusambandið ætlar að beita okkur og gera möppudýrunum í Brussel það ljóst, að norður í Atlansthafi býr sjálfstæð þjóð, sem ætlar að vera það og hafnar að vera öðrum þjóðum háð hvað um lagsetningu og skattlagningu. 

Við höfum ekki enn framselt fullveldi okkar til Evrópusambandsins og megum aldrei gera.


Þegar staðreyndir verða hatursorðræða

Framsæknir minnihlutahópar eru iðnir við að fordæma skoðanir sem þeir telja sér mótdrægar. Í hinum vestræna heimi sækir transhópurinn hvað harðast fram og hafnar jafnvel líffræðilegum staðreyndum og fordæmir þá sem benda á þær staðreyndir.

J.K.Rowlings metsöluhöfundur Harry Potter ævintýranna hefur ekki látið þessar öfgar setja sig út af laginu. Þegar transhugmyndafræðin sagði; fólk sem fer á túr" sagði Rowlings "Það eru bara konur sem fara á túr." 

Gríðarleg hatursherferð fór þá af stað gegn Rowlings. Reynt var að banna verk hennar. Sumir brendu bækur hennar eins og nasistar forðum við bækur sem þeir töldu óæskilegar. 

Merkilegt að það skuli talin hatursorðræða gagnvart transfólki að segja frá þeirri líffræðilegu staðreynd að "það eru bara konur sem fara á túr".

Stórt  listasafn í Seattle (Museum of Pop Culture bannar nú verk Rowlings vegna öfgaskoðana og hatursorðræðu. 

Þó fólk almennt sé ekki að amast við transmálum, þá er ekki hægt að líða að þessi hópur frekist yfir allt og alla og krefjist þess að öllu verði breytt m.a. tungumálinu til að þóknast þeim. Slíkan yfirgang á að fordæma, þó viðurkennt sé að transfólk skuli hafa öll réttindi eins og aðrir í þjóðfélaginu.


Hvika nú þeir sem síst skyldu?

Haustið 2005 birtust teikningar af Múhammeð spámanni í danska blaðinu Jótlandspóstinum. Nokkur Íslömsk ríki brugðust ókvæða við og stóðu fyrir refsiaðgerðum gegn Dönum. Þess var krafist að bannað yrði að teikna eða birta myndir af spámanninum og teiknaranum og ritstjórn blaðsins refsað. 

Ander Fogh Rasmussen sem var forsætisráðherra neitaði að mæta á fund með fulltrúum 11 Íslamskra ríkja til að ræða málið og biðjast afsökunar á teikningunum. Anders Fogh sagði að þetta kæmi stjórnvöldum ekki við, það væri tjáningarfrelsi í Danmörku. Það eiga Íslamistar erfitt með að skilja. Mótmælin fjöruðu út og Danmörk átti hrós skilið og fékk það fyrir að standa með grunngildum sínum gegn Íslamska ofbeldinu. 

Að undanförnu hafa nokkrir flóttamenn frá Íslömskum ríkjum staðið fyrir því að rífa Kóraninn og/eða brenna fyrir framan sendiráð nokkurra íslamskra ríkja í Danmörku og Svíþjóð. Samtök 57 íslamskra ríkja krefjast þess, að þetta verði bannað og hóta hefndaraðgerðum gegn Svíþjóð og Danmörku. 

Því miður er nú enginn Andres Fogh til að standa með tjáningarfrelsinu og þeir Lars Lökke Rasmussen í Danmörku og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía bregðast við með undirlægjuhætti til að þóknast Íslamistunum.

Við megum hvergi hvika gagnvart íslamska ofbeldinu og þurfum að sýna það einarðlega að við stöndum með okkar gildum og mannréttindum. Jafnvel þó við séum ekki sammála því sem flóttamennirnir frá íslamska ofbeldinu eru að gera, þá megum við ekki bregðast okkar grunngildum. Aldrei að víkja.

Við eigum aldrei að hvika vegna ofbeldishótanna þursaríkja. Það er meira en nóg komið af þjónkun við þessa óværu. 

 


Vaxtaokur og dýrtíð

Afkomutölur viðskiptabankanna og ávöxtun eigin fjár þrátt fyrir ofurlaun og bruðl, sýna að bankarnir eru með óeðlilega háa vexti og óeðlilega mikinn vaxtamun. Ástæða þess er takmörkuð samkeppni og skortur á aðhaldi.

Þegar um takmarkaða samkeppni er að ræða ber ríkisvaldinu að gæta hagsmuna neytenda bæði sparifjáreigenda og lántakenda, en það gerist ekki og enn og aftur bregðast stjórnvöld neytendum. 

Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands eiga ekki að leiða  til hærri vaxta bankanna eða meiri vaxtamunar en sem því nemur. En íslensku bankarnir hafa alltaf kunnað það fag með miklum ágætum, að nýta hækkun stýrivaxta til að taka meira af kökunni til sín en eðlilegt er. 

Sé vilji fyrir að ná verðbólgunni niður, þá þarf að bregðast við á öllum sviðum til að stöðva það gegndarlausa okur sem viðgengst í þessu þjóðfélagi einkum þar sem samkeppni er takmörkuð.

Af hverju virkja stjórnvöld ekki almannasamtök eins og Neytendasamtökin og fleiri með myndarlegum fjárframlögum, til að sinna því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki að berjast gegn verðbólgu og fyrir eðlilegum viðskiptaháttum? Það kostar minna og er þjóðhagslegra hagkvæmara en að láta einokunarfyrirtækin og okrið vaða yfir samfélagið.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.4.): 733
  • Sl. sólarhring: 775
  • Sl. viku: 3040
  • Frá upphafi: 2507861

Annað

  • Innlit í dag: 698
  • Innlit sl. viku: 2853
  • Gestir í dag: 684
  • IP-tölur í dag: 657

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband