Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Höggið sem bankarnir urðu fyrir.

Umræðan um dóm Hæstaréttar og höggið á bankana hefur verið athygliverð og innantóm.

Haldið er fram að lánastofnanir verði fyrir höggi vegna niðurstöðu dóms Hæstaréttar um bann við að lánastofnanir geti endurreiknað vexti til hækkunar af þegar greiddum kröfum.

Hvað er þá um að ræða? Lántakandi greiðir greiðsluseðil lánastofnunar og málinu er lokið. 

Nei lánastofnunin endurreiknar vexti greiddra ólögmætra gengisbundinna lána eftir vaxtadóm Hæstaréttar. Þær áskilja sér hærri vexti en þær áttu rétt á samkvæmt lánasamningnum og þær innheimtu hjá skuldurum samkvæmt honum.

Hæstaréttur segir að lánastofnanir geti ekki endurreiknað greidda vexti aftur á bak til hækkunar gagnvart neytendum.  Með öðrum orðum verður lánastofnunin að sætta sig við þá greiðslu sem hún krafði og fékk greidda á sínum tíma.

Hvert er þá höggið sem lánastofnunin verður fyrir? 

Að geta ekki innheimt ólögmæta viðbótarvexti af þegar greiddum kröfum.

Sá sem áskilur sér hærri þóknun eða greiðslu en honum ber, á ekki rétt á þeim. Þegar sá hinn sami fær þær ekki heldur það sem honum bar með réttu en ekkert umfram það. Þá verður sá hinn sami ekki fyrir höggi. Þess vegna verða lánastofnanir ekki fyrir höggi vegna dómsins. Lánastofnanir gerðu vitlausar kröfur sem þær verða að leiðrétta. 

Eðlilegt að fjölmiðlar, Alþingi og lánastofnanir skuli vera upptekin við að reikna út það sem kallað er tap lánastofnana vegna dóms Hæstaréttar. Þrátt fyrir það að tapið sé ekkert, tjónið sé ekkert. Ekki frekar en það að menn vilji færa það inn í  málnotkun að þjófur sem ætlar að stela epli en getur það ekki verði fyrir tapi vegna þess að honum tókst ekki að stela eplinu.


Sýniþörf fullnægt.

Í gær féll dómur í Hæstarétti. Niðurstaðan var að lánveitandi gæti ekki krafið lántaka um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann af gengisbundnum lánum. Jafnframt voru réttilega gagnrýnd ólög sem eru kennd við Árna Pál Árnason þáverandi viðskiptaráðherra. 

Af rökstuðningi meiri hluta Hæstaréttar að dæma má ætla að lántakandi geti krafist viðbótarvaxtagreiðslna af ógreiddum vöxtum aftur í tímann.  

Á Alþingi varð írafár strax og fréttist af dóminum. Þingmaður Hreyfingarinnar krafðist fundar í viðkomandi starfsnefnd nokkrum mínútum eftir að dómurinn var kveðinn upp. Sérstakar umræður eru á Alþingi í dag um dóminn.

Hvaða tilgangi þjónaði þetta?  Í sjálfu sér ekki neinum öðrum en að opinbera sýniþörf þeirra sem að þessu standa. Hvað gerir Alþingi vegna þessa dóms?

Nú liggur fyrir að búið er að létta skuldum af þeim sem voru áhættusæknastir og tóku gengisbundin lán. Þarf þá ekki  að skoða hvað á að gera fyrir þá sem voru varkárari og tóku verðtryggð lán. Gefur það ekki auga leið að það er ekki hægt að láta það fólk sitja uppi með Svarta Pétur?

Eina viðfangsefni Alþingis bæði fyrir og eftir dóm Hæstaréttar er í fyrsta lagi að  afnema verðtrygginguna og í öðru lagi að færa niður höfuðstóla þeirra lána alla vega til jafns við niðurfærslu gengisbundnu lánanna.


1.1.2008

Kristján Þór Júlíusson skrifar góða og athygliverða grein í Morgunblaðinu í dag.  Þar gerir hann kröfu til þess að höfuðstóll verð- og gengistryggðra lána verði færður niður miðað við stöðu þeirra þ.1.1.2008.

Kristján rekur í grein sinni á rökfastan og gagnorðan hátt með hvaða hætti beri að framkvæma niðurfærsluna. Hann bendir á hvernig eigi að útfæra lækkunina, hvaða vexti skuli greiða og hvernig fara skuli með umframgreiðslur.

Kristján Þór gerir sér grein fyrir að stefna ríkisstjórnarinnar vegna vanda skuldsettra heimila er óréttlát og ósanngjörn.

Kristján Þór segir m.a. "Almenningi ofbýður þetta óréttlæti. Skuldsett heimili, sem vilja standa í skilum krefjast réttlætis og sanngirni í sinn garð,........  Að mínu mati eru bæði sterk sanngirnis- og réttlætisrök sem mæla með því að tekist verði á við þann hluta forsendubrestsins sem löggjafinn getur tekið beint á."

Kristján Þór stígur nú opinberlega fram og sýnir að hann hefur hafið þá vinnu sem Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fól þingflokknum. Sú vinna er að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður höfuðstóla þeirra lána. Kristján Þór á heiður skilinn fyrir þetta framlag sitt.

Verðtrygginguna verður að afnema strax  Kristján Þór virðist gera sér glögga grein fyrir því.

Þeim mun fyrr sem þingflokkur Sjálfstæðisflokkurinn leggur allan sinn þunga í svipaða vinnu og þingmennirnir Kristján Þór  og Guðlaugur Þór hafa hafið við að afnema verðtryggingu á neytendalánum og bakfæra höfuðstólana þeim mun fyrr nær þetta brýnasta réttlætismál í þjóðfélaginu fram að ganga.


Tilraun til hvítþvottar?

Áttar fólk sig ekki á að skýrslan um lífeyrissjóðina var unnin fyrir þá á þeirra forsendum. Skýrslan greinir frá þekktum staðreyndum þó fólk hafi ekki áttað sig á hversu gríðarlegt tap þetta var.  En þar sem skýrslan var unnin fyrir lífeyrissjóðina þá var það ekki verkefni nefndarinnar að sýna fram á bruðlið og sóðaskapinn.


1. Það er ekki sagt frá dýru boðsferðunum sem stjórnarmenn og starfsmenn lífeyrissjóða fóru í á vegum banka og útrásravíkinga.
2. Það er ekki sagt frá hagsmunaárekstrum nema ör örlítið
3. Það er ekki sagt frá bruðlinu í lífeyrissjóðunum.
4. Það er ekki sagt frá ofurlaununum sem stjórnendur lífeyrissjóðanna voru með.

Af hverju er ekki sagt frá þessu?


Af því að það var ekki verkefni nefndarinnar. Lífeyrissjóðirnir borga fyrir það að koma eins vel út og mögulegt er eftir að hafa tapað rúmum fjárlögum.  Formaður lífeyrissjóðasambandið lýsti síðan ánægju sinni með störf nefndarinnar.

Mennirnir sem töpuðu 480 milljörðum halda því síðan fram að það megi ekki í neinu slaka varðandi verðtrygginguna.  Þarf eitthvað að tala við þá meira um það?


Með sólgleraugu í rigningunni

Nýr fjármálaráðherra, sem  ráðin var um áramótin, í  nokkurra mánaða starfsmenntun í ráðherradómi, af vinkonu sinni Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur lært mikið á stuttum tíma. Hún hefur þegar lært af fyrrverandi fjármálaráðherra að setja upp sólgleraugu í rigningunni og segja þjóðinni að það sé sól úti í fjármálunum þó allir aðrir sjái að það hellirignir.

Í dag hélt hún ræðu á sundrungarfundi í Samfylkingunni og sagði þar að nú væru öll merki um batnandi hag. Þessi ræða er flutt á sama degi og fjölmiðlar skýra frá því að verðbólga sé á uppleið og mælist nú 6.5% á ári.

Þegar horft er á hlutina með sólgleraugum fjármálaráðherra þá skiptir það ekki máli þó að verðbólga sé á uppleið og mælist nú mest á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá telur hún enga ástæðu til að vandræðast með það að skuldir heimilanna hækki um  4 milljarða á mánuði.

Ekkert af því sem fjármálaráðherra talar um er henni að kenna eða þakka. Hún hefur ekki enn náð að setja sitt mark á ríkisfjármálin og verður að öllum líkindum farin úr embætti áður en hún gerir það.  Þegar rýma þarf fyrir nýjum lærlingi á fjármálaráðherrastól ríkisstjórnarinnar.

Það veldur áhyggjum að hlusta á ráðherrann flytja gömlu ræðuna hans Steingríms J. með öllum sömu formerkjunum þó með öðrum áherslum sé. 

Að sjálfsögðu mætti Steingrímur J. á fund Samfylkingarinnar til að fylgjast með lærlingnum og hefur vafalaust líkað vel að fá svona velheppnað endurvarp í ríkisstjórnina. 


Ofurvald sérfræðinnar og skuldir heimilanna

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar í annað sinn brutust út mikil mótmæli við þinghúsið. Í framhaldí af því setti örvæntingarfull Jóhanna málið í nefnd.

Niðurstaðan var að koma til "aðstoðar" þeim heimilum sem gátu ekki borgað neitt og ekki var hægt að innheimta neitt hjá. Ekkert skyldi gefið eftir af "innheimtanlegum skuldum"

Eftir að gengisbundin lán voru dæmd ólögleg gerði forsætisráðherra grein fyrir að "aðstoð" við heimilin næmi 144 milljörðum. Megin hluti þessarar "aðstoðar" var vegna niðurfærslu ólögmætra gengislána.

Forsætisráðherra fann því nýtt hugtak um það þegar lánastofnanir fara að lögum eða afskrifa óinnheimtanlegar skuldir. Það heitir "aðstoð við heimilin í landinu fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar."

Þegar þessi blekkingaleikur dugði ekki og ábyrgir fjárfestar í húsnæði og ábyrg heimili sættu sig ekki við óréttlæti verðtryggingarinnar, þá setti forsætisráðherra málið til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ítrekað er kallað í þá stofnun þegar ríkisstjórna þarf að fá sérfræðilegan stimpil á stjórnmálalega afstöðu sína. Stofnunin hlýðir alltaf kalli ríkisstjórnarinnar eins og hundur húsbónda sínum.

Í október s.l. lagði forsætisráðherra fyrir Hagfræðistofnunina að meta kostnað við tillögur um leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstólum miðað við gefið svigrúm. Af sjálfu leiddi að Hagfræðistofnunin fann ekkert svigrúm. Að vísu höfðu þeir ekki allar upplýsingar til að reikna út jöfnuna. Þeir giskuðu þá bara á það sem upp á vantaði. Flott vísindi það.

Hagfræðistofnun reiknaði það sem fyrir hana var lagt á þeim grundvelli sem fyrir hana var lagt auk nokkurra ágiskana og fékk út þá niðurstöðu sem fyrir hana var lagt.

Forsætisráðherra bað ekki um að reiknað yrði á vísindalegan hátt óeðlilegur hagnaður lánastofnana, banka, íbúðarlánasjóðs og lífeyrissjóða vegna hækkana höfuðstóla verðtryggðra húsnæðislána þann frá 1.10.2008 til dagsins í dag. Þennan tíma hefur enginn virðisauki verið í þjóðfélaginu. Verðtryggðu lánin hafa samt hækkað um 180 milljarða.  

Það var ekki beðið um að reikna út líkur á jákvæðum þjóðhagslegum áhrifum og aukningu þjóðarframleiðslu í framhaldi af leiðréttingu á skuldum heimilanna. Skilningur á því er ekki lengur fyrir hendi í ríkisstjórninni eftir síðustu útskiptingar ráðherra.

Hagfræðistofnun segir að það kosti um 200 milljarða að leiðrétta höfuðstóla verðtryggðra lána þ.e. færa þá niður til þeirrar vísitölu sem var við bankahrunið 1.10.2008. Raunar svipaða tölu og verðtryggingarránið hefur kostað lántakendur frá bankahruni. 

Það er athyglivert að það er alltaf talað um kostnað lánastofnana. Það er aldrei talað um kostnað lánþega vegna vísitöluránsins.  Það er ekki talað um leiðréttingu höfuðstóla á grundvelli jafnstöðu lántaka og lánveitenda, heiðarleika og sanngirni.

Mig minnir að Winston Churchill hafi einu sinni sagt að það væri til lygi, tóm lygi og tölfræði. Tölfræðin var hin vísindalega nálgun þess tíma. Hjá Jóhönnu er aðgerðarleysið sveipað með því að setja mál í nefnd, segjast gera eitthvað sem ekki er gert og biðja um vísindalegt álit með fölskum formerkjum.

Réttlætið verður ekki sótt til Jóhönnu Sigurðardóttur eða meðreiðarsveina hennar. Hún og ríkisstjórn hennar ætlar ekkert að gera. Það er algjörlega ljóst.

Nú er tími til kominn að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins bretti upp ermar og móti strax tillögur um lausn skuldasvanda heimilanna, afnám verðtryggingar og niðurfærslu höfuðstóla eins og samhljóma ályktanir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins kveða á um.

Niðurfærsla skulda heimilanna, afnám verðtryggingar og niðurfærsla höfuðstóla verðtryggðra lána gerist á grundvelli pólitískrar stefnumótunar.

Ekki með reikniformúlum þar sem réttlætið er alltaf stærð sem skilin er útundan.


Orsök og afleiðing

Eitt mikilvægasta í starfi Háskóla og háskólakennara var lengi talið að rökfæra með skynsamlegum hætti þær kenningar og sjónarmið sem þeir settu fram. Þegar hlustað er á rökfærslu Þorvaldar Gylfasonar prófessors í hagfræði, um íslenskan veruleika þá virðist þetta liðin tíð.

Þorvaldur Gylfason hélt því fram í viðtali á RÚV í kvöld, að nú væri sannað að bankakreppan íslenska árið 2008 ætti ekki rót sína að rekja til heimsvandans  í bankamálum,  af því að íslensk heimili hefðu það mikið verra en heimili á Norðurlöndum, sem einnig hafi þurft að taka á sig afleiðingar kreppunar eins og aðrar þjóðir. Fullyrðingin er raunar röng en það er annað mál.

Rökfærsla prófessors Þorvaldar er þessi: Þar sem íslensk heimili standa miklu verr efnahagslega, en heimili á Norðurlöndum, þá er sannað að  bankakreppan árið 2008 hefur ekkert með alþjóðlegu bankakreppuna að gera.

Óneitanlega vantar töluvert upp á þessa röksemdafærslu. Hvað leiðir til hvers og hvað sannar hvað og af hverju?

Noregur, Svíþjóð og Finnland gengu í gegn um bankahrun fyrir um 2 áratugum. Þá var ekki sambærileg alþjóða bankakreppa og árið 2008. Heimilin í þessum löndum fóru ekki eins illa út úr bankahruninu og hér vegna þess að þar er ekki verðtrygging á neytendalánum. Í annan stað þá lækkuðu rauntekjur fólksins ekki sambærilega og hér og í þriðja lagi þá var skattheimta á almenning ekki aukin með sama hætti og hér. Þetta er mergurinn málsins. En það kemur alþjóða bakakreppunni og íslenska bankahruninu árið 2008 ekki við.

Norðurlöndin lentu ekki í sambærulegu bankahruni og við árið 2008. Þegar af þeirri ástæðu stenst samlíking og rökfærsla prófessors Þorvaldar ekki. Í annan stað þá urðu heimilin á Norðurlöndunum ekki fyrir skakkaföllum vegna bankahruns árið 2008. Þess vegna er samlíking prófessors Þorvaldar einnig röng.

Íslenska bankabólan var eðlilslík bankabólunni í Bandaríkjunum, Englandi, Írlandi og víðar. Sú staðreynd verður ekki hrakinn með vísan til stöðu heimila á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

Óneitanlega er það athyglivert að prófessor Þorvaldur skuli ekki átta sig á að sá meginmunur sem er á stöðu íslensku heimilanna og frænda okkar á hinum Norðurlöndunum er sú að þar er ekki verðtrygging á neytendalánum.  


Verðhækkanir, dagvöruverslun og verðbólga

Verðbólga mælist 5.3% og fer vaxandi. Hvernig getur verið svona mikla verðbólgu í landi þar sem gengi gjaldmiðilsins er nánast stöðugt vegna gjaldeyrishafta og launahækkanir litlar.

Í fréttum í kvöld var sagt að jólasteikin hefði hækkað um 40% sú hækkun hefur ekki verið skýrð.  Víðast hvar í Evrópu mundu talsmenn launþega, neytendur og stjórnmálamenn krefjast svara við því af hverju svona miklar verðhækkanir hafi orðið á vörum sem ættu eðli máls samkvæmt ekki að hækka meira en nemur innlendum kostnaðarhækkunum.

Vöruverð á Íslandi er óeðlilega hátt miðað við laun og gengi, og hefur farið hækkandi án þess að eðlilegar skýringar hafi komið fram á nema örlitlum hluta. Verð á nánast allri innlendri framleiðslu hefur hækkað umtalsvert umfram launa- og kostnaðarhækkanir. Það þýðir að einhver er að taka meira til sín en áður. Hver eða hverjir skyldu það nú vera?

Alþingismenn telja eðlilegt að færa réttarfarið í landinu í hendur rannsóknarnefnda og þá væri e.t.v. mikilvægasta rannsóknarnefndin sú, sem þeir eiga eftir að skipa. Það er eftirlitsnefnd með eðlilegri verðþróun og verðlagningu í dagvöruverslun. Sú nefnd mundi ekki fjalla um söguskýringar eins og hinar heldur væri viðfangsefni hennar samtíminn og framtíðin.

Nýlokið er hlutafjárútboði í fyrirtækinu Hagar, sem rekur meginn hluta dagvöruverslunar í landinu. Allir hlutir sem voru til sölu í Högum,  seldust upp á svipstundu.  Þeir sem sjá sér hagnaðarvon í að kaupa í Högum telja að flá megi feitan gölt þar sem íslenskir neytendur eru. 

Þrátt fyrir að íslensk dagvöruverslun sé dýr og óhagkvæm, þá sjá fjárfestar þar samt mikla hagnaðarvon. Mikilvægt væri að fá vitrænar skýringar á því.

Alþýðusambandið sem annast um verðkannanir gæti gefið launafólki þá jólagjöf að fara að vinna af alvöru gegn óeðlilegum verðhækkunum í landinu.  Verðhækkanir eru kjararýrnun launþega, en hér á landi hittir það launþega tvöfalt vegna verðtryggingarinnar.

En hvernig er það fjárfestu lífeyrissjóðirnir e.t.v. mikið  í Högum? Sé svo er ASÍ þá úr leik í baráttunni fyrir réttlátri verðlagningu í dagvöruverslun fyrir launþega?


Sérkennilegt

Talsmaður Arion banka var spurður um það hvort bankinn hefði verðlagt hlutabréf í Högum of lágt við útboð hluta í félaginu. Talsmaðurinn svaraði í raun þannig að svo hafi verið og miðað sé við einhver mörk hvað það varðar 10-20% minnir mig að hann segði  að slíkir hlutir væru boðnir undir áætluðu markaðsvirði. Þá sagði hann að sennilega hafi þetta verið nálægt efri mörkum hjá þeim í Arion.

Sé það svo að strákarnir í Arion hafi áætlað verðmæti Haga 15-20% hærra en ásett verð við hlutafjárútboð þá er það athyglivert mál. Sé sú staðhæfing talsmanns bankans rétt að þetta sé venja, þá er spurning hvenær mótaðist sú venja og hefur hún verið almennt tíðkuð við hlutafjárútboð, hvenær og hvar?

Í annan stað þá þýðir þetta að hluthafar Arion tapa peningum og ríkissjóður tapar peningum. Þeir sem fengu að kaupa mikið eða áttu kauprétt græða mest.

Er það allt í lagi að selja eigur Arion banka á allt að  20% undirverði? 

Er það ekki frétt að ríkissjóður verði af hundraða milljóna skattekjum hinna ríku og útvöldu.

Svo virðist miðað við það sem talsmaður bankans heldur fram að það hafi verið meðvituð ákvörðun að hygla kaupendum hlutafjár í Högum og halla á eigendur Arion og ríkissjóð.

Sérkennilegt eða hvað?


Ný hagfræðikenning

Gylfi Anbjörnsson forseti ASÍ var í síðdegisútvarpinu á Bylgjunni nú síðdegis. Þar var Gylfi spurður hvað það væri sem ylli verðbólgunni. Gylfi svaraði að bragði og sagði: "Það sem veldur verðbólgunni er verðbólgan sjálf" 

Þá vitum við það. Verðbólgan er samkvæmt áliti forseta ASÍ sjálfbær og er bæði orsök og afleiðing sjálfs sín.

Hagspekingurinn Gylfi Arnbjörnsson sem er helsti baráttumaður fyrir verðtryggingu lána til neytenda er það þrátt fyrir það að hann telji verðbólguna vera sjálfsprotna.

Skrýtið að þessi meinti hagsmunagæslumaður launafólks  skuli sætta sig við, að nú þegar Steingrímur hækkar skatta á brennivíni og tóbaki að þá skuli sú hækkun hækka verðtryggð lán.

Skrýtið? Nei. Gylfi Arnbjörnsson hugsar fyrst og fremst um hagsmuni fjármagnsins. Í fyrsta skiptið er helsti kapítalisti þjóðarinnar Gylfi Arnbjörnsson einnig forseti ASÍ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 12
  • Sl. sólarhring: 719
  • Sl. viku: 5646
  • Frá upphafi: 2591747

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 5296
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband