Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Á gröf hins látna blikar bensíntunna

Eitt af höfuðskáldum 20.aldar Steinn Steinar orti á sínum tíma um andlát Kommúnistaflokks Íslands, þegar Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn var stofnaður. Kvæðið hét Kommúnistaflokkur Íslands, in memoriam. Í lokahendingum kvæðisins segir:

"En orðstír hans mun lifa um ár og aldir

 þó allt hans starf sé löngu fyrir bí. 

 Á gröf hins látna blikar bensíntunna

 Frá British Petroleum Company"

Skáldinu fannst sínir gömlu félagar vera komnir í bland við hin kapítalísku tröll með því að samsama sig með Sósíalistaflokknum. 

Í gær fór Katrín Jakobsdóttir formaður VG í æðsta musteri kapítalískra pappírsbaróna, Kauphöllina til að hringja bjöllu til að opna fyrir það veðmang og lotterí kauphallarfursta, sem framleiðendakapítalistar hafa á stundum haft illar bifur á sbr. þá Thomas Alva Edison og Henry Ford, sem vildu með störfum sínum og uppfinningum leggja grunn að bættum lífskjörum hins vinnandi manns. En þeir gátu aldrei séð að kauphallarbrask gæti orðið til þess.

Varla er hægt að komast lengra frá sósíalískri hugsun en samsama sig með hugmyndafræði pappírsbarónanna eins og Katrín gerði í gær. Raunar verður að segja það pappírs- og lotterískapítalistunum á Nasdaq, það til hróss, að þeim tókst að selja alþjóðakvennahreyfingu og sumum stjórnmálamönnum þ.á.m. Katrínu, að bjölluhringing framákvenna til að opna fyrir viðskipti í hámusteri pappírskapítalismans einn dag á ári,  hefði eitthvað með kynjajafnrétti að gera.  

Upphaf kvæðis Steins Steinars gætu því sanntrúaðir sósíalistar nú kyrjað um útför sósíalískrar hugmyndafræði Vinstri grænna, sem er þó í sjálfu sér Guðsþakkarvert þar sem þeir hafa nú fundið hið Kapítalíska leiðarljós.

"Sic transit gloria mundi(Þannig fer um dýrð heimsins) mætti segja"

sagði Steinn Steinar í kvæði sínu um hugmyndafræðilegt andlát Kommúnistaflokks Íslands. Spurning er hvort það sama á ekki við um VG í dag.

 

 


Blessun ríkishyggjunnar

Mörgum brá í brún þegar þeir hlýddu á tilvitnanir og innskot frá fjármálaráðherra, seðlabankastjóra og hagfræðilegum sérfræðingi Háskólans í Reykjavík í ráðgjöf til stjórnvalda allt frá því fyrir bankakreppuna 2008. Þeir voru allir þeirrar skoðunar, að aukin ríkisafskipti, skuldasöfnun hins opinbera og eftir því sem ég gat best skilið peningaprentun og gengisfellingu væri það, sem helst gæti orðið til bjargar í þeim efnahagsþrengingum sem framundan væri vegna sóttvarnaraðgerða ríkisvaldsins.

Eftir því sem best verður greint hefur fjármunum verið sturtað úr ríkissjóði á þessu ári, sumt til skynsamlegra ráðstafana, en annað er óafsakanlegt bruðl og eyðslusemi á peningum skattgreiðenda. Meiningin mun vera að skrúfa enn hraustlegar frá eyðslukrana ríkisvaldsins og eyða peningum, sem ekki eru til.

Stjórnarandstaðan hefur ekkert annað til málanna að leggja, en að heimta að ríkið eyði ennþá meira af peningum, sem ekki eru til. En sameignilega virðist stjórn og stjórnarandstaða vera sammála um að þetta reddist allt þegar hagkerfið dafnar á nýjan leik og vex með þeim störfum sem ríkið ætlar að búa til þ.á.m. í hinu svonnefnda "græna hagkerfi" sem aldrei hefur verið rekið öðruvísi en með gríðarlegu tapi. 

Óneitanlega var sú hugsun áleitin, að nú væri komið nýtt afbrigði af fjármálaviti sem einkenndi ráðstafanir í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008.

Ekki sakar að spurt sé í þessum tryllta dansi stjórnmálaelítunnar og meginhluta fréttaelítunnar í kringum tálsýn gullkálfs ríkishyggjunar, hvenær ríkisvaldið hafi nokkru sinni, nokkurs staðar verið þess megnugt að skapa fjölda arðvænlegra starfa til frambúðar.

Þá ekki síður, hvort reynsla þeirra þjóða, sem hafa á síðustu áratugum vikið ríkishyggunni til hliðar og leyst hundruð milljóna manna úr fátækt og frá hungurvofunni með því að virkja einstaklingsframtakið sé ekki fordæmi sem ástæða sé til að taka mark á.

Þvert á þá stefnu sem nú er boðuð væri skynsamlegra að skera alla óþarfa fitu utan af ríkisbákninu og rúmlega það. Með því að lækka skatta á fólk og fyrirtæki væri líka lagður grundvöllur að því, að einstaklingarnir hefðu möguleika á að virkja sköpunarkraft sinn og dugnað og breyta því í arðvænlegan rekstur sjálfum sér og öðrum til góðs.

Aukin ríkishyggja og ríkisafskipti munu eingöngu leiða til þess að fyrirsjáanleg kreppa verður langvinnari, dýpri og alvarlegri en hún yrði væri einkaframtakið virkjað til góðra hluta. Síðan verður að horfast í augu við það, að seðlaprentun og áframhaldandi ábyrgðarleysi í launamálum ekki síst stjórnmálastéttarinnar og embættismannaaðalsins, sem hefur leitt til þess að launakjör eru gjörsamlega úr takti við þann raunveruleika sem við búum við í dag er eingöngu ávísun á gengisfellingar í smærri eða stærri skrefum og óðaverðbólgu í kjölfarið, sem er óhjákvæmileg ef ríkishyggjan fær að tröllríða öllu í landinu.

Þetta eru því miður einföld efnahagsleg sannindi sem gilda alltaf, en hefur iðulega verið vikið til hliðar alltaf með skelfilegum afleiðinum síðast í aðdraganda bankahrunsins árið 2008.

Er ástæða til að endurtaka það með mun verri og skelfilegri afleiðingum?

 


Fæðuöryggi og fjármálastjórn.

Talsmenn hamfarastyrkja til vissra greina landbúnaðarins hamast nú sem sjaldan fyrr og halda því fram, að dæmalaus viðbrögð stjórnvalda vítt og breitt um veröldina við Covid veirunnar sýni ótvírætt, að gæta verði betur að fæðuöryggi þjóðarinnar með auknum styrkjum til ákveðinnar landbúnaðarframleiðslu. 

Þessi hamagangur einangrunarsinnanna er byggður á fölskum forsendum. Þrátt fyrir að þjóðir í okkar heimshluta hafi dæmt sig í mismunandi stranga einangrun og útgöngubann, þá hefur fæðuframleiðslan ekki raskast og flutningar á matvælum og öðrum vörum ekki heldur. Matvælaöryggið var því aldrei í hættu þrátt fyrir óttablandin viðbrögð við veirunni 

Hvað afsakar þá aðgerðir stjórnvalda til að færa meiri peninga frá skattgreiðendum til ákveðinna framleiðenda í landbúnaði og ýmsum öðrum greinum vegna Covid veirunnar, eins og landbúnaðarráðherra hreykir af?

Ekki neitt. 

Hvaða þýðingu hefur það síðan, að landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnin taki peninga skattgreiðenda til að greiða aukna styrki til grænmetisframleiðenda og/eða annarra framleiðenda í landbúnaði?

Mun verð á grænmeti til neytenda lækka? Var það forsenda aukinna styrkja? Ónei.

Reynsla neytenda af auknum styrkjum og beingreiðslum til framleiðenda er sú, að þeir skila sér ekki eða þá mjög óverulega til neytenda með lægra verði.

Af hverju má ekki styðja við atvinnurekstur með almennum aðgerðum eins og t.d. skattalækkunum t.d. afnámi tryggingargjalds?

Nú skiptir máli að gæta vel að því að opinberu fé sé ekki sólundað í gæluverkefni, heldur brugðist við raunverulegan vanda vegna Covid. Of margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru því miður því marki brenndar að færa fjármuni frá skattgreiðendum til þóknanlegra aðila í atvinnurekstri.

Sýnu verra er að stjórnarandstaðan hefur ekki annað til málanna að leggja en að krefjast enn meiri útgjalda úr ríkissjóði. Pólitísk yfirboð formanns Samfylkingarinnar og helsta meðreiðarsveins hans eru með því aumkunarverðara sem heyrst hefur á Alþingi. 

Skattgreiðendur eigi enn sem fyrr fáa vini á Alþingi. Ætla má, að þröngt verði í búi margra þegar þjóðin þarf að taka út timburmenn óráðssíunnar. 

 

 


Hinn sanni þjóðarauður

Í kjölfar efnahagslegra þrenginga og erfiðleika einkafyrirtækja vegna aðgerða stjórnvalda gegn C-19 hafa gamlir kommar skriðið á ný út úr holum sínum og láta víða til sín taka á samfélagsmiðulum. Inn holurnar, skriðu þeir þegar Kommúnisminn varð gjaldþrota 1989 og gat ekki brauðfætt þær þjóðir sem honum tilheyrðu. Nú telja þeir vera lag þar sem komið sá að endalokum markaðshagkerfisins. 

Í hita augnabliksins hafa sumir gamlir eðalkratar ringlast í höfðinu eins og  Jón Baldvin, sem færði Alþýðuflokkinn svo langt til markaðshyggju, að hann klofnaði. Nú telur hann helst til varnar vorum sóma að dansa á ný á Rauðu ljósi. 

Forustumenn Samfylkingarinnar Logi formaður og Ágúst Ólafur prédika að sannur þjóðarauður séu opinberir starfsmenn og leggja til að ríkið færi út kvíarnar í þessum hremmingum og fjölgi hálaunastörfum hins opinbera sem aldrei fyrr. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, fylkir liði sínu til verkfalla enda feitan gölt að flá hjá ríki og sveitarfélögum, þegar tekjur geta dregist saman allt að helmingi. 

Í hugum þessa fólks virðist það ekki neinum vafa undirorpið að endalok markaðshagkerfisins, kapítalismans sé runnin upp og best sé að láta þá sem eru að bögglast við að reka fyrirtæki á eigin kostnað einungis njóta þeirra mola sem hrjóta af borðum hálaunaaðals í þjónustu ríkisins. 

Framleiðsluverðmæti er eitthvað sem þetta vinstra fólk telur ekki skipta máli enda skilur það sjaldnast hvað í því felst.

Sennilega hefur aðeins einu sinni áður verið boðuð jafn purkunarlaus ríkishyggja. Það var hjá Rauðu Khmerunum í Kambodíu forðum daga.  

 

 

 

 

 


Leggjum niður glórulausa skattheimtu

Hræðslan við C-19 veiruna og viðbrögð stjórnvalda hafa girt fyrir tekjumöguleika fjölmargra einstaklinga í sjálfstæðri atvinnustarsemi og rýrt verulega möguleika annarra til að afla sér tekna. Við því þarf að bregðast með því að afnema skattlagningu sem nú er með öllu óréttmæt og viðmiðanir sem standast ekki lengur.

Tryggingargjald á atvinnurekstur hvort heldur stórrekstur eða einstaklingsrekstur hefur alltaf verið ósanngjarnt. Það er fráleitt að skattleggja einstaklinga sérstaklega fyrir að vinna hjá sjálfum sér hvað þá fyrir að ráða fólk til starfa.

Nú þegar tekjumöguleikar í mörgum greinum eru engir og tekjur nánast allra einstaklinga og lítilla fyrirtækja í atvinnurekstri rýrast verulega er tvennt til vilji stjórnmálamenn gera fólki kleyft að vinna sig út úr kreppunni. Annars vegar að létta af sköttum eða skattleggja fólk og dreifa síðan skattfénu út frá ríkinu að geðþótta stjórnmálamanna.

Aðgerðarpakkar ríkisstjórnarinnar hafa því miður verið með þeim hætti, að deila peningum úr ríkissjóði í stað þess að skera burt óréttmæta skattheimtu.

Það er lífsnauðsyn fyrir vöxt og viðgang eðlilegs atvinnulífs í landinu nú og þegar þessu fári lýkur, að létta af þeim sköttum sem eru óréttmætir og sérlega íþyngjandi miðað við aðstæður. Þar kemur þá helst til að skoða að leggja niður tryggingargjaldið, sem er áreiknaður skattur upp á 6.3% af ætluðum tekjum atvinnurekandans. Þá þarf að afnema viðmiðunarfjárhæðir Ríkisskattstjóra til útreiknings staðgreiðslugjalda. 

Viðmiðunarfjárhæðir Ríkisskattstjóra fyrir atvinnurekendur segja, ef þú stundar þessa atvinnugrein átt þú að hafa þessar tekjur og greiða skatt af þeim hvort sem þú hefur þær eða ekki. Fyrir liggur að þessar viðmiðanir eru allar hrundar til grunna og þá er eðlilegt að gefa borgurnum heimild til að greiða staðfgreiðslugjald á grundvelli rauntekna eins og þær eru nú í stað ímyndaðra tekna sem Ríkisskattstjóri telur að fólk í sjálfstæðum atvinnurekstri eigi að hafa skv. reikniformúlu sem heldur engu vatni núna. 

Þessar ráðstafanir verður að gera þegar í stað og þær eru affarasælli en sú stefna ríkisvaldsins skv. þeim aðgerðarpökkum sem hefur verið spilað út, að halda skattheimtunni áfram og greiða síðan til ákveðinna aðila eftir geðþótta. 

Afnám tryggingargjaldsins og viðmiðunartekna Ríkisskattstjóra eru nauðsynleg fyrsta aðgerð til að koma á móts við einkafyrirtæki í ástandi eins og nú ríkir. Slík aðgerð er til þess fallin, að lítil og meðalstór fyirtæki geti lifað af og hún gerir ekki upp á milli einstaklinga ólíkt því sem allir gjafapakkar ríkisstjórnarinnar til þessa munu gera. 


Viðskiptabann Íslandsbanka. Frjáls markaður og fasismi.

Í gær tilkynnti Íslandsbanki að hann hefði sett bann á viðskipti við þá, sem bankinn skilgreinir sem "karllæga" fjölmila. Bankinn ætlar að hætta viðskiptum við fjölmiðla sem ekki standast skoðanir bankans varðandi kynjahlutföll þáttstjórnenda og viðmælenda. Bankinn ætlar þannig ekki að eiga viðskipti við fjölmiðla á grundvelli gæða þeirra og hagkvæmni fyrir bankann að eiga viðskiptin. Markaðslögmálum skal vikið  til hliðar en í stað ætlar Íslandsbanki að eiga viðskipti  við fjölmiðla á grundvelli skoðana þeirra og stjórnunar. 

Þegar eitt stærsta fyrirtækið á íslenskum frjámálamarkaði tilkynnir, að það ætli ekki að láta markaðssjónarmið ráða varðandi viðskipti sín á markaðnum heldur ákveðin pólitísk viðhorf þá er það alvarlegt mál óháð því hver þau pólitísku viðhorf eru. 

Í þessu sambandi er athyglisvert að Íslandsbanki setur bara bann á svonefnda "karllæga" fjölmiðla, en ekki önnur "karllæg" fyrirtæki á íslenskum markaði. Þetta bendir til þess, að markmið Íslandsbanka sé að hlutast til um skoðanamótun og viðhorf fjölmiðlafyrirtækja. Næsti bær við ritskoðun og þann fasisma, að þvinga aðila á markaði til að samsama sig sömu skoðun og ofbeldisaðilinn í þessu tilviki Íslandsbanki.

Með sama hætti getur Íslandsbanki sett sér frekari markmið t.d. í loftslagsmálum og sett bann á viðskipti við þá sem efast um hnattræna hlýnun af mannavöldum eða eru ósammála lögum um kynrænt sjálfræði eða hvað annað, sem stjórnendur bankans telja óeðlilegt. Aðgerðir Íslandsbanka mótast þá ekki af grundvallarsjónarmiðum  markaðsþjóðfélagsins en líkir eftir því sem gerðist í Þýskalandi nasismans upp úr 1930. Fasisminn byrjar alltaf á að taka fyrir mál sem flestir eru sammála um og fikrar sig síðan áfram. 

Íslandsbanki er fyrirtæki á markaði, sem á að hafa þau markmið að veita viðskiptavinum sínum góða og hagkvæma þjónustu á sem lægstu verði á sama tíma og bankinn reynir að hámarka arðsemi sína með hagkvæmni í rekstri. Það eru markaðsleg markmið fyrirtækisins. Hlutverk Íslandsbanka er ekki að blanda sér í pólitík eða aðra löggæslu en bankanum er áskilið að gegna skv. lögum. Eðlilegt er að löggjafarvaldið og dómsvaldið sinni sínum hlutverkum og bankarnir sínum en þvælist ekki inn á svið hvers annars. Íslandsbanki hefur betri fagþekkingu á lánamálum, en Hæstiréttur Íslands, en Íslandsbanki hefur ekki hæfi til að gerast Hæstiréttur í þeim málum sem þeim dettur í hug.

Það færi vel á því að stjórendur Íslandsbanka færu að eins og blaðasalinn, sem seldi blöð sín fyrir utan stórbanka í Bandaríkjunum gerði þegar viðskiptavinur bankans kom út úr leigubíl og skorti reiðufé til að borga og bað blaðasalann um lítið lán sem yrði greitt aftur innan klukkustundar til að greiða leigubílnum. Þá sagði blaðasalinn. Við höfum sérstakt samkomulag okkar á milli ég og bankinn. Ég sel blöð sem ég kann og þeir lána peninga sem þeir kunna, en við ruglumst ekki inn í viðkstipti hvors annars. Íslandsbanki ætti að huga að því að sinna því sem þeir kunna en láta aðra um pólitík og skoðanamótun í þjóðfélaginu.  


Guð hvað þetta kemur á óvart

Þegar íslensk stjórnsýsla stendur sig ekki og fær falleinkun í hvaða máli sem er, þá er viðkvæðið jafnan, að þetta komi á óvart og slæma umsögnin eða einkuninn eigi ekki rétt á sér. Erlendu aðilarnir hafi ekki skilið að þetta vonda eigi alls ekki við okkur.

Alltaf er látið eins og hlutirnir detti hreinlega ofan í höfuðið á ráðamönnum og embættismönnum eins og þruma úr heiðskíru lofti. 

Síðasta tilbrigðið við þetta stef eru viðbrögð dómsmálaráðherra og annarra ráðamanna íslenskra vegna þess að við erum í fjármálalegri lausung og peningaþvætti í hópi með löndum eins og Zimbabwe og örfáum öðrum sem uppfylla ekki skilyrði um skilvikt eftirlit með peningaþvætti, eiturlyfjasölu og hryðjuverkum.

Skv. skýrslu FATF alþjóðlega starfshópsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka kemur í ljós, að athugasemdir við aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda í þessum efnum eru ekki nýjar af nálinni. Athugasemdirnar hafa legið fyrir frá árinu 2017 og jafnvel fyrr. Íslenskum stjórnvöldum var í febrúar 2018 gefinn kostur á að bæta úr stöðunni, sem hefur tekist að nokkru leyti, en þó skortir verulega á, þannig að Ísland er í hópi örfárra landa sem fær falleinkun FATF varðandi ónógt eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Þar sem Ísland var ekki sett á þennan ljóta lista fyrr en eftir að hafa átt möguleika á að bæta úr stöðunni en gerði ekki með fullnægjandi hætti, þá þýðir ekki fyrir stjórnvöld og ráðherra dómsmála að láta sem þetta sé bara eins og þetta sé allt í plati og komi fólki jafnmikið á óvart og þegar eplið datt á hausinn á Isaac Newton forðum. 

Eðlilegt er að almenningur leiti skýringa af þegar skýringar koma ekki frá stjórnvöldum. Ein skýring sem sett hefur verið fram er að hluti af vandanum stafi frá svonefndri gjaldeyrisleið Seðlabanka Íslands, sem þáverandi Seðlabankastjóri setti í gang með velvilja ríkisstjórna, en hún gekk út á það að fólk gat selt erlendan gjaldeyri og fengið 20% álag á gjaldeyrinn. Góður kostur það allt í einu varð milljónin að tólfhundruð þúsund og hagnaðurinn eftir því meiri sem meira var selt af erlendum gjaldeyri.

Ekki liggur fyrir hvort þeir sem vildu selja gjaldeyri skv. þessari leið þurftu að gefa viðhlítandi upplýsingar um uppruna erlenda gjaldeyrisins. Miðað við lýsingu eins stjórnanda Seðlabankans, sem nýtti sér þessa leið, en sú sat áður í Rannsóknarnefnd Alþingis, þá vissi hún aðpurð upphaflega ekki hvað hún hefði selt mikinn gjaldeyri eða hver uppruni hans var. 

Hverjir voru það sem nýttu sér þessa gróðavænlegu fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Ekki voru það þeir, sem hafa stritað alla sína ævi hér á landi og fengið greitt í íslenskum krónum.

En hverjir voru það? Það fæst ekki uppgefið. 

Getur verið að eigendur leynireikninga á Tortóla og í öðrum skattaskjólum hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost. Getur verið að starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost. Getur verið að Seðlabankinn hafi verið svo gírugur í að ná erlendum gjaldeyri inn í landið að ekki hafi í raun þurft að gefa neinar haldbærar skýringar á uppruna fjármunana.

Þess hefur verið krafist m.a. af þeim sem þetta ritar, að gefið verði upp hverjir nýttu sér þessa fjárfestingaleið og auðguðust með aðgerðum sem íslensku almúgafólki stóð ekki til boða. Nú hlítur krafan líka að vera að Seðlabankinn gefi ekki bara upp nöfn þeirra aðila sem nýttu sér þessa fjárfestingaleið, heldur líka hvaða skýringar ef þá nokkrar hafi verið gefnar á uppruna fjármagnsins.

Nauðsynlegt er að þessar upplýsingar verði gefnar. Ekki sérstaklega vegna þess að við skulum vera komin á svarta listann sem íslensk stjórnvöld segja gráan. Miklu frekar vegna þess, að þetta eru upplýsingar sem eiga erindi til almennings og skipta máli í lýðræðislegri umræðu. 


Vísitölur og neytendur

Sumir hlutir eiga sér lengri lífdaga en nokkur skynsemi er til. Þannig mun enn vera embættismaður í Bretlandi sem hefur það hlutverek að skyggnast um eftir því hvort landinu stafi hætta af Flotanum ósigrandi, en sá floti leið undir lok á 17.öld.

Sama er að segja um vísitölubindingu lána á Íslandi. Ekki verður séð að það sé lengur brýnni þörf hér á landi að vísitölubinda lán, en í öðrum Evrópulöndum, en vísitölubinding neytendalána eru ekki fyrir hendi í Evrópu nema hér. 

Þrátt fyrir loforð stjórnmálamanna um að koma vísitölubundnum neytendlánum fyrir kattarnef þá hefur það ekki gerst. Þá hefur sumum dottið í hug að það væri þá rétt að breyta grundvelli vísitölunnar og taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Allar slíkar breytingar eru hæpnar nema fyrir því liggi ótvíræð rök, að þetta eigi ekki lengur heima í neysluvísitölunni. 

Húsnæði er stór liður neysluvísitölu og því fráleitt að taka þann lið sérstaklega út úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar lána. Núna kemur í ljós,að það hefði verið slæmt að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni vegna þess að litlar hækkanir á húsnæði síðustu misserin draga úr hækkun lána vegna hækkana á aðfluttum vörum vegna veikingar á gengi krónunnar. 

Það hefði því verið í meira lagi gegn hagsmunum neytenda, að breyta grundvelli vísitölutryggingarinnar að þessu leyti. 

En aðalatriðið er samt, að það er nauðsynlegt að við bjóðum íslenskum borgurum upp á sömu lánakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það er óafsakanlegt að ár eftir ár og áratugi eftir áratugi skuli íslenskir neytendur þurfa að búa við lána- og vaxtaokur sem hvergi er til í okkar heimshluta nema hér. 

Meðan stjórnmálamenn líta ekki á það sem forgangsatriði að sinna hagsmunum íslenskra neytenda þá verður vaxtaokrið áfram og í framhaldi af því ofurlaun æðstu stjórnenda bankana. Ofurlaun sem engin þjóðhagsleg innistæða er fyrir.

 

 

 


Geðþóttaákvarðanir seðlabankastjóra víkja ekki til hliðar almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

Mál Sigríðar Benediktsdóttur bankaráðsmanns í Landsbankanum, sem sat í Rannsóknarnefnd Alþingis vindur upp á sig og nú er komið fram til viðbótar við það sem lá fyrir í gær þegar ég ritaði pistilinn "Vegin og léttvæg fundin"

að  Sigríður Benediktsdóttir greindi Morgunblaðinu ranglega frá þeirri fjárhæð gjaldeyris sem hún nýtti til að kaupa íslenskar krónur á verulegum afslætti. Nú segir Sigríður að fjárhæðin hafi verið rúmlega þrisvar sinnum hærri en hún greindi upphaflega frá. Hagnaður Sigríðar skv. eigin sögn voru um tvær milljónir króna.

Af hálfu Sigríðar er nú veifað til réttlætingar ólögmætri sölu hennar á gjaldeyri á yfirverði til Seðlabankans, ákvörðun Seðlabankastjóra nr. 1220  sem sögð er vera frá 9.2.2012, en þar segir að Sigríður sé undanþegin ákvæðum reglna nr. 831/2002 sbr. reglur nr. 118/2012 sem fjalla m.a. um gjaldeyrisviðskipti starfsmanna Seðlabankans. 

Vandinn við þessa yfirlýsingu Seðlabankastjóra er sá, að þessa ákvörðun gat Seðlabankastjóri ekki tekið og undanþegið starfsmanninn Sigríði Benediktsdóttur frá relgum skv. almennum stjórnvaldsfyrirmælum með eigin ákvörðun. Þetta átti og mátti Sigríði Benediktsdóttur og Má Guðmundssyni vera ljóst, þegar þessi ólögmætu gjaldeyrisviðskipti Sigríðar Benediktsdóttur áttu sér stað og leiddu til ólögmæts hagnaðar hennar um kr. 2.000.000.- Engin gat verið í vafa um að engin undanþáguheimild var frá ákvæðum 118/2012 hvað þetta varðar.

Óneitanlega hlýtur fólk að velta fyrir sér hæfi Sigríðar Bendiktsdóttur sem bankaráðsmanns í Landsbankanum þegar fyrir liggur að hún sýnir ítrekað dómgreindarleysi og gefur fjölmiðlum rangar upplýsingar um mál sem hana varða persónulega. 


Hæfi hæfisnefndarinnar

Benedikt Jóhannsson fyrrverandi formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra dró umsókn sína um stöðu Seðlabankastjóra til baka og vísaði til þess að hæfisnefnd sem forsætisráðherra skipaði hefði ekki þá burði, sem nauðsynlegt væri. Full ástæða er til að taka undir með Benedikt og fleira kemur til.  

Hlutverk Seðlabanka Íslands er m.a. að hafa eftirlit af ýmsu tagi með starfsemi fjármálafyrirtækja þ.á.m. Landsbankans, svo sem reglum um lausafé, bindisskyldu og gjaldeyrisjöfnuð. Þá stendur til að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, þannig að nánast allt eftirlit með bankastarfsemi viðskiptabanka verður á höndum Seðlabankastjóra.

Formaður hæfisnefndarinnar var skipuð Sigríður Benediktsdóttir sem er bankaráðsmaður í Landsbanka Íslands. Öllum ætti að vera það ljóst, að það er í hæsta máta óeðlilegt að bankaráðsmaður viðskiptabanka taki þátt í vali á þeim sem á að hafa eftirlit með starfsemi bankans.  

Draga verður í efa að hæfisnefndin hafi það hæfi sem hún hefði þurft að hafa til að það væri hafið yfir allan vafa, að hún væri óvilhöll. Það er ekki gott þegar bankaráðsmaðurinn tekur þátt í að velja þann, sem á að hafa eftirlit með henni sjálfri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 419
  • Sl. sólarhring: 729
  • Sl. viku: 2437
  • Frá upphafi: 2505865

Annað

  • Innlit í dag: 388
  • Innlit sl. viku: 2283
  • Gestir í dag: 368
  • IP-tölur í dag: 355

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband