Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Gölluð vara í boði ríkisstjórnar og olíufélaga.

Allir söluaðilar bensíns tilkynntu, að þeir hygðust hefja sölu á gölluðu bensíni. Bensínið er blandað etanoli, orkan er minni og veldur skemmdum á vélum bíla. Gölluðu vörunni á að troða upp á neytendur hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Á sama tíma og olíufélögin hefja sölu á gallaða bensíninu er venjulegt bensín tekið af markaðnum og er ekki í boði lengur. Neytandinn fær ekki sjálfur að velja. 

Einokunarkaupmennirnir á 18.öld voru frægir fyrir að selja maðkað mjöl. Nú hafa olíufélögin ákveðið að feta í fótspor þeirra. 

Af hverju fá neytendur ekki sjálfir að ráða hvort þeir vilja venjulegt bensín eða þetta lélega? Af hverju eru olíufélögin og ríkisstjórnin að svindla á neytendu og koma í veg fyrir valfrelsi þeirra með þvingaðri neyslustýringu.

Er einhver furða þó mörgu Sjálfstæðisfólki þyki lítið leggjast fyrir forustu flokksins í ríkisstjórn þegar frelsinu og almennum markaðslögmálum er vikið ítrekað til hliðar og víðtæk neyslustýring er tekin upp?


Hefði hann verið hælisleitandi

Frásögn systur af andláti Ólafs Ögmundssonar bróður síns er átakanleg. Mikill dugnaðarmaður þurfti að þola það í ellinni, að vera hent út úr leiguíbúð eftir að heilsan gaf sig og konan hans lá banaleguna. 

Ég þekkti Ólaf sem mikinn dugnaðarmann, greindan, skoðanafastan og ákveðinn. Mér finnst átakanlegt að heyra hvernig staða hans var, en hann kunni ekki að kvarta. Samt sem áður lá fyrir hver staða hans var, en kerfið hafði engum skyldum að gegna við hann. Fjársöfnun honum til stuðnings bar nokkurn árangur en þó ekki nægan. 

Hefði Ólafur sem var geðþekkur og góður maður með mikla réttlætiskennd verið hælisleitandi, hefði honum verið útveguð íbúð og læknishjálp. 

Svona er nú misskipt mannanna gengi á landi hér. Þannig er Ísland í dag. 


Þjóðernissinnaður hægri flokkur

Í dag eru þingkosningar á Spáni. Fréttastofa RÚV hefur fundið sinn óvin þar, VOX flokkinn, sem RÚV segir öfgahægri flokk.  

Fréttastofa RÚV andskotaðist út í flokk Melloni á Ítalíu vegna sömu ávirðinga. Eftir að Melloni varð forsætisráðherra sést, að ríkisstjórn hennar er sú besta á Ítalíu um áratuga skeið.

En hver er þessi VOX flokkur á Spáni? 

VOX byggir á kristnum gildum, virðingu fyrir einstaklingnum og er andstæðingur fasisma, nasisma og kommúnisma. VOX er á móti kynrænu sjálfræði og vill loka moskum öfgamúslima. Þeir berjast fyrir lægri sköttum og gegn útþennslu ríkisbáknsins.

VOX telur að lög Spánar eigi að gilda umfram lög Evrópusambandsins(ES)og er sammála okkur, sem erum á móti tillögu utanríkisráðherra um að ES lög gildi umfram íslensk.

VOX stendur fyrir einstaklingshyggju,valddreifingu, kristin gildi og mannréttindi. Þessvegna kærðu þau Kóvíd ráðstafanir stjórnar sósíalista, til stjórnlagadómstóls Spánar og unnu sigur. 

RÚV greinir ekki frá því að Sósíalistar hafa staðið fyrir árásum á frambjóðendur VOX. Þessir vinstriöfgamenn, sem saka VOX um fasisma eru þeir einu sem beita frambjóðendur annarra flokka ofbeldi og reyna að koma í veg fyrir lýðræðislega starfsemi andstæðinga sinna. 

VOX er róttækur þjóðernissinnaður hægri flokkur, sem vill ekki að það sé skipt um þjóð á Spáni og leggur fram tillögur um að stemma stigu við straumi hælisleitenda til landsins. Þeir vilja verja einingu Spánar og andæfa gegn grænu öfgahyggjunni.

Athyglisverð eru ummæli eins helsta forustumanns VOX fyrir nokkru varðandi innflytjendastrauminn, en hann sagði: "Það eru bara þeir ríku sem geta veitt sér þau lífsgæði að eiga ekki föðurland."  Þeir ofurríku, berjast nú flestir fyrir glópalisma og alheimsstjórn með Davos sem höfuðborg sína. Gegn þjóðríkinu og hefðbundnu lýðræði. 

Við lýðræðissinnar sem viljum venda þjóðríkið, valddreifingu og réttindi einstaklinganna verðum  að vera í varðstöðu gagnvart þeim öflum. Raunverulegu lýðræði og þjóðríkinu stafar hætta frá auðkýfingunum í Davos, en ekki frá þeim sem vilja vernda hefðbundið lýðærði og fullveldi þjóðríkisins.  


Skoðanir eru hættulegar

Skoðanir eru hættulegar. Sérstaklega ef þær eru ekki í samræmi við samhljóma kór meirihlutans. Þær skoðanir sem bera í sér hvað mesta hættu fyrir fólk á Vesturlöndum eru efasemdir um hamfarahlýnun af mannavöldum. Andstaða gegn því að skipta um þjóðir í löndum Evrópu, varnaðarorð gagnvart Íslam svo ekki sé talað um efasemdir varðandi aðgerðir stjórnvalda í Kóvíd og þöggun varðandi ofstopann og fasismann í því sambandi. 

Coutts bankinn í Englandi hefur rekið stjórnmálamann úr viðskiptum vegna skoðana hans, en á sama tíma er bankinn með einræðisherra, rússneska olicarcha, morðingja og nauðgara í viðskiptum.

Skoðanir eru greinilega hættulegri en glæpir. 

En í sambandi við þetta allt saman, þá hefur komið í ljós, að þeir sem hafa afskipti af stjórnmálum eða þessvegna láta skoðanir í ljós eru á válista banka um allan hinn "frjálsa" heim. Lýðræðissinnar þurfa heldur betur að vera á verði gagnvart grímuklæddum fasisma "góða fólksins." 


Ofbeldi "hinna réttlátu" endurtekur sig

Þegar Ralph Nader helsti baráttumaður neytenda í Bandaríkjunum skrifaði greinina "Unsafe at any speed" um bílategundina Chevrolet Corvair, hóf Chevrolet fyrirtækið ofsóknir gegn honum í stað þess að reyna að lagfæra gallaða vöru. Dreift var óhróðri og lygi um Nader. Nader fór í mál við fyrirtækið og hafði frækinn sigur.

Þegar Nigel Farage fyrrum þingmaður á Evrópuþinginu og pólitískur forustumaður hélt því fram, að bankareikningi hans hjá Coutts bankanum hefði verið lokað vegna pólitískra skoðana hans, þá sagði bankinn það rangt, reikningnum hefði verið lokað vegna ófullnægjandi innistæðu "insufficent funds". 

Breska stórblaðið DT birtir í dag frétt, sem sýnir að yfirlýsingar bankans eru lygi. Reikningi Farage var lokað vegna skoðana hans, sem sagðar eru ógeðfelldar og andstæðar skoðunum meirihlutans í þjóðfélaginu. Farage sýni útlendingahatur og sé rasisti. Skoðanir hans varðan varðandi meinta hamfarahlýnun er þó það sem réði úrslitum.

Skýrslan sýnir að næg inneign var á bankareikningi Farage.

Reikningi Farage var lokað án skýringa og bankinn reyndi að fela af hvaða ástæðum það hafði verið og laug til um ástæðuna. Í skýrslunni segir, að Farage hafi ekki haft uppi óviðukvæmileg ummæli við starfsfólk heldur sýnt góða framkomu og starfsólki kurteisi. Geta fyrirtæki krafist meira af viðskiptavinum?  Eiga viðskiptafyrirtæki að hafa leyfi til að gera upp á milli viðskiptavina eftir skoðunum þeirra? Sé það svo, þá er illa komið í frjálsu þjóðfélagi sem byggir á hugmyndafræði tjáningarfrelsisisins. 

 Getur og má Þjóðfélag sem byggir á skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og ekki sé gert upp á milli borgaranna vegna þjóðernis,  litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, samþykkt að gert sé upp á milli borgaranna vegna skoðana þeirra á loftslagsmálum, innflytjendamálum eða öðrum mikilvægum þjóðfélagsmálum. 

Tjáningarfrelsið er hjóm eitt, ef þeir sem hafa minnihlutaskoðanir geta átt það á hættu að vera sviptir lífsafkomu sinni, stöðu og viðskiptum vegna skoðana sinna. 

     


Fjórfrelsi fólk vinna og auðhyggja

Sérkennilegt að talsmenn verkalýðsins skuli ekki gagnrýna alþjóða ofurkapítalismann fyrir að nota reglur um frjálsa för verkafólks eingöngu til að þjóna skammtímahagsmunum og  auðhyggju hinna skammsýnu. 

Fjórfrelsi Evrópusambandsins: Frjáls flutningur á vörum, fjármunum, þjónustu og fólki. Vörur eru hlutir, fjármagn eru peningar, þjónusta eru aðgerðir, en fólk er allt annað og ólíkt. Fólk eru vitsmunaverur, bundið eigin menningu, tilfinningum, afstöðu, hegðunarmynstri og þjóðfélagssýn o.s.frv. 

Frjáls för er sett í Evrópusáttmálann til að þjóna hagsmunum stórfyrirtækja til að geta meðhöndlað vinnuaflið eins og hráefni og flytja það fram og til baka og halda launakjörum niðri, en um leið að búa til lágstétt innflytjenda og aðra lágstétt velferðarfarþega, sem telur það ekki þess virði að vinna láglaunatörfin sem lágstétt innflytjenda vinnur. 

Hin hliðin á peningnum er sú, að með því að flytja hæfasta fólkið frá þróunarríkjunum eða fátæku löndunum, er verið að taka frá þeim mestu verðmætin, mannauðinn, sem þessi ríki gætu byggt framfarasókn sína á. 

Ofurfyrirtæki glóbalismans í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu hafa átölulaust flutt verksmiðjur og framleiðslufyrirtæki frá Evrópu og Ameríku, þar sem verkalýðurinn hefur náð góðum réttindum og starfskjörum. Vel launuð vinna er tekin frá hinum vinnandi stéttum í Evrópu og Bandaríkjunum til að flytja þau til ríkja þar sem réttindi hinna vinnandi stétta eru engin og launakjör vísa til nútíma þrælahalds.

Verkalýðshreyfingin og stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið þetta yfir sig ganga og brugðist gjörsamlega. Það veldur þeim ekki vökunum á Davos fundum hinna ofurríku og stjórnmálamanna í þjónustu þeirra. Þar ræða menn um að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti ferðast í sumarleyfinu sínu vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar á sama tíma og Davos furstarnir koma á fundinn á um þúsund einkaþotum.

Verkalýðshreyfingin virðist ekki hugsa um annað en kjarasamninga í krónum og aurum, en horfir ekki til langtímamarkmiða. Stjórnmálastéttin hefur brugðist alla þessa öld og raunar lengur, þar hefur auðhyggjan ráðið öllu, en siðræn gildi og virðingin fyrir einstaklingnum vikið algjörlega nema viðkomandi sé auðmaður og skiptir þá ekki máli hvernig auðurinn er tilkominn. 

Mammon spyr bara um hvað þú átt mikla peninga ólíkt hinum kristilegu  og siðrænu gildum þar sem glaðst er yfir velgengni fólks þegar það hefur unnið til þess á heiðarlegan hátt. 

 


Stjórnmál í Hollandi og Íslandi

Helsta baráttumál hefðbundinna stjórnmálaflokka á Vesturlöndum um nokkurt skeið, hefur verið að komast í ríkisstjórn og vera með í partíinu. Ekki þó til að gera neitt umfram að deila og drottna í þágu vina og flokksfélaga.

Eftir að BBB flokkurinn (Borgara og bænda hreyfingin) í Hollandi varð stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum m.a. vegna andstöðu sína við loftslagsstefnu stjórnvalda, voru góð ráð dýr fyrir stofnanaflokkana. 

Mark Rutte,Teflon Mark eins og hann er kallaður,  sem leitt hefur fjórar samsteypustjórnir samfellt á 13 ára tímabili sá til þess, að hægt var að mynda samsteypustjórn fjögurra stærstu hefðbundinna stjórnmálaflokka til að halda BBB utan stjórnar og gera þá áhrifalausa og gæta þess, að vilji stórs hluta kjósenda næðu ekki fram að ganga að neinu leyti. 

Nú þrýtur Mark Rutte örendið vegna þess að jafnvel í Hollandi halda stofnanaflokkarnir samt í ákveðna grunnstefnu, ólíkt því sem er hér. 

Hér norður við heimskautsbaug fylgir ríkisstjórnin óábyrgri stefnu í málum hælisleitenda þrátt fyrir að Jóni Gunnarssyni tækist með harðfylgi að koma fram örlitlum breytingum þrátt fyrir andstöðu VG. 

Óneitanlega hlítur Sjálfstæðisfólk að velta fyrir sér hvort forusta flokksins sé tilbúin til að gefa hvað sem er eftir bara til að hanga í ríkisstjórn með Framsókn og Vinstri grænum. 

Þrátt fyrir góðæri til lands og sjávar er ríkissjóður rekinn með gríðarlegum halla og báknið þennst út. Atvinnumálaráðherra VG tekur fyrir að atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar séu virt. Varaformaður VG þvælist fyrir því að lögfestar verði nauðsynlegar reglur varðandi stéttarfélög og vinnudeilur. Ólöglegir innflytjendur flæða inn í landið og ríkisstjórnina skortir samstöðu um að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnvaldsreglum til að koma í veg fyrir hamfarir vegna þess.

Til að kóróna allt boðar forsætisráðherra, að leggjast á árar til að takmarka tjáningarfrelsið með því m.a. að setja opinbera starfsmenn á námskeið til að læra hvað má segja og ekki segja. Allt er það með blessun formanna hinna stjórnmálaflokkana

Hvenær er eiginlega kominn tími til að ljúka þessu stjórnarsamstarfi. Ég taldi næsta öruggt að þegar Svandís Svavarsdóttir braut gegn atvinnufrelsinu þá væri nóg komið. En svo var ekki. Sumarfríið heillaði. 

En hvað ætlar þá Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp á í næstu kosningum?  

 


Kvala- og hvalamálaráðherrann

Svandís Svavarsdóttir ráðherra hefur gert meira en aðrir ráðherrar til að efna til ófriðar við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn og sýnt að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur er málum stýrt af hverjum ráðherra fyrir sig án þess að ríkisstjórnin að öðru leyti hafi með það að gera. 

Sé völdum skipt á milli margra og allir toga sitt í hvora áttina, þá getur ekki verið um skilvirkni eða skynsamlega stjórnarhætti að ræða. að ræða. En þannig er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir í blaðagrein í gær, að stjórnsýsla Svandísar reyni á þanþolið í ríkisstjórn. Það er vægt til orða tekið og á við um alla ráðherra VG. Svandís er samt sér á báti.

Sem heilbrigðisráðherra bar Svandís ábyrgð á því, að fjöldi fólks leið miklar kvalir í langan tíma vegna þess að ráðherrann kom í veg fyrir að hægt væri að nýta þá kosti sem í boði voru til að stytta biðlista eftir bráðaaðgerðum eins og liðskiptaaðgerðum vegna pólitísks ofstækis. Ofan á það bættist að fólk komt ekki til vinnu og lífskjör þeirra efnalega voru líka skert auk þeirra líkamlegu þjáninga sem fólk þurfti að taka út á ábyrgð Svandísar ráðherra.

Nú hefur Svandís séð nýtt tækifæri til að hrekkja og koma illu til leiðar algerlega að ástæðulausu. Af persónulegum geðþótta ákvað hún að banna hvalveiðar rétt í þann mund, sem hvalavertíðin var að hefjast og allt var tilbúið til að hefja hefðbundnar veiðar, sem ekkert er athugunarvert við. 

Með þessari geðþóttaákvörðun veldur Svandís margvíslegu tjóni hjá því fólki, sem hefur atvinnu af þessari starfsemi auk þess, sem skattgreiðendur þurfa að greiða reikninginn vegna löglausra athafna þessa ráðherra og brota á ákvæðum stjórnarskrár um atvinnufrelsi. 

Sæmilega burðugir stjórnmálaforingjar mundu ekki láta þetta yfir sig ganga og slíta stjórnarsamstarfinu við svo búið og þó fyrr hafi verið, en einhverra hluta vegna virðist Katrín Jakobsdóttir komast upp með það ásamt meðráðherrum sínum í VG að gera hvað sem er, sem enginn mið- og hægri flokkur í Evrópu mundi samþykkja.

Sjálfstæðisflokkurinn hefði að sjálfsögðu átt að slíta stjórnarsamstarfinu þegar Svandís Svavarsdóttir sat þversum fyrir því að hið frjálsa framtak gæti losað fólk við kvalir, óþægindi og tekjumissi meðan hún var heilbrigðisráðherra.

Nú þegar þessi ráðherra heldur uppteknum hætti af þjónkun við kommúníska arfleifð sína, er ekki annað í boði en að tilkynna forsætisráðherra, að annað hvort fari þessi vandræðaráðherra strax og atvinnufrelsi verði virt eða ríkisstjórnarsamstarfinu verði slitið þegar í stað. 


Hyldýpisgjáin milli launafólks og ofurlaunafólks

Stundum er talað um  tvær þjóðir í landinu. Þjóðin sem býr við ofurlaun og alsnægtir og þjóðina, sem þarf að hafa sig alla við til að ná endum saman og lifa mannsæmandi lífi. 

Jafnaðarflokkur Íslands, Samfylkingin, hefur  á stefnuskrá sinni að berjast fyrir því "að afrakstur vinnu dreifist með sanngjörnum hætti um samfélagið svo enginn líði skort og allir njóti jafnra lífstækifæra."  

Lengst af voru Norðurlöndin þ.m.t. Ísland í hópi ríkja þar sem launaumur var minnstur og framþróun og þjóðfélagslegt réttlæti í samræmi við það.  Mikill launamunur leiðir til ójafnaðar, mikillar togstreitu í þjóðfélaginu og misskiptingu eigna. Ég tel það því æskilegt markmið í pólitík,að berjast fyrir því að mismunur hæstu og lægstu launa sé ekki úr hófi.

Ofurlaunin bankastjórnaraðalsins í bankakerfinu eru umfram alla vitræna glóru. Ofurlaunin sem sjást eru bara hluti af bankaspillingunni. Alls konar kaupaukar, skattaívilnanir og viðskiptatækifæri til viðbótar eru líka í boði fyrir þau innvígðu í bankageiranum. Starfskjör sem engan venjulegan launþega dreymir um og á ekki kost á. 

Formaður Jafnaðarflokks Íslands,Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir var áður en hún settist á þing, ofurlaunakona í bankakerfinu. Henni var gert tilboð, sem hún taldi sig ekki geta hafnað og fékk fyrir það 101 milljón, á þurru, þá nýkomin til starfa fyrir Kviku banka. Starfskjör sem þessi eru umfram allt velsæmi, en tíðkast í veislunni í bankakerfinu á kostnað neytenda. 

Nú skal ekki vandræðast við Kristrúnu Frostadóttur yfir ofurlaununum hennar hjá Kviku, þó þau rími ekki við stefnu flokks hennar í launamálum. 

Spurningin er hvað Kristrún Frostadóttir og Jafnaðarflokkur hennar ætlar að gera til að draga úr þeim hyldýpis launamun sem er til staðar í landinu. Finnst Kristrúnu Frostadóttur í lagi að stjórnendur í bankakerfinu séu með árslaun daglaunafólksins og ríflega það á einum mánuði? Með hvaða hætti á að ná fram þeim markmiðum jöfnuðar sem Samfylkingin boðar? Kristrún ætti að geta svarað því sem innvígð í klúbb ofurlaunafólksins í bankageiranum. 

Hvað skyldi daglaunafólkið vera mörg ár að vinna sér inn tekjur sambærilegar 100 milljóna kaupaukanum, sem Kristrún fékk í sinn hlut hjá Kviku banka. Finnst Kristrúnu sem jafnaðarmanni slík mismunun starfskjara í lagi? Skyldi Kristrún telja að fólkið utan bankageirans njóti sömu lífstækifæra og hún og félagar hennar í ofurlaunaklúbbi bankastarfsmanna?

Hvað ætlar Samfylkingin að gera til að jafna starfs- og launakjör fólksins í landinu í samræmi við stefnuskrá sína. Það er sú einfalda spurning sem ofurlaunadrottningin í formannsstól Samfylkingarinnar verður að svara. Jafnframt því hvort henni finnist ofurlaunin fyrir bankaaðalinn afsakanleg. 


Markaðstorg hugmynda nýtur ekki sömu verndar og markaðstorg viðskipta

Í síðustu viku var bankareikningi enska stjórnmála- og fréttamannsins Nigel Farage lokað fyrirvaralaus. Ekki vegna þess að Farage væri vondur kúnni heldur vegna skoðana hans. 

Farage hefur talað gegn m.a.Brexit og innflytjendastefnunni en var látinn afskiptalaus þó mörg skoðanasystkini hans hefðu verið beitt sömu afarkostum og Farage núna. 

Farage varð það á að gera athugasemd við fánaborg regnbogafánans þegar hann kom í bankann og spurði hvort bankinn væri til í að flagga fána annarra lífsskoðunarhópa. Afleiðingin að lokað var á hann og hann nýtur ekki þess, að hafa bankareikning, kredit eða debitkort. 

Þó ástandið sé óvenju slæmt í Bretlandi þar sem bankareikningum þúsunda einstaklinga hefur verið lokað vegna skoðana sem ekki eru þóknanlegar bankastjórnendum, þó hvorki væri um refsiverða hluti að ræða eða dónaskap.

Hér heima förum við heldur ekki varhluta af þeim ofstopa og fasisma, sem viðhafður er gagnvart tjáningarfrelsinu. Kennari á Akureyri var rekinn úr starfi fyrir að vísa í Biblíuna og kennari í Háskólanum í Reykjavík var rekinn fyrir að tjá sig um konur á lokuðum þræði á fésbók þó þar væri ekki um neinn dónaskap að ræða. Fólk sem hafnaði skoðunum stjórnvalda, fjölmiðlaelítunnar og þríeykisis vegna Kóvíd varð líka fyrir búsifjum. 

Málið er grafalvarlegt. Opin frjáls umræða er forsenda eðlilegra tjá- og skoðanaskipta og þess, að markaðstorg hugmyndanna starfi með eðlilegum hætti. Við erum með samkeppnislög sem vísa til viðskipta með vöru og þjónustu, þar sem margvíslegir hlutir eru bannaðir til að tryggja að samkeppnisþjóðfélagið virki sem best fyrir neytendur og þjóðfélagið. 

Varðandi markaðstorg hugmyndanna, þá skortir á, að samskonar löggjöf verði sett, sem tryggir í auknum mæli að fólk geti sagt skoðun sína án þess að verða svipt borgaralegum réttindum. Stjórnvöld verða að bregðast við því af fullum þunga með því að setja löggjöf sem ver einstaklinginn gegn aðsókn, réttinda- og stöðumissi vegna skoðanna sinna. 

Tjáningarfrelsi er stjórnarskrárvarinn réttur, en við setningu þess ákvæðis hvarflaði sjálfsagt ekk að neinum að viðskiptaaðilar mundu fara að beita ritskoðun að geðþótta og banna viðskipti við fólk með "rangar" skoðanir að þeirra mati. 

Í Bretlandi urðu samtök um tjáningarfrelsi fyrir því að Pay pal aðgangi og bankareikningum  var lokað vegna gagnrýni á Kóvíd ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, sem síðar reyndust rangar. Þeir sem tala um "móður" í stað þess að segja einstaklingur sem hefur fætt barn, í stórri hættu af því að nota á pólitískt réttmál, sem og þeir sem amast út í karla sem skilgreina sig sem konur og nota klósett og búningsklefa kvenna. 

Breska ríkisstjórnin hefur brugðist við og fordæmt sjálftöku fjármálastofnana við að eyðileggja tjáningarfrelsi þeirra sem hafa aðrar skoðanir en stjórnendur peningaveldisins þ.e. varðandi transhugmyndafræðina, Kóvíd, loftslagsmál, innflytjendamál og múslima, en í umræðu um þessi mál verður fólk að tipla á tánum svo að það missi ekki borgaraleg réttindi þvert á stjórnarskrárvarinn rétt til tjáningar.

Í þessu sambandi hefur verið tekið fram af hálfu fjármálaráðuneytis Bretlands af gefnu tilefni: 

 "Banks and payment providers occupy a privileged place in society and it would be a concern if financial services were being denied to those exercising the right to lawful free speech.” “As a minimum, it is the government’s view that, without deviation, a notice-period and fair and open communication with a customer must apply in situations which relate to termination on grounds other than suspected or actual criminal offences or when otherwise allowed by law.”

Gott væri ef ríkisstjórn Íslands tjáði sig með sama hætti til varnar tjáningarfrelsinu. 

Þvert á móti leggur forsætisráðherra til að vegið verði enn frekar að tjáningarfrelsinu og fólk sett í menntun og endurmenntun til að læra hvað má segja og hvað ekki að hætti kínverskra kommúnista. 

Fallist Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur á fyrirætlanir forsætisráðherra um kommúníska endurmenntun opinberra starfsmanna o.fl. um hvað má segja og hvað ekki, þá fordjarfa þeir tilveru sinni sem flokkar sem eiga að gæta að borgaralegum réttindum fólks og standa vörð um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. En það er ekki nóg að hafna hugmyndafræði forsætisráðherra. Meira þarf, til að vernda raunverulegt tjáningarfrelsi í landinu. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.4.): 1107
  • Sl. sólarhring: 1108
  • Sl. viku: 3414
  • Frá upphafi: 2508235

Annað

  • Innlit í dag: 1040
  • Innlit sl. viku: 3195
  • Gestir í dag: 996
  • IP-tölur í dag: 954

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband