Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Bankarnir, ráðherrann og lausnirnar.

Húseigendur í Grindavík eru tryggðir fyrir tjóni vegna jarðskjálfta og eldgosa skv. lögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Þrátt fyrir það reynir bankamálaráðherra að slá pólitískar keilur á Alþingi með óræðum kröfum á hendur lánastofnana um aðgerðir þegar boltinn er hjá henni um að móta tillögur um lausn vandans í núinu. 

Á endanum þarf Náttúruhamfaratrygging Íslands að greiða húseigendum í Grindavík nánast fullar bætur vegna þess tjóns sem þeir kunna að verða fyrir. 

En þá er spurningin um millibilsástandið? Eðlilegast er að ráðherra bankamála komi með tillögur í því efni, það er hennar hlutverk og hún verður að gera sér það ljóst. Lánastofnanirnar ættu hins vegar þegar í stað að gera samninga við húseigendur í Grindavík um að ekki verði innheimtar afborganir og vextir af húsnæðislánum í Grindavík meðan óvissuástandið er Aðkoma að því samkomulagi þarf bankamálaráðherra og stjórn Náttúruhamfaratrygginga að eiga.

Það er ljótt að hræða fólk í vanda. Grindvíkingar eru núna í miklum og margvíslegum vanda og stjórnvöld sem og aðrir eiga að vinna að eðlilegum jákvæðum lausnum í stað þess að bulla á Alþingi. Það ber alltaf að leysa málin á grundvelli þess velferðar- og tryggingarkerfis sem er fyrir hendi annað væri ósæmilegt.  

 


mbl.is Ræða eftirgjöf og niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort, Hvar eða Hvenær

Undanfarið hafa fréttamenn ítrekað spurt helstu vísindamenn landsins í jarðfræði um: hvort það muni gjósa, hvar og hvenær. Fréttamennirnir virðast ekki geta skilið, að sérfræðingarnir vita þetta ekki. Vísindin eru ekki nákvæmari en það. 

Vísindamennirnir greina hvað er að gerast undir yfirborðinu og geta varað við hugsanlega yfirvofandi hættu. Lengra nær það ekki. 

Fyrir rúmri viku, varð ljóst, að hætta gat steðjað að í Grindavík og var bærinn réttilega rýmdur. Þá þegar var ljóst, að mikilvægt var að fólk og fyrirsvarsfólk fyrirtækja gæti unnið að því að lágmarka hugsanlegt tjón með því að ná í eignir sínar og forða verðmætum frá eyðileggingu. 

Því miður brugðust yfirvöld og létu sér helst umhugað um að draga úr mannréttindum Grindvíkinga sem mest mátti vera og í stað þess að setja í gang skipulega flutninga búslóða og annarra verðmæta frá Grindavík voru búnar til fáránlegar reglur um allt of takmarkaða aðkomu íbúa að eigum sínum. 

Það þýðir aldrei að fjargviðrast út af því sem liðið er og við fáum ekki breytt. En þá er mikilvægt að læra af reynslunni og í stað þess að vera með hörkulegar lögregluaðgerðir til að koma í veg fyrir að fólk geti náð eigum sínum,þarf að skipuleggja í samvinnu við íbúa að tryggja  flutningatæki og öruggt geymsluhúsnæði fyrir búslóðir og önnur verðmæti.

Væri ekki nær fyrir hamfarastjórnina að einbeita sér að því að hjálpa fólki við að koma í veg fyrir tjón og skipuleggja aðgerðir til að lágmarka hættu í stað þess að einbeita sér að lögregluaðgerðum til að takmarka rétt fólksins í Grindavík til að vera sjálfs sín ráðandi með óeðlilega hörkulegum hætti. 

Engin er að tala um neinn galgopaskap. En fyrr má nú aldeilis fyrr vera.  

 


Gerum allt sem í okkar valdi stendur

Engin ágreiningur er um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa sem þéttast með Grindvíkingum og styðja þá og styrkja eins og okkur er unnt. Þá er engin ágreiningur um að verja mannvirki svo sem kostur er og bæta tjón. 

Á hættustundum reyna stjórnmálamenn jafnan að gera sem mest úr eigin mikilvægi og möguleikum til að hafa áhrif á gang mála, jafnvel þó engir séu. Dæmi um það er stjórnarfrumvarp, sem nú er til umræðu á Alþingi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Asinn er svo mikill, að meiningin er að afgreiða málið í kvöld og/eða nótt þó engin brýn þörf sé á því.

Við höfum lög um almannavarnir nr. 82/2008, sem duga í tilvikum sem þessum e.t.v. þarf að bæta örlitlu við 25.gr. laganna vegna uppbyggingu varnargarða á Reykjanesi og varðandi fjármögnun.

Hættan við fum og fát í lagasetningu er ekki síst sú að Alþingi samþykki vond lög, þar sem ekki er gætt vandaðra vinnubragða við lagasetningu. Sú virðist ætla að vera raunin varðandi það frumvarp, sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. 

Bent skal á, að skv. stjórnarfrumvarpinu um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi á m.a. að víkja til hliðar lögum eins og stjórnsýslulögum. Af hverju þarf að víkja þeim til hliðar? Svo að stjórnvöld geti farið sínu fram af geðþótta og eftirlit með aðgerðum þeirra verði ekkert og réttindum almennra borgara verði vikið til hliðar. Við eigum aldrei að samþykkja slíkt.

Almenn umgjörð um mannréttindi og takmörkun á því að ríkisvaldið geti farið sínu fram eftirlitslaust að geðþótta verður alltaf að vera leiðarstefið við lagasetningu í landinu ekki síst þegar skyndileg hætta steðjar að.

  


Varnarsveitir Ísrael eru að vinna sigur

Dálkhöfundurinn og hernaðarsérfræðingurinn Richard Kemp segir eftirfarandi í grein í DT í dag: 

Varnarsveitir Ísrael hafi barist á Gasa undanfarnar vikur og náð meiri árangri en þeir sjálfir höfðu þorað að vona. Sótt fram með meiri hraða og eyðilagt mikið af stjórnstöðvum Hamas, náð mikilvægum gögnum og beðið minna manntjón en búist hafði verið við.

Þegar Hamas réðist á Ísrael 7.október vissu þeir, að Ísraelar mundu svara og undirbjuggu sig fyrir það með eins góðum hætti og þeim var unnt m.a. með því að færa allar meiriháttar stjórnstöðvar undir sjúkrahús og skóla til þess að fullkomna þá stefnu sína að óbreyttir borgarar mundu líða og deyja frekar en nauðgarar og barnamorðingjar Hamas.

Varnarsveitir Ísrael hafa sprengt göng Hamas ofan frá með góðum árangri. Þó að varnarsveitir Ísrael hafi ekki náð að staðsetja og drepa æðstu stjórn hryðjuverkasamtaka Hamas þá eru augljós merki þess, að Hamas er undir miklu álagi. Eldflaugaskot frá Gasa eru í algjöru lágmarki og sagt er að leiðtogar Hamas biðji Hisbollah í Líbanon um að gera árásir til að Varnarsveitir Ísrael þurfi að berjast á fleiri vígstöðvum.

Annað merki þess að Hamas sé í vandræðum er að boðum hefur verið komið til Katar um að reyna að ná samningum við Ísrael um vopnahlé. Ísrael hafnar vopnahléi sem felur það í sér, að þeir dragi herlið sitt til baka og gefi Hamas tækifæri til að endurskipuleggja sig, fávísir stjórnmálamenn á Vesturlöndum þ.á.m. Íslandi krejast þessa líka í stað þess að leggja áherslu á mannúðarhlé til að almennir borgarar geti yfirgefið átakasvæði eins og Ísrael hefur gert reglulega.

Tölur um fallna og særða á Gasa koma eingöngu frá heilsugæslu Hamas, sem gerir engan mun á óbreyttum borgurum í þessu efni og stríðsmönnum Hamas.

Varnarsveitirnar fara að alþjóðalögum um hernað og vopnaviðskipti og gera sitt besta til að lágmarka manntjón meðal almennra borgara. Sendar eru út viðvaranir til fólks um að yfirgefa væntanleg átakasvæði, svæði sem varnarsveitirnar ætla að ráðast inn á. Síðan stríðið byrjaði hafa varnarsveitirnar sent yfir 1.5 milljónir dreifimiða úr lofti, sex milljónir talskilaboð, 4 milljónir stafræn skilaboð og hringt og gert mannúðarvopnahlé. Þrátt fyrir þessa viðleitni varnarsveitanna hafa margir óbreyttir borgarar dáið á Gasa. Það er sorglegt, en hjá því verður ekki komist meðan Hamas felur sig meðal óbreyttra borgara og þvingar þá iðulega til að vera um kyrrt á svæðum, sem vitað er að verði næst fyrir árásum.

Joe Biden og Rishi Sunak hafa hingað til staðið í lappirnar og staðið gegn kröfum um vopnahlé (annað en Alþingi Íslendinga), þá hafa þeir jafnan tekið fram, að Ísrael verði að fara eftir reglum og alþjóðalögum, sem gilda um hernað og reyna að komast hjá því svo framast verði við komið að óbreyttir borgarar falli. Þeir vita að það er einmitt það sem varnarsveitir Ísrael eru að gera, en telja þetta pólitískt klókt vegna sumra kjósenda sinna að orða þetta svona á sama tíma og það er með öllu ljóst, að á þessari stundu þá er vopnahlé umfram stutt mannúðarvopnahlé eingöngu til þess fallið að koma nauðgurnum og barnamorðingjum Hamas til góða. Svo mörg voru þau orð dálkahöfundar DT. Gott fyrir þá sem hamast við að tala um stríðsglæpi og útrýmingaherferð að skoða málið miðað við það sem kunnáttumenn segja að sé að gerast í stað þess að taka fréttir frá hryðjuverkafólkinu eins og heilögum sannleik. 


Skyldan við þjóðina

Ógnin af hugsanlegum jarðeldum á Reykjanesi er mikil og tók nokkuð óvænta stefnu þegar kom í ljós, að kvikugangur er kominn undir Grindavík. Grindavíkur gætu því beðið sömu örlög og Vestmannaeyja, að gosið verði svo nálægt byggð eða í byggð, að Grindvíkingar neyðist til að flytja búferlum tímabundið. Þetta glæsilega samfélag, þar sem byggð hafa verið upp sterk fyrirtæki sérstaklega í sjávarútvegi á annað skilið, en að því er ekki spurt þegar óblíð náttúra tekur völdin.

Vonandi líður hættan hjá og vonandi finnur hugsanlegt gos sér annan farveg fjarri byggð. En þær staðreyndir sem við okkur blasa nú verðum við að taka alvarlega og undirbúa okkur sem best til að takast á við þau óblíðu náttúruöfl, sem lengst af hafa með reglubundnum hætti valdið gríðarlegu tjóni í landinu og leiddu á árum áður iðulega til mannfellis og viðvarandi hörmunga.

Nú erum við betur undir búin til að takast á við óblíð náttúruöfl, en nokkru sinni fyrr. Við megum þó aldrei gleyma því hvað við erum ógnarsmá og lítils meigandi þegar kemur að viðureign við náttúruöflin.

Við verðum alltaf að muna, að okkur ber fyrst og fremst skylda við fólkið í landinu og gæta hagsmuna þess og verðum að láta allt annað víkja meðan við bætum tjón, sem fólk og fyrirtæki kunna að verða fyrir í hugsanlegri viðureign við jarðelda og aðra náttúruvá.

 


Samstaða með lýðræði og frelsi gegn hatri og hermdarverkum.

Fyrir mánuði myrti Hamas 1.400 saklausa einstaklinga með hroðalegum hætti. Þeir pyntuðu fórnarlömbin, nauðguðu konum, drápu og svívirtu líkin, myrtu börn jafnvel ungabörn m.a. með því að kveikja í þeim og brenna þau. Villimennskan var algjör.

Hamas drápu, misþyrmdu og nauðguðu ungu fólki á tónlistarhátíð alls 260 þ.á.m. 22 ára stúlku frá Þýskalandi, sem þeir hópnauðguðu,myrtu, svívirtu líkið og óku með það um Gasa þar sem fólk hrækti á líkið. Villimennirnir kórónuðu ódæðið með því að höggva höfuðið af ungu konunni,sem hafði ekkert til saka unnið.

Búast hefði mátt við fjöldamótmælum á Vesturlöndum m.a.hér vegna morðanna og kröfu fólks um að varnarlausum gíslum 230 manns, verði sleppt. Fjarri fór því. Haldinn var samstöðufundur með íbúum á Gasa og Hamas í Háskólabíó 5.nóv. Samúð fundarmanna náði ekki til saklausra fórnarlamba Hamas og gísla þeirra.

Hluti fólksins á samstöðufundinum eru nytsamir sakleysingjar, sem óar við stöðugum áróðri RÚV um hörmungar og tölu fallina á Gasa skv. upplýsingum villimannasamtakanna. Svo er annar hluti, sem mætir vegna haturs á Ísrael. Væri ekki svo, þá mundi þetta fólk ekki síður halda samstöðufundi vegna hryllingsins sem er að gerast í  Armeníu og Súdan.

Hvernig getur fólk á Vesturlöndum tekið afstöðu með rasískum,hómófóbískum samtökum eins og Hamas, sem dásama hryðjuverk,telur samkynhneigð dauðasök. Samtök sem hika ekki við að byggja stjórnstöðvar sínar, vopnabúr og birgðageymslur undir sjúkrahúsum og skólum á Gasasvæðinu.

Hamas liðar líta á að mannfórnir á Gasa þegar Ísrael slær til baka eftir hryðjuverk Hamas, sem lið í baráttunni fyrir því að grafa undan velvild í garð Ísrael, sem það gerir óneitanlega.

Á meðan öfgamennirnir í framlínu Hamas beita öllum ráðum til að drepa sem flesta, lifa forustumenn Hamas í vellystingum á lúxus hótelum í löndum eins og t.d. Qatar.

Fyrir miðja síðustu öld voru 150.000 Gyðingar í Írak, 75.000 í Egyptalandi og tugir þúsunda í Líbýu, Sýrlandi, Jemen og Líbanon. Nánast allir þessir Gyðingar þurftu að flýja til Ísrael og meira en helmingur Gyðinga sem býr í Ísrael eru afkomendur þessa fólks. Þessir Gyðingar eiga bara Ísrael sem heimaland.

Ísrael er á örlítið land. Gyðingar hafa breytt því úr hrjúfu örfoka landi í gróðurvin, þar sem velmegun er mikil og landið í fremstu röð þjóða í efnahagslegu, menningarlegu og vísindalegu tilliti. Nágrannar þeirra búa yfir miklum óbyggðum landssvæðum, en dettur ekki í hug að bjóða Palestínufólki að byggja þau.

Ísrael er eina lýðræðisríkið fyrir botni Miðjarðarhafsins og borgararnir búa við öll almenn mannréttindi. Fimmti hver borgari í Ísrael eða 20% íbúa eru Arabískir Ísraelsmenn, sem hafa sama kosningarétt og rétt til embætta og annarra réttinda. Margir þeirra gegna mikilvægum ábyrgðarstöðum . Tæplega 20% Ísraela eru Múslimar en hafa sömu lýðréttindi og aðrir borgarar. Hvernig rímar það við slagorð Gyðingahataranna um að í Ísrael ríki apartheit eða aðskilnaðarstefna?

Þessar staðreyndir valda vinstra liðinu og Gyðingahöturnum ekki vökunum þegar þeir þykjast taka sér stöðu á grundvelli frjálslyndra skoðana og mannréttinda með einræðishyggju og ofbeldisliði Hamas, sem byggir á andlýðræðislegri miðaldahyggju, heimsyfirráða múslima og útrýmingu allra Gyðinga í heiminum.

Vonandi tekst að lama starfsemi Hamas og vonandi tekur skynsamt fólk við stjórn hjá Palestínumönnum þannig að grundvöllur skapist fyrir friði og tveggja ríkja lausnin, Ísrael og Palestína nái fram að ganga með friðsæl býli og gróandi mannlíf friðar og velsældar. Samstöðufundurinn í Háskólabíói þ 5. nóvember var ekki lóð á þá vogarskál heldur þvert á móti.


Samtök fáránleikans

Í dag tekur Íran við formennsku í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ).Fátt sýnir betur hvers konar samtök fáránleikans SÞ eru. Íransstjórn beitir morðsveitum á ungt fólk,sérstaklega konur, sem neita að hylja hár sitt og þjóðernisminnihluta. Fjöldi ungs fólks og almennra borgara hefur verið drepið vegna baráttu fyrir grundvallarmannréttindum. 

Afganistan var kosið í nefnd SÞ um jafnrétti kynjana á sama tíma og stúlkur í Afganistan fá ekki að ganga í skóla eða ráða klæðaburði sínum.

Kommúnistaríkið Norður Kórea er risastórt fangelsi þar sem borgararnir eru sviptir mannréttindum,samt lagði N.Kórea til og fékk samþykkta tillögu á þingi SÞ um að fordæma Ísrael fyrir meinta hörku lögreglu við mótmælendur. 

SÞ eru í hugum margra mikilvæg og merkileg samtök. Það er því miður liðin tíð. Samtökin hanga helst saman á því að krefjast peninga af Evrópu og Bandaríkjunum og fordæma Ísrael. Af 25 tillögum sem komu fram hjá SÞ árið 2022 gegn þjóðríkjum, beindust 13 gegn Ísrael,oftast að ástæðulausu. 

SÞ var stofnað á grundvelli hugmynda um frið og mannréttindi þ.á.m. að komið yrði í veg fyrir þjóðarmorð á Gyðingum. 

Upphaflegur tilgangur er gleymdur. Bandalög múslimaríkja og ýmissa annarra einræðisríkja mynda meirihluta á þingi SÞ og það eina sem virðist sameina þennan hóp er hatrið á Ísrael og ná sem mestum peningum frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Svona geta hlutirnir breyst í andhverfu sína. Stundum var sagt sem brandari um fáránleika, að gera Dracula að bankastjóra blóðbankans. Nú er það ískaldur veruleiki, að í dag tekur Íran við forustu Mannréttindanefndar SÞ.

Þegar áður góð samtök breytast í samtök fáránleikans er bara eitt að gera. Að láta þau sigla sinn sjó eins og sagt var forðum:

"Mér og mínum að meinalausu.

 

 


Endalok lýðræðis

Þegar kemur að pólitískri innrætingu og áróðri, á fréttastofa RÚV fáa sína líka.

Í kvöldfréttum var langur fréttapistill um kosningar í Póllandi. Boðskapur RÚV var,að mikil ógn steðjaði að Pólverjum ef núverandi stjórnarflokkur sem telst til hægri ynni sigur. Talað var ítrekað um að það kynni að þýða endalok lýðræðis í Póllandi. Loks var kynnt áróðurskvikmynd andstæðinga stjórnarflokksins "Lög og réttur"

Svipaða tuggu hefur fólk iðulega heyrt áður á RÚV. Hægri flokkar sem vilja stjórna eigin landamærum, fá neikvæða umfjöllun hjá RÚV sbr.t.d.Viktor Orban í Ungverjalandi, Svíþjóðardemókratar og Alternative für Deutschland. Engum hefur þó verið gert svo hátt undir höfði að nánast fullyrða, að sigur þeirra mundi þýða endalok lýðræðis. 

Merkilegt að engin umræða skuli fara fram á Alþingi um þessa ríkisfréttastofu og þau brot á almennum mannréttindum að skikka fólk og fyrirtæki til að borga fyrir einhliða áróðursmiðstöð.

Af hverju má fólk ekki ráða því hvort það eru áskrifendur að útvarpsstöð eða ekki. Það ættu að vera ótvíræð lýðréttindi að einstaklingar geti sjálft valið sína miðla í stað þess að ríkisvaldið troði þeim ofan í fólk með góðu eða illu.  


Er þörf fyrir sósíalisma?

Fyrrum formanni Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn var boðið að halda fyrirlestur í Safnahúsinu í Reykjavík s.l. laugardag, til að fjalla um "hvers vegna er þörf fyrir sósíalisma" Eðlilegra fundarefni hefði verið "Er þörf fyrir sósíalisma"? og svarið miðað við reynsluna er að sjálfsögðu nei.

Jeremy Corbyn var ekki kominn til að ræða um jafnaðarstefnu eins og sá ágæti flokkur Alþýðuflokkur heitinn barðist fyrir frá 1959 þar til hann var illu heilli vélaður í samstarf með kommúnistum við stofnun Samfylkingarinnar. Heldur öfga vinstri marxisma.

Jeremy Corbyn er öfgafullur vinstri sósíalisti, kommúnisti, sem varð formaður Verkamannaflokksins um nokkurra ára skeið, en kjósendur höfnuðu honum og vinstri stefnu hans alltaf. 

Þar sem fjallað er um fundinn með Corbyn er sagt, að þegar Keir Starmer varð formaður hafi hafist ofsóknir gegn Corbyn og róttækum vinstri sósíalistum til að koma nýfrjálshyggjunni í öndvegi í Verkamannaflokknum. Hvílíkur viðsnúningur á staðreyndum. 

Corbyn var rekinn úr Verkamannaflokknum fyrir rasisma. Það voru engar hreinsanir og það var engin breyting til nýfrjálshyggju í Verkamannaflokknum, hann er enn vinstri sinnaður sósíalistaflokkur. 

Vígorð James Corbyn er "For real change" (fyrir raunverulegar breytingar). Öfgafullir sósíalistar hafa það jafnan á hraðbergi þegar þeim er bent á hvílíkar hörmungar sósíalisminn hefur valdið. Þá segja þér það vantaði upp á að það væri alvöru sósíalismi við berjumst fyrir honum. Raunar sama mantran að breyttum breytanda og Mammonsdýrkendur flytja um ágæti þess, að peningar vaxi á hlutabréfamörkuðum. 

Hvers vegna fengu fundarboðendur ekki frekar flóttamann frá Venesúela til að fjalla um efnið "Hvers vegna þarf fólk að flýja sósíalismann? Sósíalistar um allan heim þurfa að horfast í augu við, að aldrei hefur róttækur sósíalismi leitt til annars, en fátæktar, fólksflótta, sviptingu mannréttinda og aftökur á stjórnarandstæðingum. Það er sama í hvaða heimsálfu sem er sbr. Kambódíu, Kúbu, Sovétríkin, Austur Þýskaland og fjölmörg ríki Afríku. Alls staðar brást Marxíski sósíalisminn. 

Það er sagnfræðileg staðreynd að sósíalismi gengur hvergi með sama hætti og það er staðreynd, að samkeppnisþjóðfélagið lyftir fólki og þjóðum úr fátækt til bjargálna.

Róttækir sósíalistar allra tíma eru alltaf úr tengslum við sögulegar staðreyndir. Annars væru þeir ekki sósíalistar. 

 


Það er sitthvað Belgrad eða Baku

Enn á ný sækir her múslimska Aserbajan með stuðningi Tyrkja, fram í Nagorno Karabak, til þess að flæma kristna Armena burt þaðan,sem þeir  hafa búið um aldir. Þessar þjóðernishreinsanir Aserbajana gegn Armenum eru fordæmanlegar.  

Í fyrri heimstyrjöld og fram til 1920 stóðu Tyrkir fyrir þjóðernishreinsunum og fjöldamorðum á Armenum. Talið er að Tyrkir hafi drepið eina og hálfa milljón Armena. En Tyrkir kunna ekki að skammast sín og neita að þetta hafi gerst þó staðreyndirnar liggi fyrir. 

Nú eru það múslimarnir í Aserbajan, sem standa fyrir þjóðernishreinsunum og fjöldamorðum með velþóknun Tyrkja. 

Hver skyldu verða viðbrögð NATO með Bandaríkin í broddi fylkingar? Skyldi NATO gera loftárásir á Baku höfuðborg Aserbajan og hafa í hótunum um víðtækari hernað, eins og NATO gerði þegar þeir sprengdu sem óðast í Belgrad og víðar í Serbíu, þegar þeir sökuðu Serba um að reka múslimska Albani burt úr Kosovo héraði þá í Serbíu. 

Herhlaup NATO gegn Serbum undir forustu Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta var fordæmanlegt og brot á grundvelli NATO sem varnarbandalags, því NATO réðist á Serbíu. 

Nú er spurningin hvort Bandaríkin og NATO telja kristna Armena eigi að njóta sömu verndar og múslimska átroðsluhópa í Kósóvó héraði í Serbíu á sínum tíma. Eða skipta Armenar minna máli en Kósóvó Albanir.

Vesturveldin ættu að skammast sín fyrir að hafa ekki veitt Armenum víðtækan stuðning en þessi harðgerða þjóð, sem hefur mátt þola endalausar ofsóknir múslima um aldir á það skilið að kristnar þjóðir sýni þem þá virðingu og stuðning sem þeir eiga skilið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 143
  • Sl. sólarhring: 309
  • Sl. viku: 4755
  • Frá upphafi: 2314274

Annað

  • Innlit í dag: 133
  • Innlit sl. viku: 4411
  • Gestir í dag: 133
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband