Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Munaðarlausu fjárlögin

Forsætisráðherra sagði Oddnýu Harðardóttur hafa gegnt embætti fjármálaráðherra með mikilli prýði og staðið sig vel. Þess vegna taldi Jóhanna rétt að hún viki. Varaformaður Samfylkingarinnar sagði að Oddný hefði staðið sig með sóma og tók undir með formanni sínum að það væri því eðlilegt að hún léti af störfum.

Fyrir 8 mánuðum leysti forsætisráðherra, Steingrím J. Sigfússon undan því að vera fjármálaráðherra þegar ljóst var að hann réði ekki við verkefnið sérstaklega ekki á kosningaári.  Oddný Harðardóttir var síðan tekin í starfsþjálfun í fjármálaráðuneytinu í 8 mánuði meðan gengið var frá undirbúningi fjárlaga.

Nú þegar fjárlagafrumvarp er nánast alskapað þá þykir Samfylkingunni rétt að sá sem ber pólitíska ábyrgð á þeim víki vegna góðra starfa eins og það er orðað og við taki þingmaður úr Kópavogi sem hentar nú að koma úr barneignafríi.

Fjárlögin eru því munaðarlaus. Steingrímur J. hljóp frá óreiðunni og skilaði lyklum fjármálaráðuneytisins til konu sem fékk að sitja opinmynnt á skólabekk hjá starfsmönnum fjármálaráðuneytisins við undirbúning fjárlaga. Nú tekur við fjármálaráðherraembættinu kona sem hefur ekki átt þess kost að setja sig inn í þá faglegu vinnu sem unnin hefur verið við fjárlögin og sest nú opinmynnt á skólabekk til að fá fræðslu um helstur forsendur og áherslu fjárlaga.

Samfylkingin telur greinilega að pólitísk ábyrgð, forusta og frumkvæði eigi ekki við lengur.


Hvort segir fjármálaráðherra vísvitandi ósatt eða veit ekki betur?

Í kvöldfréttum RÚV var 90 milljarða halli á ríkissjóði árið 2011 gagnrýndur af ýmsum. Fjármálaráðherra  segir að hallinn sé eðlilegur og þetta hefði verið meira eða minna fyrirsjánalegt, þó áætlanir hafi sýnt mun minni halla. Spurning er var þá verið að segja ósatt þegar fjárlögin og áætlanirnar voru kynntar þingi og þjóð?

Í annan stað segir fjármálaráðherra að stór hluti af skýringunni á meiri ríkissjóðshalla en ráð var fyrir gert hafi verið vegna þess að greiða hafi þurft vegna Sparisjóðs Keflavíkur og það væri vonandi síðasti stóri reikningurinn vegna Hrunsins.  Hér vísar fjármálaráðherra til bankahrunsins í október 2008.

Þessi ummæli fjármálaráðherra eru ósannindi. Reikningurinn vegna Sparisjóðs Keflavíkur kemur bankahruninu í október 2008 ekkert við. Sparisjóður Keflavíkur var með jákvæða eiginfjárstöðu upp á nokkra milljarða samkvæmt ársreikningum sem birtir voru í apríl 2009 og þar var sagt að tekið hefði verið fullt tillit til bankahrunsins. 

26 milljarðarnir sem þarf  að greiða vegna Sp/Kef er vegna handvammar og slæmrar ráðsmennsku Steingríms J. Sigfússonar.  Eftir að Steingrímur J hlutaðist til um að Sparisjóður Keflavíkur starfaði áfram á undanþágum frá FME þá myndaðist  tapið sem þjóðin þarf að borga.

Fjármálaráðherra er fyrrverandi sveitarstjóri í Garðinum á Reykjanesi ætti að þekkja vel til Sparisjóðs  Keflavíkur. Henni hlýtur að vera ljóst að reikningurinn vegna Sparisjóðs Keflavíkur er ekki vegna bankahrunsins heldur alfarið á ábyrgð Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar.

Viti fjármálaráðherra ekki betur og telji hún sig vera að segja satt, þá er illt í efni. Þá hefur hún greinilega ekki fylgst með hvorki sem sveitarstjóri á sínum tíma né sem þingmaður og síðan ráðherra. Sé staðreyndin hins vegar sú að hún hafi áttað sig á hvað gerðist varðandi Sparisjóð Keflavíkur þá var hún í kvöld að segja þjóðinni vísvitandi ósatt.

Hvorugt gengur fyrir ráðherra.


90 milljarða halli.

Ríkissjóður var rekinn með um 90 milljarða halla á árinu 2011, undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Hallinn er 5.5% af þjóðarframleiðslu segir í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins. Steingrímur J. telur þetta góðan árangur.

Væri Steingrímur J í Evrópusambandinu sem hann hefur sótt um aðild að, þá fengi fjármálastjórn hans falleinkunn. Hallinn  á ríkissjóði miðað við þjóðarframleiðslu er allt of mikill og langt umfram það sem bæði Angela Merkel og strákarnir í Brussel telja ásættanlegt.

Grátkór æðstu forustu Vinstri grænna sendi frá sér yfirlýsingu fyrir nokkru, þar sem harmað var hvað fjölmiðlar væru óvinsamlegir VG og störfum ríkisstjónarinnar. Í yfirlýsingunni kom fram að allt væri í himnalagi og Steingrímur J. flestramálaráðherra fyrrum fjármálaráðherra hefði lyft Grettistaki við að reisa við fjárhag ríkisins og koma öllu í rétt horf.

VG forustan þarf raunar ekki að kvarta undan fjölmiðladeild RÚV sérstaklega ekki þingfréttaritaranum sem virðist hafa gert Steingrím J að pólitískum leiðtoga lífs síns. Aðrir fjölmiðlar segja frá málum með hlutlægari hætti þannig að eðlilegt er að forusta VG kveinki sér undan því.

Eðlilegt væri að fjölmiðlar fjölluðu um lélega afkomu ríkissjóðs miðað við afkomu ríkissjóða nágrannalanda okkar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en tækju ekki upp orðhengilshátt Steingríms J. án athugasemda.

VG má raunar þakka fyrir að íslenskir fjölmiðlar með einni undantekningu skuli vera staurblindir á hneykslismálin sem Steingrímur J. ber ábyrgð á. Mætti t.d. minna á Sp/Kef eða Byr eða Sjóvá/Almennar eða VBS eða þegar Steingrímur J afhenti erlendum vogunarsjóðum Arion banka og Íslandsbanka svo dæmi séu tekin. 

Sá íslenskur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur sem þolir verst hreinskipta málefnalega umræðu er Steingrímur J. og Vinstri Grænir. Þeir taka jafnvel Samfylkingunni fram og er þá langt til jafnað.


Elsti banki í heimi fær aðstoð skattgreiðenda.

Banca Monte dei Paschi di Siena sem stofnaður var árið 1472 hefur fengið 3.9 milljarða Evru (630 milljarðar krónur)  fjárframlag og stuðning frá ítalska ríkinu. Hefði bankinn ekki fengið þessa fyrirgreiðslu frá skattgreiðendum hefði hann verið tekinn í skiptameðferð.

Bankinn var stofnaður 1472 af borgaryfirvöldum í Siena til að lána hinum fátæku. ´

Ítalska ríkisstjórnin segir að þetta sé gert til að Ítalía virði skuldbindingar sínar við Evrópusambandið um að styrkja bankastarfsemina.

Enn eitt dæmið um að svonefnd Evrukreppa er í raun bankakreppa og allt fárið og endalausir fundir leiðtoga Evrópusambandsins snúast í raun um með hvaða hætti og hvernig sem mestum byrðum af gjaldþrota bönkum og uppblásnum hlutabréfamörkuðum verði velt yfir á skattgreiðendum. Í raun hjálp fyrir hina ríku á kostnað samfélagsins. 

Ítalska þingið telur ekki  ástæðu til að skipa rannsóknarnefnd eða sérstakan saksóknara til að fjalla um þrot þessa banka. Þá verður sérstakur Landsdómur ekki kallaður saman.

Á Ítalíu virðast menn átta sig á að einkafyrirtæki geti farið í þrot án þess að stjórnmálamenn hafi með það að gera eða beri ábyrgð á því.  En því miður þá eru þeir eins og stjórnmálamenn í Evrópu og Ameríku helteknir af þeirri meinloku að það eigi að bjarga fjármunum hinna ríku á kostnað skattgreiðenda. 

Um það snýst fjármálakreppan í heiminum.


Ósýnilega höndin eða dauða höndin.

Stjórnmálamenn hafa sjaldnast búið til arðbær störf. Þeir geta hins vegar stuðlað að umhverfi hagvaxtar og velmegunar með  því að takmarka skattheimtu og afskipti ríkisvaldsins af þeim sem eiga sjálfir fyrirtækin sín og bera alla ábyrgð á þeim.

Ríkisstjórnin hefur farið þveröfuga leið. Skattlagning hefur verið óhófleg á lítil og meðalstór fyrirtæki.  

Það fer oftast framhjá stjórnlyndum stjórnmálamönnum að smá og meðalstór fyrirtæki eru forsenda framfara, hagvaxtar og velmegunar.  Þessi fyrirtæki verða útundan af því að litli kapítalistinn berst áfram og nýtur afrakstursins ef vel gengur en það hjálpar honum enginn ef illa fer. Smá- og meðalstóra fyrirtækið fær ekki milljarða lán og það fær ekki afskrifað háar fjárhæðir. Það nýtur heldur ekki sérstakra skattaívilnana sem stórfyrirtækin geta nýtt sér.  Eigendur litlu fyrirtækjanna vinna meira, taka minni laun og missa eignir sínar ef það gengur ekki vel.

Hvílíkt regindjúp er staðfest á milli þeirra sem vinna í umhverfi smáatvinnurekstursins og velferðarkerfis stórfyrirtækjanna og ríkisfyrirtækjanna þar sem stjórnendurnir taka venjulegast enga áhættu en geta átt völ á góðum eftirlaunum, starfslokasamningum auk ýmiss smáræðis eins og námsferðum, orlofsárum o.s.frv. Milljarðarnir eru afskrifaðir á stórfyrirtækin og síðan halda sömu stjórnendurnir sem ekkert eiga áfram að stjórna endurreistum fyrirtækjum og geta grafið upp milljarð eða fleiri ef á þarf að halda til að halda fyrirtækinu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur aukið vanda smá og meðalstórra fyrirtækja verulega. Þannig var virðisaukaskattur hækkaður. Fjármagnskostnaður er sá hæsti sem þekkist í heimi og ofurskattheimta og pappírsfár í kringum lítil fyrirtæki íþyngir rekstrinum.

Nú hefur ríkisstjórnin komið með áætlun um atvinnusköpun með áherslu á millifærslur í gegn um ríkisfjárhirsluna með því að skattleggja suma og millifæra þá peninga til annarra. Atvinnuáætlun ríkisstjórnarinnar sem Guðmundur Steingrímsson alþingismaður kallar "planið góða" byggist aðallega á því að ná peningum frá útgerðinni með auðlindaskatti, til að millifæra peningana í gæluverkefni sem eru þóknanleg kommissar Jóhönnu og kommisar Steíngrími. 

Þessi hugmyndafræði fer þvert á það sem stjórnmálamenn í Bandaríkjunum eru að átta sig á að gengur ekki lengur. Obama forseti sem og pólitískir andstæðingar hans standa nú fyrir aðgerðum sem hafa fengið nafnið "Jumpstart our business startups act." Það felst m.a. í því að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem eigendurnir eiga og bera áhættu af fyrirtækjunum sínum.

Á Evrópska efnahagssvæðinu eru meir en 23 milljónir einkafyrirtækja þau fyrirtæki þyrftu ekki að ráða nema einn starfsmann hvert til að eyða atvinnuleysinu í álfunni en þar eru tæplega 23 milljónir atvinnulausir. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi eru umtalsvert fleiri en þeir atvinnulausu. Með því að lækka skatta og gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum eðlilegt svigrúm á markaðnum og eðlilegt lánaumhverfi  þá væri hægt að eyða atvinnuleysinu, auka velmegun og hagvöxt í landinu umtalsvert.

Dauða hönd ríkisstjórnarinnar, ríkisafskipta, gæluverkefnanna, útblásins svonefnds velferðarkerfis og andlitslausu stórfyrirtækjanna sem starfa á ábyrgð skattgreiðenda dregur hins vegar máttinn úr hagkerfinu.

Það verður að gefa því duglega fólki sem er tilbúið til að vinna mikið og leggja mikið af mörkum og taka áhættu til að gera drauma sína að veruleika eðlilegt svigrúm. Það er forsenda sjálfbærni og framfara í þjóðfélaginu.


Staðreyndir málsins

Steingrími J. Sigfússyni flestramálaráðherra tekst ekki að bulla sig út úr ábyrgð á hruni Sp/Kef. Staðreyndir málsins eru einfaldar og sýna að það er óumflýjanlegt að Steingrímur J. Sigfússon axli ábyrgð og segi af sér sem ráðherra. Staðreyndir Sp/Kef málsins eru þessar:

1. Ársreikningur Sparisjóðs Keflavíkur fyrir árið 2008 var birtur 3.apríli 2009 þar var eigið fé jákvætt um 5.4 milljarða. Ársreikningurinn var gerður eftir að tekið hafði verið fullt tillit ábendinga um niðurfærslu eigna eftir útlánaskoðun FME hjá sparisjóðnum í mars 2009. 

2. Ársreikningurinn fyrir árið 2008 tók tillit til bankahrunsins í október 2008 og álit endurskoðenda var að reikningurinn gæfi "glögga mynd af afkomu Sparisjóðsins á árinu 2008, efnahags 31. desember 2008" í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla

3. Eiginfjárhlutfall var jákvætt um 7.06% en undir 8% lágmarkshlutfalli skv. 84 gr. laga um fjármálafyrirtæki þess vegna þurfti að taka sparisjóðinn í slitameðferð eða reka hann á undanþágu og ákveðið var af Steingrími J.

Þann tíma sem sparisjóðurinn var í gjörgæslu FME og fjármálaráðuneytisins var hagnaði snúið í tap og skattgreiðendur og stofnfjáreigendur töpuðu verulegum fjármunum. 

Skattur á venjulega skattfjölskyldu í landinu er um 400 þúsund vegna þessara mistaka Steingríms. 

Þar sem Steingrímur J. virðist rugla saman staðreyndum og hugarórum í þessu máli þá mun ég rekja betur síðar staðreyndir þessa máls meðan Sparisjóður Keflavíkur var rekinn á undanþágu og nýr sjóður stofnaður Steingrími J til upprifjunar á staðreyndum.

Með aðgerðum sínum í þessu máli, ruglaði Steingrímur fjármálamarkaðnum og dró peninga frá öðrum fjármálastofnunum til Sparisjóðs Keflavíkur allt á ábyrgð og kostnað skattgreiðenda.

Þetta er athyglivert og til umhugsunar að Steingrímur J. tók þá ákvörðun með vini sínum Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra að fella SPRON og Straum fjárfestingabanka á meðan Sparisjóðurinn í Keflavík fékk þessa sérstöku fyrirgreiðslu af hálfu Steingríms J.

Þessi kostnaðarsömu mistök Steingríms J.  verða að hluta til rakin  til  rangrar stefnu hans í málefnum sparisjóða en að öðru leyti til rangrar ákvarðanatöku og vanhæfni ráðherrans.


Ber Alþingi að ákæra Steingríms J. Sigfússon ráðherra?

Steingrímur J. Sigfússon ber umfram aðra ábyrgð á tugamilljarðatjóni skattgreiðenda vegna Sp/Kef. Hann hefur engar málsbætur og ætti að vera búinn að segja af sér.

Rifjum upp nokkrar staðreyndir:

Samkvæmt ársreikningi Sparisjóðs Keflavíkur fyrir árið 2008, sem undirritaður er 31. mars 2009, var eigið fé hans jákvætt um 5,4 milljarða króna.  Eiginfjárhlutfall var 7.06% og því rétt undir 8% lögbundnu lágmarkshlutfalli.  Þá hafði að sögn endurskoðanda verið tekið tillit til Hrunsins.

Í maí 2009 veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum heimild til að koma eiginfjárhlutfallinu yfir lögbundið lágmark, skv. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki.  Slíka heimild má veita til 6 mánaða og hana má framlengja  um aðra sex mánuði „séu til þess "ríkar ástæður“. 

Sparisjóður Keflavíkur fékk þannig að starfa í 12 mánuði með eiginfjárhlutfall undir lögbundnu lágmarki, sem gat eingöngu byggt á því mati að fjármálastofnuin væri lífvænleg og með velþóknun og fyrirgreiðslu þáverandi fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. 

Þann 22. apríl 2010 greip Fjármálaeftirlitið inn í starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og skipti honum upp í gamlan og nýjan.  Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum ákveðið var að stofna nýjan sparisjóð eða hvaða hagkvæmnismat lá að baki. 

Stofnun nýja SpKef var gerð af svo mikilli vanhæfni að nýi sjóðurinn komst í þrot tæpu ári síðar eða í mars 2011.  Þeirri spurningu er að hluta til ósvarað hvað miklir fjármunir töpuðust við stofnun nýja sjóðsins – hver var rekstrarkostnaður og rekstrartekjur hans frá apríl 2010 og mars 2011, já og  hvert var tapið? 

Ákveðið var að SpKef myndi sameinast Landsbankanum.  Gerð var áætlun sem fjármálaráðherra blessaði (Steingrímur J) þar sem talað var um að framlag ríkisins vegna Sp/Kef þyrfti að vera 11 milljarðar.

Í fréttum í gær sagði núverandi fjármálaráðherra að kostnaður ríkisins vegna Sp/Kef væri 20 milljarðar og það væri nálægt því sem við hefði verið búist allan tímann. Spurning er þá hvort Steingrímur J. sagði þingi og þjóð ósatt. Alla vega ganga fullyrðingar Steingríms um tjón ríkisins við yfirtöku Landsbankans og sá raunveruleiki sem fjármálaráðherra kynnti í gær ekki heim og saman.

Eftir stendur að sjóður sem átti  rúmlega 5 milljarða eigið fé í árslok 2008 þegar tekið hafði verið tillit til hrunsins er orðinn að engu.  Ríkið hefur margsinnis vanmetið stöðu sjóðsins og það eftir að sjóðurinn starfaði á undanþágu með leyfi Fjármálaeftirlits og velþóknun Steingríms J. Eignir sjóðsins hafa rýrnað verulega á meðan á þessum farsa hefur staðið.  Verðmæti þeirra hefði verið betur tryggt ef sjóðurinn hefði strax verið settur í slitameðferð. Kröfuhafar hafa tapið verulegum fjármunum á þessum handabakavinnubrögðum ríkisins auk ríkisins sjálfs.

Eftir stendur að sá sem ber pólitíska ábyrgð á þessu tjóni ríkisins upp á tugi milljarða er Steingrímur J. Sigfússon sem gerði þessi mál að sínum. Ef til vill gæti Gylfi Magnússon fyrrum viðskiptaráðherra  og mótmælandi einnig borið ábyrgð á þessu tugmilljarða tjóni skattgreiðenda.

Ástæða er til að Alþingi gangi þegar í stað úr skugga um hvort ekki er full ástæða til að vísa máli Steingríms J. Sigfússonar ráðherra og Gylfa Magnússonar ráðherra til meðferðar fyrir Landsdómi þar sem margt bendir til  að þeir hafi brotið af sér í starfi sínu sem ráðherrar og  valdið þjóðinni miklu raunverulegu tjóni í Sp/Kef málinu.

Ef til vill væri ráð að endurvekja nefnd Atla Gíslasonar alþingismanns í þessu skyni.


Nýtt verkefni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis?

Í fyrradag var sagt frá því að spænska ríkið mundi yfirtaka Bankia bankann í því skyni að endurreisa trú á fjármálastjórn landsins og bankakerfinu. Sá er munur á aðkomu stjórnvalda hér á sínum tíma vegna Glitnismálsins í september 2008 og þessa spænska máls að þar höfðu endurskoðendur bankans neitað að undirrita reikninga samfara ásökunum um útblásna eignastöðu-greinilega meðvitaðri um stöðu mála en endurskoðendur Glitnis banka á sínum tíma.

Gæfa Spánverjaa er að eiga engan Gylfa Magnússon mótmælanda og fyrrum ráðherra, sem í kjölfar yfirtöku ríkisins á Glitni mælti fyrir áhlaupi á íslenska bankakerfið með fullum árangri. Hagfræðideildir Spænskra háskóla er líka meðvitaðri um mikilvægi þess að svona aðgerð takist og gangverk viðskiptalífsins en hagfræðideildir íslensku háskólanna voru fyrir bankahrunið hér.

Það er einnig athyglivert að enginn kennir Davíð um þessa yfirtöku eða fjandskap stjórnvalda við banka eða skammast út í forsætisráðherra, spænskt stjórnkerfi eða ríkisstjórn.  Forusta stjórnarandstöðuflokksins lætur sér ekki til hugar koma að kalla ríkisstjórnarflokkinn hrunflokk eða kenna markaðshagkerfinu um slæma stöðu spænskra banka og nauðsyn þjóðnýtingar Bankia.

Fyrst spænskir stjórnmálamenn og háskólamenn eru svona illa meðvitaðir þegar vandamál steðja að varðandi banka landsins, þá virðist full þörf á að virkja hið snarasta rannsóknarnefnd Alþingis að nýju til að rannsaka vanda spænsks stjórnkerfis og stjórnmála sem og skoða hvort ekki sé nauðsynlegt að landinu verði sett ný stjórnarskrá.

Ekki fer sögum af því að forsætisráðherrann spænski hafi boðað ríkisstjórnina til tíðra funda áður en gripið var til þjóðnýtingar Bankia en í einni frétt er sagt að ákvörðunin hafi meira að segja komið réðherrum á óvart. Sennilega er því einnig verkefni fyrir Landsdóm Markúsar Sigurbjörnssonar  að skoða hugsanlegt afbrot spænska forsætisráðherrans í aðdraganda bankakrísunar þar í landi.


Skuldavandinn hvað er það?

Vinstri Grænir og Samfylking lofuðu kjósendum fyrir síðustu kosningar að leysa skuldavanda heimilanna. Það hét hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Loforðin reyndust vel til atkvæðaveiða.

Þrem árum síðar hefur ríkisstjórnin ekkert gert sem máli skiptir en Jóhanna segir mesta skuldaniðurfellingin hafi verið hér og ruglar þá með lækkun gengisbundinna lána vegna dómsniðurstöðu.

Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðarpakka eftir aðgerðarpakka fyrir þá sem geta ekki borgað. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því ekki gegnt  öðrum tilgangi en auka flækjustig í fullnustukerfinu og halda óinnheimtanlegum skuldum við.

Nú er málið komið á það stig að velferðarráðherra viðurkennir að hann viti ekki sitt rjúkandi ráð. Í viðtali sagði velferðarráðherrarnn að ríkisstjórnin hefði ekki tekið endanlega ákvörðun það væri verið að greina vandann betur og skoða hvað er hægt að gera.

Má minna á að það eru rúm 3 ár síðan ríkisstjórnin tók við. Hvað skyldi taka ríkisstjórnina mörg ár að greina vandann? Hvað skyldi það síðan taka ríkisstjórnina mörg ár að átta sig á hvað hún vill gera? Hvað skyldi það síðan taka ríkisstjórnina mörg ár að hrinda  því í framkvæmd?

Sem betur fer eru kosningar eftir eitt ár og þá gefst tækifæri til að losna við þetta fólk sem getur þá reynt að greina vandann í stjórnarandstöðu.


Sérleiðirnar duga ekki.

Verðbólga mælist nú tæp 7%, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er að verðbólga sé ekki yfir 2.5%. Seðlabankinn telur sig geta ráðið við vandamálin með því að beyta stýrivöxtum. Þess vegna eru stýrivextir Seðlabanka Íslands 4.75%. Þeir hæstu í okkar heimshluta.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir Seðlabankans og séríslenskar sérleiðir í efnahags- og lánamálum þá er verðbólga hér sú hæsta í Evrópu.  Ákveðinn hluti fjármagnseigenda græða á því að verðbólgan sé sem mest vegna verðtryggingar lána. Mistökin í efnahagsstjórninni sem lýsa sér m.a. í  7% verðbólgu í efnahagslegri kyrrstöðu veldur því að lánþegar og launþegar eru arðrændir í hverjum mánuði.

Í Noregi eru stýrivextir seðlabankans 1.5% og verðbólga er 1%. Þar eru laun mun hærri en hér á landi og skattar lægri. 

Verstu lífskjör vinnandi fólks á Norðurlöndunum eru á Íslandi. Okkur liggur á að hætta sérleiðunum í efnahags- og lánamálum og afnema verðtrygginguna og koma á ábyrgri efnahagsstjórn á forsendum og með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 711
  • Sl. sólarhring: 814
  • Sl. viku: 5360
  • Frá upphafi: 2587824

Annað

  • Innlit í dag: 656
  • Innlit sl. viku: 4993
  • Gestir í dag: 609
  • IP-tölur í dag: 578

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband