Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Burt með verðtrygginguna

Skoðanakönnun Hagsmunasamtaka heimilanna sýnir að mikill meiri hluti landsmanna vill fá lánakerfi eins og neytendur á hinum Norðurlöndunum búa við. Lán án verðtryggingar með eðlilegum vaxtakjörum.

Samkvæmt því sem kemur fram frá samtökunum þá kemur fram mikill meiri hluti í öllulm stjórnmálaflokkum með breytingu á lánakjörunum þannig að eðlilegt tillit sé tekið til hagsmuna neytenda.

Miðað við það væri því eðlilegt að samtökin mynduðu þverpólitískan hóp til að vinna að þessu hagsmunamáli innan stjórnmálaflokkana. Láta á það reyna hvort þeir eru tilbúnir til að standa fyrir þeirri breytingu sem nauðsynleg er í lánamálum neytenda.  Það hlítur að verða næsta og brýnasta verkefni samtakanna og miklu brýnna en að samtökin verði framboðssamtök. Það gæti orðið til að eyðileggja málið

Nema baráttan hefði  verið reynd til þrautar fyrst.

Verðtrygging verður að fara í lánum til neytenda. Eðlileg og sanngjörn lánakjör ætti að vera á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka og þeir ættu líka að koma breytingum fram. Það reynir á það hvort þeir gera það eða ekki. Fari svo að þeir geri það ekki þá eiga þeir stjórnmálaflokkar ekki lögmætt erindi við kjósendur.


Frelsi glæpamanna ógæfa almennings

Frjáls för fólks á milli landa EES svæðisins og afnám vegabréfaskoðunar á grundvelli Schengen reglna auðvelda erlendum glæpaklíkum að athafna sig hér á landi. Nú geta innbrotsþjófar og líkamsárasarfólk eða kynferðisofbeldisfólk komið hingað brotið af sér og komið sér síðan í skjól heima hjá sér.

Græðir einhver á svona reglum aðrir en glæpamenn?

 Eitt er að geta ekki komið lögum og refsingu yfir glæpamenn og hitt að geta ekki losnað við þá og eiga það á hættu að þeir haldi glæpum sínum gagnvart friðsömum borgurum áfram.

Bretar hafa  heldur betur fengið að finna fyrir því að regluverkið er orðið þannig að þeir geta ekki  komið hættulegum afbrotamönnum eins og nauðgurum og jafnvel morðingjum úr landi vegna þess að þeir hafa myndað svokölluð tengsl við Bretland- en þau tengsl þurfa raunar ekki að vera merkileg.

Þarf ekki að endurskoða þetta kerfi þannig að gætt sé hagsmuna venjulegs fólks og gætt þeirrar meginskyldu ríkis að tryggja öryggi borgarana og allsherjarreglu.


Stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðsla

Borgarahreyfingin birtir heilsíðuauglýsingar í dagblöðum þar er krafist er þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Valkostirnir sem þessi stjórnmálasamtök  bjóða kjósendum er að kosið verið á milli tillagna stjórnlagaráðs og hugsanlegra tillagna Alþingis komi þær á annað borð fram. 

En hvað á að gera komi Alþingi ekki með tilllögur. Um hvað á þá að kjósa? Þess er ekki getið í auglýsingunni og sýnir hversu ómarkviss þessi krafa er.

Hugmyndir Borgarahreyfingarinnar, Þorvaldar Gylfasonar og annarra sporgöngumanna þeirrar aðferðarfræði sem viðhöfð hefur verið við vinnu að nýrri stjórnarskrá byggjast á öðrum sjónarmiðum en þeim sem viðurkennd eru varðandi stjórnarskrá og stjórnarskrárvinnu í öðrum löndum í okkar heimshluta.

Þorvaldur Gylfason og fleiri hafa ítrekað krafist þess að hér verði sett ný stjórnarskrá óháð því hvort um hana ríkir sátt í þjóðfélaginu. Þetta er krafa um að hugsanlega lítill meiri hluti beiti afli sínu af fullum þunga í fullri andstöðu við nærfellt  helming þjóðarinnar.

Þetta er röng hugsun og í fullri andstöðu við hugmyndir manna um breytingar á stjórnarskrá í öðrum lýðræðisríkjum í norðanverðri Evrópu. Hugsun Borgarahreyfingarinnar og Þorvaldar Gylfasonar er meir í ætt við  hugmyndir sem voru uppi í árdaga Sovétríkjanna sálugu en landa eins og Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur svo dæmi séu tekin.

Í því sambandi er gott að benda á hvernig Svíar fóru að varðandi breytingar á sinni stjórnarskrá. Þar var unnin vinna sem stóð í mörg ár og var unnin af fagaðilum ásamt fulltrúum helstu hreyfinga í samfélaginu. Niðurstaðan var síðan lögð fram og að fengnum athugasemdum og ábendingum var haldið áfram vinnunni og henni síðan skilað með þeim hætti, að fullkomin sátt ríkti um þær víðtæku breytingar sem Svíar gerðu á sinnin stjórnarskrá. Hér er krafan hins vegar sú að ófullbúnar og oft vanhugsaðar tillögur stjórnlagaráðs verði knúnar fram strax með afli meirihlutans.

Svipuð vinna og unnin var í Svíþjóð hefði þurft að fara fram hér og svona vinnu verður að vinna til að vitræn niðurstaða náist um breytingar á stjórnarskránni og um hana takist víðtæk og nauðsynleg sátt. Þannig vinnubrögð eru sæmandi og nauðsynleg í lýðræðis- og réttarríki til að skapa þá nauðsynlegu umgjörð um grundvallarréttindi borgarana sem stjórnarskrá er umfram annað ætlað að setja.


Hverjir eru ofsóttir?

Það er athyglivert að skoða hvaða trúarbragðahópur verður fyrir mestu og skipulögðustu ofsóknunum í heiminum.

Þegar að er gáð þá kemur í ljós að það er kristið fólk sem verður fyrir ofsóknum vegna trúar sinnar víðs vegar um heiminn.

Í dag berast fréttir frá Egyptalandi þar sem Koptar sá merki og gamalgróni trúarhópur kristins fólks verður stöðugt og hefur orðið fyrir gríðarlegum ofsóknum um árabil. Kristið fólk verður fyrir ofsóknum í nánast öllum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs m.a. verða kristnir Palestínumenn fyrir ofsóknum bæði af hálfu Palestínumanna sem játa Íslam og einnig af hálfu Gyðinga.

Í Sýrlandi í landi hins "vonda Assads" virðast stjórnvöld þó gæta hagsmuna kristins fólks og það gerði hinn "illi Saddam" líka í Írak en eftir innrás Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra í Írak hefur kristið fólk verið drepið umvörpum í Írak, kirkjur brenndar og um helmingur kristinna er flúinn úr landi

Á Indlandi, Kína og víða í Afríku verður kristið fólk fyrir ofsóknum vegna trúar sinnar og í Evrópu sækja rétttrúnaðarsinnar fjölmenningarsamfélagsins að kristnu fólki undir yfirvarpi mannréttinda.  Óneitanlega nokkuð vasklega fram gengið þegar mannréttindi kristins fólks víðast hvar í veröldinni eru misvirt vegna trúarskoðana þess.

Það er óneitanlega merkilegt að þrátt fyrir að kristið fólk sé talið vera í meiri hluta í landi eins og t.d. Englandi þá geta menn orðið fyrir aðsókn og starfsmissi vegna þess að það ber kristin trúartákn eða hefur þau í bílum sínum. 

Ef til vill er kominn tími til að fólk fari í nýja krossferð og þá krossferð friðarins, mannréttindanna, persónufrelsisins  og umburðarlyndisins.


Kristi úthýst

Borgarráð hefur ákveðið að úthýsa kristinni boðun úr leik- og grunnskólum borgarinnar. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn benda réttilega á að þessar tillögur beri m.a. merki alvarlegra fordóma í garð trúfélaga.

Sumir halda því fram að það skipti engu máli hvaða flokkur er kosinn þar sé sami grauturinn í mismunandi skálum. Þetta er rangt og sú afstaða Borgarráðs að úthýsa kristinni fræðslu úr skólastarfi í borginni sýnir m.a. að það skiptir máli hverjir fara með stjórn borgarinnar og samfélagsins.

Engin vandamál hafa verið í skólastarfi varðandi trúarbragðafræðslu eða trúarlega boðun nema að fámennur en hávær hópur trúleysingja hefur hamast gegn kristinni boðun og trúarbragðafræðslu.  Fulltrúar trúleysingjanna eiga nú sinn meirihluta í stjórn Reykjavíkurborgar þvert á skoðanir meiri hluta borgarbúa.  Sú ákvörðun minni hlutans að úthýsa Kristi úr skólastarfi Reykjavíkur sýnir því að þessu leyti að það skiptir máli hverjir eru valdir í kosningum til að stjórna borg og ríki.

Kristnar lífsskoðanir eru samofnar íslensku þjóðfélagi og menningu. Það verður því erfitt fyrir kennara að framfylgja ákvörðun borgarráðs í daglegu skólastarfi.  Sem dæmi um regluverk Jóns Gnarr og Margrétar Sverrisdóttur um bann við kristinni boðun þá er ákveðið að "Sígildir söngvar o.fl. sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum skuli halda sínum sessi."  Miðað við þetta er þá má syngja "Heims um ból" og í "Betlehem er barn oss fætt" rétt fyrir jólin en þó ekki af öllum.

Önnur regla borgarráðs segir  "Þá verði þess gætt að nemendur fylgist einungis með en séu ekki þáttakendur í helgisiðum eða athöfnum"  Nemendum verður þannig einungis heimilt að fylgjast með þegar jólasálmarnir eru sungnir en mega ekki sjálfir taka þátt. Það að syngja "Heims um ból" er jú bæði helgisiður og athöfn.

En þetta er ekki nóg. Borgarráð ákveður líka að setja sérstakar tálmanir varðandi áfallahjálp presta og heimsóknir í kirkjur. 

Manni er spurn hvort brýna nauðsyn bar til þessara ákvarðana við stjórn Reykjavíkurborgar? Einnig hvaða hvatir eru að baki svona ákvörðunum Besta flokksins og Samfylkingarinnar?


Enn skilja Jóhanna og Steingrímur ekkert

Friðsöm mótmæli voru við Alþingishúsið þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Hvorki hún né meðreiðarsveinn hennar hann Steingrímur átta sig á hverju fólk er fyrst og fremst að mótmæla.

Þessi mótmæli voru sjálfsprottin að því leyti að enginn hópur eða samtök boðuðu til mótmælanna. Þeir einu sem mæltu með því að fólk mætti og mótmæltu hvöttu fólk til að mótmæla verðtryggingunni og okri á neytendur.  Um það snérust mótmælin. Að sjálfsögðu skildu Jóhanna og Steingrímur það ekki. Af því er ljóst að það þarf heldur betur að grípa til kröftugri aðgerða til að þau átti sig á því að fólk krefst réttlætis og sambærilegra kjara og fólk hefur í nágrannalöndunum einkum í lánamálum.

Næst þarf að efna til friðsamlegra mótmæla á skrifstofum ASÍ og Eflíngar til að mótmæla svikum verkalýðsrekendanna við umbjóðendur sína. Þar sitja skriffinnar sem berjast fyrir verðtryggingu og lánaokri.

En átti þau Jóhanna og Steingrímur sig ekki á kalli friðsamra mótmælenda þá þarf greinilega að gefa þeim sterkara meðal.


Sjáandi sjá þau ekki

Það er einstakt að þegar fólk mótmælir verðtryggingu og lánaokri við þingsetningu, að þá skuli hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra skilja hverju verið er að mótmæla.

Hagsmunasamtök heimilanna stóð fyrir mótmælastöðu við þingsetningu og krafðist þess réttlætis að íslenskir neytendur ættu kost á sömu lánakjörum og neytendur í nágrannalöndum okkar. Sumir kröfðust líka að ránsfeng verðtryggingar frá hruni til dagsins í dag verði skilað. Þetta voru kröfur mótmælenda.

Allt eru þetta eðlilegar og sjálfsagðar kröfur og raunar forsenda þjóðarsáttar og framfara.

En forsætisráðherra og fjármálaráðherra neita að horfast í augu við þetta og þegar þau tjáðu sig um mótmælin þá annað hvort vissu þau ekki hverjar kröfur mótmælenda voru eða þóttust ekki vita það og ummæli þeirra við spurningu fréttamanna voru gjörsamlega út í bláinn miðað við það tilefni sem um var að ræða og þær spurningar sem að þeim var beint.

Hvað þarf að gera til að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon skilji sinn vitjunartíma. Þau neita að horfast í augu við það sem ritað er á vegginn að þau eru veginn og léttvæg fundin.


Þingsetning og mótmæli

Í lýðræðisríki er mikilvægt að borgararnir beri virðingu fyrir þeim stofnunum sem fara með lýðræðislegt vald.  Það á við m.a. um Alþingi, ríkisstjórn, dómstóla og lögreglu.

Setning Alþingis er hátíðleg stund, sem markar nýtt upphaf mikilvægustu stofnunar íslensks lýðræðis. Við borgarar þessa lands eigum að sýna þessari stund virðingu sem og Alþingi. Mótmæli og aðsókn að alþingismönnum við það tækifæri er óhæfa. Þess vegna eiga þeir sem vilja fylgjast með þingsetingunni að gera það af virðuleika í samræmi við þá hátíðarstund sem þingsetningin er.

Öðru máli gegnir um það þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi þá er mörkuð stefna ríkisstjórnar sem að eðlilegt er að bæði alþingismenn sem og almennir borgarar segi skoðun sína á þess vegna með friðsamlegum mótmælum ef svo ber undir. 

Ég hef hvatt fólk til að mæta við Alþingishúsið þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína til að mótmæla því óréttlæti sem íslenskir borgarar eru beittir með verðtryggingu lána. Krafan er að við njótum sambærilegra lánakjara og fólk í nágrannalöndum okkar í lánamálum og hvað varðar verðlag í landinu. Það er eðlilegt að við sýnum þeim sem hafa verið kjörnir til að gæta almannahagsmuna að þeir eru ekki að standa sig. Þar kemur ríkisstjórnin númer eitt. Þess vegna á að mótmæla við stefnuræðu forsætisráðherra.

En það þarf einnig að sýna þeim sem hafa verið kjörnir fulltrúar alþýðu manna í verkalýðsfélögum og ASÍ að þeirra þáttur er ósæmileg og andstæð hagsmunum umbjóðenda þeirra. Verkalýðshreyfingin á Íslandi ber umfram aðra ábyrgð á því lánaokri sem almenningur í landinu hefur þurft að sæta og sætir.  Er ekki kominn tími til að það fólk verði kallað til ábyrgðar ekkert síður en stjórnmálamennirnir?


Af hverju hafa konur lægri laun en karlar?

Hvar sem er í heiminum er launamunur milli karla og kvenna. Ekki skiptir máli hvers konar þjóðfélög er um að ræða. Á heimsvísu hafa konur lægri laun en karlar svo munar  10-30%.  Þetta vekur athygli vegna þess að ætla má að eftir því sem þjóðfélög þróast og menntun kvenna verður betri þá ætti launamunur kynjanna að minnka en svo er ekki.

Þetta er merkilegt m.a. vegna þess að í ríkum löndum starfa hlutfallslega fleiri hjá hinu opinbera þar sem launamunur kynjanna er almennt minnstur en samt sem áður kemur það fyrir ekki launamunur eftir kyni er umtalsverður.

Þrátt fyrir að minna sé um erfiðisvinnu þar sem reynir á líkamlegan styrk þá raðast kynin hvar sem er í heiminum í ákveðin og sambærileg störf og þar skiptir engu máli hverjar þjóðartekjurnar eru.

Í grein í Economist 24.4.s.l. er fjallað um þetta og velt fyrir sér ástæðum þessa kynbundna launamunar og þeir sem hafa áhuga á málinu ættu að kynna sér skrifin þar, en meginástæðuna fyrir því að konur eru í láglaunastörfum segir Alþjóðabankinn að sé vegna þess að konur stjórni ekki tíma sínum eins og karlar. Á Ítalíu og Austurríki t.d. þá eyða konur þrisvar sinnum lengri tíma í húsverk og barnapössun en karlar.  Í mörgum fátækari löndum þá eyða þær mun lengri tíma í þessa vinnu.

Eitt kemur þó sérstaklega á óvart en það er að í landi kvenfrelsisins Svíþjóð og kvennakúgunarinnar, Pakistan eyða karlar í báðum löndum álíka tíma í heimilisstörf. Sérkennilegt?????

Það að konur eyða svona miklu meiri tíma en karlar í heimilisstörf og barnauppeldi takmarkar það möguleika kvenna til starfsvals og þær þurfa frekar að vinna hlutastörf. 

Það er athyglivert að skoða þetta og það vekur upp spurningar miðað við herferð VR varðandi þessi mál hvernig er þessu fyrirkomið hér á landi hve miklum tíma eyða kynin í heimilsstörf og barnauppeldi t.d. og einnig hvort auglýsingaherferð VR er ekki byggð á röngum forsendum. 

Þá er spurningin hvort að áherslur femínista og kvennahreyfinga hafi ekki verið á röngum forsendum og það þurfi aðra hluti en útgjöld skattgreiðenda t.d. vegna fæðingarorlofs sem átti að mati femínista að draga úr launamun, sem ekki varð, til að tryggja raunverulega jafnstöðu karla og kvenna í launamálum.


Þórólfur hér og Þórólfur þar

Nóbelsskáldið hitti naglann á höfuðið þegar hann lýsti umræðuhefð  íslendinga.

Það er nöturlegt að fylgjast með því hvað sumir hagsmunaaðilar, talsmenn bændasamtakanna þessa daganna, hafa takmarkaða þekkingu á mál- og skoðanafrelsi.

Þórólfur Matthíasson prófessor hefur í nokkrum greinum vakið athygli á styrkjum til sauðfjárræktar og segir upplýsingar sínar komnar frá Bændasamtökunum. Talsmenn bænda hafa hreytt fúkyrðum í Þórólf og reitt til höggs gegn starfsfélögum hans, en ekki sýnt fram á að Þórólfur fari nokkursstaðar með rangt mál.  Þetta geta tæpast talist ásættanleg vinnubrögð í lýðræðisþjóðfélagi.

Hvort sem okkur likar betur eða verr þá er sauðakjöt dýrt í framleiðslu. Framleiðslan er óhagkvæm og dýr. Flest sauðfjárbú eru of lítil. Ríkisstyrkir eru of miklir. Verð til neytenda er of hátt. Bændur hafa ekki viðunandi kjör. Er þetta ekki mergur málsins?

Viðfangsefnið er þá, hvernig verður komið á betri framleiðsluháttum sem stuðla að hagkvæmni, betri afkomu, lækkuðu vöruverði og minni styrkja. Af hverju ekki að ræða þetta í alvöru. Bændur eiga ekki lögvarinn rétt til þess að skattgreiðendur borgi endalaust framleiðslustyrki.

Ég vorkenni Þórólfi Matthíassyni að vera í þessari orrahríð. Fyrir 30 árum skrifaði ég framsækna grein í Morgunblaðið, þar sem sagði m.a. "Búum þarf að fækka og þau þurfa að stækka."  Talsmenn bændasamtakanna á þeim tíma ærðust  og ég stóð í  látlausum ritdeilum  við hvern tindátann úr Bændahöllinni  á fætur öðrum. Þeir voru sendir fram með skipulegum hætti. 

Þessi orð voru rétt eins og komið hefur á daginn. Með sama hætti sýnist mér að Þórólfur Matthíasson prófessor hafi rökin sín megin i málflutningi sínum um sauðfjárbúskapinn.

Talsmenn bænda eiga því að taka á málflutningi Þórólfs af karlmennsku ef þeir telja hann rangan og sýna fram á það með rökum í stað þess að fara í lúalegt stríð gegn einstaklingi sem setur fram skoðun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 672
  • Sl. sólarhring: 696
  • Sl. viku: 3215
  • Frá upphafi: 2518315

Annað

  • Innlit í dag: 632
  • Innlit sl. viku: 2981
  • Gestir í dag: 601
  • IP-tölur í dag: 580

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband